Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 301. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 504  —  301. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Björn Rögnvaldsson og Gunnar Björnsson frá fjármálaráðuneyti, Völu Rebekku Þorsteinsdóttur frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, Guðríði Arnardóttur, Halldór Halldórsson, Ingu Rún Ólafsdóttur og Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Árna Stefán Jónsson og Þórarin Eyfjörð frá SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu. Nefndinni bárust umsagnir um frumvarpið frá Bandalagi háskólamanna, Félagi íslenskra félagsliða, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Iðjuþjálfafélagi Íslands, Kennarasambandi Íslands, Reykjavíkurborg, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu og Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi.
    Tilefni frumvarps þessa er frumvarp félags- og tryggingamálaráðherra til laga um breytingu á lögum um málefni fatlaðra sem miðar að því að færa málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga (256. mál). Til grundvallar því frumvarpi liggur viljayfirlýsing ríkis og sveitarfélaga um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga frá 13. mars 2009. Í frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar felast tvenns konar breytingar:
    Í fyrsta lagi er lagt til að þeir starfsmenn sem eru félagar í SFR – stéttarfélagi í almannaþjónustu og gerast 1. janúar 2011 starfsmenn sveitarfélaga í stofnunum eða einingum í málaflokki fatlaðra skuli eiga þess kost að vera áfram í því stéttarfélagi sem fer þá með samningsumboð þeirra við sveitarfélögin. Frumvarpið felur í sér svokallað sólarlagsákvæði enda er gert ráð fyrir því að starfsmenn sem koma til starfa í einingum eða stofnunum fyrir fatlaða hjá sveitarfélögunum eftir framangreint tímamark skuli vera félagsmenn í hlutaðeigandi bæjarstarfsmannafélagi.
    Í öðru lagi er lagt til að þeir starfsmenn sem eiga aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins fái aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga en þeir sem óska þess fái þó að halda aðild að A-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins með samþykki viðkomandi sveitarfélags. Starfsmenn sem eiga aðild að Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga halda þeirri aðild, svo og þeir starfsmenn sem eiga aðild að B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.
    Við umfjöllun um málið í nefndinni kom fram að í því fælist nokkurt óhagræði fyrir sveitarfélögin að starfsfólk sem starfar að málefnum fatlaðra geti áfram verið í því stéttarfélagi sem það er í við tilfærslu þjónustunnar. Þá var bent á mikilvægi þess starfsmatskerfis sem sveitarfélögin hafa þróað og væri talið tryggja jafnrétti í launamálum sveitarfélaganna sem og mikilvægi þess að réttindi þeirra sem starfa núna í málaflokknum verði ekki skert við tilfærsluna.
    Í 2. gr. frumvarpsins kemur fram að endurskoða skuli þá tillögu sem frumvarpið byggist á samhliða endurmati á fjárhagslegum forsendum samkvæmt samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga. Í athugasemdum við greinina kemur fram að fyrirhugaðar séu frekari tilfærslur verkefna milli ríkis og sveitarfélaga. Því þurfi að breyta fyrirkomulagi samningamála þannig að álitaefni af þessu tagi komi ekki upp í hvert sinn sem tilfærslur verða. Fram kemur að aukinn kraftur verði settur í þetta með það að markmiði meðal annars að einfalda tilfærslur verkefna milli ríkis og sveitarfélaga. Í 5. mgr. 33. gr. frumvarps félags og tryggingamálaráðherra í 256. máli kemur fram að faglegt og fjárhagslegt mat á samstarfsverkefninu skuli fara fram fyrir árslok 2014.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.
    Þór Saari var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. des. 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Magnús Orri Schram.



Birkir Jón Jónsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Róbert Marshall.