Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 535. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 989  —  535. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um heimild til staðfestingar tveggja ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Glóeyju Finnsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Nefndin kynnti sér ýmis gögn sem orðið hafa til í tengslum við málið.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn annars vegar tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2008/101/EB frá 19. nóvember 2008, um breytingu á tilskipun 2003/87/EB þannig að kerfið fyrir viðskipti með heimildir til losunar gróðurhúsalofttegunda innan Bandalagsins taki til flugstarfsemi, og hins vegar ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2009/450/EB frá 8. júní 2009, um ítarlega túlkun á flugstarfseminni sem tilgreind er í I. viðauka við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/87/EB. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Nefndin hefur haft málið til umfjöllunar um nokkurt skeið áður en tillagan sem hér um ræðir var lögð fram á Alþingi. Fyrir liggur að viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda (ETS) mun taka miklum breytingum á næstu árum. Frá og með 1. janúar 2012 fellur allt flug innan og til og frá Evrópu (EES) undir kerfið sem þetta þingmál tekur til, og frá og með 1. janúar 2013 mun kerfið bæði ná yfir fleiri tegundir staðbundins iðnaðar og fleiri tegundir gróðurhúsalofttegunda en það gerir í dag. Með þessum breytingum mun kerfið hafa mikil áhrif á Íslandi þar sem íslensk flugstarfsemi og stærstur hluti þess iðnaðar á Íslandi sem losar gróðurhúsalofttegundir mun falla undir kerfið. Auk þess mun ákvarðanataka innan kerfisins verða miðlægari. Þannig verður einn sameiginlegur pottur losunarheimilda fyrir allt Evrópska efnahagssvæðið og ákvarðanir um úthlutun munu byggjast á árangursviðmiðum sem verða þau sömu fyrir allt svæðið.
    Við umfjöllun nefndarinnar nú kom fram að sérstakar ástæður eru fyrir því að tillagan er lögð fram á Alþingi áður en sameiginlega EES-nefndin samþykkir ákvarðanirnar. Nefndin vill þó benda á að málsmeðferðin eigi sér fordæmi í 480. máli á 121. löggjafarþingi um samræmdar heilbrigðisreglur fyrir m.a. fisk og fiskafurðir.
    Talið er brýnt fyrir hagsmuni flugstarfsemi á Íslandi að ákvarðanirnar öðlist gildi fyrir lok marsmánaðar 2011 en fyrirhugað er að sameiginlega EES-nefndin samþykki þær seinni hluta þess mánaðar. Tilskipun 2008/101/EB kveður á um að tímafrestir flugrekenda til að sækja sér losunarheimildir án endurgjalds og til skila á staðfestum gögnum um losun séu til 31. mars 2011. Þýðir það í raun að innlendir flugrekendur og erlendir aðilar sem annast hafa flug til og frá Íslandi hafa einungis frest til að skila inn slíkum umsóknum og gögnum þangað til. Ítarleg gögn hafa verið lögð fram fyrir Alþingi, m.a. drög að viðkomandi ákvörðunum, svo þingið er vel upplýst um fyrirhugaðan gang mála.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og mun fyrirhugað frumvarp umhverfisráðherra um breytingu á lögum um losun gróðurhúsalofttegunda, nr. 65/2007, fjalla um það efni. Fyrirhugað er að leggja frumvarpið fram á yfirstandandi þingi. Eftir framlagningu mun það að líkindum koma til meðferðar í umhverfisnefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. mars 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Bjarni Benediktsson.



Helgi Hjörvar.


Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.