Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 235. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 987  —  235. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Jón Ögmund Þormóðsson frá efnahags- og viðskiptaráðuneyti. Utanríkismálanefnd óskaði álits viðskiptanefndar á tillögunni og er álitið birt sem fylgiskjal.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010, frá 12. mars 2010, um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/109/EB frá 16. september 2009 um breytingu á tilskipunum ráðsins 77/91/EBE, 78/855/EBE og 82/891/EBE og tilskipun 2005/56/EB að því er varðar kröfur um skýrslugjöf og upplýsingar við samruna og skiptingu. Sex mánaða frestur, skv. EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 12. september 2009. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið tilskipunarinnar er að draga úr svonefndum stjórnsýslubyrðum í hlutafélögum hvað snertir gerð skýrslna og skjala og birtingu þeirra. Veitt er aukin heimild til að nýta m.a. vef félaga til birtingar á slíkum gögnum. Með breytingunum er ætlunin að auka samkeppnishæfni félaga innan Evrópska efnahagssvæðisins. Breytingarnar hafa áhrif á almennar reglur um félög en einnig ársreikninga og endurskoðun. Í texta athugasemda með tillögunni kemur fram að leitast verði við að gæta þess að breytingarnar hafi ekki neikvæð áhrif með tilliti til verndarhlutverks þeirra. Þar er því haldið til haga að gæta þurfi að hagsmunum annarra aðila en hluthafa, t.d. lánardrottna og stjórnvalda. Þá kemur m.a. orðrétt fram í athugasemdunum um innihald tilskipunarinnar: „Vikið er að minni kröfum en nú eru gerðar varðandi ákveðnar skýrslur sérfræðinga, við samruna móðurfélaga og dótturfélaga og í markaðsfélögum þar sem hálfsársuppgjör er gert.“
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp efnahags- og viðskiptaráðherra um breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum fjalla um efnið. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram á yfirstandandi þingi en samkvæmt texta athugasemda við tillöguna er ætlunin að ganga umfram skyldu á grundvelli ákvæða tilskipunarinnar og gera jafnframt breytingar á lögum um einkahlutafélög, nr. 138/1994, með síðari breytingum, þar sem eðlilegt þyki að svipaðar reglur gildi um hlutafélög og einkahlutafélög. Eftir framlagningu mun frumvarpið að líkindum koma til meðferðar í viðskiptanefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. mars 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Bjarni Benediktsson.



Helgi Hjörvar.


Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð


Gunnlaugsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.





Fylgiskjal.


Álit frá meiri hluta viðskiptanefndar.


    Utanríkismálanefnd óskaði eftir því með tölvupósti, dags. 1. febrúar 2011, að viðskiptanefnd léti í té álit sitt á:
     a.      tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 37/2010 um breytingu á XXII. viðauka (Félagaréttur) við EES-samninginn (235. mál).
     b.      tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 10/2010 um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (199. mál).
     c.      tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 80/2008, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn (133. mál).
    Meiri hlutinn gerir ekki athugasemd við það að hinum stjórnskipulega fyrirvara verði aflétt af umræddum ESB-gerðum.
    Guðlaugur Þór Þórðarson, Sigurður Kári Kristjánsson og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Eygló Harðardóttir skrifar undir álit þetta með fyrirvara þar sem nefndin hafi hvorki haft aðkomu að því sem óskað er álits á né tækifæri til að taka formlega afstöðu.

Alþingi, 3. mars 2011.

Lilja Mósesdóttir, form.,
Magnús Orri Schram,
Skúli Helgason,
Eygló Harðardóttir, með fyrirvara,
Atli Gíslason.