Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 313. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 600  —  313. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld.

Frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Maríönnu Jónasdóttur og Ingibjörgu Helgu Helgadóttur frá fjármálaráðuneytinu, Sigurgeir Þorgeirsson og Arnór Snæbjörnsson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, Halldór Árnason og Hannes G. Sigurðsson frá Samtökum atvinnulífsins, Jónu Björk Guðnadóttur frá Samtökum fjármálafyrirtækja, Alexander Edvardsson frá KPMG, Friðgeir Sigurðsson frá PWC, Jakob Björgvin Jakobsson og Guðmund Skúla Hartvigsson frá Deloitte, Gunnlaug Júlíusson og Tryggva Þórhallsson frá Samtökum íslenskra sveitarfélaga, Davíð Lúðvíksson og Orra Hauksson frá Samtökum iðnaðarins, Helgu Valfells frá Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins, Hallgrím Jónasson frá Rannís, Elínóru Ingu Sigurðardóttur frá Félagi kvenna í nýsköpun, Valdimar Össurarson frá Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Snorra Olsen og Eddu Símonardóttur frá tollstjóranum, Ingvar J. Rögnvaldsson, Guðrúnu J. Jónsdóttur og Elínu Ölmu Arthúrsdóttur frá ríkisskattstjóra, Bryndísi Kristjánsdóttur frá skattrannsóknarstjóra, Öldu Hrönn Jónsdóttur frá efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, Helgu Jónsdóttur frá BSRB, Þórarin Eyfjörð frá SFR – stéttarfélagi, Jóhönnu Lind Elíasdóttur frá Bændasamtökunum og Sigurð Loftsson og Jóhann Nikulásson frá Landssambandi kúabænda.
    Umsagnir bárust nefndinni frá Deloitte hf., embætti tollstjóra, Félagi löggiltra endurskoðenda, Fiskistofu, Hafnasambandi Íslands, Íbúðalánasjóði, Jafnréttisstofu, KPMG hf., Landssambandi sumarhúsaeigenda, Landssamtökum lífeyrissjóða, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Orkustofnun, PriceWaterhouseCoopers hf., Ríkisendurskoðun, ríkissaksóknara, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum frumkvöðla og hugvitsmanna, Samtökum iðnaðarins, Seðlabanka Íslands, skattrannsóknarstjóra ríksins, Tryggingastofnun ríkisins og Viðskiptaráði Íslands.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum ýmissa lagabálka. Felur frumvarpið þannig í sér tillögur um breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur, lögum um tekjustofna sveitarfélaga, virðisaukaskattslögum, lögum um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, lögum um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki, tollalögum, lögum um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., lögum um stimpilgjald, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, lögum um stjórn fiskveiða, lögum um veiðieftirlitsgjald, og lögum um yfirskattanefnd. Á heildina litið má segja að frumvarpið stefni að breytingu á ákvæðum laga sem varða álagningu skatta og gjalda ásamt stjórnsýslu í tengslum við skattlagningu.
    Efnisatriðum frumvarpsins má skipta í fimm þætti og fer hér á eftir umfjöllun um þá ásamt afstöðu og tillögum meiri hlutans um hvern þeirra. Að lokum er sérstaklega fjallað um almennar breytingar sem felast í frumvarpinu og einnig um frekari breytingar sem meiri hlutinn leggur til.
Tekjuskattur ríkisins og tekjustofnar sveitarfélaga.
    Á grundvelli samkomulags ríkis og sveitarfélaga um fjárhagsramma varðandi tilfærslu þjónustu við fatlaða frá 6. júlí 2010 er í frumvarpinu ráðgert að útsvarshlutfall sveitarfélaga verði hækkað um 1,2% og tekjuskattshlutfall ríkisins verði lækkað að sama skapi. Er hækkun á útsvarshlutfallinu ætlað að standa straum af kostnaði við þau verkefni sem bætast á könnu sveitarfélaganna við þessa breytingu og mun hækkunin líklegast nema um 10 milljörðum kr. Að sama skapi munu hlutfallstölur í tekjuskattslögunum lækka í samræmi við þetta og tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti þar af leiðandi lækka um samsvarandi fjárhæð. Heildarkostnaðaráhrif af flutningi málaflokksins eru hins vegar tilgreind og rædd í frumvarpi til breytinga á lögum um málefni fatlaðra (256. mál) sem félags- og tryggingamálanefnd hefur til meðferðar.
    IV. kafli frumvarpsins tekur sérstaklega á lagabreytingum sem varða flutning á málefnum fatlaðra, þar kemur m.a. fram hvernig skipta skuli útsvarstekjum sveitarfélaga milli málefnaflokka, auk annarra breytinga sem nauðsynlegt var að gera á lögum um tekjustofna sveitarfélaga vegna flutningsins. Þá er í 25. gr. frumvarpsins sérstaklega fjallað um breytingar á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga vegna málefna fatlaðra og stofnun sérstaks fasteignasjóðs sem annast skal fasteignir sem nýttar eru í þjónustu við fatlaða. Einnig er í kaflanum ákvæði um hækkun á hámarki útsvarshlutfallsins auk þriggja ákvæða til bráðabirgða sem skilgreina hvernig framlögum til sveitarfélaganna af fjárlögum vegna tilfærslunnar verði ráðstafað, allt fram til ársins 2014.
