139. löggjafarþing — 53. fundur,  18. des. 2010.

brunavarnir.

79. mál
[02:30]
Horfa

Frsm. umhvn. (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. Ég mæli fyrir framhaldsnefndaráliti meiri hluta umhverfisnefndar á þskj. 533 ásamt breytingartillögum. Ég vil geta þess í leiðinni að breytingartillögur nefndarinnar sem geymdar voru við 2. umr. eru nú kallaðar alveg aftur, töluliðir 2.a, 4.b og 14 á þskj. 352.

Forseti. Má kannski reyna að hafa hljóð í hliðarsal. (Forseti hringir.) Meiri hluti nefndarinnar er auk mín skipaður þeim hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, Álfheiði Ingadóttur, Vigdísi Hauksdóttur, sem skrifar undir með fyrirvara, Ólafi Þór Gunnarssyni og Skúla Helgasyni. Hv. þm. Birgitta Jónsdóttir komst ekki á úttektarfundinn en fylgdist með málinu, er sammála nefndarálitinu og styður breytingartillögurnar. Þetta eru sjö af níu nefndarmönnum.

Það voru einkum tvö álitamál sem nefndin skoðaði milli 2. og 3. umr. Þessi álitamál eru aðalefni nefndarálitsins, breytingartillagna meiri hluta nefndarinnar og þessarar framsöguræðu. Að auki leggur meiri hlutinn til að breytt verði 1. gr. frumvarpsins, markmiðsgreininni, þannig að orðið „umhverfi“ komi aftast í upptalninguna og öðlist þar gleggri merkingu en á fyrri staðnum. Þessi tillaga er samhljóða breytingartillögu nefndarmeirihlutans við mannvirkjafrumvarpið í 3. umr. sem að lögum er orðið og fylgja henni sömu rök og þá. Markmiðsgreinarnar voru eins í þessum frumvörpum.

Annað álitamálið varðar þá breytingu á frumvarpinu að þar er lögfest sú venja að slökkviliðið sjái um að bjarga fólki sem hefur klemmst fast í bílslysi eða í mannvirki. Þetta á þó ekki við hamfarir þegar Almannavarnir fara í gang.

Nefndin fjallaði um þetta mál og það kom í ljós að ekki var ágreiningur í sjálfu sér um að þetta yrði lögfest en hins vegar um vettvangsstjórn. Eftir töluvert samráð og þreifingar fékk nefndin þau skilaboð frá umhverfisráðherra og dómsmálaráðherra að það væri stefnt að því að strax eftir áramót færi í gang samráð og vinna milli ráðuneyta með aðkomu viðeigandi stofnana að breytingum á lögunum um brunavarnir og lögreglulögum til að eyða allri óvissu um það hver fer með vettvangsstjórn. Meiri hlutinn leggur því til að 2. mgr. 16. gr. laga um brunavarnir verði ekki breytt að sinni.

Hitt álitamálið varðar valdmörk og verksvið við eldvarnir á flugvöllum, einkum hinum stærri, í Keflavík, Reykjavík, Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði.

Nefndin hlýddi á rök með og á móti því að brunavarnir á flugvöllum, og þá einkum sérstakt björgunar- og slökkvilið eða viðbúnaðarsveit, sem er ætlað fyrst og fremst að bregðast við óhappi í lendingu, falli undir gildissvið laganna. Að mati meiri hlutans er ljóst að í athugasemdum við frumvarp sem varð að lögum um brunavarnir, nr. 75/2000, var skýrt tekið fram að lögin tækju til starfsemi allra slökkviliða á landinu, þar með talið starfsemi slökkviliða flugvalla. Engar athugasemdir komu fram um þetta í nefndaráliti eða umræðum á Alþingi um málið á vorþingi árið 2000. En rétt er að gefa þingheimi kost á að heyra þá athugasemd sem er um 2. mgr. 2. gr. laganna. Hún er svona, með leyfi forseta:

„Frumvarpið tekur til starfsemi allra slökkviliða á landinu, þar með talið starfsemi slökkviliða flugvalla. Frumvarpið tekur hins vegar ekki til eldvarna í skipum, loftförum, almennum vinnuvélum, bifreiðum og öðrum vélknúnum ökutækjum enda heyrir eftirlit með þeim ekki undir eldvarnaeftirlit sveitarfélaga.“

Í næstu málsgrein segir síðan:

„Frumvarpið nær til starfsemi slökkviliða á landi, þar með talið eru slökkvistörf í jarðgöngum, í skipum sem liggja í höfn og loftförum sem eru á jörðu niðri.“

Þátttakendur í umræðum um þetta frumvarp efuðust ekki um þetta mál, það var raunar ekki rætt. Þeir voru, þannig að það komi fram, hv. núverandi þingmenn m.a. Siv Friðleifsdóttir, sem þá var umhverfisráðherra, Ögmundur Jónasson, Pétur H. Blöndal og af þingmönnum sem eru hættir störfum má nefna Rannveigu Guðmundsdóttur, Ólaf Örn Haraldsson, Kristján Pálsson, Kolbrúnu Halldórsdóttur en auk þeirra eða ýmissa af þessum mönnum voru í umhverfisnefnd á þessum tíma m.a. Ásta Möller, Katrín Fjeldsted og Gunnar I. Birgisson.

Fyrir nefndinni var þeirri athugasemd komið á framfæri að íslensk flugmálayfirvöld þyrftu og ættu að hafa eftirlit með því að ákvæði 14. viðauka Chicago-samningsins frá 1944 væru uppfyllt — þess sem Bjarni Benediktsson skrifaði undir sællar minningar fyrir hönd Íslendinga á tímum nýsköpunarstjórnarinnar, hann var raunar ekki ráðherra í henni. Meiri hlutinn hefur að sjálfsögðu fullan skilning á því að uppfylla þarf alþjóðlega samninga og það er mjög mikilvægt í flugmálum að virða Chicago-samninginn eins og hægt er og alla hans viðauka.

Meiri hluti nefndarinnar lítur svo á að samningurinn og eftirlitsskylda Flugmálastjórnar komi þó ekki í veg fyrir að almenn landslög gildi á flugvöllum um brunavarnir svo fremi þau gangi ekki gegn ákvæðum samningsins. Svo er ekki í þessu tilviki þar sem ákvæði Chicago-samningsins fela í sér lágmarkskröfur sem stjórnvöld hvers aðildarríkis þurfa að uppfylla og í flestum þeim ríkjum sem meiri hluti nefndarinnar hefur spurnir af eru kröfurnar meiri en Chicago-samningurinn felur í sér og engar athugasemdir gerðar við það af hálfu eftirlitsaðila þess samnings.

Það var sérstakt áhugaefni okkar í þessu starfi að líta til þess hvernig brunavörnum er háttað á flugvöllum í öðrum norrænum ríkjum. Niðurstaðan er sú að alls staðar þar hafa flugmálayfirvöld eftirlit með brunavörnum í samræmi við ákvæði alþjóðasamningsins en þar eru þó gerðar mun ítarlegri kröfur en hér hafa gilt. Málum er þar þannig háttað að í reglugerðum flugmálayfirvalda um brunavarnir á flugvöllum er vísað til almennra brunavarnalaga og í almennum reglum um brunavarnir til reglugerða flugmálayfirvalda eða með einhverri slíkri tengingu og alls staðar er höfð einhver slík tenging á milli laga og reglna á þessu sviði.

Það er rétt að gefa mönnum kost á því að heyra hvernig þetta er gert og má segja að í norsku flugvallareglunum komi þetta skýrt fram. Þær heita „forskrift om brann- og redningstjeneste“ og við þær á svo Veiledning, sem á við þessa forskrift, til BSL E 4-4. Þetta eru reglur frá 2005.

