Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 959, 139. löggjafarþing 188. mál: Landsvirkjun (fyrirkomulag eigendaábyrgða, EES-reglur).
Lög nr. 21 11. mars 2011.

Lög um breyting á lögum nr. 42/1983, um Landsvirkjun, með síðari breytingum.


1. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 1. gr. laganna:
  1. 2. mgr. orðast svo:
  2.      Hvor eigandi um sig er í einfaldri ábyrgð fyrir þeim skuldbindingum fyrirtækisins sem heimilaðar eru skv. 9. gr., en um innbyrðis skiptingu á ábyrgð þeirra fer eftir eignarhlutföllum. Ábyrgð eigenda nær ekki til annarra skuldbindinga fyrirtækisins.
  3. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
  4.      Komi fram beiðni um greiðslustöðvun, nauðasamninga eða gjaldþrotaskipti skulu ákvæði laga um gjaldþrotaskipti, eins og þau eru á hverjum tíma, eiga við um Landsvirkjun með sama hætti og um félag með takmarkaða ábyrgð.


2. gr.

     9. gr. laganna orðast svo:
     Landsvirkjun er heimilt að taka lán til þarfa fyrirtækisins og gangast í ábyrgð fyrir greiðslum í sama skyni. Nýjar lántökur, sem njóta skulu ábyrgðar eigenda skv. 2. mgr. 1. gr., eru háðar samþykki fjármálaráðherra.

3. gr.

     Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
     Ábyrgðir eigenda á lánaskuldbindingum Landsvirkjunar, svo og skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum Landsvirkjunar við orkufrek fyrirtæki sem nýta rafmagnið í eigin þágu, sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku laga þessara halda gildi sínu eins og til þeirra er stofnað og þar til þær eru að fullu efndar eða einstakir samningar falla niður. Greiða ber árlega ríkisábyrgðargjald, sbr. lög nr. 121/1997, um ríkisábyrgðir, af þeim lánaskuldbindingum, svo og skuldbindingum samkvæmt langtímarafmagnssamningum Landsvirkjunar við orkufrek fyrirtæki sem nýta rafmagnið í eigin þágu, frá og með gildistöku laga þessara.

4. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 3. mars 2011.