Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 208. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 581  —  208. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum.

Frá efnahags- og skattanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og á fund hennar komu Maríanna Jónasdóttir, Hlynur Ingason, Ingibjörg Helga Helgadóttir og Sóley Ragnarsdóttir frá fjármálaráðuneytinu, Bjarni Amby Lárusson, Jón Guðmundsson og Óskar H. Albertsson frá ríkisskattstjóra, Guðmundur Gíslason og Jón Viggó Gunnarsson frá Thor Data Center, Friðrik Þór Snorrason frá Samtökum íslenskra gagnavera, Jón Elvar Guðmundsson frá Logos lögmannsstofu, Tryggvi Þórhallsson frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum og Elín Árnadóttir og Ásta Kristjánsdóttir frá PriceWaterhouseCoopers hf.
    Umsagnir bárust frá Bændasamtökum Íslands, Deloitte, Fjármálaeftirlitinu, Hagsmunasamtökum heimilanna, Jafnréttisstofu, PriceWaterhouseCoopers hf., Reykjavíkurborg, Ríkisendurskoðun, ríkislögreglustjóranum, ríkisskattstjóra, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum íslenskra gagnavera, Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum, skattrannsóknarstjóra ríkisins, tollstjóranum í Reykjavík, Viðskiptaráði Íslands, Bandalagi íslenskra listamanna, listakonum í Kirsuberjatrénu og Páli Garðarssyni.
    Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að gera breytingar á ýmsum ákvæðum virðisaukaskattslaga. Meðal annars er ráðgert að skilgreina hvað teljist útflutningur á rafrænt afhentri þjónustu sem leiði þá til þess að slíkur útflutningur teljist ekki til skattskyldrar veltu, m.a. þegar um gagnaver á Íslandi er að ræða. Stefnt er að því að efla eftirlit vegna áætlana á virðisaukaskatti, stuðla að skilvirkni þess og koma þannig í veg fyrir að skattskyldir aðilar sæti ítrekuðum áætlunum með tilheyrandi kostnaði fyrir ríkissjóð. Einnig er gert ráð fyrir að breyta ýmsum fjárhæðarmörkum laganna og skilgreiningum og rýmka fresti í ljósi aukins álags á stjórnsýslu skattstjóra. Þá er stefnt að því að fella niður heimildir til endurgreiðslna virðisaukaskatts vegna veitna. Að síðustu er gert ráð fyrir því að gildistími tveggja bráðabirgðaákvæða laganna verði framlengdur. Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að hafa áhrif á þá aðila sem hyggjast vera á virðisaukaskattsskrá.
    Í umsögnum og í máli gesta á fundum nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið sem nefndin tók til skoðunar og íhugaði við meðferð þingmálsins. Nokkur sjónarmið og athugasemdir tók nefndin til sérstakrar skoðunar.

Rafræn þjónustusala.
    Í almennum athugasemdum við frumvarpið kemur fram að það hafi m.a. þann tilgang að skilgreina hvað teljist útflutningur á rafrænt afhentri þjónustu og teljist þar með ekki til virðisaukaskattskyldrar veltu. Stefnt sé að tvennu, þ.e. að tryggja að tiltekin rafrænt afhent þjónusta teljist ekki til skattskyldrar veltu en jafnframt að kaup á sömu þjónustu hérlendis verði virðisaukaskattskyld hér á landi. Þá muni þessi breyting gera betur fært að afmarka hvað teljist til afhendingar á rafrænni þjónustu hjá gagnaverum á Íslandi.