    Flutningur á málefnum fatlaðra verður nú um áramótin og þykir meiri hlutanum því rétt að árétta að hraða þurfi vinnslu reglugerðar sem gert er ráð fyrir í tengslum við stofnun fasteignasjóðs. Að auki vill meiri hlutinn leggja til breytingu á 2. mgr. 20. gr. tekjustofnslaganna þannig að við skil á útsvari vegna íbúa sem flytjast milli sveitarfélaga innan álagningarárs sé litið til þess hvernig búseta viðkomandi skiptist á milli sveitarfélaga en að ekki sé einungis horft til íbúaskrár eins og hún er 1. desember ár hvert. Með þessu móti endurspegla skil á útsvari betur útgjöld sveitarfélagsins fyrir veitta þjónustu. Gert er ráð fyrir að gildistaka ákvæðisins verði 1. janúar 2011 en að það komi ekki til framkvæmda fyrr en 1. janúar 2012, þ.e. vegna útsvars 2011.

Skattumhverfi atvinnulífsins.
    Í frumvarpinu er að finna breytingar sem snúa að rýmkun á skattalegum úrræðum fyrir fyrirtæki, annars vegar vegna skattalegrar meðferðar á eftirgjöf skulda og hins vegar vegna heimildar til greiðsluuppgjörs á gjaldföllnum skattskuldum fyrri ára.

a)     Skattaleg meðferð á eftirgjöf skulda.
    Í 13. gr. frumvarpsins er lagt til að við lögin um tekjuskatt bætist tvö ný ákvæði til bráðabirgða sem varða annars vegar frestun tekjufærslu sem var gerð á grundvelli 60. gr. laganna eins og þau voru áður en ákvæðinu var breytt með lögum nr. 128/2009 og hins vegar varðandi skattalega meðferð á eftirgjöf skulda hjá lögaðilum og aðilum í sjálfstæðum atvinnurekstri. Eftir setningu laga nr. 128/2009 kom í ljós að nokkrir þeirra aðila sem höfðu frestað tekjufærslu sinni í tíð eldri laga þurfa að tekjufæra frestunarfjárhæðina í einu lagi í skattframtali 2011. Er með breytingunni lagt til að færa megi umrædda frestunarfjárhæð til tekna á þremur árum. Á það hefur verið bent að rétt væri að tiltaka í umræddu bráðabirgðaákvæði að tekjufærslan á hinum uppsafnaða skattskylda hagnaði skuli dreifast jafnt á þau þrjú ár sem ákvæðið veitir til færslunnar. Slíka breytingartillögu nefndarinnar er því að finna í sérstöku þingskjali. Í seinna ákvæðinu til bráðabirgða er lögaðilum og aðilum í sjálfstæðum atvinnurekstri heimilað að færa á milli tekjuáranna 2010 til og með 2014 hluta eftirgjafar skulda sem er umfram yfirfæranlegt rekstrartap og rekstrartap ársins, fyrningar og niðurfærslu að teknu tilliti til skilyrða sem sett eru í ákvæðinu. Ástæða þessarar lagabreytingar er sú að nokkur gagnrýni hefur komið fram um að ákvæðið eins og það stendur í dag hamli fjárhagslegri endurskipulagningu lífvænlegra fyrirtækja vegna tekjuskattsskuldbindingar sem myndast við eftirgjöfina. Skilyrði fyrir tilfærslu milli reikningsára sem frumvarpið gerir ráð fyrir eru að allar fyrnanlegar eignir hafi verið fyrndar að fullu og niðurfærslur almennt nýttar, að arði sé ekki úthlutað vegna tekjuáranna 2010–2014 og að ekki sé um að ræða samsköttun, sameiningu eða skiptingu á sama tímabili. Í breytingunni felst því rýmkun á skilyrðum til eftirgjafar skulda svo að fleiri lögaðilar eða einstaklingar í rekstri geti nýtt sér úrræðið.
    Í meðförum nefndarinnar kom hins vegar upp gagnrýni á þau skilyrði sem sett eru fyrir færslu eftirgjafar milli ára, sérstaklega vegna skilyrðanna um að skattaðili megi ekki taka þátt í samsköttun og sameiningu við aðra skattaðila né vera skipt upp í fleiri félög. Meiri hlutinn tekur undir það að skilyrði þessi séu nokkuð íþyngjandi og geti mögulega hamlað eðlilegri endurskipulagningu fyrirtækja. Leggur meiri hlutinn því til að ríkisskattstjóri geti heimilað skattaðila að taka þátt í samsköttun og sameiningu við aðra skattaðila eða skiptingu upp í fleiri félög, að uppfylltum öðrum skilyrðum ákvæðisins.

b)     Greiðsluuppgjör á gjaldföllnum skattskuldum.
