Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 23:13:24 (0)


139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[23:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er orðið dálítið undarlegt að það er farið er að spyrja mig margra spurninga. En það er alveg hárrétt, það væri rökrétt að hafa keppnishjólin, keppnisbifhjólin í sama flokki og keppnisbifreiðarnar. En það eru akkúrat engin rök fyrir því að hafa þau skattfrjáls yfirleitt, því að mér sýnist að þessar bifreiðar mengi ekkert síður. Ég hef fylgst með þeim aðförum sem eru á þessum keppnisvöllum og það er nú ekki aldeilis verið að spara bensínið, það brennur þarna jafnt sem annars staðar og myndar koldíoxíðmengun. Þannig að hafi maður yfirleitt einhverja trú á því að jörðin sé að hitna undan koldíoxíðsmengun ættu menn aldeilis að banna þetta eða reyna að hamla því.

Reyndar er það þannig að allur listinn þarna með undanþágurnar er eiginlega fótspor lobbíista sem hafa komið á fund ýmissa þingmanna í gegnum tíðina. Maður getur nánast rakið það með því hvenær viðkomandi grein var sett inn hvenær þeir komu á fund einhverra þingmanna og fengu í gegn að sín bifreið yrði undanþegin.