Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 54. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 133  —  54. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um greiðslur til þróunarsjóðs EFTA.

     1.      Hefur utanríkisráðuneytið, með tilliti til efnahagsástandsins hér á landi, leitað eftir undanþágum frá greiðslu til þróunarsjóðs EFTA sem samkvæmt frumvarpi til fjárlaga 2011 er 1.493.000.000 kr., ætlaðar til fjármögnunar á umbótum og uppbyggingu í þeim aðildarríkjum ESB sem standa illa í efnahagslegu tilliti?
     2.      Var reynt að fá undanþágu frá samningi við þróunarsjóðinn um nýtt úthlutunartímabil, 2010–2014, sem hefði leitt til rúmlega 8 milljarða kr. sparnaðar fyrir ríkissjóð á þessu árabili?

    Við gerð samninga vegna tímabilsins 2009–2014 voru gerðar enn ríkari kröfur á hendur EES/EFTA-ríkjunum en áður giltu, enda ný stækkun komin til framkvæmda. Kröfurnar fólu í sér þreföldun á framlagi Íslands. EES/EFTA-ríkin höfnuðu þeim alfarið. Á endanum náðist að lækka greiðslur verulega frá upphaflegum kröfum. Fyrir Noreg og Liechtenstein var að lokum samið um 33% hækkun. Með vísan til alvarlegrar efnahagsstöðu landsins náðu samningamenn Íslands fram þeirri hagstæðu niðurstöðu eftir erfiða samninga að engin hækkun varð á greiðslum Íslands í evrum talið. Þær verða því áfram 6,8 milljónir evra á ári út tímabilið.
    Þegar saman eru reiknaðar greiðslur Noregs í framangreindan sjóð við 800 milljóna evra greiðslu Norðmanna í tvíhliða sjóð þeirra og Evrópusambandsins eru greiðslur þeirra fimmtugfaldar á við Ísland. Miðað við hlutfallslega stærð landanna hefði sú greiðsla einungis átt að vera tæplega 16 sinnum hærri.

     3.      Tengjast þessir samningar á einhvern hátt umsókn Íslands um aðild að að Evrópusambandinu?
    Nei.