Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 196. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 513  —  196. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þórð Reynisson og Lindu Garðarsdóttur frá fjármálaráðuneyti, Jónu Björk Guðnadóttur, Jón Guðna Ómarsson, Hannes Hafstein og Helenu Hilmarsdóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Ingvar Rögnvaldsson og Aðalstein Hákonarson frá ríkisskattstjóra, Þórdísi Bjarnadóttur frá Viðskiptaráði, Friðrik Ó. Friðriksson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Elínu Jónsdóttur frá Bankasýslu ríkisins, Jónas Þórðarson frá Seðlabanka Íslands og Árna Tómasson frá skilanefnd Glitnis. Þá hafa nefndinni borist umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Bankasýslu ríkisins, Deloitte, Félagi atvinnurekenda, Hagsmunasamtökum heimilanna, Neytendasamtökunum, PriceWaterhouseCoopers, Ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fjárfesta, Samtökum fjármálafyrirtækja, Seðlabanka Íslands, skilanefnd Glitnis og Viðskiptaráði Íslands.
    Yfirlýst markmið frumvarpsins er að skattur á fjármálafyrirtæki sem þar er lagður til standi undir tekjuöflun ríkissjóðs og dragi úr áhættu í starfsemi fyrirtækjanna. Þau fjármálafyrirtæki sem skattskyldan tekur til eru viðskiptabankar, sparisjóðir, lánafyrirtæki og verðbréfafyrirtæki auk annarra aðila sem hafa heimild til að taka við innlánum eða stunda viðskipti með verðbréf, sbr. nú lög nr. 108/2007. Einnig er gert ráð fyrir að skattskyldan taki til útibúa hér á landi í eigu erlendra fjármálafyrirtæki sem hafa sömu starfsemi með höndum. Undanþegin skattskyldu verði fyrirtæki alfarið í eigu opinberra aðila samkvæmt sérlögum og aðilar sem sæta slitameðferð skv. 101. gr. laga nr. 161/2002. Einnig falla undir undanþáguna aðilar sem eru með skattstofn undir 5.000 millj. kr. sem mundu að öðrum kosti falla undir gildissvið frumvarpsins. Fram kemur í athugasemdum við frumvarpið að með þessari undanþágu verði undanskilin skattlagningunni mörg verðbréfafyrirtæki og minni sparisjóðir.
    Stofn til sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki er heildarskuldir skattskylds aðila í lok tekjuárs eins og þær eru tilgreindar á skattframtali, sbr. 75. gr. laga nr. 90/2003, en frá stofninum verður heimilt að draga þann hluta tryggðra innstæðna sem að hámarki geta komið til útborgunar vegna hvers innstæðueiganda, sbr. lög um innstæðutryggingar. Gerð er tillaga um að skattprósentan verði 0,045%. Um álagningu, eftirlit, kærur og innheimtu skattsins fer eftir ákvæðum tekjuskattslaga. Frumvarpinu er ætlað að taka til tekjuársins 2010 auk þess sem gert er ráð fyrir að það komi til endurskoðunar innan eins árs frá gildistöku.
    Reiknað er með að tekjur ríkissjóðs af skattinum verði nálægt 1 milljarði kr. og er það í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins.
    Helstu athugasemdir sem fram komu við umfjöllun nefndarinnar voru að um væri að ræða skatt sem íþyngdi einni atvinnugrein umfram aðrar, að aðilum innan bankageirans væri mismunað með tilliti til undanþáguákvæðisins og að áhrif frumvarpsins væru afturvirk þar sem það tæki til tekna ársins 2010. Einnig var lýst efasemdum um að skattlagningin fæli í sér hvata til að draga úr áhættutöku banka, fremur væri hún til þess fallin að auka tekjur ríkissjóðs á kostnað viðskiptavina bankanna.
    Sjónarmið komu fram um að ekki væri tilefni til að undanskilja minni fjármálafyrirtæki skattlagningu þar sem reynslan kenndi að þau gætu verið áhættusækin. Ekki væri heldur hægt að útiloka þann möguleika að aðilar sem féllu undir skattlagninguna notfærðu sér undanþáguákvæði frumvarpsins í þeim tilgangi að koma hluta skulda sinna yfir á minna fyrirtæki eins og verðbréfafyrirtæki. Undanþágan væri auk þess varhugaverð með tilliti til samkeppnissjónarmiða.
