Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 200. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 566  —  200. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um ráðstafanir í ríkisfjármálum.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ingibjörgu Helgu Helgadóttur, Maríönnu Jónasdóttur og Sigurð Guðmundsson frá fjármálaráðuneyti, Ólaf Hannibalsson og Helga K. Hjálmsson frá Landssambandi eldri borgara, Pétur Reimarsson og Halldór Árnason frá Samtökum atvinnulífsins, Arinbjörn Sigurgeirsson frá Hagsmunasamtökum heimilanna, Lilju Þorgeirsdóttur og Báru Snæfeld Jóhannsdóttur frá Öryrkjabandalagi Íslands, Ólaf Darra Andrason frá Alþýðusambandi Íslands, Helgu Jónsdóttur frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Harald I. Birgisson frá Viðskiptaráði, Gunnar Val Sveinsson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Almar Guðmundsson frá Félagi atvinnurekenda, Bjarna Má Gylfason frá Samtökum iðnaðarins, Andrés Magnússon frá Samtökum verslunar og þjónustu, Hrafn Magnússon og Gunnar Baldvinsson frá Landssamtökum lífeyrissjóða, Ingvar Rögnvaldsson, Elínu Ölmu Arthúrsdóttur og Guðrúnu Jennýju Jónsdóttur frá ríkisskattstjóra, Vilhjálm Bjarnason frá Samtökum fjárfesta, Gunnlaug Júlíusson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hildigunni Hafsteinsdóttur frá Neytendasamtökunum, Stefán Eiríksson lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu og Rafn M. Jónsson og Stefán Hrafn Jónsson frá Lýðheilsustöð.
    Umsagnir um málið bárust frá eftirtöldum aðilum: Alþýðusambandi Íslands, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Biskupsstofu, Bændasamtökum Íslands, Deloitte hf., Félagi atvinnurekenda, Félagi löggiltra endurskoðenda, Frama – bandalagi íslenskra leigubílstjóra, Hagsmunasamtökum heimilanna, Jafnréttisstofu, KPMG hf., Landssambandi eldri borgara, Landssamtökum lífeyrissjóða, Neytendasamtökunum, Orkustofnun, PriceWaterhouseCoopers hf., ríkisendurskoðun, ríkisskattstjóra, ríkisútvarpinu, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fjárfesta, Seðlabanka Íslands, Siglingastofnun, Strætó bs., svæðisskrifstofu málefna fatlaðra á Suðurlandi og Vestfjörðum, tollstjóra, Tryggingastofnun ríkisins, umboðsmanni skuldara, Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Viðskiptaráði Íslands og Öryrkjabandalagi Íslands.

