Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 108. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 469  —  108. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, með síðari breytingum (fyrningarfrestur).

Frá meiri hluta allsherjarnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bryndísi Helgadóttur frá dómsmála- og mannréttindaráðuneyti, Benedikt Bogason frá réttarfarsnefnd, Magnús Norðdahl frá Alþýðusambandi Íslands, Reyni Grétarsson og Rakel Sveinsdóttur frá Creditinfo, Ástu Sigrúnu Helgadóttur og Lovísu Ósk Þrastardóttur frá umboðsmanni skuldara, Vilhjálm Bjarnason frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Margréti Steinarsdóttur frá Mannréttindaskrifstofu Íslands, Snorra Olsen og Eddu Símonardóttur frá tollstjóranum í Reykjavík, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Jón Ingvar Pálsson frá Innheimtustofnun sveitarfélaga, Ólaf Arinbjörn Sigurðsson frá Logos, Gísla G. Hall frá Lögmannafélagi Íslands, Pál Kristjánsson frá Félagi atvinnurekenda, Guðrúnu Finnborgu Þórðardóttur frá Fjármálaeftirlitinu, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Gísla Tryggvason frá talsmanni neytenda, Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði Íslands og Ásu Ólafsdóttur lektor.
    Umsagnir um málið bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtökum Íslands, Creditinfo, dómstólaráði, embætti tollstjóra, Félagi atvinnurekenda, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna, Íbúðalánasjóði, Logos slf., lögmannsþjónustu, Lögmannafélagi Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Neytendasamtökunum, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjármálafyrirtækja, SVÞ – Samtökum verslunar og þjónustu, talsmanni neytenda, umboðsmanni skuldara og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérregla um fyrningarfrest á þeim kröfum eða þeim hluta krafna sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti. Lagt er til að fyrningarfrestur verði sá sami án tillits til þess um hvers konar kröfu er að ræða, þ.e. tvö ár. Sami frestur verði látinn gilda um kröfur sem ekki hefur verið lýst við skiptin, nema þær fyrnist á skemmri tíma samkvæmt almennum reglum um fyrningu.
    Að auki er gert ráð fyrir að ekki verði unnt að slíta fyrningunni, hvort sem kröfu hefur verið lýst eða ekki, innan þessa tveggja ára frests nema í undantekningartilfellum, en til þess þurfi lánardrottinn að höfða mál fyrir dómstólum.
    Nefndin fjallaði ítarlega um málið og athugasemdir umsagnaraðila á fundum sínum.

Réttaráhrif gjaldþrots.
    Nefndin fjallaði einnig um styttingu fyrningarfrest í tengslum við önnur úrræði og þá sérstaklega greiðsluaðlögun og tekur í því sambandi fram að á þeim er grundvallarmunur. Gjaldþrot er neyðarúrræði sem hefur þau réttaráhrif að allar eignir skuldara/þrotamanns eru teknar til skipta. Gjaldþrotaskipti eru því fullnustugerð með það að markmiði að skipta eignum skuldara með kröfuhöfum, tryggja að eignir og skuldir bús skuldara séu sannreyndar, bókhald og löggerningar þrotamanns séu rannsakaðar. Þá verða við gjaldþrotaskipti virkar reglur laganna um riftun ýmissa löggerninga þrotamanns. Þrotamaður ber áfram ábyrgð á þeim skuldum sem ekki fást greiddar við gjaldþrotameðferðina.
    Samkvæmt lögum um fyrningu kröfuréttinda getur fyrningartími krafna verið mismunandi, þ.e. fjögur ár, tíu eða tuttugu ár. En algengasti fyrningarfrestur kröfuréttinda er fjögur ár.

