Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 301. máls.

Þskj. 354  —  301. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna
og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




I. KAFLI
Breyting á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna,
nr. 94/1986, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 6. gr. laganna bætast fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Þeir starfsmenn sem eru félagar í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu og gerast starfsmenn sveitarfélaga 1. janúar 2011 á grundvelli breytinga á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, skulu eiga þess kost að vera áfram í sama stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð fyrir þeirra hönd við viðkomandi sveitarfélög.
    Starfsmenn sem falla undir lög þessi og koma til starfa eftir 1. janúar 2011 skulu verða félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða í öðru því félagi sem hefur samkvæmt lögum þessum ótakmarkað samningsumboð fyrir viðkomandi starfsmenn.
    SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu skal hafa tilkynnt viðkomandi sveitarfélagi fyrir 15. janúar 2011 fyrir hvaða starfsmenn það fer með samningsumboð gagnvart viðkomandi sveitarfélagi á grundvelli þessara laga.
    SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu skal því aðeins hafa samningsumboð gagnvart viðkomandi sveitarfélagi fyrir starfsmenn skv. 9. mgr. að tilkynningarskyldu hafi verið fullnægt skv. 11. mgr.

2. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Tilhögun skv. 6. gr. skal endurskoða samhliða endurmati á fjárhagslegum forsendum samkvæmt samkomulagi milli félags- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

II. KAFLI
Breyting á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins,
nr. 1/1997, með síðari breytingum.

3. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þeir starfsmenn ríkisins sem starfa í þjónustueiningum í málaflokki fatlaðs fólks og eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og eru í störfum sem flytjast til sveitarfélaga og halda þeim áfram skulu eiga rétt til áframhaldandi aðildar að sjóðnum með óslitinni réttindaávinnslu meðan þeir gegna þar störfum.
    Sveitarfélög taka á sig skuldbindingar launagreiðenda frá aðilaskiptum en ríkissjóður fram að þeim tíma. Til viðbótar iðgjaldi launagreiðenda skv. 23. gr. laganna munu launagreiðendur greiða sérstakt iðgjald til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins til að standa undir mismun á áföllnum skuldbindingum hvers árs og greiddum iðgjöldum.

4. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga frá 13. mars 2009 um tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga voru aðilar sammála um að vinna að tilfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga og var stefnt að því að tilfærslan færi fram árið 2011. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar annars vegar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og hins vegar á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins vegna samkomulags félags- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, við Samband íslenskra sveitarfélaga, dags. 23. nóvember 2010, um flutning málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Með 1. gr. þessa frumvarps er tekin upp sérregla um félagsaðild í takt við þá stefnu sem fylgt var við síðustu verkaskipti. Starfsmenn sem færast yfir til sveitarfélaga 1. janúar 2011 á grundvelli laga um breytingu á lögum nr. 59/1992, um málefni fatlaðra, geta samkvæmt því valið um hvort þeir verði áfram félagsmenn í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu eða hvort þeir skipti um félag og gerist félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða því félagi sem hefur lögum samkvæmt samningsumboð fyrir viðkomandi starfsmenn. Gert er ráð fyrir að þeir starfsmenn sem kjósa að vera áfram félagsmenn í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu myndi eins konar sveitarfélagastarfsmannadeild innan þess. Launakerfi sveitarfélaganna er frábrugðið því launakerfi sem tíðkast hjá ríkinu almennt. Vegna breytingar á rekstrarumhverfi almannaþjónustunnar gerir SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu ólíka kjarasamninga, t.d. samninga við ríki, sjálfseignarstofnanir og hlutafélög með aðkomu Samtaka atvinnulífsins. Í tilfelli sveitarfélaganna er SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu vel meðvitað um að þau hafa notað starfsmat við launasetningu starfsmanna sinna. Vegna þessa hefur SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu lýst sig reiðubúið til samráðs um að samræma launakerfi félagsmanna við launakerfi sveitarfélaganna.
    Gengið er út frá því að öll ákvæði laganna gildi um þennan nýja viðsemjanda sveitarfélaganna eftir því sem við getur átt, þar á meðal ákvæði um takmörkun verkfallsréttar sveitarfélagastarfsmanna, tilkynningu vinnustöðvana, framkvæmd verkfalls o.s.frv. Í þessu felst því að einungis sveitarfélagastarfsmenn innan SFR – stéttarfélags í almannaþjónustu eiga atkvæðisrétt um kjarasamning félagsins við viðkomandi sveitarfélag og eiga rétt á að taka ákvörðun um boðun verkfalls gagnvart viðkomandi sveitarfélagi.
    Hvað varðar starfsmenn sem eru ráðnir eftir 1. janúar 2011 er gert ráð fyrir að þeir hafi ekki þetta val og verði því félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi eða því félagi sem hefur lögum samkvæmt ótakmarkað samningsumboð fyrir viðkomandi starfsmenn. Með ótakmörkuðu samningsumboði er átt við þau félög sem til framtíðar litið fara með samningsumboð fyrir viðkomandi hóp. Þannig getur t.d. SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu ekki talist vera með samningsumboð til framtíðar þar sem samningsumboð þess nær einungis til þeirra sem voru í því við yfirfærsluna, heldur eru það viðkomandi bæjarstarfsmannafélög.

