Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 78. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 350  —  78. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um mannvirki.

Frá umhverfisnefnd.



     1.      Við 1. gr.
                  a.      Í stað orðanna „Að vernda líf, heilsu fólks“ í a-lið komi: Að vernda líf og heilsu fólks.
                  b.      Í stað orðanna „stuðla að“ í e-lið komi: tryggja.
     2.      Við 2. gr.
                  a.      2. og 3. málsl. 1. mgr. orðist svo: Lögin gilda um alla þætti mannvirkja, svo sem gerð burðarvirkja, lagnir, þ.m.t. neysluvatnslagnir, hitalagnir, fráveitulagnir, raflagnir, loftræsilagnir, gaslagnir og öryggiskerfi, fjarskiptabúnað, eldvarnir, þ.m.t. vatnsúðakerfi og önnur slökkvikerfi, og byggingarvörur, bæði á markaði og í mannvirkjum. Lögin gilda einnig um gróður á lóðum, frágang og útlit lóða, girðingar í þéttbýli, skilti, möstur, gáma og leik- og íþróttasvæði.
                  b.      Í stað orðsins „göngubrýr“ í 2. mgr. komi: umferðar- og göngubrýr.
     3.      Við 3. gr.
                  a.      Á eftir 1. tölul. komi tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
                      2.      Aðgengi fyrir alla: Með aðgengi fyrir alla er átt við að fólki sé ekki mismunað um aðgengi og almenna notkun mannvirkja á grundvelli fötlunar, skerðinga eða veikinda og það geti með öruggum hætti komist inn og út úr mannvirkjum, jafnvel við óvenjulegar aðstæður, t.d. í eldsvoða. Jafnframt séu sjónarmið algildrar hönnunar höfð að leiðarljósi við hönnun bygginga og umhverfis þeirra.
                      3.      Algild hönnun: Hönnun framleiðsluvara, umhverfis, áætlana og þjónustu sem allir geta nýtt sér, að því marki sem aðstæður leyfa, án þess að koma þurfi til sérstök útfærsla eða hönnun. Algild hönnun útilokar ekki hjálpartæki fyrir fatlaða sé þeirra þörf.
                  b.      3. tölul. orðist svo: Byggingarleyfi: Skriflegt leyfi byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnunar til að byggja hús eða önnur mannvirki, breyta þeim eða rífa, eða breyta notkun þeirra, útliti eða formi. Leyfið felur í sér samþykkt aðal- og séruppdrátta og framkvæmdaáforma, og heimild til að hefja framkvæmdir að uppfylltum skilyrðum, sbr. 13. gr.
                  c.      4. tölul. orðist svo: Byggingarlýsing: Í byggingarlýsingu er gerð grein fyrir uppbyggingu mannvirkis, helstu byggingarefnum og áferð og því lýst hvort mannvirki er búið loftræsingu eða öryggiskerfum. Þar er einnig gerð grein fyrir því hvernig mannvirkið uppfyllir ákvæði laga, reglugerða og staðla. Í byggingarlýsingu er greinargerð um notkun eða starfsemi í mannvirkinu, aðgengi, áætlaðan fjölda starfsmanna og mestan fjölda fólks í salarkynnum eftir því sem við á.
                  d.      5. tölul. orðist svo: Byggingarvara: Vara sem framleidd er með það fyrir augum að hún verði varanlegur hluti af einhvers konar mannvirki.
                  e.      8. tölul. orðist svo: Evrópskt tæknisamþykki: Matsskjal um hæfi byggingarvöru til tiltekinna nota, byggt á viðeigandi grunnkröfum. Evrópskt tæknisamþykki tekur til krafna sem gerðar eru til vörunnar, til aðferða til að sannprófa og votta samræmi við grunnkröfurnar og til upplýsinga um eiginleika vörunnar. Evrópusamtök um tæknisamþykki (EOTA) gefa út evrópskt tæknisamþykki.
                  f.      Fyrri málsliður 10. tölul. orðist svo: Hvers konar jarðföst, manngerð smíð, svo sem hús og aðrar byggingar eða skýli, virkjanir, dreifi- og flutningskerfi rafveitna, hitaveitna, vatnsveitna og fjarskipta, fráveitumannvirki, umferðar- og göngubrýr í þéttbýli, stór skilti og togbrautir til fólksflutninga.
                  g.      11. tölul. orðist svo: Markaðssetning byggingarvöru: Hvers konar dreifing eða sala byggingarvöru.
                  h.      Í stað orðsins „framkvæmir“ í 12. tölul. komi: annast.
                  i.      13. tölul. orðist svo: Samhæfðir evrópskir staðlar: Staðlar sem samdir hafa verið með hliðsjón af grunnkröfum og Staðlasamtök Evrópu (CEN) eða Rafstaðlasamtök Evrópu (CENELEC) hafa samþykkt í umboði Evrópusambandsins og EFTA.
                  j.      14. tölul. orðist svo: Hönnunarstjóri: Hönnuður aðaluppdrátta eða sá sem eigandi mannvirkis ræður til að bera ábyrgð á samræmingu hönnunargagna, sbr. 4. mgr. 23. gr.
                  k.      Í stað orðsins „framkvæma“ í 22. tölul. komi: annast.
                  l.      23. tölul. falli brott.
     4.      Við 4. gr.
                  a.      Í stað orðsins „Byggingarstofnun“ í 1. mgr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarfalli: Mannvirkjastofnun.
                  b.      Í stað orðanna „framkvæmd eftirlits“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: eftirlit.
     5.      Við 5. gr.
                  a.      Á eftir 3. málsl. 1. mgr. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Mannvirkjastofnun skal árlega gefa út skýrslu um stöðu og þróun mannvirkjagerðar í landinu.
                  b.      Í stað orðsins „kynningar“ í 6. tölul. 1. mgr. komi: kynningu.
                  c.      8. tölul. 1. mgr. orðist svo: að standa fyrir námskeiðum til réttinda fyrir hönnuði og byggingarstjóra og veita hönnuðum, iðnmeisturum og slökkviliðsmönnum löggildingu.
                  d.      Í stað orðanna „á sviði mannvirkjamála og brunavarna“ í 12. tölul. 1. mgr. komi: á sviði brunavarna, mannvirkjamála og manngerðs umhverfis.
                  e.      Í stað orðanna „framkvæmd eldvarnaeftirlits“ í 13. tölul. 1. mgr. komi: eldvarnaeftirlit; og í stað orðsins „kolvetnis“ komi: vetniskola.
                  f.      Í stað orðsins „starf“ í 14. tölul. 1. mgr. komi: starfi.
                  g.      Í stað orðanna „umsagnir um ágreiningsmál“ í 16. tölul. 1. mgr. komi: umsögn um álitamál.
                  h.      2. mgr. falli brott.
