Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 433. máls.

Þskj. 709  —  433. mál.



Frumvarp til laga

um útflutning hrossa.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn mála samkvæmt lögum þessum.
    Útflutningur á hrossum er heimill án sérstakra leyfa að uppfylltum skilyrðum laga þessara og stjórnvaldsfyrirmæla sem eru sett samkvæmt þeim. Þó má ekki flytja úr landi yngri hross en fjögurra mánaða né fylfullar hryssur sem gengnar eru með sjö mánuði eða lengur.

2. gr.

    Óheimilt er að flytja úr landi hross nema héraðsdýralæknir eða eftirlitsdýralæknir Matvælastofnunar hafi skoðað það í útflutningshöfn, metið það hæft til útflutnings með tilliti til dýraverndar og smitsjúkdóma og staðfest að það sé rétt merkt og uppfylli kröfur sem gerðar eru af hlutaðeigandi yfirvöldum í innflutningslandi.
    Öll útflutningshross skulu vera örmerkt.
    Útflytjendur hrossa greiða kostnað við skoðun útflutningshrossa í útflutningshöfn samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að fenginni tillögu Matvælastofnunar.

3. gr.

    Flutningsför fyrir hross við útflutning skulu vera fullnægjandi hvað alla aðstöðu og aðbúð varðar, svo sem rými, loftræstingu, brynningartæki, fóður, fóðrun og eftirlit, þannig að velferð hrossanna í flutningi sé tryggð. Matvælastofnun hefur eftirlit með að reglum um aðstöðu og aðbúð sé fylgt.
    Óheimilt er að flytja hross frá Íslandi með flutningsfari sem samtímis flytur dýr frá öðrum löndum. Hafi flutningsfar áður verið notað til flutnings á dýrum erlendis skal það þrifið og sótthreinsað áður en það kemur til landsins. Matvælastofnun hefur eftirlit með að reglum um þrif og sótthreinsun sé fylgt.
    Á tímabilinu 1. október til 15. maí er einungis heimilt að flytja hross til útlanda með flugvélum.

4. gr.

    Matvælastofnun getur ákveðið við sérstakar aðstæður að dýralæknir sé um borð í flutningsfari og hafi yfirumsjón með gæslu hrossa í flutningi.
    Flutningsaðili greiðir allan kostnað sem fellur til vegna veru dýralæknis í flutningsfari.

5. gr.

    Hrossum sem eru flutt úr landi skal fylgja vottorð, hestavegabréf, frá Bændasamtökum Íslands er staðfesti uppruna, ætterni, eiganda og aðrar upplýsingar sem nauðsynlegar eru, meðal annars til að uppfylla kröfur þær sem innflutningslönd gera hverju sinni.
    Útflytjendur hrossa greiða gjald fyrir kostnað við útgáfu hestavegabréfa samkvæmt gjaldskrá sem ráðherra setur að fenginni tillögu Bændasamtaka Íslands.

6. gr.

    Af hverju útfluttu hrossi skal greiða 1.500 kr. gjald í stofnverndarsjóð skv. 15. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998. Bændasamtök Íslands annast innheimtu gjaldsins.

7. gr.

    Ráðherra skipar fimm manna ráðgjafarnefnd um málefni er snerta útflutning hrossa. Nefndin er samráðsvettvangur stjórnvalda og þeirra sem að þeim málefnum vinna. Bændasamtök Íslands, Félag hrossabænda, Matvælastofnun og Félag hrossaútflytjenda tilnefna einn mann í nefndina hver en ráðherra skipar formann án tilnefningar.

8. gr.

    Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara, þar með talið um skoðun og merkingu útflutningshrossa, aðstöðu í útflutningshöfn og í flutningsfari, sóttvarnir og upplýsingar sem útflytjendum er skylt að leggja fram vegna útgáfu hestavegabréfa.

9. gr.

    Brot gegn lögum þessum og stjórnvaldsreglum settum samkvæmt þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Mál út af brotum gegn lögum þessum sæta meðferð samkvæmt lögum um meðferð sakamála.

10. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 55/2002, um útflutning hrossa, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. er heimilt til 1. nóvember 2011 að flytja út hross sem eru ekki örmerkt hafi þau verið frostmerkt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti í samráði við ráðgjafarnefnd um útflutning hrossa skv. 6. gr. laga nr. 55/2002, um útflutning hrossa. Fullt samkomulag var í nefndinni um efni frumvarpsins. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar þeirra aðila sem frumvarpið helst varðar, þ.e. Bændasamtaka Íslands, Félags hrossabænda, Matvælastofnunar og Félags hrossaútflytjenda. Ráðherra skipar formann hennar án tilnefningar.
    Frumvarpi þessu er ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um útflutning hrossa, nr. 55/ 2002. Helstu breytingar frá núgildandi lögum eru þær að ekki verður lengur heimilt að flytja út hross sem einungis eru frostmerkt, tímabil það sem aðeins er heimilt að flytja hross út með flugvélum er lengt og gjald það sem útflytjendur hrossa greiða í stofnverndarsjóð er hækkað. Þá er í frumvarpinu að finna það nýmæli að óheimilt verður að flytja hross frá Íslandi með flutningsfari sem samtímis flytur dýr frá öðrum löndum.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Ákvæðið er efnislega samhljóða ákvæði 1. gr. núgildandi laga.

Um 2. gr.


    Í 1. mgr. segir að Matvælastofnun skoði hross í útflutningshöfn í stað „héraðsdýralæknis“ áður. Er gert ráð fyrir því að Matvælastofnun geti tekið ákvörðun um hvaða dýralæknir það er sem skoðar hross áður en það er flutt út, t.d. yfirdýralæknir, héraðsdýralæknir eða eftirlitsdýralæknir.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að öll útflutningshross skuli vera örmerkt og felur það í sér þá breytingu á núgildandi lögum að ekki verður lengur heimilt að flytja út hross sem einungis eru frostmerkt. Frostmerking hrossa hefur verið á undanhaldi undanfarin ár og hefur verið bent á ýmis vandkvæði við aflestur hennar. Þykir örmerking að þessu leyti hagkvæmari auk þess sem hún er talin öruggari að því er varðar trúverðugleika upprunavottorðs. Þó er gert ráð fyrir því að heimilt sé að flytja frostmerkt hross til útlanda fram til 1. nóvember 2011, sbr. ákvæði til bráðabirgða. Þykir rétt að gefa eigendum hrossa sem einungis eru frostmerkt aðlögunartíma hvað þetta varðar.
    Samkvæmt 3. mgr. er líkt og áður gert ráð fyrir því að útflytjendur hrossa greiði kostnað við skoðun hrossa í útflutningshöfn. Þá má einnig geta efnislega skyldrar heimildar í 3. mgr. 37. gr. laga nr. 143/2009, sem breytir 11. gr. laga nr. 66/1998, um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, og öðlast gildi 1. nóvember 2011. Þar segir: „Að fengnum tillögum Matvælastofnunar setur ráðherra reglur um gjald sem skal innheimt fyrir eftirlit og skoðanir héraðsdýralækna og annarra dýralækna og eftirlitsmanna sem starfa við umdæmisskrifstofur stofnunarinnar.“

Um 3. gr.


    Ákvæðið er að mestu leyti samhljóða 3. gr. núgildandi laga. Í 1. mgr. er að finna þá breytingu að Matvælastofnun er falið að hafa eftirlit með því að reglum um aðbúnað sé fylgt og er með því átt við þann fulltrúa stofnunarinnar sem skoðar hrossin í útflutningshöfn.
    Í 2. mgr. er að finna nýmæli í lögum en þar er kveðið á um að óheimilt sé að flytja hross frá Íslandi með flutningsfari sem samtímis flytur dýr frá öðrum löndum. Búa þarna að baki rök um dýrasjúkdóma og sóttvarnir. Ákvæðið var áður að finna í reglugerð um útflutning hrossa en rétt þykir að ákvæði þessa efnis sé einnig að finna í lögunum. Er embættisdýralækni falið að sjá til þess að reglum sé fylgt varðandi sótthreinsun skipa sem koma hingað til lands og hafa áður flutt dýr frá öðrum löndum.
    Ákvæði 3. mgr. kveður á um að tímabil það sem einungis er heimilt að flytja hross til útlanda með flugvélum skuli vera lengra en samkvæmt núgildandi lögum. Er þannig gert ráð fyrir því að tímabilið vari frá 1. október til 15. maí í stað 1. nóvember til 15. apríl áður. Þykir rétt að stytta þann tíma sem heimilt er að flytja hross til útlanda með skipum vegna veðuraðstæðna hér við land.

Um 4. gr.