    Þá gerir frumvarpið ráð fyrir breytingum á lögum nr. 24/2010, um greiðsluuppgjör á opinberum gjöldum lögaðila og einstaklinga í atvinnurekstri, en lögunum er ætlað að vera hvati fyrir aðila í atvinnurekstri til að koma vanskilum á opinberum gjöldum í skil. Reynslan af löggjöf þessari hefur verið góð og er hér því lagt til að skilyrði fyrir greiðsluuppgjöri verði rýmkuð. Í fyrsta lagi er lagt til að núgildandi úrræði um greiðsluaðlögun nái til lögaðila og einstaklinga sem hafa verið í atvinnurekstri en ekki eingöngu til aðila sem eru í atvinnurekstri þegar sótt er um frest til greiðsluuppgjörs. Að auki er lagt til að einstaklingar sem sótt hafa um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara geti einnig sótt um greiðsluuppgjör vegna vangoldins virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Í annan stað felst rýmkunin í því að tollstjóra er veitt heimild til að fella niður hluta af tekjuskatti lögaðila sem fallið hefur í gjalddaga fyrir 1. janúar 2010 að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Um er að ræða tímabundna heimild sem tekur til vangoldins tekjuskatts sem gjaldfallinn var fyrir 1. janúar 2010 en tekur ekki til annarra gjalda eða skatta. Þá nær heimildin eingöngu til lögaðila eða einstaklinga sem eru í atvinnurekstri samkvæmt athugasemdum við greinina. Rétt er að benda á að í 30. gr. frumvarpsins er vísað til umsækjanda skv. 1. gr. laganna um greiðsluuppgjör en skv. 29. gr. frumvarps þessa mun slíkur umsækjandi geta verið hvort sem er lögaðili eða einstaklingur sem er eða hefur verið í atvinnurekstri. Er hins vegar gert ráð fyrir því í greinargerð með frumvarpinu að úrræði tollstjóra geti aðeins tekið til aðila sem enn eru í atvinnurekstri og þykir rétt að árétta þann skilning.
    Að auki segir í 30. gr. að úrræði tollstjóra eigi jafnt við um þá sem gert hafa samninga við kröfuhafa um fjárhagslega endurskipulagningu og þá sem ekki hafa farið þá leið.
    Fyrir nefndinni hefur ýmsum sjónarmiðum verið hreyft sem tengjast 6. mgr. í bráðabirgðaákvæði XXXVI við tekjuskattslögin en ákvæðið er annað tveggja sem aukið var við lögin með lögum nr. 104/2010 og fjalla um skattalega meðferð eftirgjafar skulda. Í núverandi 6. mgr. er fjallað um tilfelli þar sem kröfuhafi tekur hlutafé í skuldsettu félagi sem gagngjald fyrir kröfu í stað eftirgjafar. Túlkun þessa ákvæðis hefur verið nokkuð óljós og snýr óvissan helst að því hvort breyting kröfu í hlutafé skuli í öllum tilfellum talin fullnaðagreiðsla kröfunnar og eins snýr hún að tilfellum þar sem krafan hefur verið keypt af þriðja aðila á lægra verði en hún er skráð á í bókum skuldarans. Í þeim tilgangi að taka af öll tvímæli um túlkun ákvæðisins leggur meiri hlutinn til breytingu sem gerir ráð fyrir að aðilar geti samið um gagnkvæma niðurfellingu kröfu áður en greiðsla með hlutafé er innt af hendi. Að lokum er lagt til að þegar skipt er á kröfu og hlutafé skuli fara fram mat á verðmæti hlutafjárins og matsverðið skuli miðast við þann dag þegar skiptin eiga sér stað. Umrætt mat skal gert af óháðum matsaðila þegar skipti á kröfu og hlutafé fara fram milli eignatengdra aðila. Er síðan tiltekið að skuldara beri að tekjufæra hjá sér mismun á verðmæti hlutafjárins og bókfærðu verði skuldarinnar. Eins er tiltekið að kröfuhafa beri eftir atvikum að tekjufæra eða gjaldfæra mismun á bókfærðu verði kröfunnar og matsverði hlutafjárins.

Lög um nýsköpunarúrræði.

    Í lok síðasta árs voru samþykkt lög nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Samkvæmt lögunum fólst stuðningurinn annars vegar í skattafrádrætti hjá nýsköpunarfyrirtækjum og hins vegar í óbeinum stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki í formi skattafsláttar til einstaklinga og lögaðila sem fjárfesta í hlutabréfum nýsköpunarfyrirtækja. Úrræði þessi eiga samkvæmt lögunum að koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda árið 2011. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur, nú í nóvember síðastliðnum, gert athugasemdir við það ríkisaðstoðarkerfi sem felst í lögunum og snúa athugasemdir stofnunarinnar að því að ekki standist ákvæði EES-samningsins að útiloka opinber hlutafélög og önnur hlutafélög í eigum opinberra aðila frá gildissviði laganna. Einnig að því að skattafsláttur til lögaðila sem fjárfesta í nýsköpunarfyrirtækjum feli í sér sjálfstæða beina ríkisaðstoð sem erfitt sé að réttlæta með vísan til 61. gr. EES-samningsins. Þá telur stofnunin að þak sem sett var á hinn óbeina stuðning til nýsköpunarfyrirtækja geri það að verkum að nýsköpunarfyrirtæki verði álitlegri fjárfestingarkostur en önnur félög.
