Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 190. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 927  —  190. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 41/2007, um landlækni, með síðari breytingum, og um brottfall laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð, vegna stofnunar nýs embættis landlæknis og lýðheilsu.

Frá meiri hluta heilbrigðisnefndar.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðmund Einarsson, Guðríði Þorsteinsdóttur, Áslaugu Einarsdóttur og Unu Björk Ómarsdóttur frá velferðarráðuneyti, Geir Gunnlaugsson landlækni og Harald Briem staðgengil landlæknis, Margréti Björnsdóttur, forstjóra Lýðheilsustöðvar, Stefán Aðalsteinsson frá Bandalagi háskólamanna, Sæmund Runólfsson frá áfengis- og vímuvarnaráði, Ingu B. Árnadóttur frá tannverndarráði, Kristin Tómasson frá slysavarnaráði, Guðlaugu B. Guðjónsdóttur frá tóbaksvarnaráði og Ingu Þórsdóttur frá manneldisráði.
    Þá bárust umsagnir frá Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, tóbaksvarnaráði, Mannréttindaskrifstofu Íslands, Tryggingastofnun, svæðisskrifstofum málefna fatlaðra á Vestfjörðum og Suðurlandi, Kvenfélagasambandi Íslands, Samtökum skólamanna um bindindisfræðslu, Lýðheilsustöð, landlækni, Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Samtökum fjármálafyrirtækja, Hjartavernd, Félagi um lýðheilsu, Prestafélagi Íslands, Brautinni – bindindisfélagi ökumanna, Bandalagi íslenskra skáta, sóttvarnalækni, Félagi lýðheilsufræðinga, áfengis- og vímuvarnaráði, manneldisráði, Lyfjastofnun, Hagstofu Íslands, Læknafélagi Íslands, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, Bandalagi háskólamanna og Samstarfsráði um forvarnir.
    Frumvarpinu er ætlað að sameina Lýðheilsustöð og landlæknisembættið í eitt embætti, embætti landlæknis og lýðheilsu, sem ætlað er að vinna að eflingu lýðheilsu og tryggja gæði heilbrigðisþjónustu. Meginmarkmið með sameiningu þessara tveggja stofnana er að starfrækja eitt öflugt embætti á sviði lýðheilsu- og heilbrigðismála. Vonast er til þess að sameining þessara stofnana skapi tækifæri til að styrkja og efla starf þeirra enn frekar en nú er.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að frumvarpið hafi verið unnið í nánu og góðu samstarfi við starfsmenn landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar, hlutverk stofnananna falli vel saman og samlegðaráhrif sameiningarinnar séu margvísleg. Nýja embættið muni taka við öllum verkefnum sem landlækni og Lýðheilsustöð er falið að sinna samkvæmt gildandi löggjöf og það muni því sinna leyfisveitingum, sóttvörnum, ráðgjöf, eftirliti, upplýsingaöflun, gæðamálum, skýrslugerð, forvörnum, heilsueflingu og lýðheilsu. Sameinuðu embætti er þannig ætlað að standa vörð um heilbrigði og velferð þjóðarinnar. Við umfjöllun nefndarinnar fengu nokkur álitamál mesta umfjöllun. Þar var um að ræða nýtt heiti embættisins, fagráðin, hinn nýja lýðheilsusjóð sem áður var Forvarnasjóður og þá leið sem valin var þegar ákvörðun um sameiningu var tekin.
