Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 246. máls.

Þskj. 277  —  246. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum um dómstóla, nr. 15/1998,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)



1. gr.

    Á eftir 43. gr. laganna koma tvær nýjar greinar er hljóða svo:
     a.      (44. gr.)
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 12. gr. og 43. gr. laganna skal tala héraðsdómara frá 1. mars 2011 vera 48, en ekki skal skipa í embætti héraðsdómara, sem losna eftir 1. janúar 2013, fyrr en þess gerist þörf til að ná þeirri tölu sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 12. gr.
     b.      (45. gr.)
                  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. skal tala hæstaréttardómara frá 1. janúar 2011 vera 12, en ekki skal skipa í embætti hæstaréttardómara, sem losna eftir 1. janúar 2013, fyrr en þess gerist þörf til að ná þeirri tölu, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 4. gr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Er í því lagt til að dómurum við Hæstarétt Íslands verði fjölgað tímabundið um þrjá frá og með næstu áramótum og að dómurum við héraðsdóm verði tímabundið fjölgað um fimm frá 1. mars 2011. Er með þessum tillögum brugðist við því aukna álagi sem orðið hefur á síðustu tveimur árum á dómstóla landsins.
    Í apríl 2010 beindi dómsmálaráðuneytið þeirri fyrirspurn til dómstólaráðs og Hæstaréttar Íslands hvort hugað hefði verið að því að gerð yrði reglubundin könnun á álagi á dómstólunum svo unnt yrði að meta hvernig best væri að takast á við aukinn málafjölda hjá dómstólunum. Höfðu margir bent á að styrkja þyrfti dómstólana enn frekar til að takast á við síaukinn fjölda mála. Í svari við þessari fyrirspurn kom fram bæði hjá Hæstarétti og dómstólaráði að reglulega væri fylgst með málafjölda og álagi bæði í Hæstarétti og héraðsdómstólunum. Enn fremur kom fram hjá Hæstarétti Íslands að til að bæta úr brýnum vanda og til að koma í veg fyrir að meðferð mála hjá Hæstarétti drægist úr hófi væri nauðsynlegt að fjölga tímabundið um þrjá dómara í Hæstarétti. Í framhaldinu var komið á samvinnu milli dómsmálaráðuneytisins, Hæstaréttar Íslands, dómstólaráðs, Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands þar sem unnið var að því að greina hvernig bregðast mætti, með heildstæðum hætti, við því mikla viðbótarálagi sem dómstólarnir stæðu nú frammi fyrir. Í þeirri vinnu kom m.a. fram að nauðsynlegt væri að fjölga dómurum við héraðsdómstólana um allt að 10 í áföngum.
    Með lögum nr. 147/2009, sem gildi tóku í árslok 2009, var dómurum í héraði fjölgað tímabundið um fimm þ.e. er úr 38 í 43. Var þar gert ráð fyrir að eftir 1. janúar 2013 yrði ekki skipað í þær dómarastöður sem losnuðu þar til fjöldi dómara yrði aftur 38. Fram hefur komið hjá dómstólaráði að þessi fjölgun dómara muni hvergi nærri duga til að ráða við það gríðarlega álag sem fyrirsjáanlegt er að verði á héraðsdómstólunum á komandi árum. Fyrirsjáanlegt sé að ágreiningsmál frá slitastjórnum vegna krafna í þrotabú, einkum þrotabú fjármálafyrirtækja, muni verða mikil að umfangi og berast héraðsdómi hratt. Hafa héraðsdómi Reykjavíkur, frá 1. janúar 2010, borist 532 slík mál og er 500 þeirra ólokið. Munu mál af þessum toga koma fyrir héraðsdóm af fullum þunga á árinu 2011 og meðferð þeirra standa yfir fram eftir ári 2012. Mál þessi munu væntanlega koma fyrir Hæstarétt af fullum þunga frá og með árinu 2011 eða í byrjun árs 2012. Mál frá sérstökum saksóknara munu berast jafnar og yfir lengra tímabil. Sumarið 2010 hefur einungis eitt slíkt mál verið þingfest fyrir héraðsdómi. Ekkert stórt mál er komið og mun það fyrsta stóra væntanlega fyrst koma á árinu 2011. Gert er ráð fyrir að mál frá sérstökum saksóknara muni síðan dreifast yfir tímabil fram til ársins 2013 til 2014 og væntanlega koma til afgreiðslu í Hæstarétti í lok ársins 2011 eða í byrjun árs 2012. Því telur dómstólaráð að nauðsynlegt sé að fjölga enn frekar í hópi dómara og nauðsynlegt geti verið að auka fjölda þeirra um allt að 10 til viðbótar við þá 43 sem nú eru skipaðir. Það liggur þó ekki ljóst fyrir á þessu stigi hvenær þörf verði fyrir svo marga dómara en áfram verður fylgst náið með fjölgun mála og auknu álagi á héraðsdómstólana. Í frumvarpi þessu er því lagt til að frá og með 1. mars 2011 fjölgi dómurum í héraði um fimm þannig að þeir verði 48 talsins. Á sama hátt og áður er hér um tímabundna fjölgun að ræða og áfram gert ráð fyrir að eftir 1. janúar 2013 verði ekki skipað í þær dómarastöður sem losna. Fram hefur komið hjá dómstólaráði að búast megi við að mesta álagið verði hjá héraðsdómi Reykjavíkur og héraðsdómi Reykjaness. Má því búast við að hinir nýju dómarar muni koma til starfa hjá þessum tveimur dómstólum.