     6.      Við 6. gr.
                  a.      Síðari málsliður 1. mgr. orðist svo: Forstjóri skal hafa háskólamenntun á sviði mannvirkjamála.
                  b.      Við 2. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Starfsmönnum Mannvirkjastofnunar er óheimilt að starfa við hönnun mannvirkja.
     7.      Við 7. gr. 1. mgr. orðist svo:
             Sveitarstjórn er heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar.
     8.      Við 8. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Í hverju sveitarfélagi skal starfa byggingarfulltrúi sem sveitarstjórn ræður. Hann hefur eftirlit með mannvirkjagerð sem fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. Sveitarfélög geta haft samstarf um byggingareftirlit og ráðið sameiginlegan byggingarfulltrúa.
                  b.      Orðin „nema með sérstöku samþykki sveitarstjórnar“ í 4. mgr. falli brott.
     9.      Við 9. gr.
                  a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Um byggingarleyfi vegna bygginga tengdra fráveitumannvirkjum og dreifi- og flutningskerfum hitaveitna, vatnsveitna, rafveitna og fjarskipta fer skv. 1. og 2. málsl.
                  b.      Við a-lið 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sé mannvirki á hafi eigi fjær ytri mörkum netlaga en eina sjómílu skal leita umsagnar næsta sveitarfélags, eins eða fleiri eftir atvikum, við umfjöllun um byggingarleyfisumsókn.
                  c.      Fyrri málsliður 4. mgr. orðist svo: Leiki vafi á því hvort mannvirki er háð byggingarleyfi eða fellur undir 2. eða 3. mgr. skal leita niðurstöðu úrskurðarnefndar, sbr. 59. gr.
                  d.      Í stað orðanna „útlit og form þess“ í 5. mgr. komi: útlit þess og form.
     10.      Við 10. gr. Í stað orðsins „samræmingaraðili“ í 1. mgr. og sama orðs hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarfalli: hönnunarstjóri.
     11.      Við 12. gr.
                  a.      Í stað orðsins „framkvæmd“ í 2. mgr. komi: fara fram.
                  b.      3. mgr. orðist svo:
                     Prófun, skoðun og vottun skv. 1. og 2. mgr. skulu fara fram í samræmi við viðeigandi staðla og skulu þeir sem þetta annast hafa til þess viðurkenningu frá Mannvirkjastofnun. Heimilt er útgefanda byggingarleyfis að krefjast þess að faggiltur aðili annist þetta, sbr. lög um faggildingu o.fl., nr. 24/2006. Séu ekki til staðlaðar prófunarlýsingar skal prófandi leggja fram skriflega lýsingu um prófunina ásamt rökstuðningi fyrir réttmæti prófunaraðferðar.
     12.      Við 1. mgr. 13. gr.
                  a.      Við 3. tölul. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Undanskilin eru þó gjöld sem falla ekki í gjalddaga fyrr en við útgáfu byggingarleyfis.
                  b.      Í stað orðanna „við framkvæmd hönnunar“ í 6. tölul. komi: vegna hönnunarinnar.
     13.      Við 14. gr.
                  a.      Í stað orðanna „ófullgerðar byggingarframkvæmdir“ í 3. mgr. komi: ófullgert mannvirki, byggingarefni og lóð.
                  b.      Orðið „aðilar“ í 4. mgr. falli brott.
     14.      Við 15. gr.
                  a.      2. mgr. orðist svo:
                     Eigandi skal hafa virkt innra eftirlit með því að þeir sem hann ræður til að hanna, byggja og reka mannvirkið fari eftir ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Hönnunarstjóri annast innra eftirlit eiganda við hönnun mannvirkis, sbr. 4. mgr. 23. gr. Byggingarstjóri mannvirkis annast innra eftirlit eiganda frá því að byggingarleyfi er gefið út og þar til lokaúttekt hefur farið fram. Hönnunarstjóri og byggingarstjóri skulu gera eiganda grein fyrir tilhögun innra eftirlits samkvæmt því sem nánar er kveðið á um í reglugerð og samningi við eiganda.
                  b.      Í stað orðanna „Eftirtaldir aðilar“ í 4. mgr. komi: Þessir.
     15.      Við 16. gr.
                  a.      Í stað orðsins „skoðana“ í fyrri málslið 2. mgr. komi. skoðunar.
                  b.      Við 4. mgr. bætist: eftir því sem nánar er kveðið á um í reglugerð.
     16.      17. gr. orðist svo, ásamt fyrirsögn:

Tilhögun eftirlits með mannvirkjum.


             Eftirliti með mannvirkjum skal hagað í samræmi við ákvæði skoðunarhandbóka sem Mannvirkjastofnun býr til á grundvelli ákvæða laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Í skoðunarhandbókinni skulu m.a. vera ákvæði um úttektir, eftirlitsaðferðir, skoðunaráætlanir og viðkomandi eftirlitsstörf.
             Komi upp ágreiningur um tæknileg atriði við túlkun skoðunarhandbókar skv. 1. mgr. og um tilhögun eftirlits á grundvelli hennar skal leita álits Mannvirkjastofnunar. Ef ágreiningur snýst um eftirlit Mannvirkjastofnunar skal leita álits ráðherra. Mannvirkjastofnun getur að eigin frumkvæði gefið út álit um tæknilegt eftirlit með tiltekinni mannvirkjagerð eða með mannvirkjagerð almennt. Álit Mannvirkjastofnunar og eftir atvikum ráðherra er bindandi fyrir alla aðila máls og sætir ekki endurskoðun úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.
             Hafi skoðunarstofa farið yfir hönnunargögn eða annast úttekt takmarkast yfirferð útgefanda byggingarleyfis við framlagða skoðunarskýrslu. Sama gildir ef skoðunarstofa annast aðra þætti byggingareftirlits. Útgefandi byggingarleyfis, sem og Mannvirkjastofnun, getur þó tekið til athugunar að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu hvort eftirlit skoðunarstofu samræmist lögum og skilyrðum í starfsleyfi hennar. Taki byggingarfulltrúi slíkt mál til athugunar skal hann tilkynna það Mannvirkjastofnun án tafar.
             Byggingarfulltrúi getur ávallt ákveðið að leitað skuli umsagnar annarra eftirlitsaðila, svo sem slökkviliðs eða heilbrigðiseftirlits, við yfirferð uppdráttar, óháð því hvort byggingarfulltrúi eða skoðunarstofa annast eftirlitið.
             Hafi hönnuðir, byggingarstjórar eða iðnmeistarar ekki hlotið vottun faggiltrar vottunarstofu á gæðastjórnunarkerfum sínum skal Mannvirkjastofnun gera úttekt á gerð og virkni þessara gæðastjórnunarkerfa. Mannvirkjastofnun er heimilt að fela faggiltri vottunarstofu að annast úttekt af þessu tagi. Uppfylli gæðastjórnunarkerfi ekki ákvæði laga þessara eða reglugerða settra samkvæmt þeim skal gefa viðkomandi hönnuði, byggingarstjóra eða iðnmeistara kost á að bæta úr nema um alvarlegt brot sé að ræða. Um alvarleg og ítrekuð brot fer samkvæmt ákvæðum 57. gr.
