Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 595. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1013  —  595. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf árið 2010.

1. Inngangur.
    Íslendingar fóru með forustu í Norðurlandaráði 2010. Forseti ráðsins var Helgi Hjörvar og varaforsetar Illugi Gunnarsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Þing Norðurlandaráðs var haldið í Reykjavík 2.–4. nóvember með um 800 þátttakendum.
    Helstu mál til umfjöllunar hjá Norðurlandaráði árið 2010 voru eftirfylgni Stoltenberg- skýrslunnar um norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála, tillaga um tilskipun Evrópusambandsins um neytendavernd, brottvísun norrænna ríkisborgara frá Norðurlöndum, fjármálakreppur, sambandsríki Norðurlanda, grænn hagvöxtur, gjöld á millifærslur fjármagns og Icesave-málið.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs hafði í sumarbyrjun frumkvæði að tillögu um eftirfylgni Stoltenberg-skýrslunnar, sem fólst í aukinni norrænni samvinnu um samfélagsöryggi. Tillagan sneri að öryggi borgara í Norðurhöfum, sérstaklega vegna aukinna siglinga flutninga- og farþegaskipa, samfara opnun nýrra siglingaleiða í kjölfar bráðnunar íss á norðurslóðum af völdum loftslagsbreytinga. Tillagan var samþykkt sem tilmæli, með breytingum, á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík.
    Tillaga um tilskipun Evrópusambandsins um neytendavernd var tekin til umfjöllunar á fyrri helmingi ársins og lauk með samþykkt tilmæla um haustið til ríkisstjórna Norðurlanda um samnorræna sýn á stefnu ESB í neytendamálum.
    Brottvísanir norrænna ríkisborgara frá Norðurlöndum, aðallega Danmörku, og túlkun á Norræna sáttmálanum um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu komust í hámæli um mitt ár og voru gagnrýndar harðlega á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík. Tvenn tilmæli voru samþykkt gegn brottvísununum.
    Forseti Norðurlandaráðs gerði um sumarið tillögu um eflingu norræns samstarfs á sviði fjármála, þess efnis að Norðurlöndin ættu að koma á formlegum samstarfsvettvangi um fjármálastöðugleika og kerfisáhættu í fjármálakerfinu. Þá sköpuðust á Norðurlandaráðsþingi heitar umræður um gjöld á millifærslur fjármagns. Málalyktir urðu þær að samþykkt voru tilmæli um slík gjöld og um sameiginlegan viðbúnað við hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni.
    Sambandsríki Norðurlanda var efni árbókar Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar, sem út kom á haustmánuðum í tengslum við þing Norðurlandaráðs, og efni málþings í aðdraganda þess. Hugmynd sænska sagnfræðingsins og samfélagsrýnisins Gunnars Wetterbergs um norrænt sambandsríki vakti nokkra athygli, en helstu rök Wetterbergs fyrir norrænu sambandsríki eru þau að það yrði ellefta stærsta hagkerfi heims.
    Leiðtogafundur norrænna forsætisráðherra og leiðtoga sjálfstjórnarsvæðanna á Norðurlandaráðsþingi fjallaði um grænan hagvöxt. Leiðtogarnir voru sammála um að grænn hagvöxtur, þ.e. efnahagsvöxtur samhliða minni losun koltvísýrings, væri leiðin út úr fjármálakreppu samtímans og helsta svarið við viðfangsefnum hnattvæðingar, þar sem hagvöxtur og umhverfisvernd geta farið saman.
    Icesave-málið kom til umræðu á janúarfundum Norðurlandaráðs í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi um Icesave, bæði á fundi forsætisnefndar og á sameiginlegum fundi allra þingmanna, sem og á fundum flokkahópa.

2. Almennt um Norðurlandaráð.
    Norðurlandaráð var stofnað árið 1952 og er samstarfsvettvangur þjóðþinga á Norðurlöndum. Sjálfstjórnarsvæðin Álandseyjar, Færeyjar og Grænland taka jafnframt þátt í samstarfinu. Alþingi hefur átt aðild að ráðinu frá stofnun þess. Norðurlandaráð kemur saman til þingfundar einu sinni á ári og ræðir og ályktar um norræn málefni. Auk þess kemur Norðurlandaráð saman til nefndafunda þrisvar sinnum á ári. Á vegum Norðurlandaráðs er unnið að margvíslegum norrænum verkefnum sem þingmenn, nefndir eða flokkahópar ráðsins hafa átt frumkvæði að. Norðurlandaráð hefur tillögu- og umsagnarrétt um fjármagn sem er veitt til norrænnar samvinnu árlega. Norræna ráðherranefndin tekur verulegt tillit til þeirra ábendinga.
    Í Norðurlandaráði sitja 87 þingmenn, þar af sjö alþingismenn. Hvert hinna landanna fjögurra, ásamt sjálfstjórnarsvæðunum, á 20 þingmenn í Norðurlandaráði. Hvert land skipar forseta Norðurlandaráðs á fimm ára fresti. Á árlegum þingfundi Norðurlandaráðs, sem stendur í þrjá til fjóra daga í senn um mánaðamótin október/nóvember, er fjallað um fram komnar tillögur og beinir þingið tilmælum til ríkisstjórna landanna eða Norrænu ráðherranefndarinnar. Forsætisráðherrar og utanríkisráðherrar Norðurlanda gefa Norðurlandaráðsþinginu skýrslu og samstarfsráðherrar svara fyrirspurnum í sérstökum fyrirspurnatíma. Fjárlög komandi starfsárs eru jafnframt ákveðin á þinginu og skipað er í nefndir og trúnaðarstöður. Í Norðurlandaráði starfa fjórir flokkahópar: jafnaðarmenn, miðjumenn, hægrimenn og vinstrisósíalistar og grænir. Flokkahóparnir móta sameiginlega afstöðu til einstakra mála og velja þingmenn í nefndir. Að öðru leyti byggist starf Norðurlandaráðs á landsdeildum aðildarríkjanna.
    Málefnastarf Norðurlandaráðs fer að mestu fram í fimm fagnefndum auk forsætisnefndar. Á milli þinga stýrir forsætisnefnd starfi ráðsins, vísar tillögum til nefnda eða afgreiðir þær. Forsætisnefnd fer jafnframt með utanríkis- og öryggismál svo og samskipti Norðurlandaráðs við aðrar alþjóðastofnanir. Þá fer eftirlitsnefnd yfir ársreikninga ráðsins og stofnana sem starfa innan Norðurlandastarfsins. Loks kemur kjörnefnd saman á þingum til að gera tillögu að skipan í nefndir og trúnaðarstöður á vegum Norðurlandaráðs.

3. Íslandsdeild Norðurlandaráðs.
Skipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Á byrjun árs 2010 skipuðu Íslandsdeild Helgi Hjörvar, formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, varaformaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Illugi Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Siv Friðleifsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, Ásmundur Einar Daðason, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, og Bjarni Benediktsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Árni Þór Sigurðsson, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar, Guðmundur Steingrímsson, þingflokki Framsóknarflokks, Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs, og Jón Gunnarsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Þrjár breytingar urðu á skipan Íslandsdeildar á árinu 2010. Mörður Árnason, þingflokki Samfylkingarinnar, varð varamaður í stað Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur 7. júní. Álfheiður Ingadóttir tók sæti Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur 3. október og var kosin varaformaður Íslandsdeildar á fundi hennar 19. október. Þá tók Ragnheiður Ríkharðsdóttir sæti Illuga Gunnarssonar 13. október og varð Illugi þá varamaður.
    Ritari Íslandsdeildar árið 2010 var Lárus Valgarðsson alþjóðaritari.

Nefndaskipan Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Kosið var í embætti og nefndir fyrir starfsárið 2010 á 61. þingi Norðurlandaráðs sem fram fór í Stokkhólmi dagana 27.–29. október 2009. Þar sem Ísland skyldi fara með formennsku í Norðurlandaráði árið 2010 var Helgi Hjörvar kosinn forseti ráðsins og Illugi Gunnarsson varaforseti. Í kjölfar þess að Ragnheiður Ríkharðsdóttir tók sæti Illuga í Íslandsdeild tók hún jafnframt sæti hans í forsætisnefnd og var Ragnheiður kosin varaforseti Norðurlandaráðs á fundi forsætisnefndar Norðurlandaráðs 2. nóvember 2010.
    Eftir kosningar í nefndir og ráð á Norðurlandaráðsþinginu í Stokkhólmi var nefndarseta fulltrúa Íslandsdeildar Norðurlandaráðs árið 2010 sem hér segir: Helgi Hjörvar sat áfram í forsætisnefnd, Illugi Gunnarsson, sem sat áður í efnahags- og viðskiptanefnd og eftirlitsnefnd, tók sæti í forsætisnefnd, Siv Friðleifsdóttir var áfram formaður velferðarnefndar, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sat áfram í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, Bjarni Benediktsson fór úr forsætisnefnd yfir í efnahags- og viðskiptanefnd og tók jafnframt sæti í eftirlitsnefnd, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hvarf úr menningar- og menntamálanefnd og settist í velferðarnefnd og Ásmundur Einar Daðason sat áfram í menningar- og menntamálanefnd. Í kjölfar þess að Álfheiður Ingadóttir tók sæti Guðfríðar Lilja Grétarsdóttur í Íslandsdeild tók hún jafnframt sæti hennar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd 2. nóvember 2010.
    Fulltrúar Íslandsdeildar sátu auk þess á vegum Norðurlandaráðs í stjórnum norrænna stofnana og voru fulltrúar þess út á við. Siv Friðleifsdóttir sat í stjórn Norræna menningarsjóðsins, Ragnheiður Ríkharðsdóttir átti sæti í stjórn eftirlitsnefndar Norræna fjárfestingarbankans og Illugi Gunnarsson sat í fjárlagahópi forsætisnefndar Norðurlandaráðs. Siv Friðleifsdóttir átti sæti í sendinefnd Norðurlandaráðs á leiðtogafundi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Vilníus 17. febrúar, á fundi Norðurlandaráðs með norrænum samstarfsráðherrum í Vilníus 18. febrúar, á þríhliða fundi Norðurlandaráðs, Eystrasaltsþingsins og Beneluxþingsins í Ósló 13. apríl. Siv Friðleifsdóttir var einnig fulltrúi í sendinefnd Íslandsdeildar, ásamt Ragnheiði Ríkharðsdóttur og Margréti Tryggvadóttur, til héraðsþinga í Leníngrad- héraði og Kalíningrad 16.–21. maí og á Eystrasaltsþinginu í Ríga 21.–23. október.

Starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs fundaði sex sinnum á árinu. Undirbúin var þátttaka í fundum og þingi Norðurlandaráðs og höfð umsjón með framkvæmd þingsins í Reykjavík, ásamt gagnkvæmum upplýsingaskiptum meðlima Íslandsdeildar um stöðu mála í einstökum nefndum og starfshópum Norðurlandaráðs. Þá lagði Íslandsdeild lokahönd á formennskuáætlun hennar í Norðurlandaráði 2010 og undirbjó tillögur til að fylgja henni eftir. Íslandsdeild lagði fram þrjár tillögur á árinu, um dag Norðurlandanna, um eftirfylgni Stoltenberg-skýrslunnar og um mænuskaða. Þá lagði formaður deildarinnar fram eina tillögu um eflingu norræns samstarfs á sviði fjármála.
    Í janúar fjallaði Íslandsdeild um formennskuáætlun deildarinnar í Norðurlandaráði 2010 og eftirfylgni tilmæla ráðsins frá árinu 2009. Þá fjallaði Íslandsdeild um kynningu á málavöxtum Icesave-málsins á fundum norrænna flokkahópa.
    Í mars undirbjó Íslandsdeild tillögu um dag Norðurlandanna, sem haldinn er 23. mars ár hvert í tilefni þess að Helsinki-sáttmálinn, grundvallarsáttmáli um norræna samvinnu, var undirritaður árið 1962. Lagt var til að auka veg dagsins, í því skyni að auka athygli á norrænni samvinnu, til að mynda með því að innleiða verðlaunaafhendingu þar sem veitt væru helstu verðlaun Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar. Tillagan var ekki samþykkt.
    Í maí undirbjó Íslandsdeild tillögu um eftirfylgni Stoltenberg-skýrslunnar um norræna samvinnu á sviði utanríkis- og öryggismála, nánar tiltekið um eflingu norræns samstarfs á sviði samfélagsöryggis. Tillagan sneri að öryggi borgara í Norðurhöfum, sérstaklega vegna aukinna siglinga flutninga- og farþegaskipa, samfara opnun nýrra siglingaleiða í kjölfar bráðnunar íss á norðurslóðum af völdum loftslagsbreytinga. Íslandsdeild lagði til að ríkisstjórnir Norðurlandanna efldu með hraði samstarf sitt á sviði samfélagsöryggis til samræmis við tillögur 4 og 8 í Stoltenberg-skýrslunni og að norrænir utanríkisráðherrar gæfu skýrslu um samstarf sitt á sviði samfélagsöryggis varðandi tillögurnar á 62. þingi Norðurlandaráðs. Tillagan var samþykkt með breytingum á Norðurlandaráðsþingi í Reykjavík.
    Í maí kynnti Silje Bergum Kinsten, starfsmaður upplýsingadeildar Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs, Íslandsdeild áherslur í starfi upplýsingadeildarinnar og nýjungar í starfi hennar.
    Í júní lagði formaður Íslandsdeildar fram tillögu um eflingu norræns samstarfs á sviði fjármála. Í henni var lagt til að norrænir forsætisráðherrar beittu sér fyrir að komið yrði á fót formlegum samstarfsvettvangi um fjármálastöðugleika og kerfisáhættu í fjármálakerfum á Norðurlöndunum, með aðild norrænna seðlabanka og fjármálaeftirlita. Með tilliti til náinna tengsla bankakerfa Norðurlanda og Eystrasaltslanda ætti slíkt svæðisbundið samstarf einnig að taka til Eystrasaltsríkjanna. Eftir að fulltrúar fjármálayfirvalda á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum undirrituðu samkomulag í ágúst um aukið samstarf um svæðisbundinn fjármálastöðugleika og viðbrögð við áföllum komst forsætisnefnd að þeirri niðurstöðu að samkomulagið uppfyllti markmið tillögunnar og ákvað að aðhafast ekki frekar.
    Þá úthlutaði Íslandsdeild í júní fréttamannastyrkjum Norðurlandaráðs 2010. Ákveðið var að eftirtaldir fengju styrk: Arnþrúður Karlsdóttir, Ágúst Ólafsson, Erla Sigurðardóttir, Jóhann Hauksson, Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, Linda Blöndal og Magnús Halldórsson.
    Í október undirbjó Íslandsdeild Norðurlandaráðsþing í Reykjavík og tillögu um mænuskaða. Tillagan kveður á um að fela nefnd sérfróðra vísindamanna og lækna að safna upplýsingum og gera yfirlit yfir norrænar og aðrar rannsóknir og meðferðir við mænuskaða í formi skýrslu og gera tillögur um úrbætur um rannsóknir og meðferðir á mænuskaða. Tillagan var send velferðarnefnd til umfjöllunar á árinu 2011.
    Í desember fjallaði Íslandsdeild um nýyfirstaðið Norðurlandaráðsþing og gaf umsögn um það.

Forseti Norðurlandaráðs.
    Helgi Hjörvar var forseti Norðurlandaráðs árið 2010. Illugi Gunnarsson var varaforseti frá janúar til október og Ragnheiður Ríkharðsdóttir varaforseti frá október til desember.
    Hlutverk forseta er að leiða og samhæfa störf forsætisnefndar, stjórna fundum nefndarinnar, stjórna þingfundi ráðsins og koma fram fyrir hönd Norðurlandaráðs gagnvart öðrum alþjóðastofnunum. Þá hefur forseti mikilvægu hlutverki að gegna varðandi stefnumótun í málefnum skrifstofu Norðurlandaráðs og vinnur náið með framkvæmdastjóra skrifstofunnar. Hlutverk varaforseta er að vera staðgengill forseta við stjórn funda ráðsins og staðgengill hans á alþjóðavettvangi.
    Á síðustu árum hafa orðið þær breytingar í Norðurlandaráði að formennskuland hvers árs leggur fram formennskuáætlun fyrir starfsárið og fylgir henni jafnvel eftir með tillöguflutningi, sem og að alþjóðastarf ráðsins hefur aukist til muna.
    Formennskuáætlun Íslands 2010 skiptist í þrjá hluta, auk kafla um innri málefni Norðurlandaráðs. Fyrsti hluti formennskuáætlunarinnar fjallaði um öryggi, velferð og menningu. Í þeim hluta var áætlað að fylgja eftir Stoltenberg-skýrslunni með áherslu á samfélagsöryggi og borgaralegt öryggi, að berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi, að stuðla að velferð Norðurlandabúa, að fylgja eftir vinnu gegn landamærahindrunum, að fylgja eftir Yfirlýsingu um norræna tungumálastefnu og að stuðla að efnahagslegu öryggi.
    Annar hluti formennskuáætlunarinnar fjallaði um haf, loftslag og orku. Í þeim hluta var áætlað að stuðla að bættu umhverfi norrænna hafa, að fylgjast með og hafa áhrif á uppfærslu fiskveiðistefnu ESB, að fylgja eftir niðurstöðu Kaupmannahafnarfundar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál og að stuðla að rannsóknum og nýtingu á endurnýjanlegri orku.
    Þriðji hluti formennskuáætlunarinnar fjallaði um alþjóðleg tengsl. Í þeim hluta var áætlað að rækta tengsl og samstarf á nærsvæðum til vesturs og austurs og við þingmannasamtök þar, sem og við Samband norrænu félaganna á Norðurlöndum og samtök frumbyggja þar, að fylgja eftir aðgerðaáætlun Norðurlandaráðs gagnvart Evrópusambandinu og að stuðla að jákvæðri ímynd Norðurlandanna í hnattvæddum heimi.
    Auk hinna þriggja hluta hafði formennskuáætlunin kafla um innri málefni. Í því sambandi var áætlað að efla tengsl Norðurlandaráðs við þjóðþingin og auka eftirfylgni tilmæla ráðsins, að stuðla að því að gera veg dags Norðurlandanna 23. mars meiri og að stuðla að nútímalegu Norðurlandaráði og norrænu samstarfi.
    Forseti Norðurlandaráðs var á árinu fulltrúi ráðsins á fjölmörgum fundum og ráðstefnum, en kostnaður við slík störf forseta er greiddur af skrifstofu ráðsins. Forseti lagði í alþjóðastarfi sínu á árinu meiri áherslu á Evrópu, Vestur-Norðurlönd og norðurskaut en fyrirrennarar hans á síðustu árum.
    Forseti sat opinn fund utanríkismálanefndar danska þingsins um Alþjóðabankann í Kaupmannahöfn 25. janúar. Hann fór fyrir sendinefnd Norðurlandaráðs á leiðtogafundi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Vilníus 17. febrúar og á fundi Norðurlandaráðs með norrænum samstarfsráðherrum í Vilníus 18. febrúar.
    Forseti átti fund með Josef Motzfeldt, formanni Vestnorræna ráðsins, í Reykjavík 16. mars og Illugi Gunnarsson varaforseti var fulltrúi Norðurlandaráðs á málþingi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins með stjórnmálamönnum frá Hvíta-Rússlandi í Minsk 22.–23. mars.
    Forseti fór fyrir sendinefnd Norðurlandaráðs á þríhliða fundi Norðurlandaráðs, Eystrasaltsþingsins og Beneluxþingsins í Ósló 13. apríl og var fulltrúi Norðurlandaráðs á hnattvæðingarþingi Norrænu ráðherranefndarinnar í Snekkersten í Danmörku 19.–20. maí og á fundi forsætisráðherra Norðurlanda í Marienborg í Lyngby í Danmörku 21. maí.
    Þá fór forseti fyrir sendinefnd Norðurlandaráðs við hringborðsumræður Norðurlandaráðs með Rússneska sambandsráðinu og Dúmunni í Bergen 26.–27. maí og var fulltrúi ráðsins á Baltic Development Forum í Vilníus 1.–2. júní og á málþingi ungra stjórnmálamanna frá Norðurlöndum, Eystrasaltsríkjunum og Hvíta-Rússlandi í Vilníus 3. júní.
    Forseti fór fyrir sendinefnd Norðurlandaráðs á þemaráðstefnu Vestnorræna ráðsins á Sauðárkróki 8. júní, og á fundi Norðurlandaráðs með norrænum þingmönnum á Evrópuþinginu í Strassborg 15. júní. Hann var einnig fulltrúi Norðurlandaráðs á Benelux-þinginu í Brussel 18. júní og á allsherjarþingi heimskautsráðs inúíta í Nuuk 30. júní–2. júlí.
    Þann 9. september átti forseti fund með Ragnheiði Helgu Þórarinsdóttur, formanni Norræna félagsins á Íslandi og formanni Sambands norrænu félaganna á Norðurlöndum, og Ásdísi Evu Hannesdóttur, framkvæmdastjóra Norræna félagsins á Íslandi, og 13.–15. september var hann fulltrúi Norðurlandaráðs á Þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Brussel, þar sem hann átti einnig fund með norrænum þingmönnum Evrópuþingsins.
    Forseti fór fyrir sendinefnd Norðurlandaráðs á Eystrasaltsþinginu í Ríga 21.–23. október. Hann var í lykilhlutverki við fundarstjórn á þingfundi Norðurlandaráðs í Reykjavík 2.–4. nóvember og var í fararbroddi ráðsins á fundum þess samhliða þinginu með norrænum forsætisráðherrum, norrænum utanríkisráðherrum, norrænum samstarfsráðherrum, Vestnorræna ráðinu og Rússneska sambandsráðinu og Dúmunni.
    Þá var forseti fulltrúi Norðurlandaráðs á Bresk-írska þinginu 21.–23. nóvember í Douglas á eynni Mön, fulltrúi Norðurlandaráðs á málþingi um flutningsskilyrði fatlaðra á Norðurlöndum í Stokkhólmi 1. desember og stýrði leiðtogafundi Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins í Majvik í Finnlandi 7. desember.
    Auk þátttöku í fundum og ráðstefnum var forseti Norðurlandaráðs virkur á árinu í fjölmiðlaumfjöllun um norræn málefni og málefni tengd alþjóðastarfi ráðsins. Hann birti greinar og veitti viðtöl í norrænum fjölmiðlum og innleiddi í auknum mæli rafræna miðlun um starfsemi Norðurlandaráðs á samskiptavefsíðum og með myndskeiðum á vefsíðu Norðurlandaráðs.
    Þá innleiddi forseti einnig skjót viðbrögð Norðurlandaráðs í fjölmiðlum við málefnum í brennidepli líðandi stundar, til að mynda með harðri gagnrýni á bann við gleðigöngu samkynhneigðra, Baltic Pride 2010, í Vilníus í maí og með mótmælum við handtöku stjórnarandstæðinga, þar á meðal nokkurra forsetaframbjóðenda, eftir forsetakosningar í Hvíta- Rússlandi í desember.

4. Starfsemi nefnda Norðurlandaráðs.
Forsætisnefnd.
    Helgi Hjörvar, Illugi Gunnarsson og Ragnheiður Ríkharðsdóttir sátu í forsætisnefnd á starfsárinu 2010. Nefndin fundaði sex sinnum á árinu.
    Forsætisnefnd er skipuð forseta og tólf fulltrúum sem kosnir eru á þingi Norðurlandaráðs. Allar landsdeildir á Norðurlöndunum og allir flokkahópar eiga fulltrúa í henni. Forsætisnefnd annast víðtæk pólitísk og stjórnunarleg málefni og hefur yfirumsjón með öllum málum í sambandi við Norðurlandaráðsþingið. Forsætisnefnd fjallar um norrænu fjárlögin en sérstakur starfshópur á vegum nefndarinnar tók þá vinnu sérstaklega að sér árið 2010, líkt og áður hafði verið gert. Þá sér forsætisnefnd um tengsl við svæðisbundnar og alþjóðlegar stofnanir og á í samstarfi við ESB/EES, ÖSE, Sameinuðu þjóðirnar og fleiri. Forsætisnefnd fjallar um tillögur sem til hennar er beint og vísar öðrum tillögum sem lagðar eru fyrir ráðið til viðeigandi fagnefnda. Forsætisnefnd fer með æðsta vald Norðurlandaráðs á milli þinga og hefur vald til þess að samþykkja tillögur fyrir hönd þingsins í sérstökum tilvikum og taka til afgreiðslu ákveðin málefni sem ekki þykir fært að bíði næsta þings.
    Lánveitingar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands og Icesave-málið komu til umræðu á fundi forsætisnefndar í janúar undir yfirskriftinni „staðan á Íslandi“ (situationen i Island), undir dagskrárliðnum önnur mál. Helgi Hjörvar hóf umræðuna og sagði að Íslendingar væru mjög þakklátir Norðurlöndunum fyrir að vera tilbúin að veita Íslandi lán. Hins vegar væri á Íslandi aukin umræða um norræna samvinnu og líklegt, ef niðurstaða í þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars yrði „nei“, að sú umræða mundi þyngjast og norræn samvinna jafnvel verða í aðalhlutverki í lánaumræðunni. Lán Norðurlandanna væru tengd samstarfsáætlun Íslands við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og þar væri að finna óljóst orðalag um að Ísland standi við skuldbindingar sínar. Englendingar og Hollendingar hafi ekki lánað Íslandi, heldur sjálfir ákveðið að greiða sínum sparifjáreigendum og deilt væri um hver skuldbinding Íslendinga væri. Ef lýðræðisleg ákvörðun í þjóðaratkvæðagreiðslu um að hafna fyrirliggjandi samningi yrði til þess að stöðva aðstoð við Ísland mundi það óhjákvæmilega vekja umræðu.
    Illugi Gunnarsson tók einnig til máls og sagði málið erfitt. Það snerist um hvernig túlka bæri ESB-tilskipun sem margir lögfræðingar töldu ekki gera ráð fyrir kerfisbundnu hruni. Hann taldi Englendingum og Hollendingum ekki stætt á að þvinga Íslendinga til að endurgreiða peninga sem þeir hefðu ekki tekið að láni og málið gæti vegið að sjálfstæði Íslands af efnahagslegum ástæðum. Illugi sagði Íslendinga þakkláta fyrir stuðning Norðurlanda, en komið hefði fram í bréfi Strauss-Kahn, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að lausn Icesave-deilunnar hefði ekki verið krafa af hálfu sjóðsins fyrir lánveitingu til Íslands, heldur af hálfu Norðurlanda. Mörgum á Íslandi þætti ekki við hæfi að Bretland og Holland beittu Norðurlöndum fyrir sig til að setja pressu á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
    Norski þingmaðurinn Per-Kristian Foss sagði að sér fyndist óþægilegt að dragast inn í íslenska kosningabaráttu og taldi umfjöllun málsins ekki eiga heima hjá forsætisnefnd. Helgi Hjörvar ítrekaði að ástæða umfjöllunarinnar væri umræða á Íslandi um norræna samvinnu, og því á verksviði forsætisnefndar. Danski þingmaðurinn Line Barfod taldi bréf Strauss-Kahn sæta tíðindum og vera mikilvægt í lánaumræðunni.
    Á fundi forsætisnefndar í apríl lagði landsdeild Svíþjóðar fram tillögu um yfirferð Helsinki-sáttmálans með hugsanlegar breytingar í huga. Forsætisnefnd var sammála um að árangursríkast væri að Norðurlandaráð gerði tillögur um hvaða atriðum ætti að breyta í sáttmálanum og sendi því tillöguna til umsagnar landsdeilda og flokkahópa ráðsins til að kanna afstöðu þeirra til breytinga og þá um hvaða atriði sáttmálans. Við umsagnarferlið kom í ljós að almennt var ekki talin þörf á breytingum á Helsinki-sáttmálanum, frekar var talin þörf á að taka starfsreglur Norðurlandaráðs til gagngerrar endurskoðunar. Því ákvað forsætisnefnd að skipa starfshóp embættismanna til að gera tillögur um breytingar á starfsreglum Norðurlandaráðs. Í starfshópinn var skipaður einn fulltrúi starfsmanna landsdeilda, einn fulltrúi starfsmanna flokkahópa, einn fulltrúi starfsmanna skrifstofu Norðurlandaráðs og einn lögfræðingur frá Norrænu ráðherranefndinni. Breyttar starfsreglur skal samþykkja á Norðurlandaráðsþingi haustið 2011.
    Á aprílfundi lagði finnski þingmaðurinn Erkki Tuomioja til að Norðurlandaráð fjallaði um tillögu um tilskipun um neytendavernd innan ESB, sem brátt átti að taka til umfjöllunar hjá Evrópuþinginu. Tillagan um tilskipun felur í sér staðlaða neytendavernd í ESB, sem á vissum sviðum er lakari en á Norðurlöndum. Forsætisnefnd ákvað að fela Henrik Dam Kristensen í borgara- og neytendanefnd, sem einnig fjallaði um málið, að fylgja því eftir milli funda með samskiptum við norræna þingmenn á Evrópuþinginu og norræna ráðherra. Í kjölfarið fundaði Helgi Hjörvar og Henrik Dam Kristensen með norrænum þingmönnum á Evrópuþinginu í júní og gerðu grein fyrir sjónarmiðum Norðurlandaráðs um að Norðurlöndin ættu að stilla saman strengi sína við umfjöllun málsins og samþykkja ekki tillöguna óbreytta. Í september samþykkti forsætisnefnd síðan tilmæli til ríkisstjórna Norðurlanda, að tillögu borgara- og neytendanefndar, um samnorræna sýn á stefnu ESB í neytendamálum, þess efnis að móta samræmda norræna afstöðu við afgreiðslu ráðherraráðs ESB á KOM (2008) 614. Norræna afstaðan skyldi tryggja að lágmarkssamræming gengi eins langt og unnt væri þannig að áfram mætti efla norræna neytendavernd.
    Tillaga Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um aukið norrænt samstarf á sviði samfélagsöryggis var til umfjöllunar í forsætisnefnd í júní og september. Tillagan var lögð fram sem eftirfylgni við Stoltenberg-skýrsluna, en Norðurlandaráð hafði áratuginn á undan fjallað um efni sjö af þrettán tillögum skýrslunnar. Sú umfjöllun ráðsins tók mið af þeim breytingum sem orðið hafa með útvíkkun öryggishugtaksins eftir lok kalda stríðsins, frá þjóðaröryggi í hefðbundnum skilningi yfir í mannöryggi eða samfélagsöryggi, sem tekur mið af hnattrænum og samfélagslegum þáttum, auk hefðbundinna hernaðarlegra þátta, samfara því að mörkin milli ytra og innra öryggis ríkis hafa orðið ógreinilegri. Eitt af þeim atriðum sem hafa verið til umfjöllunar ráðsins á sviði samfélagsöryggis er öryggi borgara í Norðurhöfum, sérstaklega vegna aukinna siglinga flutninga- og farþegaskipa, samfara opnun nýrra siglingaleiða í kjölfar bráðnunar íss á norðurslóðum af völdum loftslagsbreytinga. Tillaga Íslandsdeildar miðaði að því að hraða þyrfti frekara samstarfi í björgunarmálum með því að taka mið af tillögum 4 og 8 í Stoltenberg-skýrslunni. Tillagan hlaut almennan stuðning í forsætisnefnd en nefndin ákvað að tillagan skyldi hafa breiðari skírskotun með því að beint skyldi tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda um að hraða norrænu samstarfi á sviði samfélagsöryggis samkvæmt Stoltenberg-skýrslunni, auk þess að taka mið af tillögum í nýlegri NB8-sérfræðingaskýrslu Valdis Birkav, fyrrverandi forsætisráðherra Lettlands, og Sørens Gade, fyrrverandi varnarmálaráðherra Danmerkur, um samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja.
    Forsætisnefnd fjallaði einnig í júní og september um tillögu Helga Hjörvar um eflingu norræns samstarfs á sviði fjármála. Tillagan snerist um að Norðurlöndin ættu að koma á formlegum samstarfsvettvangi um fjármálastöðugleika og kerfisáhættu í fjármálakerfinu, með aðild norrænna seðlabanka og fjármálaeftirlita, og með tilliti til náinna tengsla bankakerfa Norðurlanda og Eystrasaltslanda ætti slíkt svæðisbundið samstarf einnig að taka til Eystrasaltsríkjanna. Með slíku samstarfi yrði með árangursríkari hætti hægt að meta yfirvofandi ógnir við fjármálastöðugleika og draga þannig úr líkunum á og áhrifum af hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni. Eftir að tillagan var lögð fram undirrituðu fulltrúar fjármálayfirvalda Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna samkomulag um aukið samstarf um svæðisbundinn fjármálastöðugleika og viðbrögð við áföllum. Af því tilefni var Jens Lundager, deildarstjóri fjármála hjá danska efnahags- og atvinnulífsráðuneytinu, gestur fundar forsætisnefndar. Lundager gerði grein fyrir evrópskum og norrænum bakgrunni samkomulagsins og innihaldi og svaraði spurningum nefndarmanna. Hann sagði að samkomulagið, sem væri ekki lagalega bindandi, byggðist á samkomulagi og æfingum viðbragða við áföllum á fjármálamörkuðum sem áður voru fyrir hendi. Inntak samkomulagsins væri að skilgreina hlutaðeigandi, meta fjármálastöðugleika, skilgreina meginreglur við dreifingu kostnaðar og dreifa verkefnum. Í kjölfar kynningarinnar komst forsætisnefnd að þeirri niðurstöðu að samkomulagið uppfyllti markmið tillögunnar og ákvað að aðhafast ekki frekar.
    Á desemberfundi forsætisnefndar tók nefndin til umfjöllunar tillögu flokkahóps vinstrisósíalista og grænna um norræna friðarstofnun sem tekið gæti að sér að semja um frið á alþjóðlegum vettvangi. Tillagan fól í sér að ríkisstjórnir Norðurlanda beittu sér fyrir að friðarstarf verði hluti af eftirfylgni við Stoltenberg-skýrsluna, að komið yrði á fót norrænni friðarstofnun sem starfaði náið með þeim norrænu friðarstofnunum sem eru fyrir hendi og að hún hefði á sínum vegum alþjóðlega viðurkennda samningamenn til að semja um frið í deilum þar sem norrænar ríkisstjórnir gætu ekki beitt sér vegna lista yfir hryðjuverkasamtök. Fyrir fundinn hafði tillagan verið send til umsagnar hjá starfandi norrænum friðarstofnunum; Danish Institute for International Studies (DIIS) í Danmörku, The Transnational Foundation for Peace and Future Research (TFF) í Svíþjóð, Peace Research Institute Oslo (PRIO) í Noregi, Life & Peace Institute (LPI) í Svíþjóð, Stockholm International Peace Research Institute (SIPRI) í Svíþjóð og Ålands fredsinstitut á Álandseyjum.
    Forsætisnefnd taldi að svo stöddu ekki þörf á að leggja til að sett yrði á stofn ný norræn friðarstofnun til viðbótar við þær sem þegar eru til. Nefndarmenn vildu fyrst kanna hvort núverandi stofnanir hefðu tök á að auka samstarf sitt enn frekar og ákvað að Norðurlandaráð skyldi standa fyrir ráðstefnu þar sem fulltrúum friðarstofnana á Norðurlöndum yrði gert kleift að efla slíkt samstarf.
    Forsætisnefnd fjallaði einnig í desember um tillögu tveggja þingmanna úr flokkahópi miðjumanna um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Gestur fundarins af því tilefni var Raimo Väyrynen, fyrrverandi framkvæmdastjóri utanríkismálastofnunar Finnlands, sem gerði grein fyrir sögulegum bakgrunni tillögunnar og svaraði spurningum. Sögulega séð hefur umræða um kjarnorkuvopnalaus svæði á Norðurlöndum og í Norður-Evrópu átt sér stað í fimm bylgjum; fyrst árið 1957 þegar Sovétmenn settu fram hugmyndir um að Danmörk og Eystrasaltið skyldu vera kjarnorkuvopnalaus annars vegar og hins vegar þegar Pólverjar settu fram tillögu um að Pólland, Austur- og Vestur-Þýskaland og Tékkóslóvakía skyldu vera kjarnorkuvopnalaus, síðan að frumkvæði Kekkonens, forseta Finnlands, á árunum 1963–65 sem lagði til að Finnland, Svíþjóð, Danmörk og Noregur skyldu vera kjarnorkuvopnalaus, svo að frumkvæði Finnlands á fyrri hluta áttunda áratugarins þegar Finnar lögðu til að tengja kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd við afvopnun í Evrópu og við afvopnun stórveldanna og þannig yrðu Norðurlönd háðari þróuninni á alþjóðavettvangi, þá 1978, aftur að frumkvæði Kekkonens, þegar hann endurvakti hugmyndir sínar frá 1963, án tillits til kjarnorkuvopnakapphlaups annarra, og loks á fyrri hluta níunda áratugarins með tillögu norska sendiherrans Jens Evensen um endurupptöku hugmyndarinnar um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Eftir fall Berlínarmúrsins minnkaði umræðan um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd en henni skaut aftur upp kollinum á fyrri hluta tíunda áratugarins í Norðurlandaráði sem lið í tilmælum ráðsins til ríkisstjórna Norðurlandanna um umhverfismál á Norðurlöndum, þar sem lagt var til að styðja afvopnun kjarnavopna, styðja þróun öruggra aðferða við eyðingu þeirra og skilgreina Norðurlönd sem kjarnorkuvopnalaust svæði. Svo fór að norræn umhverfisáætlun, sem tók meðal annars til kjarnorkuöryggis, var viðtekin, en umræðan um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd fjaraði út. Raimo Väyrynen, gestur forsætisnefndar, var ekki bjartsýnn á að Norðurlöndin eða norðurskautið yrðu kjarnorkuvopnalaus. Forsætisnefnd ákvað að vinna málið áfram á þann veg að Norðurlöndin mundu vinna að fækkun taktískra kjarnavopna.
    Árlegur leiðtogafundur Norðurlandaráðs og Eystrasaltsþingsins fór fram í tengslum við fund forsætisnefndar í desember, en samtökin skiptast á að vera gestgjafar þeirra. Því stýrði Helgi Hjörvar fundinum fyrir hönd Norðurlandaráðs að þessu sinni. Gestir fundarins voru Søren Gade og Valdis Birkavs, höfundar NB8-sérfræðingaskýrslunnar um samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja, sem kynntu efni hennar og svöruðu spurningum. Skýrslan kom út í ágúst 2010 og hefur að geyma 38 hagnýtar tillögur sem sumar hverjar byggjast á Stoltenberg-skýrslunni, meðal annars um samstarf sendiráða, björgunarmál, rafrænt öryggi og orkumál. Gade sagði meðal annars að samstarf í Evrópu framtíðarinnar yrði milli svæða, ekki ríkja, og að NB8 myndaði einmitt svæði í þessum skilningi. Mikilvægt væri að beina sérstaklega sjónum að samstarfi ríkjanna árið 2011 þegar 20 ár væru liðin frá því að Eystrasaltsríkin endurheimtu sjálfstæði sitt. Nokkur umræða varð um tillögu 13 í Stoltenberg-skýrslunni um samstöðuyfirlýsingar og varpaði Erkki Tuomioja frá Finnlandi fram þeirri spurningu hvort mögulegt væri að framlengja samstöðuyfirlýsingu aðildarríkja ESB með sérstökum samningi þannig að hún tæki einnig til Noregs og Íslands. Nefndarmönnum fannst hugmyndin allrar athygli verð.
    Á tímabilinu janúar til október 2010 samþykkti forsætisnefnd sex tilmæli af hálfu Norðurlandaráðs. Þrjár tillögur forsætisnefndar voru samþykktar sem tilmæli á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík. Það voru eflt norrænt samstarf um samfélagsöryggi (tilmæli 13/2010), áætlun um aðgerðir Norrænu ráðherranefndarinnar í málefnum Hvíta-Rússlands 2011–2012 (tilmæli 11/2010) og verkefna- og fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2011 (tilmæli 7/2010).

Menningar- og menntamálanefnd.
    Fulltrúi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs í menningar- og menntamálanefnd árið 2010 var Ásmundur Einar Daðason.
    Menningar- og menntamálanefnd annast málefni sem varða menningu og listir á Norðurlöndum og á alþjóðavísu, fjölmenningarleg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, óháð félagasamtök, menningu barna og unglinga, grunnmenntun, framhaldsmenntun, fullorðinsfræðslu, rannsóknir, menntun vísindamanna og fræðimannaskipti.
    Helstu umfjöllunarefni menningar- og menntamálanefndar árið 2010 voru rannsóknir, samstarf um almenningssjónvarpsstöðvar á Norðurlöndum, nýsköpun í menntakerfum, frumkvæði í atvinnu- og starfshæfnismálum ungs fólks og norræn menningarhátíð.
    Fimm tillögur menningar- og menntamálanefndar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu. Það voru norræn menningarhátíð (tilmæli 5/2010), norræn Arte-sjónvarpsrás (tilmæli 12/2010), samstarfsáætlun á sviði menntamála og rannsókna 2011–2013 (tilmæli 23/2010), sköpun, nýsköpun og frumkvöðlamenntun (tilmæli 24/2010) og atvinnumál og færni ungs fólks (tilmæli 25/2010).

Efnahags- og viðskiptanefnd.
    Bjarni Benediktsson var fulltrúi Íslandsdeildar í efnahags- og viðskiptanefnd á starfsárinu.
Efnahags- og viðskiptanefnd annast málefni sem varða efnahags- og framleiðsluskilyrði, atvinnulíf, innri markað Norðurlanda, frjálsa fólksflutninga, afnám landamærahindrana, viðskipti, byggðastefnu, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuvernd, skipulag innviða, samgöngur og upplýsingatækni.
    Meðal helstu mála efnahags- og viðskiptanefndar árið 2010 voru Norræna rannsókna- og nýsköpunarsvæðið – NORIA, endurnýjanleg orka, höfundaréttur, samnorrænar lausnir á endurvinnslu og skilagjaldsskyldu á drykkjarumbúðum og stjórnsýsluhindranir í atvinnulífinu.
    Fimm tillögur efnahags- og viðskiptanefndar urðu að tilmælum Norðurlandaráðs á árinu. Það voru frekari þróun Norræna rannsókna- og nýsköpunarsvæðisins – NORIA (tilmæli 4/2010), norræn framleiðsla á endurnýjanlegri orku (tilmæli 21/2010), norrænt framtaksverkefni um að leggja gjöld á millifærslur fjármagns (tilmæli 30/2010), sameiginlegur viðbúnaður við hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni (tilmæli 31/2010) og ráðstefna um framleiðslu á hollum matvælum (tilmæli 32/2010).

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Á árinu 2010 voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir og Álfheiður Ingadóttir fulltrúar Íslandsdeildar í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd.
    Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd annast málefni er varða umhverfismál, landbúnað og skógrækt, sjávarútveg, sjálfbæra þróun og orkumál.
    Megináherslur umhverfis- og náttúruauðlindanefndar árið 2010 voru norrænt samstarf í tengslum við endurskoðun sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, samnorrænar lausnir á endurvinnslu og skilagjaldsskyldu á drykkjarumbúðum, eftirfylgni í orku-, loftslags- og samgöngumálum og ofvöxtur þörunga í Eystrasaltinu.
    Í janúar stóð umhverfis- og náttúruauðlindanefnd fyrir málþingi í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina um endurskoðun sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins, en áætlunin á að taka gildi í janúar 2013. Norðurlandaráð og Norræna ráðherranefndin skiluðu í lok árs 2009 inn umsögnum til framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um grænbók hennar um endurskoðunina, sem kynnt var í apríl 2009. Framsögu á málþinginu höfðu meðal annars Ann- Kristine Johansson, formaður umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Norðurlandaráðs, og Ole Christensen, sem á sæti í sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins.
    Norðurlandaráð samþykkti á árinu 2010 sem tilmæli sjö tillögur umhverfis- og náttúruauðlindanefndar. Það voru rannsókn á hættulegum efnum og efnasamböndum og samningur um þungmálma (tilmæli 1/2010), innkaupastefna án hættulegra efna og alþjóðleg vísindanefnd um efni (tilmæli 2/2010), útivistarlíf barna og ungmenna (tilmæli 3/2010), norræn stefna um landbúnað og skógrækt (tilmæli 18/2010), norrænar aðgerðir í loftslagsmálum (tilmæli 19/2010), eftirfylgni Kaupmannahafnarsamkomulagsins (tilmæli 20/2010) og samnorræn áætlun til að stöðva útbreiðslu marðarhundarins (tilmæli 22/2010).

Velferðarnefnd.
    Siv Friðleifsdóttir og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir voru fulltrúar Íslandsdeildar í velferðarnefnd á starfsárinu 2010 og var Siv Friðleifsdóttir formaður nefndarinnar.
    Velferðarnefnd sinnir velferðar- og tryggingamálum, félagsþjónustu- og heilbrigðismálum, málefnum fatlaðra, bygginga- og húsnæðismálum, fjölskyldumálum, málefnum barna og unglinga og baráttu gegn misnotkun vímuefna.
    Höfuðáhersla velferðarnefndar var lögð á hvernig skapa mætti góð lífsgæði eldri borgara á Norðurlöndum. Nefndin afgreiddi nefndartillögu þess efnis, en tillagan snýr að þremur þáttum, rannsóknum, fyrirbyggjandi aðgerðum og viðbótum og nýjungum í þjónustu. Umfjöllun velferðarnefndar tók mið af þeirri lýðfræðilegu þróun að hlutfall eldri borgara hefur aukist, að hlutfall mjög gamals fólks er stærra en áður hefur þekkst og að tímabil hinna „góðu ára“ á ævi fólks hefur almennt lengst. Því þyrfti að leggja áherslu á hóp þeirra sem eru áttræðir og eldri þar sem sá hópur muni í framtíðinni nota heilbrigðis- og félagsþjónustu í miklum mæli, sem verði vandasamt úrlausnarefni í framtíðinni fyrir velferðarkerfi Norðurlanda.
    Velferðarnefnd afgreiddi einnig nefndartillögu um að koma bæri á fót samnorrænu skráningarkerfi fyrir lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga og annað löggilt fagfólk í heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum, með það að markmiði að auka öryggi sjúklinga. Slík rafræn skrá gæti leitt í ljós athugasemdir sem gerðar hafi verið við störf starfsfólks í öðrum norrænum löndum eða sjálfstjórnarsvæðum. Nefndin lagði hins vegar áherslu á að aðeins skyldu vera skráðar í kerfið alvarlegar athugasemdir og að hafa skyldi hliðsjón af ýmsum þáttum, þar á meðal persónuvernd og öryggi sjúklinga, og undirbúa þyrfti slíka skrá í samstarfi við sérfræðinga og hlutaðeigandi hópa.
    Norðurlandaráð samþykkti fjórar tillögur velferðarnefndar sem tilmæli á árinu 2010. Það voru lífsgæði aldraðra á Norðurlöndum (tilmæli 26/2010), norræn aðgerðaáætlun varðandi sjaldgæfa sjúkdóma (tilmæli 27/2010), samnorræn rafræn skrá yfir löggilt fagfólk í heilbrigðisstétt (tilmæli 28/2010) og norræn nýsköpunarmiðstöð lýðheilsu við Norræna lýðháskólann og norrænt stórátak, Öndvegisrannsóknir II (tilmæli 29/2010).

Borgara- og neytendanefnd.
    Enginn fulltrúi Íslandsdeildar sat í borgara- og neytendanefnd Norðurlandaráðs á starfsárinu 2010.
    Borgara- og neytendanefnd annast málefni sem varða lýðræði, mannréttindi, borgararéttindi, jafnrétti, neytendamál, hollustu matvæla, baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, löggjöf, innflytjendur, flóttafólk og baráttu gegn kynþáttafordómum.
    Á starfsárinu 2010 voru helstu áhersluþættir borgara- og neytendanefndar neytendamál, brottvísun norrænna ríkisborgara frá Norðurlöndum, betrunarvist, sjálfstjórn og sjálfstæði og fólksflutningar.
    Borgara- og neytendanefnd lagði fram tillögur varðandi brottvísun norrænna ríkisborgara og túlkun á 7. gr. Norræna sáttmálans um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu frá árinu 1994, sem byggðust á upplýsingum um að í Danmörku og Svíþjóð væri hægt að vísa norrænum þegnum úr landi vegna afbrota eða fyrir að vera byrði á félagslega kerfinu, þó að í Svíþjóð kæmi mjög sjaldan eða aldrei fyrir að fólki væri vísað úr landi fyrir það eitt að leita félagslegrar aðstoðar. Í svari danskra yfirvalda við skriflegri fyrirspurn nefndarinnar kom fram að Danir hafa vísað 46 norrænum þegnum úr landi frá árinu 2004 með skírskotun til þarfar þeirra fyrir félagslega aðstoð.
    Borgara- og neytendanefnd sendi að því búnu fyrirspurn til Norrænu ráðherranefndarinnar um hvort aðgerðir Dana væru í samræmi við sáttmálann frá 1994 en Norræna ráðherranefndin svaraði á þá leið að hún gæti ekki tjáð sig um hvort athæfi Dana í tilteknu máli væri í samræmi við sáttmálann, það væri ríkjanna sem undirrituðu sáttmálann að framfylgja honum og skera úr um hvort honum væri framfylgt.
    Þá óskaði nefndin eftir því að ráðherra Danmerkur um aðlögunarmál flóttafólks og innflytjenda, Birthe Rønn Hornbech, kæmi til samráðs á fund nefndarinnar í september en ráðherrann sá sér ekki fært að verða við því. Forseti Norðurlandaráðs skrifaði af því tilefni bréf til Lars Løkke Rasmussens, forsætisráðherra Danmerkur, fyrir hönd dönsku ríkisstjórnarinnar, þar sem sú ákvörðun Hornbechs að mæta ekki til fundarins var hörmuð.
    Norðurlandaráð óskaði einnig eftir lögfræðiáliti um réttmæti þess að Danir vísi úr landi norrænum ríkisborgurum. Kirsten Ketscher, prófessor í lögum við Hafnarháskóla, telur að Danir hafi brotið gegn viðurkenndum evrópskum og norrænum sáttmálum. Hún segir að grundvallarréttindi allra Norðurlandabúa sé rétturinn til frjálsrar farar og búsetu á Norðurlöndum og að brottvísun norrænna borgara frá Danmörku af þeirri ástæðu einni að þeir hafi þegið félagsaðstoð sé réttarfarslega vafasöm og brot á fyrirliggjandi sáttmálum. Hún segir jafnframt að brottvísun norrænna borgara samræmist ekki norrænum sáttmálum og tilskipun ESB um dvalarrétt. Í Danmörku sé vísað til lagahefðar þegar fjallað er um brottvísanir, en samkvæmt réttarþróun síðustu ára og áðurnefndum sáttmálum væri lagahefð ekki lagalega gild ástæða til brottvísunar.
    Af þeim tillögum sem samþykktar voru sem tilmæli hjá Norðurlandaráði á árinu 2010 voru átta frá borgara- og neytendanefnd. Það voru samnorræn sýn á stefnu ESB í neytendamálum (tilmæli 6/2010), brottvísun norrænna ríkisborgara (tilmæli 8/2010), túlkun á 7. gr. Norræna sáttmálans um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu (tilmæli 9/2010), afnám gjalda vegna millifærslna yfir landamæri (tilmæli 10/2010), norrænt samstarf í jafnréttismálum (tilmæli 14/2010), útvíkkun samstarfs um jafnréttismál (tilmæli 15/2010), samnorrænar lausnir á endurvinnslu og skilagjaldsskyldu á drykkjarumbúðum (tilmæli 16/2010) og samræming á skilagjaldskerfum á Norðurlöndum (tilmæli 17/2010).

Eftirlitsnefnd.
    Bjarni Benediktsson var fulltrúi Íslandsdeildar í eftirlitsnefnd Norðurlandaráðs árið 2010.
Eftirlitsnefndin fylgist fyrir hönd Norðurlandaráðsþings með starfsemi sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum Norðurlandanna. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Hluti af fastri starfsemi nefndarinnar er að fara yfir skýrslur dönsku ríkisendurskoðunarinnar um ársreikninga Norðurlandaráðs, Norrænu ráðherranefndarinnar og Norræna menningarsjóðsins.
    Helstu umfjöllunarefni eftirlitsnefndar árið 2010 voru eftirfylgni við eftirlit verkefna hjá Norrænu ráðherranefndinni, eftirfylgni við eftirlit með norrænum upplýsingaskrifstofum í Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi og hnattvæðingarverkefni Norrænu ráðherranefndarinnar.


5. Verðlaun Norðurlandaráðs.
    Verðlaun Norðurlandaráðs eru fern, þ.e. bókmenntaverðlaun, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun og kvikmyndaverðlaun. Þau eru að upphæð 350 þús. dkr.
    Verðlaunin fyrir árið 2010 voru afhent við hátíðlega athöfn í Íslensku óperunni 3. nóvember í tengslum við 62. þing Norðurlandaráðs í Reykjavík. Helgi Hjörvar, formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og forseti þess, bauð gesti velkomna. Hann þakkaði í ræðu sinni fyrir hönd Íslands fyrir þann mikla stuðning sem Norðurlöndin hefðu sýnt Íslandi í fjármálakreppunni, með fjármagni, ráðleggingum, reynslu og samstöðu. Helgi minnti á að í kreppum væri einnig að finna tækifæri og að nú væri tækifæri fyrir Íslendinga til að endurskoða gildi sín og forgangsröðun. Kynnar afhendingarinnar voru Charlotte Bøving og Bergþór Pálsson, en Helgi Hjörvar veitti verðlaun Norðurlandaráðs eftir kynningar fulltrúa dómnefnda. Þá komu fram við athöfnina hljómsveitin The Icelandic Wonderbrass og tónlistarmaðurinn Ragnheiður Gröndal, og var tónlistarflutningur þeirra glæsilegur. Athöfnin öll var vel skipulögð, fáguð og metnaðarfull undir fagmannlegri leikstjórn Selmu Björnsdóttur.

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs hefur verið úthlutað á hverju ári frá 1962. Þau eru veitt fyrir fagurbókmenntir sem skrifaðar eru á einu af norrænu tungumálunum. Til greina koma skáldsögur, leikrit, ljóða-, smásagna- eða ritgerðasöfn og önnur bókmenntaverk. Verðlaunaverkin skulu hafa til að bera mikið listrænt og bókmenntalegt gildi. Markmið verðlaunaveitingarinnar er að auka áhuga Norðurlandabúa á bókmenntum og tungumáli nágrannalandanna og á sameiginlegri menningararfleifð Norðurlanda.
    Finnska skáldkonan Sofi Oksanen fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2010 fyrir skáldsöguna Puhdistus (Hreinsun). Í sögunni fléttar hún með frjóu og auðugu tungumáli saman frásögn sem byggist á sögulegum viðburðum, hernámi Sovétmanna í Eistlandi, og áleitnu alþjóðlegu vandamáli – mansali á Eystrasaltssvæðinu. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Skáldsaga Sofi Oksanen, Hreinsun, gerist á tveimur ólíkum tímaskeiðum í sögu Eistlands, en viðfangsefni skáldsögunnar eru alls óháð tímanum; ást, svik, völd og valdleysi. Af mikilli næmi lýsir Oksanen því hvernig sögulegir atburðir móta einstaklinginn og skráir um leið söguna allt fram til samtímans.“

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs.
    Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs voru fyrst veitt árið 1965. Fram til ársins 1988 voru þau afhent annað hvert ár en frá 1990 hafa þau hins vegar verið veitt á ári hverju, annað árið til tónskálds og hitt árið til tónlistarflytjenda. Tónlistarverðlaununum er ætlað að vekja athygli á tónlistarsköpun og tónlistarflutningi sem telst hafa mikið listrænt gildi. Árið 2010 voru þau veitt tónskáldi og þema verðlaunanna var „Nýtt tónverk þar sem allir flytjendur hafa eigin rödd.“
    Norska tónskáldið og prófessorinn í tónsmíðum Lasse Thoresen hlaut tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2010 fyrir verkið Opus 42. Verkið er samsett úr fjórum raddverkum: Sólbæn, Jarðarfararsálmur, Himneski faðir og Tvítrall. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Opus 42 er einstakt verk. Það er ekki einungis framúrstefnulegt í norrænni raddtónlist heldur í allri raddaðri nótnasamsetningu. Opus 42 er einstaklega falleg tónlist, sem byggist á því sem sameinar forna og nýja tónlist, og sýnir okkur auk þess hvað er líkt með norrænni þjóðlagatónlist og tónlist frá til að mynda Miðausturlöndum eða Indlandi.“

Náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs var komið á fót árið 1995. Verðlaunin eru veitt fyrirtæki, stofnun, samtökum eða einstaklingi sem skilað hefur sérstöku framlagi til náttúru- og umhverfisverndar. Þema Náttúru- og umhverfisverðlaunanna 2010 var græn fjármagnsumsýsla, og skyldu veitt norrænu fyrirtæki, stofnun, fjölmiðli, félagasamtökum eða einstaklingi, sem verið hefði í fararbroddi og haft áhrif, beint eða óbeint, á fjármálamarkaðinn, fjárfestingarþjónustu, banka eða ráðgjafa í því augnamiði að vinna að langtímamarkmiðum og samþætta sjálfbærni (náttúru- og umhverfismál og samfélagsábyrgð) í fjármálaumsýslu.
    Náttúru- og umhverfisverðlaunin fóru til þriggja banka, danska bankans Merkur Andelskasse, norska bankans Ekobanken og sænska bankans Cultura Bank. Þeir hlutu verðlaunin fyrir græna og sjálfbæra stefnumótun. Það var í fyrsta skipti sem þrír aðilar deildu með sér verðlaununum. Í rökstuðningi dómnefndar sagði: „Bankarnir hafa verið í fararbroddi hvað varðar fjárfestingar í sjálfbærum verkefnum og byggja allt sitt starf á því. Öll starfsemi þeirra byggir á grænum gildum og þeir vinna að því að gera samfélagið sjálfbært. Þess vegna eru þeir fyrirmynd annarra aðila sem vinna við fjármálaumsýslu.“ Það var Kolbrún Halldórsdóttir sem kynnti verðlaunahafana á verðlaunaafhendingunni.

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð veitti kvikmyndaverðlaun í fyrsta sinn á 50 ára afmælisþingi sínu árið 2002. Frá 2005 hafa þau verið veitt árlega til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda og skipst jafnt milli þeirra. Til þess að hljóta verðlaunin verður viðkomandi að hafa gert kvikmynd sem á rætur í norrænni menningu og hefur til að bera listrænan frumleika og sameinar alla þætti myndarinnar í heilsteyptu verki.
    Danski kvikmyndaleikstjórinn Thomas Vinterberg, handritshöfundurinn Tobias Lindholm og framleiðandinn Morten Kaufmann hlutu kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2010 fyrir kvikmyndina Submarino. Dómnefnd verðlaunanna rökstuddi ákvörðun sína með eftirfarandi hætti: „Submarino er óvægin en jafnframt áhrifamikil saga tveggja bræðra sem tengjast vegna örlagaríkra atburða í æsku. Myndin fjallar um bræður sem axla ábyrgð fullorðinna og um hvernig barn fær félagslegar aðstæður í arf, en einnig um von um betri framtíð. Í myndinni er fjallað um þemu eins og áföll, sekt og sættir. Submarino er einfalt en jafnframt flókið listaverk, handritið er heilsteypt og leikstjórnin stílviss. Fínleg og þétt innri bygging sem gengur upp, nálægð í leiknum og snjöll notkun hljóðs og ljóss stuðla að því að skapa þessa áleitnu mynd af lífi fólks.“ Það var Sjón (Sigurjón Birgir Sigurðsson) sem kynnti verðlaunahafana á verðlaunaafhendingunni.

6. Sameiginlegir fundir Norðurlandaráðs.
    Norðurlandaráð kom saman til nefndafunda þrisvar sinnum árið 2010, í janúar, apríl og september, eins og það gerir að jafnaði. Markmiðið með fundunum er að vinna þær tillögur og þau mál sem lögð eru fyrir Norðurlandaráðsþing á haustin. Í tengslum við nefndafundina eru oft haldnir stuttir sameiginlegir fundir alls ráðsins þar sem tekin eru fyrir efni sem tengjast verksviðum nefnda, auk þess sem ein eða fleiri nefndir í samstarfi standa fyrir málstofum um málefni sem eru inni á borði einstakra nefnda.

Janúarfundir Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn.
    Janúarfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Kaupmannahöfn 26.–27. janúar. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Helgi Hjörvar, formaður, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Illugi Gunnarsson, Siv Friðleifsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ásmundur Einar Daðason, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál til umfjöllunar á fundunum voru formennskuáætlun Íslendinga í Norðurlandaráði 2010, formennskuáætlun Dana í Norrænu ráðherranefndinni 2010, jafnréttismál á Norðurlöndum, staða lánveitinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands og endurskoðun sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.
    Sameiginlegur fundur allra þingmanna ráðsins fjallaði um formennskuáætlun Íslendinga í Norðurlandaráði 2010, formennskuáætlun Dana í Norrænu ráðherranefndinni 2010 og jafnréttismál á Norðurlöndum. Helgi Hjörvar, forseti Norðurlandaráðs 2010, gerði grein fyrir helstu atriðum í formennskuáætlun Íslendinga. Þar nefndi hann baráttu gegn skipulagðri glæpastarfsemi, eftirfylgni Stoltenberg-skýrslunnar, efnahagslegt öryggi, endurnýjanlega orku, starfsáætlun Norðurlandaráðs gagnvart Evrópusambandinu og aðhald við endurskoðun sjávarútvegsstefnu sambandsins, auk innri málefna á borð við að vekja meiri athygli á 23. mars, undirritunardegi Helsinki-sáttmálans.
    Bertel Haarder, ráðherra norrænna samstarfsmála í Danmörku, kynnti formennskuáætlun Dana í Norrænu ráðherranefndinni árið 2010. Haarder nefndi áhersluþætti áætlunarinnar á borð við hnattvæðingu, efnahagskreppu, endurnýjanlega orku, jafnrétti og Stoltenberg-skýrsluna, og tók dæmi um landamærahindranir og skort á kunnáttu í norrænum tungumálum.
    Inger Støjberg, jafnréttismálaráðherra Danmerkur, kynnti jafnréttismálahluta formennskuáætlunar Dana og komandi fjögurra ára norræna samstarfsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál. Hún lagði í máli sínu áherslu á tvennt. Í fyrsta lagi áhrif efnahagskreppunnar á jafnréttismál, þ.e. að karlar verða frekar atvinnulausir, og í öðru lagi kynhlutverk og félagslegt taumhald í samfélögum innflytjenda sem geta verið ósveigjanleg fyrir bæði kyn.
    Helle Holt jafnréttismálafræðingur fjallaði um mismunandi staðsetningu kynjanna á vinnumarkaði. Hún sagði að konur ynnu frekar hjá hinu opinbera og karlar hjá einkafyrirtækjum, að karlar væru frekar í efra lagi atvinnulífsins og konur í því neðra, að konur sæktu sér frekar framhaldsmenntun og að karlar væru frekar ófaglærðir, að karlar fengju frekar hærri laun og að konur bæru meiri ábyrgð á heimilisrekstri.
    Sigríður Ingibjörg Ingadóttir tók til máls á fundinum og harmaði að umræðan um jafnréttismál væri sú sama og fyrir tæpum tuttugu árum. Hún sagði að róttækari hugmynda væri þörf.
    Staða lánveitinga Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands var til umfjöllunar á fundum flokkahópa, sameiginlega fundinum og á fundi forsætisnefndar. Alþingismenn kynntu málavexti Icesave-málsins á fundum sinna flokkahópa. Flokkahópur vinstrisósíalista og grænna sendi frá sér fréttatilkynningu þar sem hann hvatti ríkisstjórnir norrænu ríkjanna til að greiða þegar út þau lán sem búið væri að samþykkja að veita Íslendingum, og bíða ekki eftir að Icesave-deilan við Hollendinga og Breta leystist.
    Á sameiginlega fundinum spurði Siv Friðleifsdóttir Bertel Haarder um afstöðu Danmerkur til tengsla Icesave-málsins við aðra endurskoðun efnahagsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Íslands. Haarder svaraði því á þá leið að Danmörk liti svo á að Ísland þyrfti að standa við skuldbindingar sínar og um það væru hin norrænu löndin sammála. Honum fannst sárt að því hefði verið haldið fram að Danmörk drægi lappirnar í málinu, en sú væri ekki raunin því norrænu löndin væru sammála.
    Í framhaldi af því kvaðst færeyski þingmaðurinn Høgni Hoydal þeirrar skoðunar að norrænu löndin hefðu ekki staðist próf um norræna samstöðu í Icesave-málinu því þau hefðu valið að standa með Evrópusambandinu, Bretlandi og Hollandi. Augljóst væri að Ísland mundi standa við skuldbindingar sínar. Haarder svaraði og sagði að norrænu löndin fjögur hefðu verið mjög einhuga um að Íslandi bæri að standa við skuldbindingar sínar. Sú afstaða hefði ekki komið ríkisstjórn Íslands á óvart og að í orðum hans væri ekki finna afstöðu með Bretlandi og Hollandi.

Aprílfundir Norðurlandaráðs í Ósló.
    Aprílfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Ósló 13.–14. apríl. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Helgi Hjörvar, formaður, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Illugi Gunnarsson, Siv Friðleifsdóttir, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Ásmundur Einar Daðason, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál til umfjöllunar á fundunum voru sveigjanlegir vinnumarkaðir, nýsköpun, Helsinki-sáttmálinn, neytendavernd og val á forseta Norðurlandaráðs.
    Forsætisnefnd, velferðarnefnd og borgara- og neytendanefnd héldu sameiginlegan fund ásamt fulltrúum Eystrasaltsþingsins og Benelux-þingsins um sveigjanlega vinnumarkaði fyrir innflytjendur. Á fundinum fjallaði Baiba Rivza, formaður menntamála-, vísinda- og menningarmálanefndar Eystrasaltsþingsins, um svæðisbundna vinnu Eystrasaltsríkjanna við að auka stöðugleika og draga úr fólksflutningum frá löndunum, og auka menntun, vísindi og nýsköpun. Line Eldring, sérfræðingur hjá Fafo, óháðri norskri rannsóknamiðstöð, fjallaði um þróun flutninga launafólks til Norðurlanda eftir stækkun Evrópusambandsins árið 2004. Einnig fjallaði Bart Tommelein, forseti Benelux-þingsins, um reynslu Benelux-landanna, sérstaklega Lúxemborgar, af því að taka á móti launafólki frá öðrum löndum, til að mynda frá Portúgal, og stefnu yfirvalda um vinnuframlag launafólks af erlendum uppruna, en án þess framlags mundi efnahagur landsins hrynja.
    Menningar- og menntamálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og umhverfis- og náttúruauðlindanefnd héldu sameiginlegan fund um sjálfbæra nýsköpun og verðmætasköpun á Norðurlöndum. Á fundinum fluttu erindi Ivar H. Kristensen, framkvæmdastjóri norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar (NICe), um hvernig norrænt samstarf stuðlar að sjálfbærri verðmætasköpun, Michael Andersson, ráðgjafi hjá norræna rannsóknarráðinu (Nordforsk), um loftslagslíkön í norrænu samstarfi um öndvegisrannsóknir, Amund Vik, ráðgjafi hjá Norrænum orkurannsóknum (Nordisk energiforskning), um norræna raforkuveitu, og Elisabeth Ljunggren, ráðgjafi hjá rannsóknarstofnun Norðurlands í Noregi (Nordlandsforskning), um nýsköpun í matvæla- og ferðamannaiðnaði.
    Kjörnefnd hélt áfram umfjöllun um aðferð við val á kandídötum til forseta Norðurlandaráðs. Fyrir fundinum lá tillaga miðflokkahópsins um að landsdeild formennskulands skyldi velja forsetakandídat innan sinna vébanda, með þeim fyrirvara að forseti skyldi ekki koma úr röðum sama flokkahóps fleiri en tvö ár í röð. Ákveðið var að vísað tillögunni til flokkahópanna til umsagnar og að skrifstofa Norðurlandaráðs skyldi að því búnu gera drög að nefndaráliti. Lyktir málsins urðu þær að forsætisnefnd ákvað í júní að biðja landsdeildir ráðsins að taka tillit til skiptingar milli flokkahópa við val á kandídötum til forseta Norðurlandaráðs, þannig að fulltrúar úr sama flokkahóp gegni ekki starfi forseta lengur en tvö ár í röð. Þessari ósk skyldi kjörnefnd miðla til landsdeilda á hverju ári í aðdraganda að vali þeirra á forsetakandídat.

Septemberfundir Norðurlandaráðs í Malmö.
    Septemberfundir Norðurlandaráðs voru haldnir í Malmö 21.–22. september. Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs sóttu fundina Helgi Hjörvar, formaður og forseti Norðurlandaráðs, Álfheiður Ingadóttir, Ásmundur Einar Daðason og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara. Helstu mál á dagskrá voru aukið norrænt samstarf á sviði samfélagsöryggis, aukið norrænt samstarf á sviði fjármála, samnorræn rafræn skrá yfir lækna, tannlækna, hjúkrunarfræðinga og annað löggilt fagfólk í heilbrigðisþjónustu á Norðurlöndum og lífsgæði eldri borgara á Norðurlöndum.

7. 62. þing Norðurlandaráðs í Reykjavík.
    Sextugasta og annað þing Norðurlandaráðs var haldið í Reykjavík 2.–4. nóvember. Þingið, sem haldið er fimmta hvert ár á Íslandi, er helsta samkoma norræns samstarfs á ári hverju. Á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík komu saman 95 norrænir þingmenn, 34 norrænir ráðherrar, auk 14 þingmanna frá Eystrasaltsríkjunum og Rússlandi og 7 þingmanna frá Evrópu og Vestur-Norðurlöndum, sem voru gestir þingsins.
    Af hálfu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs tóku þátt í þinginu Helgi Hjörvar, formaður og forseti Norðurlandaráðs, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, varaforseti Norðurlandaráðs, Álfheiður Ingadóttir varaformaður, Árni Þór Sigurðsson, Ásmundur Einar Daðason, Bjarni Benediktsson, Margrét Tryggvadóttir og Siv Friðleifsdóttir, auk Lárusar Valgarðssonar ritara.
    Norðurlandaráðsþingið var haldið á Grand Hotel Reykjavik. Þar voru þingfundur þess, nefndafundir og fundir flokkahópa og landsdeilda, skrifstofur Norðurlandaráðs, landsdeilda og flokkahópa, prentsmiðja, aðstaða öryggisvarða, ræðuritara, túlka, tæknimanna, fréttamanna og þar voru blaðamannafundir, málsverðir, hliðarviðburður og kynning á norrænum stofnunum, verkefnum og viðburðum. Þá fóru nokkrir fundir fram á Hilton Reykjavik Nordica Hotel, auk hliðarviðburða og málsverða.
    Íslandsdeild Norðurlandaráðs og alþjóðadeild nefndasviðs unnu að skipulagningu og framkvæmd þingsins í nánu samstarfi við aðra starfsmenn Alþingis, skrifstofu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn og innlenda samstarfsaðila. Verkaskiptingin milli skrifstofu Alþingis og skrifstofu Norðurlandaráðs var á þá leið að Alþingi sá um skipulagningu, staðsetningu og útlit funda, öryggisgæslu, tækni, prentun, ferðir, afhendingu verðlauna Norðurlandaráðs og heildræna verklega framkvæmd, auk skrifstofuaðstöðu fyrir starfsmenn og blaðamenn, en Norðurlandaráð um stjórn þingfundar og nefndafunda og útgáfu þingskjala. Skipulag og framkvæmd þingsins tókst með ágætum.
    Helstu mál á Norðurlandaráðsþinginu í Reykjavík voru málþing um norrænt sambandsríki, leiðtogafundur norrænna forsætisráðherra um grænan hagvöxt, brottvísun norrænna ríkisborgara frá Norðurlöndum, gjöld á millifærslur fjármagns, umræða um öryggis- og varnarmál með þátttöku norrænu utanríkisráðherranna, verðlaun Norðurlandaráðs og kosning forseta Norðurlandaráðs fyrir árið 2011.
    Í aðdraganda Norðurlandaráðsþingsins, daginn áður og árdegis sama dag, voru haldnir fundir flokkahópa og nefnda og málþing um norrænt sambandsríki. Kveikjan að málþinginu var grein sænska sagnfræðingsins og samfélagsrýnisins Gunnars Wetterbergs í sænska dagblaðinu Dagens Nyheter sem birtist á meðan Norðurlandaráðsþing stóð yfir í Stokkhólmi í október 2009. Í henni lýsti Wetterberg hugmyndum sínum um sambandsríki norrænu ríkjanna. Greinin vakti mikla athygli, bæði meðal stjórnmálamanna og almennings, og var Wetterberg í framhaldi af því fenginn til að vera höfundar árbókar Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs árið 2010 um efnið. Í bókinni, sem kom út 1. nóvember, sama dag og málþingið var haldið, er farið yfir stjórnmálalega, hagfræðilega, sagnfræðilega og menningarlega þætti og rök í tengslum við norrænt sambandsríki. Wetterberg telur að Norðurlöndin geti myndað sambandsríki með sameiginlegri stjórnarskrá, stjórn, þingi og gjaldmiðli eftir 15–20 ár. Ein helstu rök Wetterbergs fyrir norrænu sambandsríki eru þau að það yrði ellefta stærsta hagkerfi heims miðað við tölur Alþjóðabankans yfir þjóðarframleiðslu ríkja heims árið 2008, stærra en það kanadíska og indverska og aðeins minna en það rússneska og spænska. Það mundi opna Norðurlöndum leið inn í G20 þar sem þau gætu fundað með stærstu og öflugustu ríkjum heims og þar með komið á framfæri sjónarmiðum sínum í öryggis-, umhverfis- og orkumálum.
    Málþingið sóttu um tvö hundruð stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og aðrir áhugamenn frá Norðurlöndunum og víðar og Gunnar Wetterberg var helsti frummælandi. Fundarstjóri var Clement Kjersgaard, stjórnandi umræðuþátta í danska ríkissjónvarpinu. Umræðurnar á málþinginu voru líflegar. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sem sat í pallborði, sagði að hugmyndin um norrænt sambandsríki væri fyrst og fremst gagnleg hugsunartilraun sem gæti varpað ljósi á gagnsemi þess að auka norrænt samstarf til muna. Hann benti á að fjármálakreppan gæti orðið til þess að auka vinsældir norræns samstarfs og styrkja norræna sjálfsvitund og sjálfstraust. Ólafur sagði að Ísland væri ekki aðeins í efnahagslegri kreppu heldur jafnframt í djúpstæðri stjórnmálakreppu. Til að ráða bót á því væri í auknum mæli horft til Norðurlanda varðandi fyrirmyndir. Sumir fundarmanna töldu að hugmyndir Wetterbergs væru áhugaverðar og skemmtilegar en óraunhæfar. Wetterberg varðist fimlega og fékk meðal annars stuðning frá dönsku þingmönnunum Bente Dahl og Line Barfod. Wetterberg benti á að ýmsar merkar umbótatillögur síðustu áratuga og alda hefðu verið taldar óraunhæfar í upphafi en hefðu engu að síður orðið að veruleika.
    Í skoðanakönnun sem gerð var af Oxford Research og birt stuttu fyrir Norðurlandaráðsþingið kom í ljós að 42 af hverjum 100 Norðurlandabúa eru jákvæðir eða mjög jákvæðir gagnvart því að sameina norrænu ríkin í norrænt sambandsríki. Það sem helst ræður því að norrænir borgarar taka vel hugmyndinni um sambandsríki er ósk þeirra um velferð til framtíðar og meiri áhrif Norðurlanda á alþjóðavettvangi. Hlutfall þeirra sem eru neikvæðir eða mjög neikvæðir gagnvart norrænu sambandsríki eru 58% og ástæðan er ótti við að missa nærlýðræði og sjálfsímynd þjóðar. Niðurstöður könnunarinnar sýna einnig að 78% Norðurlandabúa eru jákvæð eða mjög jákvæð í gagnvart norrænu samstarfi og 56% vill efla samstarfið enn frekar.
    Fyrsti dagur Norðurlandaráðsþingsins hófst með setningu, leiðtogafundi norrænna forsætisráðherra um grænan hagvöxt og kynningu á formennskuáætlun Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2011. Forseti Alþingis, Ásta R. Jóhannesdóttir, bauð þinggesti velkomna. Hún sagði í ræðu sinni að Norðurlandaráð, sem bráðum yrði 60 ára, og þau mál sem það hefði til umfjöllunar, væru í stöðugri framþróun. Á síðustu árum hefði aukin alþjóðahyggja einkennt starf ráðsins sem og áhersla á öryggis- og varnarmál í kjölfar Stoltenberg- skýrslunnar, loftslagsmál, málefni norðurskautsins og nú síðast norrænt sambandsríki.
    Helgi Hjörvar, forseti Norðurlandaráðs, hóf mál sitt með því að biðja fundargesti að minnast Jonathans Motzfeldts, fyrrverandi formanns grænlensku landsstjórnarinnar og þingforseta grænlenska þingsins, með einnar mínútu þögn. Helgi vék síðan í ræðu sinni að þeim mikla stuðningi sem norrænt samstarf hefði meðal almennings og meirihlutastuðningi við aukið norrænt samstarf. Slík viðhorf, sem nytu vafalaust stuðnings meðal stjórnmálamanna, mætti nýta til að hleypa enn meiri krafti í norræna samvinnu, til að mynda um öryggis- og varnarmál í kjölfar Stoltenberg-skýrslunnar og NB8-sérfræðingaskýrslunnar um samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna. Því bað hann norrænu ríkisstjórnirnar að íhuga hvort tímabært væri að formgera samstarf Norðurlanda í öryggis- og varnarmálum í norræna ráðherranefnd. Helgi sagði það einnig tímabært að íhuga að innleiða „opting out“ meginreglu í samstarfi landanna, það er að tiltekið land geti kosið að taka ekki þátt í meðferð tiltekins máls, þannig að fjögur eða þrjú lönd af fimm gætu fylgt máli eftir sem hefði gildi fyrir Norðurlönd án þess að eitt eða tvö lönd hindruðu framgang þess. Þá hvatti Helgi til umræðu á þinginu um brottvísun norrænna ríkisborgara frá Norðurlöndum í trássi við norræna samninga og lagði til að fjárhagsáætlanir um norrænt samstarf yrðu til fleiri en eins árs í einu.
    Þátttakendur á leiðtogafundi norrænu forsætisráðherranna um grænan hagvöxt voru allir forsætisráðherrar Norðurlandanna og sjálfstjórnarsvæðanna nema Grænlands þar sem Jens B. Frederiksen, varaformaður grænlensku landsstjórnarinnar Naalakkersuisut, kom í stað Kupiks Kleists, formanns hennar. Sá fundarliður hófst með því að ráðherrarnir héldu ræðu og að því loknu sátu þeir í pallborði og fulltrúar flokkahópa og aðrir þingmenn veittu ræðum þeirra andsvar, sem ráðherrarnir svöruðu.
    Forsætisráðherrarnir voru sammála um að grænn hagvöxtur, það er efnahagsvöxtur samhliða minni losun koltvísýrings, væri leiðin út úr fjármálakreppu samtímans og helsta svarið við viðfangsefnum hnattvæðingar þar sem hagvöxtur og umhverfisvernd geta farið saman. Nýta þyrfti betur umhverfistækni til að styrkja samkeppnisstöðu Norðurlandanna og halda ætti áfram uppbyggingu sameiginlegs norræns orkumarkaðar. Jafnframt ætti að leita betri orkulausna í byggingariðnaði og efla rannsóknir og nýsköpun. Í umræðunum á leiðtogafundinum kom fram gagnrýni á að forsætisráðherrarnir hefðu ekki haft nægilegt samráð við almenning um áætlanir um grænan hagvöxt. Þá var bent á að atvinnulífið skipti meginmáli ef áætlanir um grænan hagvöxt ættu að ganga eftir og einnig væri nauðsynlegt að fá stuðning sterkra og rótgróinna grasrótarsamtaka.
    Jóhanna Sigurðardóttir sagðist á leiðtogafundinum telja að umfjöllun á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar um græna hagkerfið væri afar mikilvæg og áherslan á grænan vöxt og velferð gerði okkur kleift að byggja á styrkleikum Norðurlandaþjóðanna. Norðurlöndin hefðu alla burði til að verða frumherjar í nýsköpun og þróun á grundvelli þessara gilda og gætu hugsanlega orðið reynslubanki og brautryðjendur sem aðrar þjóðir gætu litið til. Útvíkka ætti samstarfið á þessu sviði þannig að það skilaði sér til fyrirtækja í nýsköpun og til menntastofnana og rannsóknaraðila, hvort sem það væri á vegum hins opinbera eða á einkamarkaði. Dæmin væru fyrir hendi um mjög spennandi verkefni á sviði orkumála þar sem nýsköpun ætti sér stað á sviði grænnar orku og þar hefðu Íslendingar ýmislegt fram að færa. Ísland hefði til þessa einbeitt sér að orkugjöfum frá jarðhita og vatnsföllum en tilraunir stæðu nú yfir á virkjun sjávarfalla, endurvinnslu gróðurhúsalofttegunda og vinnslu eldsneytis með jarðhita. Þá hefði íslenskt fyrirtæki skipað sér í fremstu röð við að móta tækni sem bætir eldsneytisnýtingu.
    Mari Kiviniemi, forsætisráðherra Finnlands, kynnti eftir leiðtogafundinn formennskuáætlun Finnlands í Norrænu ráðherranefndinni árið 2011. Í áætluninni, sem nefnist „Græn Norðurlönd – brautryðjendur í loftslagsmálum“, er lögð áhersla á þrjú meginsvið: Í fyrsta lagi að vera í fararbroddi um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og stuðla að áframhaldandi starfi á því sviði, svæðisbundið og á alþjóðavettvangi, í öðru lagi að vinna áfram að hnattvæðingarverkefnum Norrænu ráðherranefndarinnar, þar á meðal stærsta verkefninu um norrænar öndvegisrannsóknir, þar sem er lögð áhersla á aðgerðir í loftslagsmálum, orkunýtingu og umhverfisvernd, og í þriðja lagi að styðja frjáls félagasamtök og hlúa að víðtæku grasrótarsamstarfi sem undirstöðu norræns samstarfs, virkja ungt fólk og efla norræna samkennd og tungumálaskilning.
    Annar dagur Norðurlandaráðsþingsins hófst með greinargerð danska samstarfsráðherrans Karen Ellemann um norrænt samstarf á árinu 2010, en Danir fóru með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni 2010, og almennum þingumræðum um norrænt samstarf í kjölfarið. Helgi Hjörvar þakkaði Ellemann sérstaklega fyrir greinargerð hennar um alþjóðlega samninga um skattaskjól og minnti á að baráttan gegn skipulagðri glæpastarfsemi væri eitt af þeim efnum sem almenningur á Norðurlöndum legði hvað mesta áherslu á varðandi norrænt samstarf. Ellemann upplýsti í ræðu sinni að Norðurlöndin og sjálfstjórnarsvæðin hefðu á árinu 2010 gert samninga við 18 ríki um veitingu upplýsinga og skattasamninga, og hefðu í heildina gert 27 slíka samninga, sem gerði það að verkum að Norðurlöndin væru í fararbroddi á þessu sviði.
    Mikil umræða var við almennu þingumræðurnar um brottvísun norrænna ríkisborgara frá Norðurlöndum vegna tveggja tillagna borgara- og neytendanefndar Norðurlandaráðs. Annars vegar tillögu um tilmæli til ríkisstjórnar Danmerkur um að hætta að vísa norrænum þegnum úr landi sem þarfnast félagslegrar aðstoðar, og um að túlka og beita 7. gr. norræna sáttmálans um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu á sama hátt og hin norrænu ríkin, þannig að öllum þegnum frá Norðurlöndum væru tryggð sömu réttindi. Hins vegar tillaga um tilmæli til ríkisstjórna Finnlands, Noregs, Íslands og Svíþjóðar að tilkynna dönskum stjórnvöldum að ákvörðun þeirra að senda heim norræna þegna sem þurfa á félagslegri aðstoð að halda sé áhyggjuefni og greinilega á skjön við túlkun hinna ríkjanna á samningum, og að hvetja Dani til að túlka áðurnefnda samningsgrein á sama hátt og Finnar, Íslendingar, Norðmenn og Svíar þannig að allir norrænir þegnar njóti sömu réttinda. Í 7. gr. norræna sáttmálans um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu frá 14. júní 1994 segir: „Norrænan ríkisborgara má ekki senda heim vegna þarfar hans fyrir félagslega aðstoð ef fjölskylduaðstæður hans, tengsl við það ríki sem hann dvelur í eða aðstæður að öðru leyti mæla með því að hann verði um kyrrt, og í engum tilvikum hafi hann búið með lögmætum hætti í landinu að minnsta kosti undanfarin þrjú ár.“
    Danski samstarfsráðherrann, Karen Ellemann, var gagnrýndur harðlega af þingmönnum Norðurlandaráðs í umræðunum en hún neitaði því að starfsvenjur í danskri stjórnsýslu brytu gegn sáttmálanum. Hún staðhæfði einnig að það hefði áður verið gert í Danmörku. Álfheiður Ingadóttir, sem var einn þeirra þingmanna sem gagnrýndi ráðherrann, lýsti yfir miklum vonbrigðum með ræðu hennar og sagði starfsvenju Dana hneyksli. Álfheiður vísaði til þess að þunguð íslensk kona með 4 ára barn og kærasta hefði þurft að draga til baka umsókn um félagslega aðstoð til að fá að dvelja áfram í landinu.
    Eftir hádegi á öðrum degi Norðurlandaráðsþings var fjallað um aukið utanríkis- og varnarsamstarf á Norðurlöndum. Lene Espersen, utanríkisráðherra Danmerkur, hafði framsögu fyrir hönd norrænu utanríkisráðherranna. Hún sagði að helstu verkefnin 2010 hefðu verið eftirfylgni Stoltenberg-skýrslunnar, norðurskautsmál, Eystrasaltsstefna ESB og NB8-sérfræðingaskýrslan. Utanríkisráðherrarnir höfðu á blaðamannafundi fyrr um daginn einnig lagt sérstaka áherslu á eftirfylgni tillögu í Stoltenberg-skýrslunni um aukið samstarf norrænna sendiráða. Alexander Stubb, utanríkisráðherra Finnlands, og Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, tóku við umræðuna upp tillögu 13 í Stoltenberg-skýrslunni um samstöðuyfirlýsingu milli Norðurlandanna og sögðu hana þurfa sérstakrar skoðunar við. Støre benti á að einstök lönd Norðurlandanna mynduðu formlegri samstöðu með löndum í Suðaustur-Evrópu innan ESB og NATO en með norrænum nágrönnum sínum. Helgi Hjörvar, Siv Friðleifsdóttir og Ólína Þorvarðardóttir, fyrir hönd Vestnorræna ráðsins, tóku þátt í umræðunum og lögðu áherslu á mikilvægi samfélagsöryggis til sjós og björgunarmál í Norðurhöfum. Árni Þór Sigurðsson tók undir þau sjónarmið og hvatti til þess að lögð yrði áhersla á umhverfis- og náttúruauðlindamál varðandi norðurskautið frekar en hernaðaruppbyggingu. Auk þess reifaði hann þá hugmynd að koma á fót fagnefnd um utanríkis- og öryggismál í Norðurlandaráði.
    Á þriðja degi Norðurlandaráðsþingsins voru umhverfi og auðlindir á dagskrá. Þar voru meðal annars samþykktar tvær tillögur umhverfis- og náttúruauðlindanefndar Norðurlandaráðs um loftslagsmál; annars vegar um að beina tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að skipa nefnd sérfræðinga til að kanna nýjar aðferðir í alþjóðlegu samstarfi sem leiði til víðtækra og skilvirkra aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um allan heim, að standa að ráðstefnu til að varpa ljósi á stjórntæki sem reynst hafa árangursrík til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á Norðurlöndum, og að unnin verði reglulega samantekt um nýjustu niðurstöður loftslagsrannsókna svo hægt verði að fylgjast með afleiðingum loftslagsbreytinga af mannavöldum. Hins vegar var tillaga um að beina tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda um að beita sér fyrir því að markmiðum Kaupmannahafnarsamkomulagsins (Copenhagen Accord) verði náð um fjármögnun Græna loftslagssjóðsins (Copenhagen Green Climate Fund) og REDD-áætlunarinnar og að efla samnorrænar aðgerðir innan ramma Norræna loftslagssjóðsins (Nordic Climate Facility).
    Eftir umræðu um umhverfi og auðlindir voru á dagskrá félags-, heilbrigðis- og jafnréttismál. Siv Friðleifsdóttir, formaður velferðarnefndar Norðurlandaráðs, mælti fyrir tveimur tillögum sem velferðarnefnd hafði afgreitt; annars vegar um hvernig skapa megi góð lífsskilyrði fyrir aldraða á Norðurlöndum og hins vegar um sameiginlega norræna rafræna skrá yfir lækna, tannlækna og annað löggilt fagfólk á heilbrigðissviði á Norðurlöndum. Báðar tillögurnar voru samþykktar.
    Þá urðu kröftugar umræður milli flokkahópa hægri manna og vinstrisósíalista og grænna um tillögu efnahags- og viðskiptanefndar um að leggja gjöld á millifærslur fjármagns, svokallaðan Tobin-skatt. Svo fór að þingfundurinn samþykkti að beina tilmælum til Norrænu ráðherranefndarinnar um að norrænu ríkin vinni saman að því að innleiða almenn gjöld á millifærslur fjármagns milli ríkja í Evrópu og um allan heim. Í framhaldi af því voru einnig samþykkt tilmæli um sameiginlegan viðbúnað við hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni, þar sem tilmælum var beint til ríkisstjórna Norðurlanda um að norrænu fjármálaráðherrarnir ynnu saman að viðbúnaði til að takast á við fjármálakreppur í framtíðinni.
    Í lok Norðurlandaráðsþingsins var Daninn Henrik Dam Kristensen einróma kjörinn forseti Norðurlandaráðs árið 2011 og Marion Pedersen varaforseti, en Danmörk fer með formennsku í Norðurlandaráði árið 2011. Henrik Dam þakkaði í ræðu eftir kjörið fyrir traustið sem Norðurlandaráð hefði sýnt honum og sagði að hann og Marion Pedersen hlökkuðu til að halda áfram hinu góða starfi þáverandi forseta, Helga Hjörvar. Hann sagði enn fremur að hann vildi í forsetatíð sinni leggja áherslu á að Norðurlandaráð brygðist fljótt við og gæfi út yfirlýsingar um þau málefni sem væru efst á baugi hverju sinni og snertu norræna borgara. Þá nefndi Henrik Dam önnur málefni sem hann vildi setja á dagskrá ráðsins á árinu: neytendamál, stjórnsýsluhindranir, hnattvæðingarverkefni, hagvöxt og samkeppnishæfni og skýra framsetningu fjárhagsáætlunar Norrænu ráðherranefndarinnar.
    Að lokum hélt Helgi Hjörvar ræðu og þakkaði við það tækifæri starfsfólki Alþingis, Congress Reykjavik og Sense, auk annarra sem störfuðu við Norðurlandaráðsþingið. Að svo búnu sleit hann þinginu.
    Næsta þing Norðurlandaráðs verður í Kaupmannahöfn 1.–3. nóvember 2011.
    
8. Starfsáætlun og áherslur Norðurlandaráðs árið 2011.
    Norðurlandaráð hefur rammaáætlun, „Norðurlönd í heiminum – heimurinn á Norðurlöndum“, til lengri tíma. Að auki gerir formennskuland ráðsins áætlun fyrir hvert ár í einu, og einnig gera fagnefndir sínar starfsáætlanir fyrir hvert ár. Samkvæmt rammaáætlun ráðsins eru markmið þess að styrkja norrænu velferðina, að hafa áhrif á hnattvæðinguna, að auka hreyfanleika á Norðurlöndum, að bæta hafsumhverfi, að móta viðfangsefni Norðlægu víddarinnar og að stuðla að skilvirkara norrænu tungumálasamstarfi.
    Danmörk gegnir formennsku í Norðurlandaráði 2011. Formennskuáætlun Dana var kynnt á sameiginlegum fundi þingmanna á janúarfundum Norðurlandaráðs í Esbo 25. janúar 2011 af Henrik Dam Kristensen, forseta Norðurlandaráðs. Formennskuáætlunin hefur þrjár megináherslur; samstöðu Norðurlanda í Evrópusamstarfi, sameiginlega sýn í málefnum Norðurskautsins og hraðara ákvörðunarferli í norrænu samstarfi.
    Samstaða Norðurlanda í Evrópumálum snýr að vaxandi þörf fyrir svæðisbundið samstarf milli landa með sameiginlegar hefðir og menningu þegar fjöldi aðildarlanda sambandsins nálgast þriðja tuginn. Norðurlandaráði beri að vekja athygli á málum þar sem Norðurlöndin hafa sameiginlega stefnu svo þau geti haldið þeim á lofti gagnvart ráðherraráði ESB, Evrópuþinginu og framkvæmdastjórn ESB. Þá beri að styrkja lagasamstarf Norðurlanda til að koma í veg fyrir að innleiðingar ESB-tilskipana í einstökum löndum verði til trafala fyrir nágrannaríkin.
    Sameiginleg sýn í málefnum norðurskautsins fjallar um sameiginlega áherslu á viðbragðsáætlanir vegna leitar- og björgunaraðgerða þegar slys verða á höfunum og umhverfisvá skapast og um samvinnu við þingmannasamtök og frjáls félagasamtök um að tryggja sjálfbæra þróun á norðurslóðum.
    Hraðara ákvörðunarferli í norrænu samstarfi beinist að því að Norðurlandaráð beri að bregðast hraðar við með sterkari röddu við pólitískum málefnum líðandi stundar og eigi ekki að vera of bundið fastmótuðum vinnuferlum og fundartímum nefnda. Skapa beri umgjörð til framtíðar um hraðari þátttöku í stjórnmálaumræðu dagsins, bæði fyrir Norðurlandaráð og Norrænu ráðherranefndina.

Alþingi, 11. mars 2011.



Helgi Hjörvar,


form.


Álfheiður Ingadóttir,           varaform.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Siv Friðleifsdóttir.


Bjarni Benediktsson.


Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.



Ásmundur Einar Daðason.






Fylgiskjal I.


Tilmæli Norðurlandaráðs árið 2010.


Tilmæli samþykkt af forsætisnefnd janúar – október 2010.
          Tilmæli 1/2010: Rannsókn á hættulegum efnum og efnasamböndum og samningur um þungmálma (A 1466/miljø).
          Tilmæli 2/2010: Innkaupastefna án hættulegra efna og alþjóðleg vísindanefnd um efni (A 1466/miljø).
          Tilmæli 3/2010: Útivistarlíf barna og ungmenna (A 1476/miljö).
          Tilmæli 4/2010: Frekari þróun Norræna rannsókna- og nýsköpunarsvæðisins – NORIA (A 1495/näring).
          Tilmæli 5/2010: Norræn menningarhátíð verði sett á laggirnar (A 1487/kultur).
          Tilmæli 6/2010: Samnorræn sýn á stefnu ESB í neytendamálum (A 1507/medborger).

Tilmæli samþykkt á 62. þingi Norðurlandaráðs.
          Tilmæli 7/2010: Verkefna- og fjárhagsáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar 2011 (B 266/presidiet).
          Tilmæli 8/2010: Brottvísun norrænna ríkisborgara (A 1515/medborger).
          Tilmæli 9/2010 Túlkun á 7. gr. Norræna sáttmálans (A 1515/medborger).
          Tilmæli 10/2010: Afnám gjalda vegna millifærslna yfir landamæri (A 1486/medborger).
          Tilmæli 11/2010: Áætlun um aðgerðir Norrænu ráðherranefndarinnar í málefnum Hvíta- Rússlands 2011–2012 (B 265/presidiet).
          Tilmæli 12/2010 Norræn Arte-sjónvarpsrás (A 1519/kultur).
          Tilmæli 13/2010 Eflt norrænt samstarf um samfélagsöryggi (A 1503/presidiet).
          Tilmæli 14/2010: Norrænt samstarf í jafnréttismálum (B 268/medborger).
          Tilmæli 15/2010: Að víkka út samstarf um jafnréttismál (A 1494/medborger).
          Tilmæli 16/2010: Samnorrænar lausnir á endurvinnslu og skilagjaldsskyldu á drykkjarumbúðum (A1516/medborger).
          Tilmæli 17/2010: Samræming á skilagjaldskerfum á Norðurlöndum (A 1516/medborger).
          Tilmæli 18/2010: Norræn stefna um landbúnað og skógrækt (A 1483/miljö).
          Tilmæli 19/2010: Norrænar aðgerðir í loftslagsmálum (A 1512/miljø).
          Tilmæli 20/2010: Eftirfylgni Kaupmannahafnarsamkomulagsins (A 1513/miljø).
          Tilmæli 21/2010: Norræn framleiðsla á endurnýjanlegri orku (A 1518/næring).
          Tilmæli 22/2010: Samnorræn áætlun til að stöðva útbreiðslu marðarhundarins (A 1499/ miljö).
          Tilmæli 23/2010: Samstarfsáætlun á sviði menntamála og rannsókna 2011–2013 (B 267/ kultur).
          Tilmæli 24/2010: Sköpun, nýsköpun og frumkvöðlamenntun (A 1498/kultur).
          Tilmæli 25/2010: Atvinnumál og færni ungs fólks (A 1497/kultur).
          Tilmæli 26/2010: Lífsgæði aldraðra á Norðurlöndum (A 1509/velferd).
          Tilmæli 27/2010: Norræn aðgerðaáætlun varðandi sjaldgæfa sjúkdóma (A 1514/velferd).
          Tilmæli 28/2010: Samnorræn rafræn skrá yfir löggilt fagfólk í heilbrigðisstétt (A 1506/ velferd).
          Tilmæli 29/2010: Norræn nýsköpunarmiðstöð lýðheilsu við Norræna lýðháskólann og norrænt stórátak, Öndvegisrannsóknir II (A 1505/velferd).
          Tilmæli 30/2010: Norrænt framtaksverkefni um að leggja gjöld á millifærslur fjármagns (A 1502/näring).
          Tilmæli 31/2010: Sameiginlegur viðbúnaður við hugsanlegum fjármálakreppum í framtíðinni (A 1502/näring).
          Tilmæli 32/2010: Ráðstefna um framleiðslu á hollum matvælum (A 1517/näring).



Fylgiskjal II.


Formennskuáætlun Íslands í Norðurlandaráði 2010.

Formáli
    Á 61. þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi 2009 var Helgi Hjörvar kosinn forseti Norðurlandaráðs fyrir árið 2010.
    Á sama þingi var Illugi Gunnarsson kosinn varaforseti Norðurlandaráðs árið 2010.
    Nýr forseti og varaforseti þakka traustið sem ráðið sýnir þeim og lýsa því yfir að norrænt samstarf sé sérstaklega mikilvægt nú á tímum áskorana í alþjóðlegu umhverfi sem og þróunar norrænna velferðarsamfélaga.
    Í forustu í Norðurlandaráði vilja þeir, með stuðningi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs og í samvinnu við ráðið allt, leggja sitt af mörkum til að starfsemi ráðsins verði með sem árangursríkustum hætti árið 2010.
    Þess vegna kynna þeir áætlun um áhersluatriði sín á formennskutímanum. Áætlunin byggist á langtímaáætlun Norðurlandaráðs „Norðurlönd í heiminum – heimurinn á Norðurlöndum“ og fylgir eftir góðu fordæmi formennskuáætlunar Svía í ráðinu árið 2009.
    Íslensku formennskuáætluninni má skipta í þrjá hluta, auk kafla um innri málefni ráðsins. Í öllum hlutum áætlunarinnar er hnattvæðingin, sem það umhverfi og aðstæður sem Norðurlöndin búa við, innbyggð. Hlutar formennskuáætlunarinnar eru:
     1.      Öryggi, velferð og menning
     2.      Haf, loftslag og orka
     3.      Alþjóðleg tengsl

1. Öryggi, velferð og menning
    Norrænt samstarf byggist á samtvinnaðri sögu, pólitík og menningu, þar á meðal tungumálum.

Framtíðarsýn
    Framtíðarsýn okkar er að Norðurlandabúar búi við öryggi og velferð í norrænu lýðræðissamfélagi og að þekking þeirra í norrænum tungumálum viðhaldist.

Aðgerðir
    Á formennskuárinu viljum við:
     *      berjast gegn alþjóðlegri glæpastarfsemi, þar á meðal mansali og starfsemi glæpasamtaka
     *      fylgja eftir Stoltenberg-skýrslunni með áherslu á samfélagsöryggi og borgaralegt öryggi, þar með talið á Norður-Atlantshafi og við norðurskaut
     *      stuðla að velferð Norðurlandabúa, þar á meðal íbúa strandsamfélaga og nýrra Norðurlandabúa, og stuðla að umfjöllun um áhrif loftslagsbreytinga, nýrra siglingaleiða og aukinnar hættu á umhverfis- og farþegaslysum á strandsamfélög
     *      stuðla að umfjöllun um að Norðurlönd verði áfram í fremstu röð í jafnréttismálum
     *      fylgja eftir Yfirlýsingu um norræna tungumálastefnu
     *      stuðla að efnahagslegu öryggi, meðal annars með því að stuðla að umfjöllun um hvaða lærdóm má draga af fjármálakreppum á Norðurlöndum
     *      fylgja eftir vinnu gegn landamærahindrunum

2. Haf, loftslag og orka
    Hafið, loftslagsmál og orka eru mikilvægir þættir norrænna umhverfismála.

Framtíðarsýn
    Framtíðarsýn okkar er að umgengni við hafið og strandhéruð sé með sem umhverfislega ábyrgustum hætti, að baráttan gegn loftslagsbreytingum sé alþjóðlegt verkefni og að leitast sé við að nota endurnýjanlega orkugjafa.

Aðgerðir
    Á formennskuárinu viljum við:
     *      stuðla að bættu umhverfi norrænna hafa
     *      fylgjast með og hafa áhrif á uppfærslu fiskveiðistefnu ESB
     *      fylgja eftir niðurstöðu Kaupmannahafnarfundar Sþ um loftslagsmál
     *      stuðla að rannsóknum og nýtingu á endurnýjanlegri orku

3. Alþjóðleg tengsl
    Norðurlöndin eiga sess og hlutverk í alþjóðasamfélagi og alþjóðasamstarfi.

Framtíðarsýn
    Framtíðarsýn okkar er að Norðurlandaráð hafi áhrif á umfjöllunarefni og málsmeðferð í alþjóðasamstarfi um mál sem snerta samnorræn málefni.

Aðgerðir
    Á formennskuárinu viljum við:
     *      rækta tengsl okkar og samstarf á nærsvæðum til vesturs og austurs og við þingmannasamtök þar, meðal annars við Þingmannaráðstefnuna um norðurskautsmál, Vestnorræna ráðið, Bresk-írska þingið, Eystrasaltsþingið, þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins, Þingmannasamtök Norðvestur-Rússlands, Rússneska sambandsráðið, Dúmuna, stjórnmálamenn í Hvíta-Rússlandi og Þingmannaráðstefnu Barentshafsins, ásamt Sambandi norrænu félaganna á Norðurlöndum og samtökum frumbyggja þar
     *      fylgja eftir aðgerðaáætlun Norðurlandaráðs gagnvart Evrópusambandinu
     *      stuðla að jákvæðri ímynd Norðurlandanna í hnattvæddum heimi

Innri málefni
    Norrænt samstarf er lifandi, nýtur stuðnings almennings og hefur áhrif á daglegt líf norrænna borgara.

Framtíðarsýn
    Framtíðarsýn okkar er að norrænt samstarf eigi erindi við almenning, sé skýrt og aðgengilegt.

Aðgerðir
    Á formennskuárinu viljum við:
     *      efla tengsl Norðurlandaráðs við þjóðþingin og auka eftirfylgni tilmæla ráðsins
     *      stuðla að því að gera veg dags Norðurlandanna 23. mars meiri, í því markmiði að vekja athygli     á Norðurlöndum og norrænni samvinnu
     *      stuðla að nútímalegu Norðurlandaráði og norrænu samstarfi