Frumvarpið.
    Frumvarpið er lagt fram í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins fyrir næsta ár og stefnu ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum sem unnin er á grundvelli efnahagsáætlunar Íslands í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
    Í frumvarpinu eru lagðar til sérstakar tekjuöflunaraðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga fyrir árið 2011. Yfirlit yfir þær og hvernig þær skiptast milli tekjustofna er í athugasemdum frumvarpsins. Eftirtaldar aðgerðir eru lagðar til: að hlutfall fjármagnstekjuskatts einstaklinga hækki úr 18% í 20% sem áætlað er að skili á næsta ári um 1,5 milljarði kr., að hlutfall tekjuskatts hlutafélaga og einkahlutafélaga hækki úr 18% í 20% og samsvarandi hjá sameignar- og samlagsfélögum sem skili um 500 millj. kr., að hlutfall auðlegðarskatts hækki úr 1,25% í 1,50% auk lækkunar á fríeignamörkum úr 90 millj. kr. í 75 millj. kr. hjá einstaklingum og úr 120 millj. kr. í 100 millj. kr. hjá hjónum sem skili um 1,5 milljarði kr., að hlutfall erfðafjárskatts hækki úr 5% í 10% auk hækkunar á fríeignamörkum úr 1 millj. kr. í 1,5 millj. kr. sem skili 1 milljarði kr., að tóbaksgjald, sem hækkar 3% umfram verðlag, og sérstakt vörugjald í komuverslunum fríhafna skili 600 millj. kr., að kolefnisgjald hækki úr 50% í 75% sem hlutfall af verði losunarheimilda á uppboðsmarkaði ESB sem skili um 1 milljarði kr., að heimild til útgreiðslu séreignarsparnaðar verði rýmkuð sem skili um 3 milljörðum kr.
    Forsendur fjárlaga gera einnig ráð fyrir kerfisbreytingu á bifreiðagjaldi og vörugjaldi bifreiða, sem skili um 200 millj. kr., og sérstökum bankaskatti, sem skili um 1 milljarði kr. en þær breytingar koma fram í sérstökum frumvörpum (sjá þskj. 214 í 197. máli og þskj. 213 í 196. máli). Gert er ráð fyrir að aðgerðirnar skili samanlagt um 10,3 milljörðum kr. en að aðgerðir sem fram koma í því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar skili 9,1 milljarði kr.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að barnabætur sem greiddar eru með börnum yngri en sjö ára og nema 61.191 kr. á ári með hverju barni verði skertar með tekjutengingu eins og aðrar barnabætur. Tekjuskerðingarhlutfallið verði 3% óháð fjölda barna. Einnig er lagt til að tekjuskerðingarhlutfall barnabóta vegna eins barns innan 18 ára aldurs, 152.331 kr. í tilviki hjóna og 253.716 kr. í tilviki einstæðra foreldra, hækki úr 2% í 3%. Með þessum breytingum er ætlunin að ná fram markmiðum fjárlagafrumvarpsins sem gerir ráð fyrir að heildarútgreiðslur barnabóta í ár nemi 10,5 milljörðum kr. en verði á næsta ári 9,2 milljarðar kr. Loks er lagt til að óheimilt verði að skuldajafna barnabótum á móti opinberum gjöldum út árið 2011, sbr. nú ákvæði til bráðabirgða XXXI í lögum um tekjuskatt.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að vaxtagjöld til útreiknings vaxtabóta skerðist sem nemur 7% af tekjuskattstofni í stað 6% og að ákvarðaðar vaxtabætur skerðist um 8% hjá öllum rétthöfum. Í fjárlagafrumvarpinu er reiknað með að greiðslur ríkissjóðs vegna vaxtabóta verði um 9,8 milljarðar kr. eða um 2 milljörðum kr. lægri en áætlun ársins 2010 gerir ráð fyrir. Frumvarpið nefnir ekki að hámarksfjárhæðir bótanna munu að óbreyttu lækka á næsta ári vegna ákvæðis XXXII til bráðabirgða í lögum um tekjuskatt. Tekið er fram í athugasemdum að í ljósi boðaðra aðgerða vegna skuldavanda heimila komi til greina að breyta kerfi vaxtabóta. Þá er lagt til að útgreiðsla vaxtabóta miðist við greidda vexti og verðbætur í stað gjaldfallinna.