    Vegna athugasemda ESA liggja fyrir í frumvarpi þessu breytingar á lögum nr. 152/2009 sem felast í því að hlutabréfaafsláttur til einstaklinga og lögaðila er afnuminn, að staðfesting vegna skattafrádráttar skuli aðeins veitt nýsköpunarverkefnum en ekki nýsköpunarfyrirtækjum sem slíkum eins og nú er og að rannsóknir og þróun verði skilgreind í lögunum með sama hætti og gert er í leiðbeiningum ESA um ríkisstyrki vegna rannsókna, þróunar og nýsköpunar frá 7. febrúar 2007. Þá felst í breytingunum einnig að skýrar er kveðið á um reglur um hámark opinberra styrkja auk breytinga sem fela í sér frekari skattalegar ívilnanir svo sem að frádráttarprósenta frá álögðum tekjuskatti verði 20% í stað 15%, að hámark rannsóknar- og þróunarkostnaðar til almennrar viðmiðunar á frádrætti verði 100 millj. kr. í stað 50 millj. kr. Einnig að hámark rannsóknar- og þróunarkostnaðar til viðmiðunar frádrætti þegar um aðkeypta rannsóknar- eða þróunarþjónustu er að ræða hækki úr 75 millj. kr. í 150 millj. kr. og að við ákvörðun á skattalegu tapi samkvæmt lögunum verði fallið frá því að líta aðeins til rekstrartaps viðkomandi nýsköpunarfyrirtækis frá og með því rekstrarári sem verkefni í eigu þess hlaut staðfestingu vegna skattafrádráttar. Þá gerir frumvarpið einnig ráð fyrir niðurfellingu tveggja töluliða í 30. og 31. gr. tekjuskattslaganna sem vísa til hlutabréfaafsláttar í nýsköpunarfyrirtækjum. Rétt er að undirstrika að þegar rætt er hér um hámarksreglur um samanlagðan styrk frá opinberum aðilum er átt við styrk fyrir hvert verkefni í heild en ekki er miðað við styrkveitingar eða styrkhæfan kostnað fyrir hvert almanaksár eins og miðað er við í ákvæðum um skattafrádrátt.
    Efnahags- og skattanefnd hefur farið ítarlega yfir þær breytingar sem hér eru lagðar til og rætt við ýmsa hagsmunaaðila. Telur meiri hlutinn það óheppilegt að ákvæði núverandi laga um hlutabréfaafslátt séu ekki framkvæmanleg enda hafa fjöldamörg fyrirtæki sótt um staðfestingu vegna hlutafjáraukningar vegna ársins 2010 og hafa mörg hver líklegast gert ráð fyrir hlutafjáraukningu í framhaldinu. Meiri hlutinn telur mikilvægt að leitað verði leiða til þess að umrædd fyrirtæki geti engu síður notið hlutafjáraukningar og þar með þeirra jákvæðu breytinga sem lögin áttu að leiða af sér. Nú stendur yfir mikilvæg vinna í ráðuneytinu sem varðar stöðu nýsköpunarfyrirtækja og er óskandi að sú vinna gangi hratt og vel auk þess sem meiri hlutinn telur afar mikilvægt að úr álitamálinu varðandi ríkisstyrki fáist skorið á vettvangi ESA sem allra fyrst. Þá vill meiri hlutinn leggja til nokkrar breytingartillögur við þann hluta frumvarpsins sem varðar lögin um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Er í fyrsta lagi um að ræða tæknilegar breytingar sem varða m.a. heiti greina, tilvísanir og orðalag í ákvæðum. Þá leggur meiri hlutinn einnig til að slakað verði á skilyrðum til þess að fá staðfestingu vegna skattafrádráttar sem finna má í 5. gr. laganna um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Í 2. mgr. 5. gr. kemur fram að til þess að nýsköpunarverkefni fái staðfestingu vegna skattafsláttar þurfi m.a. að sýna fram á að a.m.k. 5 millj. kr. verði varið til rannsókna og þróunar á 12 mánaða tímabili. Í þeim tilgangi að koma til móts við minni nýsköpunarfyrirtæki og nýsköpunarverkefni leggur meiri hlutinn því til að umrætt lágmark verði lækkað í 1 millj. kr. Þá vill meiri hlutinn tiltaka sérstaklega að mikilvægt er að úrvinnslu skattafrádráttarins verði hraðað sem mest svo að hann geti nýst fyrir árið 2010 enda ljóst að mörg fyrirtæki hafa reiknað með stuðningi á grundvelli laganna. Þeim sjónarmiðum hefur verið hreyft fyrir nefndinni að með breytingum á lögunum sé ekki nægilega skýrt hvernig hagað er samspili opinberra styrkja til nýsköpunarverkefna og rekstrarkostnaðar við verkefni. Í því ljósi vill nefndin árétta að í 46. gr. segir hver samanlagður styrkur frá opinberum aðilum, að meðtöldum skattafrádrætti, megi vera hæstur og er við það miðað að hann nái mest ákveðnu hlutfalli af heildarkostnaði við verkefnið. Eru ákvæðin í 46. gr. samhljóða reglum EFTA um ríkisstyrki.