    Nefndin ræddi þá leið sem lögð er til í frumvarpinu við ákvörðun skattstofnsins og hvort aðrar leiðir væru færar við að ná markmiðum frumvarpsins. Í minnisblaði fjármálaráðuneytisins kemur fram að ráðuneytið hafi skoðað í samstarfi við ríkisskattstjóra hvort betra væri að hafa stofninn skuldir og eigið fé að frádregnum eiginfjárþætti A. Kemur þar fram að tillaga frumvarpsins hafi verið valin fyrst og fremst vegna þess að hún væri auðveldari í framkvæmd.
    Samtök fjármálafyrirtækja og fleiri lögðu áherslu á að við meðferð málsins yrði gætt samræmis við frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta sem vísað hefði verið til viðskiptanefndar Alþingis, til að koma í veg fyrir að innlán sættu tvískattlagningu. Umrætt frumvarp gerir ráð fyrir að iðgjaldastofn reiknist á allar tryggðar innstæður óháð fjárhæð. Nefndin kannaði af þessu tilefni hvort til greina kæmi að afnema heimild til frádráttar frá skattstofninum og hafa skattprósentuna þess í stað lægri.
    Hagsmunasamtök heimilanna gera athugasemdir við hversu lágt skatthlutfallið er ákvarðað í frumvarpinu og til hve takmarkaðs hluta veltu fjármálafyrirtækja hann nær. Leggja samtökin til að farnar verði aðrar leiðir til að draga úr áhættusækni fjármálafyrirtækja og reisa skorður við útlánum til stórra og tengdra aðila.
    Á fundum nefndarinnar vöktu fulltrúar skilanefndar Glitnis athygli nefndarinnar á því hvernig frumvarpið horfði við með hliðsjón af samkomulagi við stjórnvöld um kaup skilanefndarinnar, f.h. kröfuhafa bankans, á 95% hlut í Íslandsbanka.
    Seðlabanki Íslands telur í ljósi alþjóðlegrar þróunar um skattheimtu af sama meiði að með batnandi afkomu ríkissjóðs í framtíðinni sé rétt að endurskoða hvort tekjur af skattinum skuli renna í sérstakan viðlagasjóð vegna fjármálakerfisins.
    Ríkisskattstjóri telur ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins sem fylgir frumvarpinu.
    Með hliðsjón af framangreindum athugasemdum leggur nefndin til þá breytingu að heimild til frádráttar falli brott og að gjaldhlutfall lækki úr 0,045% í 0,041%.
    Nefndin leggur einnig til að verðbréfafyrirtæki falli ekki undir gildissvið laganna. Fram kemur í minnisblaði fjármálaráðuneytisins að skuldir verðbréfafyrirtækja séu fyrst og fremst rekstrarskuldir sem að jafnaði séu undir þeim fjárhæðarviðmiðum sem fram koma í a-lið 2. gr. frumvarpsins. Nefndin telur að í stað viðmiða sé eðlilegra að umrædd leyfisstarfsemi verði skilin frá gildissviði laganna en viðurkennir á sama tíma að í ljósi framangreindra sjónarmiða um skattasniðgöngu geti tilefni verið til endurskoðunar að ári, sbr. 9. gr. frumvarpsins.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:

     1.      Við 2. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                      Skylda til að greiða sérstakan skatt, eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum, hvílir á fjármálafyrirtækjum, sem hafa fengið starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki, og öðrum aðilum sem hafa fengið leyfi til að taka við innlánum. Skattskylda þessi tekur einnig til útibúa erlendra fjármálafyrirtækja sem taka við innlánum eða hafa sambærilegar starfsheimildir og viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki.
                  b.      A-liður 2. mgr. falli brott.
     2.      4. gr. falli brott.
     3.      Við 5. gr. Í stað hlutfallstölunnar „0,045%“ komi: 0,041%.

    Tryggvi Þór Herbertsson og Pétur H. Blöndal gera fyrirvara við álitið. Fyrirvarinn er almenns eðlis.
    Þór Saari var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 13. des. 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.


Álfheiður Ingadóttir.



Magnús Orri Schram.


Birkir Jón Jónsson.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.