Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 388. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 768  —  388. mál.
Fundargestir.




Nefndarálit



um frv. til l. um heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Högna Haraldsson og Ólaf Ásgeirsson frá IFS-greiningu, Guðmund Björnsson og Valdimar Ármann frá GAM Management hf., Nökkva Bragason, Þórhall Arason og Pétur Fenger frá fjármálaráðuneyti, Gunnar H. Hall frá Fjársýslu ríkisins, Má Guðmundsson og Sigríði Logadóttur frá Seðlabanka Íslands, Ásgeir Daníelsson og Þórarin G. Pétursson frá Seðlabanka Íslands, Magnús Árna Skúlason, Eirík Svavarsson, Kristján Gíslason, Ragnar Ólafsson, Davíð Blöndal, Sigurð Hannesson og Ólaf Elíasson frá Indefence, Ragnar H. Hall hrl., Stefán Má Stefánsson prófessor og Benedikt Bogason héraðsdómara, Ólaf Darra Andrason frá ASÍ, Halldór Halldórsson og Guðjón Bragason frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Hannes G. Sigurðsson og Guðjón Axel Guðjónsson frá Samtökum atvinnulífsins, Svein Arason frá Ríkisendurskoðun, Sigrúnu Helgadóttur, Guðrúnu Þorleifsdóttur og Eirík Elís Þorláksson frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, Guðmund Árnason, Einar Gunnarsson, Lárus Blöndal, Jóhannes Karl Sveinsson, Lee C. Buchheit, Andrew Speirs, Hrafn Steinarsson, Kristján Andra Stefánsson og Charles Williams frá samninganefnd um Icesave, Lárentsínus Kristjánsson, Einar Jónsson og Ársæl Hafsteinsson frá skilanefnd Landsbanka Íslands, Herdísi Hallmarsdóttur og Kristin Bjarnason frá slitastjórn Landsbanka Íslands og Hreiðar Bjarnason og Árna Þór Þorbjörnsson frá NBI hf.

Inntak endurgreiðslusamnings – megindrættir.
    Niðurstöður viðræðnanna á milli samninganefnda Íslands, Bretlands og Hollands gera ráð fyrir að gerðir verði endurgreiðslu- og skaðleysissamningar (e. Reimbursement and Indemnity Agreements) með aðild hlutaðeigandi ríkja og Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta. Gert er ráð fyrir að tryggingarsjóðurinn endurgreiði breskum og hollenskum stjórnvöldum þær fjárhæðir sem þau hafa lagt út en fái í staðinn framseldan samsvarandi hluta krafna þeirra í bú bankans og annist innheimtu þeirra. Gert er einnig ráð fyrir að tryggingarsjóðurinn nýti fyrst þá fjármuni sem til eru í sjóðnum til endurgreiðslu. Greiðslur verði inntar af hendi eftir því sem úthlutað er úr búi Landsbankans. Áfallnir vextir verða greiddir ársfjórðungslega fram á mitt ár 2016 en þá er búist við að úthlutun úr búi Landsbankans verði að mestu lokið. Frá þeim tíma skuldbindur ríkið sig til að standa undir eftirstöðvum skuldbindinga tryggingarsjóðsins.
    Höfuðstóll endurgreiðslufjárhæðarinnar er vaxtalaus fram til 1. október 2009 en ber fasta vexti eftir það. Vextir á höfuðstól skuldbindingarinnar eru 3% gagnvart Hollandi og 3,3% gagnvart Bretlandi. Vegnir meðalvextir eru 3,2% og gilda fram til 30. júní 2016.
    Höfuðstóll þeirra krafna sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta fær framseldar í bú Landsbanka Íslands hf. er um 659 milljarðar kr. miðað við gengi íslensku krónunnar 22. apríl 2009. Jafnframt samdist um það milli aðila að tryggingarsjóðurinn fengi framseldar vaxtakröfur af þeim höfuðstól sem hollensku og bresku tryggingarsjóðirnir lýstu í búið og féllu til frá því að greitt var til innstæðueigenda í löndunum í desember 2008 og janúar 2009 fram til loka kröfulýsingarfrests. Í samningunum er jafnframt gert ráð fyrir því að ef úthlutun upp í kröfur tryggingarsjóðsins nemur hærra hlutfalli en 86% muni aðilar skipta með sér þeim fjármunum sem þannig eru til komnir. Í meginatriðum er kveðið á um að ef endurheimtur nema 87% þá fái viðsemjendur tryggingarsjóðsins 5% af andvirði vaxtakrafnanna; þegar endurheimtur nema 88% bætast önnur 5% við og svo koll af kolli allt þar til um fullar endurheimtur er að ræða en þá er gert ráð fyrir að viðsemjendur tryggingarsjóðsins hafi fengið vextina að fullu greidda. Skuldbinding um endurgreiðslu fellur niður ef endurheimtur verða 86% eða minni og hún takmarkast ávallt við þá hlutdeild sem að framan er lýst. Íslenska ríkið ber því ekki sérstaka ábyrgð á greiðslu krafna af þessum toga. Áhrif þessa samningsákvæðis á hina fjárhagslegu niðurstöðu og skuldbindingu ríkissjóðs liggja ekki fyrir fyrr en dómstólar hafa ákveðið vaxtahæð og endurheimtur eru ljósar.
    Raskist áætlanirnar verulega er gert ráð fyrir að endurgreiðslutíminn lengist um eitt ár fyrir hverja 10 milljarða kr. sem eftirstöðvarnar kunna að fara yfir 45 milljarða kr. Ef eftirstöðvar verða undir 45 milljörðum kr. skulu þær gerðar upp í jöfnum ársfjórðungslegum greiðslum á 12 mánuðum frá 1. júlí 2016. Eftir það er jafnframt sett þak á árlega endurgreiðslubyrði þannig að hún verði aldrei hærri en 5% af heildartekjum ríkisins næstliðið ár en komi til þess að það hlutfall jafngildi lægri fjárhæð en 1,3% af vergri landsframleiðslu næstliðins árs skal þó hámark endurgreiðslunnar miðast við það. Endurgreiðslu eftirstöðvanna skal þó aldrei lokið á lengri tíma en 30 árum frá 2016 að telja.
    Samið hefur verið um að vaxtakjör á eftirstöðvum frá þessu tímabili, þ.e. eftir 30. júní 2016, verði í samræmi við svonefnda CIRR-vexti (e. Commercial Interest Reference) en vextir þessir eru reiknaðir og birtir af OECD.
    Samkvæmt þessum samningum falla niður lánssamningar sem undirritaðir voru 5. júní og 19. október 2009.

