Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 131. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 428  —  131. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á samkeppnislögum, nr. 44/2005, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta viðskiptanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Valgerði Rún Benediktsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti, Almar Guðmundsson og Pál Rúnar Mikael Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Davíð Þorláksson frá Icelandair Group, Dóru Sif Tynes frá Lögmannafélagi Íslands, Pál Gunnar Pálsson frá Samkeppniseftirlitinu, Jónu Björk Helgadóttur fyrir hönd Samkaupa, Guðjón Axel Guðjónsson frá Samtökum atvinnulífsins og Harald Inga Birgisson frá Viðskiptaráði Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Félagi atvinnurekenda, Icelandair Group hf., Neytendasamtökunum, Ríkisendurskoðun, ríkislögreglustjóra, ríkisskattstjóra, Samkeppniseftirlitinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, Skeljungi hf. og Viðskiptaráði Íslands.
    Frumvarp sama efnis var lagt fram á 138. löggjafarþingi (572. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Við umfjöllun um frumvarpið hafði nefndin einnig hliðsjón af athugasemdum sem bárust við það frumvarp. Frumvarpið er nú lagt fram með þeirri breytingu að kærugjald skv. 1. gr. fæst endurgreitt ef mál vinnst fyrir áfrýjunarnefnd samkeppnismála.
    Með frumvarpinu eru lagðar til eftirfarandi breytingar:
    Í fyrsta lagi er í 1. gr. lagt til að með kæru til áfrýjunarnefndar samkeppnismála skuli fylgja kærugjald að upphæð 200.000 kr. en gjaldið endurgreiðist ef málið vinnst fyrir nefndinni. Markmið þessarar breytingar er að stuðla að skilvirkni og tryggja að fyrirtæki taki þátt í þeim kostnaði sem fellur á ríkið vegna starfa áfrýjunarnefndarinnar. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að svonefnt áfrýjunarhlutfall, þ.e. hlutfall kærðra ákvarðana sem eru birtar á heimasíðu, hafi hækkað umtalsvert eða frá því að vera á bilinu 9,5%–11,5% síðustu ár í um 20% á árinu 2009.
    Í öðru lagi er lagt til í 2. gr. að nýr stafliður bætist við 1. mgr. 16. gr. samkeppnislaga þar sem kveðið verði á um heimild Samkeppniseftirlitsins til að grípa til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða raskar samkeppni. Með þessari breytingu munu möguleikar Samkeppniseftirlitsins til að vinna gegn hamlandi stjórnunar- og eignatengslum milli fyrirtækja hér á landi aukast. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að talið sé mikilvægt að eftirlitið hafi heimildir sem þessar í því ástandi sem ríkir nú á mörkuðum enda hafa mörg fyrirtæki verið yfirtekin af fjármálafyrirtækjum í kjölfar bankahrunsins en það getur haft veruleg áhrif á helstu samkeppnismarkaði. Einnig er í greininni lagt til að Samkeppniseftirlitið geti ekki aðeins gripið til aðgerða gegn samningum, skilmálum eða athöfnum sem brjóta í bága við bannákvæði laganna heldur einnig gegn brotum gegn sáttum eða ákvörðunum sem hafa verið teknar á grundvelli laganna.
    Í þriðja lagi er lagt til að innheimt verði sérstakt samrunagjald. Þegar Samkeppniseftirlitinu berst tilkynning um samruna ber því að taka afstöðu til hans innan lögbundinna tímafresta og sé það ekki gert getur ekki orðið af íhlutun vegna hans. Þar sem ákvörðun um samruna felur í sér ráðstöfun á þeim fjárheimildum sem eftirlitinu eru veittar í fjárlögum þykir eðlilegt að fyrirtæki sem tilkynnir samruna greiði gjald sem getur gengið upp í þann kostnað sem rannsókn þess hefur í för með sér. Í 3. gr. er kveðið á um að fjárhæðin nemi 250.000 kr. sem skuli leggjast á hvert fyrirtæki sem tekur þátt í samruna. Í almennum athugasemdum við frumvarpið sem og í athugasemdum við 3. gr. kemur hins vegar fram að gjaldið skuli leggjast á hvern samruna óháð stærð viðkomandi fyrirtækja sem og þeirri vinnu sem Samkeppniseftirlitið lætur í té. Nefndin leggur til að orðalag 3. gr. verði lagfært í þá veru að gjaldið nemi 250.000 kr. fyrir hverja tilkynningu til samræmis við þá hugsun sem kemur fram í athugasemdum.
