Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 433. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 990  —  433. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um útflutning hrossa.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið Kristin Hugason frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu á sinn fund. Umsagnir bárust frá Bændasamtökum Íslands og Matvælastofnun.
    Frumvarpinu er ætlað að leysa af hólmi núgildandi lög um útflutning hrossa. Meðal þeirra breytinga sem felast í frumvarpinu eru að ekki verði lengur heimilt að flytja út hross sem einungis eru frostmerkt, lengingu þess tímabils þegar aðeins er heimilt að flytja hross út með flugvélum og hækkun gjalds sem útflytjendur hrossa greiða í stofnverndarsjóð. Þar að auki felur frumvarpið í sér það nýmæli að óheimilt verður að flytja hross frá Íslandi með flutningsfari sem samtímis flytur dýr frá öðrum löndum.
    Umsagnaraðilar nefndu að þeir teldu margt gott í frumvarpinu og mæltu báðir með samþykkt þess. Annar umsagnaraðila benti þó á að rétt væri að gera ákveðnar breytingar á orðalagi og orðavali frumvarpsins í nafni skýrleika og lagasamræmis.
    Á fundi nefndarinnar kom fram að frumvarpið hefði verið samið af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í samráði við ráðgjafarnefnd um útflutning hrossa sem starfar skv. 6. gr. gildandi laga um útflutning hrossa og er mönnuð fulltrúum hagsmunaaðila í greininni, fulltrúa eftirlitsaðila og fulltrúa ráðuneytisins. Bent var á að allir fulltrúarnir hefðu mælt eindregið með samþykkt frumvarpsins enda hafi almenn sátt ríkt um efni þess og útfærslu.
    Í ljósi framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      1. mgr. 3. gr. orðist svo:
             Flutningsför fyrir hross við útflutning skulu hafa fullnægjandi rými, loftræstingu og brynningu. Tryggja skal fóður, fóðrun og eftirlit með hrossunum á flutningstímanum. Matvælastofnun hefur eftirlit með að reglum um aðbúnað og umhirðu sé fylgt.
     2.      Í stað orðsins „gæslu“ í 1. mgr. 4. gr. komi: eftirliti.
     3.      Orðið „vottorð“ í 1. mgr. 5. gr. falli brott.

    Einar K. Guðfinnsson, Björn Valur Gíslason og Ásmundur Einar Daðason voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 10. mars 2011.



Atli Gíslason,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Helgi Hjörvar.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Jón Gunnarsson.


Róbert Marshall.