Helstu breytingar frá fyrri samningum:
     1.      Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta endurgreiði breskum og hollenskum stjórnvöldum þær fjárhæðir sem þau hafa lagt út en fái í staðinn framseldan samsvarandi hluta krafna þeirra í bú bankans og annist um að innheimta þær.
     2.      Framsetning og form samninganna er annað en áður. Í stað hefðbundinna lánssamninga verða gerðir endurgreiðslu- og skaðleysissamningar. Samningarnir frá 2009 voru hefðbundnir lánssamningar milli Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem lántaka, Bretlands og Hollands sem lánveitenda og íslenska ríkisins sem ábyrgðaraðila. Ábyrgðarskuldbindingar stjórnvalda tóku þó ekki gildi fyrr en í júní 2016. Samningarnir frá 2010 eru hins vegar endurgreiðslu- og skaðleysissamningar milli sömu aðila. Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta fellst á að endurgreiða Hollandi og Bretlandi endurgreiðslufjárhæðina og stjórnvöld fallast á að halda Bretlandi og Hollandi skaðlausum vegna vangreiddra fjárhæða ef tryggingarsjóður stendur ekki í skilum með greiðslur á útistandandi fjárhæðum. Skaðleysisskuldbindingar Íslands taka gildi um leið og endurgreiðslu- og skaðleysissamningarnir taka gildi.
     3.      Að teknu tilliti til hins vaxtalausa tímabils eru reiknaðir jafnaðarvextir á tímabilinu 2009–2016 2,64% í stað 5,55% áður. Jafnframt er ábyrgð ríkisins takmörkuð eins og kostur er og í raun eingöngu bundin við samtímagreiðslur vaxta fram til júní 2016 og þann hluta sem ekki hefur verið innheimtur úr búi bankans að þeim tíma liðnum.
     4.      Vextir á höfuðstól skuldbindingarinnar eru greiddir jafnóðum og þeir falla til frá 2011 til miðs árs 2016.
     5.      Inn í núverandi samninga hefur verið sett hámark á endurgreiðslur íslenska ríkisins á endurgreiðslutímabili samninganna, annars vegar með því að tengja við hámark samtals 5% af tekjum ríkissjóðs miðað við árið áður eða hins vegar 1,3% af vergri landsframleiðslu. Með þessu er tryggður ákveðinn öryggisventill gagnvart ríkissjóði.
     6.      Dómslögsaga er ekki lengur í ríki eins samningsaðila heldur verður unnt að vísa úrlausn ágreinings til gerðardóms er starfar samkvæmt reglum Alþjóðagerðardómsins í Haag.
     7.      Icesave-samningarnir sem nú liggja fyrir fela í sér verulega endurbót bæði að því er varðar fjárhæðir sem koma til greiðslu og ýmsa aðra skilmála og eru ekki lengur skuldabréf með skilmálum eins og fyrri samningar sögðu til um.
     8.      Gjaldfellingar- og vanefndaúrræði eru mun sanngjarnari og eðlilegri og taka betur mið af hagsmunum beggja samningsaðila.

