Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 58. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 95  —  58. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um nauðungarsölu, nr. 90/1991, með síðari breytingum (frestur).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti.
    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða um að tímabilið sem gerðarþoli hefur getað óskað eftir fresti á nauðungarsölu á íbúðarhúsnæði renni ekki út 31. október 2010 heldur verði gildistími ákvæðisins framlengdur til 31. mars 2011 að uppfylltum öllum sömu skilyrðum og gilt hafa um slíka fresti til þessa. Ákvæðið er bundið við fasteign þar sem gerðarþoli heldur heimili og hefur skráð lögheimili, enda sé um að ræða húsnæði sem ætlað er til búsetu samkvæmt ákvörðun skipulags- og byggingaryfirvalda.
    Nefndin fjallaði um málið og forsögu þess en með lögum nr. 23/2009 var kveðið á um almenna frestun á nauðungarsölum fasteigna fram yfir 31. október 2009. Með lögum nr. 108/2009 var fallið frá frekari almennri frestun á nauðungarsölum fasteigna en kveðið á um í ákvæði til bráðabirgða að sýslumanni bæri að verða við ósk gerðarþola um að fresta fram yfir 28. febrúar 2010 töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun eignar á almennum markaði ef leitað væri nauðungarsölu skv. 6. gr. laga nr. 90/1991. Þá var að nýju með lögum nr. 11/2010 ákveðið að gerðarþoli gæti óskað eftir því við sýslumann að töku ákvörðunar um framhald uppboðs eða ráðstöfun hennar á almennum markaði yrði frestað í allt að þrjá mánuði, þ.e. að slíka beiðni væri unnt að leggja fram allt til 31. október 2010. Var talið nauðsynlegt að gefa skuldurum kost á fresti svo að þeir ættu þess kost að leita eftir þeim úrræðum sem þá höfðu nýlega verið sett fram til lausnar á skuldavanda heimilanna.
    Fyrir nefndinni kom fram að sú breyting sem frumvarpið felur í sér væri eins konar aukaafurð þeirra breytinga sem gerðar voru nú nýverið á lögum nr. 101/2010, um greiðsluaðlögun einstaklinga, en þar var bætt ákvæði til bráðabirgða við lögin þess efnis að tímabundin frestun greiðslna hefjist þegar einstaklingur sækir um greiðsluaðlögun en ekki þegar umsókn hans hefur verið samþykkt eins og lögin kveða á um. Jafnframt er lagt til að slíkt hið sama gildi um umsóknir um greiðsluaðlögun sem borist hafa til umboðsmanns skuldara frá stofnun embættisins 1. ágúst sl.
    Nefndin tekur fram að sá frestur sem er veittur í þessu frumvarpi gildir fyrir fleiri en þá sem sækja um greiðsluaðlögun einstaklinga hjá umboðsmanni skuldara, t.d. þá sem sækja um sértæka skuldaaðlögun hjá bönkunum eða þá sem eru sjálfir í samningaviðræðum við sína kröfuhafa.
    Fram kom að þessi framlengdi frestur er enn að nýju hugsaður til þess að gefa skuldurum kost á að leysa úr sínum málum með samningum við kröfuhafa eða með því að leita til embættis umboðsmanns skuldara. Þá kom fram að hjá sýslumönnum hefur verið haft samband við þá sem eiga eignir sem eru að fara í framhaldssölu en á sýslumönnum hvílir mjög rík leiðbeiningarskylda. Þá kom einnig fram að hjá ráðuneytinu er upplýsingum nú safnað saman frá sýslumönnum og þeim komið til embættis umboðsmanns skuldara sem mun vinna að því að hafa samband við skuldara til þess að benda þeim á möguleg úrræði til lausnar. Nefndin tekur fram að hún telur eðlilegt að veita þennan framlengda frest enda ljóst að mikill málafjöldi er fyrirliggjandi í kerfinu og frestur því til þess fallinn að dreifa þeim fjölda nokkuð.
    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Alþingi, 18. okt. 2010.



Róbert Marshall,


form., frsm.


Jórunn Einarsdóttir.


Birgir Ármannsson.



Valgerður Bjarnadóttir.


Álfheiður Ingadóttir.


Vigdís Hauksdóttir.



Sigurður Kári Kristjánsson.