Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 611. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1034  —  611. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2010.

1. Inngangur.
    Starfsemi NATO-þingsins árið 2010 einkenndist öðru fremur af umræðu um aðgerð NATO í Afganistan sem er sú umfangsmesta í sögu bandalagsins. Verkefnið í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan (ISAF) hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst 2003, en síðan þá hefur aðgerðum NATO utan Evró-Atlantshafssvæðisins fjölgað stórlega. Þingmönnum varð tíðrætt um margvísleg og erfið vandamál sem bandalagið þarf að leysa í tengslum við það stóra verkefni. Samstarf við afganska þjóðarherinn var áberandi í umræðunni auk mikilvægis þess að aðildarríki NATO sendi borgaralega sérfræðinga, eins og verkfræðinga og hjúkrunarfræðinga, til að endurreisa samfélagið. Þá létu þingmenn í ljós áhyggjur af minnkandi stuðningi almennings við NATO í mörgum aðildarríkjum, einkum í Evrópu við aðgerðum bandalagsins í Afganistan. En líta má svo á að verkefnið í Afganistan sé prófsteinn á getu bandalagsins til þess að takast á við nýjar ógnir og öryggisumhverfi.
    Þá ber að nefna umræðu um samskipti NATO við Rússland sem var áberandi á árinu. Samskipti NATO og Rússlands kólnuðu árið 2008, ekki síst í kjölfar hernaðaraðgerða Rússa í Georgíu í ágúst það ár. Í kjölfarið var fundum í NATO-Rússlandsráðinu frestað um ótiltekinn tíma. Einnig var brugðist við átökunum á ársfundi NATO-þingsins 2008 með breyttu samstarfi við Rússa. Á árinu 2010 rofaði til í samskiptum NATO og Rússlands og var umræða um aukið mikilvægi þess að stuðla að auknu og skipulögðu samstarfi gegn sameiginlegum öryggisógnum eins og alþjóðlegum hryðjuverkum, kjarnorkuvopnun, sjóránum og tölvuóöryggi fyrirferðarmikil. Enn fremur var horft til þess að NATO og stjórn Obama Bandaríkjaforseta hafa unnið að því að nálgast Rússland og laga samskiptin eftir átökin í Georgíu. Því var talið tímabært að aflétta hluta af þeim takmörkunum sem settar voru á aðkomu rússneskra þingmanna að starfi NATO-þingsins í kjölfar átaka Rússlands og Georgíu.
    Jafnframt fór fram umræða um málefni norðurslóða í ljósi aukins áhuga alþjóðasamfélagsins á svæðinu en Ragnheiður E. Árnadóttir er höfundur skýrslu varnar- og öryggismálanefndar um öryggismál á norðurslóðum og hlutverk NATO á svæðinu. Í skýrslunni leggur Ragnheiður áherslu á að NATO hafi hlutverki að gegna á norðurslóðum, enda teljist fimm aðildarríki NATO til norðurskautsríkja og bandalagið þurfi því að auka þekkingu og skilning á málefnum svæðisins. Í umræðunni var lögð áhersla á mikilvægi þess að norðurslóðir verði vettvangur friðsamlegrar samvinnu, ekki síst í ljósi þeirra öryggisáskorana sem blasa við á svæðinu. Þá sé mikilvægt að NATO styðji við þær svæðisbundnu alþjóðastofnanir og samtök sem eru nú þegar til staðar. Einnig var lögð áhersla á mikilvægi þess að NATO útfærði nánar á hvaða sviði það hefði eiginlegu hlutverki að gegna á svæðinu og hvað væri á sviði annarra alþjóðastofnana.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar á árinu má nefna framlag NATO- þingsins til mótunar nýrrar grundvallarstefnu Atlantshafsbandalagsins en breytt öryggisumhverfi bandalagsins og stórauknar aðgerðir utan hefðbundins varnarsvæðis hafa einkum verið nefnd sem ástæður fyrir endurskoðun grundvallarstefnu bandalagsins. Ljóst er að NATO stendur frammi fyrir erfiðum verkefnum í breyttu landslagi alþjóðasamfélagsins sem felur í sér tækifæri jafnt sem áskoranir. Enn fremur fór fram umræða um samheldni NATO, samskipti NATO við ríki utan bandalagsins, fjármálakreppu heimsins, útbreiðslu gereyðingarvopna, kjarnorkuvopn Bandaríkjamanna í Evrópu og öryggismál á hafsvæðum með áherslu á hlutverk og samræmingu NATO og Evrópusambandsins (ESB).