    Í umsögnum kom m.a. fram að því væri fagnað að kveðið yrði með skýrari hætti á um hvar rafræn þjónusta teljist afhent og að áætlað væri að kveða skýrar á um hvar kaup slíkrar þjónustu frá útlöndum teljist skattskyld. Engu að síður gerðu nokkir umsagnaraðilar verulegar athugasemdir við þennan þátt frumvarpsins, m.a. við framsetningu 4. gr. Fram kom m.a. það sjónarmið að rekstrarumhverfi íslenskra gagnavera væri ekki sambærilegt við umhverfi gagnavera annars staðar í Evrópu. Þannig væri staðan sú að íslensk gagnaver og erlendir viðskipavinir þeirra væru tvískattaðir að því er virðisaukaskatt varðar, annars vegar þegar netþjónar væru fluttir til landsins og hins vegar þegar þjónusta gagnavera er flutt úr landi og seld til viðskiptavina. Fram kom það álit að með 4. gr. frumvarpsins væri verið að flækja lög um virðisaukaskatt með því að undanskilja hluta af þjónustu gagnavera og um leið hluta af starfsemi þeirra sem erfitt geti reynst að skilja frá annarri starfsemi. Bent var á að skv. b-lið 4. gr. frumvarpsins virðist gert ráð fyrir því að hýsingarþjónusta gagnavera væri skilgreind sem aðstöðuleiga og hún væri því ekki undanþegin virðisaukaskatti en gagnavinnsla væri skilgreind sem útflutt þjónusta og undanþegin sama skatti. Töldu umsagnaraðilar að með téðu fyrirkomulagi væri ójafnri stöðu íslenskra gagnvera gagnvart erlendum haldið við og þeir annmarkar sem ákvæðum 4. gr. frumvarpsins væri ætlað að bæta úr því að hluta til skildir eftir óbættir. Umsagnaraðilar bentu á að farið hefði verið eftir þeirri meginreglu við álagningu virðisaukaskatts að hann væri ekki lagður á útflutning, hvort sem um útflutning á vöru eða þjónustu væri að ræða. Rökin að baki þeirri meginreglu væru þau helst að neysla vöru og þjónustu fari þá fram erlendis og hljóti því að lúta skattareglum í viðkomandi neyslulandi. Mat umsagnaraðila var að framsetning 4. gr. frumvarpsins kynni að hafa þau áhrif að íslenskur gagnaveraiðnaður næði ekki að koma undir sig fótunum þar sem samkeppnisstaða væri skekkt að verulegu leyti. Lögðu umsagnaraðilar til breytingar á 4. gr. frumvarpsins og lögðu til að nefndin skoðaði þær sérstaklega í því ljósi að eðlilegt kynni að vera að fara að fordæmi nágrannalandanna.
    7. desember óskaði nefndin eftir áliti iðnaðarnefndar Alþingis, m.a. hvað varðaði þennan þátt málsins. Iðnaðarnefnd fundaði um málefnið en skilaði efnahags- og skattanefnd ekki áliti.
    Nefndin hefur fjallað um þennan þátt frumvarpsins í ljósi framangreindra umsagna og athugasemda. Að mati nefndarinnar verður að tryggja að rekstrarumhverfi íslenskra gagnavera verði sambærilegt við það sem gerist annars staðar í Evrópu og er það í fullu samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu. Fjármálaráðherra hefur m.a. gefið það út að mikil vinna hafi verið unnin til þess að koma til móts við eigendur gagnavera og þá sérstaklega viðskiptavini þeirra. Ráðherrann hefur þó tekið fram að lítið gagn kunni að vera af ívilnunum handa framangreindum aðilum ef alþjóðlegar eftirlitsstofnanir samþykki þær ekki. Nefndin telur að ekki verði efast um ágæti gagnavera sem kærkominnar viðbótar við íslenskan iðnað og fyrirsjáanlegt sé að starfsemi þeirra muni skila mörgum fjölbreyttum og vel launuðum störfum á íslenskan vinnumarkað.
    Í ljósi framangreindra athugasemda umsagnaraðila og þeirrar afstöðu sem nefndin hafði mótað sér til málefnisins lagði nefndin út í leiðangur í þeim tilgangi að bæta samkeppnisstöðu íslenskra gagnavera þannig að þau verði jafnsett öðrum evrópskum gagnaverum hvað álagningu virðisaukaskatts varðar. Í því skyni kallaði nefndin fulltrúa fjármálaráðuneytisins á sinn fund, gerði grein fyrir afstöðu sinni og fór fram á að ráðuneytið ynni tillögur til breytinga á frumvarpinu svo að afstöðu nefndarinnar yrði mætt. Ráðuneytið vann málið áfram í samvinnu við iðnaðarráðuneytið. Niðurstöður þessarar vinnu voru að mögulegt væri að koma til móts við þann hluta af gagnrýni umsagnaraðila sem sneri að skattlagningu vegna kaupa á rafrænni þjónustu, þó með fyrirvara um afstöðu eftirlitsstofnunar EFTA. Hvað varðaði skattlagningu þess þáttar þjónustu gagnavera er felst í gjaldtöku fyrir hýsingu tölvubúnaðar var niðurstaðan aftur á móti sú að í slíkri þjónustu gæti aldrei falist útflutningur enda væri hún að fullu veitt og hennar notið hér á landi. Álit ráðuneytisins var að tilraunir til þess að skilgreina hýsingu tölvubúnaðar á annan hátt mundu brjóta gegn meginreglum um skattlagningu og þjóðréttarlegum skuldbindingum landsins.