Lífeyrissjóðir.
    Að tillögu efnahags- og skattanefndar var, í lok árs 2008, lagt til að vikmörk milli eignarliða og framtíðarskuldbindinga lífeyrissjóða í ákvæði til bráðabirgða VI í lögum nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrissjóða, verði 15% í stað 10% eins og gert er ráð fyrir í 1. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna. Heimild þessi var framlengd fyrir árið 2009 með lögum nr. 130/2009 og er nú í frumvarpi þessu gert ráð fyrir áframhaldandi framlengingu fyrir árið 2010. Athygli ber að vekja á því að aðeins er um heimildarákvæði að ræða sem stjórnir lífeyrissjóða geta nýtt sér ef staða þeirra er slík. Meiri hlutinn bendir á að þegar bráðabirgðaákvæði þetta kom inn í lögin um skyldutryggingu lífeyrisréttinda með lögum nr. 171/2008 var nokkuð rætt um það sjónarmið að verið væri að fresta því að taka á vanda sjóðanna og að áhrifin af undanþágunni til lengri tíma litið gætu verið varasöm. Nefndin hefur leitað eftir upplýsingum um áhrif undanþágunnar frá fimm stærstu lífeyrissjóðum landsins. Telur meiri hlutinn rétt að hugað verði að því hvort enn frekari framlenging heimildar þessarar sé nauðsynleg, sérstaklega með tilliti til þess sjóðirnir hafa nú betri yfirsýn yfir stöðuna á eignamörkuðum.
    Þá gerir frumvarpið einnig ráð fyrir leiðréttingu á ákvæði 4. mgr. 34. gr. laga nr. 129/1997 en því hafði verið breytt með lögum nr. 171/2008 þannig að þeir sem sinntu eignastýringu verðbréfasafna lífeyrissjóða hefðu staðist próf í verðbréfaviðskiptum og vísað til 53. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Rétt hefði hins vegar verið að vísa til 53. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 160/2002, og felst í 32. gr. frumvarpsins leiðrétting þess efnis.

Heimildir skattrannsóknarstjóra.
    Í V. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á heimildum skattrannsóknarstjóra til að einfalda og hraða málsmeðferð gagnvart aðilum sem eru til rannsóknar og felast heimildirnar í því að skattrannsóknarstjóri ríkisins geti sjálfur leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna á einkaheimilum eða á öðrum þeim stöðum sem heimildir skattalaga taka ekki til. Gert er ráð fyrir að með þessum breytingum verði meðferð máls skilvirkari og þær leiði til aukins hagræðis og einföldunar fyrir rannsóknaraðila jafnt sem þá aðila sem aðgerðin beinist gegn. Þá má geta þess að skattrannsóknarstjóri er hluti af refsivörslukerfinu og fer í störfum sínum eftir lögum um meðferð sakamála. Þá hefur hann þegar heimildir í lögum til húsleitar á starfsstöð og í birgðageymslum framtalsskyldra aðila án undangengins úrskurðar héraðsdóms. Með frumvarpinu eru skattrannsóknarstjóra þannig fengnar heimildir til þess að óska sjálfur eftir úrskurði héraðsdómara um leit og haldlagningu á heimilum og öðrum stöðum. Hann þarf því ekki að leita atbeina lögreglu og færa með því forræði rannsóknarinnar yfir til lögreglu á frumstigi þess þegar gagnaöflun stendur enn yfir. Efnahags- og skattanefnd óskaði eftir áliti allsherjarnefndar á lagabreytingum þeim sem varða heimildir skattrannsókarstjóra. Það var mat allsherjarnefndar að lagabreytingin væri eðlileg enda fælist í henni einungis breyting á því hver geti, í þágu rannsóknar máls, leitað úrskurðar héraðsdóms um leit og haldlagningu gagna á heimili og öðrum stöðum samkvæmt ákvæðinu. Í engu sé verið að víkja frá kröfum um réttaröryggi með breytingu þessari.

Ýmsar aðrar breytingar.
