Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 199. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 986  —  199. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Hörpu Theodórsdóttur frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Utanríkismálanefnd óskaði álits viðskiptanefndar á tillögunni og er álitið birt sem fylgiskjal.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010, frá 29. janúar 2010, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2008/961/EB um notkun útgefenda verðbréfa í þriðju löndum á tilteknum innlendum reikningsskilastöðlum þriðju landa og alþjóðlegum reikningsskilastöðlum við gerð samstæðureikningsskila. Sex mánaða frestur skv. EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 29. júlí 2010. Framsetning tillögunnar er að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar er að gera tiltekna reikningsskilastaðla þriðju ríkja sem tilgreind eru jafngilda alþjóðlegum reikningsskilastöðum (IFRS) þar til innleiðing alþjóðlegu reikningsskilastaðlanna hefur farið fram í viðkomandi þriðju ríkjum.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um ársreikninga, nr. 3/2006, með síðari breytingum að hluta til fjalla um það efni. Málið er að því leytinu tengt tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 80/2008 sem er 133. mál á yfirstandandi þingi. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram á yfirstandandi þingi en það hefur tvívegis áður verið lagt fram en ekki hlotið afgreiðslu (245. mál á 136. löggjafarþingi og 218. mál á 138. löggjafarþingi). Eftir framlagningu mun það að líkindum koma til meðferðar í viðskiptanefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. mars 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Bjarni Benediktsson.



Helgi Hjörvar.


Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð


Gunnlaugsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.





Fylgiskjal.


Álit frá meiri hluta viðskiptanefndar.


    Utanríkismálanefnd óskaði eftir því með tölvupósti, dags. 1. febrúar 2011, að viðskiptanefnd léti í té álit sitt á:
     a.      tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn (235. mál).
     b.      tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (199. mál).
     c.      tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 80/2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (133. mál).
    Meiri hlutinn gerir ekki athugasemd við það að hinum stjórnskipulega fyrirvara verði aflétt af umræddum ESB-gerðum.
    Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Eygló Harðardóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara þar sem nefndin hafi hvorki haft aðkomu að því sem óskað er álits á né tækifæri til að taka formlega afstöðu.

Alþingi, 3. mars 2011.

Lilja Mósesdóttir, form.,
Magnús Orri Schram,
Skúli Helgason,
Eygló Harðardóttir, með fyrirvara,
Atli Gíslason.