     17.      Við 19. gr. Í stað orðanna „yfirfara hönnunargögn og framkvæma úttektir“ komi: fara yfir hönnunargögn og annast úttektir.
     18.      Við 20. gr.
                  a.      1. og 2. mgr. orðist svo:
                     Sveitarstjórn og Mannvirkjastofnun er heimilt að ákveða að tiltekna þætti eftirlits þeirra með mannvirkjum annist skoðunarstofa sem hefur til þess starfsleyfi Mannvirkjastofnunar. Beiting réttar- og þvingunarúrræða samkvæmt lögum þessum skal þó ávallt vera í höndum leyfisveitanda. Sé hönnun mannvirkis sérstaklega vandasöm getur byggingarfulltrúi við meðferð byggingarleyfisumsóknar ákveðið að faggilt skoðunarstofa annist eftirlit með viðkomandi framkvæmd í heild eða að hluta.
                     Ákveði sveitarstjórn, byggingarfulltrúi eða Mannvirkjastofnun að skoðunarstofa annist eftirlit, sbr. 1. mgr., skal eigandi mannvirkisins ráða slíka skoðunarstofu til verksins og greiða kostnað við eftirlitið, enda hafi skoðunarstofan starfsleyfi skv. 3. mgr. Byggingarfulltrúa og Mannvirkjastofnun er í slíkum tilvikum einungis heimilt að taka gjald sem nemur kostnaði við þá þætti eftirlitsins sem þau annast.
                  b.      Í stað orðsins „skoðunarstofa“ í 1. málsl. 3. mgr. komi: skoðunarstofu.
     19.      Við 21. gr.
                  a.      Í stað orðanna „sem viðurkennd er af Byggingarstofnun“ í 1. og 2. málsl. a-liðar 1. mgr. komi: sem Mannvirkjastofnun viðurkennir.
                  b.      Í stað orðanna „yfirferð hönnunargagna eða framkvæmd úttekta“ í 2. mgr. komi: yfirferð hönnunargagna eða úttekt.
     20.      Í stað orðsins „framkvæmd“ í fyrirsögn IV. kafla komi: tilhögun.
     21.      Við 23. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Hönnuðir sem hafa fengið löggildingu, sbr. 25. og 26. gr., skulu gera aðal- og séruppdrætti.
                  b.      3. mgr. orðist svo:
                     Hönnuður séruppdráttar ber ábyrgð á því að hönnun hans samræmist aðaluppdrætti.
                  c.      3. og 4. málsl. 4. mgr. orðist svo: Hönnunarstjóri skal árita séruppdrætti til staðfestingar á því að samræming hafi farið fram áður en leyfisveitandi samþykkir þá. Hönnunarstjóri skal áður en byggingarleyfi er gefið út leggja fram yfirlit um innra eftirlit við hönnunarstörf.
                  d.      Við 5. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um ábyrgðartryggingu hönnuðar.
     22.      1. mgr. 24. gr. orðist svo:
             Hönnuðir og hönnunarstjórar skulu hafa gæðastjórnunarkerfi í samræmi við nánari fyrirmæli í reglugerð. Hönnuður skal í upphafi hvers byggingarleyfisskylds verks skilgreina það innan síns gæðastjórnunarkerfis. Gæðastjórnunarkerfi hönnuðar skal a.m.k. fela í sér staðfestingu á hæfni hönnuðar og á endurmenntun hans, skráningu á ákvörðunum hans við einstakar framkvæmdir, gátlista um samræmi hönnunargagna við reglur og staðla, skrá um samþykkt hönnunargögn, þ.m.t. allar breytingar á hönnunargögnum sem gerðar eru á framkvæmdatíma og byggingaryfirvöld hafa samþykkt, skrá um samskipti og leiðbeiningar byggingaryfirvalda og eftirlitsaðila og skrá um athugasemdir byggingarstjóra, hönnunarstjóra, eftirlitsaðila og byggingaryfirvalda vegna hönnunargagna. Gæðastjórnunarkerfi hönnunarstjóra skal að auki innihalda skrá um innra eftirlit hönnunarstjóra á hönnunarstigi og lýsingu á því.
     23.      Við 1. mgr. 25. gr.
                  a.      Í stað orðsins „aðila“ í c-lið komi: fagmanni.
                  b.      Síðari málsliður e-liðar orðist svo: Ráðherra setur ákvæði um stærðartakmörkun viðkomandi veitna í reglugerð.
     24.      Við 26. gr.
                  a.      Í stað orðsins „aðila“ í c-lið 1. mgr. komi: fagmanni.
                  b.      2. mgr. orðist svo:
                     Ráðherra ákveður gjald sem umsækjendur greiða fyrir að þreyta próf skv. b-lið 1. mgr. Skal fjárhæðin taka mið af kostnaði við námskeið og prófhald. Mannvirkjastofnun er heimilt að fela öðrum að annast námskeið og próf fyrir hönd stofnunarinnar.
     25.      3. mgr. 27. gr. orðist svo:
             Byggingarstjóra er ekki heimilt að taka að sér ábyrgð á hönnun eða einstökum verkþáttum mannvirkjagerðar sem hann stýrir. Sé um að ræða smærri byggingu til eigin nota, svo sem bílskúr eða viðbyggingu við íbúðarhús eða frístundahús, getur eigandi þó falið einum af iðnmeisturum eða hönnuðum mannvirkisins byggingarstjórn þess enda hafi viðkomandi starfsleyfi Mannvirkjastofnunar skv. 28. gr.
     26.      Við 28. gr.
                  a.      Í stað orðanna „framkvæmd verks“ í 4. málsl. 1. mgr. komi: verkinu.
                  b.      Í stað „1.–3. tölul.“ í fyrri málslið 4. mgr. komi: 2.–3. tölul.
                  c.      Í stað orðsins „aðili“ í 5. mgr. komi: maður.
     27.      Við 29. gr.
                  a.      Í stað orðanna „framkvæmd verksins“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: verkinu.
                  b.      4. og 5. mgr. orðist svo:
                     Byggingarstjóri hefur yfirumsjón með því að aflað sé samþykktar leyfisveitanda við breytingum sem gerðar eru á hönnun eða gerð mannvirkis í byggingu og að ávallt sé unnið í samræmi við nýjustu útgáfu samþykktra hönnunargagna.