    Ákvæðið er nýmæli í lögum en er hins vegar að finna í 4. gr. gildandi reglugerðar um útflutning hrossa. Í 1. mgr. er mælt fyrir um að Matvælastofnun sé heimilt að ákveða í sérstökum tilvikum að dýralæknir skuli vera um borð í flutningsfari og hafa yfirumsjón með gæslu hrossa. Ákvæðið er undantekningarákvæði og ber að túlka heimildina þröngt. Með orðalaginu „við sérstakar aðstæður“ er til að mynda átt við mál þar sem svo háttar til að í fleiri en einu tilviki hafi hross drepist í umsjón flutningsaðila eða þar sem ástand hrossanna við komu á áfangastað bendir til þess að aðbúnaði þeirra í flutningsfari hafi verið ábótavant. Eðlilegt þykir að flutningsaðili greiði kostnað af veru dýralæknis í flutningsfari.

Um 5. gr.


    Ákvæði 1. mgr. er að mestu leyti samhljóða ákvæði 1. mgr. 4. gr. núgildandi laga en rétt þykir að kveða einnig á um að í hestavegabréfi frá Bændasamtökum Íslands geti verið að finna aðrar upplýsingar en þær sem núgildandi ákvæði gerir ráð fyrir, sérstaklega ef sú krafa er gerð í innflutningslandi að þær upplýsingar komi fram.
    Í 2. mgr. er að finna ákvæði sama efnis og ákvæði 2. mgr. 4. gr. núgildandi laga.
    Með þessu frumvarpi er ekki lengur gert ráð fyrir að fagráð í hrossarækt ákvarði mörk kynbótamats sem hross þurfi að hafa til að teljast úrvalskynbótagripur. Ástæða þessa er sú að fé því sem rennur í stofnverndarsjóð, skv. 15. gr. búnaðarlaga, er nú einungis varið til styrkveitinga í hrossarækt en ekki til kaupa á úrvalskynbótagripum sem ella yrðu fluttir úr landi. Þykir því ekki ástæða til þess að ákvarða á hverju ári um framangreind mörk kynbótamats.

Um 6. gr.


    Með ákvæðinu er gjald það sem útflytjendur hrossa greiða í stofnverndarsjóð hækkað úr 500 kr. af hverju útfluttu hrossi í 1.500 kr.

Um 7.–9. gr.


    Ákvæðin eru að mestu leyti samhljóða 6.–8. gr. núgildandi laga.

Um 10. gr.


    Ákvæðið þarfnast ekki skýringar.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Um skýringu á ákvæðinu vísast til athugasemda við ákvæði 2. mgr. 2. gr.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um útflutning hrossa.


    Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um útflutning hrossa, nr. 55/2002. Helstu breytingar frá núgildandi lögum eru í fyrsta lagi að ekki er gert ráð fyrir að lengur verði heimilt að flytja út hross sem einungis eru frostmerkt. Í öðru lagi er lagt til að lengt verði það tímabil sem einungis er heimilt að flytja út hross með flugvélum. Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að gjald sem útflytjendur greiða í stofnverndarsjóð verði hækkað úr 500 kr. í 1.500 kr. en sjóður þessi er í umsjón Bændasamtaka Íslands skv. 15. gr. búnaðarlaga, nr. 70/1998. Miðað er við að 1.500–2.000 hross séu flutt úr landi á ári hverju og má því gera ráð fyrir að tekjur sjóðsins aukist um 1,5–2 m.kr. við þá breytingu en á árinu 2009 voru tekjurnar samtals 0,8 m.kr. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að óheimilt verði að flytja hross frá Íslandi með flutningsfari sem samtímis flytur dýr frá öðrum löndum. Í fimmta lagi lagt til að Matvælastofnun skoði hross í útflutningshöfn í stað héraðsdýralæknis áður en áfram er gert ráð fyrir að útflytjendur hrossa greiði þann kostnað.
     Með fjárlögum 2003 var 0,6 m.kr. fjárheimild 04-826, Stofnverndarsjóður búfjár, felld niður. Síðan þá hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu láðst að áætla fyrir þessum mörkuðu tekjum í fjárlögum þrátt fyrir að gjöld af útfluttum hrossum hafi verið innheimt allar götur síðan. Gera má ráð fyrir að tekjur stofnverndarsjóðs, á fjárlagalið 04-826, verði samtals um 2,3 m.kr. á ársgrunni vegna hækkunar á gjaldinu í 1.500 kr. en þá er miðað við að um 1.500 hross verði flutt út á ári. Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa áhrif á afkomu ríkissjóðs.