Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 156. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 172  —  156. mál.




Álit fjárlaganefndar



á ábendingum Ríkisendurskoðunar um kaup


Fasteigna ríkissjóðs á málningarvinnu.



    Fjárlaganefnd hefur fjallað um ábendingar Ríkisendurskoðunar um kaup Fasteigna ríkissjóðs á málningarvinnu og fengið ríkisendurskoðanda til fundar við sig ásamt sérfræðingum hans.
    Forsaga málsins er sú að í áfangaskýrslu Ríkisendurskoðunar um viðskipti ríkisstofnana við 800 birgja taldi stofnunin „að val birgja væri of oft rökstutt með vísan til þess að á viðkomandi landsvæði væri aðeins einn aðili fær um að veita þá þjónustu sem þörf væri á“. Að beiðni Ríkisendurskoðunar afhentu Fasteignir ríkissjóðs lista yfir alla þá verktaka sem vinna fyrir Fasteignir ríkissjóðs. Í greinargerð Ríkisendurskoðunar segir: „Við skoðun á listanum og samkeyrslu við bókhaldskerfi ríkisins kom í ljós að kaup Fasteigna ríkissjóðs á málningarvinnu á Akureyri og Laugum í Reykjadal á árunum 2007–2009 einskorðuðust við einn birgja.“ Einnig segir í greinargerðinni: „Við lauslega athugun fann Ríkisendurskoðun 11 málningarfyrirtæki með starfsstöð á Akureyri.“ Efaðist stofnunin ekki um ágæti þess aðila sem verslað var við, en „telur viðskipti Fasteigna ríkissjóðs við fyrirtækið fara í bága við ákvæði 22. gr. laga um opinber innkaup.“
    Niðurstaða Ríkisendurskoðunar var eftirfarandi: „Ríkisendurskoðun telur að Fasteignir ríkissjóðs þurfi að endurskoða verklag sitt við innkaup með það að markmiði að gæta jafnræðis milli fyrirtækja. Einnig telur stofnunin að Ríkiskaup eigi að gera rammasamning við verktaka í iðnaði utan höfuðborgarsvæðisins, sambærilegan þeim sem nú er unnið að við verktaka á höfuðborgarsvæðinu.“
    Á fundi fjárlaganefndar með Ríkisendurskoðun kom fram að Fasteignir ríkissjóðs hefðu í hyggju að breyta verklagi sínu í samræmi við athugasemdir Ríkisendurskoðunar og að stofnunin teldi ekki ástæðu til frekari aðgerða að sinni, en eftir þrjú til fjögur ár mundi hún kanna með hvaða hætti Fasteignir ríkissjóðs hefðu brugðist við ábendingunum. Fjárlaganefnd telur mikilvægt að Ríkisendurskoðun framkvæmi slíka könnun og kynni nefndinni niðurstöðurnar.
    Fjárlaganefnd minnir af þessu tilefni aðalskrifstofur ráðuneytanna á lög nr. 84/2007, um opinber innkaup.

Alþingi, 5. nóv. 2010.



Oddný G. Harðardóttir,


form.


Björn Valur Gíslason.


Ásbjörn Óttarsson.



Birgitta Jónsdóttir.


Höskuldur Þórhallsson.


Kristján Þór Júlíusson.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.