Í grein 5 er fjallað um þá ábyrgð sem hvílir á stjórnanda slökkvi- og björgunarþjónustu flugvallarins, brann- og redningstjeneste, og í athugasemdunum eða leiðbeiningunum með þessari grein, Veiledning BSL E 4-4, stendur þar um ábyrgð stjórnandans að slökkviliðsstjórinn í sveitarfélaginu, takið eftir, slökkviliðsstjórinn í sveitarfélaginu beri gagnvart yfirvöldum sveitarfélagsins ábyrgð á starfsemi slökkviliðsins í sveitarfélaginu. Slökkviliðsstjórinn sé þar af leiðandi ábyrgur fyrir eldvarnaeftirliti á öllum starfsstöðvum flugvallarins og allri stjórnun slökkvistarfs, einnig því sem beint snertir eld í flugvél. Á frummálinu, með leyfi forseta: „Brannsjefen“ — þ.e. „den kommunale brannsjef“ framar í ákvæðinu — „er følgelig ansvarlig for den branntekniske kontroll av flyplassens etablissementer samt ledelse av alt slokkearbeid, også det som har direkte tilknytning til brann i luftfartøy.“

Ég hef líka skoðað sænsku reglurnar. Þar er þetta tengt þannig að í lögunum um slysa- og brunavarnir sem heitir því ágæta nafni „Lagen om skydd mot olyckor“ og eru nr. 778/2003, er tiltekið í II. kafla 4. gr. að rekendur hættulegrar starfsemi skulu hafa sérstaka slysasveit, þar á meðal á flugvöllum. Í III. kafla 3. gr. eru ákvæði um slysa- og brunavarnaáætlanir sem eiga að liggja fyrir í hverju sveitarfélagi alveg eins og brunavarnaáætlanirnar hér. Þar á að lýsa skipulagi slysa og brunavarna í sveitarfélaginu og einnig að gera grein fyrir slysahættu sem gæti kallað á björgunarstarf „samt de risker för olyckor som finns í kommunen och som kan leda till räddningsinsatser“. Sveitarstjórnin á að samþykkja brunavarnaáætlunina en hafa samráð við þau stjórnvöld sem hafa mikilla hagsmuna að gæta. Ef slík stjórnvöld — lesist hér: flugvallarstjóri eða flugmálastjórn — eru óánægð með skilyrði og kröfur í áætluninni er málinu vísað til ríkisstjórnarinnar, þ.e. til umhverfisráðherrans sem tekur ákvörðun eftir að hafa leitað faglegs álits í viðeigandi stjórnsýslustofnun eða á frummálinu, með leyfi forseta: „Regeringen får, om det finns synnerliga skäl, på framställning av den myndighet som regeringen bestämmer besluta om ändring av ett handlingsprogram för förebyggande verksamhet.“ Þetta er í stuttu máli nákvæmlega eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu að viðbættum breytingartillögum nefndarinnar.

Bæði í Noregi og Svíþjóð er þessu sem sé háttað eins og gert er ráð fyrir í lögunum frá 2000 og við leggjum til að verði sagt alveg skýrt vegna þess ágreinings sem komið hefur upp um þetta atriði á milli yfirvalda flugmála og brunamála. Mig þraut raunar örendið skal ég viðurkenna áður en mér tókst að plægja í gegnum danska regluverkið en ég hef orð góðra manna fyrir því að þar sé þetta svipað.

Dæmi Noregs og Svíþjóðar sýna ekki síst að Chicago-samningurinn kemur engan veginn í veg fyrir að eldvarnastofnanir aðildarríkis hafi eftirlit með flugvöllum eða að menn ætli slökkviliði sveitarfélagsins ákveðið hlutverk. Ekkert slíkt bann er að finna í Chicago-viðaukunum. — Forseti. Ég er vanur því að þurfa að yfirgnæfa hávaða en hér eru samfelld fundahöld í þingsalnum sem mér væri kært að losna við.

(Forseti (ÁI): Forseti biður menn að halda fundi annars staðar en í þingsal meðan fundur á Alþingi stendur og biður ræðumann að halda áfram ræðu sinni.)