2. Almennt um NATO-þingið.
    NATO-þingið er þingmannasamtök sem hafa allt frá árinu 1954 verið vettvangur þingmanna aðildarríkja NATO til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO-þingsins fjölgað ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem orðið hafa í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Tíu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu (auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands) sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í ríkjum Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose- Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Hlutverk og starfssvið þingsins.
    Í Atlantshafssáttmálanum 1949 var ekki gert ráð fyrir þinglegri ráðgjafarsamkundu en með tímanum óx þeirri skoðun fylgi að nauðsyn væri á skipulegu samstarfi þjóðþinga í tengslum við og til stuðnings NATO. Þingið hefur ekki formlega stöðu innan bandalagsins en smám saman hefur komist á náin og virk samvinna stofnananna. Meginhlutverk þingsins er að efla samstöðu og samráð þjóðþinga á sviði öryggis- og varnarmála. Þingið kemur saman tvisvar á ári, til vorfundar og ársfundar að hausti.
    Starfsemi þingsins fer að mestu fram í fimm málefnanefndum: stjórnmálanefnd, varnar- og öryggismálanefnd, efnahagsnefnd, vísinda- og tækninefnd og nefnd um borgaralegt öryggi. Auk þess fer mikið starf fram á vegum Miðjarðarhafshópsins sem þó hefur ekki stöðu formlegrar málefnanefndar. Þessar nefndir eru meginvettvangur umræðna. þær fjalla um samtímamál er koma upp á starfssviði þeirra og vinna um þær skýrslur. Nefndarálit eru oftast sett fram í formi tilmæla, yfirlýsinga eða ályktana sem nefndin samþykkir og þingið greiðir síðan atkvæði um. Tilmælum er beint til Norður- Atlantshafsráðsins, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan NATO, og í þeim er hvatt til tiltekinna aðgerða. Ályktunum þingsins er hins vegar beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna.
    Þótt þingið sé óháð NATO hafa samskipti þingsins við bandalagið smám saman tekið á sig fastara form. Á meðal formlegra samskipta má í fyrsta lagi nefna formleg svör við tilmælum þingsins af hálfu framkvæmdastjóra bandalagsins fyrir hönd Norður-Atlantshafsráðsins. Í öðru lagi flytur framkvæmdastjóri bandalagsins ávarp á vorfundum og ársfundum NATO- þingsins og svarar fyrirspurnum þingmanna. Í þriðja lagi koma stjórnarnefnd NATO-þingsins og Norður-Atlantshafsráðið árlega saman til fundar í höfuðstöðvum NATO í Brussel. Að lokum skal nefndur sameiginlegur fundur þriggja nefnda NATO-þingsins í Brussel í febrúarmánuði ár hvert til að greiða fyrir samskiptum við starfsmenn og embættismenn NATO, SHAPE (Supreme Headquarters Allied Powers in Europe – æðstu bækistöðvar bandamanna í Evrópu) og Evrópusambandsins.

Fulltrúar á NATO-þinginu og forustumenn þess.
    Á NATO-þinginu eiga sæti 257 þingmenn frá aðildarríkjunum 28. Fjöldi fulltrúa frá hverju landi ræðst að mestu af fólksfjölda. Stærsta sendinefndin er sú bandaríska með 36 þingmenn en Ísland er í hópi þeirra smæstu með þrjá þingmenn. Auk fulltrúanna má hvert þjóðþing tilnefna jafnmarga varamenn sem mega taka þátt í störfum þingsins en hafa ekki atkvæðisrétt. Ráðherrar í ríkisstjórnum mega ekki vera fulltrúar á NATO-þinginu. Alls eiga 66 þingmenn frá 14 aukaaðildarríkjum sæti á NATO-þinginu og taka þeir þátt í nefndarfundum, utan funda stjórnarnefndar, og þingfundum en hafa ekki atkvæðisrétt. Þeir hafa þó rétt til þess að leggja fram breytingartillögur.
    Forustumenn þingsins eru sjö og eru sex þeirra, forseti og fimm varaforsetar, kjörnir ár hvert af fulltrúum á þingfundi. Sjöundi embættismaðurinn er gjaldkerinn en hann kýs stjórnarnefndin annað hvert ár. NATO-þinginu er stjórnað af stjórnarnefnd en í henni eiga sæti forseti, varaforsetar, gjaldkeri og nefndarformenn auk formanna allra landsdeilda aðildarríkja NATO.

3. Íslandsdeild NATO-þingsins og starfsemi hennar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2010 Björgvin G. Sigurðsson formaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Ragnheiður E. Árnadóttir varaformaður, þingflokki Sjálfstæðisflokks og Birgitta Jónsdóttir, þingflokki Hreyfingarinnar. Varamenn voru Skúli Helgason, þingflokki Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Íslandsdeildin hélt undirbúningsfundi fyrir ársfundi NATO-þingsins.
    Skipting Íslandsdeildar í nefndir árið 2010 var þannig:

         Stjórnarnefnd:
Björgvin G. Sigurðsson
              Til vara: Ragnheiður E. Árnadóttir
         Stjórnmálanefnd: Björgvin G. Sigurðsson
              Til vara: Skúli Helgason
         Varnar- og öryggismálanefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir
              Til vara: Birgir Ármannsson
         Nefnd um borgaralegt öryggi: Birgitta Jónsdóttir
              Til vara: Ólína Þorvarðardóttir
         Efnahagsnefnd: Ragnheiður E. Árnadóttir
              Til vara: Birgir Ármannsson
         Vísinda- og tækninefnd: Björgvin G. Sigurðsson
              Til vara: Skúli Helgason

