Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 190. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1156  —  190. mál.




Framhaldsnefndarálit


um frv. til l. um breyt. á l. nr. 41/2007, um landlækni, með síðari breytingum, og um brottfall laga nr. 18/2003, um Lýðheilsustöð, vegna nýrrar stofnunar, Landlæknis – lýðheilsu.

Frá minni hluta heilbrigðisnefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið að nýju og fengið á sinn fund Svanhildi Þorsteinsdóttur, Þorbjörgu Guðmundsdóttur og Gerði Helgadóttur, trúnaðarmenn starfsmanna landlæknisembættisins, Dagnýju Brynjólfsdóttur, Guðríði Þorsteinsdóttur og Einar Njálsson frá velferðarráðuneyti, Geir Gunnlaugsson landlækni og Margréti Björnsdóttur, forstjóra Lýðheilsustöðvar.
    Að þessu sinni voru einkum þrjú atriði sem fjallað var um. Í fyrsta og öðru lagi var ræddur fjárhagslegur og faglegur ávinningur af sameiningunni og í þriðja lagi starfsmannamál og ráðningar í yfirmannsstöður.
    Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að engin úttekt hafi farið fram á fjárhagslegum eða faglegum ávinningi sameiningarinnar og virðist það eina sem til er um málið vera skýrsla Stefáns Ólafssonar, Breytt skipan stjórnsýslustofnana heilbrigðisráðuneytisins. Óskaði minni hlutinn ítrekað eftir að sú skýrsla yrði rædd í nefndinni. Jafnframt óskaði minni hlutinn eftir því að aðrar tillögur sem fram hafa komið um sameiningar stjórnsýslustofnana heilbrigðisráðuneytis yrðu ræddar. Einhverra hluta vegna fékkst skýrslan hins vegar ekki rædd og málið drifið í gegnum nefndina í mikilli ósátt.
    Minni hlutinn bendir jafnframt á að efla þarf eftirlitsþáttinn í heilbrigðiskerfinu og bendir á að þeim þætti er verulega ábótavant, t.d. á hjúkrunarheimilum, eins og niðurstöður rannsókna sýna sem kynntar hafa verið í nefndinni að beiðni sjálfstæðismanna. Þrátt fyrir ítrekaðar óskir um að faglega yrði staðið að sameiningunni og öll gögn skoðuð var það vilji meiri hlutans að hunsa þær óskir. Ef umrædd skýrsla Stefáns Ólafssonar er sá grunnur sem málið byggist á er það í hæsta lagi undarlegt að hún hafi ekki verið kynnt í nefndinni og fáist ekki rædd þar.
    Minni hlutinn bendir því á að þrátt fyrir að málið hafi verið til afgreiðslu í nefndinni frá því 16. nóvember sl. liggur enn ekki fyrir úttekt á fjárhagslegum og faglegum ávinningi af sameiningunni. Enn fremur er það gagnrýnisvert að ekki sé komið á hreint hver heildarumframkostnaður vegna sameiningarinnar verður, en ljóst er að hann verður a.m.k. 60 millj. kr. á þessu ári. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar gæti umframleigukostnaður í versta falli orðið 450 millj. kr. á næstu 17 árum, en það er einkum vegna óhagstæðs leigusamnings landlæknisembættisins vegna núverandi húsnæðis. Á fundi nefndarinnar upplýstu fulltrúar velferðarráðuneytis að ekki væri ljóst hvar sá kostnaður kæmi niður, hvort það væri á sameinaðri stofnun eða hjá velferðarráðuneytinu. Hvort heldur sem verður bendir minni hlutinn á að þessi kostnaður mun óhjákvæmilega leiða til niðurskurðar í velferðarkerfinu.
    Í nefndaráliti minni hlutans við 2. umræðu var harðlega gagnrýnt það vinnuferli sem farið hafði í gang og tengdist hugsanlegum starfsmönnum fyrirhugaðrar nýrrar stofnunar. Minni hlutinn vill endurtaka þá gagnrýni og tekur fram að ekkert hafi komið í ljós, við umræðu um málið í nefndinni á milli 2. og 3. umræðu, sem gæti stutt það ferli. Þvert á móti hafi komið í ljós að strax í desember hafi átt sér stað ráðningarviðtöl við starfsmenn stofnananna til þess að velja sviðsstjóra á sameinaðri stofnun. Minni hlutinn vill benda á að frumvarpið er ekki enn orðið að lögum og því ámælisvert að slík vinna hafi farið í gang áður en Alþingi afgreiðir málið. Jafnframt leggur minni hlutinn áherslu á að við sameiningar stofnana sé nauðsynlegt að allir fái jöfn tækifæri til ráðningar. Er það skoðun minni hlutans að nauðsynlegt hefði verið að auglýsa sviðsstjórastöður en eins og verkefnið var unnið voru ákveðnir einstaklingar handvaldir af landlækni sem ákvað svo hvaða einstaklingar fengju sviðsstjórastöður. Þar að auki voru starfslýsingar ekki tilbúnar en það er skoðun minni hlutans að nauðsynlegt sé að slíkar starfslýsingar liggi fyrir áður en farið er í ráðningarferlið. Telur minni hlutinn að vinnulagið sé ekki heppilegt og alls ekki góð byrjun fyrir nýja sameinaða stofnun.
    Minni hlutinn gagnrýnir vinnubrögð heilbrigðisnefndar í málinu og telur þau hafa verið fyrir neðan allar hellur. Nauðsynlegt hafi verið að fá ítarlega úttekt á fjárhagslegum ávinningi af sameiningunni, sérstaklega í ljósi þeirra miklu óvissuþátta sem til staðar eru. Ekki er ljóst hvar umframkostnaður kemur niður og því bagalegt að verið sé að samþykkja sameiningu stofnana þegar grunnvinnan hefur ekki verið unnin.

Alþingi, 29. mars 2011.


Guðlaugur Þór Þórðarson,

frsm.

Ragnheiður Ríkharðsdóttir.