    Nefndin fjallaði mikið um nafn nýja embættisins. Að mati meiri hlutans er ljóst að nafnið embætti landlæknis og lýðheilsu gengur ekki upp, hvorki málfarslega né lagalega. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að mikil áhersla hefur verið lögð á að halda orðinu lýðheilsa inni í nafni embættisins. Eftir að hafa farið ítarlega yfir málið var ljóst að ekki væri hægt að koma til móts við þær óskir af málfarslegum ástæðum. Meiri hlutinn leggur því til breytingar á skipulagi embættisins þannig að um verði að ræða stofnun sem landlæknir veitir forstöðu. Leggur meiri hlutinn til að stofnunin heiti Landlæknir – lýðheilsa og forstöðumaður hennar verði landlæknir en lögin beri heitið lög um landlækni og lýðheilsu. Jafnframt leggur meiri hlutinn til breytingar á frumvarpinu þannig að lögin verði felld inn í lög um landlækni, nr. 41/2007, og endurútgefin með nýja lagaheitinu. Bendir meiri hlutinn jafnframt á að í 4. gr. frumvarpsins er ljóst að meginhlutverk nýju stofnunarinnar verður m.a. að annast forvarna- og heilsueflingarverkefni, að efla lýðheilsustarf í samvinnu við aðra sem að þeim málum starfa og styðja við menntun á sviði lýðheilsu. Er það skilningur meiri hlutans að lýðheilsuþátturinn muni skipa það stórt hlutverk hjá embætti landlæknis eftir sameininguna, að hann komi fram í daglegri umfjöllun.
    Að mati meiri hlutans er ljóst að fagráð þau sem starfað hafa við Lýðheilsustöð, allt frá stofnun hennar 2003, hafa gegnt mikilvægu hlutverki í forvarnastarfi stofnunarinnar. Samkvæmt gildandi lögum um Lýðheilsustöð, nr. 18/2003, gegna fagráðin hlutverki sérfræðiráða og skylt er að skipa þau. Í a-lið 6. gr. frumvarpsins er hins vegar gert ráð fyrir að landlækni sé heimilt að setja á fót fagráð á einstökum verksviðum embættisins. Telur meiri hlutinn nauðsynlegt að tekið verði fram í lögunum að landlæknir skuli skipa fagráð og leggur til breytingar um það. Jafnframt kom fram við umfjöllun nefndarinnar að mikilvægt væri að tryggja áfram starfsemi þeirra fagráða sem nú þegar eru starfandi við Lýðheilsustöð og tekur meiri hlutinn undir þau sjónarmið. Með þeirri breytingu sem verður við sameiningu stofnananna er ástæða til að ætla að ný fagráð verði mynduð og þau taki breytingum eftir því sem heilsufar þjóðarinnar þarfnast og áherslur liggja í lýðheilsustarfi á hverjum tíma. Það er skoðun meiri hlutans að nauðsynlegt sé fyrir nýju stofnunina að halda tengingu við frjáls félagasamtök í forvarnastarfi og þeirri sérþekkingu sem þar er að finna og nýta krafta þeirra til markviss forvarnastarfs. Með þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til er tryggt að sú tenging haldist við nýju stofnunina. Við umfjöllun nefndarinnar komu fram þau sjónarmið að nauðsynlegt væri að setja reglugerð um skipan fagráða. Að mati meiri hlutans getur slík reglugerð verið þung í vöfum og jafnvel komið í veg fyrir að fagráðin taki breytingum eftir áherslum í heilbrigðisþjónustu og í samfélaginu. Meiri hlutinn leggur hins vegar til að reglur um skipan fagráða verði send ráðherra til staðfestingar, til að tryggja enn frekar að staðið verði faglega að skipaninni.
    Nefndin fjallaði um hinn nýja lýðheilsusjóð skv. b-lið 6. gr. frumvarpsins. Í máli fulltrúa fagráðanna kom m.a. fram að meta þyrfti hvernig best væri að standa að úthlutun fjármuna úr sjóðnum í forvarnastarf. Að mati meiri hlutans er heppilegast að stjórn sjóðsins verði skipuð fjórum fulltrúum sem tilnefndir verði af fagráðum, tveimur fulltrúum embættisins og formanni sem skipaður verði af ráðherra. Jafnframt leggur meiri hlutinn til breytingar á því hvernig staðið verði að úthlutun þannig að í reglugerð ráðherra verði sett ákveðin viðmið vegna starfseminnar og úthlutunar styrkja til mismunandi málaflokka, svo sem forvarnastarfs, lýðheilsustarfs og rekstrar, en við umfjöllun nefndarinnar kom í ljós að hluti af upphæð Forvarnasjóðsins hafi verið notaður í rekstur Lýðheilsustöðvar. Því er nauðsynlegt að skýrar reglur liggi fyrir, bæði um hvernig stjórn sjóðsins verði skipuð og hvernig staðið verði að úthlutun. Meiri hlutinn telur jafnframt að með þeim breytingum sem hann leggur til verði tryggt að fjölbreytt sjónarmið og/eða fulltrúar frjálsra félagasamtaka, þar sem það á við, geti komið að starfsemi sjóðsins eins og mikilvægt er í forvarnastarfi.