    Á ársfundi NATO-þingsins í Reykjavík í október 2007 var Ragnheiður E. Árnadóttir valin skýrsluhöfundur undirnefndar um öryggis- og varnarsamstarf yfir Atlantsála sem er önnur af tveimur undirnefndum varnar- og öryggismálanefndar. Hlutverk skýrsluhöfundar er að taka saman skýrslu um það málefni sem undirnefndin kýs að taka til sérstakrar skoðunar og leggja fram drög að ályktun um málið á fundi varnar- og öryggismálanefndar sem síðar fer fyrir þingfund NATO-þingsins. Ragnheiður gegndi starfi skýrsluhöfundar á starfsárinu 2010 og kynnti skýrslu á ársfundi NATO-þingsins (sjá nánar umfjöllun um ársfund) um öryggismál á norðurskautssvæðinu og hvort NATO hafi þar hlutverki að gegna. Þá var Ragnheiður kjörin varaformaður annarrar undirnefndar varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins, þ.e. um öryggismál framtíðar og varnargetu (e. Future Security and Defence Capabilities).

4. Fundir NATO-þingsins.
    NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður- Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Enn fremur kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars ár hvert. Þá sækir fjöldi NATO-þingmanna árlegan fund um Atlantshafssamstarfið sem fram fer í desember í samstarfi NATO-þingsins og bandaríska Atlantshafsráðsins. Loks halda nefndir og undirnefndir þingsins reglulega málstofur og fundi á milli þingfunda.
    Árið 2010 tók Íslandsdeildin þátt í febrúarfundunum í Brussel, stjórnarnefndarfundi í Memphis og ársfundi í Varsjá. Hér á eftir fylgja frásagnir í tímaröð af fundum sem Íslandsdeildin sótti á árinu.