Um bókun skuldbindinga vegna Icesave-skuldbindingar í ríkisreikningi.
    Fjársýslustjóri, ríkisendurskoðandi og skrifstofustjóri fjárreiðu- og eignaskrifstofu í fjármálaráðuneyti sendu fjármálaráðherra minnisblað 29. október 2009 um meðferð Icesave- skuldbindingar í reiknishaldi ríkisins. Í minnisblaði Ríkisendurskoðunar til fjárlaganefndar frá 13. janúar 2011 kom eftirfarandi fram: ,,Þó svo að nýju samningarnir séu öðruvísi en eldri samningar er með frumvarpinu leitað eftir heimild til að samþykkja ábyrgð ríkisins á greiðslu afborgana og vaxta af samningunum og þar með taka á sig skuldbindingu sem henni fylgir. Aðferðafræðin sem greint var frá í minnisblaðinu frá 29. október 2009 er enn í fullu gildi.“
    Efnislega voru tillögurnar þannig:
     *      Í upphafi skal færa sem skuldbindingu þann hluta sem talið er að þrotabú Landsbankans geti ekki skilað upp í forgangskröfur. Nota skal mat slitastjórnar í lok reikningsárs.
     *      Árlega skal leiðrétta skuldbindinguna með tilvísun til breyttra gengisforsendna.
     *      Árlega skal gjaldfæra áfallna vexti.
     *      Það sem eftir stendur við lok úthlutunar úr þrotabúi Landsbankans (2016) leiðréttist með tilvísun til breyttra gengisforsendna.
     *      Allar færslur fari um fjárlagaliðinn 09-971 Ríkisábyrgðir og eftir atvikum sem skuld við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta.

Endurheimtur og úthlutun úr búinu.
    Skilanefnd Landsbanka Íslands hf. telur í skýrslu sinni til kröfuhafafundar bankans, sem var haldinn 9. nóvember sl., að miðað við stöðu eignasafns bankans 30. september 2010 muni úthlutun upp í forgangskröfur að heildarverðmæti um 1.319 milljarðar kr. nema um 1.138 milljörðum kr. eða um 86%. Fjárhæðir lýstra krafna í bú Landsbanka Íslands hf., þ.m.t. forgangskröfur Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, eru flestar miðaðar við gengi íslensku krónunnar hinn 22. apríl 2009 og áfallna vexti til þess dags. Áfallnir vextir eftir þann dag eru eftirstæðar kröfur og fylgja viðkomandi kröfu ekki í kröfuröð. Gert er ráð fyrir að hlutur tryggingarsjóðs sem forgangskröfuhafa sé ríflega 51% af forgangskröfum eða sem nemur um 584 milljörðum kr. Íslenski tryggingarsjóðurinn fengi þannig ríflega 51% af um 360 milljarða kr. sjóði Landsbankans miðað við síðastliðin áramót og um 400 milljarða kr. sjóði miðað við áætlaða stöðu um mitt þetta ár sem gengi samkvæmt framangreindu til að greiða niður höfuðstól endurgreiðslufjárhæðarinnar. Það þýddi að tæplega þriðjungur skuldbindingarinnar yrði greiddur um leið og þessi úthlutun færi fram. Áætlanir Landsbankans gera enn fremur ráð fyrir að alls hafi innheimst sem svarar til um helmingi endurheimtuvirðis eigna bankans fyrir árslok 2013, en þá yrði meginhluti óinnleystra eigna bankans fólginn í skuldabréfi og viðbótarskuldabréfi sem gefið yrði út af nýja Landsbankanum.
    Í kynningu Landsbanka Íslands hf. á áætluðu endurheimtuvirði eignasafns bankans kom fram að áhætta á endurheimtuvirði safnsins færi sífellt minnkandi eftir því sem endurheimtuvinnunni miðaði áfram. Bent var á að bankinn færi nú með fulla stjórn allra eigna, samningar við NBI hf. væru í höfn og greiðslur fyrir yfirfærðar eignir til NBI væru umsamdar. Þá væri reiðufé sífellt stærri hluti eignasafnsins og þáttur þess í hlutfalli af heildareignum mun stærri í árslok en áætlanir í ársbyrjun gerðu ráð fyrir. Með hliðsjón af framangreindu færi öryggi mats á áætluðum endurheimtum, sem ætíð væri varfærið, sífellt vaxandi og þáttur eigna með ótryggt endurheimtuvirði sífellt minnkandi.