    Auk áðurnefndra breytinga eru í ákvæðum frumvarpsins lagðar til fjölmargar aðrar breytingar en þær helstu eru eftirfarandi:
    Lagt er til að heimilt verði að endurgreiða vörugjöld allt að 100 þús. kr. vegna ökutækja sem ganga fyrir bensíni eða dísilolíu en er breytt til þess að ganga fyrir metani. Markmiðið er að flýta fyrir þeirri þróun að metan verði notað í daglegum samgöngum á landinu og verða gjöldin endurgreidd fyrir breytingar á 1.000 ökutækjum. Eigendur ökutækja sem þegar hafa látið breyta ökutækjum sínum til þess að nýta metan fyrir gildistöku ákvæðanna geta einnig sótt um endurgreiðsluna. Nefndin hefur rætt breytingar þessar og vill meiri hlutinn sérstaklega tiltaka að hugsanlegt er að við breytingu á hefðbundnu ökutæki geti neytendur farið á mis við framleiðendaábyrgð sem fylgir ökutækinu. Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á 2. mgr. 49. gr. frumvarpsins þar sem segir að vörugjald skuli aðeins endurgreitt ef ökutæki er yngra en sex ára við breytingu, miðað við framleiðsluár, og sé útbúið að lágmarki 80 lítra metangeymi. Komið hefur í ljós að metangeymar eru nú í auknum mæli framleiddir úr trefjum en slíkir geymar eru framleiddir í 39 lítra einingum en ekki 40 líkt og hefðbundnir kútar. Er því rétt að leiðrétta viðmiðið þannig að það verði 78 lítrar í stað 80 lítra.
    Þá eru í frumvarpinu tímabundnar undanþágur frá greiðslu stimpilgjalds við skilmálabreytingar á fasteignaveðskuldabréfum eða við útgáfu nýrra veðskuldabréfa til uppgreiðslu vanskila framlengdar til ársloka 2011.
    Einnig er í frumvarpinu lagt til að gengishagnaður á innlánsreikningum í erlendri mynt og af erlendum kröfum verði tekjufærður við úttekt af reikningi. Er þannig horfið frá því að áfallinn óinnleystur gengishagnaður teljist til tekna. Meiri hlutinn leggur til að gildistaka ákvæðanna sem eru í 1. og 18. gr. frumvarpsins verði 1. janúar 2011.
    Þá er lögð til réttarbót í tengslum við meðferð á söluhagnaði af íbúðarhúsnæði á þann hátt að meðferðin verði sú sama hvort sem sala íbúðarhúsnæðis fer fram úr dánarbúi eða eftir skipti dánarbús og þá af hálfu erfingjanna sjálfra.
    Enn fremur er lagt til að skattaleg meðferð einstaklinga sem starfa og hafa tekjur sínar hluta ársins á Íslandi og að hluta til á Evrópska efnahagssvæðinu, auk Færeyja og Sviss, verði samræmd þannig að ef meiri hluti tekna verður til á Íslandi njóti þeir skattalegs hagræðis á hér á landi hvort sem þeir eru búsettir hérlendis eða erlendis. Meiri hlutinn vill hér tiltaka sérstaklega að mikilvægt er að reglugerð um framkvæmd þessarar heimildar verði útfærð og kynnt sem allra fyrst en samkvæmt frumvarpinu tekur ákvæðið gildi 1. janúar 2011 og kemur til framkvæmda við álagningu 2012 og á staðgreiðsluárinu 2011.
    Auk þess er til bráðabirgða lagt til að frestaðar tekjufærslur verði hægt að færa til tekna á næstu þremur árum í stað þess að frestfjárhæðin færist til tekna í einu lagi í skattframtali 2011 eins og núverandi lög gera ráð fyrir.
    Frumvarpið gerir síðan ráð fyrir að fjölgað verði gjaldaþrepum við greiðslu dómsmálagjalda og að bætt verði við tveimur nýjum gjaldaþrepum. Hæsta gjaldaþrepið í dag miðast við stefnufjárhæð eða áfrýjunarfjárhæð frá 30 millj. kr. og yfir. Er hér lagt til að gjaldaþrepið verði 30 millj. kr. að 90 millj. kr. og svo tvö ný stig, þ.e. frá 90 millj. kr. að 150 millj. kr. og svo frá 150 millj. kr. og af fjárhæð umfram þá fjárhæð. Tillögur þessar má rekja meðal annars til samráðs og samvinnu milli dómsmálaráðuneytis, Hæstaréttar Íslands, dómstólaráðs, Lögmannafélags Íslands og Dómarafélags Íslands þar sem unnið var að því hvernig bregðast mætti við því mikla viðbótarálagi sem dómstólar landsins standa frammi fyrir og er orðið raunin nú þegar. Áætlanir gera ráð fyrir að með þessum breytingum hækki dómsmálagjöld úr 15 millj. kr. á ári í 180 millj. kr. á ári og tekjuauki fyrir ríkissjóð verði um 165 millj. kr. árlega sem gert er ráð fyrir að nýttar verði til að fjölga dómurum við Hæstarétt og héraðsdómstólana. Meiri hlutinn telur hins vegar hugsanlegt að breyting þessi geti hindrað ákveðinn hóp einstaklinga í að leita réttar síns fyrir dómstólum. Er þar helst átt við dómsmál vegna skaðabóta, slysabóta eða slíks þar sem um verulegar fjárhæðir getur verið að ræða sem falla mundu í efri þrep dómsmálagjaldsins. Nefndin leitaði til dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins vegna málsins en í svari þess er tiltekið að í þeim tilfellum þar sem málsaðili fær skaðabótakröfu sína viðurkennda fyrir dómi sé honum dæmdur málskostnaður úr hendi gagnaðila. Umrædd dómsmálagjöld falla undir málskostnað og fengjust þannig greidd. Verði krafa aðila hins vegar ekki viðurkennd er mögulegt að óska gjafsóknar á grundvelli laga um meðferð einkamála, nr. 91/1991.
    Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á 15. gr. laga um stjórn fiskveiða og 1., 3. og 4. gr. laga um veiðieftirlitsgjald. Felast téðar breytingar í hækkun nokkurra gjalda; gjalds fyrir tilkynningu til Fiskistofu um flutning aflamarks, gjalds fyrir veitingu veiðileyfis, gjalds fyrir staðfestingu Fiskistofu á flutningi aflahlutdeildar og krókaaflahlutdeildar milli skipa og gjalds sem útgerðir skipa greiða fyrir hvern dag, eða hluta dags, sem eftirlitsmaður Fiskistofu er um borð í skipi sem hefur leyfi stofnunarinnar til að vinna afla um borð eða þegar eftirlitsmaður Fiskistofu er um borð á kostnað útgerðar samkvæmt sérstakri heimild í lögum. Meiri hlutinn bendir á að framangreind gjöld hafa ekki tekið hækkunum samkvæmt verðlagsþróun allt frá því að gjaldtaka þeirra var leidd í lög á árunum 2000–2002. Er það álit meiri hlutans að framangreindar gjaldahækkanir séu eðlilegar að teknu tilliti til þess sem fram er komið.
    Aðrar tillögur sem miða helst að bættri skattframkvæmd eru breytingar í 6. gr. frumvarpsins þar sem ákvörðun ríkisskattstjóra um að synja umsóknar um annað reikningsár en almanaksár verður kæranleg til yfirskattanefndar. Í beinu framhaldi leggur meiri hlutinn til að í 1. málsl. 1. mgr. 99. gr. tekjuskattslaganna verði felld brott orðin „og reikningsár skv. 1. mgr. 59. gr.“. Með því er ákvörðun ríkisskattstjóra um annað reikningsár en almanaksár tekin undan almennu kæruheimildinni sem er að finna í 99. gr. enda hefur, með 6. gr. frumvarps þessa, verið mótuð sérstök kæruheimild vegna þessara ákvarðana. Svo virðist því sem við vinnslu frumvarpsins hafi láðst að fella hinn almenna kærurétt niður vegna annars reikningsárs. Einnig er að finna ákvæði þar sem 30 daga frestur til endurákvörðunar að beiðni skattaðila í lögum um tekjuskatt er felldur niður, bætt er við ákvæði um eindaga og ákvæði um afdrátt staðgreiðslu af arði í lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur skýrð nánar þannig að ljóst sé að skylda til afdráttar skapist þegar arðurinn er greiddur. Þá er einnig, í 9. gr. frumvarpsins lagt til að Fiskræktarsjóði verði bætt við upptalningu tekjuskattslaganna og laga um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur á aðilum sem undanþegnir eru fjármagnstekjuskatti. Í meðförum nefndarinnar hefur hins vegar komið í ljós að Þróunarsjóður sjávarútvegsins er ekki lengur til og flytur meiri hlutinn því þá breytingartillögu að Fiskræktarsjóður komi í stað Þróunarsjóðsins sem falli við það brott úr ákvæðinu. Sambærilega breytingu þarf því einnig að gera á 17. gr. frumvarpsins en í henni eru lagðar til frekari leiðréttingar á aðilum sem eru undanþegnir greiðslu fjármagnstekjuskatts. Að lokum er minnst á breytingar á tollalögum sem varða innflutning á bílaleigubílum og kostnaðarliði og gjöld sem hluta af tollverði. Vísast um þessi atriði og önnur sem hér hefur ekki verið fjallað um til athugasemda við frumvarpið.
    Til viðbótar við framangreint leggur meiri hlutinn, að frumkvæði fjármálaráðuneytis, til breytingar á lögum sem varða skatta og gjöld og er ekki að finna í frumvarpinu. Fara þær hér á eftir:

Breytingar á lögum um tekjuskatt.
    Meiri hlutinn leggur til breytingu á 3. málsl. 2. mgr. 11. gr. tekjuskattslaganna. Þar er samlagsfélagi bætt við upptalningu ákvæðisins þar sem kveðið er á um að úthlutun verðmæta til sameignarfélags þar sem einn sameigandi er hluthafi, stjórnarmaður eða starfsmaður félagsins og úthlutar verðmætum skuli teljast honum til tekna. Eru samlagsfélög þannig færð undir sömu reglur og sameignarfélög enda standi ekki rök til þess að jafnræðis sé ekki gætt með þessum tveimur félagaformum.