    Frumvarpið gerir ráð fyrir almennri 4% hækkun á almennu vörugjaldi af eldsneyti, sérstöku bensíngjaldi og olíugjaldi sem reiknað er með að skili um 750 millj. kr. tekjuauka. Samsvarandi hækkun er lögð til á almennu og sérstöku kílómetragjaldi sem skili 30 millj. kr. Í frumvarpinu er einnig gert ráð fyrir 4% hækkun vörugjalds á áfengi sem skili 400 millj. kr. og 7% hækkun vörugjalds á tóbak sem er 3% umfram verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Gert er ráð fyrir að sú umframhækkun ásamt upptöku sérstaks vörugjalds í komuverslunum fríhafna skili um 600 millj. kr.
    Í frumvarpinu eru lagðar til hækkanir á ýmsum mörkuðum tekjustofnum ríkisins í samræmi við verðlagsforsendur fjárlagafrumvarpsins. Þar má nefna: hækkun útvarpsgjalds úr 17.200 kr. í 17.900 kr. sem skila á um 140 millj. kr. tekjuauka, hækkun vitagjalds úr 125,12 kr. af hverju brúttótonni skips í 130,12 kr. sem skili 10 millj. kr., hækkun á gjaldi í Framkvæmdasjóð aldraðra úr 8.400 kr. í 8.700 kr. sem skili 60 millj. kr.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir skertum framlögum ríkisins til þjóðkirkjusafnaða og skráðra trúfélaga á grundvelli laga um sóknargjöld o.fl., og að gjaldið verði 698 kr. á mánuði árið 2011 fyrir hvern einstakling 16 ára og eldri. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða III í lögunum nemur gjaldið 767 kr. á mánuði fyrir árið 2010. Reiknað er með að breytingin spari ríkinu í heildina útgjöld að fjárhæð 236 millj. kr. að meðtaldri skerðingu á framlagi vegna Jöfnunarsjóðs sókna og Kirkjumálasjóðs. Þá er í frumvarpinu lagt til að skuldbinding ríkissjóðs á árinu 2011 gagnvart þjóðkirkjunni samkvæmt sérstöku samkomulagi ríkis og kirkju lækki á næsta ári um 100 millj. kr. og að framlag ríkisins til Kristnisjóðs skerðist um 5,9 millj. kr. Á þessu ári nam hagræðingarkrafan um 160 millj. kr. gagnvart þjóðkirkjunni og 9 millj. kr. gagnvart Kristnisjóði, sbr. ákvæði til bráðabirgða í lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar.
    Loks er í frumvarpinu gert ráð fyrir að bætur almannatrygginga, svo og greiðslur skv. 63. gr. og fjárhæðir skv. 22. gr. laga um almannatryggingar, fylgi hvorki launaþróun né verðlagi á næsta ári. Talið er að þetta spari ríkinu um 2,7 milljarða kr. miðað við spá um 3,5% verðbólgu sem nú hefur verið endurskoðuð.
    Samkvæmt kostnaðarumsögn fjármálaráðuneytisins er talið að í heild muni ráðstafanir frumvarpsins bæta afkomu ríkissjóðs um 15,6 milljarða kr. en á sama tíma hefur athygli efnahags- og skattanefndar verið vakin á verri hagvaxtarhorfum eftir útkomu uppfærðrar þjóðhagsspár frá liðnum nóvember, sbr. álit meiri hluta efnahags- og skattanefndar sem fylgir áliti meiri hluta fjárlaganefndar við fjárlagafrumvarpið (sjá fskj. I með þskj. 413 í 1. máli).