    Í fjórða lagi er lagt til að Samkeppniseftirlitið fái heimild til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla en meginreglan er sú að lægra sett stjórnvöld geti ekki hlutast til um að fá úrskurðum æðra settra stjórnvalda hnekkt nema fyrir hendi sé lagaheimild þess efnis, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 297/1998. Undantekningu frá meginreglunni er þó að finna í lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, upplýsingalögum, nr. 50/1996, og lögum nr. 69/2003, um Póst- og fjarskiptastofnun. Verði frumvarpið að lögum aukast möguleikar eftirlitsins til að efla samkeppni og gæta hagsmuna almennings í samkeppnismálum. Hlutverk eftirlitsins er meðal annars að vernda þá lögvörðu almannahagsmuni sem felast í virkri samkeppni og því er óeðlilegt að það geti ekki gætt almannahagsmuna til sóknar fyrir dómstólum. Flest ákvæði frumvarpsins fengu ítarlega umfjöllun í nefndinni en segja má að mest hafi verið fjallað um b-lið 2. gr. þar sem lagt er til að Samkeppniseftirlitið geti gripið til aðgerða gegn aðstæðum eða háttsemi sem komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni. Við meðferð málsins í nefndinni komu fram athugasemdir við það að heimild Samkeppniseftirlitsins væri of víðtæk en einnig var bent á að erfitt væri að afmarka efni þess með nákvæmari hætti, m.a. vegna ólíkra aðstæðna á mörkuðum og óvissu um háttsemi markaðsaðila. Meiri hlutinn telur réttlætanlegt að í samkeppnislögum sé að finna ákvæði af þessu tagi en því ber aðeins að beita í undantekningartilfellum og undanfari þess verður að vera ítarleg rannsókn á gerð viðkomandi markaðar, eðli samkeppnislegra vandamála og greining á þeim úrræðum sem koma til greina.
    Nefndin leggur til nokkrar breytingar á orðalagi 2. gr. Í fyrsta lagi að í stað orðanna „raskar samkeppni“ komi orðin „skaðleg áhrif á samkeppni“, þ.e. að ákvæðið eigi við um aðstæður eða háttsemi sem kemur í veg fyrir, takmarkar eða hefur skaðleg áhrif á samkeppni. Með þessu áréttar nefndin að Samkeppniseftirlitið verður að hafa metið aðstæðurnar eða háttsemina skaðlegar til að ákvæðinu verði beitt. Í öðru lagi að gerð verði viðbót við 1. málsl. um að aðstæður eða háttsemi teljist vera almenningi til tjóns til að unnt verði að beita heimildinni. Þessi tillaga er ekki efnisleg breyting enda eru samkeppnislög sett til verndar neytendum. Breytingartillögunni er ætlað að hnykkja á því að heimildinni verði ekki beitt nema aðstæður eða háttsemi fyrirtækis séu þess háttar að það liggi fyrir að neytendur hafi orðið fyrir tjóni af völdum hennar. Í þriðja lagi er lagt til að við c-lið 2. gr. bætist tilvísun til meðalhófsreglu sem er í gildandi lögum en hefði fallið brott yrði frumvarpið óbreytt að lögum. Er því lagt til að í c-lið verði kveðið á um að Samkeppniseftirlitið geti beitt nánar tilteknum úrræðum í réttu hlutfalli við það brot sem hefur verið framið eða þær aðstæður eða þá háttsemi sem er til staðar.
    Við rannsókn mála sem ákvæði b-liðar 2. gr. frumvarpsins kann að ná til er svokallaður vöru- eða þjónustumarkaður skilgreindur sem og landfræðilegur markaður. Þá ber eftirlitinu að afla ítarlegra upplýsinga um aðstæður viðkomandi markaða. Á grundvelli 2. mgr. 8. gr. samkeppnislaga hefur Samkeppniseftirlitið sett reglur um málsmeðferð eftirlitsins, sbr. reglur nr. 880/2005. Gert er ráð fyrir því, sbr. 17. gr. reglnanna, að Samkeppniseftirlitið taki saman svonefnt andmælaskjal þar sem helstu atvikum máls er lýst, tilgreint hvaða háttsemi eða aðstæður séu taldar fara gegn samkeppnislögum og aðilum máls mun gefast kostur á að koma að athugasemdum innan hæfilegs frests. Aðili máls getur skotið ákvörðun Samkeppniseftirlitsins til áfrýjunarnefndar samkeppnismála.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 2. gr.
              a.      Í stað orðanna „raskar samkeppni“ í b-lið komi: hefur skaðleg áhrif á samkeppni almenningi til tjóns.
              b.      Í stað orðsins „raskar“ í lokamálslið b-liðar komi: hefur skaðleg áhrif á.
              c.      Við síðari efnismálslið c-liðar bætist: í réttu hlutfalli við það brot sem framið hefur verið eða þær aðstæður eða háttsemi sem um ræðir.
     2.      Við 3. gr. Í stað 1. og 2. efnismálsl. komi nýr málsliður, svohljóðandi: Fyrirtæki sem tilkynnir samruna skv. 17. gr. a skal greiða samrunagjald og nemur gjaldið 250.000 kr. fyrir hverja samrunatilkynningu.

Alþingi, 3. des. 2010.



Lilja Mósesdóttir,


form., frsm.


Magnús Orri Schram.


Skúli Helgason.



Eygló Harðardóttir.


Atli Gíslason.


Valgerður Bjarnadóttir.



Margrét Tryggvadóttir.