Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 644. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1134  —  644. mál.




Frumvarp til laga



um brottfall laga um stjórnlagaþing, nr. 90 25. júní 2010.

Flm.: Róbert Marshall, Álfheiður Ingadóttir, Valgerður Bjarnadóttir,


Þráinn Bertelsson, Mörður Árnason, Þór Saari.


1. gr.

    Lög nr. 90 25. júní 2010, um stjórnlagaþing, falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er heimilt að ráða starfsfólk fyrir stjórnlagaráð án auglýsingar.

Greinargerð.

    Alþingi hefur ákveðið með þingsályktun, samþykktri 24. mars 2011, að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögu um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þetta var áður hlutverk stjórnlagaþings samkvæmt lögum nr. 90/2010 en Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings 25. janúar sl. Því er eðlilegt að leggja til að lög um stjórnlagaþing falli brott eins og fjallað var um í áliti meiri hluta allsherjarnefndar (sbr. þskj. 1028, 549. mál).
    Stjórnlagaráði er ætlað að hefja störf hið fyrsta og mun það starfa í þrjá til fjóra mánuði. Mikilvægt er að unnt verði að ráða hæft starfsfólk fyrir ráðið með sem stystum fyrirvara. Flutningsmenn telja því nauðsynlegt, vegna þess skamma tíma sem er til stefnu og þess tíma sem auglýsinga- og ráðningarferli starfsmanna tekur, að kveða á um að við ráðningu starfsfólks fyrir stjórnlagaráð sé ekki skylt að auglýsa laus störf samkvæmt ákvæðum 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, enda er um afmarkað verkefni að ræða og til skamms tíma. Því er lagt til að kveðið verði á um það í ákvæði til bráðabirgða.