                     Byggingarstjóri skal hafa virkt eftirlit með því að þeir sem koma að byggingu mannvirkis fylgi samþykktum hönnunargögnum, verklýsingum og ákvæðum laga þessara og reglugerða sem settar eru á grundvelli þeirra. Verði byggingarstjóri við eftirlit var við ágalla á verki iðnmeistara eða hönnuðar skal hann gera viðkomandi aðvart og krefjast þess að úr sé bætt innan hæfilegs tíma. Athugasemdir byggingarstjóra skulu skráðar á viðeigandi hátt í gæðastjórnunarkerfi hans og annarra hlutaðeigandi. Sé athugasemdum byggingarstjóra ekki sinnt eða um ítrekaða vanrækslu að ræða skal hann tilkynna það eiganda. Komi verulegir ágallar á mannvirki í ljós við úttekt, við lok verkhluta eða framkvæmda, eða eftir að mannvirki er tekið í notkun, sem ekki hefur verið bætt úr og rekja má til stórfelldrar vanrækslu á verksviði einstakra iðnmeistara eða hönnuða, ber byggingarstjóri meðábyrgð á ágöllunum gagnvart eiganda, enda hefðu ágallarnir ekki átt að dyljast byggingarstjóra við eftirlit skv. 1. málsl.
                  c.      7. og 8. mgr. orðist svo:
                     Hljóti eigandi eða annar þriðji maður tjón af völdum gáleysis byggingarstjóra í starfi ber hann skaðabótaábyrgð á því samkvæmt almennum reglum. Byggingarstjóri ber ekki ábyrgð á faglegri framkvæmd verkþátta á ábyrgð einstakra iðnmeistara eða hönnuða né því að iðnmeistarar og aðrir sem að verkinu koma uppfylli skyldur sínar samkvæmt verk- eða kaupsamningi.
                     Byggingarstjóri skal hafa fullnægjandi ábyrgðartryggingu sem gildir í a.m.k. fimm ár frá lokum þeirra framkvæmda sem hann stýrði. Skaðabótaábyrgð byggingarstjóra fyrnist samkvæmt ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda. Nánari ákvæði um ábyrgðartryggingu byggingarstjóra skulu koma fram í reglugerð.
     28.      1. mgr. 30. gr. orðist svo:
             Hætti byggingarstjóri umsjón með framkvæmdum áður en lokaúttekt fer fram skal hann tilkynna það á sannanlegan hátt til útgefanda byggingarleyfis. Fellur ábyrgð byggingarstjóra á verkinu niður vegna verkþátta sem ólokið er þegar leyfisveitandi tekur á móti slíkri tilkynningu. Eiganda er skylt að sjá til þess að framkvæmdir séu stöðvaðar þar til nýr byggingarstjóri hefur undirritað ábyrgðaryfirlýsingu og útgefandi byggingarleyfis hefur staðfest að hann uppfylli skilyrði 27., 28. og 29. gr. Leyfisveitandi skal án ástæðulauss dráttar frá móttöku tilkynningar samkvæmt þessu ákvæði gera úttekt á stöðu framkvæmda og skulu bæði fráfarandi byggingarstjóri, ef þess er kostur, og hinn nýi undirrita úttektina.
     29.      31. gr. orðist svo:
             Byggingarstjóri skal í upphafi hvers byggingarleyfisskylds verks skilgreina það innan síns gæðastjórnunarkerfis, sbr. 28. gr. Gæðastjórnunarkerfi byggingarstjóra skal a.m.k. fela í sér staðfestingu á hæfni byggingarstjóra og á endurmenntun hans, skráningu á ákvörðunum hans við einstakar framkvæmdir, skrá yfir úttektir og niðurstöður þeirra, skrá yfir samskipti og leiðbeiningar byggingaryfirvalda og eftirlitsaðila, skrá yfir athugasemdir við störf iðnmeistara, skrá yfir athugasemdir til hönnuða vegna hönnunargagna, skrá um innra eftirlit byggingarstjóra með framkvæmdinni og lýsingu á því, lýsingu á lokaúttekt og undirbúningi hennar þar sem m.a. er gengið frá skýrslu yfir allar úttektir, þ.m.t. öryggisúttekt, lýsingu á verki og samþykkt hönnunargögn.
     30.      Við 32. gr.
                  a.      1.–3. mgr. orðist svo:
                     Byggingarstjóri skal tilkynna útgefanda byggingarleyfis skriflega um þá húsasmíðameistara, múrarameistara, pípulagningameistara, rafvirkjameistara, blikksmíðameistara, stálvirkjameistara, málarameistara og veggfóðrarameistara sem tekið hafa að sér að bera ábyrgð á einstökum verkþáttum framkvæmdar og nauðsynlegt er að komi að viðkomandi verki, og leggja fram undirritaða ábyrgðaryfirlýsingu þeirra, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 13. gr.. Skal slík staðfesting liggja fyrir áður en byggingarleyfi er gefið út. Ekki þarf þó að tilkynna um málarameistara eða veggfóðrarameistara vegna byggingar íbúðarhúss, frístundahúss, bílskúrs, eða viðhalds og viðbyggingar slíkra mannvirkja, til eigin nota eiganda.
                     Iðnmeistari ber ábyrgð á því gagnvart eiganda mannvirkis að þeir verkþættir sem hann tekur að sér séu í samræmi við viðurkennda verkhætti, samþykkta uppdrætti, verklýsingar og ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Skaðabótaábyrgð iðnmeistara fyrnist samkvæmt ákvæðum laga um fyrningu kröfuréttinda.
                     Þeir iðnmeistarar einir geta borið ábyrgð á einstökum verkþáttum við mannvirkjagerð sem hlotið hafa til þess löggildingu Mannvirkjastofnunar. Þeir iðnmeistarar geta hlotið slíka löggildingu sem hafa meistarabréf og hafa lokið prófi frá meistaraskóla eða hafa a.m.k. sambærilega menntun á hlutaðeigandi sviði.
                  b.      6. mgr. orðist svo:
                     Iðnmeistarar skulu hafa gæðastjórnunarkerfi sem feli a.m.k. í sér staðfestingu á hæfni iðnmeistara, skrá yfir úttektir og niðurstöður þeirra og skrá yfir athugasemdir byggingarstjóra, auk skrár um innra eftirlit iðnmeistarans og lýsingu á því í samræmi við nánari ákvæði í reglugerð.
     31.      2. málsl. 2. mgr. 33. gr. orðist svo: Skal byggingarstjóri gera úttekt á þeim verkþáttum sem fráfarandi iðnmeistari hafði umsjón með og skulu bæði fráfarandi iðnmeistari, ef þess er kostur, og hinn nýi undirrita úttektina.
     32.      34. gr. orðist svo:
             Mannvirki skulu byggð þannig að þau uppfylli ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim. Gerðar skulu áfangaúttektir á einstökum verkþáttum mannvirkjagerðar þar sem eftirlitsaðili kannar hvort viðkomandi þáttur sé í samræmi við samþykkt hönnunargögn, lög þessi og reglugerðir sem settar hafa verið samkvæmt þeim.
