Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 339. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 559  —  339. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um atvinnuleysistryggingar og lögum um málefni aldraðra, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hönnu Sigríði Gunnsteinsdóttur, Bjarnheiði Gautadóttur og Sturlaug Tómasson frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, Gissur Pétursson og Unni Sverrisdóttur frá Vinnumálastofnun, Tryggva Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Sonju Ýri Þorbergsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Ragnar Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Halldór Grönvold frá Alþýðusambandi Íslands og Ernu Guðmundsdóttur frá Bandalagi háskólamanna og Kennarasambandi Íslands. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Samiðn – sambandi iðnfélaga, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu og Bandalagi háskólamanna.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um atvinnuleysistryggingar þess efnis að þeir sem hafa fengið greiddar atvinnuleysisbætur í fyrsta skipti 1. maí 2008 eða síðar hafi rétt á áframhaldandi atvinnuleysisbótum í tólf mánuði til viðbótar frá þeim degi er þriggja ára tímabili þeirra lýkur enda uppfylli þeir áfram skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta. Þá er lögð til sú breyting á bráðabirgðaákvæði um heimild til greiðslu atvinnuleysisbóta á móti minnkuðu hlutastarfi, til launþega og sjálfstætt starfandi einstaklinga, að ákvæðið framlengist til 30. júní 2011 en heimildin mun að óbreyttu falla úr gildi um næstu áramót. Að auki er lögð til sú breyting að starfshlutfall launafólks verði að skerðast um 30% hið minnsta í stað 20% áður svo að viðkomandi geti átt rétt á hlutfallslegum greiðslum. Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á lögum um málefni aldraðra þar sem lagt er til að Framkvæmdasjóði aldraðra verði heimilt á grundvelli laga um málefni aldraðra að ráðstafa fé úr sjóðnum til reksturs hjúkrunarheimila á árinu 2011.

Samstarfshópur.
    Líkt og fram kemur í athugasemdum við frumvarpið hefur verið starfandi samstarfshópur á vegum félags- og tryggingamálaráðuneytis þar sem eiga sæti auk fulltrúa ráðuneytisins fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins og Vinnumálastofnun. Hefur hópurinn unnið tillögur að breytingum á lögum um atvinnuleysistryggingar. Gerðu gestir alvarlegar athugasemdir við að í fyrirliggjandi frumvarpi hefði vinna hópsins algjörlega verið sniðgengin og tillögur hans ekki ratað þar inn nema að mjög litlu leyti. Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að sátt hefði náðst um breytingar á lögunum er lytu að því að veita atvinnuleitanda rétt til veikindadaga án þess að hann félli við það af bótum. Auk þess sem hópurinn hefði unnið tillögur er lytu að því að styrkja eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar og koma í veg fyrir bótasvik.

