Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 22:57:36 (0)


139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[22:57]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja inn a.m.k. tvo punkta.

Í fyrsta lagi: Hvergi í Evrópu greiðir ferðaþjónusta, þ.e. bílaleigurnar, vörugjald af þeim bílum sem notaðir eru, hvort sem það er í Danmörku, Bretlandi, Noregi eða Svíþjóð. Ef íslensk ferðaþjónusta á að vera samkeppnishæf við ferðaþjónustu í samkeppnislöndum sínum hvað snertir bílaleigu og þá mikilsverðu þjónustu í tengslum við bílaleigurnar, hvað snertir þá ferðamenn sem koma hingað til lands, þarf að koma til móts við þau sjónarmið innan ferðaþjónustunnar. Fram hjá því verður ekki litið ef við viljum byggja upp ferðaþjónustu á Íslandi, t.d. hvað snertir þann mikilvæga þátt ferðaþjónustunnar sem snýr að landsbyggðinni, því að sagt hefur verið að bílaleigurnar séu lífæð ferðaþjónustunnar úti á landi. Þetta var fyrri punkturinn.

Í öðru lagi verður ríkisvaldið, stjórnvöld, að fara að bregðast við þeirri þróun að aðrir orkugjafar bjóðast en jarðefnaeldsneyti. Við þurfum m.a. að miða grunnskattlagningu við þá breytingu. Hér tökum við á málefnum metanbifreiða, í öðru frumvarpi tökum við á málefnum rafmagns- og vetnisbíla og annarra bíla sem nota aðra orkugjafa en jarðefnaeldsneyti. Ríkisvaldið þarf að fara að breyta strúktúrnum til þess að styðja við þá breytingu sem á sér stað og til að hvetja til þess að auðveldara verði fyrir Íslendinga að kaupa bíla sem nýta aðra orkugjafa.

Það er grundvallarþáttur í frumvarpinu og því ber að fagna. Við megum ekki gleyma því að hér er verið að bregðast við þeirri þróun sem við sjáum öll fyrir okkur að verði og tengist t.d. þeirri umræðu sem átti sér stað í þessum þingsal í gær, sem og veggjöldum og vegtollum. Við hljótum að horfa á að ríkið þarf að fá fjármuni til að standa undir uppbyggingu á vegakerfinu. Það þarf að gera það með einhverjum öðrum hætti og þá um leið að bregðast við því að jarðefnaeldsneyti er ekki besti valkosturinn og verður það ekki á næstu árum.