    Þá eru lagðar til breytingar á 32. gr. sem varða greiðslumark í landbúnaði. Í breytingartillögunni felst að heimild til þess að færa niður stofnkostnað við kaup á framleiðslurétti í landbúnaði með jöfnum fjárhæðum á fimm árum er felld niður. Meiri hlutinn telur að breyting þessi geti haft jákvæð áhrif á verð framleiðsluréttar og að afnám niðurfærslunnar muni auðvelda nýliðun í mjólkurframleiðslu. Auk þess má benda á að svipað niðurfærslukerfi hefur þegar verið afnumið í sjávarútvegi og því sé eðlilegt að samræmi sé gætt milli þessara grunnstarfsgreina. Einnig hefur verið talið að réttindi samkvæmt greiðslumarki eigi eftir eðli sínu að falla undir 48. gr. laganna um ófyrnanleg réttindi. Um er að ræða verðmæti sem eyðast ekki þótt þau takmarkist af gildistíma búvörusamnings hverju sinni. Þó telur nefndin að eðlilegt sé að veita ákveðinn aðlögunartíma hvað breytinguna varðar og telur hún því eðlilegt að þeir sem hafa keypt framleiðslurétt í landbúnaði fyrir 1. janúar 2011 fái að halda áfram að færa niður stofnkostnaðinn um allt að 5 ára tímabil. Tekur undanþágan einnig til þeirra sem keyptu framleiðslurétt sem ekki öðlast gildi fyrr en 1. janúar 2011 og er til hagnýtingar á framleiðsluárinu 2011. Með þessu móti muni sérreglan fjara út í gegnum sólarlagsákvæði á stuttum tíma án þess að setja þegar orðnar fjárfestingar í uppnám.
    Enn fremur leggur meiri hlutinn til breytingu á ákvæði 55. gr. þar sem fjallað er um samsköttun. Felst breytingin í því að heimild til samsköttunar með félagi falli niður sé félagið tekið til gjaldþrotameðferðar og sæti slitameðferð. Er ætlunin með ákvæðinu að kveða skýrar á um að sú heimild sem veitt er til samsköttunar hlutafélaga og einkahlutafélaga falli niður þegar eiginlegum atvinnurekstri og störfum hefðbundinnar félagsstjórnar, þ.m.t. hluthafa, telst lokið vegna gjaldþrots eða slitameðferðar. Þar með hafi sú breyting orðið á eignarhaldi og forræði að forsendur fyrir samsköttun með sjálfstætt starfandi hlutafélagi teljist ekki vera til staðar, sbr. 2. málsl. 8. tölul. 31. gr. tekjuskattslaga.
    Að auki leggur meiri hlutinn til breytingu á 2. mgr. 99. gr. tekjuskattslaga þar sem vísað er til fyrirkomulags frá fyrri tíð þegar ríkisskattstjóri heimilaði að tilteknir starfsmenn skattstjóra undirrituðu úrskurði fyrir þeirra hönd. Með sameiningu skattumdæma og embættis ríkisskattstjóra er óþarfi að mæla fyrir um þennan hátt á verkstjórn í lögum. Er því um að ræða breytingu til hagræðis við skattlagningu og vinnu skattyfirvalda.
    Þá leggur meiri hlutinn til breytingu á 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis XXXV við tekjuskattslögin vegna Allir vinna verkefnisins. Leggur meiri hlutinn til að í ákvæðinu verði 50.000 kr. lágmark reikninga samkvæmt ákvæðinu fellt niður. Svo virðist sem misskilnings hafi gætt í tengslum við 50.000 kr. lágmark reikninga þannig að deilt hefur verið um hvort hver reikningur einstaklings þurfi að nema 50.000 kr. eða hvort nægilegt sé að heildarreikningur á húsfélag til dæmis sé 50.000 kr. Er því lagt til að umrædd viðmiðunarmörk verði felld brott en fjárhagslegar afleiðingar þess fyrir ríkissjóð eru litlar. Lágmark eins og nú er í bráðabirgðaákvæðinu er til dæmis ekki að finna vegna endurgreiðslu virðisaukaskatts. Þar að auki er hér um ívilnandi aðgerð að ræða sem er einnig til einföldunar á framkvæmd endurgreiðslunnar.

Viðbætur við V. og IX. kafla frumvarpsins og nýr kafli um breytingu á lögum um vörugjald, nr. 97/1987.

    Í tengslum við frestun gjalddaga í tolli eru lagðar til viðbætur við frumvarpið, í fyrsta lagi viðbót við V. kafla um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, í öðru lagi viðbót við IX. kafla um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005, og að lokum viðbót við lög um vörugjald, nr. 97/1987. Sammerkt með breytingunum er að þeim er ætlað að bregðast tímabundið við greiðsluerfiðleikum fyrirtækja vegna þess samdráttar sem nú er í íslensku efnahagslífi og þjóna sem nokkurs konar greiðsluaðlögun fyrir atvinnulífið. Með breytingunum er lagt til að vegna uppgjörstímabils nóvember og desember á árinu 2010 verði hefðbundnum gjalddaga aðflutningsgjalda dreift á þrjá gjalddaga á næsta ári í stað eins. Greiðsluaðlögun af sams konar meiði hefur verið lögfest áður og er markmiðið nú að styðja fyrirtæki sem eiga í greiðsluerfiðleikum inn í nýja árið. Aðgerðirnar eru einskiptisaðgerðir sem taki aðeins til fyrsta tímabils ársins 2011.
    Leggur meiri hlutinn til að frumvarp þetta verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Þór Saari var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 16. des. 2010.



Helgi Hjörvar,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Magnús Orri Schram.



Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.