Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 405. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 832  —  405. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögreglulögum, nr. 90/1996, með síðari breytingum (afnám launagreiðslna lögreglunema í grunnnámi).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ögmund Jónasson innanríkisráðherra, Ragnhildi Hjaltadóttur, Þórunni Hafstein og Bryndísi Helgadóttur frá innanríkisráðuneyti, Arnar Guðmundsson frá Lögregluskóla ríkisins, Snorra Magnússon og Steinar Adolfsson frá Landssambandi lögreglumanna og Hlöðver Bergmundsson og Guðrúnu Agnarsdóttur frá Lánasjóði íslenskra námsmanna.
    Umsagnir um frumvarpið bárust frá Landssambandi lögreglumanna, Lánasjóði íslenskra námsmanna, Lögregluskóla ríkisins og ríkislögreglustjóranum. Þá lagði Mörður Árnason, nefndarmaður, fram tíu spurningar til umsagnaraðila og innanríkisráðuneytis og var þeim svarað skriflega.
    Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á launagreiðslum lögreglunema í grunnnámi sem er þrjár annir eða tólf mánuðir í heild. Lagt er til að fjórir mánuðir skuli vera launað starfsnám í stað tveggja anna, þ.e. átta mánaða, og að nemendur geti þess í stað sótt um námslán hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna fyrir átta mánuði í stað einnar annar, fjögurra mánaða.
    Nefndin fjallaði á fundum sínum um fjölmörg atriði frumvarpsins, m.a. tildrög þess að nefndarmenn í allsherjarnefnd fluttu málið í desember sl. en það var hluti af frumvarpi dómsmála- og mannréttindaráðherra sem lagt var fram á síðasta löggjafarþingi. Þar voru lagðar til skipulagsbreytingar hjá lögreglu og einnig breyting á ákvæðum um greiðslur til lögreglunema í starfsnámi. Frumvarpið varð ekki útrætt á því þingi.
    Fyrir nefndinni kom fram að lögregluskólinn hefur ekki tekið til starfa á þessu ári þar sem talið er nauðsynlegt, m.a. vegan kjarasamninga, að það liggi ljóst fyrir gagnvart nemendum hvernig náminu verði hagað, þar á meðal hvort breytingar verða gerðar á launagreiðslum til þeirra í grunnnámi. Einnig kom fram að breytingin sem lögð er til í frumvarpinu er forsenda þess að unnt sé að taka nýja nemendur inn í skólann vegna þeirra niðurskurðarkrafna sem gerðar eru til skólans en ekki er gert ráð fyrir því í rekstraráætlunum skólans að lokaönnin verði launuð. Þá var einnig bent á erfiða rekstrarstöðu lögregluembætta sem hafa ekki fengið fjármuni til að greiða nemendum í starfsnámi laun fyrir lokaönnina.
    Fyrir nefndinni kom fram að fyrirkomulagið hefur verið þannig að á lokaönn hafa nemendur fengið greitt samkvæmt kjarasamningum það vaktaálag sem nemur meðaltali þess vaktaálags sem allur nemendahópurinn hefur fengið greitt á starfsnámsönninni. Það fyrirkomulag væri mjög óhentugt fyrir skólann sem kemur ekki að því að ákveða umfang vaktavinnu lögreglunemanna í starfsnáminu heldur er það ákveðið innan viðkomandi lögregluembætta. Verði frumvarpið að lögum verður sparnaður skólans við að lokaönnin er ólaunuð um 28–30 millj. kr. vegna allra nemendanna, sem eru um 20 talsins. Fyrirkomulagið vegna þess hluta sem verður launaður verður þannig að lögregluskólinn greiðir mánaðarlaun nemanna en lögreglustjóraembættin önnur lögbundin kjör, svo sem vegna yfirvinnu og álags þegar það á við um vinnutímann (vaktaálag). Telur nefndin þá tilhögun eðlilega og tekur nefndin undir sjónarmið Landssambands lögreglumanna um að hinn faglegi þáttur starfsnámsins verði betur tryggður og skipting ábyrgðar skólans og embættanna mun sanngjarnari.
    Nefndin fjallaði um áhrif breytinganna á Lánasjóð íslenskra námsmanna og líklegan útgjaldaauka en fram kom að viðbótarkostnaður vegna 20 nemenda í námi í eina önn rúmaðist innan fjárlaga til sjóðsins fyrir skólaárið 2010–2011 og að ólaunaði hluti námsins sé lánshæfur samkvæmt heimild í úthlutunarreglum sjóðsins.
    Nefndin fjallaði einnig um skipulag lögreglunámsins og hvernig þeir nemendur sem hefðu lokið öðrum hluta námsins, þ.e. launaða starfsnáminu, kæmu út úr tekjureglum Lánasjóðsins. Kom fram að þar sem hinn launaði hluti námsins er önnur önn hefðu starfslaunin í þeim hluta áhrif á lánsrétt í þriðja hluta samkvæmt reglum sjóðsins.
    Samkvæmt 29. gr. lögreglulaga skulu allir lögreglumenn sem eru skipaðir eða ráðnir til starfa vinna heit þegar þeir hefja störf. Samkvæmt upplýsingum frá lögregluskólanum er hefð fyrir því að áður en lögreglunemar hefja starfsnám vinni þeir heitið með formlegri athöfn í Lögregluskólanum. Lögreglunemar fara með lögregluvald skv. 8. tölul. 9. gr. lögreglulaga, sbr. einnig 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 1051/2006, þegar þeir gegna almennum löggæslustörfum í starfsnámi undir stjórn lögreglumanna. Fyrir nefndinni kom fram að ekki verður unnt að kalla menn inn til vinnu á þriðja hluta námsins eftir þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu.
    Fyrir nefndinni komu fram þau sjónarmið hjá Landssambandi lögreglumanna að fagleg rök séu að baki þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu. Miklar kröfur séu gerðar til starfa lögreglu og því mikilvægt að efla lögreglunámið enn frekar og að færa það á æðra skólastig (háskólastig). Óhjákvæmilegur liður í þeirri vegferð sé að bóknámið verði ólaunað líkt og gildir um allt annað nám, hvort sem um er að ræða nám á akademísku háskólastigi eða nám á fagháskólastigi. Þá verði með breytingunum unnt að auka sveigjanleika til breytinga í náminu og tekur nefndin undir að það er til bóta.
    Nefndin telur mikilvægt að grunnnámsdeild Lögregluskólans verði rekin þrátt fyrir lækkaðar fjárveitingar þar sem nauðsynlegt er að viðhalda skólanum og þeirri þekkingu sem þar er, sem og að fjölga menntuðum lögreglumönnum. Nefndin telur breytingarnar eðlilegar í ljósi þeirrar þróunar sem þarf að eiga sér stað við að styrkja skólann faglega og efla námið enn frekar.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Alþingi, 14. febr. 2011.



Róbert Marshall,


form., frsm.


Atli Gíslason.


Mörður Árnason,


með fyrirvara.



Birgir Ármannsson.


Valgerður Bjarnadóttir.


Vigdís Hauksdóttir.



Álfheiður Ingadóttir.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Þráinn Bertelsson.