Samningur eða dómstólaleið.
    Fjárlaganefnd fól fjórum lögmönnum, þeim Stefáni Má Stefánssyni, prófessor og fyrrverandi ad hoc dómara við EFTA-dómstólinn, Benedikt Bogasyni, dómstjóra og ad hoc dómara við EFTA-dómstólinn, Stefáni Geir Þórissyni, hrl. og fyrrverandi sérfræðingi hjá ESA, og Dóru Guðmundsdóttur, fyrrverandi aðstoðarmanni dómara við EFTA-dómstólinn og ad hoc dómara, að svara ákveðnum spurningum um lögfræðileg álitamál, einkum þau er varða kosti þess og galla að leiða Icesave-deiluna til lykta fyrir dómstólum. Skýrsla þeirra fylgir með áliti þessu.
    Allt frá haustinu 2008 hefur það verið markmið íslenskra stjórnvalda að semja um lausn Icesave-deilunnar jafnvel þótt lagaleg skuldbinding hafi ekki verið viðurkennd af Íslands hálfu. Við mat á því hvort samþykkja eigi það lagafrumvarp sem hér um ræðir er nauðsynlegt að meta áhættuna af því að ganga ekki til samninga og þá áhættu sem er í því fólgin að Ísland bíði lægri hlut í dómsmáli.
    Ljóst er að dómstólaleiðin tryggir rétta lögfræðilega niðurstöðu þó að vafi leiki á að hún tryggi hagstæðustu niðurstöðu fyrir Ísland. Skiptar skoðanir eru á því meðal lögfræðinga hver líkleg dómsniðurstaða yrði í málinu. Jafnvel þótt dómsmál vinnist er kostnaður í því fólginn að fara dómstólaleiðina og dragist dómsmálið á langinn mun óvissan ríkja lengur og tjónið aukast sem af óleystri deilunni hlýst. Málið gæti einnig tapast sem setti að öllum líkindum Ísland í verri samningsstöðu en nú er fyrir hendi og leiddi til óhagstæðari niðurstöðu. Þá verður einnig að hafa í huga að áfellisdómur gæti haft neikvæð áhrif á samskipti Íslands við aðrar þjóðir. Víst má telja að frestun lykta deilunnar hefði einnig áhrif á möguleika ríkissjóðs, sveitarfélaga og fyrirtækja til að sækja lánsfé á erlenda lánamarkaði. Jafnframt er hugsanlegt að ágreiningur um fullnustu af Íslands hálfu í kjölfar áfellisdóms í samningsbrotamáli gæti haft áhrif á EES-samninginn gagnvart Íslandi og öðrum EFTA-ríkjum.
    Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur þegar stofnað til samningsbrotamáls, studd af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, þar sem komist er að þeirri niðurstöðu að Íslandi sé skylt að ábyrgjast greiðslu rúmlega 20.000 evra til hvers innstæðueiganda. Leysist deilan með samningum mun ESA ekki aðhafast frekar í málinu, en verði ekki samið er líklegt að málinu verði fyrr en síðar vísað til EFTA-dómstólsins. Dómar EFTA-dómstólsins í samningsbrotamálum sem ESA höfðar eru bindandi fyrir íslenska ríkið og ríkisstjórnin er á grundvelli EES-samningsins skuldbundin til að hlíta niðurstöðu dómstólsins og bregðast við henni með viðeigandi hætti. Að öðrum kosti væri samstarfið innan EES í uppnámi.
    Ef óhagstæð niðurstaða fengist í dómsmáli gætu Bretar og Hollendingar væntanlega byggt kröfur sínar beint á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta eins og þau bæri að túlka í ljósi niðurstöðu EFTA-dómstólsins og krafist greiðslu úr hendi íslenska ríkisins og fylgt þeirri kröfu eftir fyrir íslenskum dómstólum. Einnig gætu þeir á grundvelli niðurstöðu EFTA-dómstólsins krafist skaðabóta úr hendi ríkisins á þjóðréttarlegum grundvelli.
    Það er álit meiri hlutans að með áfellisdómi væri samningsstaða Íslands alvarlega löskuð og að dómstólaleiðin sé ekki áhættunnar virði vegna óvissu um dómsniðurstöðuna sem gæti orðið verulega óhagstæðari fyrir land og þjóð en fyrirliggjandi samkomulag gerir ráð fyrir.