Umfjöllun nefndarinnar.
    Talsmenn atvinnulífsins héldu því fram á fundum nefndarinnar að tekjuöflunaráform frumvarpsins hefðu neikvæð áhrif á endurreisn atvinnulífsins. Þannig væri hækkun fjármagnstekjuskatts og tekjuskatts lögaðila til þess fallin að halda aftur af innlendri eftirspurn, fjárfestingu og sparnaði. Þetta væri ekki síst alvarlegt í ljósi erfiðrar skuldastöðu heimila og fyrirtækja sem greiningaraðilar telja að geti staðið efnahagsbata næsta árs fyrir þrifum. Ólíklegt væri að aðgerðin leiddi til tekjuauka fyrir ríkissjóð og á það skorti að gerðar væru raunhæfar áætlanir um hagræðingu í ríkisrekstrinum. Jafnframt þyrfti að leggja aukna áherslu á verðmætasköpun.
    Gagnrýnd voru þau ummæli í athugasemdum frumvarpsins að með hækkun á fjármagnstekjuskatti og tekjuskatti lögaðila væri ekki verið að íþyngja fjármagnseigendum og hluthöfum umfram launafólk. Um væri að ræða ólíka tekjustofna sem meðhöndla þyrfti með mismunandi hætti í skattalegu tilliti. Samtök atvinnulífsins segjast í sinni umsögn telja að ef hækkanirnar eru öðrum þræði hugsaðar til að sporna gegn misnotkun á hlutafélagaforminu sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni því miklu nær væri að beina þá sjónum að reglum um reiknað endurgjald. Samtökin hvetja einnig til þess í ljósi spár um minna atvinnuleysi á næsta ári að tryggingagjald lækki til samræmis og telur meiri hlutinn eðlilegt að þetta verði rætt í komandi kjarasamningsviðræðum.
    Hækkun erfðafjárskatts var gagnrýnd á þeim grundvelli að um ósanngjarna skattheimtu væri að ræða og það sama var sagt um auðlegðarskattinn. Tilvist auðlegðarskatts væri úr takti við alþjóðlega þróun. Gerðar voru athugasemdir við að framkvæmd skattsins væri um margt óljós og að skatturinn gæti leitt til ótímabærrar sölu eigna eða ótímabærra arðgreiðslna úr félögum ef það væri eina raunhæfa leið eigendanna til að standa skil á skattinum. Aðrir lögðu áherslu á að skatturinn yrði tímabundinn. Nefndin ræddi einnig hvort tilvist skattsins hefði leitt til landflótta efnaðs fólks og jafnvel skilnaðar hjóna í því skyni að komast undan skattheimtunni.
    Nefndin ræddi tillögur frumvarpsins um hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi og áhrif slíkrar hækkunar á tekjuöflun ríkissjóðs sem og á neyslumynstur og lýðheilsu. Í umsögn ÁTVR er talið að hækkanir á áfengisgjaldi að undanförnu hafi leitt til samdráttar í sölu sterkra drykkja og töldu ýmsir að hætta væri á að viðskiptin færðust í hendur aðila sem ekki væri haft eftirlit með og stunduðu ólöglega starfsemi eða heimbrugg. Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins og fulltrúar Lýðheilsustöðvar komu á fund nefndarinnar til að ræða þessi sjónarmið.
    Aðilar í ferðaþjónustu, leigubifreiðastjórar og aðrir mótmæltu boðaðri 50% hækkun kolefnisgjalds og hækkunum á almennu og sérstöku bensíngjaldi, olíugjaldi og almennu og sérstöku kílómetragjaldi. Fram komu athugasemdir um að hækkanirnar kæmu illa við rekstur innanlandsflugs og hópbifreiðafyrirtæki. Innan nefndarinnar var enn fremur gagnrýnt að þrátt fyrir að yfirlýstur tilgangur kolefnisgjalds væri vernd umhverfisins væri raunverulega um að ræða skatt á einstaklinga til tekjuöflunar fyrir ríkið. Umhverfisstofnun leggur til í umsögn sinni að gjaldinu verði varið til þess að standa undir ráðstöfunum í loftslagsmálum, þ.m.t. viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir sem gert sé ráð fyrir að verði innleitt í íslenska löggjöf á næstu missirum.