Skilyrði fyrningarslita.
Sérstakir hagsmunir.
    Nefndin fjallaði sérstaklega um það ákvæði frumvarpsins í 2. mgr. 1. gr. sem mælir fyrir um það hvernig unnt sé að rjúfa fyrningu krafna sem ekki fást greiddar við gjaldþrotaskipti og falla undir ákvæðið um tveggja ára fyrningarfrest. Í greininni er gert ráð fyrir að heimilt verði í undantekningartilfellum að rjúfa fyrningu með dómi, þ.e. kröfuhafi verður að sýna fram á sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu og enn fremur að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma. Verði fallist á slíka kröfu fyrir dómi tæki fyrningartími mið af almennum fyrningarreglum frá lokum skipta.
    Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að við mat á því hvort um sérstaka hagsmuni kröfuhafa sé að ræða skuli horfa til þess af hvaða rót kröfurnar eru runnar, þ.e. hvort krafan hefur orðið til með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi. Nefndin tekur í því sambandi fram að kröfur verða til með lögmætum hætti en geta stafað af ólögmætum eða saknæmum athöfnum. Í greinargerð kemur fram að gert sé ráð fyrir að ekki sé um tæmandi talningu að ræða og enn fremur að hér sé um undantekningarákvæði að ræða sem beri þar af leiðandi að túlka þröngt. Undir þetta geta t.d. fallið tildæmdar skaðabætur vegna saknæmrar eða ólögmætrar háttsemi.
    Fyrir nefndinni komu fram fjölmargar athugasemdir um að það væri ekki nægilega skýrt í greinargerð frumvarpsins við hvað er átt með sérstökum hagsmunum og komu fram ábendingar um að nota mætti til viðmiðunar að hvorki hafi verið stofnað til skuldanna á óheiðarlegan hátt né að niðurfellingin gæti talist óhæfileg þegar litið er til annarra skuldara eða hagsmuna almennings almennt. Þannig gætu viðmiðin átt við kröfur sem óhæfilegt gæti verið gagnvart öðrum skuldurum eða samfélaginu sjálfu að veita skamma fyrningu. Það getur t.d. átt við kröfur sem stofnað hefur verið til vegna óhóflegrar neyslu og fjárráða vegna óhæfilegra arðgreiðslna, óhóflegra kaupauka og annarra slíkra ósiðlegra athafna án þess þó að það geti hafa talist ámælisvert að leggja í skuldsetninguna sjálfa miðað við þau fjárráð sem viðkomandi hefur haft. Meiri hlutinn telur að við mat dómstóla á því hvort undanþágan eigi við sé rétt að líta til þessara sjónarmiða.
    Nefndin ræddi einnig hvort leggja ætti til að um tilteknar kröfur, svo sem þær sem greiðsluaðlögun nær ekki til, sbr. lög um greiðsluaðlögun, og fást ekki greiddar við gjaldþrotaskipti, gildi ekki þessi tveggja ára fyrningarfrestur þannig að ekki þurfi að leita til dómstóla til að rjúfa fyrningu á þeim með tilheyrandi kostnaði. Nefndin skoðaði í því sambandi kröfur sem greiðsluaðlögun tekur ekki til en það eru m.a. forgangskröfur við gjaldþrotaskipti, svo sem kröfur um viðbótarmeðlag til barns. Nefndin fjallaði einnig um hvort undanþiggja ætti skattkröfur þessum styttri fyrningarfresti, þ.e. kröfur um vangoldinn virðisaukaskatt eða afdregna staðgreiðslu, en telur að þegar litið er til þess að þær kröfur eru almennar kröfur við gjaldþrot sé ekki unnt að fallast á að undanþiggja þær almennt þessari sérreglu um fyrningarfrest sem lögð er til í frumvarpinu. Meiri hlutinn telur engu síður nauðsynlegt að dómstólar meti hvert einstakt tilvik og geti við það mat m.a. tekið mið af rétthæð krafna við gjaldþrotaskipti.

Líkur á að krafa fáist greidd.
    Í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins er einnig tekið fram að auk þess að hafa sérstakra hagsmuni af rofi fyrningar með dómi verði kröfuhafi auk þess að sýna fram á að líkur séu til að hann fái kröfu sína greidda eftir að hafa fengið rof á fyrningu samþykkta fyrir dómi. Kröfuhafi hefur því sönnunarbyrðina fyrir því að líkur séu á greiðslu kröfunnar. Meiri hlutinn tekur fram að með því er ekki átt við lítinn hluta kröfunnar heldur alla kröfuna eða meiri hluta hennar.

Gjaldþrotaskipti á eigin búi.
    Fyrir nefndinni kom fram það sjónarmið að áhrif þessarar reglu kynnu m.a. að vera þau að einstaklingar muni í auknum mæli óska eftir gjaldþrotaskiptum á eigin búi þar sem kröfuhafar hefðu minni hag af því að leggja fram slíka beiðni en nú er. Við slíka beiðni er nauðsynlegt að leggja fram tryggingu fyrir skiptakostnaði sem nú er 250 þús. kr. Nefndin fjallaði nokkuð um að vera kynni að vegna þessa kostnaðar gætu einstaklingar ekki látið lýsa sig gjaldþrota og reglan mundi því ekki ná markmiðum sínum um að færa skuldurum tæki til að koma fjármálum sínum á réttan kjöl. Telur meiri hlutinn að í samanburði við þá hagsmuni sem skuldari getur haft af gjaldþrotaskiptum geti sú fjárhæð ekki talist óyfirstíganleg, nema í þeim tilfellum sem bú er fyrirsjáanlega eignalaust eða mjög eignalítið og beinir meiri hlutinn því til ráðherra að láta kanna hvort unnt sé í slíkum tilfellum að mæta kostnaði við trygginguna.
    Nefndin fjallaði einnig um viðmiðunartíma við skiptalok og hvort eðlilegra væri að miða við úrskurð dómara um að bú verði tekið til gjaldþrotaskipta í stað þess að miða við skiptalok eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Meiri hlutinn telur eðlilegt að miða við skiptalok þar sem þá er niðurstaða fengin um það hvernig kröfur greiðast af búi skuldara.