Réttarstaða Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
    Nefndinni hafa borist ábendingar um að í skýringu við b-lið (iii) í gr. 6.2. í fylgiskjali nr. III með frumvarpinu sé sagt að undanþáguákvæði frá jafnstöðu tryggingarsjóða landanna þriggja (pari passu) sé til komið „vegna óvissu um hvort íslenski tryggingarsjóðurinn njóti samkvæmt íslenskum lögum sérstaks forgangs (e. super priority)“. Meiri hlutinn lítur svo á að hér sé átt við íslenskan rétt í heild sinni, enda ljóst að samningarnir sjálfir miða að þessu leyti við íslensk lög í rýmri merkingu, þ.e. allar íslenskar réttarheimildir, og án takmörkunar við sett lög. Meiri hlutinn vill árétta þann skilning sinn að réttarstaða Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta við úthlutun úr búi Landsbankans byggist á íslenskum rétti og að samningarnir miða við að úthlutað sé úr búinu í samræmi við íslensk lög og þar með allar íslenskar réttarheimildir. Þetta geti skapað grundvöll undir dómsniðurstöðu sem yrði ráðandi við beitingu á samningsákvæðunum gr. 6.2. (b) (iii) í endurgreiðslusamningnum við Holland og tilsvarandi ákvæði í samningnum við Bretland. Í umfjöllun nefndarinnar hefur verið gengið út frá því að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta láti reyna á tilvist reglunnar fyrir íslenskum dómstólum og að á henni verði byggt við uppgjör samningsaðilanna svo fremi sem hún gengur ekki í berhögg við ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins. Þetta þýðir að endurkrafa tryggingarsjóðsins vegna fyrstu 20.887 evra innstæðu hvers reikningseiganda gangi framar við úthlutun en við það munu kröfur á hendur tryggingarsjóðnum greiðast á undan kröfum Breta og Hollendinga af eignum bankans. Í því tilviki ætti höfuðstóllinn að greiðast að fullu af eignum bankans á skemmri tíma með samsvarandi lækkun vaxtagreiðslna. Ef þetta yrði niðurstaðan yrði gengisáhættan hverfandi.
    Bent er á til samanburðar að þegar samið er um að ensk lög gildi um samningana að öðru leyti er að sjálfsögðu átt við breskan rétt í heild sinni en ekki aðeins sett lög þar í landi. Nefndinni barst jafnframt minnisblað frá Ragnari H. Hall hrl., Jóhannesi Karli Sveinssyni hrl. og Lárusi L. Blöndal hrl. til áréttingar á þessum skilningi og fylgir minnisblaðið með nefndaráliti þessu.

Icesave-samningarnir og gjaldeyrishöft.
    Á fundum fjárlaganefndar hafa tengsl samninga um Icesave og gjaldeyrishafta verið rædd. Þau sjónarmið komu fram hjá umsagnaraðilum að afnám gjaldeyrishafta gætu haft neikvæð áhrif. Í kjölfarið mundi íslenska krónan veikjast verulega sem aftur hefði þau áhrif að greiðslur vegna samninganna hækkuðu að sama skapi.
    Að mati Seðlabanka Íslands kemur einkum tvennt til álita er varðar áhættu af afnámi gjaldeyrishafta og samspil þess við Icesave-samningana:

     1.      Hugsanlegt tjón vegna gengisáhættu sem samningarnir fela í sér gæti aukist eftir því sem nafngengi krónunnar er lægra þegar kemur til útgreiðslna úr þrotabúi Landsbankans.
     2.      Afnám hafta gæti haft tímabundin áhrif til lækkunar á nafngengi krónunnar.
    Að mati Seðlabanka Íslands hafa þessi tvö atriði vakið upp tvær spurningar:
     1.      Er það forsenda þess að geta metið Icesave-samningana að vita hvernig losað verður um höftin?
     2.      Á að bíða með að losa um höftin þar til greitt hefur verið úr þrotabúi Landsbankans?
    Seðlabanki Íslands svarar báðum spurningunum neitandi og tekur meiri hlutinn undir þá skoðun Seðlabankans. Seðlabankinn bendir enn fremur á að gengisáhætta vegna samninganna hverfi ekki þótt dragist á langinn að staðfesta þá. Seðlabankinn telur einnig að afar ólíklegt sé að nafngengi krónunnar muni lækka verulega en ef það gerist þá verði það til skamms tíma. Mat Seðlabankans leiðir til þeirrar niðurstöðu að raungengið muni hækka er fram líða stundir og meiri líkur að losun hafta muni styrkja forsendur þess að krónan styrkist. Minnisblað Seðlabankans um Icesave-samningana og gjaldeyrishöft fylgir með nefndaráliti þessu.
    Komið hefur fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fjölda hagfræðinga sem gagnrýnt hafa gjaldeyrishöftin að líklegt sé að þau hafi í för með sér efnahagslegan kostnað sem verður því meiri sem þau vara lengur. Afnám þeirra muni því leiða til hærra jafnvægisraungengis til langs tíma litið.

Lánshæfismat og Icesave.
    Seðlabankinn hefur tekið saman minnisblað um umsagnir matsfyrirtækja um áhrif Icesave-málsins á lánshæfismat Íslands á árinu 2010. Þar kemur m.a. fram að viðhorf matsfyrirtækjanna til Icesave virðist almennt vera á þann veg að þau telja mikilvægt að samningum verði lokið, ella gæti það haft neikvæð áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs. Það er álit meiri hlutans að hagsmunir Íslands séu miklir þegar kemur að lánshæfismati og að samningar um Icesave-reikningana muni hafa jákvæð áhrif á mat fyrirtækjanna hvað það varðar og greiða um leið fyrir aðgangi að hagstæðum lánum fyrir Ísland og íslensk fyrirtæki.

Efnahagsleg áhrif.
    Fjárlaganefnd fól fjórum aðilum að kanna sérstaklega hugsanleg efnahagsleg áhrif þess ef frumvarpið verður að lögum. Þessir aðilar voru IFS-greining, GAM Management, Seðlabanki Íslands og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands. Hagfræðistofnun hafði ekki tök á að veita fjárlaganefnd umsögn um málið en aðrir skiluðu ítarlegu áliti á framangreindum þáttum. Hér á eftir eru helstu niðurstöður reifaðar. Það er álit meiri hlutans að þrátt fyrir þá áhættuþætti sem nefndir eru í greiningum séu samningarnir ásættanlegir.

IFS-greining.
    Að mati IFS-greiningar eru helstu efnahagslegu áhættuþættirnir þeir að gengi krónunnar haldist ekki stöðugt, að vöruskipti við útlönd verði neikvæð og að hagvöxtur og þar með atvinnusköpun aukist ekki á næstu árum. Í umsögn IFS-greiningar um frumvarpið er vakin athygli á þeirri óvissu sem ríkt hefur í efnahagsmálum þjóðarinnar. IFS-greining telur að þróun gengis íslensku krónunnar sé háð ákveðinni óvissu, m.a. vegna áforma um að aflétta gjaldeyrishöftum sem geti haft veruleg áhrif á greiðslur samkvæmt samningunum. Við mat á gengisáhættu bendir IFS-greining á að gengi íslensku krónunnar hafi styrkst að undanförnu sem er jákvætt fyrir samningana. Ef gengið veikist hins vegar til lengri tíma muni virði skuldbindinganna í íslenskum krónum aukast en þak er hins vegar á endurheimtum úr þrotabúi Landsbankans þannig að tryggingarsjóður mun ekki fá hærri upphæð til sín í krónum en 674 milljarða samkvæmt því sem samningarnir kveða á um. IFS-greining bendir einnig á að gengisáhætta samninganna nái ekki síður til breytinga á gengi breska pundsins en íslensku krónunnar ef ekki verður gripið til sérstakra aðgerða til að bregðast við því eins og segir í frumvarpinu að gert verði.
    Í umsögn sinni dregur IFS-greining upp nokkrar sviðsmyndir af hagvexti út frá spá Hagstofu Íslands og áhrifum þess á getu þjóðarinnar til að standa undir erlendum skuldbindingum. Niðurstaða IFS-greiningar er sú að þeir samningar sem frumvarpið fjallar um séu mun hagstæðari en fyrri samningar og að ekki muni reyna á efnahagslega fyrirvara þeirra nema veruleg breyting verði til hins verra í efnahagsmálum þjóðarinnar. Nýju samningarnir breyti ekki greiðsluhæfi ríkissjóðs að neinu marki, nema þá helst til batnaðar í gegnum óbein áhrif, svo sem betra lánshæfismat.