    Áhrif frumvarpsins til hækkunar á vísitölu neysluverðs eru metin 0,2% og var þessu harðlega mótmælt af hálfu Hagsmunasamtaka heimilanna með hliðsjón af verðtryggðum lánum heimilanna. Jafnframt voru gerðar athugasemdir við þá framsetningu í frumvarpinu að rökstyðja hækkanir á krónutölusköttum og gjöldum með vísan til verðlagshækkana, yrði það almenna reglan myndi það leiða til víxlverkunar skattahækkana og verðlags. Enn fremur töldu sumir að fenginni uppfærðri þjóðhagsspá þar sem gert er ráð fyrir 2,3% verðbólgu í stað 3,5% eins og forsendur fjárlagafrumvarpsins gera ráð fyrir, að eðlilegt væri að lækka samsvarandi krónutöluskatta og gjöld sem hækka eiga um 4% samkvæmt frumvarpinu.
    Fulltrúar lífeyrissjóðanna tóku fram á fundi með nefndinni að framkvæmd á útgreiðslu séreignarsparnaðar hefði gengið vel og benda á að flestir af þeim 50.000 sem nýtt hafa heimildina hafi haldið áfram að leggja fyrir. Mestu varði að aðgerðin hafi hjálpað fólki í greiðsluerfiðleikum og um leið aukið tekjur ríkis og sveitarfélaga án þess að grafið hafi verið undan eignastöðu sjóðanna. Á móti heyrðust raddir um að framlenging og útvíkkun umræddrar heimildar væri sérdeilis varhugaverð í ljósi alvarlegrar skuldastöðu heimila sem sum ættu ekki annarra kosta völ en að framfleyta sér tímabundið með fjármunum sem hugsaðir hefðu verið sem séreign til elliáranna. Jafnframt komu fram sjónarmið um að eðlilegt væri að heimila rétthöfum að taka út umbeðna fjárhæð á lengri tíma en 12 mánuðum. Í því sambandi gerir meiri hlutinn ráð fyrir að heimildin verði endurnýjuð fyrir árin 2012 og 2013.
    Í umsögn ASÍ er því haldið fram að hlutfall tekjuöflunar samtals í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sé orðið meira en upphafleg þriggja ára áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum gerði ráð fyrir en þar er miðað við að hlutfallið fari ekki fram úr 45% á móti 55% niðurskurði. Í umsögninni er einnig minnt á að samkvæmt lögum nr. 61/2008 sem samþykkt voru í tengslum við gerð kjarasamninga aðila vinnumarkaðarins hefði persónuafsláttur átt að hækka um 3.000 kr. í upphafi árs 2011 að undangenginni verðlagsuppfærslu, samtals 4.000 kr. Þessi áform voru slegin af á 138. löggjafarþingi með lögum nr. 128/2009 þar sem fallið var frá hækkun persónuafsláttar. Einnig var athygli nefndarinnar vakin á neikvæðum áhrifum frumvarpsins á kjör lífeyrisþega, m.a. vegna þess að bætur almannatrygginga fylgi ekki verðlagi enn eitt árið. Skerðingu barnabóta var enn fremur mótmælt vegna þeirra áhrifa sem það hefði á ráðstöfunartekjur barnafólks, einkum þess sem hefur lágar tekjur. Þá komu fram sjónarmið um að áform frumvarpsins um skerðingu vaxtabóta ynnu gegn þeirri stefnu stjórnvalda að aðstoða fólk í skuldavanda.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram það sjónarmið að útvarpsgjald væri markaður tekjustofn sem lögum samkvæmt ætti að ráðstafa til að standa straum af rekstri Ríkisútvarpsins ohf. en ekki til almennrar tekjuöflunar ríkissjóðs. Einnig kom fram það sjónarmið að upptaka áfengis- og tóbaksgjalds í komuverslunum Fríhafnarinnar væri líkleg til að draga úr framlegð fyrirtækisins sem væri ríkisfyrirtæki og enn fremur skekkja alþjóðlega samkeppnisstöðu þess.

