Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 221. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 609  —  221. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Gunnars Braga Sveinssonar um viðræður Íslands og Kína um fríverslunarsamning.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig standa viðræður Íslands og Kína um fríverslunarsamning?

    Fríverslunarviðræður á milli Íslands og Kína hófust í apríl 2007. Fjórar samningalotur hafa verið haldnar, sú fyrsta í apríl 2007, önnur í júní 2007, sú þriðja í október 2007 og sú fjórða í apríl 2008. Enn fremur voru haldnir tveir sérfræðifundir á sviði þjónustuviðskipta árið 2008 og tæknilegur fundur í mars 2009.
    Í viðræðunum hefur komið fram að talsvert ber enn á milli samningsaðila á nokkrum sviðum, t.d. hvað varðar markaðsaðgang fyrir sjávarafurðir, þjónustuviðskipti og aðgang að íslenskum vinnumarkaði.
    Bæði ríkin hafa lagt fram tilboð á sviði vöruviðskipta. Í tilboði Íslands er boðin niðurfelling tolla á sjávarafurðum og iðnaðarvörum, svo og lækkun eða niðurfelling tolla á tilteknum landbúnaðarvörum. Tilboð Kína felur í sér niðurfellingu tolla á vörum að undanskildum nokkrum vörutegundum. Þá hefur Kína farið fram á fimm eða tíu ára aðlögunartíma á niðurfellingu tolla af tilteknum vörutegundum, m.a. á tilteknum sjávarafurðum og iðnaðarvörum sem framleiddar eru hér á landi. Íslenska samninganefndin hefur sótt fast að fá Kína til að falla frá þeirri kröfu en án árangurs. Af Íslands hálfu hefur verið lögð rík áhersla á niðurfellingu allra tolla á sjávarafurðum og iðnaðarvörum sem framleiddar eru á Íslandi þegar við gildistöku samningsins.
    Bæði ríkin hafa enn fremur gert kröfur og lagt fram tilboð á sviði þjónustuviðskipta, en þar ber enn nokkuð á milli samningsaðila. Af hálfu Kína hafa verið gerðar kröfur um tímabundinn aðgang að íslenskum vinnumarkaði.
    Á fundi ráðherra með utanríkisráðherra Kína sem haldinn var í Peking í júlí 2010 tók ráðherra upp fríverslunarviðræðurnar. Á fundinum kom fram að gera mætti ráð fyrir því að næsti fundur sem tengist viðræðunum færi fram í Peking síðar á þessu ári eða byrjun næsta árs.
    Á árlegum fundi sameiginlegrar nefndar Íslands og Kína um viðskiptamál sem haldinn var í Peking í byrjun nóvember 2010 vísaði fulltrúi Íslands til áðurnefnds fundar utanríkisráðherranna og áréttaði mikilvægi þess að fundur sem tengist viðræðunum yrði haldinn hið fyrsta. Íslensk stjórnvöld vænta þess að viðræður haldi áfram á næsta ári.