Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 185. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 493  —  185. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um úrvinnslugjald, nr. 162/2002, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta umhverfisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólaf Kjartansson og Guðlaug G. Sverrisson frá Úrvinnslusjóði og Sigurbjörgu Sæmundsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Þá bárust umsagnir frá tollstjóra, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum iðnaðarins, Úrvinnslusjóði og Bændasamtökum Íslands.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til hækkunar á fjárhæð úrvinnslugjalds á olíumálningu, blýsýrurafgeymum, pappa- og pappírsumbúðum, plastumbúðum og heyrúlluplasti, ísócyanötum, leysiefnum, halógeneruðum efnasamböndum, olíuvörum, framköllunarefnum og hjólbörðum. Endurskoðun þessi á gjöldum er til þess fallin til að draga úr sjóðshalla sem átt hefur sér stað í þessum flokkum.
    Í umsögn Bændasamtaka Íslands var sérstaklega bent á mikla hækkun úrvinnslugjalds á heyrúlluplasti, en frumvarpið gerir ráð fyrir hækkun úr 5 kr./kg í 12 kr./kg. Í ljósi þeirra athugasemda aflaði nefndin sér upplýsinga um áætlaðan meðalkostnað á bú bæði fyrir og eftir umrædda hækkun. Meiri hlutinn telur í ljósi þeirrar sveiflujöfnunar sem nauðsynleg er til að leiðrétta sjóðshalla sem hefur orðið í þessum vöruflokki sé hækkunin innan eðlilegra marka. Auk þess bendir meiri hlutinn á að heyrúlluplast er flokkað sem plastumbúðir en ekki plast.
    Kostnaður af rekstri sjóðsins ræðst af magni úrgangs sem er safnað og ráðstafað af þjónustuaðilum annars vegar og fjárhæð þjónustugjalds sem greitt er til þeirra þegar staðfesting á ráðstöfun liggur fyrir hins vegar. Nokkur tími getur liðið frá því að vara er sett á markað þar til úrgangur af hennar völdum fellur til og getur þessi tími verið frá nokkrum mánuðum upp í mörg ár. Einnig er óvissa í mati á úrgangi meiri þegar hagsveiflur eru miklar eins og verið hefur hér á landi.
    Tillögur um breytingar á úrvinnslugjaldi miðast við að ná viðunandi sjóðsstöðu vöruflokka á næstu þremur til fimm árum. Miðað er við að sjóðir verði að jafnaði ekki lægri en 30% af árskostnaði við vöruflokkinn.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 10. des. 2010.



Mörður Árnason,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Álfheiður Ingadóttir.



Vigdís Hauksdóttir,


með fyrirvara.


Skúli Helgason.