Febrúarfundir.
    Dagana 14.–16. febrúar var efnt til svonefndra febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar. Fyrirkomulag fundanna var með hefðbundnum hætti, þ.e. sérfræðingar, embættismenn og herforingjar Atlantshafsbandalagsins héldu erindi um afmörkuð málefni og svöruðu spurningum þingmanna. Nefndirnar áttu einnig fund með fulltrúum framkvæmdastjórnar ESB. Þá fór fram árlegur fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins með Norður-Atlantshafsráðinu í höfuðstöðvum NATO. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti Ragnheiður E. Árnadóttir fundina auk Örnu Gerðar Bang ritara.
    Á meðal fyrirlesara var Robert Simmons, aðstoðarframkvæmdastjóri NATO á sviði pólitískrar stefnumótunar. Hann gerði grein fyrir pólitískri stefnu NATO og helstu áhersluatriðum hennar. Hann sagði NATO standa frammi fyrir erfiðum og krefjandi verkefnum í breyttu landslagi alþjóðasamfélagsins sem fæli í sér tækifæri jafnt sem áskoranir. Simmons skýrði m.a. frá framvindu mála í Afganistan og þeim margvíslegu og erfiðu vandamálum sem bandalagið þarf að leysa í tengslum við það stóra verkefni.
    Þá ræddi Simmons ítarlega um samskipti NATO og Rússlands en heldur hefur kólnað í samstarfinu á síðustu þremur árum og þó einkum í kjölfar hernaðaraðgerða Rússa í Georgíu í ágúst 2008. Aukin harka í utanríkisstefnu Rússlands hefur verið áhyggjuefni en þó virðist vera að rofa til í samskiptum NATO og Rússlands. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að stuðla að auknu og skipulögðu samstarfi gegn sameiginlegum öryggisógnum eins og alþjóðlegum hryðjuverkum, kjarnorkuvopnun, sjóránum og tölvuóöryggi. Simmons ræddi enn fremur um samskipti NATO og Evrópusambandsins sem hann sagði hafa þróast í jákvæða átt undanfarin ár og brýnt væri að sú þróun héldi áfram. Það hefði til að mynda sýnt sig í tengslum við stríðið í Georgíu að NATO og ESB gætu unnið saman að lausn mikilvægra mála.
    Jamie Shea, framkvæmdastjóri stefnumótunar hjá NATO, flutti fyrirlestur um grundvallarstefnu bandalagsins og fór yfir stöðu mála varðandi vinnu við mótun nýrrar grundvallarstefnu. Breytt öryggisumhverfi bandalagsins og stórauknar aðgerðir utan hefðbundins varnarsvæðis hefur einkum verið nefnt sem ástæða fyrir slíkri endurskoðun. Fulltrúar NATO-þingsins voru boðaðir til kvöldverðarfundar með ráðgjafahópi Madeleine Albright, sem leiðir vinnu stefnumótunarinnar, til að ræða efnistök og áhersluatriði. Skýrsla ráðgjafahópsins var kynnt í maí 2010. Shea lagði áherslu á mikilvægi þess að senda almenningi skýr skilaboð um hvað NATO stendur fyrir, hvað bandalagið getur lagt af mörkum og hver stefna þess er til framtíðar. Áskoranir NATO felast m.a. í því að ekki er ein skýr skilgreind hefðbundin ógn til staðar heldur flóknar nýjar ógnir. Það skorti sameiginlegan skilning og samstöðu um öryggisumhverfi bandalagsins. Því sé nauðsynlegt að skoða sérstaklega virkni 5. gr. Norður- Atlantshafssamningsins sem kveður á um sameiginlegt öryggi og varnir bandalagsins og ná samstöðu um skilgreiningu hennar í ljósi þróunar á öryggisumhverfi bandalagsríkjanna síðustu ár. Shea gagnrýndi NATO jafnframt fyrir slaka stjórnmálalega áætlanagerð en á því sviði stæði Evrópusambandið mun betur að vígi. Aftur á móti væri bandalagið með góða framkvæmdaáætlun en nauðsynlegt væri að styrkja frekar stjórnmálasamband og samvinnu við ríki utan bandalagsins og alþjóðastofnanir.
    Í umræðum um aðgerðaáætlanir bandalagsins sat Martin Howard, aðstoðarframkvæmdastjóri framkvæmdasviðs NATO, fyrir svörum. Hann ræddi m.a. um aðgerðir NATO gegn sjóránum, ástandið í Kósóvó og vandamál tengd eiturlyfjaframleiðslu í Afganistan. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að gert yrði ráð fyrir óbeinum kostnaði við verkefni bandalagsins. Í almennri umræðu kom fram hörð gagnrýni á fyrirhugaða sölu Frakka til Rússa á sérútbúnu flutningaskipi sem rúmar herþyrlu. Frakkar svöruðu gagnrýninni með þeim orðum að ekki hefði verið gengið frá sölunni og hún færi ekki fram fæli hún í sér ógn við öryggi bandalagsríkja í nágrenni Rússlands.