    Nefndin telur að hún hafi gengið eins langt og komist var í því að mæta sjónarmiðum umsagnaraðila og vill taka fram að hún harmar að ekki hafi verið fært að ganga lengra enda er um verulega fjárhags- og atvinnuhagsmuni að ræða. Af þeim sökum vill nefndin taka fram að hún telur hlutverki sínu hvað varðar aðstöðu gagnavera á Íslandi ekki lokið. Þrátt fyrir þær tillögur sem hér fara á eftir mun nefndin halda áfram að skoða hvernig hægt er að styðja betur við íslenskan gagnaveraiðnað þannig að hann fái staðið jafnfætis evrópskum samkeppnisaðilum við veitingu þjónustu.
    Að öllu framangreindu sögðu leggur nefndin til að við frumvarpið verði bætt ákvæði, sem verði 42. gr. a. laganna, þess efnis að innflutningur á netþjónum og tengdum búnaði í eigu aðila sem eru heimilisfastir í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og ekki með fasta starfstöð hér á landi verði undanþeginn virðisaukaskatti að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
    Nefndin bendir á að gagnaver er almennt heiti á sérbyggðu húsrými sem hannað er fyrir búnað til upplýsingavinnslu og fyrir þá starfsemi sem því tengist. Töluverð umræða hefur verið um rekstrarumhverfi gagnavera og hefur uppbygging þeirra ekki gengið eins hratt og vonast var eftir. Ýmis álitamál hafa verið uppi um skattalegt umhverfi þeirra og erlendra viðskiptavina þeirra og komið hefur í ljós að Ísland er ekki að öllu leyti samkeppnishæft við aðildarríki ESB þegar kemur að meðhöndlun virðisaukaskatts vegna innflutnings á búnaði erlendra viðskiptavina í gagnaver hér á landi. Tilgangur ákvæðisins er að stuðla að því að Ísland verði, í samræmi við stefnu stjórnvalda, samkeppnishæft við aðildarríki ESB að því er varðar meðhöndlun á virðisaukaskatti þegar netþjónar og tengdur búnaður er fluttur frá viðskiptavini sem er heimilisfastur í aðildarríki ESB inn í gagnaver hér á landi. Markmið frumvarpsins er að sams konar reglur gildi hér á landi og innan regluverks ESB þegar kemur að slíkum innflutningi þannig að meðhöndlun virðisaukaskatts hafi ekki áhrif á ákvarðanatöku erlends viðskiptavinar um hvort hann kaupir gagnaversþjónustu á Íslandi eða frá einhverju aðildarríkja ESB.
    Skilyrði undanþágu skiptast í fimm þætti. Í fyrsta lagi að eigandi netþjónanna sé í virðisaukaskattsskyldri starfsemi í sínu heimaríki. Í öðru lagi að starfsemi eigandans væri skráningarskyld samkvæmt lögum um virðisaukaskatt væri hún rekin hér á landi. Í þriðja lagi að netþjónarnir séu gagngert fluttir til landsins til notkunar eða staðsetningar í gagnaveri sem eigandi þeirra er í viðskiptum við. Í fjórða lagi að netþjónarnir séu eingöngu nýttir af eigandanum en ekki í annarri starfsemi gagnaversins. Loks að vinnsla netþjónanna sé nýtt utan Íslands eða í þágu aðila sem ekki eru heimilisfastir eða með fasta starfsstöð hér á landi.