    Nefndin ræddi einnig fjármögnun sjóðsins, en fyrirhugað er að sá hluti af áfengisgjaldi sem áður rann til Forvarnasjóðs renni til lýðheilsusjóðs og einnig hlutfall af brúttósölu tóbaks. Meiri hlutinn telur að með setningu reglugerðar um starfsemi og úthlutun úr lýðheilsusjóði sé horft til tekjustofna sjóðsins og tryggt að drýgstum hluta hans verði úthlutað til forvarna- og lýðheilsustarfs á viðkomandi sviði. Að mati meiri hlutans er einnig nauðsynlegt að leita fleiri tekjustofna til að fjármagna sjóðinn, en meðal annars komu upp hugmyndir um að lagt yrði sérstakt „tappagjald“ á gosdrykkjarflöskur og það mundi renna óskert í sjóðinn til úthlutunar. Tappagjald af gosflöskum eða gjald af sætum drykkjum gæti nýst vel til forvarna í tannverndar- og manneldismálum eða lýðheilsustarfi á þessum mikilvægu sviðum heilsueflingar á komandi árum. Meiri hlutinn bendir einnig á að mikilvægt er að tryggja frekari framlög til sjóðsins ef hann á að fá frekari verkefni í framtíðinni en á sama tíma er nauðsynlegt að slík framlög verði sérmerkt úthlutun.
    Í umsögn sóttvarnalæknis komu fram athugasemdir um að í 10. gr. frumvarpsins væri kveðið á um að öll störf hjá landlæknisembættinu og Lýðheilsustöð verði lögð niður 1. janúar 2011. Starfsmönnum landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar skuli boðið starf hjá hinu nýja embætti frá og með sama tíma. Ef engin breyting sé gerð á sóttvarnalögum og starfsemi sóttvarnalæknis samkvæmt frumvarpinu sé nokkuð sérstakt að leggja starf hans niður. Meiri hlutinn telur að um misskilning sé að ræða. Ekki hafi staðið til að gera neinar breytingar á lögum um sóttvarnir né stöðu sóttvarnalæknis hjá landlæknisembættinu. Sóttvarnalæknir haldi því sömu stöðu hjá nýju stofnuninni og engar breytingar séu gerðar á erindisbréfi hans. Meiri hlutinn telur hins vegar rétt að staða sóttvarnalæknis innan stjórnkerfisins verði tryggð með skýrari hætti en með erindisbréfi.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom í ljós að skýra þarf frekar flutning dánarmeinaskrár og hvernig lögum um dánarvottorð er háttað. Samkvæmt 10. gr. laga um dánarvottorð, krufningar o.fl., nr. 61/1998, sendir sýslumaður Hagstofu Íslands dánarvottorð. Í raun hefur það verið svo að Þjóðskrá Íslands hefur áframsent dánarvottorð til Hagstofu Íslands sem lögum samkvæmt er ábyrgðaraðili að almannaskráningu. Með þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu er komið í veg fyrir að Þjóðskrá Íslands fái dánarvottorð send, en almannaskráning byggist m.a. á tilkynningum um mannslát. Meiri hlutinn leggur til breytingar á 17. gr. frumvarpsins til að tryggja að Þjóðskrá Íslands geti áfram sinnt því lögbundna hlutverki sem hún hefur.