Mér virðist líka að í Chicago-samningnum sé heldur ekki bannað að hafa það hinsegin, að sérstakt eldvarnaeftirlit sé með flugvöllum undir stjórn annarrar stofnunar en almennt eldvarnaeftirlit og komi engri annarri stofnun við. Þessi atriði eru einfaldlega í valdi stjórnvalda í hverju ríki. Þeir sem bregða upp hinum merka Chicago-samningi og viðaukum hans sem grundvelli fyrir því að eldvarnir á flugvöllum séu nánast eins og eitthvert einkamál flugmálayfirvalda hafa einfaldlega ekki á réttu að standa.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til í sínu nefndaráliti og með sínum breytingartillögum að staða þessara mála verði alveg skýr að norrænum hætti og það má segja að hvað varðar mannafla og menntun manna og búnað þá virðist það líka vera almenn afstaða Flugmálastjórnar, því að í drögum að reglugerð sem nú er í smíðum og voru send til samgönguráðuneytisins í júlí og samgönguráðuneytið hefur sent út til umsagnar sýnast vera mun meiri og nákvæmari kröfur til viðbúnaðar, slysavarna og slökkvistarfs en í núverandi reglugerð sem er nr. 464/2007. Ég tel raunar líklegast að með þessari reglugerð og væntanlegum evrópskum reglum þurfi ekki að koma til neins konar árekstra milli þeirra stofnana sem í íslenska lýðveldinu fara með flugmál annars vegar og brunavarnir hins vegar. Ég geri hins vegar ráð fyrir því að á þessu sviði sem öðrum haldi áfram núningur og jag milli eftirlitsstofnana og þeirra fyrirtækja, í þessu tilviki opinbers hlutafélags, sem starfrækja flugvellina, um slysa- og brunavarnir og kostnað þeim samfara. Slík átök verða hin æðstu stjórnvöld, ráðherrar og eftir atvikum Alþingi, einfaldlega að skoða og meta og setja niður.

Ég get haldið talsvert áfram um þetta mál nákvæmlega og kannski væri ráð ef tilefni gefst til á eftir að fjalla um kostnaðinn sem flugvallarfyrirtækið hefur haldið fram að þessar breytingartillögur muni valda. Nefndin hefur fjallað nokkuð um það mál og meiri hluti hennar telur út í hött að breytingartillögur nefndarinnar sjálfrar valdi þeim kostnaði sem flugvallarfyrirtækið hefur listað upp og við birtum sem fylgiskjal með nefndarálitinu ásamt athugasemdum Brunamálastofnunar við þá útreikninga. Við höfum svo fengið athugasemdir við þær athugasemdir og athugasemdir við athugasemdir við þær athugasemdir, þannig að málið getur verið nokkuð flókið þegar menn vilja ekki koma sér saman.

Um þetta í stuttu máli með þessu frumvarpi og vinnu nefndarinnar við það er ekki um neinar eðlisbreytingar að ræða eins og hér hefur verið rakið. Frumvarpið með nefndartillögunum er beint framhald af lögunum frá árinu 2000 og skýrri ábendingu um flugvelli í athugasemd við 2. gr. um gildissvið laganna.

Það sem skiptir máli um þessi kostnaðarefni — án þess að fara um miðja nótt ofan í kostnaðaráætlun flugvallarfyrirtækisins Isavia, sem það heitir með einhverjum hætti, og ég hafði reyndar gert ráð fyrir að gera en ætla að geyma hugsanlega til síðari ræðu — mestu máli skiptir auðvitað að ef upp kemur ágreiningur um þær kröfur sem gera skal til viðbragðsstyrksins á flugvellinum þá er það alveg eins og í Svíþjóð og Noregi að rammi laga og reglugerða, samkvæmt því sem meiri hluti nefndarinnar gerir ráð fyrir og í frumvarpinu, vísar skýrlega veginn. Ágreiningur milli flugvallarrekanda og eldvarnaeftirlits er þá þannig afgreiddur að um leið og slökkviliðsstjóri gerir kröfu til flugvallar sendir hann þessa kröfu til Flugmálastjórnar til umsagnar og Mannvirkjastofnun til kynningar. Flugmálastjórn getur brugðist við strax ef menn telja að eitthvað sé ofsagt í kröfunni og Mannvirkjastofnun veit þegar í stað af málinu. Ef ágreiningurinn er viðvarandi þá tekur við 36. gr. laganna sem ekki stendur til að breyta núna en þar eru teiknaðar upp kæruleiðir tvenns konar til Brunamálastofnunar annars vegar sem nú verður Mannvirkjastofnun og síðan til umhverfisráðherra. Þessi grein á, ef hún er lesin og farið eftir henni, að girða fyrir geðþóttaákvarðanir eða smákóngastyrjaldir í málefnum sem varða flugöryggi og kostnað við öryggisráðstafanir. Ég ætla ekki að fjalla meira um kostnaðarmálin að sinni og ætlaði þeim raunar í upphafi lengri kafla í þessari ræðu en aðrir kunna að flytja frekari fréttir af þeim á eftir.