Um 2. gr.


    Í ljósi þess að fyrirhugaðar eru frekari tilfærslur verkefna milli ríkis og sveitarfélaga er ljóst að breyta þarf fyrirkomulagi samningamála þannig að ekki komi upp álitaefni af því tagi í hvert skipti sem umræða um slíkar tilfærslur verkefna fer af stað. Vinna við undirbúning slíkra breytinga fór af stað en hefur legið niðri um skeið og er eðlilegt að settur verði aukinn kraftur í það starf með það m.a. að markmiði að einfalda tilfærslur verkefna milli ríkis og sveitarfélaga. Komist menn að sameiginlegri niðurstöðu sem leiði til breytinga á aðkomu stéttarfélaga að tilfærslu verkefna við aðstæður sem þessar er eðlilegt að sú tilhögun sem hér er byggt á, sem og tilhögun við fyrri tilfærslur verkefna milli aðila, verði endurskoðuð og er lagt til að það verði gert í tengslum við endurmat á fjárhagslegum forsendum samkomulagsins sem fara á fram árið 2014.

Um 3. gr.


    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða vegna samkomulags félags- og tryggingamálaráðherra og fjármálaráðherra, f.h. ríkissjóðs, við Samband íslenskra sveitarfélaga um flutning málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga. Samkvæmt samkomulaginu munu starfsmenn sem eiga aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fá aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Þeir starfsmenn sem þess óska geta haldið aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með samþykki viðkomandi sveitarfélags. Starfsmenn sem eiga aðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga munu eiga aðild að þeim lífeyrissjóði áfram í samræmi við lög nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga. Starfsmenn sem aðild eiga að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins munu halda þeirri aðild og er nauðsynlegt að gera breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins svo að þeir fái haldið aðild sinni að B-deild sjóðsins.
    Til að standa undir mismun á áföllnum skuldbindingum hvers árs og greiddum iðgjöldum munu launagreiðendur til viðbótar iðgjaldi launagreiðenda skv. 23. gr. laganna greiða sérstakt iðgjald til B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Sveitarfélög munu taka á sig skuldbindingar launagreiðenda frá aðilaskiptum en ríkissjóður fram að þeim.

Um 4. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um
kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986, og lögum um
Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/1997, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins í samræmi við samkomulag ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga.
    Í fyrsta lagi er lagt til að þeir starfsmenn sem eru félagar í SFR og gerast starfsmenn sveitarfélaga 1. janúar 2011 skuli eiga þess kost að vera áfram í sama stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð þeirra við sveitarfélögin. Starfsmenn sem koma til starfa í stofnunum fyrir fatlaða hjá sveitarfélögunum eftir þann tíma skulu vera félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi. Ekki er gert ráð fyrir að útgjöld ríkisins breytist vegna þessa.
    Í öðru lagi er lagt til að þeir starfsmenn sem eiga aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fái aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Þeir starfsmenn sem þess óska geta þó haldið aðild sinni að A-deild lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með samþykki viðkomandi sveitarfélags. Starfsmenn sem eiga aðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga halda þeirri aðild, svo og þeir starfsmenn sem eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Vegna starfsmann í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins er lagt er til að sveitarfélög taki á sig skuldbindingar launagreiðenda frá aðilaskiptum en ríkissjóður fram að þeim tíma. Er þetta gert til að skýra stöðu starfsmanna en jafnframt stöðu sveitarfélaga gagnvart lífeyrisiðgjöldum. Ríkissjóður mun greiða til sveitarfélaganna vegna lífeyrisskuldbindinga B-deildarfólks fyrir árin 2011-2013. Áætlað hefur verið að þessar fjárhæðir geti numið um 15 m.kr. á ári eða samtals 45 m.kr.
    Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði 15 m.kr. árlega næstu þrjú árin vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna sem færast til sveitarfélaganna. Þetta frumvarp er eitt af nokkrum sem flutt eru vegna samkomulags um yfirfærslu á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga og er að öðru leyti vísað til umsagnar um frumvarp til laga um breytingar á lögum um málefni fatlaðra sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi en þar er fjallað um kostnaðaráhrif þessara lagabreytinga á ríkissjóð í heild.