Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 378. máls.

Þskj. 495  —  378. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 45/1996, um mannanöfn, með síðari breytingum.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)



1. gr.

    Í stað orðsins „dómsmálaráðherra“ tvívegis í 2. mgr. 9. gr., 4. mgr. 11. gr., 1. og 2. mgr. 13. gr., tvívegis í 3. mgr., tvívegis í 5. mgr. og 6. mgr. 14. gr., 16. gr. og 1. mgr. 25. gr. laganna kemur, í viðeigandi beygingarfalli: Þjóðskrá Íslands.

2. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 11. gr. laganna orðast svo: Honum er þó heimilt að taka upp eiginnafn, millinafn og/eða kenninafn í samræmi við ákvæði laga þessara og má veita honum slíka nafnbreytingu í ríkisfangsbréfi.

3. gr.

    17. gr. laganna orðast svo:
    Nafnbreytingar samkvæmt lögum þessum, hvort sem um er að ræða breytingar tilkynntar Þjóðskrá Íslands eða samkvæmt leyfi stofnunarinnar eða ráðherra, skulu einungis heimilaðar einu sinni nema sérstaklega standi á.

4. gr.

    2. mgr. 18. gr. laganna orðast svo:
    Allar nafnbreytingar samkvæmt lögum þessum sem ekki eru bundnar leyfi skulu tilkynntar Þjóðskrá Íslands.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 2011.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins í samráði við Þjóðskrá Íslands. Með frumvarpinu er lagt til að mál á grundvelli laga um mannanöfn verði afgreidd á einum stað, hjá Þjóðskrá Íslands, í stað þess að slík mál séu ýmist afgreidd af Þjóðskrá Íslands eða dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Með frumvarpinu er stefnt að einföldun á meðferð mála á grundvelli laganna.
    Samkvæmt gildandi lögum um mannanöfn og þeim lögum sem áður giltu um mannanöfn frá árinu 1991 er byggt á þeirri meginreglu að nafnbreyting er veitt annars vegar með leyfi dómsmálaráðherra eða með tilkynningu til Þjóðskrár. Þannig er dómsmálaráðherra heimilt að leyfa breytingar á eiginnöfnum, millinöfnum og kenninöfnum í sérstökum tilvikum, t.d. að heimila að barn sé kennt til stjúpforeldris eða fósturforeldris eða heimila fullorðnum einstaklingi breytingu á kenninafni ef gildar ástæður eru til. Aftur á móti er nóg að tilkynna til Þjóðskrár Íslands óskir um ýmsar breytingar á nöfnum, t.d. að kenna sig til annars foreldris en fyrir er eða til beggja foreldra, taka upp ættarnafn ef réttur er til slíks eða fella það niður og kenna sig þá til foreldris. Þá geta menn tilkynnt Þjóðskrá ef breyta á ættarnafni í millinafn eða taka upp ættarnafn sem millinafn ef réttur er til þess. Sama gildir um óskir manna um breytta nafnritun.
    Það fyrirkomulag að hafa afgreiðslu á málum á grundvelli mannanafnalaga á tveimur stöðum hefur þótt flókið og algengt er að sótt sé um nafnbreytingar á röngum eyðublöðum eða á röngum stað, sem síðan hefur kallað á framsendingar milli ráðuneytisins og Þjóðskrár. Þess vegna var horft til þess þegar Þjóðskrá varð skrifstofa í dómsmálaráðuneytinu 1. júlí 2006 að einfalda allt verklag í þessum málum og 1. október 2007 var ákveðið að allar nafnbreytingar yrðu afgreiddar frá Þjóðskrá utan nafnbreytinga sem heimilaðar eru þegar ráðherra veitir íslenskt ríkisfang en þá er ráðherra heimilt að veita nafnbreytingu í samræmi við lögin samhliða veitingu íslensks ríkisfangs. Þessi breyting á verklegi mæltist vel fyrir og var við lýði til 30. júní 2010 þegar Þjóðskrá og Fasteignaskrá Íslands voru sameinaðar í nýja stofnun, Þjóðskrá Íslands, með lögum nr. 77/2010. Þá fóru nafnbreytingamálin aftur í sama farveg og fyrir árið 2007 og mál á grundvelli mannanafnalaga ýmist afgreidd af Þjóðskrá Íslands eða dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu.
    Með frumvarpi þessu er því lagt til að ofangreint verklag í nafnbreytingamálum sem viðhaft var á tímabilinu frá 1. október 2007 til 30. júní 2010 og gafst vel verði lögfest. Þannig verður öllum umsóknum um breytingar á nöfnum beint til Þjóðskrár Íslands og þær beiðnir afgreiddar þar. Áfram verður heimilt fyrir ráðherra að veita nafnbreytingu samhliða veitingu íslensks ríkisborgararéttar. Þessi breyting yrði í samræmi við markmið ráðuneytisins um að hvers kyns umsóknir skuli afgreiða sem oftast hjá stofnunum þess. Þessi breyting yrði enn fremur í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga um að réttaröryggi borgaranna sé betur tryggt þegar þeir geta skotið ákvörðun lægra setts stjórnvalds til ráðuneytis.
    Sömu sjónarmið eiga við um kæruleið til ráðuneytisins vegna þeirrar tillögu í frumvarpinu að Þjóðskrá Íslands, í stað dómsmálaráðherra, fái heimild til að leggja dagsektir á forsjármenn barna, skv. 25. gr. laganna, ef þeir fara ekki að fyrirmælum greinarinnar.
    Gert er ráð fyrir að lögin öðlist gildi 1. janúar 2011. Í samræmi við almennar lagaskilareglur er gert ráð fyrir að þau mál sem ólokið kann að vera í ráðuneytinu við gildistöku laganna flytjist þá yfir til Þjóðskrár Íslands sem mun ljúka afgreiðslu þeirra.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 45/1996, um mannanöfn, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að mál er varða mannanöfn verði afgreidd á einum stað, hjá Þjóðskrá Íslands, í stað þess að slík mál séu ýmist afgreidd af Þjóðskrá Íslands eða dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu. Er þetta gert til að einfalda alla málsmeðferð við nafnbreytingar og er gert ráð fyrir að öllum slíkum umsóknum verði beint til Þjóðskrár Íslands og þær beiðnir afgreiddar þar. Undanskildar eru nafnbreytingar sem óskað er eftir samhliða því að viðkomandi er veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Þessi breyting er lögð til í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga um að réttaröryggi borgaranna sé betur tryggt þegar þeir geta skotið ákvörðun lægra setts stjórnvalds til ráðuneytis.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.