    Í ákvæðinu er að finna skilgreiningu á hugtakinu gagnaver og er gildissvið ákvæðisins afmarkað við innflutning netþjóna og tengds búnaðar í gagnaver hér á landi. Með tengdum búnaði er átt við búnað sem er nauðsynlegur þáttur í virkni netþjónanna og nýtist eingöngu eiganda viðkomandi netþjóns. Nánar verði kveðið á um í reglugerð hvað teljist tengdur búnaður.
    Með ákvæðinu er lagt til að fjármálaráðherra sé heimilt að gefa út reglugerð þar sem nánar er kveðið á um ýmis atriði sem snúa að framkvæmd undanþágunnar, þ.m.t. hvaða skyldur eru lagðar á eiganda netþjónanna varðandi upplýsingagjöf til tollstjóra og ríkisskattstjóra.
    Lagt er til að ákvæðið verði endurskoðað að liðnum tveimur árum frá því að það kemur til framkvæmda. Við þá endurskoðun verður lagt mat á þá reynslu sem komin verður á framkvæmd ákvæðisins og hvaða áhrif það hefur haft á atvinnulífið.
    Við samþykkt frumvarpsins verður Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) tilkynnt um það og leitað staðfestingar á því að ekki sé um að ræða tilkynningarskylda ríkisaðstoð í skilningi 61. gr. samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Lagt er til að umrætt ákvæði komi til framkvæmda 1. maí 2011 og þannig gefst tími til að staðreyna hjá ESA að ákvæðið sé í samræmi við skuldbindingar Íslands vegna EES-samningsins. Komist ESA fyrr að þeirri niðurstöðu að ekki sé um tilkynningarskylda ríkisaðstoð að ræða sér nefndin ekkert því til fyrirstöðu að flýta gildistöku ákvæðisins krefjist aðstæður þess.

Eftirlit vegna áætlana á virðisaukaskatti.
    Áætlað er að gerðar verði breytingar á lögum um virðisaukaskatt í þá átt að bæta skil og eftirlit með greiðslu virðisaukaskatts. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að áætluðum aðilum á virðisaukaskattsskrá hafi fjölgað verulega á síðustu árum og hafi úrræði ríkisskattstjóra til að bregðast við því verið afar takmörkuð. Mikill tími skattyfirvalda og innheimtuaðila fari í umsýslu vegna áætlaðra aðila auk þess sem verulega mikilvægt sé að virðisaukaskattsskrá gefi á hverjum tíma sem gleggsta mynd af þeim sem stunda rekstur og standa skil á skattinum. Kemur fram að markmið breytinganna sé að stuðla að betra skatteftirliti og koma í veg fyrir að aðilar sæti ítrekað áætlunum. Breytingarnar eru taldar hafa það í för með sér að hvetja kaupendur vöru og þjónustu til þess að eiga eingöngu viðskipti við þá sem skráðir eru á virðisaukaskattsskrá.
     Nokkrir umsagnaraðilar gerðu athugasemdir við umræddan þátt frumvarpsins. Um 2. gr. kom m.a. fram sú skoðun að ákvæðið væri óskýrt og matskennt en svo virtist sem með því væri lögð til heimild til að synja skráningarskyldum aðilum um skráningu á virðisaukaskattsskrá á grundvelli áætlana annarra opinberra gjalda. Bent var á að slíkt kynni að leiða til þess að þeir aðilar sem engu að síður væru virðisaukaskattsskyldir lentu í vandræðum. Ekkert kæmi í veg fyrir að slíkir aðilar gætu haldið starfsemi sinni áfram án þess að gera grein fyrir virðisaukaskatti af henni. Í því ljósi væri framkvæmd virðisaukaskattslaga gerð flóknari en ella auk þess sem hætta yrði á að sumum aðilum væri haldið utan kerfis án nokkurs eftirlits. Þá var bent á 75. gr. stjórnarskrárinnar í því samhengi að ákvæðið uppfyllti ekki þau skilyrði sem atvinnufrelsisákvæðið krefst svo að skerðing slíks frelsis geti talist lögmæt. Sambærilegar athugasemdir voru að hluta gerðar við a-lið 9. gr. en einnig að bann 4. mgr. hans væri of íþyngjandi þar sem það gæti komið í veg fyrir að einstaklingar sem hefðu verið gerðir gjaldþrota væru valdir til stjórnarsetu í fyrirtækjum. Bent var á að reglan væri of takmarkandi og eðlilegt væri að hún næði einungis til fyrirtækja þar sem aðeins einn maður væri í stjórn og gjaldþrot hans stafaði af vangreiðslu á opinberum gjöldum. Við b-lið 9. gr. voru þær athugasemdir gerðar að nú þegar væri í 27. gr. laganna kveðið á um lögbundið álag vegna áætlunar á virðisaukaskatti sé skatti eða skattskýrslu ekki skilað á tilskildum tíma. Á það var bent að samkvæmt skilningi íslenskra dómstóla væri álag á skattgreiðslur ígildi refsikenndra viðurlaga samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu. Mögulega væri verið að lögleiða heimild til refsikenndra viðurlaga og opnað fyrir það að skattaðilum yrði refsað í tvígang fyrir sama brot. Tekið var fram að vafi kynni að vera uppi um hvort slík framkvæmd bryti gegn meginreglunni um bann við tvöföldu refsinæmi skv. 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög um mannréttindasáttmála Evrópu.
