Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 203. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 586  —  203. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jóhann Guðmundsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Eyþór Björnsson frá Fiskistofu og Jónas Rúnar Viðarsson og Sigurjón Arason frá Matís ohf. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Félagi vélstjóra og málmtæknimanna, Hafnasambandi Íslands, Hafrannsóknastofnuninni, Matís ohf., Sjómannasambandi Íslands og Viðskiptaráði Íslands. Frumvarpið var áður lagt fram og fyrir því mælt á 138. löggjafarþingi. Var málinu þá vísað til meðferðar í nefndinni sem beiddist umsagna en afgreiddi það ekki.
    Með frumvarpinu er áætlað að gera breytingar á 12. gr. laga um umgengni við nytjastofna sjávar þannig að ábyrgð á því að ganga úr skugga um að afli sem tekið er við hafi verið veginn samkvæmt gildandi reglum um vigtun sjávarafla sé ekki aðeins á herðum kaupanda afla heldur á höndum allra þeirra aðila sem stunda viðskipti með afla. Að auki skuli sömu aðilum skylt að fylla út og standa skil á skýrslum um ráðstöfun aflans. Þá er áætlað að kveða á um skyldu þeirra sem vanrækja skýrsluskil til Fiskistofu til greiðslu dagsekta og þannig stefnt að því fjölga úrræðum stofnunarinnar til þess að bregðast við vanrækslu á skýrsluskilum.
    Af þeim sjö aðilum sem veittu umsögn um frumvarpið gerðu sex þeirra ekki athugasemdir við efni þess eða mæltu með því að það yrði samþykkt sem lög á yfirstandandi löggjafarþingi. Einn umsagnaraðili gerði athugasemdir við að frumvarpstextinn væri ekki nægilega skýr hvað varðaði það hvaða aðila væri skylt að fylla út og skila skýrslum um ráðstöfun afla. Var á það bent að slíkur óskýrleiki kynni að leiða til aukinnar vinnu fyrir þá sem stunda viðskipti með sjávarafla. Nefndin tekur undir framangreindar áhyggjur umsagnaraðilans og leggur til að a-lið 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins verði breytt á þann veg að skyldan til að fylla út og skila ráðstöfunarskýrslum verði ekki einungis á herðum þeirra aðila sem stunda viðskipti með afla heldur einnig forsvarsmanna útgerða vegna viðskipta með afla eða afurðir vinnsluskipa.
    Hvað heimild til dagsekta varðar vill nefndin minna á að dagsektir teljast til óbeinna þvingunarúrræða, þ.e. úrræða sem ætlað er að hafa áhrif á viljaafstöðu málsaðila með því að fá hann til hlýðni við boð eða bann sem hann hefur virt að vettugi. Þannig er markmið dagsekta að knýja fram ákveðna skyldu en sé málsaðila ómögulegt að gegna skyldunni þá verður dagsektum ekki beitt. Af þeim sökum fela dagsektir það í sér að þær eiga sér stað vegna athafna eða athafnaleysis í nútíðinni eða framtíðinni og sé ekki á annan veg mælt þá falla þær niður þegar málsaðili uppfyllir skyldu sína. Hafi dagsektir verið innheimtar kemur ekki til neinna endurgreiðslna þeirra þótt skyldu sé síðar fullnægt (Páll Hreinsson: Afmælisrit, Jónatan Þórmundsson sjötugur. Þvingunarúrræði stjórnvalda, bls. 373 og 384).     Þá áréttar nefndin að við töku ákvarðana um að beita dagsektum gilda reglur stjórnsýslulaga, m.a. um að viðkomandi eigi rétt á að tjá sig um málið að fenginni tilkynningu um það áður en ákvörðun um beitingu dagsekta er tekin. Þá skal ákvörðun um fjárhæð dagsekta m.a. byggð á sjónarmiðum um jafnræði og meðalhóf.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi


BREYTINGU


    Við 1. gr.
a.     Orðin „og 2.“ í a-lið falli brott.
b.     Á eftir a-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: 2. mgr. orðast svo:
         Aðilar sem stunda viðskipti með afla og forsvarsmenn útgerða vegna viðskipta með afla eða afurðir vinnsluskipa skulu fylla út og skila skýrslum um ráðstöfun afla í því formi og með þeim hætti er ráðuneytið ákveður.
         
    Ólína Þorvarðardóttir, Helgi Hjörvar og Björn Valur Gíslason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 17. des. 2010.



Atli Gíslason,


form., frsm.


Einar K. Guðfinnsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.



Jón Gunnarsson.


Róbert Marshall.


Ásmundur Einar Daðason.