    Að mati meiri hlutans er flutningur dánarmeinaskrár til nýrrar stofnunar, Landlæknis – lýðheilsu, mjög tímabær og þarfur og tekur meiri hlutinn undir athugasemdir umsagnaraðila um að enginn eðlislægur munur sé á þeirri skrá og öðrum sem landlæknir heldur. Meiri hlutinn telur ríka ástæðu til að halda skrár á landsvísu með upplýsingum sem verða til á ýmsum sviðum heilbrigðisþjónustunnar og eru mjög verðmætar sem rannsókna- og matstæki. Með því að efla og fjölga þeim skráningum sem nýrri stofnun er falið að hafa umsjón með er unnt að afla nýrrar þekkingar sem mögulega getur nýst sjúklingum og haft mikið forvarnagildi. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að haldið verði áfram ítarskráningu dánarmeina eins og verið hefur um langan tíma. Telur meiri hlutinn eðlilegt að dánarmeinaskrá flytjist til nýju stofnunarinnar en leggur jafnframt áherslu á að Hagstofa Íslands geti óskað eftir gögnum til opinberrar hagskýrslugerðar um dánarmein og andvana fædd börn og telur meiri hlutinn mikilvægt að stofnanirnar komi sér saman um skilvirka verkferla hvað það varðar. Við umræðu í nefndinni kom skýrt fram að tímabært sé að endurskoða lög um dánarvottorð, meðal annars með tilliti til þess fyrirkomulags sem er á skráningu andláts.
    Meiri hlutinn leggur einnig til að breytingar verði gerðar á frumvarpinu í þá átt að Landlækni – lýðheilsu verði heimilt að taka til varðveislu gagnasöfn um sjúkdóma sem stofnað var til fyrir setningu tölvulaga. Til að mynda getur verið um að ræða gagnasöfn sem einstakir heilbrigðisstarfsmenn hafa byggt upp á liðnum áratugum, fyrir setningu tölvulaga. Þessi gagnasöfn eru sum hver ekki í virkri notkun en gætu nýst áfram til rannsókna síðar meir. Meiri hlutinn leggur hins vegar áherslu á að meðferð allra upplýsinga úr slíkum skrám verði með heimild Persónuverndar og Vísindasiðanefndar.
    Við umfjöllun nefndarinnar var gagnrýnt að ekki hefði farið fram kostnaðargreining um mögulega hagræðingu af sameiningu landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar var ekki eingöngu horft á mögulegan sparnað af sameiningunni, heldur frekar að sameiningin mundi styrkja starf beggja stofnana og nýja embættið væri betur í stakk búið til að mæta hugsanlegum sparnaðarkröfum í framtíðinni. Samkvæmt upplýsingum frá velferðarráðuneytinu er gert ráð fyrir eðlilegri hagræðingarkröfu á nýju stofnunina og að rekstur hennar verði innan fjárheimilda.
    Í umsögn var þeirri skoðun komið á framfæri að ef til vill væri eðlilegt að fresta sameiningu landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar og horfa til stærri sameiningar, t.d. sameiningar landlæknisembættisins, Lýðheilsustöðvar, Lyfjastofnunar, lyfjagreiðslunefndar, vísindasiðanefndar, Geislavarna og jafnvel Heyrnar- og talmeinastöðvar. Meiri hlutanum var kunnugt um að umræða um víðtækari sameiningu stofnana og nefnda en hér er lögð til hefur farið fram og telur mikilvægt að henni verði haldið áfram út frá faglegum og rekstrarlegum forsendum og bendir á að skýrslur hafi verið unnar um hugmyndir um frekari sameiningar. Meiri hlutinn telur hins vegar að sameining landlæknisembættisins og Lýðheilsustöðvar sé mikilvægt fyrsta skref í frekara sameiningarferli. Nauðsynlegt sé hins vegar að meta stöðu nýja embættisins innan þriggja ára frá sameiningu, hverju sameiningin hafi áorkað, hvað hefði mátt betur fara og hvort hugsanlega sé hægt að ráðast í enn frekari sameiningar á sviðinu með það að markmiði að efla stofnunina enn frekar. Meiri hlutinn vill beina sjónum að samsvarandi stofnunum annars staðar á Norðurlöndunum í þeirri vinnu.
    Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 24. febr. 2011.



Þuriður Backman,


form., frsm.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Skúli Helgason.



Siv Friðleifsdóttir,


með fyrirvara.


Ólafur Þór Gunnarsson.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.