    Nefndin hefur fjallað um þennan þátt frumvarpsins í ljósi framangreindra athugasemda. Nefndin telur efni heimildarákvæðis 2. gr. frumvarpsins skýrt. Engu að síður veiti ákvæðið ríkisskattstjóra svigrúm til mats þurfi hann að taka ákvörðun um að synja aðila um skráningu á virðisaukaskattsskrá. Nefndin bendir á að þrátt fyrir framangreint svigrúm hefur ríkisskattstjóri ekki fullt frelsi til að draga þá þætti sem honum hugnast inn í mat sitt enda sé hann bundinn af lágmarksreglum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar auk málsmeðferðarreglna virðisaukaskattslaga. Af þeim sökum þurfi hann m.a. að gæta jafnræðis við slíka ákvarðanatöku ásamt því að tryggja að meðalhófsreglu sé fylgt. Þá bendir nefndin á að afhendi virðisaukaskattskyldur aðili eigi virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt á lögmæltum tíma, þá kann honum að verða gert að greiða fésekt en sé brotið stórfellt varði það refsingu skv. 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga. Af framangreindum sökum telur nefndin að henni sé vart fært að taka tillit til sjónarmiða um að ákveðnum aðilum kunni að verða haldið utan virðisaukaskattskerfisins enda kveða virðisaukaskattslög nokkuð skýrt á um skyldu manna til að innheimta virðisaukaskatt og standa skil á honum til ríkissjóðs. Þá bendir nefndin á að 75. gr. stjórnarskrárinnar kveður á um frelsi manna til að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa en einnig að slíkt frelsi megi takmarka með lögum krefjist almannahagsmunir þess. Nefndin telur ljóst að áskilnaði atvinnufrelsisákvæðisins um lögákveðnar takmarkanir sé fullnægt verði frumvarpið að lögum enda hefur frumvarpshöfundur sett fram þær takmarkanir sem heimilt verður að setja atvinnufrelsi og hvernig það skuli gert. Þá má benda á að ríkisskattstjóra ber við töku ákvarðana sinna að taka tillit til þess hve miklar kröfur lögmætisregla gerir hverju sinni. Þá er það mat nefndarinnar að almannahagsmunir liggi til grundvallar enda virðist sú leið sem farin er í frumvarpinu, að teknu tilliti til þeirra þátta er takmarka svigrúm ríkisskattstjóra til mats, gera það að verkum að áhrif ákvæða 2. og 9. gr. frumvarpsins verði þau að markmiðum frumvarpsins verði náð á hóflegan máta. Hvað b-lið 9. gr. frumvarpsins varðar bendir nefndin á að Hæstiréttur Íslands hefur, í máli frá 22. september 2010, talið að „engin fordæmi [séu] fyrir því frá mannréttindadómstól [Evrópu] um að það fari í bága við 4. gr. 7. viðauka mannréttindasáttmálans að stjórnvöld beiti álagi á skattstofna vegna brota á reglum um að telja fram til skatts og að sama manni sé í öðru máli gerð refsiviðurlög fyrir dómi vegna sömu málsatvika. Þvert á móti hefur sú skipan ekki verið talin andstæð fyrrnefndu ákvæði í […] ákvörðunum [dómstólsins frá] 14. september 1999 í máli Ponsetti og Chesnel gegn Frakklandi og 14. september 2004 í máli Rosenquist gegn Svíþjóð. […] Svo að til greina komi að slá því föstu að þessi skipan skattamála hér á landi fái ekki staðist vegna ákvæða mannréttindasáttmála Evrópu verður að minnsta kosti að liggja skýrt fyrir að íslensk lög fari í bága við þau, eftir atvikum í ljósi dóma mannréttindadómstólsins.“
