Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Laugardaginn 18. desember 2010, kl. 11:18:52 (0)


139. löggjafarþing — 54. fundur,  18. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

197. mál
[11:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er haldið áfram þeirri stefnu að flækja það sem hægt er að flækja. Hér er verið að gera mjög miklar breytingar og í umfjöllun hv. nefndar komu fram enn meiri breytingar þar sem nánast var handvalið hvaða bifreiðar ættu að greiða aukið gjald og hverjar lægra gjald. Það sjá menn á breytingartillögum frá hv. formanni nefndarinnar.

Við höfum lagt til að menn skattleggi frekar notkunina og flytji þá vörugjöldin af bifreiðum yfir á notkunina. Það væri miklu skynsamlegra, það mundi hvetja til innflutnings og gera aldraðan bílaflota landsmanna nútímalegri. Þá mundi hann menga minna. Lögin eru full af undanþágum, keppnisbílar eru undanþegnir og bílar sem mest menga eru undanþegnir. Fyrirtæki munu draga gjöldin frá skatti hvort sem er þannig að það er niðurgreitt þeim megin. Þetta er ótrúlega flókið (Forseti hringir.) og ég segi nei.