Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 55. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 69  —  55. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga.

Frá félags- og tryggingamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fékk á sinn fund Björn Þór Hermannsson frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Söru Jasonardóttur og Pálma Rögnvaldsson frá umboðsmanni skuldara, Þórólf Halldórsson frá Sýslumannafélagi Íslands, Jónu Björg Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja og Kolbrúnu Garðarsdóttur frá Íslandsbanka.
    Með frumvarpinu er lagt til að bætt verði ákvæði til bráðabirgða við lög nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, þess efnis að tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. laganna hefjist þegar einstaklingur sækir um greiðsluaðlögun en ekki þegar umsókn hans hefur verið samþykkt líkt og lögin kveða á um. Jafnframt er lagt til að slíkt hið sama gildi um umsóknir um greiðsluaðlögun sem borist hafa til umboðsmanns skuldara frá stofnun embættisins, 1. ágúst sl.
    Nefndin telur ákvæðið mikilvægt í ljósi þess mikla álags sem er á embætti umboðsmanns skuldara. Tímabundin frestun greiðslna samkvæmt ákvæðinu tryggir m.a. að ekki sé gengið að skuldara með greiðslur á kröfum hans, ekki verði unnt að ganga að ábyrgðarmönnum hans og ekki sé heimilt að gera fjárnám í eignum skuldara eða fá þær seldar nauðungarsölu meðan umsókn hans um greiðsluaðlögun bíður vinnslu hjá umboðsmanni skuldara.
    Nefndin ræddi jafnframt nauðsyn þess að í því sérstaka ástandi sem nú ríkir verði gripið til óhefðbundnari aðferða til að tryggja að einstaklingar í greiðsluerfiðleikum noti þau úrræði sem eru til staðar og hindra jafnframt að fjölskyldur missi heimili sín. Frumvarp þetta mætir vanda þeirra sem þegar hafa sótt um eða munu sækja um greiðsluaðlögun til umboðsmanns skuldara. Nauðsynlegt er þó að ná til þeirra sem eiga yfir höfði sér nauðungaruppboð og hafa ekki leitað úrræða til að losna úr viðjum vandans. Nefndinni voru kynntar nýlegar aðgerðir umboðsmanns í samvinnu við sýslumann þar sem hringt var í einstaklinga sem eiga eignir sem beðið hafði verði um nauðungarsölu á og þeim boðin aðstoð og ráðgjöf. Telur nefndin þetta frumkvæði lofsvert og mikilvægt í því ástandi sem nú ríkir en bendir á að lántakendur í slíkri stöðu væru gjarnan komnir út í horn og lokuðu sig af. Þess vegna þyrfti nálgunin að vera mjög persónuleg, jafnvel heimsókn. Ræddi nefndin m.a. hvort unnt væri að tryggja að sýslumenn sendu umboðsmanni upplýsingar þegar beiðni um nauðungarsölu bærist til þeirra. Mun nefndin skoða þetta atriði í samráði við félags- og tryggingamálaráðuneytið og umboðsmann skuldara og meta hvort lagabreytinga sé þörf. Þá voru nefndinni kynntar upplýsingar þess efnis að þar sem nauðungarsölur á heimilum færu fram kvæðu sýslumenn gjarnan á um langan samþykkisfrest til að gefa kröfuhöfum færi á að falla frá kröfu og að kröfuhafar væru tilbúnir til þess sæktu gerðarþolar um greiðsluvandaúrræði. Þá hafi umboðsmaður skuldara jafnframt nýtt lengri samþykkisfrest til að fá kröfuhafa til að falla frá nauðungarsölu. Telur nefndin mikilvægt að áhersla sé lögð á það hjá kröfuhöfum líkt og öðrum að einstaklingar haldi heimilum sínum og fái skilvirka lausn á greiðsluvanda sínum.

