Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 564. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 953  —  564. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu, með síðari breytingum.

Flm.: Eygló Harðardóttir, Guðmundur Steingrímsson, Ólína Þorvarðardóttir,
Mörður Árnason, Ólafur Þór Gunnarsson, Birgitta Jónsdóttir.


1. gr.

    1. gr. laganna orðast svo:
    Skylt er að greftra lík í lögmætum kirkjugarði, sbr. 5. gr., brenna þau í viðurkenndri líkbrennslustofnun (bálstofu), sbr. 7. gr., eða viðhafa þurrfrystingu við greftrun, sbr. 7. gr. a.

2. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein, 2. mgr., svohljóðandi:
    Óheimilt er að greftra lík eða brenna það nema það sé í kistu og hjúpað líkklæðum eða öðrum klæðnaði. Þó skal heimilt að veita einstökum trúfélögum leyfi til að búa lík til greftrunar innan sinna vébanda samkvæmt eigin hefðum, enda samrýmist það lögum og góðum siðum.

3. gr.

    Fyrirsögn I. kafla laganna orðast svo: Um greftrun líka, líkbrennslu og þurrfrystingu líka.

4. gr.

    5. gr. laganna orðast svo:
    Með kirkjugörðum í lögum þessum er átt við afmarkað grafarsvæði.
    Þar sem þörf krefur er heimilt að afmarka sérstaka reiti fyrir einstök trúarbrögð og einnig óvígðan reit.
    Í nýjum kirkjugörðum er skylt að gera ráð fyrir óvígðum reit og sérstökum reitum fyrir önnur trúarbrögð en kristin.

5. gr.

    Á eftir 7. gr. laganna kemur ný grein, 7. gr. a, svohljóðandi:
    Þurrfrysting líka hér á landi má eingöngu fara fram í stofnunum sem ráðuneytið löggildir.
    Búa ber um þurrfryst lík í umhverfisvænni kistu sem skylt er að grafa í lögmætum kirkjugarði, sbr. 5. gr.
    Ráðherra er heimilt að setja nánari reglur um framkvæmd ákvæðis þessa.

6. gr.

    Fyrirsögn II. kafla laganna orðast svo: Um kirkjugarða og grafreiti og friðhelgi þessa, svo og líkbrennslustofnanir og þurrfrystingu.

7. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. september 2011.

Greinargerð.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 36/1993, um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu. Annars vegar er um að ræða breytingar til að heimila þurrfrystingu líka við greftrun og hins vegar eru lagðar til breytingar á lögunum vegna mismunandi trúar- og lífsskoðana, en með auknum fjölda manna sem aðhyllast önnur trúarbrögð en kristna trú er nauðsynlegt að setja ákvæði í lög um að lík skuli jarðsett, brennt í kistu eða að þurrfrysting sé viðhöfð. Einnig er að finna í frumvarpinu ákvæði um að skylt verði að taka frá afmarkaða grafreiti í kirkjugörðum fyrir aðila sem aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.


    Í greininni er lagt til að heimilt verði hér á landi að viðhafa þurrfrystingu við greftrun til að draga úr umhverfismengun. Þekkt er að umhverfismengun af völdum greftrunar geti fyrst og fremst stafað af því efni sem kistur eru smíðaðar úr. Þrátt fyrir breytingar sem gerðar hafa verið á reglugerð um kistur, duftker, greftrun og líkbrennslu getur niðurbrot líkama hins látna tekið langan tíma, meðal annars vegna aðskotaefna sem eru í líkamanum. Má þar nefna kvikasilfur í tönnum, járnpinna og mjaðmakúlur. Með umhverfisvænni greftrun er dregið úr mengun af greftrun og líkbrennslu.
    Þurrfrysting fer þannig fram að lík er fryst niður í –18°C. Kistunni með líkinu er sökkt í fljótandi köfnunarefni og við það verður líkaminn frauðkenndur. Eftir það er kistan sett á bretti og hrist til en við hristinginn verður líkið nánast að dufti. Með því að setja duftið í segulsvið er unnt að skilja kvikasilfur og aðra málma frá. Eftir þann aðskilnað eru eftir 5–30 kg af dufti sem loks er sett í umhverfisvæna kistu sem búin er til úr maíssterkju eða kartöflusterkju og hún síðan grafin. Á 6–12 mánuðum aðlagast kistan jarðveginum og með því að gróðursetja tré á leiðið mun það soga í sig næringarefnin sem losna úr læðingi.

Um 2. gr.


    Í greininni er lagt til að lögfesta að lík skuli jarðsett eða brennt í kistu þó svo að slíkt hafi verið talið sjálfsagt hingað til. Með auknum fjölda einstaklinga sem aðhyllast önnur trúarbrögð en kristni er talið nauðsynlegt að setja slík ákvæði í lög þar sem sums staðar er talið nægjanlegt að sveipa lík klæðum áður en það er jarðsett. Til að koma til móts við mismunandi trúar- og lífsskoðanir er lagt til að heimilt verði að veita einstökum trúfélögum leyfi til að búa lík til greftrunar innan sinna vébanda samkvæmt eigin hefðum, enda samrýmist það lögum og góðum siðum.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 4. gr.


    Í greininni eru lagðar til breytingar á ákvæðinu og viðbætur sem verða að teljast nauðsynlegar í ljósi þess að íbúum hér á landi, sem eru annarrar trúar en kristinnar, hefur fjölgað mjög á undanförnum árum. Er því eðlilegt að hugað verði að því hvernig koma eigi til móts við beiðnir um að lík verði jarðsett í afmörkuðum reit fyrir tiltekin trúarbrögð, eða jafnvel í óvígðum reit. Enn fremur er kveðið á um að í nýjum kirkjugörðum verði skylt að gera ráð fyrir óvígðum reit og sérstökum reit fyrir önnur trúarbrögð en kristin.

Um 5. gr.


    Í greininni er lagt til að þurrfrysting líka megi eingöngu fara fram í stofnunum sem ráðuneytið löggildir. Er það sama fyrirkomulag og er vegna líkbrennsla og er réttast að um slíkar aðferðir gildi sömu reglur þar sem ekki er um hefðbundna greftrun að ræða. Í greininni er kveðið á um að búa beri um þurrfryst lík í umhverfisvænum kistum sem skylt er að grafa í lögmætum kirkjugarði.

Um 6. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.

Um 7. gr.


    Gert er ráð fyrir að lögin taki gildi 1. september 2011. Þar sem þurrfrysting er ný leið í greftrun og nauðsynlegt verður að setja nánari reglur um framkvæmd hennar er mikilvægt að ætla hæfilegan tíma svo að reglurnar verði tilbúnar við gildistöku laganna.