Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 630. máls.

Þskj. 1105  —  630. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um greiðslu ríkissjóðs á bótum til
þolenda afbrota, nr. 69/1995, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Við 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögunum bætist nýr málsliður er orðast svo: Þó er heimilt að víkja frá þessu skilyrði mæli veigamikil rök með því.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu í tilefni af bréfi umboðsmanns Alþingis til ráðuneytisins, dags. 12. september 2008. Í bréfinu vakti umboðsmaður athygli ráðuneytisins á því að lög nr. 69/1995, um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, eins og þeim var breytt með lögum nr. 118/1999, geri greinarmun á réttindum þeirra sem orðið hafa fyrir tjóni vegna brota sem framin voru 1. janúar 1993 til 30. júní 1996 og þeirra sem verða fyrir tjóni sem leiðir af broti sem framið er 1. júlí 1996 eða síðar.
    Lög nr. 69/1995 voru samþykkt á Alþingi 25. febrúar 1995 og tóku gildi 1. janúar 1996. Skv. 20. gr. laganna gilda lögin um tjón sem leiðir af brotum sem framin hafa verið frá 1. janúar 1993 og síðar. Við gildistöku laganna var í 2. mgr. 6. gr. þeirra kveðið á um að umsókn um bætur skyldi hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því að brot hefði verið framið. Þá var kveðið á um það í ákvæði til bráðabirgða að umsókn um bætur vegna tjóns sem leiddi af broti sem framið hefði verið fyrir 1. júlí 1996 skyldi hafa borist bótanefndinni innan árs frá gildistöku laganna. Umsóknir um bætur vegna tjóns sem leiddi af broti sem framið var á tímabilinu 1. janúar 1993 til 30. júní 1996 þurfti því samkvæmt þessu að hafa borist nefndinni fyrir 1. júlí 1997.
    Með lögum nr. 118/1999 var 6. gr. laganna breytt á þann hátt að við bættist ný málsgrein þar sem kveðið var á um að þegar veigamikil rök mæltu með því væri heimilt að víkja frá skilyrðum 1. og 2. mgr. ákvæðisins. Samkvæmt athugasemdum í greinargerð var tilefni frumvarpsins erindi umboðsmanns barna til dómsmálaráðherra þar sem þess var farið á leit að skilyrði 6. gr. laganna yrðu endurskoðuð vegna þess að þau ættu illa við þegar um kynferðisbrot gegn börnum væri að ræða. Í greinargerðinni kemur fram að við tilteknar aðstæður geti verið rétt að víkja frá skilyrðunum og að það eigi sérstaklega við þegar brotið væri gegn barni. Barn hefði oft ekki náð nægilegum þroska til að gera sér grein fyrir því að um refsivert brot gegn því hefði verið að ræða, auk þess sem aðstæður þess til að kæra brot kynnu að vera erfiðar, til að mynda þegar náin tengsl væru milli barns og brotamanns. Þá segir jafnframt í greinargerðinni að einnig kunni að koma til önnur tilvik þar sem rétt sé að víkja frá skilyrðum 6. gr. og væri heimildin til þess að víkja frá þeim því ekki einskorðuð við tilvik þar sem börn væru þolendur. Sams konar breyting var hins vegar ekki gerð á bráðabirgðaákvæði laganna en í því felst að lögin veita ekki heimild til þess að taka tillit til sérstakra aðstæðna í málum vegna brota sem framin hafa verið á tímabilinu 1. janúar 1993 til 30. júní 1996, jafnvel þótt í hlut eigi einstaklingar sem voru börn að aldri 1. júlí 1997 eða af öðrum sérstökum ástæðum höfðu ekki tök á því að leggja fram umsókn um bætur fyrir þann tíma.
    Ákvæði núgildandi laga leiða til þess að ekki er fullt jafnræði milli réttinda einstaklinga til greiðslu bóta samkvæmt lögunum jafnvel þótt óumdeilt sé að brot það sem framið hefur verið falli undir gildissvið þeirra. Breytingunni sem gerð var á lögunum árið 1999 var fyrst og fremst ætlað að gæta hagsmuna þeirra sem orðið höfðu fyrir kynferðislegu ofbeldi sem börn en ekki óskað eftir bótum fyrr en síðar á lífsleiðinni líkt og algengt er þegar um slík brot er að ræða. Í ljósi þessa er í frumvarpi þessu lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði laga um greiðslu ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota þannig að heimilt verði að víkja frá skilyrði ákvæðisins um að umsókn um bætur vegna tjóns sem leitt verður af broti sem framið var fyrir 1. júlí 1996 skuli hafa borist bótanefndinni innan árs frá gildistöku laganna, ef veigamiklar ástæður eru fyrir hendi. Ekki verður annað séð en að sömu sjónarmið og þau sem bjuggu að baki þeirri breytingu sem gerð var á ákvæðum laganna með lögum nr. 118/1999 gildi um einstaklinga sem brotið hefur verið gegn á árunum 1. janúar 1993 til 30. júní 1996.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu
ríkissjóðs á bótum til þolenda afbrota, nr. 69/1995, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að breyting verði gerð á bráðabirgðaákvæði laganna þannig að heimilt verði að víkja frá skilyrði ákvæðisins um að umsókn um bætur vegna tjóns sem leiða má af broti sem framið var fyrir 1. júlí 1996 skuli hafa borist bótanefnd fyrir 1. júlí 1997 ef veigamikil rök mæla með því. Lögin gilda almennt um tjón sem leiða má af brotum sem framin voru 1. janúar 1993 og síðar og skal umsókn um bætur hafa borist bótanefnd innan tveggja ára frá því brot var framið nema þegar veigamikil rök mæla með því að vikið verði frá tímamörkunum. Þannig hefur vantað inn í lögin heimild til að víkja frá tímamörkum vegna brota sem framin voru á tímabilinu 1. janúar 1993 til 1. júlí 1996. Eins og sjá má af greinargerð með frumvarpinu eiga tímamörk þau sem mælt er fyrir um í ákvæðinu illa við til dæmis þegar um kynferðisbrot gegn börnum væri að ræða. Slík mál koma oft ekki upp á yfirborðið fyrr en mörgum árum eftir að hætt hefur verið að brjóta gegn viðkomandi. Það skal þó áréttað að heimildin til að víkja frá tímamörkunum er ekki einskorðuð við tilvik þar sem börn eru þolendur.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum er ekki ástæða til að ætla annað en að um tiltölulega fá tilvik verði að ræða og að útgjöld ríkissjóðs vegna þeirra rúmist innan fjárveitinga málaflokksins.