Lagaskil.
    Nefndin fjallaði nokkuð um lagaskil, þ.e. skil yngri og eldri laga, og í því sambandi mun á tímalengd fyrningar vegna gjaldþrotaskipta sem er lokið fyrir gildistöku laganna og þeirrar reglu sem hér er lögð til. Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið um að rétt væri að reglan næði einnig til fyrningar á þeim kröfum sem gjaldþrotaskiptum hefur verið lokið í þar sem ella næði hún ekki markmiðum sínum og gæti verið ósanngjörn gagnvart einstaklingum sem hafa þegar farið í þrot. Meiri hlutinn leggur því til að við gildistökuákvæðið bætist að lögin taki einnig til krafna við gjaldþrotaskipti sem ólokið er við gildistöku laganna. Þá telur nefndin einnig nauðsynlegt að þessi nýi fyrningarfrestur taki einnig til krafna sem ekki fengust greiddar við gjaldþrotaskipti fyrir gildistöku laganna og ekki eru fyrndar þannig að um þær gildi fyrningartími, þ.e. tvö ár, nema skemmri tími standi eftir af fyrningarfresti. Enn fremur leggur meiri hlutinn til að fyrningu þessara krafna verði aðeins slitið eftir reglum þessara laga.

Löggjöf annarra landa.
    Nefndin fjallaði stuttlega um sambærilega löggjöf annarra ríkja, þ.e. í Bretlandi, Bandaríkjunum og nokkuð um löggjöf annarra Norðurlanda, og af þeirri stuttu skoðun virðist frumvarp þetta fela í sér reglu sem á sér ekki fyrirmynd þar. Á Norðurlöndum gilda sambærilegar reglur og hér samkvæmt gildandi lögum en í Bretlandi og Bandaríkjunum virðast skilyrði til gjaldþrotaskipta og niðurfellingar krafna hafa verið þrengd þannig að greiðsluaðlögun eða nauðasamningar eru þær leiðir sem þar eru í boði.

Endurskoðunarákvæði.
    Nefndin telur að frumvarpið sé engu síður mikilvægt skref í þeirri vinnu sem nauðsynleg er til að aðstoða einstaklinga við að ljúka fjárhagslegu uppgjöri sínu við kröfuhafa sína innan skynsamlegra tímamarka, þ.e. við þessar óvenjulegu aðstæður sem eru í samfélaginu eftir bankahrunið. Bendir meiri hlutinn í því sambandi sérstaklega á þann mun sem er á réttarstöðu skuldsettra einstaklinga og hinna sem stofnuðu hlutafélög/einkahlutafélög utan um skuldsetningu sína og geta skilið þær skuldir endanlega eftir í hlutafélaginu við gjaldþrot og eru þar með lausir allra mála. Kröfum á einstaklinga er hægt að halda endalaust við með því að rjúfa fyrningu þeirra. Það getur haft þau áhrif að einstaklingar sem eru í vinnu og hafa orðið gjaldþrota, t.d. vegna mikilla skattskulda, hafa ekki fengið nema lítinn hluta launatekna sinna útborgaðan vegna skattkrafnanna. Með greiðslu upp í kröfurnar hefur fyrningarfrestur því verið rofinn í hverjum mánuði. Þannig hafa þessir einstaklingar fundið sig knúna til að vinna án þess að gefa upp tekjur sínar.
    Meiri hlutinn telur þó mikilvægt að leggja til að reynslan af þessari lagasetningu verði metin og að fram fari endurskoðun á ákvæðinu eftir fjögur ár. Reynslan getur þá hafa leitt í ljós hvort ástæða er til að takmarka möguleika einstaklinga til gjaldþrotameðferðar með tveggja ára fyrningarfresti hvað varðar fjölda skipta. Tíminn gæti þá jafnframt hafa svarað þeirri spurningu, sem nefndin lét ósvarað, hvort ástæða væri til að láta sólarlagsákvæði gilda um þessa lagabreytingu. Meiri hlutinn leggur því til að við frumvarpið bætist ákvæði til bráðabirgða þess efnis að lögin verði endurskoðuð að fjórum árum liðnum.
    Meiri hlutinn bendir á að hugtökin kröfuhafi og lánardrottinn eru bæði notuð í lögum um gjaldþrotaskipti en telur eðlilegra að nota orðið kröfuhafi í lögunum þar sem hugtakið lánardrottinn er þrengra og leggur því til breytingu á frumvarpinu því til samræmis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Þór Saari, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur álitinu.

Alþingi, 8. des. 2010.



Róbert Marshall,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Mörður Árnason.



Valgerður Bjarnadóttir.


Álfheiður Ingadóttir.


Þráinn Bertelsson.



Þór Saari.