             Byggingarstjóri mannvirkis skal fyrir hönd eiganda þess sjá til þess að áfangaúttektir fari fram og tilkynnir eftirlitsaðila um þær. Byggingarstjóra er skylt að vera viðstaddur áfangaúttektir. Enn fremur skal iðnmeistari eða sá sem hann tilnefnir í sinn stað vera viðstaddur úttekt á þeim verkþáttum sem eru á hans ábyrgðarsviði nema um annað sé samið í samningi milli iðnmeistara og eiganda.
             Geri eftirlitsaðili alvarlegar athugasemdir við úttekt verkþáttar skal byggingarstjóri sjá til þess að bætt sé úr og áfangaúttekt endurtekin.
             Leggi eigandi mannvirkis fram skriflega greinargerð um innra eftirlit byggingarstjóra getur útgefandi byggingarleyfis heimilað byggingarstjóra að gera sjálfur einstakar áfangaúttektir.
     33.      35. gr. orðist svo:
             Þegar mannvirki er tekið í notkun skal gerð úttekt á öryggi þess og hollustuháttum. Óheimilt er að flytja inn í mannvirki eða taka það í notkun nema það uppfylli öryggis- og hollustukröfur laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, og útgefandi byggingarleyfis hafi gefið út vottorð um öryggisúttekt.
             Byggingarstjóri skal fyrir hönd eiganda mannvirkis óska eftir öryggisúttekt áður en það er tekið í notkun. Viðstaddir slíka úttekt skulu auk eftirlitsaðila og byggingarstjóra vera fulltrúi slökkviliðs og þeir iðnmeistarar og hönnuðir sem þess óska eða byggingarstjóri hefur boðað. Hafi byggingarstjóri vanrækt að óska eftir öryggisúttekt áður en mannvirki er tekið í notkun skal útgefandi byggingarleyfis boða til slíkrar úttektar og skal hann tilkynna það Mannvirkjastofnun. Einnig getur eigandi mannvirkis ávallt óskað eftir öryggisúttekt.
     34.      36. gr. orðist svo:
             Innan þriggja ára frá því að mannvirki var tekið í notkun og öryggisúttekt fór fram skal gera lokaúttekt á mannvirkinu. Heimilt er að gera samtímis öryggis- og lokaúttekt.
             Byggingarstjóri skal fyrir hönd eiganda mannvirkis óska eftir lokaúttekt. Viðstaddir slíka úttekt skulu auk eftirlitsaðila vera byggingarstjóri og fulltrúi slökkviliðs. Byggingarstjóri skal tilkynna iðnmeisturum og hönnuðum mannvirkisins um lokaúttektina og gefa þeim kost á að vera viðstaddir. Hafi byggingarstjóri vanrækt að óska eftir lokaúttekt innan þeirra tímamarka sem fram koma í 1. mgr. skal útgefandi byggingarleyfis boða til slíkrar úttektar og skal hann tilkynna það Mannvirkjastofnun. Einnig getur eigandi mannvirkis óskað eftir að lokaúttekt sé gerð.
             Við lokaúttekt skal gerð úttekt á því hvort mannvirkið uppfyllir ákvæði laga þessara og reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim og hvort byggt hefur verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn.
             Sé mannvirki ekki fullgert við lokaúttekt, ef það uppfyllir ekki að öllu leyti ákvæði laga þessara eða reglugerða sem settar hafa verið samkvæmt þeim eða er ekki að öllu leyti í samræmi við samþykkt hönnunargögn, getur útgefandi byggingarleyfis gefið út vottorð um lokaúttektina með athugasemdum. Þáttum sem varða aðgengi skal þó ávallt hafa verið lokið við gerð lokaúttektar.
             Komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfyllir ekki öryggis- eða hollustukröfur getur eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr og skal þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hefur verið gert.
     35.      Við 37. gr.
                  a.      2. mgr. orðist svo:
                     Uppdrættir sem útgefandi byggingarleyfis hefur samþykkt og áritað skulu ásamt útgefnu byggingarleyfi ætíð liggja fyrir á byggingarstað og vera eftirlitsmönnum aðgengilegir.
                  b.      Síðari málsliður 3. mgr. orðist svo: Án samþykkis eiganda eða umráðamanns er þó eigi heimilt að fara í þessum tilgangi inn í íbúðarhús sem tekið hefur verið í notkun, nema að fengnum úrskurði dómara.
     36.      Við 38. gr.
                  a.      Í stað orðsins „aðili“ í 2. málsl. 1. mgr. komi: sá.
                  b.      2. mgr. orðist svo:
                     Dreifandi telst hver sá í aðfangakeðjunni með starfsemi sem ekki hefur áhrif á öryggiseiginleika framleiðsluvöru.
                  c.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Framleiðandi og dreifandi.
     37.      Við 39. gr.
                  a.      2. málsl. 1. tölul. 1. mgr. orðist svo: Í því felst að varan hafi þá eiginleika að mannvirki sem á að fella hana inn í, setja saman við eða nota við geti ef það er rétt hannað og byggt fullnægt grunnkröfum sem skilgreindar eru í viðauka við lög þessi.
                  b.      C-liður 2. tölul. 1. mgr. orðist svo: innlends tækniákvæðis, sem uppfyllir grunnkröfur sem skilgreindar eru í viðauka við lög þessi og Eftirlitsstofnun EFTA hefur samþykkt, í þeim tilvikum þegar samhæfðir evrópskir staðlar eða evrópskt tæknisamþykki eru ekki til.
                  c.      Fyrri málsliður 2. mgr. orðist svo: Mat á því hvort byggingarvara uppfyllir kröfur 1. og 2. tölul. 1. mgr. skal tilnefndur aðili með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu í samræmi við ákvæði 41. gr. annast áður en varan er markaðssett.
                  d.      Fyrirsögn greinarinnar orðist svo: Markaðssetning byggingarvöru.
     38.      Við 41. gr.
                  a.      Síðari málsliður 1. mgr. orðist svo: Framleiðandi eða umboðsmaður hans með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu ber ábyrgð á að samræmismat byggingarvöru fari fram og greiðir allan kostnað af matinu, sbr. 39. gr.
                  b.      Í stað orðanna „framkvæmd samræmismats byggingarvara“ í fyrri málslið 2. mgr. komi: samræmismat byggingarvöru.
                  c.      Fyrri málsliður 3. mgr. orðist svo: Samræmisyfirlýsing framleiðanda eða samræmisvottorð veitir ábyrgðaraðila með staðfestu innan EES rétt til að setja CE-merkið á vöruna, sbr. 43. gr., áfestan merkimiða og umbúðir eða meðfylgjandi viðskiptaskjöl.
