Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 99. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 105  —  99. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 91/2010, um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna.

Flm.: Vigdís Hauksdóttir.



1. gr.

    Við 4. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Víkja má frá ákvæðum 1. mgr. ef almennar kosningar eru boðaðar innan þriggja mánaða frá samþykkt þingsályktunartillögu á Alþingi um þjóðaratkvæðagreiðslu.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 4. gr. laganna er kveðið almennt á um innan hvaða tímaramma halda skuli þjóðaratkvæðagreiðslur. Í 1. mgr. kemur fram að þjóðaratkvæðagreiðsla skuli fara fram í fyrsta lagi þremur mánuðum og í síðasta lagi einu ári eftir að samþykkt hefur verið þingsályktunartillaga um að fram skuli fara almenn og leynileg þjóðaratkvæðagreiðsla um tiltekið málefni eða lagafrumvarp. Í frumvarpi þessu er lagt til að undantekning verði gerð á þriggja mánaða tímamarkinu á þeim grunni að ef um kosningar sé að ræða innan þess tímaramma megi þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram samhliða kosningunum þó að styttri tími sé í þær en þrír mánuðir. Er þetta m.a. gert til að spara ríkinu kostnað við kosningar. Áætlað er að þjóðaratkvæðagreiðslur kosti um 250 millj. kr. Ábatinn er því augljós.
    Þessu og til rökstuðnings má benda á að fordæmi eru fyrir því að skammur tími hefur liðið frá ákvörðun um að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, sbr. þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave- lögin svokölluðu, nr. 1/2010, sem fór fram tveimur mánuðum frá synjun forseta en ákvörðun um að halda þjóðaratkvæðagreiðsluna var ekki tekin af ríkisstjórninni fyrr en um tíu dögum áður. Heppnaðist sú þjóðaratkvæðagreiðsla afar vel og var kjörsókn góð þó að tíminn væri stuttur. Flutningsmaður telur brýnt að hægt sé að bregðast skjótt við komi fram tillaga á Alþingi um mál sem skjóta á til þjóðarinnar. Þriggja mánaða bið eftir þjóðaratkvæðagreiðslu er of langur tími þegar bera þarf stór ágreiningsmál undir þjóðina. Stjórnkerfið þarf að vera sveigjanlegt og bregðast hratt við slíkum málskotum Alþingis, sér í lagi sé það fyrirséð að samnýta megi kosningadag öðrum kosningum sem þegar hafa verið boðaðar með meiri fyrirvara.