Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Föstudaginn 17. desember 2010, kl. 23:16:29 (0)


139. löggjafarþing — 53. fundur,  17. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[23:16]
Horfa

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson (F):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér göfugt að minnka mengun og ber að fagna því að reynt sé að takast á við það verkefni. Mér finnst hins vegar að stjórnvöld ætli sér að stýra samsetningu bílaflota Íslendinga með skattlagningu. Mig langar aðeins til þess að vekja máls á hagsmunum landsbyggðarinnar í þessu. Það kom fram í ágætri framsögu hv. þm. Helga Hjörvars að mikið tillit hefði verið tekið til sjónarmiða landsbyggðarinnar. Það ber að þakka og ég þakka nefndinni sérstaklega fyrir að hún hefur tekið tillit til margra þátta sem koma fram í athugasemdum ýmissa aðila við þetta frumvarp.

Ég verð þó að segja að mér finnst ekki hafa verið tekið nógu mikið tillit til landsbyggðarsjónarmiða og ætla lítillega að fara yfir það. Í umsögn Bændasamtaka Íslands er talað um að í greinargerð sé losun á koltvísýringi á Íslandi borin saman við losun í Evrópu og tekið fram að markmiðum frumvarpsins verði best náð með því að tengja skattlagningu á ökutæki almennt við skráða losun. Það er rétt að tala um að á Íslandi er, eins og hv. þingmaður þekkir, mjög dreifð byggð og mun dreifðari en t.d. á meginlandi Evrópu. Almenningssamgöngur eru takmarkaðar, það er víða lélegt vegakerfi og afar rysjótt veðurfar. Það er því nauðsynlegt fyrir íbúa víða á landsbyggðinni að eiga fjórhjóladrifnar og aðrar stærri bifreiðar til að geta tekist á við þetta veðurfar. Við höfum áhyggjur af því að þær breytingar sem lagðar eru til séu á kostnað akstursöryggis og byggðasjónarmiða vegna þess að eins og þekkt er þurfa íbúar á landsbyggðinni oft að sækja grunnþjónustu um langan veg.

Vissulega væri mjög áhugavert fyrir bændur, m.a. þann sem hér stendur, að eiga Toyota Yaris eða Nissan Micra. Sá ljóður er hins vegar á slíkum bifreiðum að þær eru ekki hannaðar fyrir fullvaxta menn [Hlátur í þingsal.] og enn þá síður hæfar til þess að draga hestakerrur og aðrar kerrur sem bændur þurfa nauðsynlega að nota. En uppbygging í metanstöðvum á landsbyggðinni er líka vandamál. Við höfum bensínstöðvar úti um allt en það vantar svolítið upp á að þéttriðið net metanstöðva sé komið um landsbyggðina þannig að ég hef vissar áhyggjur af þessu.

Það kom hins vegar fram í ræðu framsögumanns, hv. þm. Helga Hjörvars, að í þeirri breytingartillögu sem hér er lögð fram er gefinn afsláttur af þessum hækkuðu gjöldum í flokkum H, I og J sem eru þeir flokkar sem varða bifreiðar á landsbyggðinni, stærri bifreiðar, 20% á næsta ári og 10% að tveimur árum liðnum, en íbúar á landsbyggðinni munu þurfa að nota slíkar bifreiðar eitthvað áfram. Vonandi mun þróun í vélum og mótorum á slíkum bifreiðum halda eitthvað áfram þannig að þær eyði minna til framtíðar.

Það er ástæða til að þakka nefndinni fyrir að breyta vörugjaldi á dráttarvélum, en ég vil hins vegar gera að umtalsefni þá staðreynd að pallbílar skuli teknir úr 13% vörugjaldaflokki og færðir almennt undir þessa nýju töflu er varðar losun. Ég vil spyrja hv. formann nefndarinnar, Helga Hjörvar, hvort það hafi eitthvað verið rætt í nefndinni og hvort það hafi komið til greina að umbuna eða ívilna fólki sem býr á landsbyggðinni við þessar erfiðu aðstæður. Kom til greina að gera einhverjar sérstakar ívilnanir fyrir íbúa á þessum svæðum?

Nú flækir það sjálfsagt málið þónokkuð, en miðað við að fara yfir þessar lagabreytingar virðist þetta vera ansi flókið hvort eð er og þá held ég að það ætti ekkert að vefjast fyrir nefndinni að auka flækjustigið aðeins. Mig langar að vita hvort þetta hafi verið eitthvað rætt í ljósi þess, eins og áður kom fram, að víða er mjög dreifð byggð og samgöngur lélegar og menn þurfa einfaldlega á þessum bifreiðum að halda.

Ég tek enn fremur undir orð framsögumanns um mikilvægi bílaleignanna og þess sem gert var fyrir þær. Hér á landi eru engar almennilegar almenningssamgöngur í hinum dreifðu byggðum. Hér eru ekki lestir eða annað slíkt þannig að það er mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í landinu að bílaleigur dafni sem best og ber að þakka fyrir það sem tekið var tillit til vegna þeirra.

Ég vil hins vegar segja að lokum að vegir á landsbyggðinni, við getum tekið sem dæmi sunnanverða Vestfirði, eru ekki dæmigerðir vegir til að keyra á á Toyota Yaris og Nissan Micra. Ég held að það sé nauðsynlegt að taka tillit til þessara sjónarmiða sem vissulega er búið að gera að sumu leyti í þessu frumvarpi og ég ítreka að ber að þakka fyrir það. Ég hvet til þess að það verði skoðað frekar og ítreka spurningu mína um hvort það hafi eitthvað verið rætt um að mismuna mönnum eftir því hvar þeir búa í landinu.