Í lok þessarar almennu framsöguræðu held ég að þetta þurfi að koma fram. Þetta álitamál um eldvarnir og viðbúnaðarsveitir eða björgunar- og slökkvisveitir á flugvöllum blasir við sem afar tæknileg en jafnframt hefðbundin deila í stjórnsýslunni. Þarna er togast á um valdsvið og ábyrgð í kerfinu. Ein stofnun stendur gegn annarri og einn geiri gegn öðrum. Annars vegar er Flugmálastjórn og flugvallarfyrirtækið með skrýtna nafnið, flugfélög og flugstarfsmenn, hins vegar slökkviliðin og sveitarfélögin og Brunamálastofnun. Þetta er svona eins og í fótboltanum, annars vegar er Valur og hins vegar KR. Við á þessum stað ef við erum KR-ingar, Valsmenn, FH-ingar, Skagamenn o.s.frv. getum ekki í því viðfangsefni sem hér um ræðir leyft okkur að taka neins konar KR/Vals-afstöðu. Við erum fulltrúar almennings og eigum að gæta þess að vel sé farið með almannafé. Við eigum að gæta þess að öryggi sé tryggt eins og fremst má verða. Við eigum að gæta að lífi og heilsu manna, eignum og umhverfi, eins og stendur í 1. gr. þeirra laga sem við erum að höndla með eða frumvarpa. Af okkur er þess vegna krafist almennrar skynsemi og röklegrar afstöðu miðað við þau gögn sem fyrir liggja.

Þá er því við að bæta að fyrir utan hinn almenna grundvöll hefur málið líka pólitíska hlið. Það varðar almenna pólitíska afstöðu og fyrir mér er þar einkum á tvennt að minnast. Annars vegar það að við gætum þess að standa við alþjóðasamninga en þó aldrei þannig að þeir taki af okkur öll völd heldur með þeim hætti að þeir samlagist íslenskum reglum og þeirri skipan mála sem við höfum valið okkur af röklegum ástæðum. Þetta er sérstaklega mikilvægt á þessum missirum núna þegar við stöndum í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og þurfum á nýjan hátt að gera okkur grein fyrir stöðu okkar í heiminum og því hvernig við ætlum að stjórna okkur sjálf innan alþjóðlegs ramma.

Hins vegar er svo sú góða venja í íslenskri pólitík að leita við lagasetningu og mótun regluverks að fyrirmyndum og hliðstæðum í öðrum norrænum ríkjum. Bæði þessi pólitísku leiðarhnoðu hafa vísað okkur í meiri hluta umhverfisnefndar að því að staðfesta í breyttum lögum þá skipan sem skýrt kemur fram í athugasemdum með frumvarpinu 2000, að Flugmálastjórn fylgist með framkvæmd Chicago-samningsins á íslenskum flugvöllum frá Gjögri til Miðnesheiðar en brunamálayfirvöld hafi yfirumsjón með eldvörnum á flugvöllum eins og alls staðar annars staðar í íslenskri lögsögu.