Veikindaréttur atvinnuleitanda.
    Fyrsti minni hluti telur það mikilvægt réttindamál að atvinnuleitendum sé tryggður veikindaréttur og leggur til að við frumvarpið bætist ákvæði þess efnis.
    Samkvæmt gildandi lögum er ekki gert ráð fyrir að sá sem er óvinnufær vegna tilfallandi veikinda teljist vera í virkri atvinnuleit í skilningi 14. gr. laganna og þar með telst hann ekki tryggður á grundvelli laganna þann tíma sem veikindin standa yfir. Lögð er til breyting á 14. gr. en ekki talið að um efnisbreytingu á gildandi lögum sé að ræða þótt lagt sé til að tekið verði skýrar fram í lögunum en áður að þeim sem fá greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli laganna beri að tilkynna um tilfallandi veikindi sín til Vinnumálastofnunar enda séu þeir óvinnufærir þann tíma og geti þar af leiðandi hvorki tekið starfi sem býðst né tekið þátt í virkum vinnumarkaðsúrræðum. Lagt er til að sá sem telst tryggður samkvæmt lögunum geti talist í virkri atvinnuleit þrátt fyrir tilfallandi veikindi í allt að fimm daga samtals sem heimilt verði að nýta að hámarki í tvennu lagi á hverju tólf mánaða tímabili enda hafi hann verið skráður innan kerfisins samtals í fimm mánuði frá fyrstu skráningu á sama tímabili. Er þá átt við það tímabil sem viðkomandi er skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun og telst hluti þess tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar skv. 29. gr. laganna. Í slíkum tilvikum er gert ráð fyrir að honum beri að tilkynna til Vinnumálastofnunar um upphaf og lok veikindanna. Vari tilfallandi veikindi lengur en fimm daga á hverju tólf mánaða tímabili fengi viðkomandi ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þá daga sem umfram eru. Sem dæmi má nefna að einstaklingur sem hefur verið skráður án atvinnu í samtals sex mánuði og verður tilfallandi veikur í þrjá daga fengi greiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil og teldist það hluti tímabilsins sem atvinnuleysisbætur eru greiddar skv. 29. gr. laganna, enda tilkynni hann um upphaf veikindanna til Vinnumálastofnunar á fyrsta degi þeirra sem og um lok veikindanna. Hinn tryggði gæti þá aftur orðið veikur í tvo daga innan tólf mánaða frá upphafi fyrri veikindanna án þess að það hefði áhrif á greiðslu atvinnuleysisbóta til hans. Yrði hann veikur í lengri tíma en tvo daga innan tímabilsins fengi hann ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir þá daga sem umfram væru. Í slíkum tilvikum kynni viðkomandi hins vegar að eiga rétt á greiðslum frá sjúkrasjóði þess stéttarfélags sem hann er félagi í hafi hann áfram greitt til stéttarfélags síns eftir að hann missti starf sitt, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna.
    Þá leggur 1. minni hluti jafnframt til breytingu á 29. gr. laganna þess efnis að gert er ráð fyrir að sá tími sem tilfallandi veikindi standa yfir skv. 14. gr. laganna teljist til þess tímabils sem atvinnuleysisbætur eru greiddar skv. 29. gr. Telur 1. minni hluti mikilvægt að veita Vinnumálastofnun svigrúm til að útfæra breytingarnar og gera nauðsynlegar kerfisbreytingar en telur þó hér um það mikilvæg réttindi að ræða að ekki sé rétt að fresta gildistöku ákvæðanna nema um mjög skamman tíma. Leggur 1. minni hluti því til að gildistaka þessara ákvæða verði 1. mars. 2011. Áætlað er að breytingin leiði til 20–30 millj. kr. útgjaldaaukningar á ársgrundvelli.

Eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar.
    Samráðshópurinn hafði jafnframt gert drög að breytingum á 59. og 60. gr. laganna sem miða að því að styrkja eftirlitsheimildir Vinnumálastofnunar. 1. minni hluti telur þessar breytingar mikilvægar en leggur ekki til breytingar á 60. gr. að svo stöddu þar sem um efnisbreytingu er að ræða sem ekki gafst tími til að ræða með fullnægjandi hætti í nefndinni. Í 59. gr. laganna er m.a. kveðið á um tilvik þegar einstaklingur sem er tryggður samkvæmt lögunum lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. laganna en í þeirri grein eru tiltekin skilyrði þess að einstaklingur teljist í virkri atvinnuleit. Skv. 59. gr. missir hinn tryggði í þessum tilvikum rétt til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði. Hið sama á við hafi einstaklingur vísvitandi látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingar sem orðið hafa á högum hans og kunna að hafa áhrif á rétt hans til atvinnuleysisbóta. Lagðar eru til þær breytingar á ákvæðinu að viðurlögin um bótamissi eigi ekki einungis við hafi verið látið hjá líða að veita upplýsingar skv. h-lið 1. mgr. 14. gr. heldur upplýsingar skv. 14. gr. og þar af leiðandi m.a. um öll skilyrði fyrir virkri atvinnuleit. Að auki leggur 1. minni hluti til að fellt verði brott orðið „vísvitandi“ þannig að ákvæðið muni eiga við um tilvik þegar hinn tryggði lætur hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili enda þótt ekki sé unnt að sýna fram á að hann hafi vísvitandi haldið þessum upplýsingum leyndum fyrir stofnuninni.

