Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 432. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 707  —  432. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um göngubrú yfir Markarfljót.

Flm.: Róbert Marshall, Björgvin G. Sigurðsson, Þráinn Bertelsson,


Guðmundur Steingrímsson, Árni Johnsen, Magnús Orri Schram,
Ólafur Þór Gunnarsson, Ólína Þorvarðardóttir, Siv Friðleifsdóttir,
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Eygló Harðardóttir, Helgi Hjörvar,
Sigmundur Ernir Rúnarsson, Margrét Tryggvadóttir, Valgerður Bjarnadóttir,
Kristján L. Möller, Ragnheiður E. Árnadóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Unnur Brá Konráðsdóttir, Þór Saari, Álfheiður Ingadóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta smíða göngubrú yfir Markarfljót við Húsadal.

Greinargerð.


    Með tillögu þessari er lagt til að gerð verði göngubrú yfir Markarfljót við Húsadal í þeim tilgangi að auðvelda og bæta aðgengi að hinni fögru náttúru Þórsmerkursvæðisins.
    Á svæðið er aðeins hægt að komast á sérútbúnum bílum eftir torfærum slóðum. Þrátt fyrir þessar takmarkanir er talið að um 75–100 þúsund ferðamenn komi þangað árlega. Í nýafstöðnu eldgosi í Eyjafjallajökli lokaðist leiðin inn í Þórsmörk sem skapaði hættu fyrir ferðafólk á svæðinu auk þess sem ferðaþjónustuaðilar töpuðu viðskiptum meðan lokað var. Leiðin í Þórsmörk er almennt hættuleg og lokast oft á hverju sumri. Mjög alvarleg slys hafa orðið í ám á leiðinni. Þessar tíðu lokanir og hin alvarlegu slys hafa leitt af sér þá hugmynd að gera örugga leið í Þórsmörk með göngubrú yfir Markarfljót til móts við Húsadal.
    Á síðustu mánuðum hafa möguleikar á brúarsmíði verið skoðaðir og verðtilboða leitað. Mögulegur ávinningur af brúarsmíðinni hefur einnig verið kannaður og leiddi könnunin í ljós að slík brú mundi fyrst og fremst auka mjög öryggi ferðamanna. Slík brú opnaði leið inn í Þórsmörk bæði vetur og sumar fyrir þá sem ekki eiga sérútbúna fjallajeppa, en þá yrði ekið inn Fljótshlíð og inn fyrir Þórólfsfell. Göngubrú á Markarfljóti mundi einnig opna fyrir nýjar gönguleiðir, svo sem Þórsmörk–Tindfjöll, Einhyrningsflatir–Emstrur og Markarfljótsgljúfraleið. Þar með mundi opnast ný vídd í ferðaþjónustu sem skapa mundi ný störf á svæðinu. Mætti og leggja rafstreng yfir hina nýju brú sem gerði það mögulegt að rafvæða skála ferðaþjónustuaðila.
    Ljóst er að Þórsmerkursvæðið er og verður áfram með alvinsælustu útivistarsvæðum landsins á næstu árum enda er áhugi bæði innlendra og erlendra ferðamanna mikill á að skoða eldstöðvarnar á Fimmvörðuhálsi og sjá ummerkin eftir öskugosið úr toppi Eyjafjallajökuls og því afar brýnt að bæta aðgengi og öryggi ferðamanna eins vel og hægt er.
    Áætlanir Vegagerðarinnar gera ráð fyrir að göngubrú yfir Markarfljót á þessum stað kosti um 50 millj. kr. Flutningsmenn tillögunnar hvetja til þess að gerð göngubrúarinnar verði unnin í samstarfi við samtökin Vini Þórsmerkur og í samræmi við hugmyndir þeirra um staðsetningu og fleira en að samtökunum standa hagsmunaaðilar á svæðinu.