Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 160. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 364  —  160. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur um viðbrögð við kveðju utanríkisráðherra Bandaríkjanna 17. júní sl.

     1.      Hvernig brást ráðuneytið við kveðju þeirri sem utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, sendi Íslendingum 17. júní sl.?
    Það sem af er árinu 2010 hafa um 130 ríki fengið formlega kveðju á þjóðarhátíðardegi sínum. Ísland var í hópi 11 þjóða sem fengu slíka kveðju á myndskeiði frá utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Að þjóðlegum hætti var kærum þökkum komið formlega á framfæri til þess sem svo fallega ávarpaði Íslendinga á þjóðhátíðardegi þeirra.

     2.      Hefur ríkisstjórnin og ráðuneytið látið reyna í verki á þann stuðning og vináttu Bandaríkjamanna sem fram kom í kveðjunni að Íslendingar gætu reitt sig á í þeim efnahagserfiðleikum sem steðjuðu að þjóðinni?
    Til þess hafa ekki sprottið sérstök tilefni eftir 17. júní enda var þá áður komið fram að Bandaríkin lögðu Íslandi lið við afgreiðslu máls þess fyrir AGS. Ætla má, að utanríkisráðherra Bandaríkjanna hafi m.a. verið að vísa til þeirrar staðreyndar með ofangreindu orðalagi í kveðju sinni til Íslendinga, en eins og fyrirspyrjanda er örugglega kunnugt um úr umræðum á Alþingi og úr fjölmiðlum hafði utanríkisráðuneytið m.a. sinnt hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd með því að óska sérstaklega eftir stuðningi Bandaríkjanna í því mikilvæga máli.

     3.      Hafa síðan aukist menningarleg og efnahagsleg tengsl landanna sem mikil áhersla er lögð á í yfirlýsingunni?
    Menningarleg og efnahagsleg tengsl Íslands og Bandaríkjanna hafa staðið traustum fótum allt frá því Bandaríkin urðu fyrsta ríkið til að viðurkenna fullveldi Íslands. Sérstakt vináttusamband hefur verið á milli ríkjanna síðan. Svo er enn, enda gleyma Íslendingar því vinarbragði seint. Um langt skeið hefur samstarf ríkjanna þó líklega ekki verið betra en í tíð núverandi ríkisstjórna í ríkjunum tveimur. Af sjálfu leiddi að í kjölfar bankahrunsins 2008 dró úr efnahagslegum tengslum Íslands við mörg ríki, og gilti það einnig um Bandaríkin. Þau tengsl eru þó aftur á uppleið í samræmi við þann jákvæða árangur sem ríkisstjórnin er að ná í viðureign við afleiðingar hrunsins. Gildir það einnig um Bandaríkin, en ekki eru greinanleg tengsl milli þess og tilefnis fyrirspurnar háttvirts þingmanns. Hvað varðar menningarleg tengsl má ætla að þau hafi eflst síðustu mánuði milli ríkjanna, m.a. á sviði samstarfs íslenskra og bandarískra fyrirtækja á sviði kvikmyndagerðar, en ætla má að einnig það sé óskylt tilefni fyrirspurnar háttvirts þingmanns.

     4.      Hafi ráðherra ekki fylgt þessu boði um stuðning og vináttu eftir, nú fimm mánuðum seinna, stendur það þá til í nánustu framtíð?
    Jú, ríkisstjórn Íslands hefur þegar gert það sameiginlega, með því að forsætisráðherra hefur boðið forseta Bandaríkjanna í heimsókn til Íslands. Af Íslands hálfu er það yfirlýsing um einlæga vináttu og vilja til aukinna tengsla ríkjanna á öllum sviðum.

     5.      Hefur það áhrif á viðbrögð við kveðjunni að leiðtogar Evrópusambandsins samþykktu á fundi 17. júní að hefja formlegar viðræður við Ísland um aðild að ESB, sama dag og Hillary Clinton sendi kveðjuna?
    Ráðuneytinu hefur ekki tekist að greina bein eða óbein tengsl á milli þeirra tveggja jákvæðu gerninga gagnvart Íslandi sem fram komu af hendi annars vegar leiðtoga Evrópusambandsins og hins vegar utanríkisráðherra Bandaríkjanna nefndan dag. Að yfirveguðu máli er ráðuneytið þeirrar skoðunar að þar sé um tvo óskylda atburði að ræða. Ráðuneytið fullvissar því háttvirtan þingmann um að hvorugur atburðurinn hafði áhrif á viðbrögð þess við hinum, en báðir vöktu sams konar viðbrögð: Gleði og ánægju fyrir Íslands hönd.