Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 166. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 404  —  166. mál.




Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Arndísar Soffíu Sigurðardóttur um endurgreiðslur til sveitarfélaga vegna útgjalda af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli.

     1.      Hversu mikla fjármuni hefur ríkið þegar endurgreitt sveitarfélögum vegna útgjalda þeirra af völdum eldgossins í Eyjafjallajökli?
    Styrkur að fjárhæð 1.020.000 kr. hefur verið greiddur til sveitarfélaganna vegna útgjalda þeirra í húsaleigukostnaði en íbúum á öskusvæðum hefur gefist kostur á að búa tímabundið í leiguhúsnæði fjarri heimili sínum. Þá eru ótaldar greiðslur frá Viðlagatryggingu og Bjargráðasjóði.

     2.      Hvaða þættir í útgjöldum sveitarfélaganna njóta endurgreiðslu?
    Húsaleigukostnaður vegna tímabundins flutnings ábúenda er styrktur. Frekari ákvarðanir um styrkveitingu eða endurgreiðslu hafa ekki verið teknar af ríkisstjórninni.
    Þá kunna sveitarfélög að eiga rétt til einhverra endurgreiðslna/bóta á grundvelli laga um Viðlagatryggingu Íslands og laga um Bjargráðasjóð.

     3.      Hefur verið tekin ákvörðun um að endurgreiða sveitarfélögunum útgjöld vegna eldgossins sem ekki er hægt að sjá fyrir núna en kunna að koma til síðar?
    Nei, engin slík ákvörðun hefur verið tekin af hálfu ríkisstjórnarinnar.
    Þess má geta að ríkisstjórnin hefur fram til þessa lagt til 800,7 millj. kr. til að mæta útgjöldum vegna viðbragða í kjölfar eldgossins á Fimmvörðuhálsi og í Eyjafjallajökli. Samráðshópur fimm ráðuneytisstjóra sem fjallar um viðbrögð, neyðaraðgerðir og kostnað í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi er enn að störfum og mun halda áfram að vinna að verkefnum sínum í samvinnu við alla þá fjölmörgu aðila sem að málinu hafa komið, svo sem ráðuneytin, almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og þjónustumiðstöðina á gossvæðinu, sveitarfélög, hagsmunaaðila og stofnanir.