Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Laugardaginn 18. desember 2010, kl. 14:04:35 (0)


139. löggjafarþing — 55. fundur,  18. des. 2010.

vörugjald af ökutækjum eldsneyti o.fl.

197. mál
[14:04]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á því að ég flyt breytingartillögu í þeirri atkvæðagreiðslu sem við förum nú í. Hún er í anda þess sem Sniglarnir, Slóðavinir, Ökukennarafélag Íslands og Biking Viking ehf. hafa verið að benda á í þessu máli en skattleggja á bifreiðar á miðað við hvað þær menga mikið. Bifhjól menga hlutfallslega lítið og það eru því ákveðin rök fyrir því að þau fari í 15% vöruflokkinn. Það eru líka rök fyrir því að bifhjól fái sömu meðferð og bílaleigubílar, þ.e. bifhjól sem fara í leigu. Það eru jafnframt ákveðin rök fyrir því að bifhjól sem notuð eru til kennslu fái sömu ívilnun og kennslubifreiðar. Það er réttlætismál, það er rökrétt, þannig að ég skora á hv. þingmenn að greiða atkvæði með breytingartillögunni sem sú er hér stendur flytur af því að það er ekki rétt að fara öðruvísi með bifhjól en bifreiðar.