    Framangreind orð réttarins virðast ekki styðja þá skoðun að gjaldtaka vegna skila á virðisaukaskattskýrslum geti falið í sér tvöfalda refsingu fyrir sama brot á lögum. Þar að auki kveður framangreindur b-liður 9. gr. á um gjald en ekki sekt og ganga skýringar sérstakra athugasemda með frumvarpinu langt í að rökstyðja þörf viðbótargjaldsins í ljósi þess viðbótarkostnaðar sem hlýst af leiðréttingum á áætlunum eftir á. Þess er aðeins getið að engin viðurlög hafi verið við vanskilum virðisaukaskattsskýrslna en þess sé vænst að gjaldið kunni að hafa einhver viðurlagaáhrif. Nefndin telur slík ummæli ekki verða til þess að líta beri á b-lið 9. gr. sem sektarákvæði og ummæli fulltrúa fjármálaráðuneytisins við meðferð málsins hafa ekki gefið tilefni til þess.

Eftirlit með virðisaukaskattskráningu viðsemjanda í viðskiptum.
    Með 6. gr. frumvarpsins er ætlunin að kveða á um það með lögum að skilyrði innskattsfrádráttar verði að seljandi vöru og þjónustu sé skráður á virðisaukaskattsskrá á því tímamarki þegar viðskipti eiga sér stað. Ákvæðið er rökstutt með því að upp hafi komið mörg tilvik þar sem skattaðilar hafi talið virðisaukaskatt til innskatts án þess að viðsemjandi hans hafi verið með opið virðisaukaskattsnúmer en þrátt fyrir það gefið út reikning með virðisaukaskattsnúmeri og ekki staðið skil á skattinum í ríkissjóð. Ákvæðinu er ætlað að koma í veg fyrir slík tilfelli og fyrirbyggja tekjutap ríkissjóðs. Í umsögnum kom fram sú gagnrýni á framangreinda útfærslu að svo virðist sem ætlunin sé að gera þá kröfu til skattaðila að þeir gangi úr skugga um það við færslu innskatts vegna einstakra viðskiptavina hvort viðsemjendur þeirra hafi verið á virðisaukaskattsskrá þegar viðskiptin áttu sér stað. Sömu aðilar telja að óeðlilegt sé að yfirfæra eftirlit með slíkum hætti yfir á skattaðila enda kunni það að hafa verulega íþyngjandi áhrif og aukakostnað fyrir allt atvinnulíf.
    Nefndin bendir á að umsagnaraðilar hafi ekki lagt fram tillögur að öðru fyrirkomulagi sem tryggi að markmiði ákvæðisins verði náð. Áréttar nefndin það megineinkenni virðisaukaskatts að skráður aðili skuli aðeins greiða slíkan skatt af þeim virðisauka sem verður til í rekstri hans. Af þeim sökum er skráðum aðilum aðeins gert að greiða í ríkissjóð mismun útskatts og innskatts. Þær kröfur hafa verið gerðar til þeirra sem óska frádráttar innskatts frá útskatti að þeir færi sönnur á réttmæti slíks frádráttar með því að tryggja að reikningar sem bera með sér að skattur hafi verið greiddur svari þeim kröfum sem gerðar eru til slíkra skjala. Nefndin telur að þegar framangreind framkvæmd var útfærð í lögum og reglum hafi verið litið til þess að það stæði greiðanda slíkra reikninga næst að fylgjast með því að reikningarnir uppfylltu þær kröfur sem gerðar væru, enda væri óviðeigandi að fella slíka skyldu á útgefanda reikninganna og hvað þá á stjórnvöld sem á engan hátt gætu haft yfirsýn yfir að viðskipti ættu sér stað. Framangreind regla er í samræmi við þá meginreglu um sönnun að sönnunarbyrði hvíli á þeim sem næst stendur að tryggja sönnun. Nefndin telur að slíkt hið sama eigi við um tryggingu þess að viðskiptamenn séu skráðir á virðisaukaskattsskrá að breyttu breytanda. Að framangreindu sögðu og í ljósi hagsmuna þjóðarinnar af hagkvæmri og skilvirkri stjórnsýslu er það álit nefndarinnar að ekki verði hjá því komist að bregðast við því vandamáli sem frumvarpshöfundar lýsa í greinargerð á þann hátt sem frumvarpið gerir ráð fyrir enda hafa ekki komið fram tillögur eða hugmyndir um aðrar leiðir til lausnar þess.

Endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna veitna.
    Samkvæmt almennum athugasemdum með frumvarpinu er stefnt að því að fella niður heimildir til endurgreiðslna virðisaukaskatts vegna veitna þar sem upphaflegar forsendur slíkra heimilda séu brostnar og að því sé stefnt að styrkja hitun húsa og laugarvatns á landsbyggðinni með öðrum hætti.
    Í nokkrum umsögnum voru gerðar athugasemdir við framangreind ummæli. Þannig kom fram að fyrirsjáanlegt væri að brottfall 4. mgr. 42. gr. laganna mundi hafa í för með sér aukinn kostnað við húshitun á landsbyggðinni. Bent var á að þrátt fyrir að komið væri inn á að stefnt væri að því að styrkja hitun húsa og laugarvatns á annan hátt, þá væri í engu tekið á því hvernig slíkt ætti að fara fram. Viðkomandi aðilar töldu nauðsynlegt að upplýst væri áður en frumvarpið yrði að lögum að hvaða aðgerðum væri stefnt.
    Nefndin bendir á að áætlanir ríkisstjórnarinnar um að halda áfram að styrkja hitun húsa og laugarvatns komi fram í athugasemdum við frumvarpið. Hafa iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun yfirumsjón og almenna umsýslu með niðurgreiðslu húshitunar. Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu er fyrirkomulag niðurgreiðslna til skoðunar í ráðuneytinu.

Ýmis ákvæði frumvarpsins.
    Sú ábending kom fram hjá umsagnaraðilum að ætlunin væri með frumvarpinu að gera skylt að skila virðisaukaskattskýrslum á rafrænu formi en mikilvægt væri að halda opnum þeim möguleika að skila slíkum skýrslum á pappír og gæta þess að halda skattskyldum aðilum upplýstum. Nefndin bendir á að samkvæmt frumvarpinu er ætlunin að halda opnum þeim möguleika að skil á pappír eigi sér áfram stað að fenginni heimild ríkisskattstjóra til slíks. Nefndin væntir þess að ríkisskattstjóri muni rækja upplýsingaskyldu sína á fullnægjandi hátt.
    Þá bentu nokkrir umsagnaraðilar á að ákveðið ójafnræði fælist í því að framlengja bráðabirgðaákvæði þess efnis að heimila endurgreiðslu á 2/ 3 hlutum virðisaukaskatts af kaupum eða leigu á hópbifreiðum en opna ekki fyrir að slíkt hið sama gildi um almenningsvagna. Aðrir fögnuðu sérstaklega framangreindri framlengingu ákvæðisins. Nefndin hefur fjallað um þessar athugasemdir en bendir jafnframt á verkefni sem fram kemur í fjögurra ára samgönguáætlun fyrir árin 2009–2012 og felst í því að stefnt verði að greiðari umferð almenningssamgangna, endurskoðun á tilhögun þeirra og fjármögnun með það m.a. að markmiði að auka hlut almenningssamgangna í þjónustu við íbúa. Álit nefndarinnar er að ekki verði horft fram hjá öllu framangreindu og því leggur nefndin til þá breytingu að heimild ákvæðis til bráðabirgða X í lögunum verði einnig látin ná til almenningsvagna frá áramótum 2010–2011.