Breytingartillögur nefndarinnar.
    Að höfðu samráði við fjármálaráðuneytið leggur meiri hlutinn til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:
     1.      Meiri hlutinn leggur til leiðréttingu á 2. gr. sem felur ekki í sér efnisbreytingu heldur er ætlað að gera framsetningu ákvæðisins skýrari.
     2.      Meiri hlutinn leggur til að b- og c-liður 3. gr. falli brott.
     3.      Meiri hlutinn leggur til að við 6. gr. frumvarpsins bætist tvö ný ákvæði, annað varðar tillögu að vaxtabótum fyrir árin 2011 og 2012 en hitt tillögu um tímabundna vaxtaniðurfærslu. Breytingar þessar eru lagðar til að frumkvæði fjármálaráðuneytisins og til skýringar fylgja með álitinu greinargerðir ráðuneytisins er þetta varða (sjá fylgiskjal I og II).
             Auk þess leggur meiri hlutinn til þrjár breytingar á c-lið 6. gr. Í fyrsta lagi er lagt til að við bætist ákvæði sem tryggi að bætur almannatrygginga sem og aðrar félagslegar bætur skerðist ekki vegna endurútreiknings afborgana og vaxta á gengistryggðum húsnæðis- og bílalánum sem tilkominn er vegna dóms Hæstaréttar um ólögmæti gengistryggðra lána frá miðju sumri. Breytingin á sér fyrirmynd í 9. mgr. 16. gr. frumvarpsins. Í annan stað er lagt til að skattaðili geti óskað eftir endurákvörðun vaxtabóta telji hann sér það til hagsbóta. Skilningur meiri hlutans er að allir skuldarar fái notið allra þeirra vaxtabóta sem þeir hefðu notið með réttu ef lánskjör hefðu frá upphafi verið í samræmi við endurútreikning. Það er einnig skilningur meiri hlutans að undir ákvæðið falli lán sem tilgreind eru í c-lið 6. gr. frumvarps um uppgjör gengistryggðra lána (sjá þskj. 225 í 206. máli). Að fenginni umsögn ríkisskattstjóra er í þriðja lagi lagt til að tekið verði skýrt fram í ákvæðinu að regla þessi eigi eingöngu við um menn utan atvinnurekstrar.
     4.      Meiri hlutinn leggur til breytingu á fjárhæð í c-lið 11. gr. um að sterkt vín hækki aðeins um 1% og er sú breyting gerð með hliðsjón af ábendingum ÁTVR og Félags atvinnurekenda. Fjárhæðir í a- og b-lið greinarinnar standi óbreyttar.
             Við meðferð málsins óskaði fjármálaráðuneytið eftir því að efnahags- og skattanefnd hlutaðist til um leiðréttingar á prósentutölum sem fram kæmu í d-lið 11. gr. og d-lið 13. gr. um upptöku áfengis- og tóbaksgjalds í komuverslunum fríhafnar þar sem ekki væri samræmi milli frumvarpstextans og athugasemda í greinargerð. Var þess óskað að hlutfallstölunni 15% í fyrrnefnda ákvæðinu yrði breytt í 10% og hins vegar að hlutfallstölunni 40% í síðarnefnda ákvæðinu yrði breytt í 20%. Meiri hlutinn fellst á fyrri breytinguna en ekki þá síðari. Meiri hlutinn telur enn fremur athugunarefni hvort yfirhöfuð standi sérstök efnisrök til tollfrjáls innflutnings tóbaks.
     5.      Meiri hlutinn leggur til að tilvísun í c-lið 14. gr. verði leiðrétt.
     6.      Í samræmi við óskir félags- og tryggingamálaráðuneytis er lagt til að við frumvarpið bætast ákvæði sem ætlað er að tryggja að ákvæði VI til bráðabirgða í lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og 14. tölul. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, haldist óbreytt árið 2011.
     7.      Með hliðsjón af endurmati á forsendum fjárlagafrumvarpsins leggur meiri hlutinn til að framlög til þjóðkirkjunnar sem mælt er fyrir um í 1. efnismálsl. 25. gr. frumvarpsins lækki um 1,7 millj. kr. Meiri hlutinn leggur einnig til að 2. efnismálsl. greinarinnar falli brott.
     8.      Meiri hlutinn leggur til að við frumvarpið bætist ný grein sem kveður á um hækkun á sérstakri uppbót skv. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Lagt er til að uppbótin hækki um 2,3% í samræmi við verðlagsforsendur fjárlaga fyrir næsta ár. Meiri hlutinn telur eðlilegt, þrátt fyrir þrönga stöðu í ríkisfjármálum, að þeir sem njóta lágmarksframfærslutryggingar fái óskertar tekjur að raungildi á næsta ári.
     9.      Þá leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á gildistökuákvæði frumvarpsins. Í fyrsta lagi er lagt til að a-liður 3. gr., sem mælir fyrir um að vaxtabætur skuli miðast við greidda vexti í stað gjaldfallinna, öðlist gildi 1. janúar 2011 og komi til framkvæmda við ákvörðun vaxtabóta og álagningu gjalda á árinu 2012. Þessi breyting er gerð að fengnum athugasemdum ríkisskattstjóra. Í öðru lagi er lagt til að hnykkt verði á því í ákvæði um gildistöku að 10. gr., sem varðar hækkun erfðafjárskatts, taki til álagningar erfðafjárskatts á fyrirframgreiðslu arfs vegna erfðafjárskýrslna sem berast sýslumönnum eftir gildistöku laganna. Þá leggur meiri hlutinn til að hækkanir á áfengis- og tóbaksgjaldi, kolefnisgjaldi, olíugjaldi, almennu og sérstöku kílómetragjaldi og almennu og sérstöku bensíngjaldi taki gildi um áramótin, sbr. 11.–21. gr.