     Hefðbundinn fundur stjórnarnefndar NATO-þingsins og sendiherra aðildarríkja NATO í Norður-Atlantshafsráðinu, sem fer með æðsta ákvörðunarvald innan bandalagsins, fór fram í höfuðstöðvum NATO 15. febrúar. Að venju sátu sendiherrar aðildarríkjanna fyrir svörum þingmanna en umræðum stjórnaði Claudio Bisogniero, aðstoðarframkvæmdastjóri bandalagsins, sem jafnframt flutti inngangserindi. Hann lagði í máli sínu aðaláherslu á aðgerðir NATO í Afganistan, samskipti NATO og Rússlands og vinnu við nýja grunnstefnu NATO sem hann sagði vel á veg komna. Þá sagði hann NATO þurfa að auka og bæta samskipti sín við aðrar alþjóðlegar stofnanir. Jane Cordy, varaforseti NATO-þingsins, hélt erindi á fundinum og sagði m.a. frá ákvörðun stjórnarnefndar NATO-þingsins í Edinborg í nóvember 2009 um að halda óbreyttu fyrirkomulagi samkvæmt ákvörðun þingsins frá nóvember 2008 þar sem brugðist var við átökum Rússlands og Georgíu með breyttu samstarfi við Rússa. Þá var ákveðið annars vegar að takmarka þátttöku rússneskra þingmanna í fundum og ráðstefnum NATO-þingsins og hins vegar að stofna sérstakt þingmannaráð NATO-þingsins og georgískra þingmanna. Meðal mála sem komu upp í umræðunni sem á eftir fylgdi voru málefni Pakistans, samskipti NATO og Evrópusambandsins, norðurslóðamál og staða mögulegrar stækkunar bandalagsins með inngöngu Úkraínu. Ragnheiður E. Árnadóttir tók til máls um málefni norðurslóða í ljósi aukins áhuga alþjóðasamfélagsins á svæðinu, en sá áhugi er einnig sýnilegur í starfi NATO-þingsins þar sem Ragnheiður er skýrsluhöfundur varnar- og öryggismálanefndar um öryggismál á norðurslóðum og hlutverk NATO á svæðinu. Hún spurði aðstoðarframkvæmdastjóra NATO hvernig tekið yrði á málefnum norðurslóða í nýrri grundvallarstefnu bandalagsins og hvort NATO hefði skilgreint hlutverk sitt á svæðinu. Sendiherra Kanada svaraði spurningunni og sagði ekkert samkomulag vera meðal aðildarríkja NATO um hlutverk bandalagsins á norðurslóðum auk þess sem Norðurskautsráðið væri sú stofnun sem væri í forsvari fyrir málefnum svæðisins. Þá sagði hann mikilvægt að koma í veg fyrir tvíverknað eða frekari óvissu um málefni svæðisins. Jafnframt var rætt um stuðning almennings við NATO sem hefur minnkað í mörgum aðildarríkjum og er einkum lítill stuðningur í Evrópu við aðgerðir bandalagsins í Afganistan. Svo virðist sem almenningur tengi ekki aðgerðirnar í Afganistan og upprætingu hryðjuverkabúða þar öryggi í heimalöndum sínum.
    Á lokadegi febrúarfundanna áttu NATO-þingmenn fundi með háttsettum embættismönnum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) þar sem m.a. var rætt um utanríkisstefnu sambandsins, þróunaraðstoð og utanríkisviðskipti þess. Catherine Day, skrifstofustjóri framkvæmdastjórnar ESB, hélt erindi um áhersluatriði framkvæmdastjórnarinnar og framtíðarsýn. Hún sagði ESB hafa sett sér metnaðarfull markmið fyrir árið 2020, bæði á landsvísu og fyrir svæðið í heild sinni, með áherslu á sjálfbæra þróun og gagnsæi. Ragnheiður spurði Day hvernig ESB hygðist bjarga Grikklandi úr því efnahagshruni sem blasir við landinu, hvort regluverk sambandsins varðandi fjármálafyrirtæki yrði endurskoðað í ljósi galla þess og hver skoðun hennar væri á áframhaldandi stækkun ESB með hliðsjón af aðildarumsókn Íslands að sambandinu. Day svaraði því til að ESB mundi koma Grikklandi til bjargar eins og öðrum aðildarríkjum sem lenda í sambærilegum hremmingum. Þá sagði hún að ESB mundi standa við þær skuldbindingar sem gerðar hafa verið varðandi aðildarviðræður nýrra ríkja og sambandið hafi áhuga á frekari stækkun þó að almenningur væri ekki á sama máli. Varðandi aðildarumsókn Íslands bjóst hún við að ferlið væri með einfaldara móti þar sem ríkið væri nú þegar aðili að EES-samningnum og hefði því innleitt stóran hluta ESB-regluverksins. Enn fremur sköpuðust umræður um viðbrögð ESB við afleiðingum fjármálakreppunnar, orkuöryggi og grundvöll fyrir sameiginlegri stefnu í orkumálum auk frekara samstarfs ESB og NATO.

Marsfundur stjórnarnefndar.
    Hinn árlegi marsfundur stjórnarnefndar NATO-þingsins fór að þessu sinni fram í Memphis í Tennessee, heimafylki bandaríska fulltrúadeildarþingmannsins John Tanner sem gegnir embætti forseta NATO-þingsins. Á meðal helstu dagskrármála fundarins voru samskipti NATO-þingsins og rússneska þingsins, kynjasjónarmið í öryggismálum, framlag NATO- þingsins til mótunar nýrrar grundvallarstefnu Atlantshafsbandalagsins og samstarfið yfir Atlantsála. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sótti fundinn Björgvin G. Sigurðsson auk Stígs Stefánssonar starfandi ritara.
    Í kjölfar átaka Rússlands og Georgíu í ágúst 2008 var samstaða innan NATO-þingsins um að ekki væri verjandi að halda áfram óbreyttu samstarfi við Rússa en rússneska þingið á aukaaðild að NATO-þinginu. Á ársfundi NATO-þingsins í Valensía í nóvember 2008 tók stjórnarnefndin ákvörðun um að takmarka þátttöku rússneskra þingmanna í fundum og ráðstefnum NATO-þingsins. Á stjórnarnefndarfundinum í Memphis var samstarfið við rússneska þingið til umræðu og komu einkum tvenns konar sjónarmið fram. Annars vegar að nú þegar NATO og stjórn Obama Bandaríkjaforseta reyndu að nálgast Rússland og laga samskiptin eftir átökin í Georgíu væri rétt að NATO-þingið fylgdi í kjölfarið. Því væri tímabært að aflétta einhverjum af þeim takmörkunum sem settar voru á aðkomu rússneskra þingmanna að starfi NATO-þingsins. Hins vegar var því sjónarmiði haldið á lofti að þar sem Rússar hefðu ekki virt 6-punkta vopnahléssamkomulagið, þar sem m.a. var kveðið á um að rússneskt herlið yrði dregið til baka frá ákveðnum svæðum í Georgíu, ætti NATO-þingið ekki að falla frá takmörkunum sínum. Hluti fundarmanna vildi fresta afgreiðslu málsins til vorfundar NATO- þingsins sem fór fram í Ríga í lok maí 2010. Fyrst var því kosið um frestun og var henni hafnað með eins atkvæðis mun. Að því loknu var ákveðið að leyfa rússneskum þingmönnum að taka þátt í svokölluðum Rose-Roth ráðstefnum NATO-þingsins auk þess að sækja vorfundi og ársfundi. Þátttaka í nefndarfundum utan vor- og ársfundar er enn lokuð rússneskum þingmönnum.
    Kynjasjónarmið í öryggismálum voru tekin til umræðu en frá árinu 2007 hafa nokkrir fundir um þau mál farið fram á vor- og ársfundum NATO-þingsins. Þessir fundir hafa verið skipulagðir sem hliðarviðburðir að frumkvæði og á kostnað einstakra landsdeilda. Rætt var um þessa þróun, aukið vægi kynjasjónarmiða í starfi NATO, eins og fram kom í yfirlýsingu leiðtogafundar bandalagsins í Strassborg/Kehl í apríl 2009 og í tilefni af 10 ára afmæli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi á árinu. Fjallað var um hvernig hægt væri að auka vægi kynjasjónarmiða í starfi NATO-þingsins og var því beint til nefndarformanna að taka tillit til þeirra við vinnu nefndanna. Auk þess sem nefnd um borgaralegt öryggi var falið að vinna drög að ályktun í tilefni 10 ára afmælis ályktunar nr. 1325 sem lögð var fyrir ársfund NATO-þingsins í Varsjá 12.–16. nóvember 2010.
    Á síðustu árum hefur mikið verið rætt um hvort NATO eigi að móta nýja grundvallarstefnu (e. New Strategic Concept) og var fyrrverandi framkvæmdastjóri bandalagsins, Jaap de Hoop Scheffer, ötull talsmaður þess. Núverandi grundvallarstefna er frá árinu 1999 og hefur breytt öryggisumhverfi bandalagsins og stórauknar aðgerðir utan hefðbundins varnarsvæðis einkum verið nefnt sem ástæða fyrir endurskoðun stefnunnar. Á leiðtogafundi NATO í Strassborg/Kehl í apríl 2009 var ákveðið að fara í þessa endurskoðun og er ætlunin að drög að nýrri grundvallarstefnu verði tilbúin til samþykktar á næsta leiðtogafundi bandalagsins í nóvember 2010. NATO-þingið hefur heilshugar stutt hugmyndir um endurskoðun á grundvallarstefnunni og skipað sérstaka fulltrúa til þess að móta tillögur og framlag NATO-þingsins þar að lútandi sem skilað verður til Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóra NATO. Á fundi stjórnarnefndarinnar kynnti eistneski þingmaðurinn Sven Mikser fyrirliggjandi drög að tillögum NATO-þingsins. Rætt var um skilgreiningu nýrra ógna á borð við öryggi upplýsingakerfa og orkuöryggi og þær takmarkanir sem sum aðildarríki setja fyrir þátttöku hersveita sinna í aðgerðum bandalagsins.
    Samstarfið yfir Atlantsála var til umræðu og var George A. Joulwan, fyrrverandi yfirmaður herafla NATO í Evrópu, gestur fundarins. Í máli Joulwan kom fram að umbóta væri þörf í samstarfi NATO og Evrópusambandsins enda væri skörun á aðild að þessum tveimur stofnunum mikil. NATO og ESB þyrftu að vinna betur á mörgum sviðum, m.a. að fjárfestingum á sviði varnarmála, til að tryggja að þær fjárveitingar sem veittar eru skili sér í bestum mögulegum búnaði fyrir bandalagið. Eins og ástatt væri nú kvað Joulwan bandalagið búa við búnaðarhalla, þ.e. að búnaður og bjargir NATO svöruðu ekki til þeirra skuldbindinga sem pólitískir leiðtogar hafa látið bandalagið undirgangast. Þá væri mikilvægt að draga þann lærdóm af aðgerðum bandalagsins utan hins hefðbundna varnarsvæðis, frá Bosníu til Íraks og Afganistan, að NATO yrði að vinna betur með frjálsum félagasamtökum og þróunarstofnunum. Nauðsynlegt væri að slíkir aðilar kæmu að uppbyggingu samfélaga í skjóli þess friðar sem NATO getur tryggt á átakasvæðum. Borgaraleg samtök kæmu í auknum mæli að uppbyggingu í Afganistan og mikilvægt væri að aðildarríki NATO sendu borgaralega sérfræðinga, t.d. verkfræðinga og hjúkrunarfræðinga, til að byggja upp samfélagið. Nefndi Joulwan Ísland sem dæmi um ríki sem ekki hefði her en hefði engu síður lagt til borgaralega sérfræðinga til uppbyggingarstarfs í landinu. Að endingu spáði Joulwan því að viðveru ISAF-sveita NATO í Afganistan þyrfti í 10–15 ár til viðbótar.

Ársfundur.
    Ársfundur NATO-þingsins fór fram í Varsjá dagana 12.–16. nóvember 2010. Af hálfu Íslandsdeildar NATO-þingsins sóttu fundinn þau Björgvin G. Sigurðsson formaður, Ragnheiður E. Árnadóttir og Birgitta Jónsdóttir, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Rúmlega 260 þingmenn frá 28 aðildarríkjum NATO og fulltrúar yfir tuttugu annarra ríkja sóttu ársfundinn. Meginumræður fundarins fóru fram í fimm málefnanefndum þingsins á grundvelli skýrslna sem unnar voru af nefndarmönnum og með fyrirlestrum alþjóðlegra sérfræðinga um öryggismál. Þá var þingfundur haldinn þar sem fjallað var um þau mál sem hæst ber í alþjóðlegri öryggis- og varnarmálaumræðu og kosið um ályktanir og ákvarðanir þingsins.
    Áður en fundir málefnanefnda hófust fór fram fundur þingmannaráðs NATO og Rússlands. Þar héldu Adam Rotfeld, varaformaður vinnuhóps um samskipti Póllands og Rússlands hjá alþjóðamálastofnun Póllands og fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands, og Igor Ivanov, frá alþjóðamálastofnun Rússlands og fyrrverandi utanríkisráðherra Rússlands, erindi um samskipti og frekari samvinnu NATO og Rússlands. Rotfeld sagði Rússland geta verið góðan mótspilara við NATO en enn væru hindranir varðandi frekara samstarf við Evrópusambandið. Hann sagði jafnframt að í hnattvæddum heimi nútímans þarfnaðist NATO Rússlands og Rússland NATO meira en nokkru sinni fyrr og því væri brýnt að koma á frekari samvinnu. Meginvandamálið hingað til hefði verið skortur á trausti og gagnsæi og nú væri rétti tíminn til að sleppa fortíðardraug kalda stríðsins og horfa fram á veginn. Ivanov sagðist trúa því að Rússland og NATO gætu unnið saman ef komið væri fram við Rússland eins og jafningja og báðir aðilar legðu sig fram um að hlusta og skilja hvor annan. Þá sagði hann opnun vera í málinu með nýrri ríkisstjórn Obama í Bandaríkjunum. Ragnheiður E. Árnadóttir spurði Ivanov um skoðun hans á hlutverki NATO á norðurskautssvæðinu, m.a. í ljósi 5. gr. Norður- Atlantshafssáttmálans (sem kveður á um að árás á eitt aðildarríki NATO skuli talin árás á þau öll) þar sem fimm af norðurskautsríkjunum átta eru aðildarríki NATO. Ivanov svaraði því til að hann teldi ekki þörf á afskiptum NATO á norðurskautssvæðinu. Samningur milli Noregs og Rússlands um skiptingu Barentshafs og Norður-Íshafs sem undirritaður var 15. september 2010 væri skýrt dæmi um að norðurskautslöndin gætu sjálf fundið friðsamlega lausn á deilumálum sínum.
    Á fundi stjórnmálanefndar NATO-þingsins var einkum fjallað um samheldni NATO, samskipti NATO við ríki utan bandalagsins og öryggismál í Arabíuflóa og á Arabíuskaga. Efnahagsnefndin tók m.a. til umræðu fjármálakreppu heimsins, fátækt og óöryggi í þróunarlöndum, áhrif efnahagskreppunnar á Mið- og Austur-Evrópu og langtímabreytingar í efnahagsmálum og breytt valdajafnvægi í heiminum. Vísinda- og tækninefnd fjallaði á sínum fundi m.a. um loftslagsbreytingar í framhaldi af loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn í nóvember 2009 (COP 15), sjálfbæra orkustefnu bandalagsins og útbreiðslu gereyðingarvopna og samstarf við Rússland. Þá fjallaði nefnd um borgaralegt öryggi m.a. um öryggismál á hafsvæðum með áherslu á hlutverk og samræmingu NATO og Evrópusambandsins (ESB) og horfur á Vestur-Balkanskaga 15 árum eftir Dayton friðarsamkomulagið. Þá lýstu nefndarmenn yfir áhyggjum af niðurstöðum kosninga í Afganistan sem fram fóru í september 2010 og höfðu ekki verið birtar opinberlega.
    Varnar- og öryggismálanefnd NATO-þingsins fjallaði um lokadrög að þremur skýrslum á fundi sínum. Sú fyrsta fjallaði um samstarf við afganska þjóðarherinn, önnur um kjarnorkuvopn Bandaríkjamanna í Evrópu og sú þriðja um öryggismál á norðurskautssvæðinu og hvort NATO hefði þar hlutverki að gegna. Skýrsluhöfundur síðastnefndu skýrslunnar var Ragnheiður E. Árnadóttir. Ragnheiður kynnti skýrsluna og ræddi m.a. um aukið vægi norðurslóða á síðustu árum innan NATO, þrátt fyrir skiptar skoðanir um hlutverk þess á svæðinu. Í skýrslunni leggur Ragnheiður áherslu á að NATO hafi hlutverki að gegna á norðurslóðum, enda teljist fimm aðildarríki NATO til norðurskautsríkja, og bandalagið þurfi því að auka þekkingu og skilning á málefnum svæðisins. Jafnframt sé mikilvægt að NATO styðji við þær svæðisbundnu alþjóðastofnanir og samtök sem eru nú þegar til staðar. Snertifletir stjórnmála norðurskautssvæðisins og NATO séu margir þótt einnig sé margt sem ekki eigi beint erindi við bandalagið. Mikilvægt sé því að NATO útfæri nánar á hvaða sviði það hefði eiginlegu hlutverki að gegna og hvað væri á verkefnasviði annarra alþjóðastofnana. Í framhaldi af kynningunni sat Ragnheiður fyrir svörum og sköpuðust líflegar umræður um skýrsluna. Fulltrúi Rússlands í nefndinni lagði áherslu á mikilvægi þeirra svæðisbundnu stofnana sem til staðar eru á norðurskautssvæðinu og sagði ekki þörf fyrir aðkomu fleiri slíkra. Fulltrúi Finnlands sagði jákvætt að NATO virkjaði hlutverk sitt á svæðinu en mikilvægt væri að horfa einnig til ESB í því samhengi. Nefndarmenn voru almennt sammála um mikilvægi þess að norðurskautið héldi áfram að vera friðsamlegt svæði og ræddu um það hvernig bandalagið gæti orðið að liði til að tryggja að viðbúnaður væri á svæðinu án þess að hervæðing ætti sér stað. Skýrslan var samþykkt samhljóða. Þá var Ragnheiður kjörin varaformaður annarrar undirnefndar varnar- og öryggismálanefndar NATO-þingsins.
    Á fundi stjórnarnefndar NATO-þingsins var m.a. tekin ákvörðun um starfsemi og helstu viðfangsefni NATO-þingsins fyrir árið 2011 auk áhersluatriða ræðu forseta NATO-þingsins sem flutt var á leiðtogafundi NATO í Lissabon 19.–20. nóvember 2010. Þá fór fram umræða um samskipti NATO og Rússlands og um málefni Georgíu. Enn fremur lýsti forseti NATO- þingsins, bandaríski fulltrúadeildarþingmaðurinn John Tanner, yfir fögnuði með að Aung San Suu Kyi, leiðtogi lýðræðisflokksins í Búrma, hefði verið leyst úr stofufangelsi herforingjastjórnarinnar.
    Þingfundur NATO-þingsins fór fram á síðasta degi ársfundarins þar sem tignargestir fluttu ávörp og svöruðu spurningum fundarmanna. Meðal þeirra sem fluttu erindi voru Grzegorz Schetyna, forseti pólska þingsins, Donald Tusk, forsætisráðherra Póllands, Janez Lenarcic, sendiherra og framkvæmdastjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar ÖSE, og Marice B. Ries, sendiherra og sérfræðingur á sviði kjarnorkumála, vígbúnaðar og stefnumótunar hjá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna. Schetyna ræddi um mikilvægi frekara samstarfs NATO og ESB og þar sem Pólland færi með formennsku í ESB seinni hluta árs 2011 yrði unnið að því verkefni. Þá voru flutt skilaboð til fundargesta frá forseta Póllands, Bronislaw Komorowski.
    Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, sá sér ekki fært að sækja þingfundinn sökum undirbúnings fyrir leiðtogafund NATO í Lissabon 19.–20. nóvember og sendi myndskilaboð sem sýnd voru á fundinum. Þar ræddi framkvæmdastjórinn m.a. um mikilvægt hlutverk NATO við að fást við bæði hefðbundnar og nýjar öryggisógnir auk þess sem hann fór yfir helstu verkefni bandalagsins fyrir árið 2011. Að afloknum skilaboðum framkvæmdastjórans tók Birgitta Jónsdóttir til máls og gagnrýndi að Rasmussen skyldi ekki hafa sýnt NATO- þinginu þá virðingu að sækja þingfundinn. Hún sagði þingmenn ekki vera komna til Varsjár til að eiga í samskiptum við myndbandsupptöku af framkvæmdastjóranum og hvatti yfirstjórn NATO-þingsins til að koma skilaboðum sínum áleiðis til framkvæmdastjórans.
    John Tanner lét af störfum sem forseti NATO-þingsins og þakkaði í ræðu sinni fyrir áralangt samstarf og óskaði nýkjörnum forseta þingsins, þýska þingmanninum Karl A. Lamers, til hamingju. Lamers sagði í ræðu sinni að hann mundi leggja áherslu á samræðu, samstarf og samskipti í forsetatíð sinni. Þá sagði hann afar brýnt verkefni fyrir NATO-þingið að auka skilning almennings í aðildarríkjunum á hlutverki og markmiðum NATO. Því næst fluttu skýrsluhöfundar framsögur með þeim ályktunum sem málefnanefndirnar lögðu fram og voru þær allar samþykktar.

Nefndarfundir.
    Ragnheiður E. Árnadóttir sótti nefndarfundi varnar- og öryggismálanefndar í Washington og Tampa í janúar og á Grænlandi og Íslandi í september, sem einn af skýrsluhöfundum nefndarinnar.

Alþingi, 14. mars 2011.



Björgvin G. Sigurðsson,


form.


Ragnheiður E. Árnadóttir


varaform.


Birgitta Jónsdóttir.

Fylgiskjal.


Ályktanir NATO-þingsins árið 2010.


Ársfundur í Varsjá, 12.–16. nóvember:
          Ályktun 381 um að innleiða ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi í nýja grunnstefnu NATO og framkvæmd sambandsins.
          Ályktun 382 um ástandið í Georgíu.
          Ályktun 383 um Afganistan í átt til umbreytinga.
          Ályktun 384 um framþróun í átt að alþjóðlegum stöðugleika og efnahagsmálum.
          Ályktun 385 um aukið mikilvægi samskipti NATO við ríki utan bandalagsins.
          Ályktun 386 um samstarf við Rússa um gereyðingarvopn og eldflaugavarnakerfi.