    Einnig hvöttu umsagnaraðilar nefndina til þess að framlengja tímabundna heimild til að fella niður eða endurgreiða virðisaukaskatt að fullu af vetnisbifreiðum sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni og sérhæfðum varahlutum í þær. Nefnt var að sökum þess hve framangreindar bifreiðar séu dýrar í innkaupum væri ekki fyrirsjáanlegt að þær verði fluttar inn og seldar hér á landi nema til slíkrar ívilnunar komi. Þá var á það bent að hvatning til innflutnings og sölu á vetnis- og rafbílum færi vel saman við það sjónarmið að hvetja beri til notkunar umhverfisvænna ökutækja. Nefndin fagnar framkominni hvatningu og leggur til að ákvæði til bráðabirgða XI verði breytt með það fyrir augum að tryggð verði áfram tímabundin heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts af vetnisbifreiðum og sérhæfðum varahlutum í þá.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:


    
     1.      Á eftir 11. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Á eftir 42. gr. laganna kemur ný grein er verður 42. gr. A, svohljóðandi:
             Innflutningur á netþjónum og tengdum búnaði skal vera undanþeginn virðisaukaskatti í þeim tilvikum þegar eigendur þeirra eru heimilisfastir í öðru aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og ekki með fasta starfsstöð hér á landi í skilningi 4. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Með tengdum búnaði er átt við búnað sem er nauðsynlegur þáttur í virkni netþjónanna og nýtist eingöngu eiganda viðkomandi netþjóns.
             Skilyrði undanþágu skv. 1. mgr. eru:
                  1.      Eigandi netþjóna og tengds búnaðar sé í virðisaukaskattsskyldri starfsemi í heimaríki sínu.
                  2.      Starfsemi eiganda netþjóna og tengds búnaðar væri skráningarskyld samkvæmt lögum þessum væri hún rekin hér á landi.
                  3.      Netþjónar og tengdur búnaður sé gagngert fluttur til landsins til notkunar eða staðsetningar í gagnaveri sem eigandi þeirra er í viðskiptum við.
                  4.      Netþjónar og búnaður sé eingöngu nýttur af eigandanum en ekki í annarri starfsemi gagnaversins.
                  5.      Vinnsla netþjóna og tengds búnaðar sé nýtt utan Íslands eða í þágu aðila sem ekki eru heimilisfastir eða með fasta starfsstöð hér á landi.
             Í skilningi þessa ákvæðis er gagnaver sérútbúið húsrými sem hannað er fyrir búnað til upplýsingavinnslu og fyrir þá starfsemi sem því tengist.
             Fjármálaráðherra er heimilt með reglugerð að kveða nánar á um framkvæmd og skilyrði undanþágunnar, þ.m.t. til hvaða búnaðar hún nær.
             Grein þessi skal endurskoðuð að tveimur árum liðnum frá því að hún kemur til framkvæmda.
     2.      12. gr. orðist svo:
             Ákvæði til bráðabirgða X í lögunum orðast svo:
             Heimilt er að endurgreiða þeim sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni samkvæmt lögum nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi, 2/ 3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna á tímabilinu frá 1. janúar 2011 til og með 31. desember 2011. Endurgreiðsluheimildin vegna hópferðabifreiða er bundin við ökutæki sem aðallega eru ætluð til fólksflutninga, eru skráð fyrir 18 manns eða fleiri að meðtöldum ökumanni og eru nýskráð á tímabilinu og búin aflvélum samkvæmt EURO 5 staðli ESB. Fjármálaráðherra setur nánari reglur um framkvæmd endurgreiðslunnar.
     3.      Á eftir 12. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Í stað dagsetningarinnar „31. desember 2010“ í ákvæði til bráðabirgða XI í lögunum kemur: 31. desember 2011.
     4.      Við 14. gr. bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ákvæði 12. gr. öðlast þegar gildi en kemur til framkvæmda 1. maí 2011.

    Þór Saari var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. des. 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Birkir Jón Jónsson,


með fyrirvara.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Magnús Orri Schram.


Pétur H. Blöndal,


með fyrirvara.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Tryggvi Þór Herbertsson,


með fyrirvara.