     39.      Við 42. gr.
                  a.      Í stað orðsins „byggingarvörum“ í síðari málslið 3. mgr. komi: byggingarvöru.
                  b.      Fyrri málsliður 4. mgr. orðist svo: Sé tilnefndur aðili ekki opinber stofnun eða ríkisfyrirtæki skal hann hafa ábyrgðartryggingu sem nær til skaðabótaábyrgðar gagnvart öllum þeim sem hann kann að valda tjóni með starfsemi sinni.
     40.      Við 43. gr.
                  a.      Í stað orðsins „byggingarvörur“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: byggingarvöru.
                  b.      C-liður 1. mgr. orðist svo: varan samræmist innlendu tækniákvæði sem uppfyllir grunnkröfur sem skilgreindar eru í viðauka við lög þessi og Eftirlitsstofnun EFTA hefur samþykkt, í þeim tilvikum þegar samhæfðir evrópskir staðlar eða evrópskt tæknisamþykki eru ekki til.
                  c.      3. og 4. mgr. orðist svo:
                     Framleiðandi eða umboðsmaður hans með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu ber ábyrgð á réttri notkun merkisins í samræmi við ákvæði laga þessara og á því að CE-merkið sé sett á vöruna, áfestan merkimiða, umbúðir eða meðfylgjandi viðskiptaskjöl.
                     Þegar byggingarvara lýtur einnig ákvæðum annarra laga og reglugerða sem taka til annarra þátta og kveða einnig á um að festa skuli á hana CE-merki skal koma fram að gengið sé út frá því að viðkomandi vara sé í samræmi við ákvæði þeirra reglugerða.
     41.      44. gr. orðist svo:
             Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með því að byggingarvara á markaði uppfylli ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim. Stofnunin fylgist með byggingarvöru á markaði, aflar á skipulegan hátt upplýsinga um slíka vöru og tekur við ábendingum þess efnis frá byggingarfulltrúum, hönnuðum, byggingarstjórum, iðnmeisturum, neytendum og öðrum aðilum.
             Mannvirkjastofnun getur falið faggiltri skoðunarstofu að annast markaðseftirlit eða faggiltri prófunarstofu að prófa og meta hvort byggingarvara uppfyllir ákvæði laga þessara. Um faggildinguna gilda ákvæði laga nr. 24/2006, um faggildingu o.fl. Beiting réttarúrræða skv. 46. gr. skal vera í höndum Mannvirkjastofnunar.
             Mannvirkjastofnun getur haft samstarf við tollyfirvöld um markaðseftirlit með byggingarvöru við innflutning.
             Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um markaðseftirlit með byggingarvöru.
     42.      45. gr. orðist svo:
             Mannvirkjastofnun eða eftir atvikum þeim sem hefur verið falið markaðseftirlit með byggingarvörum, sbr. 2. mgr. 44. gr., er heimilt að skoða byggingarvöru hjá ábyrgðaraðila og seljanda, taka sýnishorn af byggingarvöru til rannsókna og krefja þá um allar nauðsynlegar upplýsingar, svo sem aðgang að skrá yfir þá sem hafa vöruna á boðstólum, samræmisvottorð, samræmisyfirlýsingar, prófunarskýrslur og tæknilegar upplýsingar.
             Framleiðandi eða dreifandi ber kostnað vegna þeirra sýnishorna sem tekin eru til rannsóknar skv. 1. mgr. Að lokinni rannsókn skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti eftir atvikum. Sýnishorn vöru samkvæmt þessari grein er að jafnaði eitt eintak vöru eða lágmarksfjöldi sem nauðsynlegur er til rannsóknar.
             Framleiðandi eða dreifandi ber allan kostnað af afturköllun vöru. Sé vara ekki í samræmi við settar reglur skal hann bera þann kostnað sem hlýst af skoðun, rannsókn og prófun, svo og annan kostnað. Framleiðandi eða dreifandi greiðir allan kostnað af tilkynningum um hættulega vöru sem beint er til almennings, svo sem kostnað við tilkynningar í fjölmiðlum. Framleiðanda eða dreifanda er heimilt að annast tilkynningu um þetta til almennings enda sé það gert með þeim hætti að eðlileg varnaðaráhrif náist.
             Sá sem ber ábyrgð á markaðssetningu byggingarvöru hér á landi skal halda skrá yfir allar vörur sem hann hefur á boðstólum og hafa tiltæk afrit af tæknigögnum vörunnar. Enn fremur skal hann að beiðni Mannvirkjastofnunar afhenda skrá með upplýsingum um birgja og þá sem bjóða fram vörur hans ef það er að mati stofnunarinnar nauðsynlegt í tengslum við rannsókn máls.
     43.      Við 46. gr.
                  a.      Á eftir orðinu „krefjast“ í síðari málslið 2. mgr. komi: þess.
                  b.      3. mgr. orðist svo:
                     Ef í ljós kemur að vara sem lýst hefur verið yfir að samræmist ákvæðum laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim uppfyllir ekki viðeigandi tækniákvæði skal Mannvirkjastofnun innkalla þá vöru eða banna eða takmarka markaðssetningu hennar.
     44.      Við 47. gr. Í stað orðsins „dreifingaraðila“ komi: dreifanda.
     45.      2. mgr. 49. gr. orðist svo:
             Eigandi mannvirkis ber ábyrgð á að við byggingu þess og rekstur sé einungis notuð byggingarvara sem uppfyllir ákvæði laga þessara.
     46.      2. málsl. 51. gr. orðist svo: Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á.
     47.      2. málsl. 52. gr. orðist svo: Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á.
     48.      Við 53. gr. Í stað orðsins „veitir“ í 2. mgr. komi: veita.
     49.      Við 54. gr.
                  a.      1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Verði manntjón eða alvarleg hætta skapast vegna tjóns á mannvirki eða tjónið er til þess fallið að skapa hættu skal Mannvirkjastofnun rannsaka tjónið og orsakir þess, tilhögun byggingareftirlits og það hvernig að hönnun mannvirkis og byggingarframkvæmdum var staðið.
                  b.      Orðin „eftir atvikum“ í 1. málsl. 3. mgr. falli brott.
                  c.      Við 4. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ráðherra setur nánari ákvæði um upplýsingagjöf samkvæmt þessari málsgrein í reglugerð.
     50.      Við 55. gr.
                  a.      Í stað orðanna „lokun mannvirkis“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: lokun mannvirkisins.
                  b.      Í stað orðanna „framkvæma slíkar aðgerðir“ í síðari málslið 2. mgr. komi: vinna slík verk.
                  c.      3. mgr. falli brott.
                  d.      Á eftir 4. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Ef þörf krefur er lögreglu skylt að aðstoða byggingarfulltrúa og Mannvirkjastofnun við þær aðgerðir er greinir í 1.–3. mgr.
                  e.      5. mgr. orðist svo:
                     Sveitarfélag eða ríkið eftir atvikum á endurkröfu á eiganda mannvirkis vegna kostnaðar sem það hefur haft af ólöglegri mannvirkjagerð og lögveð fyrir kröfu sinni í hinu ófullgerða mannvirki, byggingarefni og lóð sem um ræðir.
