Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 557. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 945  —  557. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010.

Flm.: Atli Gíslason, Mörður Árnason, Birgir Ármannsson, Valgerður Bjarnadóttir, Álfheiður Ingadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Árni Þór Sigurðsson.



1. gr.

    Orðin „sveitarstjórna eða“ í 3. mgr. 4. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 9. gr. laganna:
     a.      1. mgr. orðast svo:
                  Að þjóðaratkvæðagreiðslu lokinni senda undirkjörstjórnir oddvita yfirkjörstjórnar tafarlaust atkvæðakassana, ónotaða og ónýtta kjörseðla sem og utankjörfundaratkvæði sem ekki skulu tekin til greina, sbr. e–h-lið 1. mgr. 91. gr. laga um kosningar til Alþingis, auk nauðsynlegra kjörgagna. Skulu yfirkjörstjórnir senda gögnin til landskjörstjórnar í þeim umbúðum sem mælt er fyrir um í lögum um kosningar til Alþingis.
     b.      Lokamálsliður 2. mgr. fellur brott.
     c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Landskjörstjórn úrskurðar um gildi atkvæða sem eru haldin einhverjum annmörkum og utankjörfundaratkvæði sem ekki voru tekin til greina, sbr. e–h-lið 1. mgr. 91. gr. laga um kosningar til Alþingis, og skal afl atkvæða ráða úrslitum.

3. gr.

    1. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Að lokinni talningu atkvæða lýsir landskjörstjórn úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslunnar og tilkynnir ráðuneytinu þar um.

4. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Til þess að spurning eða tillaga sem er borin upp í þjóðaratkvæðagreiðslu teljist samþykkt þarf hún að hafa hlotið meiri hluta gildra atkvæða í atkvæðagreiðslunni.

5. gr.

    Síðari málsliður 3. mgr. 13. gr. laganna orðast svo: Séu slíkir verulegir ágallar á framkvæmd atkvæðagreiðslunnar getur Hæstiréttur ákveðið að hún fari aftur fram.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.



Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nauðsynlegar lagfæringar á lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna sem tengjast auknu hlutverki landskjörstjórnar við framkvæmd þeirra samanborið við hlutverk hennar við alþingiskosningar. Samkvæmt lögunum er gert ráð fyrir að talning atkvæða fari fram á einum stað og hefur landskjörstjórn það hlutverk með höndum. Hlutverk yfirkjörstjórna eins og það er við alþingiskosningar færist því að mestu leyti yfir til landskjörstjórnar samkvæmt lögunum.
    Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 3. mgr. 4. gr. laganna um að ekki verði unnt að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða kosningum til sveitarstjórna. Er þessi breyting lögð til þar sem kjörskrárgerð er ekki með sama hætti við þessar tvennar kosningar. Ákvæði laga um kosningarrétt við þjóðaratkvæðagreiðslu eru hliðstæð ákvæðum laga um kosningar til Alþingis og kjör forseta Íslands en ólík ákvæðum laga um kosningarrétt til sveitarstjórna.
    Í 2. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 9. gr. laganna til að kveða með skýrari hætti á um verksvið landskjörstjórnar og yfirkjörstjórna við atkvæðagreiðsluna. Ákvæði laganna gera ráð fyrir að landskjörstjórn skipi umboðsmenn andstæðra fylkinga sem gæta skulu öndverðra sjónarmiða við atkvæðagreiðsluna og talninguna og að landskjörstjórn úrskurði um gildi atkvæða sem haldin eru einhverjum annmörkum. Því þykir rétt að taka af öll tvímæli um að það sé hlutverk landskjörstjórnar að úrskurða um ágreining er orðið getur um tiltekin atriði er varða utankjörfundaratkvæði, sbr. e–h-lið 1. mgr. 91. gr. laga um kosningar til Alþingis.
    Í 9. gr. laganna er kveðið á um hlutverk landskjörstjórnar við talningu atkvæða, meðferð atkvæða og úrskurðarvald um gildi ágreiningsseðla en einnig að nokkru leyti í 10. gr. laganna. Nauðsynlegt er því að leggja til í 3. gr. frumvarpsins nýtt orðalag á 1. mgr. 10. gr. og fella þannig út tvítekningar.
    Í 4. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á 11. gr. laganna um að skýrt verði kveðið á um að til þess að þjóðaratkvæðagreiðsla teljist samþykkt þurfi meiri hluti gildra atkvæða þeirra sem taka þátt í atkvæðagreiðslunni að fylgja tillögunni. Nefndin telur nauðsynlegt að taka þetta skýrt fram þar sem annars er unnt að líta svo á að auðir seðlar og ógildir geti verið túlkaðir sem andvígir tillögunni að þessu leyti.
    Í 5. gr. eru lagðar til lagfæringar á orðalagi síðari málsliðar 3. mgr. 13. gr. laganna sem tengist þeirri tilhögun að talning atkvæða fer fram á einum stað og því er ekki unnt að láta atkvæðagreiðsluna fara aftur fram í einstöku kjördæmi, eins og segir í lögunum. Telji Hæstiréttur að slíkir verulegir ágallar séu á framkvæmd atkvæðagreiðslunnar sem ætla má að hafi haft áhrif á niðurstöður hennar getur hann ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan fari aftur fram á landinu í heild.
    Lagt er til að lögin öðlist þegar gildi enda nauðsynlegt þar sem stuttur tími er til þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga nr. 13/2011 sem forseti synjaði undirritunar og varða heimild til handa fjármálaráðherra til að staðfesta samninga, sem áritaðir voru í London 8. desember 2010, um ábyrgð á endurgreiðslu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta til breska og hollenska ríkisins á kostnaði af greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi og greiðslu eftirstöðva og vaxta af þeim skuldbindingum.