GAM Management.
    Eins og aðrir umsagnaraðilar dregur GAM Management upp ólíkar myndir af þróun efnahagsmála, m.a. út frá þróun gengis, vöruskiptum við útlönd, heimtum í þrotabú Landsbankans og þróun vaxta og vaxtar landsframleiðslu. Helstu áhættuþættir vegna málsins að mati fyrirtækisins eru gengi íslensku krónunnar, þróun vaxta og heimtur í þrotabú Landsbanka Íslands. Einnig er vísað til þess í umsögninni að ekkert liggi enn fyrir um endanlega upphæð forgangskrafna í bú Landsbanka Íslands sem geti skipt miklu um heildarkostnað vegna málsins og því sé greining fyrirtækisins á samkomulaginu háð þeim fyrirvara. Fyrirtækið segir í umsögn sinni að Ísland þurfi að verða fyrir töluverðum skakkaföllum til viðbótar því sem þegar hefur gerst til að greiðslubyrði af Icesave-samkomulaginu verði íslenska ríkinu ofviða miðað við þær sviðsmyndir sem dregnar eru upp í umsögninni. Bent er á að greiðsluhæfi landsins hafi verið tryggt til skemmri tíma en til lengri tíma sé nauðsynlegt að afla erlends lausafjár með afgangi af utanríkisviðskiptum.
    GAM Management segir í umsögn sinni að þó svo að greiðslubyrði Icesave-samkomulagsins sé nokkuð ljós til skemmri tíma þar sem eingöngu er um vaxtagreiðslur að ræða geti hún þróast til verri vegar ef gengi og heimtur í búið verði okkur óhagstætt. Af þeim sökum sé mikilvægt að horfa til lengri tíma varðandi hagvöxt og endurreisn efnahags- og atvinnulífs landsins. Greiðslur íslenska ríkisins vegna Icesave-samkomulagsins eru ekki það miklar að mati fyrirtækisins að þær raski hinu stóra samhengi og skuldaþoli í ríkisfjármálum landsins.

Seðlabanki Íslands.
    Seðlabankinn, líkt og aðrir umsagnaraðilar, telur þrennt heyra til helstu áhættuþátta vegna samninganna, þ.e. þróun gengis, heimtur úr búi Landsbankans og þróun vaxta. Að mati bankans hefur styrking krónunnar tiltölulega lítil áhrif á núvirði greiðslna vegna samkomulagsins en gengislækkun umfram 10% hafi hins vegar veruleg áhrif. Seðlabankinn telur aftur á móti líklegra að raungengi íslensku krónunnar muni styrkjast á næstu árum en veikjast og að þar ráði mestu um góð efnahagsstjórn og lág verðbólga. Gengi krónunnar er nú vel undir meðalgengi fyrri ára þó svo að krónan hafi styrkst á undanförnum missirum.
    Vegna samsetningar eigna í þrotabúi Landsbankans gætu innbyrðis breytingar á gjaldmiðlum haft töluverð áhrif á greiðslur vegna samkomulagsins. Þar ræður miklu um hver verðbólga í Bretlandi og Hollandi verður en allar spár benda til þess að lítil hætta sé á að krossgengi evru og punds verði á næstu árum sem rekja mætti til verulegrar verðbólgu í löndunum tveimur. Seðlabanki Íslands vill bregðast við þeirri hættu sem af þessu kann að stafa, m.a. með því að haga samsetningu skulda og erlendum lántökum ríkissjóðs með þeim hætti að dregið verði eins og mögulegt er úr gengisáhættu ríkissjóðs.
    Að mati Seðlabanka Íslands er ljóst að nýir Icesave-samningar eru töluvert hagstæðari en fyrri samningar. Núvirði skuldbindingar íslenska ríkisins vegna samkomulagsins er að mati bankans um 69 milljarðar kr. eða sem nemur 4,3% af áætlaðri landsframleiðslu ársins 2010. Þrátt fyrir að hér sé um miklar fjárhæðir að ræða og óvissa nokkur um framtíðina er það mat bankans að væntanlega muni margt vinnast með samkomulaginu, ekki síst bætt aðgengi að alþjóðlegum fjármálamarkaði og hraðari endurreisn atvinnulífsins. Að því viðbættu að niðurstaða EFTA-dómstólsins í hugsanlegum málaferlum vegna Icesave-deilunnar gæti orðið Íslandi í óhag telur Seðlabanki Íslands sterk rök hníga til þess að leysa beri deiluna um uppgjör Icesave-reikninga Landsbanka Íslands með þeim hætti sem nú er lagt til að gert verði.