     51.      Við 56. gr.
                  a.      2. mgr. orðist svo:
                     Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa er heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja menn til þeirra verka sem þau skulu hlutast til um samkvæmt lögum þessum og reglugerðum, eða láta af ólögmætu atferli. Dagsektir sem byggingarfulltrúi leggur á renna í sveitarsjóð en í ríkissjóð ef Mannvirkjastofnun leggur þær á.
                  b.      4. mgr. orðist svo:
                     Dagsektir og kostnað skv. 2. og 3. mgr. má innheimta með fjárnámi og hefur sveitarfélag eða eftir atvikum ríkið lögveð fyrir kröfu sinni í hinu ófullgerða mannvirki, byggingarefni og lóð sem um ræðir.
     52.      60. gr. orðist svo:
             Ráðherra setur að tillögu Mannvirkjastofnunar og í samráði við hagsmunaaðila reglugerðir sem ná til alls landsins þar sem nánar er kveðið á um framkvæmd laga þessara. Við setningu reglugerða á grundvelli laga þessara skal haft samráð við Samband íslenskra sveitarfélaga um atriði sem varða skyldur sveitarfélaga. Í reglugerð skulu vera ákvæði um eftirfarandi atriði, sbr. einnig önnur ákvæði laga þessara um setningu reglugerða:
              1.      Kröfur sem gera skal til hönnunar og mannvirkja um útlit, rýmisstærðir og samsvörun við næsta umhverfi, hagkvæmni og notagildi, aðgengi, öryggi, heilnæmi, tæknilegan frágang og viðhald, umgengni og öryggi á vinnustöðum auk krafna um gróður á lóðum, og frágang og útlit lóða, þ.m.t. girðingar. Einnig lágmarkskröfur sem einstakir hlutar mannvirkja og mismunandi tegundir þeirra skulu uppfylla, svo sem um undirstöður, byggingarefni, burðarþol, einangrun gegn kulda, raka og hávaða, loftgæði, hljóðvist, birtu, lagnakerfi, hollustuhætti, brunavarnir og þess háttar. Jafnframt skal kveða á um kröfur til mannvirkja við verulegar breytingar á þeim eða breytingar á notkun mannvirkis. Í reglugerð er heimilt að vísa til staðla sem Staðlaráð Íslands hefur staðfest eða sett um tæknilega útfærslu eða annað sem snýr að mannvirkjum, eða til ákvæða og skuldbindinga sem fylgja aðild Íslands að alþjóðasamningum.
              2.      Hönnunargögn, byggingarlýsingar, skýrslur um innra og ytra eftirlit, greinargerðir og önnur gögn sem skila þarf vegna umsóknar um byggingarleyfi. Í reglugerð skal kveða á um kröfur til hönnunargagna mismunandi mannvirkja og mannvirkjahluta og skiptingu uppdrátta í aðal-, sér- og deiliuppdrætti. Einnig skulu vera ákvæði um hönnunargögn sem skila skal vegna virkjana og annarra sérhæfðra mannvirkja og til hvaða þátta eftirlit útgefanda byggingarleyfis skal taka.
              3.      Tilhögun innra eftirlits við byggingarframkvæmdir og þær kröfur sem gerðar eru til gæðakerfa hönnuða, hönnunarstjóra, byggingarstjóra og iðnmeistara. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að faggilt vottunarstofa skuli votta þessi gæðastjórnunarkerfi. Heimilt er að gera mismunandi kröfur til gæðakerfa samkvæmt lögum þessum eftir gerð mannvirkis.
              4.      Námskeiðshald og próf fyrir hönnuði skv. 26. gr. og lágmarksárangur til að standast það.
              5.      Nánari ákvæði um útgáfu starfsleyfis byggingarstjóra, flokkun starfsleyfa eftir gerð mannvirkja og námskeiðshald, auk ákvæða um starfshætti, ábyrgð og verksvið byggingarstjóra, sbr. 27.–31. gr.
              6.      Skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis til handa faggiltri skoðunarstofu, sbr. 20. gr., gildistíma starfsleyfis, starfsemi skoðunarstofu, hæfi skoðunarmanna, sbr. 21. gr., og hvaða þáttum byggingareftirlits skoðunarmönnum I –III er heimilt að sinna eftir gerð og umfangi mannvirkis og eftir því hvort um er að ræða yfirferð hönnunargagna eða úttekt.
              7.      Úttektarskyldu, gerð áfangaúttekta, öryggisúttektar og lokaúttektar, þar sem m.a. er kveðið á um þau gögn sem leggja þarf fram vegna þeirra.
              8.      Staðsetningu, gerð og frágang skilta auk ákvæða um hvaða skilti skulu háð byggingarleyfi.
              9.      Skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir gáma, báta, torgsöluhús, stór samkomutjöld og þess háttar sem ætlað er að standa utan skipulagðra svæða fyrir slíka hluti í lengri tíma en tvo mánuði. Í reglugerð skal kveðið á um atriði sem varða öryggi og hollustuhætti vegna þessara lausafjármuna og um heimildir byggingarfulltrúa til þess að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir ef ekki eru uppfyllt ákvæði reglugerðarinnar.
              10.      Frágang leiksvæða, íþróttasvæða og annarra opinna svæða.
              11.      Nánari ákvæði um gagnasafn Mannvirkjastofnunar um mannvirki og mannvirkjagerð, hvað skal skrá þar og með hvaða hætti. Skoðunarhandbók skal vera hluti af gagnasafni Mannvirkjastofnunar og skal birt sem fylgiskjal við reglugerð. Í skoðunarhandbókinni skulu m.a. vera ákvæði um úttektir, eftirlitsaðferðir, skoðunaráætlanir og mismunandi eftirlitsstörf.
              12.      Nánari ákvæði um byggingareftirlit og verksvið byggingarfulltrúa og Mannvirkjastofnunar.
              13.      Nánari ákvæði um beitingu þvingunarúrræða skv. 55.–57. gr.
     53.      2. mgr. 62. gr. orðist svo:
             Ákvæði laga þessara og reglugerða settra samkvæmt þeim eiga við um mannvirkjamál á varnar- og öryggissvæðum, sbr. þó ákvæði 1. mgr. 21. gr. laga nr. 34/2008. Mannvirkjastofnun gefur í umboði utanríkisráðherra út byggingar- og framkvæmdaleyfi og hefur eftirlit með mannvirkjagerð og öðrum leyfisskyldum framkvæmdum á varnar- og öryggissvæðum. Gerður skal þjónustusamningur milli Mannvirkjastofnunar og utanríkisráðherra um byggingareftirlit stofnunarinnar samkvæmt þessari grein.