    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 15. des. 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Magnús Orri Schram.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.





Fylgiskjal I.


Fjármálaráðuneytið,
tekju- og skattaskrifstofa:


Greinargerð með tillögu um tímabundna vaxtaniðurfærslu.
(16. desember 2010.)


    Gerð er tillaga um að niðurgreiða vaxtakostnað vegna íbúðarhúsnæðis tímabundið árin 2011 og 2012 umfram það sem almennar vaxtabætur gefa tilefni til. Þessi niðurfærsla er óháð tekjum en með eignamörkum.

Hámark niðurfærslu Eignaskerðing hefst Niðurfærslu
lýkur
Einhleypir 200.000 10.000.000 20.000.000
Einstæðir foreldrar 300.000 15.000.000 30.000.000
Hjón/sambýlisfólk 300.000 15.000.000 30.000.000

    Vaxtaniðurfærslan nemur 0,6% af skuld vegna öflunar íbúðarhúsnæðis. Dreifing skulda eftir upphæð er að finna á þessari mynd:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Alls eru 97% með skuld sem er lægri en svo að vaxtaniðurfærslan takmarkist af skuldaupphæðinni og gildir það um báða hópana.
    Eignaskerðing niðurfærslunnar hefur eftirfarandi áhrif:

Hjón/einstæðir foreldrar Einhleypir
Fjöldi Hlutfall Fjöldi Hlutfall
Niðurfærsla skerðist ekki af eignum 6.261 12% 14.813 68%
Niðurfærsla skerðist 42.777 84% 4.048 19%
Eignir of miklar 2.034 4% 2.829 13%
Alls 51.072 21.690


    Heildarúthlutun er sýnd á eftirfarandi mynd:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Flestir munu fá milli 50–100.000 krónur hvorum hópnum sem þeir tilheyra. Upplýsingar um aðra félagslega þætti þessarar úthlutunar er að finna í minnisblaði um almennar vaxtabætur.
    Lagt er til að heildarupphæð beggja tegunda bóta megi ekki verða hærri en heildarvaxtakostnaður. Það ákvæði snertir ekki marga.
    Heildarkostnaður við þessa aðgerð er metinn 6,0 milljarðar króna.



Fylgiskjal II.


Fjármálaráðuneytið,
tekju- og skattaskrifstofa:


Greinargerð um tillögu að vaxtabótum fyrir árin 2011 og 2012.
(16. desember 2010.)


    Tillagan byggir á yfirlýsingu í kjölfar samkomulags ríkisstjórnarinnar við lánastofnanir og lífeyrissjóði um aðgerðir vegna skulda- og greiðsluvanda heimilanna. Þar kemur fram að sérstakri hækkun vaxtabóta verði við haldið. Í breytingartillögu við fjárlagafrumvarpið fyrir 2011 sem nú liggur fyrir er ákveðið að heildarfjárveiting vegna vaxtabóta og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu verði 17,7 milljarðar króna árið 2011 og þar af 11,7 milljarðar vegna almennra vaxtabóta að meðtalinni framlengingu sérstakrar hækkunar þeirra. Í samkomulaginu kemur fram að breyta skuli almennum vaxtabótum þannig að þær komi í auknum mæli til móts við heimili með þunga skuldabyrði og lágar og miðlungstekjur.
    Tillagan að breytingu á úthlutunarreglum vaxtabóta tekur mið af þessu. Úthlutun vaxtabóta byggir í upphafi á lægstu tölu gjaldfallinna vaxta (eftir næsta ár greiddra vaxta), tilteknu hlutfalli af höfuðstóli lána eða hámarkstölu sem er breytileg eftir hjúskaparstöðu íbúðareiganda. Gerð er tillaga um að framlengt verði tímabundið ákvæði sem heimilar að vaxtahlutfallið megi vera 7% (er 5% í megintexta laganna). Aðalbreytingin er þó sú að heimilaðar hámarksvaxtagreiðslur sem útreikningur vaxtabótanna miðast við verði hækkaðar verulega. Eru þær nú miðaðar við það að einungis 1/ 4 af hverjum hópi (hjón/sambúðarfólk, einstæðir foreldrar, einhleypir) greiðir vexti sem eru hærri en vaxtahámarkið.


Hámark vaxtagjalda Einhleypir Einstæðir foreldrar Hjón og sambúðarfólk
554.364 727.762 901.158
Tillaga 800.000 1.000.000 1.200.000
Breyting 44% 37% 33%
Hlutfall hópsins með lægri vaxtagjöld en hámarkið 3/4 3/4 3/4


    Vaxtabætur skerðast frá ofangreindum hámörkum með tekjum. Í samræmi við ofangreint samkomulag er lagt til að tekjutenging verði hækkuð. Hún er nú 6% en í frumvarpinu er lagt til að tekjutengingin verði 8%.
    Í tillögunni er lagt til að hámark vaxtabóta hækki umtalsvert og að þær geti numið helmingi hámarks vaxtagjaldanna fyrir hvern hóp.