Hlutfallslegar atvinnuleysisbætur.
    Fyrsti minni hluti ræddi þá breytingu sem lögð er til á ákvæðum um bætur vegna minnkaðs starfshlutfalls. Ákvæðin voru lögfest tímabundið í nóvember 2008 vegna sérstakra aðstæðna á vinnumarkaði. Síðan hafa ákvæðin tekið nokkrum breytingum og verið framlengd nokkrum sinnum.
    Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að ólíklegt væri að sú breyting að hlutfallslegar atvinnuleysisbætur greiðist aðeins ef starfshlutfall skerðist um 30% hið minnsta í stað 20% áður mundi draga úr útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Aftur á móti mundu því fylgja aukin útgjöld þar sem gera mætti ráð fyrir því að hluti þeirra sem nú væri í 80% starfi yrðu skertir í 70%. Reynslan af breytingu hlutfallsins úr 20% í 10% hafi sýnt það. Þá skapaði breytingin einnig hættu á því að fólki yrði einfaldlega sagt upp starfi sínu með tilheyrandi útgjaldahækkun úr sjóðnum. Breytingin færi því gegn því markmiði að halda fólki virku og draga úr uppsögnum. Nefndinni voru jafnframt kynnt gagnstæð sjónarmið þess efnis að margt launafólk hafi þurft að þola lækkun fastra launa, lækkun tekna vegna minni yfirvinnu og uppsögn á fastri yfirvinnu en engar bætur hafi verið greiddar til þess fólks.
    Breytingin er liður í því að ná aðhaldsmarkmiðum í fjárlögum 2011 um lækkun útgjalda Atvinnuleysistryggingasjóðs. Til að mæta gagnrýni á ákvæðið leggur 1. minni hluti til að það skilyrði að starfshlutfall launafólks verði að skerðast um 30% hið minnsta í stað 20% áður eigi eingöngu við um þá sem sækja um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða V í fyrsta skipti 1. janúar 2011 eða síðar. Þannig geta þeir sem þegar hafa fengið greiddar hlutfallslegar atvinnuleysisbætur fyrir 1. janúar 2011 samhliða skertu starfshlutfalli sem hefur verið skert um allt að 29% áfram fengið greiddar slíkar atvinnuleysisbætur. Með þessu er því ekki verið að taka af fólki rétt sem það hefur haft fram að þessu en ný viðmið eiga við um alla þá sem verða fyrir skerðingu starfshlutfalls eftir gildistöku laganna.
    Í umsögn fjárlagaskrifstofu um frumvarpið var gert ráð fyrir að sparnaður af lækkun hlutfalls úr 20% í 30% yrði 170 millj. kr. á ársgrundvelli að því gefnu að ákvæðið yrði framlengt að nýju um mitt ár til loka árs 2011. Sú breyting sem 1. minni hluti leggur til dregur úr þeim sparnaði og er áætlaður sparnaður samkvæmt útreikningum ráðuneytisins í kringum 40 millj. kr. á hálfsársgrundvelli eða 80 millj. kr. á ársgrundvelli ef ákvæðið yrði framlengt að nýju.

Lenging bótatímabils.
    Fyrsti minni hluti leggur til breytingu á 3. gr. frumvarpsins í því skyni að ákvæðið nái betur tilgangi sínum og komi til móts við þá sem misstu störf sín vegna þeirra aðstæðna á vinnumarkaði sem rekja má til efnahagsþrenginganna á árinu 2008. Þykir 1. minni hluta eðlilegra að miða við að þeir sem fengu í fyrsta skipti greiddar atvinnuleysisbætur 1. mars 2008 eða síðar, í stað 1. maí 2008 eða síðar, geti átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í tólf mánuði til viðbótar frá þeim degi er þriggja ára tímabili þeirra skv. 1. mgr. 29. gr. laganna lýkur enda uppfylli þeir áfram skilyrði laganna um rétt til atvinnuleysisbóta. 1. minni hluti telur mikilvægt að gera þessa breytingu á frumvarpinu enda fer einstaklingum sem verið hafa á atvinnuleysisbótum í þrjú ár samfleytt fjölgandi frá og með 1. mars 2011. Áætlað er að breytingin leiði til 110 millj. kr. útgjaldaaukningar á ársgrundvelli.
    Jafnframt leggur 1. minni hluti til tæknilega breytingu til að tryggja að 2. mgr. 3. gr. frumvarpsins nái markmiði sínu. Réttur skv. 2. mgr. virkjast ekki fyrr en gildistími og er því lögð til sú breyting að ákvæði 2. mgr. hafi ekki afmarkaðan gildistíma.
    Fyrsti minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir í áliti þessu og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Ólafur Þór Gunnarsson, Ásmundur Einar Daðason og Unnur Brá Konráðsdóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. des. 2010.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Þórunn Sveinbjarnardóttir.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.