     54.      Við 63. gr.
                  a.      Í stað orðanna „er varða“ í 1. málsl. 1. mgr. komi: sem varða.
                  b.      2. mgr. orðist svo:
                     Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstök atvinnugrein, stofnun eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekk að ástæðulausu.
     55.      1. mgr. 64. gr. orðist svo:
             Lög þessi öðlast þegar gildi nema 6. tölul. 65. gr. sem öðlast gildi 1. janúar 2012.
     56.      Við 65. gr. bætist þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
              5.      Við 1. mgr. 19. gr. laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Í þeim tilvikum sem Mannvirkjastofnun getur út byggingarleyfi ber stofnunin ábyrgð á tilkynningum til Þjóðskrár Íslands samkvæmt þessari grein.
              6.      Eftirfarandi breytingar verða á lögum nr. 146/1996, um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga:
                      a.      Eftirfarandi breytingar verða á 6. gr. laganna:
                        1.    1. mgr. orðast svo:
                                     Umhverfisráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum. Eftirlit með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga samkvæmt lögum þessum skal vera í höndum Mannvirkjastofnunar.
                        2.    3. mgr. fellur brott.
                      b.      Orðin „eða Neytendastofa, sé um að ræða rafföng sem ekki eru varanlega tengd mannvirkjum“ í 2. mgr. 9. gr. laganna falla brott.
                      c.      2. málsl. 10. gr. laganna fellur brott.
                      d.      Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
                        1.    3. málsl. 1. mgr. fellur brott.
                        2.    5. mgr. fellur brott.
                        3.    2. málsl. 6. mgr. fellur brott.
                        4.    Í stað 8.–10. mgr. koma tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                                     Málskot skv. 7. mgr. frestar ekki framkvæmd ákvörðunar. Ákvarðanir Mannvirkjastofnunar verða ekki bornar undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála liggur fyrir.
                                     Nú vill aðili ekki una úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála og getur hann þá höfðað mál til ógildingar fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðili fékk vitneskju um úrskurð úrskurðarnefndar. Málshöfðun frestar ekki gildistöku úrskurðar nefndarinnar né heimild til aðfarar.
                      e.      Orðin „Neytendastofu“ og „eða Neytendastofa“ í 12. gr. falla brott.
                      f.      Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 14. gr. laganna:
                        1.    Orðin „og Neytendastofu“ í 1. málsl. falla brott.
                        2.    5. tölul. orðast svo: Vegna yfireftirlits Brunamálastofnunar og eftirlits með rafföngum á markaði sem stofnunin lætur framkvæma skulu innflytjendur og innlendir framleiðendur greiða eftirlitsgjald af eftirlitsskyldum rafföngum sem má vera allt að 0,15% af tollverði innfluttrar vöru eða af sambærilegum gjaldstofni innlendrar vöru. Ráðherra setur í reglugerð yfirlit yfir tollflokka raffanga sem eru gjaldskyld. Undanþegin þessari gjaldtöku eru rafföng sem eru seld úr landi.
                        3.    7. tölul. orðast svo: Brunamálastofnun er heimilt að láta prófa rafföng innlendra framleiðenda sem sett eru á markað í fyrsta sinn. Framleiðendur greiða stofnuninni fyrir slíkar prófanir.
                        4.    Orðin „og Neytendastofu“ í 1. málsl. 8. tölul. falla brott.
                      g.      Orðin „eða Neytendastofu“ í 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laganna falla brott, og í stað orðanna „viðkomandi stofnun“ í sama málslið kemur: stofnunin.
              7.      Eftirfarandi breytingar verða á skipulagslögum, nr. 123/2010:
                      a.      Í stað orðsins „Byggingarstofnunar“ í 6. tölul. 2. gr. laganna kemur: Mannvirkjastofnunar.
                      b.      Í stað orðanna „og staðfestingu umhverfisráðherra“ í 4. mgr. 22. gr. laganna kemur: og umhverfisráðherra í þeim tilvikum þegar hann skal staðfesta svæðisskipulag.
                      c.      Við 56. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                             Ákvæði laga þessara taka ekki til þeirra skipulagsáætlana sem sendar hafa verið Skipulagsstofnun skv. 4. mgr. 13. gr. og 14. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, eða sendar stofnuninni til athugunar skv. 2. mgr. 17. gr. sömu laga fyrir gildistöku laga þessara. Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum nr. 73/1997 með síðari breytingum.
                      d.      Við 4. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Skipulagsstofnun er heimilt að gera breytingar á svæðisskipulagi miðhálendisins, til samræmis við tillögur að breytingu á aðalskipulagi, þegar breytingin felur ekki í sér nýja stefnumörkun um landnotkun.
     57.      Við ákvæði til bráðabirgða:
                  a.      1. tölul. falli brott.
                  b.      Í stað orðsins „úttektir“ í 3. málsl. 3. tölul. komi: úttekt.
                  c.      6. tölul. orðist svo: Hafi þeir sem taldir eru upp í 25. gr. þegar við gildistöku laga þessara lokið hluta þess reynslutíma sem nauðsynlegur er samkvæmt núgildandi lögum til að öðlast löggildingu skulu þeir eiga kost á að ljúka honum eftir eldri reglum.
                  d.      Orðið „aðilar“ í 1. málsl. 7. tölul. falli brott.
                  e.      9. tölul. orðist svo: Á meðan ekki eru til samhæfðir evrópskir staðlar og/eða evrópskt tæknisamþykki fyrir byggingarvöru er markaðssetning hennar heimil, þrátt fyrir ákvæði 39. gr., ef henni fylgir vottun eða umsögn um að hún uppfylli kröfur reglugerða sem settar eru á grundvelli laga þessara, standist staðla og falli að verklagi og séríslenskum aðstæðum. Hliðsjón skal höfð af kröfum sem settar eru fram í ákvörðunum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um hlutverk framleiðanda og tilnefnds aðila við staðfestingu á samræmi við kröfur. Ef ekki liggja fyrir samþykktir frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um einstaka vöruflokka skal höfð hliðsjón af ákvörðunum um hliðstæðar vörur. Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Mannvirkjastofnun eða aðrir þar til bærir aðilar sem umhverfisráðuneytið viðurkennir skulu gegna samsvarandi hlutverki og tilnefndur aðili vegna ákvæða þessa töluliðar. Þessir aðilar annast staðfestingu á samræmi og gefa út vottorð eða umsögn þar að lútandi.
                  f.      Í stað orðsins „framkvæmt“ í 12. tölul. komi: fara fram.
     58.      Við viðauka. Í stað orðanna „Byggingarvörur skulu“ í 1. mgr. komi: Byggingarvara skal.