Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 21. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 297  —  21. mál.




Svar



efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ólínu Þorvarðardóttur um skuldastöðu sjávarútvegsins og meðferð sjávarútvegsfyrirtækja hjá lánastofnunum.


     1.      Hver er skuldastaða íslenskra útgerðarfyrirtækja hjá bönkunum annars vegar og Byggðastofnun hins vegar?
    
Fjármálaeftirlitið safnaði upplýsingum um skuldastöðu íslenskra útgerðarfyrirtækja frá Byggðastofnun, Arion banka hf., NBI hf. og Íslandsbanka hf., en þessir lögaðilar eiga flest lán sem tilheyra íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum, bæði með veiði og vinnslu. Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja við fyrrnefnda banka og Byggðastofnun nema samtals 403.908 millj. kr. Sú fjárhæð tekur mið af skuldum sjávarútvegsfyrirtækjanna en ekki bókfærðu virði fjármálafyrirtækjanna. Bókfært virði fjármálafyrirtækjanna er það virði sem þau telja lánið vera við núverandi aðstæður að frádregnum afföllum.

     2.      Hve mikið hefur verið afskrifað af skuldum útgerðarinnar hjá bönkunum og hjá Byggðastofnun?
    
Samkvæmt svari frá Fjármálaeftirlitinu nema afskriftir skulda hjá Arion banka hf., NBI hf., Íslandsbanka hf.og Byggðastofnun samtals 6.411 millj. kr.

     3.      Eru til verklagsreglur í bönkunum og í Byggðastofnun um afskriftir á skuldum sjávarútvegsfyrirtækja og hverjar eru þær?
    
Bankar hafa reglur um eftirgjöf skulda, óháð því í hvaða atvinnugrein viðskiptavinurinn starfar. Einnig má vekja athygli á því að aðilar að Samtökum fjármálafyrirtækja (SFF) hafa gefið út sameiginlegar reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Til viðbótar við sameiginlegar reglur SFF hafa bankarnir, hver fyrir sig, sett vinnureglur um endurskipulagningu fyrirtækja og birt úrræði fyrirtækja í endurskipulagningu á vefsíðum sínum. Sum úrræðanna kunna að fela í sér niðurfellingar á skuldum.
    Í svari Byggðastofnunar við fyrirspurn Fjármálaeftirlitsins er vísað í 16. gr. reglugerðar fyrir Byggðastofnun nr. 347/2000 þar sem segir að stofnunin megi ekki gefa eftir veitt lán nema sérstakar ástæður mæli með. Byggðastofnun hefur auk þess sett sér reglur um skuldbreytingar og skilmálabreytingar.

     4.      Hafa lán sjávarútvegsfyrirtækja verið fryst eftir bankahrunið hjá bönkunum og Byggðastofnun? Hvaða upphæðir er um að ræða og til hve langs tíma?
    
Bæði Seðlabanki Íslands (SÍ) og Fjármálaeftirlitið (FME) hafa gert úttekt á frystingu lána hjá fjármálafyrirtækjum.
    Úttekt SÍ var byggð á afriti af gagnagrunnum lánastofnana yfir lán til fyrirtækja þann 30. júní 2009. Í riti SÍ, Fjármálastöðugleiki 2009, bls 51, kemur fram að þá höfðu 21% útistandandi lána til fyrirtækja í sjávarútvegi verið fryst. Ekki kemur fram til hve langs tíma frystingin tekur og hefur SÍ ekki nýrri upplýsingar um frystingu lána.
    Samkvæmt nýlegri úttekt FME eru fryst lán hjá Arion banka hf., NBI hf., Íslandsbanka hf.og Byggðastofnun samtals 137.080 millj. kr. Við yfirferð FME á upplýsingum frá fjármálafyrirtækjum kom í ljós að skilgreining þeirra á „frystum lánum“ er mismunandi og því ber að taka fjárhæðina með fyrirvara. Hins vegar virðist sem hluti af þeim lausnum sem þau hafa boðið viðskipavinum sínum sé frestun afborgana lána og virðist almenna reglan vera sú að ekki eru veittir frestir á vaxtagreiðslum nema þá að hluta.

     5.      Sér ráðherra ástæðu til þess að fram fari opinber rannsókn á viðskiptaaðferðum og skuldafyrirgreiðslu sjávarútvegsfyrirtækja hjá íslenskum lánastofnunum?

    Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki skal Fjármálaeftirlitið setja reglur um hvað teljist eðlilegir og heilbrigðir viðskiptahættir fjármálafyrirtækja og hafa eftirlit með starfsháttum fjármálafyrirtækja. Fjármálafyrirtækjum ber að fylgja viðurkenndum leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja. Í því skyni skulu þau m.a. birta árlega yfirlýsingu um stjórnarhætti fyrirtækisins í sérstökum kafla í ársreikningi eða ársskýrslu og gera grein fyrir stjórnarháttum sínum á vefsíðu fyrirtækisins og birta þar yfirlýsingu um stjórnarhætti sína.
    Nefnd um sértæka skuldaaðlögun sem starfar skv. 4. gr. laga nr. 107/2009 ,um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins, hefur skilað skýrslu um framkvæmd skuldaaðlögunar fyrirtækja. Nefndinni er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar. Markmið laganna er að jafnvægi komist á virði eigna og greiðslugetu annars vegar og fjárskuldbindingar einstaklinga, fyrirtækja og heimila hins vegar. Lögin kveða á um leiðir og viðmið til að ná því markmiði. Niðurstaða nefndarinnar er í megindráttum sú að umgjörð sértækrar skuldaaðlögunar fyrirtækja sé ásættanleg þótt hægt hafi gengið að ljúka málum. Nefndin hefur ekki gert sérstakar athugasemdir við meðferð fjármálastofnana á skuldum sjávarútvegsfyrirtækja.
    Ráðuneytið vinnur nú að því í samstarfi við fjármálafyrirtækin að bæta umgjörð um meðferð skuldamála fyrirtækja, m.a. í kjölfar tillagna nefndar um sértæka skuldaaðlögun. Verið er að móta ný viðmið sem flýta eiga skuldaaðlögun fyrirtækja og tryggja að hagkerfið nái vopnum sínum að nýju. Gert er ráð fyrir að meginreglan verði sú að heildarskuldsetning lítilla og meðalstórra fyrirtækja fari ekki fram úr eigna- eða rekstrarvirði þeirra, hvort sem er hærra. Verulegur árangur í skuldaaðlögun heimila og fyrirtækja á næstu mánuðum mun auka hagvöxt til framtíðar með aukinni atvinnu og bættum kaupmætti. Þessu til viðbótar er unnið að því að styrkja nefnd um sértæka skuldaaaðlögun og auka aðgengi hennar að upplýsingum.