Við í umhverfisnefnd höfum ekki farið varhluta af deilum um þessi efni sem hafa staðið að minnsta kosti síðan brunavarnalögin voru sett árið 2000. Það er auðvitað heppilegast að reyna að leysa málin þó að það gerist í nokkrum skrefum í sæmilegri sátt og skilningi og við höfum leitast við að gera það eins og hægt var. Ég leitaði t.d. strax til viðkomandi ráðherra tveggja þegar ljóst var að ljón væru í vegi þessara væntanlegu laga, sem á liggur vegna þess að skipulagslögin voru samþykkt í september, og bað um aðstoð við að leysa álitamálin og það tókst í öðru dæminu eins og ég hef þegar lýst. Þar fengum við fyrirheit og ábendingar sem okkur nægðu og sem við berum fram í nefndaráliti og tökum tillit til í breytingartillögum. Það hefur ekki gengið jafn vel í því álitamáli sem mestur tíminn hefur farið í að ræða og ég harma það. Það er auðvitað þannig að löggjafinn verður að geta treyst því að framkvæmdarvaldið, ráðherrar nýir og gamlir, vinni sitt verk sem ekki síst felst í því að leysa flækjur og höggva á hnúta í stjórnkerfinu. Það hafa menn ekki gert í þessum tveimur ráðuneytum, umhverfismála og samgöngumála, þeir sem þar hafa setið a.m.k. í 10 ár. Nokkrir þeirra eru í salnum. Það mun heldur ekki hafa verið gert í ráðuneyti sveitarstjórnarmála, hvaða ráðuneyti sem það hefur nú verið í hvert skipti. Það er ekki snjallt að jafnvel núna um miðja nótt skuli enn ekki vera komin nein bærileg lausn á þessum efnum þó að það kynni að verða þegar þessi umræða heldur áfram eða henni lýkur að menn úr meiri hluta nefndarinnar, þeir sem hér eru staddir, kynnu að ná einhvers konar bráðabirgðasamkomulagi um aðrar tillögur til breytinga en koma fram í nefndarálitinu.

Forseti. Ég ætla að láta þessu lokið að sinni og á góðan tíma áfram í umræðum ef þær verða nokkrar. Því var reyndar heitið upphátt og í hljóði áður en þessi umræða hófst að hún yrði löng og vera kann að hún verði það, ekki kvíði ég að því. Ég hef með sama hætti og núverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra staðið hér í stólnum um nætur og haft af því ákveðið yndi. En að lokum þessarar framsöguræðu fyrir nefndarálitinu vil ég þakka nefndarmönnum fyrir gott starf að þessum málum öllum og endurtaka áður fluttar sérstakar þakkir nefndarmanna til Ólínu Þorvarðardóttur fyrir farsæla forustu í haust þegar skipulagslögin urðu að veruleika, og gestum og umsegjendum og starfsmönnum þingsins sem nærri koma því þetta hefur verið töluvert verk þegar allt er talið.

Hvað sem líður afdrifum flugvallamálsins mikla, forseti, erum við nú að ljúka átta ára löggjafarstarfi á sviði skipulags-, mannvirkja- og brunavarnamála. Fæst okkar sem nú fyllum þennan sal vorum á ferli þegar hv. þm. Siv Friðleifsdóttir hóf þessa endurskoðun í umhverfisráðuneytinu þar sem hún réð ríkjum frá 1999–2004 en síðan hafa lagt hönd á plóginn einar fimm aðrar háttvirtar kvenhetjur í starfi umhverfisráðherra úr fjórum flokkum, þær Sigríður Anna Þórðardóttir 2004–2006, Jónína Bjartmarz 2006–2007, sem lagði fram fyrstu frumvörpin, Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem kom með annan frumvarpapakka á sínum árum 2007–2009, og síðan 2009 þær Kolbrún Halldórsdóttir og Svandís Svavarsdóttir, sem flytur þau frumvörp sem við erum nú smám saman að samþykkja misjafnlega mikið breytt. Eftir þetta verk allt saman var sannarlega komið að löggjafarvaldinu að ganga í verkið og það höfum við í nefndinni gert í eins góðri samvinnu og unnt var við Stjórnarráðið, við stjórnsýsluna, við starfsmannasamtök og félagasamtök og hér er árangurinn. Það er komið að verklokum að sinni og ég vona að um lausnir sem hér finnast takist eins góð sátt með eins miklum meiri hluta þingmanna og unnt er. — Ég læt þessari ræðu hér með lokið.