Greiðsla til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.
    Á fundum fjárlaganefndar var rætt um að eðlilegt gæti talist að fjármálafyrirtæki bæru allan þann kostnað sem af samningunum kynni að hljótast. Í því sambandi vísaði fjárlaganefnd því til viðskiptanefndar og efnahags- og skattanefndar að þær tækju til skoðunar hvort og þá hvernig því verði við komið að íslensk fjármálafyrirtæki beri þann kostnað sem annars hefði fallið á ríkissjóð vegna málsins. Munu nefndirnar kanna þetta sérstaklega, m.a. í tengslum við umfjöllun um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, sbr. þingskjal 268, 237. mál. Það er álit meiri hlutans að þessari skoðun þurfi ekki að vera lokið áður en frumvarpið sem hér er til umræðu verður að lögum þar sem um er að ræða mál sem ekki snertir samskipti við Breta og Hollendinga eða efni frumvarpsins að öðru leyti.

Breytingartillaga.
    Ekki var gert ráð fyrir áhrifum af þessum samningum í fjárreiðum ríkisins í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2011 enda hefur Alþingi á þessu stigi ekki afgreitt frumvarp til laga um staðfestingu samninganna sem hér eru til umfjöllunar. Verði frumvarpið lögfest er því talið nauðsynlegt að í því verði veitt sérstök heimild frá Alþingi vegna þessara greiðslna á árinu 2011 þar sem fjáraukalög ársins eru alla jafna ekki afgreidd fyrr en í desember. Í fjárlögum áranna 2012–2016 þyrfti síðan að gera ráð fyrir framlögum til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna þessara skuldbindinga. Talið er heppilegasta fyrirkomulagið að þessarar heimildar vegna greiðslna á árinu 2011 verði aflað með sérstöku ákvæði í þessu frumvarpi til staðfestingar á samningunum sem hér eru til umfjöllunar en það verði síðan staðfest með fjárheimild í fjáraukalögum ársins. Í þessu sambandi er einnig vakin athygli á grein 7.1 í 6. gr. fjárlaga fyrir árið 2011, um heimildir fjármálaráðherra, sem er svohljóðandi: „Að breyta fjárhæðum tekju- og gjaldahliðar ef lög verða staðfest frá Alþingi árið 2011 sem hafa í för með sér tekjur eða gjöld fyrir ríkissjóð. Allar fjárveitingar, sem eigi eru ákveðnar í lögum, öðrum en fjárlögum, forsetaúrskurðum eða öðrum gildandi ákvörðunum, gildi aðeins fyrir fjárhagstímabilið.“

    Meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Fjármálaráðherra er fyrir hönd ríkissjóðs heimilt að inna af hendi greiðslur úr ríkissjóði til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á árinu 2011, allt að 26,1 milljarði kr., vegna vaxtagjalda af skuldbindingum sem kveðið er á um í samningunum fyrir árin 2009 til 2011 og vegna endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta á kostnaði við greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og verði samsvarandi heimild í fjáraukalögum fyrir árið 2011.

Alþingi, 26. jan. 2011.



Oddný G. Harðardóttir,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason.


Árni Þór Sigurðsson.



Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Þuríður Backman.


Björgvin G. Sigurðsson.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal I.


Álitsgerð um drög að samkomulagi um svonefnda Icesave-reikninga
í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.

(7. janúar 2011.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal II.


Ábending til fjárlaganefndar Alþingis.
(Reykjavík, 20. janúar 2011.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Fylgiskjal III.


Minnisblað um Icesave-samninginn og gjaldeyrishöft.
(Seðlabanki Íslands, 21. janúar 2011.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.