    Dómarar í Hæstarétti eru nú níu. Lagt er til í frumvarpinu að frá og með næstu áramótum fjölgi þeim um þrjá og verði samtals 12. Á sama hátt og með dómara í héraði er um tímabundna fjölgun dómara að ræða þannig að eftir 1. janúar 2013 verði ekki skipað í þær dómarastöður sem losna þar til fjöldi hæstaréttardómara verði aftur níu.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um dómstóla,
nr. 15/1998, með síðari breytingu.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að dómurum við Hæstarétt verði fjölgað um þrjá frá og með 1. janúar 2011 og dómurum hjá héraðsdómstólum verði fjölgað um fimm frá og með 1. mars 2011. Dómarar verði því tólf hjá Hæstarétti og 48 hjá héraðsdómstólum að teknu tilliti til þeirra fimm dómara sem bætt var við hjá héraðsdómstólum til bráðabirgða með lögum nr. 147/2009. Í báðum tilfellum er gert ráð fyrir því að ekki verði ráðið í stöður sem losna frá og með 1. janúar 2013 þar til dómarar hjá Hæstarétti verða aftur orðnir 9 og 38 hjá héraðsdómstólum.
    Áætlað er að launakostnaður vegna þriggja dómara í Hæstarétti sé 40 m.kr. á ári. Þá er og gert ráð fyrir að ráðnir verði til viðbótar tveir aðstoðarmenn dómara auk hálfs stöðugildis skrifstofumanns. Viðbótarlaunakostnaður aðstoðarmanna er áætlaður um 19 m.kr. og heildarlaunakostnaður vegna fjölgunar í Hæstarétti því 59 m.kr. á ársgrundvelli. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir að starfstengdur kostnaður geti verið um 1,2 m.kr. og tímabundinn stofnkostnaður vegna aðstöðu um 3,6 m.kr. Samtals er því gert ráð fyrir að kostnaðarauki fyrir Hæstarétt á næsta ári verði tæpar 64 m.kr. en um 60 m.kr. á ársgrundvelli eftir það.
    Áætlaður launakostnaður vegna fimm dómara við héraðsdómstóla er áætlaður um 56 m.kr. á ársgrundvelli. Gert ráð fyrir að fjölgun héraðsdómara taki gildi 1. mars nk. og þannig verði hækkun launakostnaðar á næsta ári um 42 m.kr. Þá er gert ráð fyrir að aðstoðarmönnum dómara verði fjölgað um tvo og dómriturum um tvo frá sama tíma. Árlegur launakostnaður vegna þeirra er áætlaður um 22 m.kr. og því rétt rúmar 16 m.kr. á næsta ári. Gert er ráð fyrir því að dómurum muni fyrst og fremst fjölga hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og að núverandi húsnæði muni ekki rúma þessa fjölgun. Því er talið óhjákvæmilegt að leigja viðbótarhúsnæði, sem jafnframt hafi dómsali, og er áætlað að árlegur leigukostnaður og starfsaðstaða verði um 8,5 m.kr. Samtals er því áætlað að kostnaðarauki vegna fjölgunar dómara hjá héraðsdómstólum verði um 85,5 m.kr. á ári og um 64 m.kr. komi til vegna fjölgunarinnar á næsta ári.
    Til að vega upp á móti þeim útgjaldaauka sem samþykkt frumvarpsins hefur í för með sér er ráðgert að dómsmálagjöld verði hækkuð a.m.k. til jafns við hann. Frumvarp vegna hækkunar gjaldanna er í undirbúningi og verður lagt fram fljótlega.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er því gert ráð fyrir að kostnaður ríkissjóðs aukist á næsta ári um 128 m.kr. og að árlegur kostnaðarauki eftir það verði 145,5 m.kr. Erfitt getur verið að meta hvenær dregur úr þörf fyrir þessar fjárveitingar því allmörg ár getur tekið að fækka dómurum aftur í samræmi við ákvæði frumvarpsins eftir 1. janúar 2013 með því einu að ráða ekki í stöður sem losna. Gert er ráð fyrir að á móti verði innheimt hærri dómsmálagjöld í ríkissjóð þannig að afkoma hans verður óbreytt eftir sem áður. Ekki hefur hins vegar verið gert ráð fyrir þessum auknu útgjöldum í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár né auknum tekjum til að mæta honum.