Hámark vaxtabóta Einhleypir Einstæðir foreldrar Hjón og sambúðarfólk
246.944 317.589 408.374
Tillaga 400.000 500.000 600.000
Breyting 62% 57% 47%


    Vegna þess að hámark heimilaðra vaxtagjalda er hærra en hámark vaxtabóta hefur tekjuskerðing í útreikningi bótanna ekki áhrif fyrr en þegar hún er orðin meiri en mismunur vaxtahámarksins og hámarks vaxtabóta. Þetta sést í eftirfarandi töflu:

Áhrif tekjuskerðingar í útreikningi vaxtabóta Einhleypir Einstæðir foreldrar Hjón og sambúðarfólk
Tekjur byrja að skerða mögulegar vaxtabætur
    Nú 5.123.667 6.836.217 8.213.067
    Tillaga 5.000.000 6.250.000 7.500.000
    Hlutfall með tekjur yfir
    skerðingarmörkum í tillögu
26% 10% 55%
Hámarkstekjur með vaxtabótum miðað við hæstu viðmiðun vaxtagjalda
    Nú 9.239.400 12.129.367 15.019.300
    Tillaga 10.000.000 12.500.000 15.000.000
    Hlutfall með tekjur yfir mörkum 3% 1% 7%

    Af töflunni sést að fjórðungur einhleypra er með tekjur yfir skerðingarmörkum, 10% einstæðra foreldra en rúmlega helmingur hjóna er í þeirri stöðu og 7% er með svo miklar tekjur að þær einar nægja til að útiloka þau frá því að fá vaxtabætur. Vegna þess hversu mikið vaxtahámark og vaxtabætur eru hækkuð í tillögunni eru hámarkstekjur ekki mjög mikið breyttar frá því sem er í núgildandi reglum. Með því er komið til móts við það að fólk með millitekjur verði ekki svipt bótum.
    Til þess að halda heildarupphæð vaxtabóta innan þeirra fjárheimilda sem nú eru uppi áform um er nauðsynlegt að auka eignaskerðingu þeirra umtalsvert. Eignaskerðingarákvæði laganna hafa haft sífellt minna vægi á undanförnum árum enda hafa eignamörk verið hækkuð. Nú er fasteignamat að lækka, á sama tíma og skuldir hækka um það bil með vísitölu neysluverðs. Þess ber að geta að í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að áform um almenna niðurfærslu skulda vegna öflunar íbúðarhúsnæðis verði ekki komin til framkvæmda um áramót sem eru viðmiðunartími eignastöðu í framtölum einstaklinga.
    Tillagan um eignamörk við úthlutun vaxtabóta er eftirfarandi:

Áhrif eignaskerðingar í útreikningi vaxtabóta Einhleypir Einstæðir foreldrar Hjón og sambúðarfólk
Vaxtabætur byrja að skerðast
    Nú 7.119.124 7.119.124 11.390.599
    Tillaga 4.000.000 4.000.000 6.500.000
    Hlutfall með eignir yfir lágmarki 50% 31% 50%
Vaxtabætur er að fullu skertar
    Nú 11.390.599 11.390.599 18.244.958
    Tillaga 6.400.000 6.400.000 10.400.000
Hlutfall með eignir yfir hámarki
    Nú 36% 18% 30%
    Tillaga 42% 22% 42%


    Verði lagafrumvarpið samþykkt mun það hafa áhrif á fjölda þeirra sem fá greiddar vaxtabætur:

Fjöldi vaxtabótaþega Einhleypir Einstæðir foreldrar Hjón og sambúðarfólk
13.953 5.723 28.884
    Hlutfall af öllum sem skulda 64% 84% 65%
Tillaga 10.824 4.920 22.354
    Hlutfall af öllum sem skulda 50% 72% 51%

    Hér fyrir aftan er nánar gerð grein fyrir ýmsum þáttum sem lýsa áhrifum þessarar tillögu á myndrænan hátt.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.