    Þá ræddi nefndin talsvert hvenær skuldari telst hafa skilað inn umsókn og telur ljóst að það sé þegar umboðsmaður skuldara getur tekið við henni til vinnslu. Þannig þurfi m.a. að fylgja umsókninni ýmis frumgögn. Telur nefndin mikilvægt að umboðsmaður skuldara setji verklagsreglur um það hvaða gögn og upplýsingar þurfi að fylgja til að hægt sé að taka við umsókn um greiðsluaðlögun en jafnframt að slíkar reglur séu ekki íþyngjandi fyrir skuldara þannig að úr verði tímafrekt og flókið ferli sem aftri því að skuldari fái umsókn sína móttekna og þar með tímabundna frestun greiðslna. Nefndin ræddi verklag við móttöku umsókna hjá umboðsmanni skuldara og fékk þær upplýsingar að umsókn væri móttekin þegar frumgögnum hefði verið skilað, svo sem upplýsingum um tekjur og skuldir og aðgangsheimild að vef ríkisskattstjóra sem og leyfi til handa umboðsmanni til að afla frekari nauðsynlegra gagna. Öflun slíkra frumgagna væri ekki tímafrek og kæmi skuldari með nauðsynleg gögn með sér væri mögulegt að taka á móti umsókn hans samdægurs.
    Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að tryggja þyrfti hvernig fella ætti niður tímabundna frestun greiðslna í þeim tilvikum sem skuldari drægi til baka umsókn sína eða umboðsmaður skuldara synjaði um heimild til greiðsluaðlögunar. Leggur nefndin því til breytingu þess efnis að umboðsmaður skuldara tilkynni um niðurfellingu tímabundinnar frestunar greiðslna til sýslumanns og óski skráningar á niðurfellingunni í þinglýsingabækur. Nefndin telur þó mikilvægt að þegar umboðsmaður synjar um heimild til greiðsluaðlögunar haldist frestun greiðslna þar til niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunar liggur fyrir. Er því lagt til að frestun greiðslna framlengist út kærufrest. Kæri skuldari fellur frestunin niður ef kærunefndin staðfestir niðurstöðu umboðsmanns um synjun.
    Í 3. mgr. 11. gr. laganna er kveðið á um að frestun greiðslna nái ekki til krafna sem verða til eftir að heimild til að leita greiðsluaðlögunar hefur verið veitt enda kveðið á um það að frestun greiðslna hefjist á þeim tímapunkti. Þar sem frumvarpinu er ætlað að færa tímamark frestunar greiðslna framar í ferlið er eðlilegt að þetta ákvæði gildi frá sama tímamarki og því er lögð til breyting þess efnis.
    Nefndin ræddi nokkuð ítarlega réttaráhrif tímabundinnar frestunar greiðslna og hvort nægilegt væri að skrá hana í þinglýsingabækur. Þeim sjónarmiðum var hreyft fyrir nefndinni að eðlilegt væri að tilkynna um hana í Lögbirtingablaði til að tryggja að kröfuhafar hefðu upplýsingar um hana. Kröfuhafar þyrftu að vera upplýstir um frestun greiðslna til að tryggja að þeir færu að lögunum og reyndu ekki að innheimta hjá skuldara eða ábyrgðarmanni kröfur skuldara og tækju ekki við greiðslum á þeim. Ljóst er að kröfuhafar geta sótt upplýsingar um skráningu tímabundinnar frestunar í þinglýsingabækur. Þær eru aftur á móti ekki rafrænar um allt land og þetta fyrirkomulag er haldið þeim annmörkum að skuldari þarf að eiga eignir skráðar í þinglýsingabækur til að lánardrottnar fái upplýsingar um tímabundna frestun greiðslna fyrir viðkomandi einstakling. Mikilvægt er að tryggja að ákvæðum laganna sé fylgt og lánardrottnar innheimti ekki kröfur hjá skuldara eða ábyrgðarmanni í andstöðu við 11. gr. laganna. Með því að tilkynna skráningu um tímabundna frestun greiðslna í Lögbirtingablaði dregur úr líkum á að skuldarar verði fyrir óþarfa innheimtuaðgerðum sem geta lagst þungt á fólk og lagalegur réttur skuldara til frestunar greiðslna er skýr.
    Þá telur nefndin mikilvægt að samhliða frestun greiðslna virkist skyldur skuldara skv. 12. gr. laganna enda ákvæðin nátengd. Skv. 12. gr. er skuldara m.a. óheimilt að láta af hendi eða veðsetja eignir og stofna til nýrra skulda. Geri hann það er honum synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Mjög mikilvægt er að þeir sem nýta sér frestunina séu vel upplýstir um rétt sinn og skyldur, þ.m.t. bann við innheimtu kröfuhafa á kröfum sem til komu fyrir greiðslufrestun.

    Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Eftirfarandi breytingar verði á 1. gr.:
     a.      3. efnismgr. orðist svo:
             Þegar umboðsmaður skuldara hefur móttekið umsókn skal stofnunin óska eftir því að athugasemd um að umsókn um greiðsluaðlögun hafi borist umboðsmanni verði skráð í þinglýsingabækur, eftir því sem við á, og skal sambærilegrar skráningar óskað vegna þeirra umsókna sem borist hafa fyrir gildistöku laga þessara. Umboðsmaður skal jafnframt birta skráningu um tímabundna frestun greiðslna í Lögbirtingablaði.
     b.      Við bætist fjórar nýjar málsgreinar svohljóðandi:
             Þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 11. gr. laganna nær tímabundin frestun greiðslna samkvæmt ákvæði þessu ekki til krafna sem verða til eftir að frestun greiðslna hefst.
             Skyldur skuldara við greiðsluaðlögun, sbr. 12. gr. laganna, eiga við þegar umsókn hefur verið móttekin af umboðsmanni skuldara og greiðslum frestað tímabundið í samræmi við ákvæði þetta.
             Dragi skuldari umsókn sína til baka fellur tímabundin frestun greiðslna skv. 11. gr. þá þegar niður. Ef umboðsmaður skuldara synjar skuldara um heimild til greiðsluaðlögunar fellur tímabundin frestun greiðslna niður þegar kærufrestur skv. 3. mgr. 7. gr. laganna er liðinn. Kæri skuldari synjun umboðsmanns skuldara framlengist tímabundin frestun greiðslna þar til niðurstaða kærunefndar greiðsluaðlögunarmála liggur fyrir. Staðfesti kærunefnd greiðsluaðlögunarmála niðurstöðu umboðsmanns skuldara fellur tímabundin frestun greiðslna þá þegar niður. Skal umboðsmaður tilkynna sýslumanni án tafar um niðurfellingu tímabundinnar frestunar greiðslna og óska skráningar á henni í þinglýsingabók. Umboðsmaður skuldara skal jafnframt birta tilkynningu um niðurfellingu í Lögbirtingablaði.
             Ekki ber að greiða þinglýsingargjald af skráningum í þinglýsingabækur samkvæmt ákvæði þessu.

    Jónína Rós Guðmundsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 14. okt. 2010.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Ólafur Þór Gunnarsson.


Pétur H. Blöndal.



Guðmundur Steingrímsson.


Árni Þór Sigurðsson.


Guðlaugur Þór Þórðarson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.


Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir.