Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 683. máls.

Þskj. 1200  —  683. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka
Evrópu og Lýðveldisins Perús og landbúnaðarsamnings
milli Íslands og Lýðveldisins Perús.

(Lögð fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd annars vegar fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Perús sem undirritaður var af ráðherrum EFTA-ríkjanna 24. júní 2010 í Reykjavík og af Perú í Líma 14. júlí 2010 og hins vegar landbúnaðarsamning milli Íslands og Lýðveldisins Perús sem undirritaður var í Reykjavík og Líma sömu daga.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á fríverslunarsamningi milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA) og Lýðveldisins Perús sem undirritaður var af ráðherrum EFTA-ríkjanna 24. júní 2010 í Reykjavík og af Perú í Líma 14. júlí 2010. Jafnframt er leitað heimildar til fullgildingar á landbúnaðarsamningi milli Íslands og Lýðveldisins Perús sem undirritaður var í Reykjavík og Líma sömu daga. Meginmál fríverslunarsamningsins er prentað sem fylgiskjal I með tillögu þessari og meginmál landbúnaðarsamningsins sem fylgiskjal II. Viðaukar og bókanir sem fylgja fríverslunarsamningnum og viðaukar við landbúnaðarsamninginn munu liggja frammi í lestrarsal Alþingis.
    EFTA-ríkin, Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, hafa gert 22 fríverslunarsamninga við ríki eða ríkjahópa, að samningnum við Perú meðtöldum. Í tengslum við þessa samninga hafa verið gerðir sérstakir tvíhliða samningar á milli einstakra EFTA-ríkja og hvers ríkis eða ríkjahóps fyrir sig um viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur. Samningaviðræður stóðu yfir tveggja ára tímabil og þeim lauk í október 2008.
    Fríverslunarsamningurinn við Perú er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála.
    Fríverslunarsamningurinn kveður á um lækkun eða niðurfellingu tolla á iðnaðarvörur, sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þannig munu tollar á sjávarafurðir og allar helstu iðnaðarvörur frá Íslandi falla niður frá gildistöku samningsins eða fara stiglækkandi á níu ára aðlögunartímabili.
    Útflutningur til Perús er lítill. Á undanförnum árum hefur einkum verið um að ræða tæki til matvælaframleiðslu og útbúnað til fiskveiða.
    Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og Perús er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamnings EFTA-ríkjanna og Perús. Landbúnaðarsamningurinn myndar hluta fríverslunarsvæðisins, ásamt slíkum samningum annars vegar milli Noregs og Perús og hins vegar milli Sviss og Perús, auk fríverslunarsamningsins. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn og kveður hann á um að tollar á tilteknar landbúnaðarvörur verði lækkaðir eða felldir niður. Perú mun m.a. fella niður tolla á lifandi hross frá gildistöku samningsins en tollar á íslenskt lambakjöt falla að fullu niður að loknum fimm til tíu ára aðlögunartíma. Ísland mun m.a. fella niður tolla á ýmsar tegundir lifandi plantna, svo sem ákveðnar tegundir afskorinna blóma, jólatré, ýmsar matjurtir og ávaxtasafa. Landbúnaðarsamningurinn öðlast gildi á sama degi og fríverslunarsamningurinn.

Fylgiskjal I.


FRÍVERSLUNARSAMNINGUR
MILLI
LÝÐVELDISINS PERÚS
OG
EFTA-RÍKJANNA


INNGANGSORÐ


Lýðveldið Perú (hér á eftir nefnt „Perú“) annars vegar og Ísland, Furstadæmið Liechtenstein, Konungsríkið Noregur og Ríkjasambandið Sviss (hér á eftir nefnd „EFTA-ríkin“) hins vegar, þar sem hvert einstakt ríki er nefnt „samningsaðili“ og ríkin til samans „samningsaðilar“,


SEM EINSETJA SÉR að styrkja hin sérstöku vináttubönd og samstarf sín á milli og æskja þess að stuðla að samstilltri þróun og auknum alþjóðaviðskiptum og hvetja til víðtækara alþjóðasamstarfs, einkum á milli Evrópu og Suður-Ameríku, með því að fjarlægja viðskiptahindranir,


SEM HAFA Í HUGA þau mikilvægu tengsl sem eru á milli Perús og EFTA-ríkjanna, einkum sameiginlega yfirlýsingu um samstarf, sem var undirrituð í Genf 24. apríl 2006, og vilja styrkja þessi tengsl með því að koma á fót fríverslunarsvæði og koma þannig á nánum og varanlegum samskiptum,

SEM ÁRÉTTA skuldbindingu sína um að virða lýðræði, réttarreglu, mannréttindi og mannfrelsi í samræmi við skyldur sínar samkvæmt þjóðarétti, þ.m.t. meginreglur sem settar eru fram í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og almennu mannréttindayfirlýsingunni,

SEM VIÐURKENNA að samband er á milli góðra stjórnarhátta í fyrirtækjum og hjá hinu opinbera og heilbrigðrar efnahagsþróunar og staðfesta stuðning sinn við meginreglur um stjórnun fyrirtækja í hinu alþjóðlega framtaksverkefni Sameinuðu þjóðanna hnattrænt samkomulag Sameinuðu þjóðanna um siðferði og ábyrgð í viðskiptum (UNGC) og einnig áform sín um að auka gagnsæi og koma í veg fyrir og berjast gegn spillingu,

SEM BYGGJA Á réttindum og skyldum hvers og eins samkvæmt Marakess-samningnum um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (hér á eftir nefndur „samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina“) og öðrum samningum á grundvelli hans og öðrum marghliða og tvíhliða gerningum um samstarf,

SEM ÁRÉTTA skuldbindingar sínar um hagþróun og félagslega þróun og virðingu fyrir grundvallarréttindum launþega og þeim meginreglum sem settar eru fram í samningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) sem samningsaðilarnir eiga aðild að,

SEM HAFA AÐ MARKMIÐI að skapa ný atvinnutækifæri, bæta heilsu og lífskjör og tryggja góðar og auknar rauntekjur á yfirráðasvæði hvers og eins með auknum viðskiptum og fjárfestingum og styrkja með því efnahagsþróun á víðum grundvelli í því augnamiði að draga úr fátækt og skapa tækifæri til að stunda sjálfbæra atvinnustarfsemi aðra en ræktun nytjaplantna til eiturlyfjaframleiðslu,


SEM ERU REIÐUBÚIN að viðhalda getu sinni til að standa vörð um almannahag,

SEM HYGGJAST auka samkeppnishæfni fyrirtækja sinna á heimsmörkuðum,

SEM ERU STAÐRÁÐIN Í að skapa aukinn og öruggan markað fyrir vörur og þjónustu á yfirráðasvæðum sínum og tryggja fyrirsjáanlegan lagaramma og lagaumhverfi fyrir verslun, viðskipti og fjárfestingar með því að setja skýrar reglur sem eru öllum til hagsbóta,

SEM VIÐURKENNA að ávinningur af auknu viðskiptafrelsi megi ekki fara forgörðum vegna samkeppnishamlandi starfshátta,

SEM EINSETJA SÉR að styðja við sköpun og nýsköpun með því að standa vörð um hugverkarétt en viðhalda um leið jafnvægi á milli réttinda rétthafa og almenningshagsmuna almennt, einkum að því er varðar menntun, rannsóknir, lýðheilsu og aðgang að upplýsingum,

SEM ERU STAÐRÁÐIN Í að framkvæma þennan samning á þann hátt að samrýmist vernd og varðveislu umhverfisins, stuðli að sjálfbærri þróun og efli samstarf þeirra á milli í umhverfismálum,


HAFA ÁKVEÐIÐ, í samræmi við markmið þessi, að gera með sér eftirfarandi fríverslunarsamning (hér á eftir nefndur „þessi samningur“):

1. KAFLI
ALMENN ÁKVÆÐI
Grein 1.1.
Stofnun fríverslunarsvæðis.

    Samningsaðilar stofna hér með fríverslunarsvæði með þessum samningi og viðbótarsamningum um landbúnað, sem eru gerðir jafnframt á milli Perús og hvers og eins EFTA-ríkjanna, í samræmi við XXIV. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, hins almenna samnings um tolla og viðskipti frá 1994 (hér á eftir nefndur „GATT-samningurinn frá 1994“) og V. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, hins almenna samnings um þjónustuviðskipti (hér á eftir nefndur „GATS-samningurinn“).

Grein 1.2.
Markmið.

    Markmiðin með þessum samningi eru:
a)    að auka frelsi í vöruviðskiptum í samræmi við XXIV. gr. GATT-samningsins frá 1994,

b)    að auka frelsi í þjónustuviðskiptum í samræmi við V. gr. GATS-samningsins,
c)    að fjölga fjárfestingatækifærum verulega á fríverslunarsvæðinu í því augnamiði að stuðla að sjálfbærri þróun samningsaðilanna,
d)    að auka enn frekar gagnkvæmt frelsi á mörkuðum samningsaðilanna fyrir opinber innkaup,

e)    að stuðla að aukinni samkeppni í atvinnulífi samningsaðilanna, einkum með tilliti til efnahagstengsla þeirra á milli,
f)    að tryggja fullnægjandi og árangursríka vernd hugverkaréttinda,
g)    að stuðla, með afnámi viðskiptahindrana, að samstilltri framþróun og aukningu alþjóðaviðskipta og
h)    að tryggja samstarf í tengslum við uppbyggingu viðskiptafærni, í því augnamiði að auka og bæta þann ávinning sem hlýst af þessum samningi, og að draga úr fátækt og glæða samkeppnishæfni og hagþróun.

Grein 1.3.
Svalbarði.

    Samningur þessi gildir ekki um Svalbarðasvæðið, nema að því er varðar vöruviðskipti.

Grein 1.4.
Tengsl við aðra alþjóðasamninga.

    Beita skal ákvæðum þessa samnings með fyrirvara um réttindi og skyldur samningsaðila samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina og öðrum samningum á grundvelli hans og öðrum alþjóðasamningum sem þeir eiga aðild að.

Grein 1.5.
Viðskipta- og efnahagstengsl sem þessi samningur tekur til.

1.     Ákvæði þessa samnings eiga við um viðskipta- og efnahagstengsl milli Perús annars vegar og hvers og eins EFTA-ríkis hins vegar, en eiga ekki við um viðskiptatengsl milli einstakra EFTA-ríkja, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi.

2.     Af tollabandalaginu, sem stofnað var með samningi frá 29. mars 1923 milli Sviss og Furstadæmisins Liechtensteins, leiðir að Sviss er fulltrúi Furstadæmisins Liechtensteins í málefnum sem falla undir gildissvið þess samnings.

Grein 1.6.
Ríkisstjórnir, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld.

    Hver samningsaðili skal sjá til þess að ríkisstjórn hans, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld og yfirvöld, svo og óopinberar stofnanir, sem fara með opinbert vald sem ríkisstjórn, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld eða yfirvöld fela þeim, uppfylli allar skyldur og skuldbindingar samkvæmt samningi þessum á yfirráðasvæði hans.

Grein 1.7.
Skattamál.

1.     Samningur þessi takmarkar ekki fjárhagslegt fullveldi samningsaðila til að samþykkja skattaráðstafanir, 1 nema að því er varðar eftirfarandi reglur:
a)    ákvæði greinar 2.11 (Innlend meðferð) og þau ákvæði önnur í þessum samningi sem eru nauðsynleg til að framfylgja ákvæðum þeirrar greinar að sama marki og ákvæði III. gr. GATT-samningsins frá 1994 gera,
b)    ákvæði greinar 5.3 (Innlend meðferð), samanber þó ákvæði greinar 5.8 (Undantekningar).
2.     Þrátt fyrir 1. mgr. hefur þessi samningur ekki áhrif á réttindi og skyldur samningsaðila sem leiðir af samningum um skattamál. Ef samningur þessi stangast á við ákvæði slíkra samninga ganga ákvæði þeirra framar að því marki sem misræminu nemur.






Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      Sá skilningur ríkir að ráðstafanir í skattamálum feli hvorki í sér innflutningstolla né ráðstafanir sem eru taldar upp í ii. og iii. undirlið b-liðs í grein 2.2 (Skilgreiningar).

Grein 1.8.
Rafræn viðskipti.

    Samningsaðilarnir gera sér grein fyrir vaxandi hlutverki rafrænna viðskipta í verslunarviðskiptum sín á milli. Samningsaðilarnir skuldbinda sig til þess að auka samstarf sín á milli á sviði rafrænna viðskipta, þeim öllum til hagsbóta, með það fyrir augum að styðja við þau ákvæði þessa samnings sem tengjast vöru- og þjónustuviðskiptum. Samningsaðilarnir hafa, í því skyni, sett rammann sem er að finna í I. viðauka (Rafræn viðskipti).

Grein 1.9.
Almennar skilgreiningar.

    Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir, nema annað sé tekið fram:
a)    „dagar“ almanaksdagar,
b)    „vörur“ söluvarningur, framleiðsluvara, vörutegund eða efni,
c)    „lögaðili“ aðili að lögum sem er stofnaður eða skipulagður með öðrum hætti samkvæmt gildandi lögum, í hagnaðarskyni eða í öðrum tilgangi, hvort sem er í einkaeign eða í eigu hins opinbera, þ.m.t. hlutafélög, sjóðir, sameignarfélög, fyrirtæki um sameiginlegt verkefni, einkafyrirtæki eða samtök,
d)    „ráðstöfun“ lög, reglugerðir, málsmeðferð, krafa, ákvæði eða starfshættir,
e)    „ríkisborgari“ einstaklingur sem hefur ríkisfang hjá samningsaðila eða fasta búsetu hjá samningsaðila í samræmi við landslög hans,
f)    „aðili“ einstaklingur eða lögaðili.


2. KAFLI
VÖRUVIÐSKIPTI

Grein 2.1.
Gildissvið.

    Þessi kafli gildir um eftirtaldar vörur sem samningsaðilar versla með sín á milli:
a)    vörur, sem falla undir 25. til 97. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni (hér á eftir nefnd „samræmda tollskráin“), að undanskildum framleiðsluvörum sem eru taldar upp í II. viðauka (Undanskildar vörur),
b)    unnar landbúnaðarafurðir tilgreindar í III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir), að teknu viðeigandi tilliti til fyrirkomulags þess sem kveðið er á um í 3. kafla (Unnar landbúnaðarafurðir) og
c)    fisk og aðrar sjávarafurðir eins og kveðið er á um í IV. viðauka (Fiskur og aðrar sjávarafurðir).

Grein 2.2.
Skilgreiningar.

    Í samningi þessum er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir, nema annað sé tekið fram:
a)    „tollyfirvald“ það yfirvald sem, samkvæmt löggjöf samningsaðila, ber ábyrgð á stjórnsýslu vegna tollalöggjafar hans,

b)    „innflutningstollar“ hvers konar tollar eða gjöld sem eru lögð á eða tengjast vöruinnflutningi, þ.m.t. hvers konar aukaskattar eða aukagjöld nema:
    i.    gjöld sem jafngilda innlendum skatti sem er álagður með samræmdum hætti skv. 2. mgr. III. gr. GATT-samningsins frá 1994,
    ii.    undirboðs- eða jöfnunartollar sem eru álagðir skv. VI. gr. GATT-samningsins frá 1994 eða

    iii.    þóknun eða önnur gjöld sem tengjast innflutningi í réttu hlutfalli við kostnað vegna veittrar þjónustu,
c)    „tollalöggjöf“ hvers konar laga- eða reglugerðarákvæði, sem samningsaðili samþykkir og gilda um inn-, út- eða umflutning vöru og tollmeðferð hennar, að meðtöldu banni, takmörkunum og eftirliti.

Grein 2.3.
Upprunareglur og gagnkvæm aðstoð í tollamálum.

1.     Ákvæði um upprunareglur og samstarf á sviði stjórnsýslu eru sett fram í V. viðauka (Upprunareglur og stjórnsýslusamvinna).
2.     Ákvæði um gagnkvæma aðstoð á sviði tollamála er að finna í VI. viðauka (Gagnkvæm stjórnsýsluaðstoð á sviði tollamála).

Grein 2.4.
Greitt fyrir viðskiptum.

    Samningsaðilarnir skulu, í því skyni að greiða fyrir viðskiptum milli Perús og EFTA-ríkjanna:
a)    einfalda reglur um vöruviðskipti og tengda þjónustustarfsemi eftir því sem frekast er unnt,
b)    stuðla að marghliða samstarfi sín á milli í því skyni að auka þátttöku í gerð og framkvæmd alþjóðasamninga og alþjóðlegra tilmæla um að greiða fyrir viðskiptum og

c)    starfa saman að því að greiða fyrir viðskiptum á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar,
í samræmi við ákvæðin sem eru sett fram í VII. viðauka (Tollmeðferð og greitt fyrir viðskiptum).

Grein 2.5.
Stofnun undirnefndar um vöruviðskipti, upprunareglur og tollamál.

1.     Undirnefnd sameiginlegu nefndarinnar um vöruviðskipti, upprunareglur og tollamál er hér með komið á fót.
2.     Hlutverk undirnefndarinnar er, nema mælt sé fyrir um annað í þessum samningi, að miðla og taka við upplýsingum, fylgjast með þróun, leitast við að leysa vanda samfara tæknilegu ósamræmi sem kann að koma upp milli samningsaðilanna, undirbúa tæknilegar breytingar á II. viðauka (Undanskildar framleiðsluvörur), III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir), IV. viðauka (Fiskur og aðrar sjávarafurðir), V. viðauka (Upprunareglur og stjórnsýslusamvinna), VI. viðauka (Gagnkvæm stjórnsýsluaðstoð á sviði tollamála), VII. viðauka (Greitt fyrir viðskiptum) og VIII. viðauka (Iðnaðarvörur) og að aðstoða sameiginlegu nefndina.
3.     Fulltrúi Perús eða EFTA-ríkis skipa formannssæti í undirnefndinni til skiptis í ákveðinn tíma sem samkomulag er um. Formaður er kosinn á fyrsta fundi undirnefndarinnar. Undirnefndin tekur ákvarðanir með einróma samþykki.
4.     Undirnefndin skal skila skýrslu til sameiginlegu nefndarinnar. Undirnefndin getur beint tilmælum til sameiginlegu nefndarinnar um mál er varða hlutverk hennar.
5.     Undirnefndin skal koma saman eins oft og þörf krefur. Sameiginlega nefndin getur kallað undirnefndina saman, formaður hennar að eigin frumkvæði, eða samningsaðili að fram kominni beiðni hans þar um. Funda skal til skiptis í Perú og EFTA- ríki.
6.     Formaðurinn skal, í samráði við samningsaðilana, taka saman bráðabirgðadagskrá hvers fundar og senda samningsaðilunum, að jafnaði eigi síðar en tveimur vikum áður en fundur er haldinn.

Grein 2.6.
Niðurfelling innflutningsgjalda.

1.     Við gildistöku þessa samnings skal Perú fella niður innflutningstolla á vörur sem eiga uppruna sinn í EFTA-ríki, eins og kveðið er á um í III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir), IV. viðauka (Fiskur og aðrar sjávarafurðir) og VIII. viðauka (Iðnaðarvörur).

2.     Við gildistöku þessa samnings skulu EFTA-ríkin fella niður alla innflutningstolla á framleiðsluvörur sem falla undir ákvæði greinar 2.1 (Gildissvið) og upprunnar eru í Perú, nema kveðið sé á um annað í III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir) og IV. viðauka (Fiskur og aðrar sjávarafurðir).
3.     Hafa skal samráð, að beiðni samningsaðila, með það fyrir augum að hraða niðurfellingu innflutningstolla sem tilgreindir eru í viðkomandi viðaukum. Samningur á milli samningsaðilanna um að hraða niðurfellingu tolla skal koma í stað allra tolla- og niðurfellingarflokka sem settir eru fram í III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir), IV. viðauka (Fiskur og aðrar sjávarafurðir) og VIII. viðauka (Iðnaðarvörur), ef samningsaðilarnir samþykkja það í samræmi við lagaskilyrði í löndum þeirra.

4.     Ekki skal leggja á nýja innflutningstolla eða önnur gjöld í tengslum við innflutning á upprunavörum til samningsaðila né heldur hækka tolla eða gjöld sem fyrir eru, nema mælt sé fyrir um það í þessum samningi.
5.     Samningsaðilarnir viðurkenna að þeim er heimilt:
a)    í kjölfar einhliða tollalækkunar, að hækka tiltekinn toll að því marki sem er fastsett í niðurfellingarskipulagi hvers og eins samningsaðila fyrir það ár er um ræðir eða
b)    að hækka toll samkvæmt grein 12.17 (Úrskurður kemur ekki til framkvæmda og ávinningi frestað).

Grein 2.7.
Grunntollur.

1.     Grunntollur á vörur, sem á að fara stiglækkandi eins og fram kemur í III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir), IV. viðauka (Fiskur og aðrar sjávarafurðir) og VIII. viðauka (Iðnaðarvörur), skal vera tollur sem fæst í bestukjarameðferð og tekur gildi 1. apríl 2007.
2.     Ef samningsaðili lækkar gildandi bestukjaratoll sinn á innflutning, einhvern tíma eftir gildistökudag þessa samnings, skal sá tollur því aðeins gilda að hann sé lægri en sá tollur sem er reiknaður út í samræmi við viðeigandi viðauka.


Grein 2.8.
Tollar, skattar eða önnur gjöld lögð á útflutning.

    Engum samningsaðila er heimilt að leggja á eða viðhalda tolli, skatti eða öðru gjaldi vegna útflutnings vara til annars samningsaðila, nema tollurinn, skatturinn eða gjaldið sé einnig álagt eða viðhaldið vegna þessara vara þegar þær eru ætlaðar til neyslu innanlands.

Grein 2.9.
Takmarkanir á inn- og útflutningi.

1.     Fella skal niður bönn eða takmarkanir, nema tolla, skatta eða önnur gjöld, hvort sem um ræðir kvóta, innflutnings- eða útflutningsleyfa eða aðrar ráðstafanir, í viðskiptum milli samningsaðilanna, í samræmi við XI. gr. GATT-samningsins frá 1994, sem er hér með felld inn í þennan samning og er hluti hans.
2.     Samningsaðilarnir hafa þann skilning að ákvæði 1. mgr. komi í veg fyrir að samningsaðili geti samþykkt eða viðhaldið:
a)    verðkröfum vegna út- og innflutnings, að því marki sem leyfilegt er við heimtu jöfnunar- og undirboðstolla og fullnustu skuldbindinga vegna jöfnunar og undirboða eða
b)    leyfisveitingu vegna innflutnings sem er háð skilyrðum um að tiltekin nothæfiskrafa sé uppfyllt.
3.     Samningsaðili skal hvorki samþykkja né viðhalda ráðstöfun sem er í ósamræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um málsmeðferð við veitingu innflutningsleyfa. Nýja málsmeðferð við veitingu innflutningsleyfa og allar breytingar á gildandi málsmeðferð viðkomandi samningsaðila við leyfisveitingu eða á skrá hans um framleiðsluvörur skal birta, verði því við komið, 21 degi fyrir þann dag þegar það skilyrði er um ræðir verður virk, en í öllu falli eigi síðar en þann dag.
4.     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki um ráðstafanir sem settar eru fram í IX. viðauka (Notaðar vörur).

Grein 2.10.
Umsýsluþóknun og formsatriði.

1.     Sérhver samningsaðili skal ganga úr skugga um að þóknanir og gjöld hvers konar, önnur en inn- og útflutningstollar og skattar er um getur í III. gr. GATT-samningsins frá 1994, séu álögð í samræmi við 1. mgr. VIII. gr. GATT-samningsins frá 1994 og athugasemdir um túlkun hans.
2.     Enginn samningsaðili skal gera kröfu um þjónustu ræðismanns, með tilheyrandi þóknunum og gjöldum, í tengslum við innflutning vöru frá öðrum samningsaðila. Í þessum samningi merkir „þjónusta ræðismanns“ alla gerninga ræðismanna innflutningssamningsaðila á yfirráðasvæði útflutningssamningsaðilans sem miða að því að til verði ræðismannsreikningar eða áritanir ræðismanns vegna viðskiptareikninga, upprunavottorða, farmskráa, útflutningsyfirlýsinga farmsendenda eða annarra tollskjala sem er krafist vegna innflutnings eða í tengslum við hann.
3.     Sérhver samningsaðili skal hafa aðgengilegar og skal jafnan hafa á Netinu uppfærðar upplýsingar um þóknanir og gjöld sem hann krefst vegna innflutnings eða útflutnings.

Grein 2.11.
Innlend meðferð.

    Samningsaðilar skulu, nema kveðið sé á um annað í IX. viðauka (Notaðar vörur), beita innlendri meðferð í samræmi við III. gr. GATT-samningsins frá 1994, að meðtöldum athugasemdum um túlkun, sem er hér með felld inn í þennan samning og verður hluti af honum að breyttu breytanda.

Grein 2.12.
Ríkisrekin viðskiptafyrirtæki.

    Farið skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna, að því er varðar ríkisrekin viðskiptafyrirtæki, í samræmi við ákvæði XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samkomulag um túlkun XVII. gr. GATT-samningsins frá 1994, sem eru hér með felld inn í þennan samning og verða hluti af honum, að breyttu breytanda.

Grein 2.13.
Ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna.

1.     Samningsaðilarnir staðfesta réttindi sín og skyldur samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um beitingu ráðstafana er varða hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna (hér á eftir nefndur „samningurinn um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna“) og eftir ákvörðunum um beitingu þess samnings sem eru samþykktar af nefnd Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um ráðstafanir er varða hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna. Skilgreiningarnar í viðauka A við samninginn um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna, svo og orðalisti um samræmd hugtök viðkomandi alþjóðastofnana, gilda að því er þennan kafla varðar og um öll samskipti samningsaðilanna um mál er varða heilbrigði og hollustuhætti dýra og plantna.
2.     Samningsaðilarnir skulu vinna saman að því að hrinda samningnum um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna í framkvæmd með skilvirkum hætti og þeim ákvæðum sem sett eru fram í þessari grein í því augnamiði að greiða fyrir tvíhliða viðskiptum, með fyrirvara um réttinn til að samþykkja nauðsynlegar ráðstafanir til að vernda heilbrigði manna, dýra og plantna og að vernda hollustuhætti eða heilbrigði dýra og plantna svo viðunandi sé.
3.     Samningsaðilarnir skulu ekki beita ráðstöfunum sínum til verndar hollustuháttum eða heilbrigði dýra og plantna sem tengjast eftirliti, skoðun, samþykki eða vottun til að takmarka markaðsaðgang, án vísindalegs rökstuðnings, samanber þó 7. mgr. 5. gr samningsins um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.
4.     Samningsaðilar skulu auka samstarf á sviði ráðstafana um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna með það fyrir augum að auka gagnkvæman skilning á kerfum hvers um sig og bæta kerfi sín að því er varðar hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.
5.     Perú og EFTA-ríkin skulu, þegar nauðsyn krefur og til að auðvelda aðgang að mörkuðum hvers annars, taka upp tvíhliða samninga, að meðtöldum samningum á milli eftirlitsstofnana hvers og eins.

6.     Samningsaðilar samþykkja að tilnefna og tilkynna hver öðrum, við gildistöku þessa samnings, um tengiliði vegna tilkynninga- og upplýsingaskipta um málefni er varða hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna.
7.     Samningsaðilar koma hér með á fót umræðuhópi sérfræðinga á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna. Umræðuhópurinn skal funda að ósk samningsaðila. Samningsaðilar skulu, til að unnt sé að nýta fjármuni sem best og eins og aðstæður frekast leyfa, leitast við að nýta sér samskiptatækni á borð við rafræn samskipti, mynd- eða símafundi eða gera ráðstafanir til að funda í tengslum við fundi sameiginlegu nefndarinnar eða fundi nefndar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna. Umræðuhópurinn skal meðal annars:
a)    yfirfara ákvæði þessarar greinar og kanna hvort þeim sé beitt,
b)    fjalla um ráðstafanir, sem líklegt er að hafi, eða hafa haft, áhrif á aðgang að mörkuðum annarra samningsaðila í því skyni að finna viðeigandi lausnir í tæka tíð í samræmi við samninginn um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna,
c)    meta framgang að því er varðar hagsmuni samningsaðilanna á sviði markaðsaðgangs,
d)    ræða frekari þróun samningsins um hollustuhætti og heilbrigði dýra og plantna,
e)    fjalla um skuldbindingar samningsaðilanna sem tengjast hollustuháttum og heilbrigði dýra og plantna í öðrum alþjóðasamningum og
f)    koma á fót sérfræðingahópum í tæknimálum eftir þörfum.

Grein 2.14.
Tæknilegar reglur.

1.     Fara skal með réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar tæknilegar reglur, staðla og samræmismat í samræmi við ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um tæknilegar viðskiptahindranir (hér á eftir nefndur „samningurinn um tæknilegar viðskiptahindranir“), sem eru hér með felldar inn í þennan samning og verða hluti af honum, að breyttu breytanda.
2.     Samningsaðilarnir skulu auka samvinnu á sviði tæknilegra reglna, staðla og samræmismats með það fyrir augum að auka gagnkvæman skilning á kerfum hvers og eins og auðvelda aðgang að mörkuðum hvers og eins. Þeir skulu, í þessu skyni, einkum vinna saman að því að:
a)    efla hlutverk alþjóðlegra staðla sem grundvöll tæknilegra reglna, þ.m.t. verklag við samræmismat,
b)    vinna að framgangi faggildingar samræmismatsstofa á grundvelli viðeigandi staðla og leiðbeininga Alþjóðlegu staðlasamtakanna (ISO) og Alþjóðaraftækninefndarinnar (IEC),

c)    stuðla að gagnkvæmri viðurkenningu á niðurstöðum samræmismats samræmismatsstofa sem hafa verið viðurkenndar samkvæmt viðeigandi, marghliða samningum á milli hlutaðeigandi faggildingarkerfa eða -stofa og
d)    stuðla að gagnsæi við þróun tæknilegra reglna og verklags samningsaðilanna við samræmismat, m.a. til þess að tryggja að allar tæknilegar reglur, sem eru samþykktar, séu birtar á opinberum vefsetrum sem almenningur hefur frjálsan aðgang að. Þegar samningsaðili heldur eftir vörum í innflutningshöfn, sem eru upprunnar hjá öðrum samningsaðila, vegna þess að talið er að þær samrýmist ekki tæknilegum reglum skal hann, þegar í stað, tilkynna innflytjandanum um ástæður þess.
3.     Samningsaðilarnir skulu skiptast á nöfnum og heimilisföngum tilnefndra tengiliða vegna mála er varða tæknilegar viðskiptahindranir til að auðvelda tæknilegt samráð og skipti upplýsinga um öll mál sem geta komið upp vegna beitingar sérstakra tæknilegra reglna, staðla og aðferða við samræmismat.

4.     Ef samningsaðili leitar eftir upplýsingum eða útskýringum samkvæmt ákvæðum þessarar greinar skal samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, veita slíkar upplýsingar eða gefa skýringar á prenti eða á rafrænan hátt innan hæfilegs tíma. Samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, skal leitast við að svara slíkri beiðni innan 60 daga.
5.     Telji samningsaðili að annar samningsaðili hafi gert ráðstafanir, sem fara í bága við samninginn um tæknilegar viðskiptahindranir og líklegt er að hafi, eða hafi haft, áhrif á aðgang að markaði hans, getur hann óskað eftir, með fulltingi tilnefnds tengiliðs sem settur er skv. 3. mgr., að efnt verði til tæknilegs samráðs í því skyni að finna viðeigandi lausn í samræmi við ákvæði samningsins um tæknilegar viðskiptahindranir. Slíkt samráð, sem getur farið fram bæði innan og utan vébanda sameiginlegu nefndarinnar, skal fara fram innan 40 daga frá þeim degi þegar beiðni um samráð er veitt viðtaka. Samráð getur einnig farið fram með því að halda mynd- eða símafund. Samráð innan sameiginlegu nefndarinnar er samráð samkvæmt grein 12.5 (Samráð).

Grein 2.15.
Styrkir og jöfnunarráðstafanir.

1.     Farið skal með réttindi og skyldur varðandi styrki og jöfnunarráðstafanir í samræmi við VI. og XVI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir, samanber þó ákvæði 2. mgr.
2.     Áður en samningsaðili hefur rannsókn til að ákvarða hvort og að hve miklu leyti um meintan styrk er að ræða í Perú eða EFTA-ríki og hver áhrif hans eru, eins og kveðið er á um í 11. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um styrki og jöfnunarráðstafanir, skal samningsaðilinn, sem hyggst hefja rannsókn, senda skriflega tilkynningu þar um til þess samningsaðila sem þær vörur tilheyra sem kunna að verða rannsakaðar og veita 30 daga frest til að leita lausnar sem báðir aðilar geta sætt sig við. Samráð skal fara fram milli lögbærra yfirvalda samningsaðilanna, innan 15 daga frá þeim degi þegar fyrrnefndri tilkynningu er veitt viðtaka, fari samningsaðili fram á slíkt samráð.
3.     Ákvæði 12. kafla (Lausn deilumála) gilda ekki um efnisatriði þessarar greinar, að undanskildum efnisatriðum 2. mgr. hennar.

Grein 2.16.
Undirboð.

1.     Réttindi og skyldur, sem tengjast undirboðsráðstöfunum, skulu vera í samræmi við VI. gr. GATT- samningsins frá 1994 og samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um framkvæmd VI. gr. GATT-samningsins frá 1994 (hér á eftir nefndur „samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um undirboð“), samanber þó ákvæði 2. mgr.
2.     Þegar samningsaðila berst nægilega rökstutt erindi skal hann tilkynna þeim samningsaðila sem talinn er bjóða vörur sínar á undirboðskjörum um það skriflega áður en rannsókn hefst samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um undirboð og veita 20 daga frest til samráðs til þess að leita lausnar sem báðir aðilar geta sætt sig við. Sé ekki hægt að finna lausn skal hvor samningsaðili halda réttindum sínum og skyldum skv. VI. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um undirboð.
3.     Sameiginlega nefndin skal endurskoða þessa grein til að ákvarða hvort efni hennar sé enn nauðsynlegt til að ná stefnumiðum samningsaðilanna.
4.     Ákvæði 12. kafla (Lausn deilumála) gilda ekki um efnisatriði þessarar greinar, að undanskildum efnisatriðum 2. mgr. hennar.

Grein 2.17.
Víðtækar verndarráðstafanir.

1.     Samningsaðilarnir staðfesta réttindi sín og skyldur skv. XIX. gr.GATT-samningsins frá 1994 og samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um verndarráðstafanir (hér á eftir nefndur „samningurinn um verndarráðstafanir“).
2.     Þegar samningsaðili gerir ráðstafanir samkvæmt ákvæðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem um getur í 1. mgr. skal hann undanskilja innflutning upprunavöru frá einum eða fleiri samningsaðilum ef slíkur innflutningur sem slíkur veldur ekki eða honum fylgir ekki alvarlegur skaði eða líkur eru á því. Samningsaðilinn, sem gerir ráðstafanir, skal gera slíkar undantekningar í samræmi við reglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
3.     Engum samningsaðila er heimilt að beita eftirfarandi ráðstöfunum samtímis vegna sömu framleiðsluvöru:
a)    tvíhliða verndarráðstöfun og
b)    ráðstöfun skv. XIX. gr. GATT-samningsins frá 1994 og samningnum um verndarráðstafanir.

Grein 2.18.
Tvíhliða verndarráðstafanir.

1.     Ef vara, upprunnin hjá samningsaðila, er flutt inn til annars samningsaðila, á aðlögunartímabilinu og í framhaldi af lækkun eða niðurfellingu tolls samkvæmt þessum samningi, í slíku auknu magni, að raungildi eða samanborið við innlenda framleiðslu, og við þær aðstæður að valdi svo um munar alvarlegu tjóni eða hættu á slíku fyrir innlenda iðnaðarframleiðslu sambærilegrar vöru eða vöru í beinni samkeppni hjá innflutningssamningsaðila, getur innflutningssamningsaðilinn gripið til verndarráðstafana í eins litlum mæli og nauðsyn krefur til þess að unnt sé að bæta skaðann eða koma í veg fyrir hann, þó með fyrirvara um ákvæði þessarar greinar.
2.     Í þessari grein hafa eftirfarandi hugtök þá merkingu sem hér greinir:
a)    „Aðlögunartímabil“ tíu ára tímabil frá gildistökudegi þessa samnings. Að því er varðar vörur, sem afnema skal tolla af í meira en tíu ár samkvæmt ákvæðum VIII. viðauka (Iðnaðarvörur), merkir „aðlögunartímabil“ það tímabil sem afnám tolla af vörunum er í gildi og um getur í þeim viðauka og
b)    „að valda svo um munar“ merkir orsök sem er þungvægari en aðrar orsakir.
3.     Því aðeins er heimilt að gera verndarráðstafanir að óyggjandi sönnun liggi fyrir um að aukinn innflutningur hafi valdið alvarlegu tjóni eða hættu á slíku samkvæmt rannsókn í samræmi við verklag og skilgreiningar sem mælt er fyrir um í 3. og 4. gr. samningsins um verndarráðstafanir.
4.     Samningsaðili, sem hyggst grípa til eða framlengja verndarráðstöfun samkvæmt þessari grein, skal, þegar í stað og eigi síðar en 30 dögum áður en ráðstöfun er gerð, tilkynna hinum samningsaðilunum um það. Í tilkynningunni skulu koma fram allar viðeigandi upplýsingar, þar á meðal sönnunargögn um alvarlegt tjón eða hættu á slíku tjóni af völdum aukins innflutnings, nákvæm lýsing á þeirri vöru er um ræðir og á fyrirhugaðri ráðstöfun og hvenær rannsókninni, er um getur í 3. mgr., lýkur, hve lengi búast megi við að ráðstöfunin vari og tímaáætlun um lok hennar í áföngum.
5.     Samningsaðili, sem beitir tvíhliða verndarráðstöfun, skal, að höfðu samráði við hinn samningsaðilann, bjóða fram aðgerð til jöfnunar í þágu viðskiptafrelsis, sem báðir aðilar samþykkja, í formi ívilnana sem hafa í reynd sömu áhrif í viðskiptalegu tilliti eða eru ígildi þeirra viðbótartolla sem talið er að ráðstöfunin hafi í för með sér. Samningsaðilinn, sem beitir ráðstöfuninni, skal veita tækifæri til slíks samráðs eigi síðar en 15 dögum eftir þann dag þegar tvíhliða verndarráðstöfuninni er beitt.
6.     Ef skilyrðum 1. og 3. mgr. er fullnægt er innflutningssamningsaðilanum heimilt, að því marki sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir eða bæta alvarlegt tjón eða hættu á því, að:
a)    fresta frekari lækkun á hvaða tolltaxta sem er og kveðið er á um í þessum samningi vegna vörunnar eða
b)    hækka tolltaxta framleiðsluvörunnar sem eigi er hærri tollur en sá sem lægri er af eftirfarandi:
    i.    þeim tolli sem fæst í bestukjarameðferð og er í gildi á þeim degi þegar ráðstöfunin er gerð eða
    ii.    þeim tolli sem fæst í bestukjarameðferð og er í gildi daginn fyrir gildistöku þessa samnings.
7.     Enginn samningsaðili hefur heimild til að viðhalda tvíhliða verndarráðstöfun:
a)    nema að því marki og í þann tíma sem kann að vera nauðsynlegt til að koma í veg fyrir eða bæta alvarlegt tjón og til að auðvelda aðlögun,
b)    lengur en í tvö ár. Tímabilið má framlengja allt að einu ári ef viðkomandi lögbært yfirvald ákveður, í samræmi við þær verklagsreglur sem settar eru fram í 3. og 4. mgr., að ráðstöfunin sé áfram nauðsynleg til að koma í veg fyrir eða bæta alvarlegt tjón og til að auðvelda aðlögun hinnar innlendu iðngreinar og fyrir liggi að sú sé raunin eða
c)    fram yfir lok aðlögunartímabilsins.
8.     Ekki skal beita tvíhliða verndarráðstöfun vegna innflutnings vöru, hafi slík ráðstöfun áður verið gerð vegna hennar.
9.     Samningsaðili, sem gerir verndarráðstöfun samkvæmt ákvæðum þessa kafla, skal ganga, innan 30 daga frá dagsetningu tilkynningar sem er tilgreind í 4. mgr., til samráðs við samningsaðilann, þaðan sem framleiðsluvaran sem verndarráðstöfunin snertir kemur, til að greiða fyrir lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við og skal hann tilkynna samningsaðilunum um niðurstöður samráðsins. Ef engin slík lausn finnst er innflutningssamningsaðilanum heimilt að samþykkja ráðstöfun skv. 6. mgr.
10.     Sé ekki um neina aðgerð til jöfnunar að ræða sem báðir aðilar samþykkja og um getur í 5. mgr. getur samningsaðilinn, þaðan sem sú framleiðsluvara kemur sem ráðstöfun beinist gegn, gripið til jöfnunaraðgerðar. Tilkynna skal hinum samningsaðilunum þegar í stað um þá verndarráðstöfun og jöfnunaraðgerð sem gripið er til. Við val á verndarráðstöfun og jöfnunaraðgerð skal sú aðgerð hafa forgang sem raskar sem minnst framkvæmd þessa samnings. Jöfnunaraðgerð skal venjulega fela í sér niðurfellingu ívilnana sem hafa jafngild áhrif í reynd á viðskipti eða ívilnanir sem í reynd jafngilda þeim viðbótartollum sem búist er við að leiði af verndarráðstöfuninni. Samningsaðili, sem grípur til jöfnunaraðgerðar, skal beita henni í eins stuttan tíma og nauðsyn krefur til að ná fram í reynd jafngildum áhrifum á viðskipti og einungis á meðan ráðstöfun skv. 6. mgr. er beitt.

11.     Til að auðvelda aðlögun, þegar gert er ráð fyrir að verndarráðstöfun standi yfir í eitt ár eða lengur, skal samningsaðilinn, sem beitir ráðstöfuninni, draga úr áhrifum hennar smám saman þann tíma sem henni er beitt.
12.     Þegar ráðstöfuninni er hætt skal beita þeim tolli sem hefði verið lagður á ef ráðstöfunin hefði ekki verið gerð.
13.     Ef aðstæður eru tvísýnar og tafir myndu valda skaða, sem erfitt yrði að bæta, er samningsaðila heimilt að grípa til bráðabirgðaverndarráðstöfunar ef bráðabirgðamat leiðir í ljós svo ekki verður um villst að aukinn innflutningur hafi valdið svo um munar alvarlegu tjóni á innlendum iðnaði eða að hætta sé á því. Samningsaðili sem hyggst grípa til slíkrar ráðstöfunar skal tilkynna það öllum samningsaðilunum án tafar. Uppfylla skal viðeigandi kröfur og fylgja þeirri málsmeðferð sem um getur í 3. til 9. mgr. þann tíma sem bráðabirgðaverndarráðstöfuninni er beitt.

14.     Bráðabirgðaverndarráðstöfun skal hætt innan 180 daga í síðasta lagi. Eftirfarandi fyrirkomulag skal gilda:
a)    Gildistími slíkrar bráðabirgðaráðstöfunar skal teljast vera hluti af því tímabili sem ráðstöfunin, sem getið er í 7. mgr., varir, ásamt hvers konar framlengingu hennar,
b)    bráðabirgðaverndarráðstöfun er einungis heimilt að gera sem tollahækkun skv. 6. mgr. Endurgreiða skal alla greidda viðbótartolla án tafar og aflétta öllum ábyrgðum ef rannsóknin, sem er lýst í 3. mgr., leiðir ekki í ljós að skilyrðum í 1. mgr. hafi verið fullnægt og

c)    allar jöfnunargreiðslur, sem gagnkvæmt samkomulag er um, eða jöfnunaraðgerðir skulu miðast við samanlagðan gildistíma bráðabirgðaverndarráðstöfunarinnar og verndarráðstöfunarinnar.

Grein 2.19.
Almennar undantekningar.

    Að því er varðar þennan kafla skal XX. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar almennar undantekningar og er hún hér með felld inn í samning þennan og verður hluti af honum að breyttu breytanda.

Grein 2.20.
Undantekningar af öryggisástæðum.

    Að því er varðar þennan kafla skulu ákvæði XXI. gr. GATT-samningsins frá 1994 gilda um réttindi og skyldur samningsaðilanna að því er varðar öryggismál og eru þau hér með felld inn í samning þennan og verða hluti af honum, að breyttu breytanda.

3. KAFLI
UNNAR LANDBÚNAÐARAFURÐIR

Grein 3.1.
Gildissvið.

1.     Fara skal með unnar landbúnaðarafurðir skv. 2. kafla (Vöruviðskipti), nema kveðið sé á um annað í þessum kafla.
2.     Samningsaðilar árétta réttindi sín og skyldur samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnað.

Grein 3.2.
Verðjöfnunaraðgerðir.

1.     Til þess að tekið sé tillit til mismunandi verðs á landbúnaðarhráefnum, sem eru notuð í framleiðsluvörur sem um getur í grein 3.3. (Tollaívilnanir), útilokar þessi samningur ekki að tollur sé lagður á innflutningsvörur.
2.     Tollur, sem er lagður á innflutning, skal grundvallaður á en ekki vera umfram þann mun sem er á verði innanlands og heimsmarkaðsverði á þeim landbúnaðarhráefnum sem eru notuð í viðkomandi framleiðsluvörur.

Grein 3.3.
Tollaívilnanir.

1.     EFTA-ríkin skulu, með hliðsjón af þeim ákvæðum sem mælt er fyrir um í grein 3.2. (Verðjöfnunaraðgerðir), ekki veita lakari meðferð en Evrópusambandið nýtur, að því er varðar framleiðsluvörur sem eru taldar upp í 1. viðbæti við III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir) og upprunnar eru í Perú.
2.     Perú skal, á grundvelli lækkunar tolla á innflutningi skv. 1. mgr. sem EFTA-ríkin veita Perú, lækka innflutningstolla sína með gagnkvæmum hætti. Lækkunin skal vera í réttu hlutfalli við minnstu lækkun sem EFTA-ríki veitir Perú.

3.     Þegar um er að ræða framleiðsluvörur, sem eru taldar upp í 2. viðbæti við III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir) og upprunnar í EFTA-ríki, skal Perú lækka innflutningstolla eins og tilgreint er þar.

Grein 3.4.
Útflutningsstyrkir í landbúnaði.

1.     Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. grein 3.1 skulu samningsaðilarnir ekki samþykkja, viðhalda, innleiða eða endurinnleiða útflutningsstyrki, eins og skilgreint er í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnað, í viðskiptum sínum með vörur sem njóta tollaívilnana í samræmi við þennan samning.
2.     Ef samningsaðili samþykkir, viðheldur, innleiðir eða endurinnleiðir útflutningsstyrki vegna framleiðsluvöru, sem nýtur tollaívilnana í samræmi við grein 3.3 (Tollaívilnanir), er hinum samningsaðilanum heimilt að hækka slíkan innflutningstoll allt að þeim tolli í þeirri bestukjarameðferð sem gildir á þeim tíma. Hækki samningsaðili toll skal hann tilkynna hinum samningsaðilanum það innan 30 daga frá þeim degi þegar tollurinn var hækkaður.

Grein 3.5.
Inngripsverðkerfi.

    Perú er heimilt að viðhalda inngripsverðkerfi sínu vegna landbúnaðarafurða, eins og fram kemur í 3. viðbæti við III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir).

Grein 3.6.
Tilkynningar.

1.     EFTA-ríkin skulu tilkynna Perú sem fyrst um allar ráðstafanir sem gripið er til samkvæmt grein 3.2 (Verðjöfnunaraðgerðir), eigi síðar en 30 dögum eftir að samningur þessi öðlast gildi.
2.     EFTA-ríkin skulu tilkynna Perú um allar breytingar á þeirri meðferð sem Evrópusambandið nýtur.

Grein 3.7.
Samráð.

    Perú og EFTA-ríkin skulu yfirfara reglulega þróun viðskipta sín á milli með unnar landbúnaðarafurðir sem falla undir þennan kafla. Samningsaðilarnir skulu, í ljósi fyrrnefndar yfirferðar og með hliðsjón af því fyrirkomulagi sem gildir milli samningsaðilanna og Evrópusambandsins eða innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, ákveða hugsanlegar breytingar á þessum kafla.

4. KAFLI
ÞJÓNUSTUVIÐSKIPTI

Grein 4.1.
Þjónustuviðskipti.

1.     Samningsaðilarnir árétta þau réttindi og skyldur sem gilda í samskiptum þeirra og kveðið er á um í GATS-samningnum.
2.     Samningsaðilarnir viðurkenna vaxandi mikilvægi þjónustuviðskipta í hagkerfum sínum. Þeir skulu, í þeirri viðleitni sinni að þróa í áföngum og víkka samstarf sín á milli, vinna saman að því að skapa sem hagstæðust skilyrði til þess að geta rýmkað til fyrir fjárfestingum og opnað markaði sína enn frekar og með gagnkvæmum hætti fyrir þjónustuviðskiptum.
3.     Samningsaðilarnir geta skoðað í sameiningu og á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar hvert það mál sem hefur áhrif á þjónustuviðskipti.
4.     Samningsaðilarnir skulu semja um efnisatriði kafla um þjónustuviðskipti, m.a. sjóflutningaþjónustu milli landa, á grundvelli gagnkvæms hagræðis, þar sem almennt jafnvægi réttinda og skyldna er tryggt og tilhlýðilegt tillit tekið til V. gr. GATS- samningsins. Þessar samningaviðræður skulu fara fram eigi síðar en einu ári eftir að samningur þessi öðlast gildi.

Grein 4.2.
Viðurkenning.

1.     Í því skyni að uppfylla, í heild eða að hluta, viðeigandi staðla eða viðmiðanir, sem gilda hjá sérhverjum samningsaðila um heimildir, leyfi eða skírteini til handa þjónustuveitendum og, 1 með fyrirvara um kröfur skv. 3. mgr., skal sérhver samningsaðili



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      Í þessari grein og X. viðauka (Viðurkenning menntunar og hæfi þjónustuveitenda) merkir „þjónustuveitandi“ hvern þann aðila sem veitir, eða leitar eftir því að veita, þjónustu.

taka tilhlýðilegt tillit til allra beiðna annarra samningsaðila um að hann viðurkenni menntun eða reynslu, sem hefur verið aflað hjá öðrum samningsaðila, uppfylltar kröfur þar eða leyfi eða skírteini sem hann hefur veitt. Slíka viðurkenningu má byggja á samningi eða samkomulagi við fyrrnefndan annan samningsaðila eða veita einhliða að öðrum kosti.
2.     Viðurkenni samningsaðili, samkvæmt samningi eða samkomulagi, menntun eða reynslu sem hefur verið aflað, kröfur sem hafa verið uppfylltar, veitt leyfi eða útgefin skírteini á yfirráðasvæði aðila, sem á ekki hlut að þessum samningi, skal sá samningsaðili veita öðrum samningsaðila næg tækifæri til að semja um aðild að slíkum samningi eða samkomulagi, hvort sem samningur eða samkomulag liggur fyrir eða mun liggja fyrir síðar, eða ganga frá sambærilegum samningi eða samkomulagi við hann. Ef viðurkenning samningsaðila er einhliða skal hann veita öðrum samningsaðila næg tækifæri til að sýna fram á að viðurkenna beri einnig menntun eða fengna reynslu, uppfylltar kröfur eða leyfi eða skírteini sem eru veitt á yfirráðasvæði fyrrnefnds annars samningsaðila.
3.     Viðurkenning samningsaðila skal ekki vera með þeim hætti að hann mismuni löndum, þegar hann beitir stöðlum sínum eða viðmiðunum sem gilda um heimildir, leyfi eða skírteini til handa þjónustuveitendum, eða takmarki þjónustuviðskipti með duldum hætti.
4.     Í X. viðauka (Viðurkenning menntunar og hæfi þjónustuveitenda) eru sett fram frekari réttindi og skyldur sem lúta að viðurkenningu menntunar og hæfi þjónustuveitenda.

5. KAFLI
FJÁRFESTINGAR

Grein 5.1.
Umfang.

    Ákvæði þessa kafla gilda um viðskiptanærveru í öllum geirum nema þeim þar sem alhliða þjónusta er veitt.

Grein 5.2.
Skilgreiningar.

1.     Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „lögaðili hjá samningsaðila“ lögaðili sem er stofnaður eða skipulagður samkvæmt landslögum Perús eða EFTA-ríkis og stundar umtalsverð viðskipti í Perú eða viðkomandi EFTA-ríki,

b)    „einstaklingur“ ríkisborgari í Perú eða EFTA- ríki samkvæmt löggjöf viðkomandi ríkis,


c)    „viðskiptanærvera“ hvers konar viðskiptastarfsemi, þar á meðal:
    i.    með stofnun, kaupum á eða áframhaldandi rekstri lögaðila eða
    ii.    með myndun eða áframhaldandi rekstri útibús eða umboðsskrifstofu,
    á yfirráðasvæði annars samningsaðila í því skyni að stunda atvinnustarfsemi.
2.     Að því er varðar einstaklinga tekur þessi kafli ekki til atvinnuleitar eða atvinnuþátttöku á vinnumarkaði eða veitir rétt til aðgangs að vinnumarkaði annars samningsaðila.

Grein 5.3.
Innlend meðferð.

    Sérhver samningsaðili skal, að því er varðar viðskiptanærveru og með fyrirvara um þá fyrirvara sem settir eru fram í XI. viðauka (Fyrirvarar), veita lögaðilum og einstaklingum annars samningsaðila og viðskiptanærveru þessara aðila meðferð sem er ekki óhagstæðari en sú sem hann veitir, við líkar aðstæður, eigin lögaðilum og einstaklingum.

Grein 5.4.
Fyrirvarar.

1.     Innlend meðferð, sem kveðið er á um í grein 5.3 (Innlend meðferð), gildir ekki um:
a)    þá fyrirvara sem samningsaðili telur upp í XI. viðauka (Fyrirvarar),
b)    breytingu á fyrirvara, sem fjallað er um í a-lið 1. mgr., að því marki sem breytingin eykur ekki ósamræmi fyrirvarans við grein 5.3 (Innlend meðferð) og

c)    nýjan fyrirvara sem samningsaðili samþykkir skv. 4. mgr. og felldur er inn í XI. viðauka (Fyrirvarar), að því tilskildu að þess konar fyrirvari hafi ekki áhrif á heildarumfang skuldbindinga samningsaðilans samkvæmt ákvæðum þessa kafla,
að því marki sem þess konar fyrirvari samræmist ekki fyrrnefndri grein.
2.     Samningsaðilarnir skuldbinda sig, sem er liður í þeirri endurskoðun sem kveðið er á um í grein 5.9 (Endurskoðun), til að endurskoða stöðu þeirra fyrirvara sem settir eru fram í XI. viðauka (Fyrirvarar), á a.m.k. þriggja ára fresti, með það í huga að fækka slíkum fyrirvörum eða fella þá niður.
3.     Samningsaðila er hvenær sem er heimilt, annaðhvort að fenginni beiðni annars samningsaðila eða einhliða, að fella niður fyrirvara sem settir eru fram í XI. viðauka (Fyrirvarar), í heild eða að hluta, með skriflegri tilkynningu til annarra samningsaðila.
4.     Komi til þess að nýr fyrirvari sé samþykktur, eins og um getur í c-lið 1. mgr., skal hlutaðeigandi samningsaðili tilkynna öðrum samningsaðilum um hann án tafar. Þegar samningsaðila berst slík tilkynning er honum heimilt að fara fram á samráð um fyrirvarann og málefni honum tengd. Hefja skal slíkt samráð án tafar.

Grein 5.5.
Lykilstarfsmenn.

1.     Sérhver samningsaðili skal, með fyrirvara um lög sín og reglur, veita einstaklingum annars samningsaðila, ásamt lykilstarfsmönnum í þjónustu einstaklinga eða lögaðila annars samningsaðila, heimild til tímabundinnar komu og dvalar á yfirráðasvæði sínu í því skyni að stunda starfsemi í tengslum við viðskiptanærveru, m.a. að veita ráðgjöf og tæknilega þjónustu.
2.     Sérhver samningsaðili skal, með fyrirvara um lög sín og reglugerðir, heimila einstaklingum eða lögaðilum annarra samningsaðila, ásamt viðskiptanærveru, að ráða til sín, í tengslum við fyrrnefnda viðskiptanærveru, lykilstarfsmenn, að því tilskildu að þessir starfsmenn hafi fengið heimild til að koma, dvelja og starfa á yfirráðasvæði hans og að viðkomandi starf sé með sömu skilmálum, skilyrðum og tímamörkum og heimildin sem er veitt slíkum lykilstarfsmönnum.
3.     Samningsaðilarnir skulu, með fyrirvara um lög sín og reglur, veita tímabundnar heimildir til komu og dvalar og gefa út nauðsynleg staðfestingarskjöl fyrir maka og ólögráða börn lykilstarfsmanna sem hafa fengið tímabundna heimild til komu og dvalar, ásamt tímabundnu atvinnuleyfi, í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. Maka og ólögráða börnum fyrrnefnds einstaklings skal veitt dvalarleyfi til jafns við hann.

Grein 5.6.
Réttur til reglusetningar.

    Samningsaðila er ekki fyrirmunað, með fyrirvara um ákvæði þessa kafla og XI. viðauka (Fyrirvarar), að setja reglur um viðskiptanærveru sbr. c-lið 1. mgr. greinar 5.2 (Skilgreiningar).

Grein 5.7.
Tengsl við aðra milliríkjasamninga.

    Beita ber ákvæðum þessa kafla með fyrirvara um réttindi og skyldur samningsaðilanna samkvæmt öðrum milliríkjasamningum um fjárfestingar sem Perú og EFTA-ríki eiga aðild að. Sá skilningur ríkir að ekki sé hægt að beita neinni tilhögun á lausn deilumála sem er að finna í samningum um fjárfestingarvernd, sem Perú og EFTA-ríki eiga aðild að, vegna meintra brota á ákvæðum þessa kafla.

Grein 5.8.
Undantekning.

    Undantekningin í d-lið XIV. gr. GATS-samningsins er hér með felld inn í þennan kafla og er hluti af honum að breyttu breytanda.

Grein 5.9.
Endurskoðun.

1.     Endurskoða skal þennan kafla reglulega, á vettvangi sameiginlegu nefndarinnar, með tilliti til þess að þróa enn frekar skuldbindingar samningsaðilanna.

2.     Samningsaðilarnir skulu, með tilliti til 4. mgr. greinar 4.1 (Þjónustuviðskipti), stefna að því að samræmi haldist, eftir því sem við á, við niðurstöður samningaviðræðna í framtíðinni um efnisatriði 4. kafla (Þjónustuviðskipti), einkum vegna skuldbindinga viðvíkjandi greiðslum og yfirfærslum.

6. KAFLI
HUGVERKAVERND


Grein 6.1.
Almenn ákvæði.

1.     Samningsaðilarnir skulu gera ráðstafanir til að veita og tryggja hugverkaréttindum fullnægjandi og árangursríka vernd án mismununar, þ.m.t. ráðstafanir sem gera kleift að framfylgja slíkum réttindum þegar brotið er gegn þeim, eftirlíkingar eru gerðar og ólögleg nýting á sér stað, í samræmi við ákvæði þessa kafla og alþjóðasamninga sem þar er getið.
2.     Sérhver samningsaðili skal koma ákvæðum þessa kafla til framkvæmda og er honum heimilt, en ber ekki skylda til, að leiða í landslög víðtækari vernd en krafist er í þessum kafla, að því tilskildu að slík vernd brjóti ekki í bága við ákvæði þessa kafla.

3.     Samningsaðilarnir skulu veita ríkisborgurum annarra samningsaðila meðferð sem er eigi óhagstæðari en þeir veita eigin ríkisborgurum, að því er varðar vernd 1 hugverka, með fyrirvara um þær undantekningar sem kveðið er á um í 3. og 5. gr. samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um hugverkarétt í viðskiptum (hér á eftir nefndur „samningurinn um hugverkarétt í viðskiptum“).
4.     Hagræði, sérkjör, forréttindi eða friðhelgi, sem samningsaðili veitir ríkisborgurum annars lands með tilliti til verndar 1 hugverka, skal veita, þegar í stað


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      Í 3. og 4. mgr. merkir hugtakið „vernd“ m.a. atriði er hafa áhrif á framboð, öflun, gildissvið, viðhald og framfylgd hugverkaréttinda, einnig atriði er hafa áhrif á nýtingu hugverkaréttinda sem er sérstaklega fjallað um í þessum kafla.


og án skilyrða, ríkisborgurum annarra samningsaðila, með fyrirvara um þær undantekningar sem kveðið er á um í 4. og 5. gr. samningsins um hugverkarétt í viðskiptum.
5.     Samningsaðilar geta gert, í samræmi við 2. mgr. 8. gr. samningsins um hugverkarétt í viðskiptum, viðeigandi ráðstafanir, að því tilskildu að þær séu í samræmi við ákvæði þessa samnings, ef nauðsynlegt reynist til þess að koma í veg fyrir að rétthafar misbeiti hugverkaréttindum eða að gripið sé til aðgerða sem hamla viðskiptum á óeðlilegan hátt eða hafa skaðleg áhrif á miðlun tækni landa í milli.

Grein 6.2.
Grundvallarreglur.

1.     Samningsaðilarnir viðurkenna, í samræmi við 7. gr. samningsins um hugverkarétt í viðskiptum, að vernd og fullnusta hugverkaréttinda ætti að ýta undir tækninýjungar og miðlun og útbreiðslu tækni, þannig að nýtist bæði framleiðendum og notendum tækniþekkingar og með þeim hætti að stuðli að félagslegri og efnahagslegri velferð og jafnvægi milli réttinda og skyldna.

2.     Samningsaðilarnir viðurkenna að miðlun tækni stuðlar að aukinni getu og hæfni á landsvísu, þar sem markmiðið er að skapa traustan og raunhæfan tæknigrundvöll.
3.     Samningsaðilarnir viðurkenna að upplýsinga- og samskiptatækni hefur áhrif á sköpun og notkun bókmenntaverka og listaverka.
4.     Samningsaðilunum er heimilt, í samræmi við 1. mgr. 8. gr. samningsins um hugverkarétt í viðskiptum og þegar þeir móta lög sín og reglur eða breyta þeim, að samþykkja nauðsynlegar ráðstafanir til að standa vörð um almannaheilbrigði og næringu almennings og til að efla áhuga almennings á sviðum sem hafa grundvallarþýðingu fyrir félagslega, hagræna og tæknilega þróun, að því tilskildu að slíkar ráðstafanir samrýmist ákvæðum þessa kafla.
5.     Samningsaðilarnir viðurkenna þær meginreglurnar sem eru settar fram í yfirlýsingunni um samninginn um hugverkarétt í viðskiptum og lýðheilsu, sem var samþykkt 14. nóvember 2001 á fjórða ráðherrafundi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar sem haldinn var í Dóha í Katar, og í ákvörðun aðalráðs Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um framkvæmd 6. mgr. Dóha-yfirlýsingarinnar, sem var samþykkt 30. ágúst 2003, og í breytingunni á samningnum um hugverkarétt í viðskiptum sem aðalráð Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar samþykkti 6. desember 2005.

Grein 6.3.
Skilgreining á hugverkum.

    Í þessum samningi vísar hugtakið „hugverk“ til allra flokka hugverka sem fjallað er um í grein 6.6 (Vörumerki) til greinar 6.11 (Óbirtar upplýsingar og ráðstafanir sem tengjast tilteknum vörum sem reglur hafa verið settar um).

Grein 6.4.
Alþjóðasamningar.

1.     Samningsaðilarnir árétta, með fyrirvara um réttindi og skyldur sem um getur í þessum kafla, þau réttindi og skyldur sem í gildi eru að því er þá varðar, þ.m.t. rétturinn til að gera undantekningar og nýta sér sveigjanleika samkvæmt samningnum um hugverkarétt og öðrum marghliða samningum, sem tengjast hugverkum, og samningum á vegum Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) (hér á eftir nefnd „Alþjóðahugverkastofnunin“), sem þeir eru aðilar að, einkum:
a)    Parísarsamningnum frá 20. mars 1883 um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar (Stokkhólmsgerð frá 1967) hér á eftir nefndur „Parísarsamningurinn“,
b)    Bernarsáttmálanum frá 9. september 1886 til verndar bókmenntum og listaverkum (Parísargerð frá 1971) og
c)    alþjóðasamningnum frá 26. október 1961 um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana (Rómarsamningurinn).

2.     Samningsaðilarnir, sem eiga ekki aðild að einum eða fleiri þeirra samninga sem taldir eru upp hér á eftir, skulu fullgilda eftirtalda marghliða samninga, eða gerast aðilar að þeim, við gildistöku þessa samnings:
a)    Búdapestsáttmálinn frá 28. apríl 1977 um alþjóðlega viðurkenningu á innlagningu örvera til varðveislu vegna meðferðar einkaleyfamála,
b)    alþjóðasamningur um vernd nýrra plöntuyrkja frá 1978 (UPOV-samningurinn frá 1978) eða alþjóðasamningur um vernd nýrra plöntuyrkja frá 1991 (UPOV-samningurinn frá 1991) og

c)    samstarfsamningur um einkaleyfi frá 19. júní 1970 (Washington-gerð, breytt 1979 og lagfærður 1984).
3.     Samningsaðilarnir, sem eiga ekki aðild að einum eða fleiri þeirra samninga sem eru taldir upp á eftir, skulu fullgilda eftirtalda marghliða samninga, eða gerast aðilar að þeim, frá og með gildistöku þessa samnings:
a)    samningur Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) frá 20. desember 1996 um flutning og hljóðritanir (WPPT) og
b)    samningur Alþjóðahugverkastofnunarinnar (WIPO) frá 20. desember 1996 um höfundarrétt (WCT).
4.     Samningsaðilarnir munu gera nauðsynlegar ráðstafanir, eins fljótt og við verður komið, til þess að leggja fyrir lögbær landsyfirvöld samningsaðilanna til umfjöllunar aðild sína að Genfargerð Haag- samnings frá 1999 um alþjóðlega skráningu hönnunar á sviði iðnaðar og að bókun frá 27. júní 1989 við Madrídarsamninginn um alþjóðlega skráningu merkja.
5.     Samningsaðilarnir geta samþykkt, með sameiginlegri ákvörðun, að sérfræðingar skiptist á skoðunum um aðgerðir sem tengjast gildandi eða komandi alþjóðasamningum um hugverkarétt og önnur mál sem varða hugverkarétt, eftir því sem samningsaðilarnir koma sér saman um.

Grein 6.5.
Ráðstafanir er varða líffræðilega fjölbreytni.

1.     Samningsaðilarnir árétta fullveldisrétt sinn yfir innlendum auðlindum og viðurkenna réttindi sín og skyldur samkvæmt samningnum um líffræðilega fjölbreytni að því er varðar aðgang að erfðaauðlindum og sanngjarna og réttmæta hlutdeild í ávinningi af nýtingu þeirra.
2.     Samningsríkin viðurkenna mikilvægi og gildi líffræðilegrar fjölbreytni sinnar og tengdrar og rótgróinnar þekkingar, nýsköpunar og starfsvenja frumbyggjasamfélaga og staðbundinna samfélaga. Sérhver samningsaðili skal ákvarða skilyrði fyrir aðgangi að erfðaauðlindum sínum í samræmi við meginreglur og ákvæði gildandi landslaga og þjóðaréttar.

3.     Samningsaðilarnir viðurkenna framlag frumbyggjasamfélaga og staðbundinna samfélaga í fortíð, nútíð og framtíð og þekkingu þeirra, nýsköpun og starfsvenjur, með tilliti til þess að varðveita og nota með sjálfbærum hætti lífrænar auðlindir og erfðaauðlindir, og viðurkenna almennt framlag rótgróinnar þekkingar frumbyggjasamfélaga og staðbundinna samfélaga sinna til menningar þjóða og efnahagslegrar og félagslegrar þróunar þeirra.
4.     Samningsaðilarnir skulu íhuga að efna til samstarfs um tilvik þegar misbrestur er á því að farið sé eftir gildandi ákvæðum laga um aðgang að erfðaauðlindum og rótgróna þekkingu, nýsköpun og starfsvenjur.
5.     Samningsaðilar skulu krefjast þess, í samræmi við landslög hvers og eins, að í einkaleyfisumsóknum sé greint frá uppruna eða upptökum erfðaauðlindar sem viðkomandi uppfinningamaður eða umsækjandi um einkaleyfi hefur haft aðgang að. Aðildarríkin munu einnig krefjast þess, eftir því sem landslög þeirra kveða á um, að fyrirfram upplýst samþykki liggi fyrir og þau munu beita ákvæðum þessarar greinar um rótgróna þekkingu eftir því sem við á.
6.     Samningsaðilarnir skulu, í samræmi við landslög sín, ákveða viðurlög, samkvæmt stjórnsýslulögum, einkamálarétti eða hegningarlögum, við því að uppfinningamaður eða umsækjandi um einkaleyfi lýsi vísvitandi með villandi eða röngum hætti, uppruna eða upptökum. Dómari getur krafist þess að dómsúrskurður verði birtur.
7.     Kveði lög samningsaðila á um það:
a)    skal aðgangur að erfðaauðlindum vera háður fyrirfram upplýstu samþykki þess samningsaðila sem leggur til erfðaauðlindirnar og
b)    skal aðgangur að rótgróinni þekkingu frumbyggjasamfélaga og staðbundinna samfélaga, sem tengjast þessum auðlindum, vera háður samþykki og þátttöku þessara samfélaga.
8.     Sérhver samningsaðili skal móta stefnu og gera laga- og stjórnsýslulegar ráðstafanir til þess að auðveldara verði að uppfylla aðgangsskilmála og -skilyrði sem samningsaðilarnir setja vegna fyrrnefndra erfðaauðlinda.
9.     Samningsaðilarnir staðfesta og viðurkenna gildandi réttindi sín og skuldbindingar hver gagnvart öðrum í samræmi við alþjóðasamning Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna um erfðaauðlindir plantna fyrir fæðu og landbúnað.
10.     Samningsaðilarnir skulu gera ráðstafanir á sviði lagasetningar, stjórnsýslu eða stefnumótunar, eftir því sem við á, sem miða að því að tryggja sanngjarna og réttmæta hlutdeild í ávinningi af notkun erfðaauðlinda eða tengdrar rótgróinnar þekkingar. Þessa hlutdeild ber að byggja á skilmálum sem gagnkvæmt samkomulag er um.

Grein 6.6.
Vörumerki.

1.     Samningsaðilarnir skulu veita rétthöfum vörumerkja vöru og þjónustu fullnægjandi og árangursríka vernd. Vörumerki geta verið hvers konar tákn, eða samsetning tákna, sem eru til þess fallin að greina vörur eða þjónustu fyrirtækis frá vörum og þjónustu annarra fyrirtækja. Slík tákn, einkum orð samsett úr orðum, mannanöfnum, bókstöfum, tölustöfum, myndeiningum, hljóði og litasamsetningum, ásamt samsetningum slíkra tákna, skulu skráningarhæf sem vörumerki. Ef tákn eru ekki sem slík til þess fallin að greina á milli viðkomandi vara eða þjónustu geta samningsaðilar ákveðið að skráningarhæfi fari eftir greinileika sem áunnist hefur við notkun. Samningsaðilar geta sett það skilyrði fyrir skráningu að tákn séu sýnileg.

2.     Samningsaðilar skulu nota hina alþjóðlegu flokkun vöru og þjónustu vegna skráningar vörumerkja (hér á eftir nefnd „alþjóðlega flokkunarkerfið“), sem var komið á með Nice- sáttmálanum frá 15. júní 1957 og gildandi breytingum á honum, til að flokka þá vöru og þjónustu sem nota á vörumerkin fyrir.

3.     Eigi skal nota vöru- og þjónustuflokka hins alþjóðlega flokkunarkerfis til að ákvarða hvort sú vara eða þjónusta sem tiltekið vörumerki er skráð fyrir sé lík eða frábrugðin vöru eða þjónustu undir öðru vörumerki.
4.     Samningsaðilarnir viðurkenna mikilvægi sameiginlegu tilmælanna varðandi ákvæði um vernd þekktra tákna (1999) og sameiginlegu tilmælanna varðandi ákvæði um vernd tákna og annarra hugverkaréttinda á sviði iðnaðar sem tengjast táknum á Netinu (2001), sem voru samþykkt á þingi Parísarsamtakanna um vernd hugverkaréttar á sviði iðnaðar og á aðalfundi Alþjóðahugverkastofnunarinnar, og skulu þeir byggja á meginreglum þessara tilmæla.


Grein 6.7.
Landfræðilegar merkingar, þ.m.t. upprunaheiti og vísbendingar um upptök.

1.     Samningsaðilarnir skulu sjá til þess að í landslögum þeirra sé kveðið á um fullnægjandi og árangursrík úrræði til verndar landfræðilegum merkingum, þ.m.t. upprunaheiti 2 og vísbendingar um upptök.
2.     Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „landfræðilegar merkingar“ vísbendingar sem gefa til kynna að vara sé upprunnin á yfirráðasvæði samningsaðila, eða á landsvæði eða í umhverfi innan þess yfirráðasvæðis, og að rekja megi tiltekin gæði, orðspor eða önnur einkenni vörunnar í meginatriðum til landfræðilegs uppruna hennar og
b)    „vísbendingar um upptök“ nöfn, framsetning, myndir, fánar eða tákn sem eru beinar eða óbeinar vísanir til tiltekins lands, svæðis, umhverfis eða staðar sem gefur til kynna landfræðilegan uppruna vöru eða þjónustu. Ekkert í þessum samningi krefst þess að samningsaðili breyti löggjöf sinni ef vernd vísbendinga um upptök er,


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2      Til að eyða óvissu, sjái samningsaðili fram á vernd upprunaheita samkvæmt löggjöf sinni, skal ekkert í samningi þessum krefjast þess að því verði breytt.

    á gildistökudegi þessa samnings, takmörkuð í löggjöf hans við tilvik þar sem rekja má tiltekin gæði, orðspor eða önnur einkenni vörunnar eða þjónustunnar í meginatriðum til landfræðilegs uppruna.
3.     Óheimilt er að nota vísbendingu um upptök í viðskiptum með vörur eða þjónustu ef sú vísbending er röng eða misvísandi eða ef líklegt er að notkun hennar valdi ruglingi hjá almenningi varðandi landfræðilegan uppruna viðkomandi vöru eða þjónustu eða hafi í för með sér óréttmæta samkeppni í skilningi 10. gr. a í Parísarsamningnum.

4.     Samningsaðilar skulu, með fyrirvara um 23. gr. samningsins um hugverkarétt í viðskiptum, veita þeim sem eiga hagsmuna að gæta lagaúrræði til að koma í veg fyrir að landfræðilegar merkingar séu notaðar á samskonar vörur eða sambærilegar, sem eru ekki upprunnar á þeim stað sem er tilgreindur í viðkomandi merkingu, á þann hátt að sé villandi eða skapi rugling hjá almenningi að því er varðar landfræðilegan uppruna þeirrar vöru eða hafi í för með sér óréttmæta samkeppni í skilningi 10. gr. a í Parísarsamningnum.
5.     Perú og Sviss eru því samþykk, í því skyni að vernda enn frekar landfræðilegar merkingar sín á milli, að gera tvíhliða samning um gagnkvæma viðurkenningu og verndun landfræðilegra merkinga og stefna að því að ljúka þeirri samningsgerð innan þriggja ára frá því að samningur þessi öðlast gildi. Allir aðrir aðilar að þessum samningi geta tekið þátt í samningaviðræðunum eða gerst aðilar að samningnum eftir að hann öðlast gildi.

Grein 6.8.
Höfundarréttur og skyld réttindi.

1.     Samningsaðilar skulu veita og tryggja höfundum bókmennta og listaverka og listflytjendum, framleiðendum hljóðrita svo og útvarpsstofnunum fullnægjandi og skilvirka vernd á verkum þeirra, flutningi, hljóðritum og útvarpssendingum.

2.     Óháð fjárhagslegum réttindum höfundar, og jafnvel þótt höfundur hafi framselt þess konar réttindi, skal hann þó hafa rétt til að krefjast viðurkenningar á því að hann sé höfundur verksins og til að mótmæla hvers konar afbökun, sköddun eða breytingum, eða annars konar spjöllum á því, sem skerða myndu heiður hans eða orðspor.
3.     Þau réttindi sem höfundi eru veitt í samræmi við 2. mgr. skulu haldast að honum látnum, a.m.k. þangað til fjárhagslegu réttindin falla niður og skulu þau vera í höndum þeirra einstaklinga og stofnana sem lög ákveða í því landi þar sem verndar er krafist.
4.     Réttindi sem eru veitt skv. 2. og 3. mgr. skulu, að breyttu breytanda, veitt listflytjendum vegna lifandi listflutnings eða listflutnings sem tekinn hefur verið upp.

Grein 6.9.
Einkaleyfi.

1.     Einkaleyfi skulu fáanleg fyrir öllum uppfinningum, hvort heldur um er að ræða framleiðslu eða aðferðir, á öllum sviðum tækni, að því tilskildu að um nýja uppfinningu sé að ræða sem felur í sér nýbreytni og hægt að hagnýta í iðnaði. Ef ekki er kveðið á um annað í 3. mgr. skal vera unnt að fá einkaleyfi og nýta einkaleyfisrétt án mismununar eftir uppfinningastað, tæknisviði og því hvort vörurnar eru innfluttar eða framleiddar innanlands.
2.     Samningsaðila er heimilt að synja um einkaleyfi fyrir uppfinningum ef nauðsynlegt er að koma í veg fyrir að þær séu nýttar í ábataskyni á yfirráðasvæði hans, í því skyni að halda uppi allsherjarreglu eða siðgæði, þ.m.t. að vernda líf eða heilbrigði manna, dýra og plantna eða að koma í veg fyrir skaðleg áhrif á umhverfið, svo fremi að slík synjun sé ekki eingöngu fram komin vegna þess að fyrrnefnd nýting er bönnuð samkvæmt lögum hans.
3.     Sérhverjum samningsaðila er einnig heimilt að synja um einkaleyfi fyrir:
a)    aðferðir sem lúta að sjúkdómsgreiningu, lækningu eða skurðlækningar á mönnum eða dýrum og
b)    jurtir og dýr, að undanskildum örverum, einkum aðferðir líffræðinnar við framleiðslu jurta eða dýra, þó ekki fyrir aðferðir sem eru ekki líffræðilegs og örverufræðilegs eðlis. Samningsaðilar skulu þó kveða á um vernd plöntuyrkja, annaðhvort með einkaleyfum eða skilvirku, sérlegu kerfi eða samblandi af hvoru tveggja. Þrátt fyrir það sem að framan greinir skal samningsaðili, sem kveður ekki á um vernd fyrir plöntur í formi einkaréttar, leitast við að bjóða slíka einkaleyfisvernd sem samrýmist ákvæðum 1. mgr.
4.     Hver samningsaðili skal kappkosta að taka fljótt til umfjöllunar umsóknir um einkaleyfi og umsóknir um samþykki fyrir markaðssetningu, til þess að komast hjá óeðlilegum töfum. Samningsaðilar skulu hafa með sér samstarf og veita hver öðrum aðstoð við að ná þessu markmiði.
5.     Sérhverjum samningsaðila er heimilt, að því er hvers konar lyfjavörur varðar, sem einkaleyfi gildir um, að bjóða fram endurheimt einkaleyfistímabils eða einkaleyfisréttinda eða jöfnun þess eða þeirra, til þess að bæta einkaleyfishafa upp ósanngjarna styttingu virks einkaleyfistímabils sem rekja má til málsmeðferðar við öflun markaðssamþykkis sem tengist fyrstu markaðssetningu framleiðsluvörunnar hjá viðkomandi samningsaðila. Endurheimt samkvæmt þessari málsgrein skal veita allan einkarétt, sem fylgir einkaleyfi, með fyrirvara um sömu takmarkanir og undanþágur og gilda um upphaflega einkaleyfið.

Grein 6.10.
Snið.

    Samningsaðilar skulu tryggja, með lagasetningu innanlands, að iðnhönnun njóti fullnægjandi og haldgóðrar verndar, einkum með því að gera ráð fyrir nægilega löngu verndartímabili í samræmi við staðla sem gilda á alþjóðavísu. Samningsaðilar skulu leitast við að samræma lengd verndartímabila sinna.

Grein 6.11.
Óbirtar upplýsingar og ráðstafanir í tengslum við vörur sem reglur hafa verið settar um.

1.     Aðilar að samningi þessum skulu vernda óbirtar upplýsingar í samræmi við 39. gr. samningsins um hugverkarétt í viðskiptum.
2.     Ef samningsaðili setur það skilyrði fyrir því að markaðssetning á lyfjavörum eða efnavörum fyrir landbúnað, þar sem notaðar eru nýjar efnaeiningar, 3 verði samþykkt, að lögð verði fram óbirt prófunargögn sem tengjast öryggi og verkun og verulega erfitt er að rekja uppruna þeirra, skal samningsaðilinn ekki heimila markaðssetningu vöru, sem inniheldur þá sömu nýju efnaeiningu og byggð er á þeim upplýsingum sem fyrsti umsækjandi lagði fram og það er gert án hans samþykkis, í hæfilegan tíma sem, þegar um er að ræða lyfjavörur, er oftast fimm ár og, þegar um er að ræða efnavörur fyrir landbúnað, tíu ár frá þeim degi er markaðssetning á yfirráðasvæði samningsaðilans er samþykkt. Þrátt fyrir þetta ákvæði skal samningsaðili ekki bundinn neinum takmörkunum varðandi styttri málsmeðferð við samþykki slíkra vara á grundvelli rannsókna á lífjafngildi (e. bioequivalence) eða lífaðgengi (e. bioavailability).
3.     Leyfa má að stuðst sé við eða vísað til gagna sem um getur í 2. mgr.:



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3      Í þessari málsgrein merkir „ný efnavara fyrir landbúnað“ vöru sem inniheldur efnaeiningu sem hefur ekki verið viðurkennd áður á yfirráðasvæði samningsaðilans. Þurfi samningsaðili að skilgreina „nýja efnavöru fyrir landbúnað“ fyrir lyfjavörur í landslögum sínum til þess að geta hrundið þessum samningi í framkvæmd, skal hann taka tillit til gildandi alþjóðlegra staðla og ganga frá því áður en samningur þessi öðlast gildi.
a)    ef leitað er eftir samþykki fyrir endurinnfluttar vörur sem hafa verið samþykktar áður en útflutningur fór fram og
b)    til að komast hjá ónauðsynlegri endurtekningu prófana á efnavörum fyrir landbúnað sem varða hryggdýr, hafi fyrsta umsækjanda þegar verið launað hæfilega.
4.     Samningsaðili getur gert ráðstafanir til að vernda lýðheilsu í samræmi við:
a)    framkvæmd yfirlýsingar vegna samningsins um hugverkarétt í viðskiptum og lýðheilsu 4 (í þessari málsgrein nefnd „yfirlýsingin“),
b)    undanþágur frá ákvæðum samningsins um hugverkarétt í viðskiptum sem aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni samþykkja í því skyni að koma yfirlýsingunni til framkvæmda og
c)    breytingar á samningnum um hugverkarétt í viðskiptum í því skyni að koma yfirlýsingunni til framkvæmda.
5.     Ef samningsaðili styðst við samþykki fyrir markaðssetningu sem annar samningsaðili veitir og veitir samþykki sitt innan sex mánaða frá framlagningu fullbúinnar umsóknar um samþykki fyrir markaðssetningu, sem er lögð fram hjá samningsaðilanum, skal hæfilegt tímabil fyrir einkanot gagna, sem lögð eru fram í tengslum við það að fá samþykkið sem stuðst er við, hefjast þann dag þegar fyrsta samþykki fyrir markaðssetningu er veitt.

Grein 6.12.
Öflun og viðhald hugverkaréttar.

    Ef öflun hugverkaréttinda er háð því að þau séu veitt eða skráð skulu samningsaðilar sjá til þess að málsmeðferð við veitingu eða skráningu sé sambærileg þeirri málsmeðferð sem kveðið er á um í samningnum um hugverkarétt í viðskiptum, einkum 62. gr.

Grein 6.13.
Framfylgd hugverkaréttar.

    Samningsaðilar skulu setja ákvæði um framfylgd hugverkaréttinda í landslög sín, sambærileg þeim sem kveðið er á um í samningnum um hugverkarétt í viðskiptum, einkum í 41.– 61. gr.


Grein 6.14.
Réttur til upplýsinga við meðferð einkamála og stjórnsýslumeðferð.

    Samningsaðilarnir geta kveðið á um að í meðferð einkamála og stjórnsýslumeðferð skuli dómsmála-


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


4      WT/MIN(01)/DEC/2.
yfirvöld hafa vald til þess, nema það sé í ósamræmi við alvarleika brotsins, að fyrirskipa þeim sem er brotlegur að upplýsa rétthafa um deili á þriðja aðila sem á hlut að framleiðslu og dreifingu ólöglegrar vöru eða þjónustu og um dreifingarleiðir. 5


Grein 6.15.
Frestun lögbærra yfirvalda á afgreiðslu.

1.     Samningsaðilar skulu samþykkja málsmeðferð sem gerir rétthafa, sem hefur gildar ástæður til að ætla að innflutningur á vörum eigi sér stað þar sem brotið sé gegn höfundarrétti eða vörumerki, kleift að leggja fyrir lögbær yfirvöld á sviði stjórnsýslu eða dómsmála skriflega umsókn um að tollyfirvöld fresti því að afhenda slíkar vörur til frjálsrar dreifingar. Samningsaðilar skulu íhuga að beita slíkum ráðstöfunum gagnvart öðrum hugverkaréttindum.

2.     Sá skilningur ríkir að eigi sé skylt að beita málsmeðferð sem kemur fram í 1. mgr. að því er varðar frestun afgreiðslu á vörum til frjálsrar dreifingar sem rétthafi hefur markaðssett eða markaðssett hefur verið í öðru landi með samþykki hans.

Grein 6.16.
Réttur til skoðunar.

1.     Lögbær yfirvöld skulu gefa umsækjanda um frestun á afgreiðslu vöru og öðrum aðilum, sem frestunin varðar, kost á að skoða vörur sem frestað hefur verið að afgreiða eða lagt hefur verið hald á.

2.     Þegar vörur eru rannsakaðar geta lögbær yfirvöld tekið sýni og afhent eða sent þau til rétthafans, samkvæmt gildandi reglum viðkomandi samningsaðila og að eindreginni ósk rétthafa, eingöngu til greiningar og til þess að auðvelda síðari málsmeðferð. Þegar aðstæður leyfa skal skila sýnum að lokinni tæknilegri greiningu og, eftir atvikum, áður en varan er afgreidd eða kyrrsetningu aflétt. Öll greining á þessum sýnum skal vera alfarið á ábyrgð rétthafa.




Grein 6.17.
Ábyrgðaryfirlýsing, trygging eða jafngild ráðstöfun.

1.     Lögbær yfirvöld skulu hafa heimild til að krefjast þess að umsækjandi leggi fram tryggingu eða jafn-


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


5      Til nánari glöggvunar þá gildir þetta ákvæði ekki þegar það stríðir gegn ábyrgðum samkvæmt stjórnarskrá eða lögum.

gildi hennar sem nægir til að vernda varnaraðila og lögbær yfirvöld og til að koma í veg fyrir misnotkun eða, í tilvikum sem kveðið er á um í landslögum þeirra, að hann lýsi yfir eða samþykki ábyrgð á tjóni sem rekja má til þess að afgreiðslu var frestað.
2.     Trygging eða jafngildi hennar skal ekki að ástæðulausu koma í veg fyrir að þessari málsmeðferð sé beitt.

Grein 6.18.
Hvatning til rannsókna, tækniþróunar og nýsköpunar.

1.     Samningsaðilar viðurkenna mikilvægi þess að stuðla að rannsóknum, tækniþróun og nýsköpun, að miðlun tæknilegra upplýsinga og því að auka og efla tæknigetu sína og þeir munu kappkosta að vinna saman á þessum sviðum, eftir því sem þeir eiga kost á.
2.     Samstarf á milli Perús og Ríkjasambandsins Sviss á þessum sviðum má einkum byggja á viljayfirlýsingum milli ríkisskrifstofu um menntun og rannsóknir í ráðuneyti innanríkismála í Ríkjasambandinu Sviss og Consejo Nacional de Ciencia, Tecnología e Innovación Tecnológica (CONCYTEC) frá 28. desember 2006.

3.     Í samræmi við það geta Perú og Ríkjasambandið Sviss leitað eftir og ýtt undir tækifæri til samstarfs samkvæmt þessari grein og, eftir því sem við á, unnið að sameiginlegum, vísindalegum rannsóknarverkefnum. Yfirvöldin, er um getur í 2. mgr., skulu starfa sem tengiliðir til að auðvelda þróun samstarfsverkefna og endurskoða reglubundið stöðu slíks samstarfs með aðferðum sem allir aðilar verða ásáttir um.
4.     Perú annars vegar og Ísland, Liechtenstein og Noregur hins vegar skulu leita tækifæra til samstarfs samkvæmt þessari grein. Byggja skal slíkt samstarf á skilmálum sem gagnkvæmt samkomulag er um og móta það á viðeigandi hátt.
5.     Öllum tillögum eða fyrirspurnum um vísinda- og tæknisamstarf milli samningsaðilanna má beina til hvaða samningsaðila sem er með milligöngu þeirra tengiliða er um getur í XII. viðauka (Tengiliðir vegna vísindasamstarfs).

7. KAFLI
OPINBER INNKAUP

Grein 7.1.
Gildissvið og umfang.

1.     Þessi kafli gildir um allar ráðstafanir samningsaðila varðandi innkaup sem þessi samningur tekur til. Í þessum kafla teljast „innkaup sem þessi samningur tekur til“ vera innkaup á vegum stjórnvalda:
a)    á vörum, þjónustu eða samblandi af hvoru tveggja:
    i.    eftir því sem sérstakar skuldbindingar hvers samningsaðila um sig, er um getur í XIII. viðauka (Stofnanir sem þessi samningur tekur til), gefa til kynna og
    ii.    sem ekki er ætlunin að selja eða endurselja í hagnaðarskyni né heldur að nota til að framleiða vörur eða veita þjónustu í hagnaðarskyni eða til að endurselja,
b)    eftir hvers konar samningsleiðum, þ.m.t. kaup, langtíma- eða skammtímaleiga eða kaupleiga, með eða án kaupréttar,
c)    þar sem verðmæti, eins og það er metið skv. 3. og 4. mgr. eftir því sem við á, jafngildir eða fer yfir viðeigandi viðmiðunarfjárhæð sem er tilgreind í 1. til 3. viðbæti við XIII. viðauka (Stofnanir sem þessi samningur tekur til),
d)    sem er stjórnað af innkaupastofnun og
e)    með fyrirvara um þau skilyrði er um getur í XIII. viðauka (Stofnanir sem þessi samningur tekur til) og XIV. viðauka (Almennar athugasemdir).
2.     Þessi kafli gildir ekki um:
a)    samkomulag utan samnings eða neina þá aðstoð, sem samningsaðili, þ.m.t. ríkisfyrirtæki, veitir, þ.m.t. samstarfssamningar, fjárveitingar, lán, styrkir, eiginfjáraukning, ábyrgðir og skattameðferð,
b)    kaup eða öflun þjónustu frá fjármála- eða innlánastofnunum, þjónustu á sviði skiptameðferðar og reksturs fyrir eftirlitsskyldar fjármálastofnanir eða þjónustu sem tengist sölu, innlausn og dreifingu skulda ríkissjóðs, 1 þ.m.t. lán og ríkisskuldabréf, skuldarviðurkenningar og önnur verðbréf,
c)    kaup, sem eru fjármögnuð með alþjóðlegum styrkjum, lánum eða annarri aðstoð, þegar gildandi málsmeðferð eða skilyrði myndu vera í ósamræmi við þennan kafla,
d)    samninga sem eru gerðir samkvæmt:
    i.    alþjóðlegum samningi og eru til komnir vegna sameiginlegrar framkvæmdar eða hagnýtingar verkefnis af hálfu þeirra sem gera samningana eða
    ii.    samkvæmt alþjóðlegum samningi um staðsetningu herliðs,
e)    ráðningarsamninga hins opinbera og ráðstafanir sem tengjast slíkum samningum eða
f)    kaup eða leigu á landi, byggingum sem eru til fyrir eða öðrum fasteignum eða rétt yfir þeim.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      Til frekari skýringar þá gildir þessi kafli ekki um kaup á bankaþjónustu, fjármálaþjónustu eða sérhæfðri þjónustu sem tengist skuldsetningu eða skuldastýringu hins opinbera.

3.     Við mat á verðgildi innkaupa, með það fyrir augum að komast að raun um hvort um innkaup sé að ræða sem falla undir þennan samning, skal innkaupastofnun:
a)    hvorki skipta innkaupum í aðskilin innkaup né nota sérstaka aðferð til að meta verðgildi innkaupanna í þeim tilgangi að komast hjá því að beita ákvæðum þessa kafla,
b)    taka tillit til greiðslna í hvaða formi sem er, þ.m.t. bónusgreiðslur, þóknanir, umboðslaun, vextir, aðrar tekjuleiðir, sem kann að vera kveðið á um í samningnum og, ef möguleiki er á valfrjálsum ákvæðum í innkaupunum, hámarksverðgildi innkaupanna í heild, að teknu tilliti til valfrjálsu innkaupanna og
c)    byggja útreikninga sín á hámarki heildarverðgildis innkaupanna allan þann tíma sem þau standa yfir, ef skipta á innkaupunum í marga hluta með samningum sem gera á við einn eða fleiri birgja samtímis eða á tilteknu tímabili.

4.     Ef áætlað hámarksverðgildi innkaupa í heild, allan þann tíma sem þau standa yfir, er óþekkt skulu innkaupin falla undir þennan kafla.
5.     Ekkert í þessum kafla skal koma í veg fyrir að samningsaðili geti mótað nýja stefnu varðandi innkaup, málsmeðferð eða samningsleiðir, að því tilskildu að samræmis við ákvæði þessa kafla sé gætt.

Grein 7.2.
Undantekningar frá ákvæðum kaflans.

1.     Ekkert í þessum kafla skal túlka þannig að það komi í veg fyrir að samningsaðili grípi til einhverra aðgerða eða birti ekki upplýsingar, sem hann telur nauðsynlegar til að vernda grundvallaröryggishagsmuni sína sem tengjast innkaupum á vopnum, skotfærum eða herbúnaði eða innkaupum sem eru óhjákvæmileg vegna þjóðaröryggis eða landvarna.
2.     Ekkert í þessum kafla skal túlka svo að komi í veg fyrir að samningsaðili samþykki eða viðhaldi ráðstöfunum sem eru, með þeim fyrirvara þó að slíkum ráðstöfunum sé ekki beitt með þeim hætti að um tilviljunarkennda eða óréttlætanlega mismunun samningsaðila sé að ræða eða duldar hindranir í viðskiptum þeirra í milli:
a)    nauðsynlegar til þess að vernda almennt siðgæði, allsherjarreglu eða öryggi,
b)    nauðsynlegar til að vernda líf og heilsu manna, dýra eða plantna,
c)    nauðsynlegar til þess að vernda hugverk eða
d)    í tengslum við vöru eða þjónustu fatlaðra eða góðgerðarstofnana eða afrakstur af fangelsisvinnu.
3.     Af hálfu samningsaðila ríkir sá skilningur að í ákvæðum b-liðar 2. mgr. felist ráðstafanir á sviði umhverfismála sem eru nauðsynlegar til að vernda líf eða heilsu manna, dýra eða plantna.

Grein 7.3.
Skilgreiningar.

    Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „skilyrði fyrir þátttöku“ hvers konar skráning, menntun og hæfi eða aðrar forsendur fyrir þátttöku í innkaupum,
b)    „byggingarþjónusta“ þjónusta þar sem markmiðið er að annast mannvirkjagerð eða húsbyggingar, með hvaða aðferðum sem er, á grundvelli 51. deildar í bráðabirgðaaðalvöruflokkun Sameinuðu þjóðanna (CPC),
c)    „skriflegt“ hvers konar tjáning með orðum eða tölum eða öðrum táknum sem hægt er að lesa, endurgera og miðla síðar. Slík tjáning getur innihaldið upplýsingar sem eru sendar og geymdar með rafrænum hætti,
d)    „ráðstöfun“ hvers konar lög, reglusetning eða málsmeðferð eða leiðsögn eða verklag stjórnsýslunnar eða hvers konar aðgerð innkaupastofnunar sem tengist innkaupum sem falla undir þennan samning,
e)    „innkaup“ ferli þar sem hið opinbera fær til afnota eða kaupir vörur eða þjónustu, eða sambland af hvoru tveggja, sem hvorki er ætlunin að selja eða endurselja í hagnaðarskyni né heldur að nota við framleiðslu á vörum eða veitingu þjónustu í hagnaðarskyni eða til endursölu,

f)    „innkaupastofnun“ stofnun sem fellur undir 1. til 3. viðbæti við XIII. viðauka (Stofnanir sem samningurinn tekur til),
g)    „hæfur birgir“ birgir sem innkaupastofnun viðurkennir að uppfylli skilyrði fyrir þátttöku,

h)    „þjónusta“ felur í sér byggingarþjónustu, nema annað sé tekið fram,
i)    „staðall“ skjal, sem viðurkennd stofnun hefur samþykkt, þar sem kveðið er á um, til almennrar og endurtekinnar notkunar, reglur, viðmiðunarreglur eða eiginleika viðvíkjandi vöru eða þjónustu, eða vinnsluferli og framleiðsluaðferðir sem henni tengjast, sem ekki er skylt að fylgja. Hann getur einnig tekið til eða átt eingöngu við um kröfur sem eru gerðar vegna hugtakanotkunar, tákna, umbúða, merkinga eða merkimiða eftir því sem við á um vörur, þjónustu, vinnsluferli eða framleiðsluaðferðir.
j)    „birgir“ aðili eða hópur aðila sem lætur eða getur látið innkaupastofnun í té vörur eða þjónustu,

k)    „tækniforskrift“ útboðskrafa þar sem:

    i.    lýst er eiginleikum vöru eða þjónustu sem á að kaupa, s.s. gæðum, nothæfi, öryggi og stærðum eða ferli og aðferðum við framleiðslu eða útvegun hennar eða

    ii.    fjallað er um kröfur um hugtakanotkun, tákn, pökkun, merkingar eða merkimiða eftir því sem við á um vöru eða þjónustu.

Grein 7.4.
Innlend meðferð og bann við mismunun.

1.     Að því er varðar hvers konar ráðstafanir varðandi innkaup, sem þessi samningur tekur til, skal hver samningsaðili, ásamt innkaupastofnunum sínum, veita tafarlaust og skilyrðislaust meðferð sem er eigi óhagstæðari gagnvart vörum og þjónustu frá öðrum samningsaðila og gagnvart birgjum hvaða annars samningsaðila sem er, sem býður sambærilega vörur og þjónustu, en sú meðferð sem hann veitir gagnvart innlendum vörum, þjónustu og birgjum.
2.     Að því er varðar hvers konar ráðstafanir varðandi innkaup, sem þessi samningur tekur til, skal samningsaðili og innkaupastofnanir hans:
a)    ekki veita birgi með staðfestu í landinu óhagstæðari meðferð en öðrum birgi með staðfestu þar eftir því um hve mikil erlend eignartengsl eða erlent eignarhald er að ræða og
b)    ekki mismuna birgjum með staðfestu í landi þeirra á grundvelli þess að vörur eða þjónusta, sem viðkomandi birgir býður fram vegna tiltekinna innkaupa, séu vörur eða þjónusta frá öðrum samningsaðila.
3.     Ákvæði 1. og 2. mgr. gilda ekki um tolla eða annars konar gjöld, sem eru lögð á innflutning eða tengjast honum, aðferðir við innheimtu slíkra tolla eða gjalda eða um aðrar innflutningsreglur og formsatriði og ráðstafanir sem hafa áhrif á þjónustuviðskipti, aðrar en ráðstafanir er varða opinber innkaup sem þessi samningur tekur til.

Grein 7.5.
Upplýsingatækni.

1.     Samningsaðilar skulu, eftir því sem unnt er, leitast við að nota rafræna samskiptamiðla til þess að koma upplýsingum um opinber innkaup á framfæri með skilvirkum hætti, einkum um tækifæri, sem stofnanir veita til að gera tilboð, en virða jafnframt meginreglurnar um gagnsæi og bann við mismunun.

2.     Þegar innkaupastofnun annast innkaup, sem þessi samningur tekur til og fara fram með rafrænum hætti, skal hún:
a)    tryggja að við innkaupin sé stuðst við upplýsingatækni og hugbúnað, þ.m.t. tækni sem tengist því að sanna uppruna upplýsinga og dulkóða þær, sem eru almenningi aðgengileg og nothæf með öðrum kerfum á sviði upplýsingatækni og hugbúnaðar sem almenningi eru aðgengileg og

b)    nota kerfi sem tryggja áreiðanleika þátttökubeiðna og tilboða, þ.m.t. aðferðum til að staðfesta hvenær þeim var veitt viðtaka og til að koma í veg fyrir óviðeigandi aðgang.

Grein 7.6.
Framkvæmd innkaupa.

    Innkaupastofnun skal annast innkaup, sem þessi samningur tekur til, á gagnsæjan og óhlutdrægan hátt:
a)    sem er í samræmi við þennan kafla og skal beita aðferðum á borð við almenn útboð, útboð með forvali og lokuð útboð, eins og tilgreint er í grein 7.18 (Útboðsferli) til greinar 7.20 (Lokuð útboð),

b)    þannig að komast megi hjá hagsmunaárekstrum og
c)    þannig að koma megi í veg fyrir óheiðarlega viðskiptahætti.

Grein 7.7.
Upprunareglur.

    Við vöruinnkaup, sem þessi samningur tekur til, skal hver samningsaðili beita þeim upprunareglum sem hann beitir að jafnaði í viðskiptum með slíkar vörur.

Grein 7.8.
Jöfnunaraðgerðir.

1.     Að því er varðar innkaup, sem þessi samningur tekur til, skal samningsaðili, þ.m.t. innkaupastofnanir hans, ekki falast eftir, reikna með, koma á eða innleiða jöfnunaraðgerðir á neinu stigi innkaupa.
2.     Í þessum kafla merkir „jöfnunaraðgerðir“ skilyrði eða framkvæmd sem stuðlar að staðbundinni framþróun eða bætir viðskiptajöfnuð samningsaðila, s.s. notkun innlends efnis, veiting leyfa fyrir tækni, fjárfestingar, gagnkvæm viðskipti og álíka aðgerðir eða kröfur,

Grein 7.9.
Birting upplýsinga um innkaup.

1.     Hver samningsaðili skal þegar í stað birta allar ráðstafanir sem hafa almennt gildi varðandi innkaup sem þessi samningur tekur til og allar breytingar á þeim upplýsingum í viðeigandi miðlum, sem um getur í 2. viðbæti við XIV. viðauka (Almennar athugasemdir), þ.m.t. opinberlega tilnefndir rafrænir miðlar.
2.     Hver samningsaðili skal skýra fyrrnefndar upplýsingar fyrir öðrum samningsaðila ef sá aðili óskar eftir því.

Grein 7.10.
Birting auglýsinga.

1.     Hver innkaupastofnun skal, vegna allra innkaupa, sem þessi samningur tekur til, birta auglýsingu þar sem birgjum er boðið að leggja fram tilboð eða, ef við á, umsóknir um þátttöku í því útboði (hér á eftir nefndar „auglýsing um fyrirhuguð innkaup“), nema við þær aðstæður sem um getur í 2. mgr. greinar 7.20 (Lokuð útboð). Birta skal auglýsinguna í þeim rafrænu miðlum eða prentmiðlum sem eru tilgreindir í 2. viðbæti við XIV. viðauka (Almennar athugasemdir) og allar slíkar auglýsingar skulu vera aðgengilegar allan þann tíma sem skila má tilboðum í viðkomandi innkaup.
2.     Í hverri auglýsingu um fyrirhuguð innkaup komi eftirfarandi fram, nema kveðið sé á um annað í þessum kafla:
a)    lýsing á fyrirhuguðum innkaupum,
b)    aðferð sem notuð er við innkaupin,
c)    öll skilyrði sem birgjar verða að uppfylla vegna þátttöku í innkaupunum,
d)    heiti þeirrar stofnunar sem sendir út auglýsinguna,
e)    heimilisfang og tengiliður þar sem birgjar geta nálgast öll skjöl varðandi innkaupin,
f)    eftir atvikum, heimilisfang og lokadagsetning fyrir framlagningu beiðni um þátttöku í innkaupunum,
g)    heimilisfang þar sem leggja skal fram tilboð og lokafrestur til þess,
h)    dagsetningar fyrir afhendingu þeirrar vöru eða þjónustu sem kaupa á eða gildistími samningsins og
i)    ábending um að innkaupin falli undir þennan kafla.
3.     Innkaupastofnanir skulu birta auglýsingar tímanlega með því að nota úrræði sem veita áhugasömum birgjum hjá samningsaðilunum sem víðtækastan aðgang án mismununar. Slík úrræði skulu veitt endurgjaldslaust í gegnum einn þjónustustað sem er tilgreindur í 2. viðbæti við XIV. viðauka (Almennar athugasemdir).
4.     Hver samningsaðili skal hvetja innkaupastofnanir sínar til að birta upplýsingar um fyrirhuguð innkaup þeirra í rafrænum miðli, sem er skráður í 2. viðbæti við XIV. viðauka (Almennar athugasemdir), eins snemma og hægt er á viðkomandi reikningsári. Í slíkum auglýsingum skal tilgreina viðfangsefni opinberra innkaupa og áætlaðan birtingardag auglýsingar um fyrirhuguð innkaup.

Grein 7.11.
Skilyrði fyrir þátttöku.

1.     Við mat á því hvort birgir uppfylli skilyrði fyrir þátttöku skal samningsaðili, þ.m.t. innkaupastofnanir hans:
a)    takmarka slík skilyrði við þau sem eru nauðsynleg til að tryggja að birgir hafi lagalegar og fjárhagslegar forsendur og viðskipta- og tæknilega getu til að sinna þeim innkaupum sem um ræðir og meta þær forsendur og þá getu á grundvelli viðskiptastarfsemi birgisins, bæði innan og utan yfirráðasvæðis samningsaðilans þar sem innkaupastofnunin er,
b)    grundvalla ákvarðanir sínar eingöngu á þeim skilyrðum sem innkaupastofnun hefur tilgreint fyrir fram í auglýsingum eða útboðsgögnum,
c)    ekki setja það skilyrði fyrir þátttöku birgis í opinberum innkaupum að innkaupastofnun viðkomandi samningsaðila hafi áður gert við hann einn eða fleiri samninga,

d)    hafa heimild til að gera kröfu um fyrri reynslu þar sem það er nauðsynlegt til að uppfylla gerðar kröfur vegna innkaupanna og
e)    heimila að allir innlendir birgjar og birgjar annars samningsaðila, sem uppfylla þátttökuskilyrði, verði viðurkenndir sem hæfir birgjar og sé heimilt að taka þátt í innkaupunum.
2.     Samningsaðili, þ.m.t. innkaupastofnanir hans, getur, þegar sönnunargögn styðja það, útilokað birgi af ástæðum eins og:
a)    gjaldþroti,
b)    röngum yfirlýsingum,
c)    verulega miklum eða viðvarandi annmörkum á því að uppfylla efnislegar kröfur eða standa við skuldbindingar samkvæmt fyrri samningi eða samningum,
d)    endanlegum dómum í alvarlegum sakamálum eða fyrir önnur alvarleg brot,
e)    alvarlegu misferli í starfi eða aðgerðum eða aðgerðaleysi sem gefur neikvæða mynd af viðskiptaráðvendni viðkomandi birgis eða
f)    ógreiddum sköttum.

Grein 7.12.
Skráningarkerfi og verklag við ákvörðun hæfis.

1.     Samningsaðili, þ.m.t. innkaupastofnanir hans, getur haldið úti skráningarkerfi fyrir birgja þar sem áhugasömum birgjum er gert að skrá sig og veita tilteknar upplýsingar.
2.     Innkaupastofnanir skulu ekki taka upp eða nota skráningarkerfi eða verklag við ákvörðun hæfis í þeim tilgangi eða með þeim afleiðingum að hindri að óþörfu þátttöku birgja annars samningsaðila í innkaupaferli þeirra.
3.     Innkaupastofnanir skulu þegar í stað tilkynna þeim birgjum sem hafa farið fram á hæfismat um ákvörðun sína þar að lútandi. Ef innkaupastofnun hafnar beiðni um hæfismat eða viðurkennir ekki lengur hæfi birgis skal sú stofnun, að beiðni viðkomandi birgis, þegar í stað láta honum í té skriflega skýringu.

Grein 7.13.
Fjölnotaskrár.

1.     Innkaupastofnun getur stofnað eða viðhaldið skrá yfir birgja sem uppfylla skilyrði til að vera í þeirri skrá, þ.e. skrá sem hún hyggst nota oftar en einu sinni (hér á eftir nefnd „fjölnotaskrá“), að því tilskildu að auglýsing, þar sem áhugasömum birgjum er boðið að sækja um að vera í skránni, sé birt í viðeigandi miðli sem er skráður í 2. viðbæti við XIV. viðauka (Almennar athugasemdir).
2.     Í auglýsingunni, sem kveðið er á um í 1. mgr., skal eftirfarandi koma fram:
a)    lýsing á vörum eða þjónustu eða flokkum þeirra sem heimilt er að hafa í fjölnotaskránni,

b)    frestur til að leggja fram beiðni um að vera færður í skrána,
c)    þau skilyrði fyrir þátttöku sem birgjar þurfa að uppfylla og þær aðferðir sem viðkomandi innkaupastofnun mun beita til að sannreyna að skilyrðin hafi verið uppfyllt,
d)    nafn og heimilisfang innkaupastofnunar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um hvernig ná megi sambandi við stofnunina og fá öll viðeigandi skjöl sem skrána varða,
e)    gildistími skrárinnar og hvernig hún er endurnýjuð eða henni eytt eða, þegar gildistíminn er ekki gefinn upp, upplýsingar um með hvaða hætti tilkynnt verður um að notkun skrárinnar hafi verið hætt og
f)    ábending um að nota megi skrána fyrir innkaup sem falla undir ákvæði þessa kafla.
3.     Innkaupastofnun skal heimila birgjum að óska, hvenær sem er, eftir því að verða færðir í fjölnotaskrá og skal færa alla hæfa birgja í skrána eins skjótt og aðstæður leyfa.

Grein 7.14.
Útboðsgögn.

1.     Innkaupastofnun skal láta birgjum í té útboðsgögn sem innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til að gera þeim kleift að semja og leggja fram svartilboð. Útboðsgögnin skulu, nema það komi þegar fram í auglýsingu um fyrirhuguð innkaup skv. grein 7.10 (Birting auglýsinga), innihalda ítarlega lýsingu á:
a)    innkaupunum, m.a. á því hvers eðlis sú vara eða þjónusta er sem kaupa á inn og á magni hennar eða, þegar magnið er óþekkt, á því hvert áætlað magn er og á þeim kröfum sem uppfylla ber, þ.m.t. allar tækniforskriftir, vottorð um samræmismat, áætlanir, teikningar eða leiðbeiningar,

b)    öllum skilyrðum fyrir þátttöku birgja, þ.m.t. skrá með upplýsingum og skjölum sem birgjar þurfa að leggja fram í þessu sambandi,

c)    öllum matsviðmiðunum, sem þarf að taka tillit til við úthlutun samnings, nema eingöngu sé miðað við verð en þá skal lýsa hlutfallslegu mikilvægi slíkra viðmiðana,
d)    þegar innkaupastofnun hyggst gera innkaup með rafrænum hætti, hvers konar kröfum um sannvottun og dulkóðun eða öðrum kröfum sem tengjast viðtöku upplýsinga í rafrænu formi,

e)    þegar innkaupastofnun heldur rafrænt uppboð samkvæmt grein 7.21 (Rafræn uppboð), þeim reglum sem gilda um uppboðið, þ.m.t. auðkenni þeirra þátta tilboðsins sem tengjast matsviðmiðunum,

f)    þegar tilboð eru opnuð opinberlega, dagsetningu, tímasetningu og staðsetningu opnunar og, eftir atvikum, upplýsingum um þá aðila sem mega vera viðstaddir,
g)    hvers konar öðrum skilmálum eða skilyrðum, þ.m.t. greiðsluskilyrðum og hvers konar takmörkunum á því með hvaða hætti heimilt er að leggja inn tilboð, t.d. á pappír eða á rafrænu formi og
h)    dagsetningu fyrir afhendingu vöru eða veitingu þjónustu eða gildistíma samningsins.
2.     Ef samningsstofnanir bjóða ekki frjálsan og beinan aðgang að öllum útboðsgögnum og öllum fylgiskjölum með rafrænum hætti skulu stofnanirnar hafa útboðsgögnin tiltæk, án tafar, ef einhver af birgjum samningsaðilanna vill kynna sér þau.


Grein 7.15.
Tækniforskriftir.

1.     Innkaupastofnun skal ekki undirbúa, samþykkja eða beita neinum tækniforskriftum eða mæla fyrir um aðferðir við samræmismat í því skyni eða sem leiða til þess að settar verði óþarfar hindranir í milliríkjaviðskiptum samningsaðilanna.
2.     Þegar samningsstofnun mælir fyrir um tækniforskriftir fyrir vörur eða þjónustu sem kaupa á, skal hún, eftir atvikum:
a)    setja tækniforskriftir með tilliti til nothæfis og krafa um virkni fremur en til hönnunar eða lýsandi eiginleika og
b)    byggja tækniforskriftirnar á alþjóðlegum stöðlum, ef til eru, en að öðrum kosti á innlendum tæknireglum, viðurkenndum landsstöðlum eða byggingarreglugerðum.
3.     Innkaupastofnun hefur ekki heimild til að mæla fyrir um tækniforskriftir, þar sem krafist er eða vísað til tiltekins vörumerkis eða viðskiptaheitis, einkaleyfis, höfundarréttar, hönnunar eða gerðar, sérstaks uppruna, framleiðanda eða birgis, nema ekki sé hægt að lýsa útboðsskilmálum með öðrum hætti nægilega vel eða svo að skiljist og að því tilskildu að í slíkum tilvikum séu orð eins og „eða sambærilegt“ látin fylgja með í útboðsgögnum.
4.     Innkaupastofnun skal ekki leita eftir eða taka við ráðgjöf, sem hefði þau áhrif að útiloka samkeppni, þ.e. ráðgjöf sem kann að verða notuð til að undirbúa eða samþykkja tækniforskriftir vegna sérstakra innkaupa frá aðila sem kann að hafa viðskiptalegra hagsmuna að gæta í innkaupunum.
5.     Til frekari glöggvunar er skilningur samningsaðilanna sá að samningsaðila, þar með taldar innkaupastofnanir hans, sé heimilt, í samræmi við ákvæði þessarar greinar, að undirbúa, samþykkja eða beita tækniforskriftum til þess að stuðla að aukinni varðveislu náttúruauðlinda eða umhverfisvernd.

Grein 7.16.
Breytingar á útboðsgögnum og tækniforskriftum.

    Ef innkaupastofnun breytir, áður en samningi er úthlutað, viðmiðunum eða tæknilegum kröfum, sem settar eru fram í auglýsingu eða útboðsgögnum sem eru afhent birgjum sem taka þátt í útboði, eða breytir eða gefur út að nýju auglýsingu eða útboðsgögn, skal hún senda, í skriflegu formi, allar slíkar breytingar eða breyttar eða endurútgefnar auglýsingar eða útboðsgögn:
a)    öllum birgjum, sem taka þátt í útboðinu á þeim tíma sem upplýsingunum er breytt, ef vitað er hverjir þeir eru, og í öllum öðrum tilvikum á sama hátt og upprunalegu upplýsingarnar voru sendar og
b)    í tæka tíð til að slíkir birgjar geti gert breytingar og lagt fram að nýju breytt tilboð, eftir því sem við á.

Grein 7.17.
Frestur.

    Innkaupastofnun skal gefa birgjum nægan tíma til að sækja um að taka þátt í innkaupum og undirbúa og leggja fram tilboð, að teknu tilliti til hvers eðlis og hve flókin innkaupin eru. Hver samningsaðili skal gefa frest sem samrýmist þeim skilyrðum er um getur í 3. viðbæti við XIV. viðauka (Almennar athugasemdir).

Grein 7.18.
Útboðsferli.

1.     Innkaupastofnanir gera innkaupasamninga með almennum útboðum, útboðum með forvali eða lokuðum útboðum samkvæmt landslögum sínum í samræmi við ákvæði þessa kafla og án mismununar.

2.     Í þessum kafla er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „almennt útboð“ innkaupaaðferð þar sem allir áhugasamir birgjar geta lagt fram tilboð. Það er skilningur samningsaðila að í almennu útboði felist fyrirkomulag eins og rammasamningur og gagnvirkt innkaupakerfi (niðurboð) samkvæmt löggjöf hvers og eins,
b)    „útboð með forvali“ merkir innkaupaaðferð þar sem einungis hæfir birgjar fá boð frá innkaupastofnun um að leggja fram tilboð,

c)    „lokað útboð“ merkir innkaupaaðferð þar sem innkaupastofnunin hefur samband við birgir eða birgja að vild,

Grein 7.19.
Útboð með forvali.

1.     Þegar innkaupastofnun hyggst efna til útboðs með forvali skal hún:
a)    fella inn í auglýsingu um fyrirhuguð innkaup a.m.k. þær upplýsingarnar sem eru tilgreindar í a-, b-, c-, d-, e-, f-, og i-lið 2. mgr. í grein 7.10 (Birting auglýsinga) og bjóða birgjum að leggja fram þátttökubeiðni og
b)    veita hæfum birgjum, við upphaf útboðsfrests, a.m.k. þær upplýsingar sem gert er ráð fyrir skv. g- og h-lið 2. mgr. í grein 7.10 (Birting auglýsinga) og tilkynnt er að séu tilgreindar í 2. mgr. 3. viðbætis við XIV. viðauka (Almennar athugasemdir).
2.     Innkaupastofnun skal viðurkenna sem hæfa birgja þá innlendu birgja og birgja annarra samningsaðila sem uppfylla skilyrði fyrir þátttöku í tilteknum innkaupum nema innkaupastofnunin tilgreini, í auglýsingu um fyrirhuguð innkaup eða í útboðsgögnum, ef þau eru aðgengileg almenningi, hvers konar takmarkanir á þeim fjölda birgja, sem verður heimilað að leggja fram tilboð, og forsendur fyrir vali takmarkaðs fjölda birgja.
3.     Ef útboðsgögn eru ekki gerð aðgengileg almenningi frá og með þeim degi þegar auglýsingin, sem um getur í 1. mgr., er birt skulu innkaupastofnanir sjá til þess að gögnin séu samtímis aðgengileg öllum hæfum birgjum sem eru valdir.

4.     Innkaupastofnanir, sem halda varanlegar skrár yfir hæfa birgja, geta valið birgja, sem fá boð um að leggja fram tilboð, úr hópi þeirra sem eru skráðir, með þeim skilyrðum sem um getur í grein 7.10 (Birting auglýsinga).

Grein 7.20.
Lokuð útboð.

1.     Innkaupastofnun er heimilt, að því tilskildu að hún beiti ekki þessu ákvæði í þeim tilgangi að komast hjá samkeppni meðal birgja eða á þann hátt að mismuni birgjum frá öðrum samningsaðila eða verndi innlenda birgja, að nota lokað útboð og að kjósa að beita ekki ákvæðum greinar 7.10 (Birting auglýsinga), greinar 7.11 (Skilyrði fyrir þátttöku), greinar 7.14 (Útboðsgögn), greinar 7.15 (Tækniforskriftir), greinar 7.16 (Breytingar á útboðsgögnum og tækniforskriftum), greinar 7.17 (Tímamörk), greinar 7.21 (Rafræn uppboð), greinar 7.22 (Samningaviðræður), greinar 7.23 (Opnun tilboða) og greinar 7.24 (Samningsgerð) einvörðungu við eftirfarandi kringumstæður:
a)    að því tilskildu að ekki séu gerðar verulegar breytingar á kröfum um útboðsgögn, þegar:
    i.    engin tilboð berast eða engir birgjar óska eftir þátttöku,
    ii.    engin tilboð, sem samrýmast meginkröfum í útboðsgögnum, eru lögð fram,

    iii.    engir birgjar uppfylla skilyrði fyrir þátttöku eða
    iv.    tilboð, sem eru lögð fram, fela í sér samráð,
b)    þegar einungis tiltekinn birgir getur útvegað vörur eða þjónustu og ekki er um annan raunhæfan valkost að ræða eða vöru eða þjónustu sem getur komið í staðinn, af eftirfarandi ástæðum:
    i.    kröfurnar eru vegna listaverks,
    ii.    vegna verndar einkaleyfa, höfundarréttar eða annars einkaréttar eða
    iii.    vegna ónógrar samkeppni af tæknilegum ástæðum,
c)    þegar um er að ræða frekari afhendingu upphaflegs birgis á vöru eða þjónustu, sem var ekki innifalin í hinum upphaflegu innkaupum, og skipti á birgi vegna afhendingar á slíkum viðbótarvörum eða -þjónustu:
    i.    getur ekki orðið af efnahagslegum eða tæknilegum ástæðum, s.s. vegna krafna um skiptihæfi eða rekstrarsamhæfi við þann búnað, hugbúnað, þjónustu eða uppsetningu sem fyrir er og fylgir í upphaflegu innkaupunum og

    ii.    myndi valda viðkomandi innkaupastofnun verulegum óþægindum eða umtalsverðum kostnaðarauka,
d)    ef það er bráðnauðsynlegt og ekki er hægt, af knýjandi ástæðum sem innkaupastofnunin gat ekki séð fyrir, að fá vörur eða þjónustu í tæka tíð með því að efna til almenns útboðs eða útboðs með forvali,
e)    þegar um er að ræða innkaup á vörumarkaði,
f)    þegar innkaupastofnun kaupir frumgerðir eða fyrstu vöru eða þjónustu sem þróuð er að beiðni viðkomandi stofnunar í tengslum við, tiltekinn samning um rannsókn, tilraun, athugun eða frumþróun,
g)    þegar um er að ræða innkaup við sérlega hagstæð skilyrði, sem skapast um skamma hríð þegar óvenjulegar ráðstafanir eru gerðar, t.d. við skuldalúkningu, skiptameðferð, opinbert uppboð eða gjaldþrot, en ekki við venjubundin kaup af venjulegum birgjum eða
h)    þegar samningur er gerður við sigurvegara í hönnunarsamkeppni, að því tilskildu að:
    i.    samkeppnin hafi verið skipulögð með þeim hætti að samrýmist meginreglum þessa kafla, einkum að því er varðar birtingu auglýsingar um fyrirhuguð innkaup samkvæmt grein 7.10 (Birting auglýsinga) og

    ii.    þátttakendur séu metnir af óháðri dómnefnd með það fyrir augum að gengið verði til samninga um hönnunina við sigurvegara.
2.     Innkaupastofnun skal taka saman skriflega skýrslu um sérhvern samning sem er gerður skv. 1. mgr. Í skýrslunni skal koma fram nafn viðkomandi innkaupastofnunar, andvirði og tegund keyptrar vöru eða þjónustu og yfirlýsing þar sem fram koma aðstæður og skilyrði sem er lýst í 1. mgr. og voru rökstuðningur fyrir lokuðu útboði.

Grein 7.21.
Rafræn uppboð.

1.     Ef innkaupastofnun hyggst gera innkaup, sem þessi samningur tekur til, með rafrænu uppboði skal hún láta hverjum þátttakanda í té, áður en rafræna uppboðið hefst:
a)    sjálfvirka matsaðferð, þ.m.t. reiknilíkan, sem er byggð á þeim matsviðmiðunum sem eru settar fram í útboðsgögnum og sem verður notuð við sjálfvirka flokkun eða endurflokkun meðan á uppboðinu stendur,
b)    niðurstöður úr frummati á þáttum tilboðs hans þegar gera á samning á grundvelli hagstæðasta tilboðs og

c)    allar aðrar viðeigandi upplýsingar varðandi framkvæmd uppboðsins.
2.     Í þessum kafla merkir „rafrænt uppboð“ endurtekningarferli sem felst í því að birgjar nota rafrænar aðferðir til að kynna annaðhvort nýtt verð eða ný gildi fyrir magnmælanlega þætti tilboðsins, ótengda verðlagningu, sem tengjast matsviðmiðunum, eða hvort tveggja, sem leiðir til þess að tilboðum er raðað eða endurraðað.

Grein 7.22.
Samningaviðræður.

1.     Samningsaðili getur mælt fyrir um að innkaupastofnanir hans hefji samningaviðræður:
a)    vegna innkaupa, hafi þær greint frá fyrirætlunum um slíkar viðræður í auglýsingu um fyrirhugað innkaup samkvæmt grein 7.10 (Birting auglýsinga) eða
b)    ef mat leiðir í ljós að ekkert eitt tilboð sé augljóslega hagstæðast með tilliti til þeirra ákveðnu matsviðmiðana sem settar eru fram í auglýsingum eða útboðsgögnum.
2.     Innkaupastofnanir skulu ekki mismuna birgjum sem taka þátt í samningaviðræðum.

3.     Stofnun skal:
a)    sjá til þess hvers konar útilokun birgja frá þátttöku í samningaviðræðum sé í samræmi við þær matsviðmiðanir sem eru settar fram í auglýsingum og útboðsgögnum og
b)    veita þeim birgjum sem eftir eru þegar viðræðum lýkur sama frest til þess að leggja fram ný eða endurskoðuð tilboð.

Grein 7.23.
Opnun tilboða.

1.     Innkaupastofnun skal taka á móti og opna öll tilboð með aðferðum sem tryggja sanngirni og óhlutdrægni í innkaupaferlinu og þagnarskyldu varðandi tilboðin. Hún skal einnig gæta trúnaðar í meðferð tilboða, a.m.k. þar til þau hafa verið opnuð.

2.     Þegar innkaupastofnun veitir birgjum tækifæri til að leiðrétta óviljandi formgalla milli þess að tilboð eru opnuð og þar til samningi er úthlutað skal stofnunin veita öllum birgjum, sem taka þátt í útboðinu, sama tækifæri.

Grein 7.24.
Úthlutun samninga.

1.     Innkaupsstofnun skal gera kröfu um að til þess að eiga möguleika á samningi skuli tilboð lagt fram:

a)    skriflega og samræmast, þegar það er opnað, þeim grunnkröfum sem tilgreindar eru í auglýsingum og útboðsgögnum og
b)    af birgi sem uppfyllir öll skilyrði um þátttöku.

2.     Innkaupastofnun skal, nema hún ákveði að úthlutun samnings þjóni ekki hagsmunum almennings, ganga til samninga við þann birgi sem stofnunin hefur ákvarðað að uppfylli skilyrði fyrir þátttöku og sé fyllilega fær um að standa við samninginn og tilboð hans sé hagstæðast þegar eingöngu er tekið tillit til krafna og matsviðmiðana sem eru tilgreindar í auglýsingum og útboðsgögnum eða, þegar verð er eina viðmiðunin, á grundvelli lægsta verðs.

3.     Ef innkaupastofnun fær tilboð þar sem verð er óeðlilega lágt, miðað við tilgreint verð í öðrum tilboðum sem hafa verið lögð fram, er henni heimilt að sannreyna hjá birgi hvort hann sé fær um að uppfylla þátttökuskilyrðin og standa við samningsskilmála.

4.     Innkaupastofnun er óheimilt að hætta við innkaup eða falla frá eða breyta samningum sem hefur verið úthlutað á þann hátt að farið sé í kringum skuldbindingar samkvæmt þessum kafla.

Grein 7.25.
Gagnsæi upplýsinga um innkaup.

1.     Innkaupastofnun skal þegar í stað upplýsa birgja, sem hafa lagt fram tilboð, um ákvarðanir sínar um samningsgerð og gera það skriflega sé þess óskað. Innkaupastofnun skal, með fyrirvara um ákvæði greinar 7.26 (Upplýsingagjöf) og samkvæmt beiðni, gefa birgi, sem hefur lagt fram tilboð sem ekki er gengið að, skýringu á ástæðum stofnunarinnar fyrir því og hvaða kosti tilboð þess birgis sem samið er við hefur umfram tilboð hans.
2.     Eigi síðar en 72 dögum eftir ákvörðun um samningsgerð skal innkaupastofnun birta, á pappír eða í rafrænum miðli sem er tilgreindur í XIV. viðauka (Almennar athugasemdir), auglýsingu þar sem fram koma a.m.k. eftirfarandi upplýsingar um samninginn:
a)    nafn og heimilisfang innkaupastofnunarinnar,
b)    lýsing á þeirri vöru eða þjónustu sem er keypt,
c)    dagsetning úthlutunar,
d)    nafn og heimilisfang birgis sem samið er við,
e)    verðgildi samningsins og
f)    sú innkaupaaðferð sem er notuð og, í tilvikum þar sem beitt hefur verið málsmeðferð samkvæmt grein 7.20 (Lokuð útboð), lýsing þeirra aðstæðna sem réttlæta notkun slíkrar málsmeðferðar.
3.     Innkaupastofnun skal halda skýrslur og skrár yfir útboðsferli við innkaup sem þessi samningur tekur til, þ.m.t. skýrslur sem kveðið er á um í 2. mgr. í grein 7.20 (Lokuð útboð), og skal geyma þessar skýrslur og skrár í a.m.k. þrjú ár eftir gerð samnings.


Grein 7.26.
Upplýsingagjöf.

1.     Samningsaðili skal, ef annar samningsaðili óskar eftir því, veita þegar í stað allar nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að ákvarða hvort innkaup hafi farið fram með sanngjörnum hætti, hvort óhlutdrægni hafi verið gætt og hvort þau hafi farið fram í samræmi við ákvæði þessa kafla. Upplýsingarnar skulu m.a. gefa til kynna eiginleika þess tilboðs sem er tekið og kosti þess samanborið við önnur.
2.     Engum samningsaðila, innkaupastofnun eða endurskoðunaryfirvaldi er heimilt að veita upplýsingar, ef sá aðili sem upplýsingarnar veitti hefur merkt þær sem trúnaðarmál í samræmi við landslög, nema til komi leyfi þess aðila.
3.     Þrátt fyrir önnur ákvæði þessa kafla hefur samningsaðili, þ.m.t. innkaupastofnanir hans, ekki heimild til að veita tilteknum birgi upplýsingar sem gætu skaðað eðlilega samkeppni milli birgja.

4.     Ekkert í þessum kafla skal túlka þannig að þess sé krafist að samningsaðili, þ.m.t. innkaupastofnanir hans, yfirvöld og endurskoðunarstofnanir láti af hendi trúnaðarupplýsingar samkvæmt þessum kafla ef afhending þeirra:
a)    myndi hindra framfylgd laga,
b)    gæti heft eðlilega samkeppni milli birgja,

c)    myndi skaða lögmæta viðskiptahagsmuni tiltekinna aðila, þ.m.t. vernd hugverkaréttar, eða

d)    myndi á annan hátt stríða gegn almannahagsmunum.

Grein 7.27.
Innlend málsmeðferð vegna vefengingar birgja.

1.     Ef birgir samningsaðila ber fram kvörtun um meint brot á ákvæðum þessa kafla um innkaup, sem þessi samningur tekur til, skal sérhver samningsaðili hvetja birgja til að leita eftir skýringum hjá innkaupastofnunum sínum með viðræðum með það fyrir augum að greiða fyrir lausn slíkra kvörtunarmála.
2.     Hver samningsaðili skal sjá til þess að tímanleg, skilvirk og gagnsæ endurskoðun fari fram af hálfu stjórnsýslu eða dómsvalds, án mismununar, samkvæmt viðeigandi grunnreglu um málsmeðferð sem birgir getur nýtt sér til að vefengja meint brot á ákvæðum þessa kafla sem upp koma í tengslum við innkaup sem þessi samningur tekur til og varða eða hafa varðað hagsmuni hans.
3.     Hver birgir skal fá nægan tíma til að undirbúa og leggja fram vefengingu og skal hann undir engum kringumstæðum vera skemmri en tíu dagar frá þeim tíma þegar birgi varð kunnugt, eða hefði mátt ætla að honum væri kunnugt, um tilefni vefengingar.

4.     Hver samningsaðili skal koma á fót eða tilnefna a.m.k. eina óhlutdræga stjórnsýslustofnun eða dómsvald, sem er óháð innkaupastofnunum hans, til að taka við og taka til athugunar erindi birgis um vefengingu, sem tengist innkaupum sem þessi samningur tekur til, og leggja fram viðeigandi niðurstöður og tilmæli.
5.     Ef annar aðili en sú stofnun eða dómsvald sem um getur í 4. mgr. tekur erindi um vefengingu fyrst til athugunar skal viðkomandi samningsaðili sjá til þess að hlutaðeigandi birgir geti áfrýjað upphaflegu ákvörðuninni til óhlutdrægrar stjórnsýslustofnunar eða dómsvalds sem er óháð innkaupastofnuninni sem gerir innkaupin sem eru tilefni vefengingarinnar.
6.     Umfjöllunaraðili, sem er ekki dómstóll, skal annaðhvort vera háður endurskoðun dómstóls eða starfa samkvæmt málsmeðferðarreglum sem mæla fyrir um að:
a)    innkaupastofnunin svari erindi um vefengingu skriflega og afhendi umfjöllunaraðila öll viðeigandi skjöl,
b)    aðilar að málsmeðferðinni (hér á eftir nefndir „málsaðilar“) eigi rétt á því að láta álit sitt í ljós áður en umfjöllunaraðili tekur ákvörðun um vefenginguna,
c)    málsaðilar eigi rétt á fyrirsvari og föruneyti,

d)    málsaðilar hafi aðgang að allri málsmeðferð,

e)    málsaðilar skuli hafa rétt til að fara þess á leit að málið verði tekið fyrir opinberlega og að heimilt sé að leiða fram vitni og
f)    ákvarðanir eða tilmæli, er varða erindi birgis um vefengingu, séu sett fram tímanlega, skriflega og með skýringu á forsendum fyrir hverri ákvörðun eða tilmælum.
7.     Hver samningsaðili skal samþykkja eða viðhalda málsmeðferð þar sem:
a)    gert er ráð fyrir skjótvirkum bráðabirgðaráðstöfunum til að gefa viðkomandi birgi kost á því að taka þátt í innkaupunum. Slíkar bráðabirgðaráðstafanir geta leitt til þess að innkaupaferlinu verði frestað. Málsmeðferðin getur falið í sér að taka megi tillit til alvarlegra og skaðlegra afleiðinga fyrir þá hagsmuni sem um ræðir, þ.m.t. almannahagsmuni, þegar ákvörðun er tekin um hvort slíkum ráðstöfunum skuli beitt. Réttmætar ástæður fyrir því að hafast ekki að skulu lagðar fram skriflega og
b)    þar sem gert er ráð fyrir, þegar umfjöllunaraðili hefur ákvarðað að brotið hafi verið gegn ákvæðum þessa kafla eða þegar birgir hefur ekki rétt til að rísa beint gegn broti á ákvæðum þessa kafla samkvæmt landslögum samningsaðila, að innkaupastofnun hafi ekki fylgt aðgerðum samningsaðilans til framkvæmdar ákvæðum þessa kafla, aðgerð til leiðréttingar eða jöfnunar vegna taps eða skaða sem orðinn er sem má takmarka annaðhvort við kostnað við gerð tilboðsins eða kostnað vegna erindis um vefengingu eða hvort tveggja.

Grein 7.28.
Breytingar og leiðréttingar á umfangi.

1.     Samningsaðila er heimilt að gera leiðréttingar, einungis formlegs eðlis, á því að hve miklu leyti umfang samkvæmt þessum kafla varðar hann eða gera minniháttar breytingar á skrám sínum í XIII. viðauka (Stofnanir sem þessi samningur tekur til), að því tilskildu að hann tilkynni hinum samningsaðilunum skriflega um það og enginn samningsaðili andmæli skriflega innan 30 daga frá tilkynningunni. Samningsaðili, sem gerir slíkar leiðréttingar, eða minniháttar breytingar, þarf ekki að gera leiðréttingu til jöfnunar gagnvart öðrum samningsaðilum.
2.     Samningsaðila er að öðru leyti heimilt að gera breytingar á því að hvaða leyti umfang samkvæmt þessum kafla varðar hann, að því tilskildu að:
a)    hann tilkynni hinum samningsaðilunum skriflega um það og bjóði jafnframt viðunandi leiðréttingar til jöfnunar til að viðhalda sambærilegu umfangi og því sem gilti fyrir breytingar, nema kveðið sé á um annað í 3. mgr.,
b)    enginn samningsaðili andmæli skriflega innan 30 daga frá tilkynningunni.
3.     Samningsaðili þarf ekki að gera leiðréttingu til jöfnunar séu samningsaðilarnir því sammála að fyrirhuguð breyting nái til innkaupastofnunar sem samningsaðili stjórnar ekki lengur í reynd eða hefur áhrif á. Ef samningsaðili andmælir þeirri fullyrðingu að slík opinber stjórn eða áhrif hafi verið afnumin í reynd getur hann farið fram á frekari upplýsingar eða samráð til að fá skýringu á því hvers konar opinbera stjórn eða áhrif um sé að ræða og til að ná samkomulagi um áframhaldandi umfang viðkomandi innkaupastofnunar samkvæmt þessum kafla.

Grein 7.29.
Þátttaka lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

1.     Samningsaðilar viðurkenna mikilvægi þátttöku lítilla og meðalstórra fyrirtækja (hér á eftir nefnd „lítil og meðalstór fyrirtæki“) í opinberum innkaupum. Samningsaðilar viðurkenna einnig mikilvægi viðskiptabandalaga milli birgja hvers og eins samningsaðila, einkum lítilla og meðalstórra fyrirtækja.
2.     Samningsaðilarnir samþykkja að vinna sameiginlega að því að skiptast á upplýsingum og auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum aðgang að málsmeðferð, aðferðum og samningskröfum sem varða opinber innkaup, með áherslu á sérstakar þarfir lítilla og meðalstórra fyrirtækja.

Grein 7.30.
Samstarf.

1.     Samningsaðilar viðurkenna mikilvægi samstarfs í því skyni að fá betri skilning á fyrirkomulagi opinberra innkaupa hvers um sig og betri aðgang að mörkuðum hver annars, einkum fyrir birgja sem teljast lítil og meðalstór fyrirtæki.
2.     Samkvæmt 10. kafla (Samstarf) skulu samningsaðilarnir leitast við að vinna saman að málefnum á borð við:
a)    þróun og notkun rafrænna samskipta í opinberum innkaupakerfum og
b)    miðlun reynslu og upplýsinga, s.s. regluramma, bestu starfshátta og hagskýrslna.


Grein 7.31.
Frekari samningaviðræður.

    Ef samningsaðili býður þriðja aðila síðar meir aukinn ávinning varðandi aðgang að markaði fyrir opinber innkaup með tilliti til þess umfangs sem er samþykkt samkvæmt ákvæðum þessa kafla skal hann, að beiðni annars samningsaðila, samþykkja að hefja frekari samningaviðræður um gagnkvæma útvíkkun umfangs samkvæmt þessum kafla.

8. KAFLI
STEFNA Í SAMKEPPNISMÁLUM

Grein 8.1.
Markmið.

1.     Samningsaðilar viðurkenna að samkeppnishamlandi starfhættir kunni að draga úr ávinningi af auknu frjálsræði sem fæst með þessum samningi. Þeir starfshættir samrýmist ekki réttri framkvæmd þessa samnings að því leyti sem þeir kunna að hafa áhrif á viðskipti milli Perús og EFTA-ríkis.
2.     Samningsaðilar skuldbinda sig til að beita samkeppnislögum sínum með það fyrir augum að banna slíka starfshætti og vinna saman að málum sem falla undir þennan kafla. Samstarf þetta tekur til tilkynninga, upplýsingaskipta, tæknilegrar aðstoðar og samráðs.

Grein 8.2.
Samkeppnishamlandi starfshættir.

1.     Í þessum kafla eiga „samkeppnishamlandi viðskiptahættir“ við um:
a)    lárétta eða lóðrétta samninga milli fyrirtækja, samstilltar aðgerðir sem fyrirtæki standa að eða um ákvarðanir samtaka fyrirtækja sem stefna að því markmiði eða hafa þau áhrif að koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni og
b)    misnotkun yfirburðastöðu á markaði.
2.     Stefna landsyfirvalda samningsaðilanna varðandi framfylgd skal vera í samræmi við meginreglur um gagnsæi, bann við mismunun og sanngjarna málsmeðferð.
3.     Þegar við á getur Perú staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt ákvæðum þessarar greinar eftir samkeppnislögum Bandalags Andesfjallaríkjanna og fyrir tilstuðlan hlutaðeigandi lögbærs yfirvalds þess bandalags. Réttindi og skyldur samkvæmt þessum kafla gilda aðeins milli Perús og EFTA-ríkjanna.

Grein 8.3.
Samstarf.

1.     Samningsaðilar skulu, á grundvelli landslaga og fyrir tilstilli lögbærra yfirvalda, gera sitt ýtrasta til að koma á samstarfi um málefni sem varða framfylgd samkeppnislaga.
2.     Hver samningsaðili skal tilkynna öðrum samningsaðila um þær aðgerðir til að framfylgja samkeppnislögum sem gætu haft áhrif á mikilvæga hagsmuni þess samningsaðila. Í tilkynningum skulu koma fram nægilega ítarlegar upplýsingar til að samningsaðilinn, sem tekur við þeim, geti gert frummat á því hvaða áhrif aðgerðir til að framfylgja samkeppnislögum hafa á yfirráðasvæði hans.
3.     Hver samningsaðili skal, í samræmi við landslög sín, taka tillit til mikilvægra hagsmuna hinna samningsaðilanna þegar hann grípur til aðgerða til að framfylgja lögum um samkeppnishamlandi starfshætti. Ef samningsaðili telur að samkeppnishamlandi starfshættir kunni að skaða mikilvæga hagsmuni slíks samningsaðila er honum heimilt að koma áliti sínu á málinu á framfæri við hinn samningsaðilann með milligöngu lögbærs yfirvalds síns. Samningsaðilinn, sem málinu er beint til, skal, með fyrirvara um aðgerðir samkvæmt eigin samkeppnislögum og um fullt frelsi til að taka endanlega ákvörðun, fjalla á viðeigandi hátt um þau sjónarmið sem samningsaðilinn, sem leggur fram fyrirspurn, lætur í ljós.
4.     Telji samningsaðili að samkeppnishamlandi starfshættir á yfirráðasvæði annars samningsaðila hafi umtalsverð skaðleg áhrif á yfirráðasvæði hans sjálfs eða á viðskiptatengsl milli samningsaðilanna getur hann farið fram á það við hinn samningsaðilann að hann hefji viðeigandi aðgerðir til að framfylgja samkeppnislögum. Beiðnin skal vera eins ítarleg og unnt er varðandi eðli og áhrif samkeppnishamlandi starfshátta. Samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, skal íhuga hvort hefja skuli aðgerðir varðandi þá samkeppnishamlandi starfshætti sem eru tilgreindir í beiðninni og skal tilkynna samningsaðilanum, sem leggur fram beiðnina, um ákvörðun sína og lyktir slíkrar aðgerðar.
5.     Samningsaðilar eru hvattir til að skiptast á upplýsingum, þ.m.t. upplýsingar sem almenningur hefur ekki aðgang að, að því tilskildu að slík upplýsingaskipti hafi ekki áhrif á yfirstandandi athugun. Öll upplýsingaskipti skulu lúta reglum og stöðlum um trúnaðarkvaðir sem gilda á yfirráðasvæði hvers samningsaðila. Enginn samningsaðili er skuldbundinn til að veita upplýsingar ef það gengur þvert á lög hans sjálfs um afhendingu upplýsinga. Hver samningsaðili skal uppfylla trúnaðarkvaðir vegna þeirra upplýsinga sem honum eru veittar með þeim takmörkunum á notkun þeirra sem samningsaðilinn, sem leggur fram upplýsingarnar, fer fram á.
6.     Til að efla samstarfið enn frekar geta samningsaðilar undirritað samstarfssamninga.

Grein 8.4.
Samráð.

    Samningsaðili getur óskað eftir samráði innan sameiginlegu nefndarinnar til að efla skilning á milli samningsaðilanna eða fjalla um málefni, sem kemur upp samkvæmt þessum kafla, og, með fyrirvara um sjálfræði sérhvers samningsaðila, til að þróa, viðhalda og framfylgja stefnu sinni og lögum um samkeppni. Í beiðninni skal greina frá ástæðum fyrir samráði. Hefja skal samráð þegar í stað með það fyrir augum að komast að niðurstöðu sem samrýmist markmiðum þessa kafla. Hlutaðeigandi samningsaðilar skulu veita sameiginlegu nefndinni allan nauðsynlegan stuðning og upplýsingar, með fyrirvara um þær viðmiðanir og reglur sem settar eru fram í 5. mgr. greinar 8.3 (Samstarf).

Grein 8.5.
Ríkisfyrirtæki og aðilar með einokunaraðstöðu.

1.     Ekkert í þessum kafla skal túlka svo að það komi í veg fyrir að samningsaðili geti komið á fót eða viðhaldið ríkisfyrirtæki eða tilnefnt aðila með einokunaraðstöðu.
2.     Samningsaðilar skulu sjá til þess að ríkisfyrirtæki og tilnefndir einokunaraðilar taki ekki upp eða viðhaldi samkeppnishamlandi starfsháttum, sem hafa áhrif á viðskipti milli samningsaðilanna, svo framarlega sem beiting þessa ákvæðis hindrar ekki, að lögum eða í reynd, framkvæmd opinberra verkefna sem þeim eru fengin.
3.     Þessi grein gildir ekki um opinber innkaup.


Grein 8.6.
Lausn deilumála.

    Enginn samningsaðili getur nýtt sér málsmeðferð við lausn deilumála samkvæmt 12. kafla (Lausn deilumála) í málum er varða þennan kafla.

9. KAFLI
GAGNSÆI
Grein 9.1.
Birting og afhending upplýsinga.

1.     Hver samningsaðili skal sjá til þess að lög hans, reglur, stjórnsýsluákvarðanir sem hafa almennt gildi, svo og alþjóðasamningar, sem hann er bundinn af, sem gætu haft áhrif á framkvæmd þessa samnings, séu birt eða gerð aðgengileg með öðrum hætti þannig að einstaklingar og aðrir, sem eiga hagsmuna að gæta, geti kynnt sér þau.
2.     Samningsaðilar skulu leitast við að birta, eða gera aðgengilegar með öðrum hætti, dómsniðurstöður sem geta haft áhrif á framkvæmd þessa samnings.
3.     Samningsaðilarnir skulu þegar í stað svara sértækum spurningum og veita hver öðrum, að fenginni beiðni, upplýsingar um málefni er um getur í 1. mgr.
4.     Ekkert í þessum samningi skyldar samningsaðila til að láta af hendi trúnaðarupplýsingar, sem myndi hindra að lögum væri framfylgt eða myndi á annan hátt vera andstætt almannahagsmunum eða skaða lögmæta viðskiptahagsmuni atvinnurekenda.

5.     Ef samningsaðili, sem veitir öðrum samningsaðila upplýsingar samkvæmt ákvæðum þessa samnings, auðkennir upplýsingarnar sem trúnaðarmál skal hinn samningsaðilinn uppfylla trúnaðarkvaðir sem á þeim hvíla.
6.     Ef ósamræmi er á milli ákvæða þessarar greinar og ákvæða varðandi gagnsæi í öðrum köflum, skulu þau síðarnefndu gilda sem því ósamræmi nemur.


Grein 9.2.
Tilkynningar.

1.     Talið skal að tilkynningu eða annars konar skriflegri orðsendingu, sem setur annaðhvort af stað tímabil, sem er tilgreint í þessum samningi, eða sem nauðsynlegt er að komi fram á slíku tímabili, hafi verið veitt viðtaka, nema kveðið sé á um annað, þegar hún hefur verið afhent gegn kvittun, send í ábyrgðarpósti eða með sendiboða eða með öðrum hætti í samskiptum þar sem viðtaka er skráð.
2.     Sérhver aðili að samningi þessum skal, með fyrirvara um ákvæði greinar 11.2 (Samræmingaraðilar samningsins og tengiliðir), tilnefna yfirvald, sem ber ábyrgð á viðtöku þeirra tilkynninga eða skriflegum orðsendingum er um getur í 1. mgr., og tilkynna hinum samningsaðilunum um þá tilnefningu innan 90 daga frá því að samningur þessi öðlast gildi.

10. KAFLI
SAMSTARF

Grein 10.1.
Gildissvið og markmið.

1.     Samningsaðilar skulu ákveða að efla samstarf sem gerir kleift að styðja við framtaksverkefni á sviði uppbyggingar viðskiptafærni (hér á eftir nefnt „uppbygging viðskiptafærni“) með það fyrir augum að auka og bæta ávinning af þessum samningi, með skilmálum sem gagnkvæmt samkomulag er um, í samræmi við innlendar áætlanir og stefnumið.
2.     Með samstarfi samkvæmt þessum kafla skal stefnt að eftirfarandi markmiðum:
a)    að efla og þróa þau samskipti sem fyrir eru milli samningsaðilanna og varða uppbyggingu viðskiptafærni,
b)    að ýta undir og skapa ný viðskipta- og fjárfestingartækifæri sem eykur samkeppnishæfni og stuðlar að nýsköpun og
c)    að framfylgja ákvæðum þessa samnings og nýta þann árangur sem af honum hlýst sem hvata efnahagsvaxtar og þróunar og að stuðla að því að draga úr fátækt.

Grein 10.2.
Aðferðir og leiðir.

1.     Samningsaðilarnir skulu vinna saman að því markmiði að finna og beita þeim aðferðum og koma auga á og fara þær leiðir sem skila sem mestum árangri þegar hrinda skal ákvæðum þessa kafla í framkvæmd. Þeir skulu, í þessu skyni, samræma aðgerðir sínar starfsemi viðkomandi alþjóðastofnana og ýta undir, þar sem það á við, samvirkni með tvíhliða samstarfi í annarri mynd milli samningsaðilanna.
2.     Samstarf samkvæmt þessum kafla skal fara fram á vettvangi EFTA eða á tvíhliða grundvelli eða sem sambland af þessu tvennu.
3.     Samningsaðilarnir munu, meðal annars, nýta sér eftirtalin atriði til að hrinda ákvæðum þessa kafla í framkvæmd:
a)    skipti á upplýsingum og reynslu,
b)    sameiginlega greiningu, þróun og framkvæmd samstarfsverkefna og samvinnu á sviði nýsköpunar, þ.m.t. málþing og málstofur og

c)    tæknisamstarf og samvinnu á sviði stjórnsýslu.
4.     Samningsaðilar geta hleypt af stokkunum og hrint í framkvæmd verkefnum og starfsemi í tengslum við uppbyggingu viðskiptafærni með þátttöku innlendra og alþjóðlegra sérfræðinga og stofnana.

Grein 10.3.
Sameiginlega nefndin og tengiliðir.

1.     Eftirtaldir tengiliðir eru tilnefndir vegna framgangs ákvæða þessa kafla:
a)    fyrir EFTA-ríkin: aðalskrifstofa EFTA og
b)    fyrir Perú: ráðuneyti utanríkisverslunar og ferðamála.
2.     Tengiliðirnir eru ábyrgir fyrir því að tillögur um verkefni fari rétta boðleið. Auk þess bera þeir ábyrgð á stjórnun og framvindu samstarfsverkefna EFTA og eru tengiliðir við sameiginlegu nefndina. Þeir skulu, í þessu skyni, setja reglur og ákveða verklag til að auðvelda þetta starf.

3.     EFTA-ríki, sem bjóða fram tvíhliða samstarf, sem fer fram samkvæmt ákvæðum þessa kafla, skulu tilnefna tengilið vegna slíks samstarfs.
4.     Sameiginlega nefndin skal endurskoða framkvæmd ákvæða þessa kafla reglulega og gegna hlutverki samræmingaraðila eftir því sem við á.

11. KAFLI
STJÓRNSÝSLA VEGNA SAMNINGSINS

Grein 11.1.
Sameiginlega nefndin.

1.     Samningsaðilar koma hér með á fót sameiginlegri nefnd EFTA-ríkjanna og Perús og skal hún skipuð fulltrúum allra samningsaðila. Fulltrúar samningsaðilanna skulu vera fulltrúar ríkisstjórna samningsaðilanna eða háttsettir embættismenn, tilnefndir af þeim í þessu skyni.
2.     Sameiginlega nefndin skal:
a)    hafa eftirlit með því að ákvæði þessa samnings séu uppfyllt og þeim beitt á réttan hátt,
b)    meta þann árangur sem hefur náðst með því að beita ákvæðum þessa samnings,
c)    hafa yfirsýn yfir frekari mótun þessa samnings, t.d. þann kost að afnema eftirstandandi viðskiptahindranir og aðrar takmarkandi ráðstafanir í viðskiptum milli Perús og EFTA-ríkjanna,

d)    hafa eftirlit með starfi undirnefnda og vinnuhópa sem komið er á fót samkvæmt þessum samningi og mæla með viðeigandi aðgerðum við þá,

e)    setja sér starfsreglur,
f)    gefa álit sitt á því hvernig túlka eða beita beri ákvæðum þessa samnings, að beiðni samningsaðila,
g)    leitast við að leysa deilumál, sem kunna að rísa um túlkun eða beitingu ákvæða þessa samnings, samkvæmt ákvæðum 12. kafla (Lausn deilumála),
h)    ákveða fjárhæð þóknunar og útgjalda sem verða greidd gerðardómsmönnum,
i)    semja og samþykkja staðlaðar reglur um málsmeðferð fyrir gerðardóma sem fela í sér siðareglur gerðardómsmanna og
j)    taka til umfjöllunar öll önnur málefni sem geta haft áhrif á framkvæmd þessa samnings eða sem samningsaðilarnir fela sameiginlegu nefndinni.
3.     Sameiginlega nefndin getur:
a)    skipað undirnefndir og starfshópa, eftir því sem hún telur nauðsynlegt til að aðstoða hana við verkefni sín, og falið þeim skyldustörf. Undirnefndirnar og starfshóparnir skulu starfa í umboði sameiginlegu nefndarinnar, nema kveðið sé sérstaklega á um annað í þessum samningi,

b)    ákveðið að breyta viðaukum og viðbætum við þennan samning, ákveðið gildistökudag slíkra ákvarðana, samanber þó ákvæði 4. mgr. og

c)    boðað samningsaðilana til samningaviðræðna síðar til að kanna hvort unnt sé að auka það frelsi sem þegar hefur náðst að tryggja í ólíkum geirum sem þessi samningur tekur til.
4.     Hafi fulltrúi samningsaðila í sameiginlegu nefndinni samþykkt ákvörðun með fyrirvara um að skilyrðum landslaga samningsaðilans sé fullnægt skal ákvörðunin öðlast gildi á þeim degi þegar síðasti samningsaðilinn tilkynnir vörsluaðila að skilyrðum landslaga hans hafi verið fullnægt, nema síðari dagsetning sé tilgreind í ákvörðuninni sjálfri. Sameiginlega nefndin getur ákveðið að ákvörðunin öðlist gildi gagnvart þeim samningsaðilum sem hafa fullnægt lagaskilyrðum sínum, að því tilskildu að Perú og a.m.k. eitt EFTA-ríkjanna séu meðal þeirra samningsaðila. Samningsaðila er heimilt að beita ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar til bráðabirgða þar til ákvörðunin öðlast gildi gagnvart honum, með fyrirvara um lagaleg skilyrði hans.
5.     Sameiginlega nefndin skal halda fundi hvenær sem nauðsyn krefur, en alla jafna reglulega fundi annað hvert ár og aukafundi samkvæmt skriflegri beiðni samningsaðila til hinna samningsaðilanna. Aukafundur skal haldinn innan 30 daga frá þeim degi er beiðninni er veitt viðtaka, nema samningsaðilar komi sér saman um annað.
6.     Verði samningsaðilarnir ekki ásáttir um annað skulu fundir sameiginlegu nefndarinnar haldnir til skiptis í Líma og Genf eða með tæknilegum aðferðum sem eru fyrir hendi. Perú og eitt EFTA-ríkjanna skulu gegna formennsku sameiginlega á slíkum fundum.
7.     Sameiginlega nefndin getur tekið ákvarðanir eftir því sem kveðið er á um í þessum samningi og lagt fram tilmæli um öll önnur mál.
8.     Sameiginlega hefndin tekur ákvarðanir og samþykkir tilmæli með samhljóða samþykki.

Grein 11.2.
Samræmingaraðilar og tengiliðir.

1.     Hver samningsaðili skal tilnefna samræmingaraðila samnings og tilkynna hinum samningsaðilunum um slíka tilnefningu innan 90 daga frá þeim degi er samningur þessi öðlast gildi.
2.     Samræmingaraðilar samningsins skulu, nema kveðið sé á um annað í samningi þessum:
a)    vinna sameiginlega að því að semja dagskrár og sjá um annan undirbúning fyrir fundi sameiginlegu nefndarinnar og fylgja eftir ákvörðunum sameiginlegu nefndarinnar, eftir því sem við á,
b)    vera tengiliðir til að auðvelda samskipti milli samningsaðilanna um hvert það málefni sem fellur undir þennan samning,
c)    tilgreina, að beiðni samningsaðila, embætti eða embættismenn sem bera ábyrgð á tilteknu málefni og aðstoða við að auðvelda samskipti eftir því sem þörf krefur og
d)    fjalla um hvert það málefni annað sem sameiginlega nefndin felur þeim.
3.     Sérhver samningsaðili skal bera ábyrgð á starfsemi þess samræmingaraðila samningsins sem hann tilnefnir og þeim kostnaði sem hlýst af starfsemi hans.

12. KAFLI
LAUSN DEILUMÁLA

Grein 12.1.
Samstarf.

    Samningsaðilar skulu jafnan leitast við að ná samkomulagi um túlkun og beitingu þessa samnings og gera sitt ítrasta, með samvinnu, samráði eða með öðrum hætti, til að finna lausn, sem allir aðilar geta sætt sig við, á hverju því máli sem getur haft áhrif á framkvæmd hans.

Grein 12.2.
Gildissvið.

    Sé ekki kveðið á um annað í samningi þessum skulu ákvæði þessa kafla gilda um lausn allra deilumála á milli samningsaðilanna varðandi túlkun eða beitingu þessa samnings, einkum þegar samningsaðili telur að ráðstöfun annars samningsaðila samrýmist ekki skuldbindingum samkvæmt þessum samningi.

Grein 12.3.
Vettvangur valinn.

1.     Heimilt er að leysa deilu, vegna máls er varðar bæði þennan samning og samninginn um Alþjóðaviðskiptastofnunina, á vettvangi hvors samningsins sem er, að vali þess samningsaðila sem ber fram kvörtun.
2.     Þegar samningsaðili, sem ber fram kvörtun, hefur óskað eftir því að skipaður verði gerðardómur á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar skv. 6. mgr. um samkomulag Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um reglur og málsmeðferð við lausn deilumála eða gerðardóm samkvæmt þessum samningi, þ.e. 1. mgr. greinar 12.6 (Beiðni um gerðardóm), skal einungis velja annan þessara tveggja kosta í því máli, nema deiluaðilar verði ásáttir um annað.
3.     Samningsaðili skal, áður en hann hefur málsmeðferð samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um lausn deilumáls við annan samningsaðila, tilkynna hinum samningsaðilunum um þá fyrirætlan sína.

Grein 12.4.
Sáttaumleitanir.

1.     Sáttaumleitanir er málsmeðferð sem samningsaðilar velja sér af frjálsum vilja verði þeir ásáttir um það. Hefja má sáttaumleitanir eða hætta þeim hvenær sem er. Þær geta haldið áfram meðan málsmeðferð gerðardóms, sem komið er á fót samkvæmt ákvæðum þessum kafla, stendur yfir.
2.     Málsmeðferð, sem felst í sáttaumleitunum, skal vera trúnaðarmál og hefur ekki áhrif á rétt samningsaðila til að nýta sér aðra málsmeðferð.


Grein 12.5.
Samráð.

1.     Samningsaðili getur óskað skriflega eftir viðræðum við hvaða annan samningsaðila sem er um hvert það málefni sem um getur í grein 12.2 (Gildissvið). Samningsaðili, sem leggur fram beiðnina, skal tilkynna hinum samningsaðilunum skriflega um það.
2.     Viðræður skulu fara fram á vegum sameiginlegu nefndarinnar ef samningsaðilinn sem leggur fram beiðni um samráð og sá sem beiðninni er beint til samþykkja það.
3.     Í beiðni um samráð skal tilgreina ástæður fyrir kvörtuninni, m.a. benda á þá ráðstöfun sem um ræðir og á þann lagagrundvöll sem kvörtunin er byggð á.

4.     Viðræður skulu fara fram innan:
a)    30 daga frá þeim degi er beiðni um samráð um áríðandi mál er veitt viðtaka, 1

b)    45 daga frá þeim degi er beiðni um samráð um önnur mál er veitt viðtaka eða
c)    einhverra annarra tímamarka sem þeir samningsaðilar sem efna til samráðs verða ásáttir um.
5.     Samráð getur farið fram þannig að menn koma saman eða með því að nota þann tæknibúnað sem þeir samningsaðilar sem efna til samráðs hafa aðgang að. Ef um er að ræða samráð þar sem menn koma saman skal það fara fram á þeim stað sem þeir samningsaðilar sem efna til samráðs eru ásáttir um. Nái þeir ekki samkomulagi skal samráðið fara fram í Líma.
6.     Þeir samningsaðilar sem efna til samráðs skulu veita nægilegar upplýsingar til að unnt sé að rannsaka til fulls hvernig þær ráðstafanir sem í gildi eru gætu haft áhrif á rekstur þessa samnings og hvernig ákvæðum hans er beitt og fara með trúnaðarupplýsingar eða einkamál stofnana á sama hátt og samningsaðilinn sem veitir upplýsingarnar.
7.     Samráð skal bundið trúnaði og vera með fyrirvara um rétt samningsaðilanna, sem efna til þess, komi til frekari meðferðar málsins.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      Áríðandi mál varða m.a. vörur (landbúnaðarafurðir, fisk og iðnaðarvörur) og þjónustu sem tapa gæðum sínum eða ástandi á skömmum tíma. Áríðandi mál varða m.a. vörur sem eru viðkvæmar fyrir skemmdum eða þjónustu sem tapar viðskiptagildi sínu eftir tiltekna dagsetningu.

8.     Þeir samningsaðilar sem efna til samráðs skulu tilkynna hinum samningsaðilunum um hverja þá lausn mála sem gagnkvæmt samkomulag er um.

Grein 12.6.
Beiðni um stofnun gerðardóms.

1.     Samningsaðili, sem efnir til samráðs, getur óskað skriflega eftir því að gerðardómur verði stofnaður:
a)    ef samningsaðilinn, sem beiðni er beint til, hefur ekki svarað beiðni um samráð innan 15 daga frá þeim degi er hann veitir beiðninni viðtöku,
b)    fari samráð ekki fram innan þeirra tímamarka er um getur í grein 12.5 (Samráð) eða innan annarra tímamarka sem þeir samningsaðilar sem efna til samráðs kunna að hafa orðið ásáttir um eða
c)    ef samningsaðilunum, sem efna til samráðs, tekst ekki að leysa það mál sem er til umfjöllunar innan 60 daga frá þeim degi er beiðni um samráð er veitt viðtaka eða, ef um áríðandi mál er að ræða, innan 45 daga eða innan annarra tímamarka sem þeir verða ásáttir um.
2.     Samningsaðili, sem ber fram kvörtun, skal afhenda samningsaðilanum, sem kvörtun er beint til, beiðni um að stofnaður verði gerðardómur. Í beiðninni skal koma fram ástæða fyrir því að hún er lögð fram, þær sérstöku ráðstafanir sem um er að ræða og henni skal fylgja stutt samantekt um þann lagagrundvöll sem kvörtunin byggist á sem nægir til þess að leggja málið fyrir með skýrum hætti.
3.     Afrit af beiðninni skal senda hinum aðilunum að þessum samningi, þannig að þeir geti ákveðið hvort þeir vilji eiga hlut að deilumálinu.
4.     Velja skal í gerðardóm og skal hann gegna hlutverki sínu í samræmi við ákvæði þessa kafla og staðlaðar reglur um málsmeðferð, nema deiluaðilar verði ásáttir um annað.

Grein 12.7.
Þátttaka þriðja aðila.

    Samningsaðili sem er ekki deiluaðili skal, þegar þeim samningsaðilum sem deila er afhent skrifleg auglýsing, eiga rétt á að leggja skriflega greinargerð fyrir gerðardóm, fá afhentar skriflegar greinargerðir, þ.m.t. viðaukar þeirra samningsaðila sem deila, vera viðstaddur málflutning og gefa munnlegar yfirlýsingar.

Grein 12.8.
Val í gerðardóm.

1.     Þrír menn skulu sitja í gerðardómi. Stofndagur gerðardóms telst vera sá dagur þegar formaður er skipaður.
2.     Hver og einn samningsaðili sem er deiluaðili skal, innan 20 daga frá því að samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til veitir viðtöku beiðni um stofnun gerðardóms, skipa gerðardómsmann, sem getur verið ríkisborgari í ríki viðkomandi samningsaðila, gera tillögu um allt að fjóra frambjóðendur til formanns í gerðardómi og tilkynna hinum samningsaðilanum, sem er deiluaðili, skriflega um nafn hins skipaða gerðardómsmanns og nöfn frambjóðenda sinna til formanns, þ.m.t. viðeigandi upplýsingar um bakgrunn þeirra.
3.     Deiluaðilar skulu, innan tíu daga eftir að samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til, veitir beiðni um stofnun gerðardóms viðtöku, leitast við að ná samkomulagi um formann og velja hann úr hópi þeirra frambjóðenda sem samningsaðilarnir hafa gert tillögu um.
4.     Hafi einhver hinna þriggja nefndarmanna ekki verið tilnefndur eða skipaður innan 30 daga eftir að samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til, veitir beiðni um stofnun gerðardóms viðtöku, skal aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar annast tilnefningar, að beiðni samningsaðila sem er deiluaðili, að höfðu samráði við samningsaðilana sem deila. Tilnefning skal gerð innan 30 daga eftir að beiðni þar um er veitt viðtaka.
5.     Hætti gerðardómsmaður, sem er skipaður, störfum, sé honum vikið frá eða forfallist hann, skal skipa annan í hans stað á eftirfarandi hátt:
a)    sé um að ræða gerðardómsmann, sem samningsaðili hefur skipað, skal sá samningsaðili tilnefna annan sáttanefndarmann innan 15 daga, en sé það ekki gert skal skipa annan í hans stað skv. 4. mgr. og
b)    sé um að ræða formann gerðardóms skulu samningsaðilarnir koma sér saman um skipun annars formanns í hans stað innan 30 daga, en sé það ekki gert skal skipa annan formann í hans stað skv. 4. mgr.
6.     Framlengja skal þann frest sem gildir fyrir meðferð málsins frá og með þeim degi er gerðardómsmaður eða formaður hættir störfum, er vikið frá eða forfallast og til þess dags þegar eftirmaður hans hefur verið skipaður.
7.     Ef aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar getur ekki annast þær tilnefningar er um getur í þessum kafla eða er ríkisborgari í landi samningsaðila, sem er deiluaðili, skal aðstoðarframkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar annast tilnefningarnar.

Grein 12.9.
Menntun og hæfi gerðardómsmanna.

1.     Sáttanefndarmenn skulu:
a)    sérfróðir eða hafa reynslu á sviði lögfræði, alþjóðaviðskipta og annarra málefna sem þessi samningur tekur til eða á sviði úrlausna deilumála sem rísa vegna alþjóðlegra viðskiptasamninga,
b)    valdir einungis á grundvelli hlutlægni, óhlutdrægni, áreiðanleika og góðrar dómgreindar,
c)    óháðir, ekki í eignartengslum við neinn samningsaðila eða taka við fyrirmælum frá neinum þeirra og
d)    fara að siðareglum sem eiga sér stoð í hinum stöðluðum málsmeðferðarreglum.
2.     Ef samningsaðili, sem er deiluaðili, hefur réttmætar efasemdir um hvort gerðardómsmaður uppfylli reglur um háttsemi, sem eiga sér stoð í hinum stöðluðu málsmeðferðarreglum, getur hann lagt til við hinn samningsaðilann, sem er deiluaðili, að gerðardómsmaðurinn verði færður úr starfi. Ef hinn samningsaðilinn, sem er deiluaðili, er því ósamþykkur eða víki gerðardómsmaðurinn ekki skal aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar taka ákvörðun í málinu.

Grein 12.10.
Hlutverk gerðardóms.

1.     Gerðardómur skal leggja hlutlægt mat á það mál sem hún hefur til umfjöllunar í ljósi viðeigandi ákvæða þessa samnings, sem túlkuð eru í samræmi við reglur um túlkun þjóðaréttar og í ljósi greinargerða og röksemda þeirra samningsaðila sem deila, einnig annarra upplýsinga, sem henni berast meðan á málsmeðferð stendur, og bera fram nauðsynlegar niðurstöður fyrir lausn deilumálsins í samræmi við beiðnina um stofnun gerðardóms og erindisbréf hennar.
2.     Verði þeir samningsaðilar sem deila ekki ásáttir um annað, innan 20 daga frá því að beiðni um stofnun sáttanefndar er veitt viðtaka, skal erindisbréf sáttanefndarinnar vera sem hér segir:
    „Að rannsaka, í ljósi viðeigandi ákvæða þessa samnings, það mál sem er vísað til hennar í beiðninni um aðkomu gerðardóms og komast að niðurstöðu, taka ákvarðanir og leggja fram tilmæli um þau mál er um getur í 3. mgr. greinar 12.13 (Skýrsla gerðardóms).“
3.     Ákvarðanir gerðardóms, þ.m.t. samþykkt skýrslunnar, skulu alla jafna teknar með einróma samþykki. Ef einróma samþykki næst ekki innan gerðardóms getur hann samþykkt ákvarðanir sínar með meirihluta atkvæða. Gerðardómur hefur ekki heimild til að veita upplýsingar um það hverjir gerðardómsmanna eiga hlut að meirihluta- eða minnihlutaáliti nefndarinnar.
4.     Senda ber samningsaðilunum skýrslur gerðardóms, ásamt öllum öðrum ákvörðunum hans. Birta skal skýrslurnar opinberlega, nema þeir deiluaðilar ákveði annað.

Grein 12.11.
Staðlaðar málsmeðferðarreglur.

1.     Málsmeðferð í gerðardómi skal vera í samræmi við hinar stöðluðu málsmeðferðarreglur, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi. Þeir samningsaðilar sem deila geta komið sér saman um að öðrum reglum sé beitt í gerðardómi.
2.     Sameiginlega nefndin skal, innan sex mánaða frá gildistöku þessa samnings, samþykkja hinar stöðluðu málsmeðferðarreglur sem skulu tryggja a.m.k. eftirfarandi:
a)    að hver samningsaðili, sem er deiluaðili, skuli eiga rétt á málflutningi a.m.k. einu sinni fyrir gerðardómi og jafnframt að fá tækifæri til að leggja fram skrifleg gögn og gagnrök,
b)    að málflutningur fyrir gerðardómi sé opinn almenningi, nema þeir samningsaðilar sem deila verði ásáttir um annað,
c)    vernd upplýsinga sem samningsaðili, sem er deiluaðili, auðkennir sem trúnaðarmál,
d)    að málflutningur fari fram í Washington DC, nema þeir samningsaðilarnir sem deila verði ásáttir um annað,
e)    að þeir samningsaðilar sem deila eigi rétt á að nota annaðhvort sitt eigið tungumál eða ensku við munnlegan málflutning. Skrifleg gögn skulu lögð fram á spænsku með enskri þýðingu eða á ensku með spænskri þýðingu,
f)    sáttanefndinni er heimilt, að fram kominni beiðni samningsaðila sem er deiluaðili eða að eigin frumkvæði, að leita eftir upplýsingum og tæknilegri ráðgjöf sérfræðinga sem hún telur við eiga,
g)    samningsaðili, sem er deiluaðili, skal bera eigin kostnað, þ.m.t. kostnaður við þýðingar framlagðra, skriflegra gagna, stjórnsýslukostnað þeirra samningsaðila sem deila og annan kostnað sem tengist undirbúningi og framkvæmd málsmeðferðarinnar og
h)    þeir samningsaðilarnir sem deila skulu bera að jöfnu kostnað vegna gerðardómsmanna og stjórnsýslukostnað vegna munnlegs málflutnings, þ.m.t. túlkun. Gerðardómur getur engu að síður ákveðið að kostnaði skuli öðruvísi skipt, þar sem m.a. er tekið tillit til einstakra atriða málsins og annarra aðstæðna sem kunna að vera talin skipta máli.

Grein 12.12.
Sameiginleg málsmeðferð.

    Ef fleiri en einn samningsaðili fer fram á að gerðardómur verði stofnaður vegna sama máls eða ráðstöfunar skal, ætíð þegar því verður komið við, stofna einn gerðardóm til að fjalla um kvartanir sem varða sama mál.

Grein 12.13.
Skýrsla gerðardóms.

1.     Gerðardómur skal leggja fram bráðabirgðaskýrslu innan 90 daga frá stofndegi hans, eða 50 daga þegar um áríðandi mál er að ræða, nema þeir samningsaðilar sem deila verði ásáttir um annað.
2.     Samningsaðila, sem er deiluaðili, er heimilt að leggja skriflegar athugasemdir fyrir sáttanefndina um frumskýrslu hennar innan 14 daga frá því að skýrslan er lögð fram. Sáttanefndin skal afhenda þeim samningsaðilum sem deila lokaskýrslu innan 30 daga frá því að frumskýrslan er lögð fram.
3.     Skýrslurnar skulu innihalda:
a)    niðurstöður, byggðar á staðreyndum og lögum, ásamt rökstuðningi fyrir þeim, m.a. ákvörðun þess efnis hvort samningsaðili, sem er deiluaðili, hafi vanrækt skyldur sínar samkvæmt þessum samningi eða hvers konar aðrar ákvarðanir sem farið er fram á í erindisbréfi,
b)    tilmæli um lausn deilunnar og hvernig beri að hrinda atriðum lokaskýrslunnar í framkvæmd,

c)    ef um það er beðið, niðurstöður athugunar á því hversu skaðleg áhrif það hefur haft á viðskiptahagsmuni þess samningsaðila sem ber fram kvörtun að samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til, hafi ekki uppfyllt skuldbindingar sínar samkvæmt þessum samningi og
d)    ef um það er beðið, hæfilegan frest til þess að uppfylla þær kröfur sem fram koma í lokaskýrslunni.

Grein 12.14.
Beiðni um útlistun skýrslunnar.

1.     Samningsaðili, sem er deiluaðili, getur lagt fyrir gerðardóm skriflega beiðni um útskýringu á þeim ákvörðunum eða tilmælum í lokaskýrslunni sem hann telur óljós, innan 10 daga frá því að skýrslan er lögð fram. Gerðardómur skal svara beiðninni innan 10 daga frá því að henni er veitt viðtaka.

2.     Framlagning beiðni skv. 1. mgr. hefur ekki áhrif á tímafrest er um getur í grein 12.16 (Framkvæmd ákvæða lokaskýrslunnar og jöfnunaraðgerðir) og grein 12.17 (Úrskurður kemur ekki til framkvæmda og ávinningi frestað), nema gerðardómur ákveði annað.

Grein 12.15.
Málsmeðferð frestað eða hætt.

1.     Samningsaðilarnir sem deila geta ákveðið að fresta starfi gerðardóms hvenær sem er, þó ekki lengur en 12 mánuði frá því að slíkt samkomulag er samþykkt. Ef vinnu gerðardóms er frestað lengur en 12 mánuði skal heimild hans til að fjalla um deilumálið falla niður nema þeir samningsaðilar sem deila verði ásáttir um annað.
2.     Ekkert í samningi þessum hindrar samningsaðila, sem er deiluaðili, í því að leggja fram nýja kvörtun vegna sama máls, ef heimild sáttanefndarinnar fellur niður og þeir samningsaðilarnir sem deila hafa ekki orðið ásáttir um lausn deilunnar.
3.     Þeir samningsaðilar sem deila geta ákveðið að hætta málsmeðferð gerðardóms hvenær sem er með sameiginlegri tilkynningu um það til formanns gerðardóms.
4.     Samningsaðila, sem ber fram kvörtun, er heimilt að draga hana til baka hvenær sem er áður en lokaskýrslan er gefin út. Það hefur þó ekki áhrif á rétt hans til að leggja fram nýja kvörtun síðar vegna sama máls.
5.     Gerðardómur getur, á hvaða stigi málsmeðferðar sem er og áður en lokaskýrslan er gefin út, lagt til að þeir samningsaðilar sem deila reyni að leysa deiluna í vinsemd.

Grein 12.16.
Framkvæmd lokaskýrslunnar og jöfnunaraðgerðir.

1.     Úrskurðir gerðardóms í þeim málum er um getur í a- og d-lið 3. mgr. greinar 12.13 (Skýrsla gerðardóms) eru endanlegir og bindandi fyrir þá samningsaðila sem deila.
2.     Samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til, skal, innan 30 daga frá því að lokaskýrslan er gefin út, tilkynna hinum samningsaðilanum um það hvenær og hvernig hann muni fylgja úrskurðinum. Samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til, skal fylgja úrskurðinum þegar í stað eða, ef það er óframkvæmanlegt, innan hæfilegs frests, nema gefinn sé frestur í skýrslu gerðardóms til að hrinda efnisatriðum úrskurðarins í framkvæmd skv. d-lið 3. mgr. greinar 12.13 (Skýrsla gerðardóms) eða samningsaðilarnir sem deila verði ásáttir um annan frest. Samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til, skal taka tillit til allra tilmæla gerðardóms um lausn deilunnar og framkvæmd úrskurðarins.
3.     Samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til, getur einnig, innan 30 daga frá því að lokaskýrslan er gefin út, tilkynnt samningsaðilanum, sem ber fram kvörtun, að hann telji ógerlegt að fylgja úrskurðinum og boðið jöfnunaraðgerð. Ef samningsaðili, sem ber fram kvörtun, telur að áformuð jöfnunaraðgerð sé óviðunandi eða ekki nægilega ítarleg til að endurspegla rétt mat, getur hann farið fram á að efnt verði til samráðs til þess að ná samkomulagi um jöfnunaraðgerð. Ef ekki næst samkomulag um jöfnunaraðgerð innan 30 daga eftir að beiðni um samráð er veitt viðtaka, verður samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til, að hlíta upprunalegum úrskurði gerðardóms skv. 2. mgr.

Grein 12.17.
Úrskurður kemur ekki til framkvæmda – ávinningi frestað.

1.     Ef samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til, fylgir ekki:
a)    úrskurði samkvæmt lokaskýrslunni innan þess frests sem ákveðinn er skv. 2. mgr. greinar 12.16 (Framkvæmd lokaskýrslunnar og jöfnunaraðgerð) eða
b)    ákvæðum samkomulags um jöfnunaraðgerð skv. 3. mgr. greinar 12.16 (Framkvæmd lokaskýrslunnar og jöfnunaraðgerð) innan þess frests sem samningsaðilarnir sem deila eru ásáttir um, getur samningsaðilinn, sem ber fram kvörtun, frestað því að ávinningur, sem fæst samkvæmt þessum samningi, komi til framkvæmda til jafns við þann sem ráðstöfun, sem gerðardómur hefur gengið úr skugga um að fari í bága við þennan samning, að teknu tilliti til niðurstaðna athugunar á því um hversu skaðleg áhrif á viðskiptahagsmuni skv. c-lið 3. mgr. greinar 12.13 (Skýrsla gerðardóms) er að ræða.
2.     Þegar hugað er að því hvaða ávinningi skuli fresta skv. 1. mgr. skal samningsaðili, sem ber fram kvörtun, fyrst leitast við að fresta ávinningi í sama geira eða geirum og þeim sem ráðstöfunin, sem gerðardómur hefur ákvarðað að samrýmist ekki skyldum samkvæmt þessum samningi, hefur haft áhrif á. Ef samningsaðili, sem ber fram kvörtun, telur það hvorki gerlegt né vænlegt til árangurs að fresta ávinningi í sama geira eða geirum, getur hann frestað ávinningi í öðrum geirum.
3.     Frestun ávinnings skal vera tímabundin ráðstöfun sem samningsaðili, sem ber fram kvörtun, beitir einungis þar til ráðstöfunin, sem fer í bága við þennan samning, hefur verið samrýmd úrskurði sáttanefndarinnar eða þar til samningsaðilarnir sem deila hafa leyst deilumálið á annan hátt.
4.     Samningsaðili, sem ber fram kvörtun, skal tilkynna samningsaðilanum, sem kvörtun er beint til, um þann ávinning sem fyrirhugað er að fresta og ástæður slíkrar frestunar og hvenær henni lýkur, eigi síðar en 30 dögum fyrir þann dag er frestun á að koma til framkvæmda. Samningsaðilinn, sem kvörtun er beint gegn, getur, innan 15 daga frá dagsetningu fyrrnefndrar tilkynningar, farið þess á leit við upphaflega gerðardóminn að hann úrskurði um hvers konar ágreining um hinn tilkynnta frest, þ.m.t. hvort frestun ávinnings sé réttmæt og hvort sá ávinningur sem samningsaðilinn, sem ber fram kvörtun, hyggst afnema sé of mikill. Gerðardómur skal fella úrskurð innan 45 daga frá dagsetningu beiðninnar og er sá úrskurður endanlegur og bindandi. Ekki skal fresta ávinningi fyrr en gerðardómur hefur fellt úrskurð sinn.
5.     Sé ágreiningur um hvort samningsaðilinn, sem kvörtun er beint til, hafi farið að tilmælum í skýrslunni innan þeirra tímamarka sem sett eru fram í 2. mgr. greinar 12.16 (Framkvæmd lokaskýrslunnar og jöfnunaraðgerðir), getur hvor samningsaðili sem er, sem á aðild að deilunni, vísað málinu til upphaflega gerðardómsins. Sáttanefndin skal, að öllu jöfnu, kveða upp úrskurð sinn innan 45 daga frá dagsetningu beiðninnar og er sá úrskurður endanlegur og bindandi. Eigi skal fresta ávinningi fyrr en gerðardómur hefur birt úrskurð sinn.
6.     Upphaflegi gerðardómurinn skal, að beiðni samningsaðila sem er deiluaðili, skera úr um það hvort ráðstafanir til framkvæmdar, sem eru samþykktar eftir að samningsaðilinn, sem ber fram kvörtun, frestar ávinningi, séu í samræmi við úrskurð gerðardóms í þessum kafla og hvort frestun ávinnings skuli hætt eða henni breytt. Í þessu tilfelli skal gerðardómur fella úrskurð sinn innan 30 daga frá dagsetningu beiðninnar.
7.     Gerðardómur samkvæmt þessari grein skal, ávallt þegar aðstæður leyfa, skipuð aðilum upphaflega gerðardómsins. Ef gerðardómsmaður fellur frá, hættir störfum, er vikið frá störfum eða sé hann ekki tiltækur af öðrum ástæðum skal annar gerðardómsmaður, sem er skipaður skv. 5. mgr. greinar 12.8 (Val gerðardóms), koma í hans stað.

13. KAFLI
LOKAÁKVÆÐI

Grein 13.1.
Viðaukar, viðbætar og neðanmálsgreinar.

    Viðaukar, viðbætar og neðanmálsgreinar við þennan samning eru óaðskiljanlegur hluti hans.


Grein 13.2.
Gildistaka.

1.     Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki í samræmi við laga- og stjórnskipuleg skilyrði samningsaðilanna. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent vörsluaðila til vörslu.
2.     Samningur þessi öðlast gildi 1. júní 2011, að því tilskildu að Perú og a.m.k. eitt EFTA-ríki hafi afhent vörsluaðila skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu eða tilkynnt honum um beitingu samningsins til bráðabirgða að minnsta kosti tveimur mánuðum fyrir fyrrnefnda dagsetningu.
3.     Ef samningurinn öðlast ekki gildi 1. júní 2011, öðlast hann gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að síðara ríkið, þ.e. Perú og a.m.k. eitt EFTA-ríki, hefur afhent vörsluaðila skjöl sín um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu eða tilkynnt honum um beitingu samningsins til bráðabirgða.

4.     Afhendi EFTA-ríki skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu eftir að samningur þessi hefur öðlast gildi skal samningurinn öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að skjal þess er afhent til vörslu.
5.     Hafi Perú fullgilt þennan samning getur EFTA- ríki, heimili laga- og stjórnskipuleg skilyrði þess það, beitt ákvæðum þessa samnings til bráðabirgða meðan þess er beðið að það ríki fullgildi samninginn, staðfesti hann eða samþykki. Tilkynna ber vörsluaðila um að ákvæðum þessa samnings verði beitt til bráðabirgða og gildir slík beiting frá fyrsta degi þriðja mánaðar frá þeirri tilkynningu.
6.     Ef samningsaðili fullgildir ekki samninginn, staðfestir hann eða samþykkir og hafi sá samningsaðili beitt ákvæðum hans til bráðabirgða, gildir ákvæði 1. mgr. greinar 13.15 (Úrsögn) að breyttu breytanda. Bráðabirgðabeitingu skal fram haldið í sex mánuði eftir þann dag er vörsluaðili veitir tilkynningu viðkomandi samningsaðila um að samningurinn verði ekki fullgiltur, staðfestur eða samþykktur viðtöku.


Grein 13.3.
Breytingar.

1.     Sérhverjum samningsaðila er heimilt að leggja fyrir sameiginlegu nefndina tillögur um breytingar á þessum samningi til umfjöllunar og samþykkis.
2.     Breytingar á þessum samningi ber, með fyrirvara um ákvæði b-liðar 3. mgr. greinar 11.1 (Sameiginlega nefndin) og eftir að sameiginlega nefndin hefur samþykkt þær, að senda samningsaðilunum til fullgildingar, staðfestingar eða samþykkis í samræmi við laga- og stjórnskipuleg skilyrði samningsaðilanna sem við eiga.
3.     Breytingarnar öðlast gildi á fyrsta degi þriðja mánaðar eftir að síðasta skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki er afhent til vörslu, nema samningsaðilarnir verði ásáttir um annað.
4.     Samningsaðilarnir geta komið sér saman um að breyting öðlist gildi gagnvart þeim samningsaðilum sem hafa fullnægt skilyrðum landslaga sinna, að því tilskildu að Perú og a.m.k. eitt EFTA-ríki séu á meðal þessara samningsaðila. Samningsaðili getur, með fyrirvara um skilyrði landslaga sinna og eftir að hafa tilkynnt vörsluaðila um það, tekið breytinguna upp til bráðabirgða meðan þess er beðið að hún sé fullgilt, staðfest eða samþykkt.
5.     Texti breytinga og skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent vörsluaðila til vörslu.

Grein 13.4.
Aðild.

1.     Ríki, sem gerist aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA), getur gerst aðili að samningi þessum, svo fremi að sameiginlega nefndin ákveði að samþykkja aðild þess, með þeim skilmálum og skilyrðum sem það ríki og samningsaðilarnir kunna að verða ásátt um.
2.     Að því er varðar inngönguríki skal samningur þessi öðlast gildi fyrsta dag þriðja mánaðar eftir að síðasta skjalið um samþykki samningsaðilanna og um aðild inngönguríkisins hefur verið afhent til vörslu.

Grein 13.5.
Úrsögn.

1.     Sérhver samningsaðili getur sagt sig frá samningi þessum eftir að hafa komið skriflegri tilkynningu um það til hinna samningsaðilanna. Úrsögnin tekur gildi sex mánuðum eftir þann dag þegar vörsluaðilinn veitir tilkynningunni viðtöku, nema samningsaðilarnir verði ásáttir um annað.
2.     Segi Perú sig frá samningnum telst hann útrunninn þegar úrsögnin tekur gildi.
3.     Ef EFTA-ríki segir sig frá samningnum um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu skal það jafnframt segja sig frá samningi þessum í samræmi við ákvæði 1. mgr.

Grein 13.6.
Tengsl við viðbótarsamninga.

1.     Samningur þessi öðlast ekki gildi og verður ekki beitt til bráðabirgða í samskiptum Perús og EFTA- ríkis nema viðbótarsamningurinn um landbúnaðarmál milli Perú og þess EFTA-ríkis, er um getur í grein 1.1 (Stofnun fríverslunarsvæðis), öðlist jafnframt gildi eða sé jafnframt beitt til bráðabirgða. Samningurinn heldur gildi sínu eins lengi og viðbótarsamningurinn heldur gildi sínu milli fyrrnefndra samningsaðila.
2.     Segi Perú eða einstakt EFTA-ríki sig frá viðbótarsamningnum um landbúnaðarmál milli Perús og þess EFTA-ríkis, skal litið svo á að viðkomandi ríki segi sig einnig frá þessum samningi. Báðar úrsagnirnar taka gildi á þeim degi þegar fyrri uppsögnin tekur gildi skv. grein 13.5 (Úrsögn).


Grein 13.7.
Gildir textar.

1.     Enskir og spænskir textar þessa samnings eru jafngildir og jafnréttir nema að því leyti sem kemur fram í 2. mgr. Ef ágreiningur rís skal enski textinn ráða.
2.     Eftirfarandi textar eru aðeins gildir og réttir á ensku annars vegar og spænsku hins vegar:
a)    Á ensku:
    i.    taflan í II. viðauka (Undanskildar vörur),
    ii.    1. viðbætir við III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir) og
    iii.    töflur 1 og 2 í IV. viðauka (Fiskur og aðrar sjávarafurðir).
b)    Á spænsku:
    i.    2. og 3. viðbætir við III. viðauka (Unnar landbúnaðarafurðir),
    ii.    tafla 3 í IV. viðauka (Fiskur og aðrar sjávarafurðir) og
    iii.    tafla í VIII. viðauka (Iðnaðarvörur).

Grein 13.8.
Vörsluaðili.

    Ríkisstjórn Noregs skal vera vörsluaðili samningsins.

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem hafa til þess fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan.

Undirritað af hálfu EFTA-ríkjanna í Reykjavík 24. júní 2010 og af hálfu Perús í Líma 14. júlí 2010 í einu frumriti á ensku og spænsku sem skal afhenda ríkisstjórn Noregs (vörsluaðila) til vörslu. Vörsluaðili skal senda samningsaðilunum staðfest endurrit.


Fyrir hönd Íslands     Fyrir hönd Lýðveldisins Perús
________________     _______________________
Fyrir hönd Furstadæmisins Liechtensteins
________________
Fyrir hönd Konungsríkisins Noregs
________________
Fyrir hönd Ríkjasambandsins Sviss
________________

FREE TRADE AGREEMENT
BETWEEN
THE REPUBLIC OF PERU
AND
THE EFTA STATES


PREAMBLE


The Republic of Peru (hereinafter referred to as “Peru”) on one part, and Iceland, the Principality of Liechtenstein, the Kingdom of Norway and the Swiss Confederation (hereinafter referred to as “the EFTA States”) on the other, each individual State referred to as a “Party” or collectively referred to as the “Parties”:

RESOLVED to strengthen the special bonds of friendship and co-operation between them and desirous, by way of the removal of obstacles to trade, to contribute to the harmonious development and expansion of world trade and provide a catalyst for broader international co-operation, in particular between Europe and South America;

CONSIDERING the important links existing between Peru and the EFTA States, in particular the Joint Declaration on Co-operation signed in Geneva on 24 April 2006, and wishing to strengthen these links through the creation of a free trade area, thus establishing close and lasting relations;

REAFFIRMING their commitment to democracy, the rule of law, human rights and fundamental freedoms in accordance with their obligations under international law, including the principles set out in the United Nations Charter and the Universal Declaration of Human Rights;

ACKNOWLEDGING the relationship between good corporate and public sector governance and sound economic development, and affirming their support to the principles of corporate governance in the United Nations Global Compact, as well as their intent to promote transparency and prevent and combat corruption;



BUILDING on their respective rights and obligations under the Marrakesh Agreement Establishing the World Trade Organization (hereinafter referred to as “the WTO Agreement”) and the other agreements negotiated thereunder and other multilateral and bilateral instruments of co- operation;

REAFFIRMING their commitment to economic and social development and the respect for the fundamental rights of workers, including the principles set out in the International Labour Organisation (ILO) Conventions to which the Parties are party;

AIMING to create new employment opportunities, improve health and living standards and ensure a large and steadily growing volume of real income in their respective territories through the expansion of trade and investment flows, thereby promoting broad-based economic development in order to reduce poverty and generating opportunities for sustainable economic alternatives to drug-crop production;

WILLING to preserve their ability to safeguard the public welfare;

INTENDING
to enhance the competitiveness of their firms in global markets;

DETERMINED to create an expanded and secure market for goods and services in their territories and to ensure a predictable legal framework and environment for trade, business and investment by establishing clear and mutually advantageous rules;


RECOGNISING that the gains from trade liberalisation should not be offset by anti- competitive practices;

RESOLVED to foster creativity and innovation by protecting intellectual property rights while maintaining a balance between the rights of the holders and the interests of the public in general, particularly in education, research, public health and access to information;

DETERMINED to implement this Agreement in a manner consistent with environmental protection and conservation, promote sustainable development, and strengthen their co-operation on environmental matters;

HAVE AGREED, in pursuit of the above, to conclude the following Free Trade Agreement (hereinafter referred to as “this Agreement”):

CHAPTER 1
GENERAL PROVISIONS

Article 1.1
Establishment of a Free Trade Area

    The Parties to this Agreement, consistent with Article XXIV of the General Agreement on Tariffs and Trade 1994 (hereinafter referred to as “the GATT 1994”) and Article V of the General Agreement on Trade in Services (hereinafter referred to as “the GATS”), hereby establish a free trade area by means of this Agreement and the complementary Agreements on Agriculture, concurrently concluded between Peru and each individual EFTA State.


Article 1.2
Objectives

    The objectives of this Agreement are:
(a)    to achieve the liberalisation of trade in goods, in conformity with Article XXIV of the GATT 1994;
(b)    to achieve the liberalisation of trade in services, in conformity with Article V of the GATS;
(c)    to substantially increase investment opportunities in the free trade area to contribute to the sustainable development of the Parties;
(d)    to achieve further liberalisation on a mutual basis of the government procurement markets of the Parties;
(e)    to promote competition in their economies, particularly as it relates to economic relations between the Parties;
(f)    to ensure adequate and effective protection of intellectual property rights;
(g)    to contribute, by the removal of barriers to trade and investment, to the harmonious development and expansion of world trade; and
(h)    to ensure co-operation related to trade capacity building, in order to expand and improve the benefits of this Agreement, and to reduce poverty and foster competitiveness and economic development.

Article 1.3
Svalbard

    This Agreement shall not apply to the territory of Svalbard, with the exception of trade in goods.

Article 1.4
Relation to Other International Agreements

    The provisions of this Agreement shall be applied without prejudice to the rights and obligations of the Parties under the WTO Agreement and the other agreements negotiated thereunder to which they are a party and any other international agreement to which they are a party.

Article 1.5
Trade and Economic Relations Covered by this Agreement

1.     The provisions of this Agreement apply to the trade and economic relations between on the one side Peru and on the other side each individual EFTA State, but not to trade relations between individual EFTA States, unless otherwise provided for in this Agreement.
2.     As a result of the customs union established by the Treaty of 29 March 1923 between Switzerland and the Principality of Liechtenstein, Switzerland shall represent the Principality of Liechtenstein in matters covered thereby.

Article 1.6
Central, Regional and Local Government

    Each Party shall ensure within its territory the observance of all obligations and commitments under this Agreement by its respective central, regional and local governments and authorities, and by non-governmental bodies in the exercise of governmental powers delegated to them by central, regional and local governments or authorities.

Article 1.7
Taxation

1.     This Agreement shall not restrict a Party's fiscal sovereignty to adopt taxation measures 1, except for the disciplines referred to hereafter:
(a)    Article 2.11 (National Treatment) and such other provisions of this Agreement as are necessary to give effect to that Article to the same extent as does Article III of the GATT 1994;

(b)    Article 5.3 (National Treatment), subject to Article 5.8 (Exceptions).
2.     Notwithstanding paragraph 1, this Agreement shall not affect the rights and obligations of a Party under any tax convention. In the event of any inconsistency between this Agreement and such convention, the latter shall prevail to the extent of the inconsistency.





Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      It is understood that taxation measures do not include: customs duties on imports or measures listed in subparagraphs (b) (ii) and (iii) of Article 2.2 (Definitions).

Article 1.8
Electronic Commerce

    The Parties recognise the growing role of electronic commerce for trade between them. With a view to supporting provisions of this Agreement related to trade in goods and services, the Parties undertake to intensify their co-operation on electronic commerce for their mutual benefit. For that purpose the Parties have established the framework contained in Annex I (Electronic Commerce).


Article 1.9
Definitions of General Application

    For the purposes of this Agreement, unless otherwise specified:
(a)    “days” means calendar days;
(b)    “goods” means any merchandise, product, article or material;
(c)    “juridical person” means any legal entity duly constituted or otherwise organised under applicable law, whether for profit or otherwise, and whether privately-owned or governmentally-owned, including any corporation, trust, partnership, joint venture, sole proprietorship or association;
(d)    “measure” means any law, regulation, procedure, requirement, provision or practice;
(e)    “national” means a natural person who has the nationality of a Party or is a permanent resident of a Party in accordance with its domestic law;
(f)    “person” means a natural person or a juridical person.

CHAPTER 2
TRADE IN GOODS

Article 2.1
Scope

    This Chapter applies to the following goods traded between the Parties:
(a)    goods classified under chapters 25 to 97 of the Harmonized Commodity Description and Coding System (hereinafter referred to as “the HS”), excluding the products listed in Annex II (Excluded Products);
(b)    processed agricultural products specified in Annex III (Processed Agricultural Products), with due regard to the arrangements provided for in Chapter 3 (Processed Agricultural Products); and
(c)    fish and other marine products as provided for in Annex IV (Fish and Other Marine Products).

Article 2.2
Definitions

    For the purposes of this Chapter, unless otherwise specified:
(a)    “customs authority” means the authority that according to the legislation of a Party is responsible for the administration of its customs legislation;
(b)    “customs duties on imports” means any duty or a charge of any kind imposed on, or in connection with, the importation of goods, including any form of surtax or surcharge, except:
    (i)    charges equivalent to an internal tax imposed consistently with paragraph 2 of Article III of the GATT 1994;
    (ii)    antidumping or countervailing duties that are applied pursuant to Article VI of the GATT 1994; or
    (iii)    fees or other charges in connection with importation commensurate with the cost of services rendered.
(c)    “customs legislation” means any legal or regulatory provision adopted by a Party, governing the import, export or transit of goods and their placing under any customs procedure, including measures of prohibition, restriction and control.

Article 2.3
Rules of Origin and Mutual Assistance in Customs Matters

1.     The provisions on rules of origin and administrative co-operation are set out in Annex V (Rules of Origin and Administrative Co-operation).
2.     The provisions on mutual assistance in customs matters are set out in Annex VI (Mutual Administrative Assistance in Customs Matters).

Article 2.4
Trade Facilitation

    With the aim to facilitate trade between Peru and the EFTA States, the Parties shall:
(a)    simplify, to the greatest extent possible, procedures for trade in goods and related services;
(b)    promote multilateral co-operation among them in order to enhance their participation in the development and implementation of international conventions and recommendations on trade facilitation; and
(c)    co-operate on trade facilitation within the framework of the Joint Committee,
in accordance with the provisions set out in Annex VII (Customs Procedures and Trade Facilitation).

Article 2.5
Establishment of a Sub-Committee on Trade in Goods, Rules of Origin and Customs Matters

1.     The Sub-Committee of the Joint Committee on Trade in Goods, Rules of Origin and Customs Matters is hereby established.
2.     Unless otherwise provided for in this Agreement, the functions of the Sub-Committee shall be to exchange information, review developments, endeavour to resolve any technical differences that may arise among the Parties, prepare technical amendments to Annexes II (Excluded Products), III (Processed Agricultural Products), IV (Fish and Other Marine Products), V (Rules of Origin and Administrative Co-operation), VI (Mutual Administrative Assistance in Customs Matters), VII (Customs Procedures and Trade Facilitation) and VIII (Industrial Goods), and to assist the Joint Committee.

3.     The Sub-Committee shall be chaired alternately by a representative of Peru or an EFTA State for an agreed period of time. The chairperson shall be elected at the first meeting of the Sub-Committee. The Sub-Committee shall act by consensus.
4.     The Sub-Committee shall report to the Joint Committee. The Sub-Committee may make recommendations to the Joint Committee on matters related to its functions.
5.     The Sub-Committee shall meet as often as required. It may be convened by the Joint Committee, by the chairperson of the Sub- Committee on his or her own initiative, or upon request of a Party. The venue shall alternate between Peru and an EFTA State.
6.     A provisional agenda for each meeting shall be prepared by the chairperson in consultation with the Parties, and forwarded to them, as a general rule, no later than two weeks before the meeting.

Article 2.6
Dismantling of Import Duties

1.     Upon entry into force of this Agreement, Peru shall dismantle its customs duties on imports of goods originating in an EFTA State, as provided for in Annexes III (Processed Agricultural Products), IV (Fish and Other Marine Products) and VIII (Industrial Goods).
2.     Upon entry into force of this Agreement, the EFTA States shall eliminate all customs duties on imports of goods covered by Article 2.1 (Scope) originating in Peru, unless otherwise provided for in Annexes III (Processed Agricultural Products) and IV (Fish and Other Marine Products).
3.     At the request of a Party, consultations shall be held to consider accelerating the elimination of the customs duties on imports set out in the respective Annexes. An agreement between the Parties to accelerate the elimination of a customs duty on imports shall supersede any duty rate or dismantling category set out in Annexes III (Processed Agricultural Products), IV (Fish and other Marine Products) and VIII (Industrial Goods), if approved by the Parties in accordance with their internal legal requirements.
4.     No new customs duties on imports or other charges in relation to the importation of originating goods to a Party shall be introduced nor shall those already applied be increased, except as provided for in this Agreement.
5.     The Parties recognise that they may:
(a)    following a unilateral tariff reduction, raise a customs duty to the level established in the tariff dismantling schedules of each Party, for the respective year; or
(b)    increase a customs duty pursuant to Article 12.17 (Non-Implementation and Suspension of Benefits).

Article 2.7
Base Rate

1.     The base rate of customs duty for goods, to which the successive reductions set out in Annexes III (Processed Agricultural Products), IV (Fish and other Marine Products) and VIII (Industrial Goods) are to be applied, shall be the most-favoured nation rate of duty applied on 1 April 2007.
2.     If at any moment after the date of entry into force of this Agreement a Party reduces its applied most favoured nation (hereinafter referred to as “MFN”) customs duty on imports that customs duty shall apply only if it is lower than the customs duty calculated in accordance with the relevant Annexes.

Article 2.8
Duties, Taxes or Other Charges on Exports

    No Party may adopt or maintain any duty, tax or other charge on exports of goods to another Party, unless the duty, tax or charge is also adopted for or maintained on these goods when they are destined for domestic consumption.


Article 2.9
Import and Export Restrictions

1.     Prohibitions or restrictions other than duties, taxes or other charges, whether made effective through quotas, import or export licenses or other measures, shall be eliminated in trade between the Parties in accordance with Article XI of the GATT 1994, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement.
2.     The Parties understand that paragraph 1 prohibits a Party from adopting or maintaining:

(a)    export and import price requirements, except as permitted in enforcement of countervailing and antidumping duties and undertakings; or

(b)    import licensing conditioned on the fulfilment of a performance requirement.
3.     No Party shall adopt or maintain a measure that is inconsistent with the WTO Agreement on Import Licensing Procedures. Any new import licensing procedure and any modification to its existing import licensing procedures or list of products shall be published, whenever practicable, 21 days prior to the date when the requirement becomes effective but in any event no later than that date.


4.     Paragraphs 1 and 2 shall not apply to the measures set out in Annex IX (Used Goods).

Article 2.10
Administrative Fees and Formalities

1.     Each Party shall ensure that all fees and charges of whatever character other than import and export duties and other than taxes referred to in Article III of the GATT 1994, are applied in accordance with paragraph 1 of Article VIII of the GATT 1994 and its interpretative notes.
2.     No Party shall require consular transactions, including related fees and charges, in connection with the importation of goods of another Party. For the purposes of this Agreement, “consular transaction” means any act by consular authorities of the importing Party in the exporting Party for the purpose of obtaining consular invoices or consular visas for commercial invoices, certificates of origin, manifests, shippers' export declarations, or any other customs documentation required on or in connection with imports.

3.     Each Party shall make available and maintain through the Internet updated information about the fees and charges it imposes in connection with importation or exportation.

Article 2.11
National Treatment

    Except as provided for in Annex IX (Used Goods), the Parties shall apply national treatment in accordance with Article III of the GATT 1994, including its interpretative notes, which are hereby incorporated and made part of this Agreement, mutatis mutandis.

Article 2.12
State Trading Enterprises

    The rights and obligations of the Parties in respect of state trading enterprises shall be governed by Article XVII of the GATT 1994 and the Understanding on the Interpretation of Article XVII of the GATT 1994, which are hereby incorporated into and made part of this Agreement, mutatis mutandis.


Article 2.13
Sanitary and Phytosanitary Measures

1.     The Parties confirm their rights and obligations under the WTO Agreement on the Application of Sanitary and Phytosanitary Measures (hereinafter referred to as the “SPS Agreement”) and by the decisions on the application of the SPS Agreement adopted by the WTO Committee on Sanitary and Phytosanitary Measures. For the purposes of this Chapter and for any communication on sanitary or phytosanitary related matters between the Parties, the definitions in Annex A of the SPS Agreement, as well as the glossary of harmonised terms of the relevant international organisations, shall apply.



2.     The Parties shall work together in the effective implementation of the SPS Agreement and of the provisions set forth in this Article for the purpose of facilitating bilateral trade, without prejudice to the right to adopt measures necessary to protect human, animal or plant health and to achieve the appropriate level of sanitary or phytosanitary protection.


3.     The Parties shall not use their sanitary or phytosanitary measures related to control, inspection, approval or certification to restrict market access without scientific justification, without prejudice to paragraph 7 of Article 5 of the SPS Agreement.

4.     The Parties shall strengthen their co-operation in the field of sanitary and phytosanitary measures, with a view to increasing the mutual understanding of their respective systems and to improving their sanitary and phytosanitary systems.
5.     Peru and any of the EFTA States shall, whenever necessary, for facilitating access to their respective markets, develop bilateral agreements including those between their respective regulatory authorities.
6.     The Parties agree to designate and notify to each other, upon entry into force of this Agreement, contact points for notification and information exchange on issues related to sanitary and phytosanitary matters.
7.     The Parties hereby establish a forum for SPS experts. The forum shall meet when requested by one of the Parties. In order to permit the efficient use of resources, the Parties shall, to the extent possible, endeavour to use technological means of communication, such as electronic communication, video or phone conference, or arrange for meetings to take place in conjunction with Joint Committee meetings or with meetings of the WTO Committee on Sanitary and Phytosanitary Measures. The forum shall inter alia:

(a)    overview and ensure the implementation of this Article;
(b)    consider measures that are likely to affect, or have affected, access to markets of another Party with the aim of finding appropriate and timely solutions in conformity with the SPS Agreement;

(c)    assess progress on market access interests of the Parties;
(d)    discuss further developments of the SPS Agreement;
(e)    consider the Parties' obligations related to sanitary and phytosanitary matters in other international Agreements; and
(f)    establish technical expert groups, as needed.


Article 2.14
Technical Regulations

1.     The rights and obligations of the Parties in respect of technical regulations, standards and conformity assessment shall be governed by the WTO Agreement on Technical Barriers to Trade (hereinafter referred to as “the TBT Agreement”) which is hereby incorporated into and made part of this Agreement, mutatis mutandis.

2.     The Parties shall strengthen their co-operation in the field of technical regulations, standards and conformity assessment, with a view to increasing the mutual understanding of their respective systems and facilitating access to their respective markets. To this end, they shall in particular co- operate in:
(a)    reinforcing the role of international standards as a basis for technical regulations, including conformity assessment procedures;
(b)    promoting the accreditation of conformity assessment bodies on the basis of relevant Standards and Guides of the International Standards Organisation (ISO) and the International Electrotechnical Commission (IEC);
(c)    promoting mutual acceptance of conformity assessment results of conformity assessment bodies, which have been recognised under appropriate multilateral agreements between their respective accreditation systems or bodies; and
(d)    reinforcing the transparency in the development of technical regulations and conformity assessment procedures of the Parties, among others, to ensure that all adopted technical regulations are published on official websites with free and public access. Where a Party detains at a port of entry, goods originating in another Party due to a perceived failure to comply with a technical regulation, it shall immediately notify the importer of the reasons for the detention.

3.     The Parties shall exchange names and addresses of designated contact points for technical barriers to trade related matters in order to facilitate technical consultations and the exchange of information on all matters that may arise from the application of specific technical regulations, standards and conformity assessment procedures.
4.     If a Party requests any information or explanation pursuant to the provisions of this Article, the requested Party shall provide such information or explanation in print or electronically within a reasonable time. The requested Party shall endeavour to respond to such request within 60 days.

5.     If a Party considers that another Party has taken measures, not in conformity with the TBT Agreement, which are likely to affect or have affected access to its market that Party may request, through the designated contact point established according to paragraph 3, technical consultations with a view to finding an appropriate solution in conformity with the TBT Agreement. Such consultations, which can take place both within and outside the framework of the Joint Committee, shall be held within 40 days following the date of the receipt of the request. Consultations may also be held by phone-conference or video-conference. Consultations within the Joint Committee shall constitute consultations pursuant to Article 12.5 (Consultations).

Article 2.15
Subsidies and Countervailing Measures

1.     The rights and obligations relating to subsidies and countervailing measures shall be governed by Articles VI and XVI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures, subject to paragraph 2.
2.     Before a Party initiates an investigation to determine the existence, degree and effect of any alleged subsidy in Peru or an EFTA State, as provided for in Article 11 of the WTO Agreement on Subsidies and Countervailing Measures, the Party considering initiating an investigation shall notify in writing to the Party whose goods may be subject to investigation and allow a 30 days period for consultations with a view to finding a mutually acceptable solution. The consultations shall take place within 15 days following the date of the receipt of the notification, among the competent authorities of the Parties, if any Party so requests.

3.     Chapter 12 (Dispute Settlement) shall not apply to this Article, except to paragraph 2.


Article 2.16
Anti-Dumping

1.     The rights and obligations relating to anti- dumping measures shall be governed by Article VI of the GATT 1994 and the WTO Agreement on the implementation of Article VI of the GATT 1994 (hereinafter referred to as “the WTO Anti-dumping Agreement”), subject to paragraph 2.

2.     When a Party receives a properly documented application and before initiating an investigation under the WTO Anti-Dumping Agreement, the Party shall notify in writing to the other Party whose product is allegedly being dumped and allow a 20 days period for consultations with a view to finding a mutually acceptable solution. If a solution cannot be reached, each Party retains its rights and obligations under Article VI of the GATT 1994 and the WTO Anti-Dumping Agreement.

3.     The Joint Committee shall review this Article in order to determine whether its content is still necessary to achieve the policy objectives of the Parties.
4.     Chapter 12 (Dispute Settlement) shall not apply to this Article, except to paragraph 2.


Article 2.17
Global Safeguard Measures

1.     The Parties confirm their rights and obligations under Article XIX of the GATT 1994 and the WTO Agreement on Safeguards (hereinafter referred to as “the Safeguards Agreement”).

2.     In taking measures under the WTO provisions referred to in paragraph 1, a Party shall exclude imports of an originating product from one or several Parties if such imports do not in and of themselves cause or threaten to cause serious injury. The Party taking the measure shall make such exclusion in accordance with WTO jurisprudence.


3.     No Party may apply, with respect to the same product, at the same time:

(a)    a bilateral safeguard measure; and
(b)    a measure under Article XIX of the GATT 1994 and the Safeguards Agreement.

Article 2.18
Bilateral Safeguard Measures

1.     During the transition period, where, as a result of the reduction or elimination of a customs duty under this Agreement, a product originating in a Party is being imported into another Party in such increased quantities, in absolute terms or relative to domestic production, and under such conditions as to constitute a substantial cause of serious injury or threat thereof to the domestic industry of like or directly competitive products in the importing Party, the importing Party may take safeguard measures to the minimum extent necessary to remedy or prevent the injury, subject to the provisions of this Article.

2.     For the purposes of this Article:

(a)    “transition period” means ten years from the date of entry into force of this Agreement. For goods for which Annex VIII (Industrial Goods) provides for tariff elimination of more than ten years, “transition period” means the tariff elimination period for the goods set out in that Annex; and
(b)    “substantial cause” means a cause which is more important than any other cause.
3.     Safeguard measures shall only be taken upon clear evidence that increased imports have caused or are threatening to cause serious injury pursuant to an investigation in accordance with the procedures and definitions laid down in Articles 3 and 4 of the Safeguards Agreement.
4.     The Party intending to take or extend a safeguard measure under this Article shall, immediately and in any case no later than 30 days before taking a measure, make notification to the other Parties. The notification shall contain all pertinent information, which shall include evidence of serious injury or threat thereof caused by increased imports, a precise description of the product involved, and the proposed measure, as well as the date of completion of the investigation procedure referred to in paragraph 3, expected duration and timetable for the progressive removal of the measure.
5.     A Party applying a bilateral safeguard measure shall, after consultations with the other Party, provide mutually agreed trade liberalisation compensation in the form of concessions having substantially equivalent trade effects or equivalent to the value of the additional duties expected to result from the measure. The Party applying the measure shall provide an opportunity for such consultations no later than 15 days following the date of the application of the bilateral safeguard measure.
6.     If the conditions in paragraphs 1 and 3 are met, the importing Party may to the extent necessary to prevent or remedy serious injury or threat thereof:

(a)    suspend the further reduction of any rate of duty provided for under this Agreement for the product; or
(b)    increase the rate of customs duty for the product to a level not to exceed the lesser of:
    (i)    the MFN applied rate of duty in effect at the time the measure is imposed; or

    (ii)    the MFN applied rate of duty in effect on the day immediately preceding the date of the entry into force of this Agreement.
7.     No Party may maintain a bilateral safeguard measure:
(a)    except to the extent, and for such period of time, as may be necessary to prevent or remedy serious injury and to facilitate adjustment;
(b)    for a period exceeding two years. The period may be extended by up to one year if the competent authority determines, in conformity with the procedures set out in paragraphs 3 and 4, that the measure continues to be necessary to prevent or remedy serious injury and to facilitate adjustment and that there is evidence that the domestic industry is adjusting; or
(c)    beyond the expiration of the transition period.
8.     No bilateral safeguard measure shall be applied to the import of a product, which has previously been subject to such a measure.
9.     Within 30 days following the date of notification specified in paragraph 4, the Party conducting a safeguard proceeding under this Chapter, shall enter into consultations with a Party whose product is subject to that proceeding, in order to facilitate a mutually acceptable solution of the matter and shall notify to the Parties the results of the consultations. In the absence of such solution, the importing Party may adopt a measure pursuant to paragraph 6.

10.     In the absence of mutually agreed compensation referred to in paragraph 5, the Party against whose product the measure is taken may take compensatory action. The safeguard measure and the compensatory action shall be immediately notified to the other Parties. In the selection of the safeguard measure and the compensatory action, priority must be given to the action which least disturbs the functioning of this Agreement. The compensatory action shall normally consist of suspension of concessions having substantially equivalent trade effects or concessions substantially equivalent to the value of the additional duties expected to result from the safeguard measure. The Party taking compensatory action shall apply the action only for the minimum period necessary to achieve the substantially equivalent trade effects and in any event only while the measure under paragraph 6 is being applied.
11.     In order to facilitate adjustment in a situation where the expected duration of a safeguard measure is one year or more, the Party applying the measure shall progressively liberalise it at regular intervals during the period of application.
12.     Upon the termination of the measure, the rate of customs duty shall be the rate which would have been in effect but for the measure.
13.     In critical circumstances, where delay would cause damage which would be difficult to repair, a Party may take a provisional safeguard measure pursuant to a preliminary determination that there is clear evidence that increased imports constitute a substantial cause of serious injury, or threat thereof, to the domestic industry. The Party intending to take such a measure shall immediately notify all the Parties. During the time of the application of the provisional safeguard measure, the pertinent requirements and procedures set out in paragraphs 3 to 10 shall be met.
14.     Any provisional safeguard measures shall be terminated within 180 days at the latest. The following modalities shall apply:
(a)    the period of application of any such provisional measure shall be counted as part of the duration of the measure set out in paragraph 7 and any extension thereof;
(b)    a provisional safeguard measure may only be imposed as a tariff increase pursuant to paragraph 6. Any additional duty actually paid shall be promptly refunded, and any guarantee shall be liberated, if the investigation described in paragraph 3 does not result in a finding that the conditions of paragraph 1 are met; and
(c)    any mutually agreed compensation, or compensatory action, shall be based on the total period of application of the provisional safeguard measure and of the safeguard measure.


Article 2.19
General Exceptions

    For the purposes of this Chapter, the rights and obligations of the Parties in respect of General Exceptions shall be governed by Article XX of the GATT 1994, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement, mutatis mutandis.


Article 2.20
Security Exceptions

    For the purposes of this Chapter, the rights and obligations of the Parties in respect of Security Exceptions shall be governed by Article XXI of the GATT 1994, which is hereby incorporated into and made part of this Agreement, mutatis mutandis.

CHAPTER 3
processed agricultural products

Article 3.1
Scope

1.     Processed agricultural products shall be governed by Chapter 2 (Trade in Goods), unless otherwise provided for in this Chapter.
2.     The Parties reaffirm their rights and obligations under the WTO Agreement on Agriculture.


Article 3.2
Price Compensation Measures

1.     In order to take account of differences in the cost of the agricultural raw materials incorporated into the products referred to in Article 3.3 (Tariff Concessions), this Agreement does not preclude the levying, upon import, of a duty.
2.     The duty levied upon import shall be based on, but not exceed, the difference between the domestic price and the world market price of the agricultural raw materials incorporated into the products concerned.

Article 3.3
Tariff Concessions

1.     Taking into account the provisions laid down in Article 3.2 (Price Compensation Measures) the EFTA States shall accord for products listed in Appendix 1 to Annex III (Processed Agricultural Products), originating in Peru, treatment no less favourable than that accorded to the European Union.
2.     Based on any reduction of customs duties on imports according to paragraph 1 granted by the EFTA States to Peru, Peru shall reciprocally reduce its customs duties on imports. The reduction shall be proportional to the lowest reduction granted by an EFTA State to Peru.
3.     For products listed in Appendix 2 to Annex III (Processed Agricultural Products), and originating in an EFTA State, Peru shall reduce its customs duties on imports as specified therein.

Article 3.4
Agricultural Export Subsidies

1.     Notwithstanding paragraph 2 of Article 3.1, the Parties shall not adopt, maintain, introduce or re- introduce export subsidies, as defined in the WTO Agreement on Agriculture, in their trade in products subject to tariff concessions in accordance with this Agreement.
2.     Should a Party adopt, maintain, introduce or re- introduce export subsidies on a product subject to a tariff concession in accordance with Article 3.3 (Tariff Concessions), the other Party may increase the rate of duty on such imports up to the applied MFN customs duty on imports in effect at that date. If a Party increases the rate of duty, it shall notify the other Party within 30 days following the date the duty was increased.

Article 3.5
Price Band System

    Peru may maintain its Price Band System for agricultural products as set out in Appendix 3 to Annex III (Processed Agricultural Products).


Article 3.6
Notification

1.     The EFTA States shall notify Peru, of all measures applied under Article 3.2 (Price Compensation Measures), at an early stage, at the latest 30 days after the entry into force of this Agreement.
2.     The EFTA States shall inform Peru of all changes in the treatment accorded to the European Union.

Article 3.7
Consultations

    Peru and the EFTA States shall periodically review the development of their trade in processed agricultural products covered by this Chapter. In light of these reviews and taking into account the arrangements between the Parties and the European Union or in the WTO, the Parties shall decide on possible changes to this Chapter.


CHAPTER 4
TRADE IN SERVICES

Article 4.1
Trade in Services

1.     The Parties reaffirm the rights and obligations between them as provided for in the GATS.

2.     The Parties recognise the increasing importance of trade in services in their economies. In their efforts to gradually develop and broaden their co- operation, they shall work together with the aim of creating the most favourable conditions for achieving further liberalisation and additional mutual opening of markets for trade in services.

3.     The Parties may jointly review any issues related to measures affecting trade in services in the Joint Committee.
4.     The Parties shall negotiate a Chapter on Trade in Services, including international maritime transport services, on a mutually advantageous basis, securing an overall balance of rights and obligations, and having due regard to Article V of the GATS. Such negotiation shall take place no later than one year after the entry into force of this Agreement.


Article 4.2
Recognition

1.     For the purposes of the fulfilment, in whole or in part, of its standards or criteria for the authorisation, licensing or certification of service suppliers 1, and subject to the requirements of paragraph 3, each Party shall give due consideration to any requests by



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      For the purpose of this Article and Annex X (Recognition of Qualifications of Service Suppliers), “service supplier” means any person that supplies, or seeks to supply, a service.

another Party to recognise the education or experience obtained, requirements met, or licences or certifications granted in that other Party. Such recognition may be based upon an agreement or arrangement with that other Party, or otherwise be accorded autonomously.

2.     Where a Party recognises, by agreement or arrangement, the education or experience obtained, requirements met, or licences or certifications granted, in the territory of a non-party, that Party shall afford another Party adequate opportunity to negotiate its accession to such an agreement or arrangement, whether existing or future, or to negotiate a comparable agreement or arrangement with it. Where a Party accords recognition autonomously, it shall afford adequate opportunity for another Party to demonstrate that the education or experience obtained, requirements met, or licences or certifications granted, in the territory of that other Party should also be recognised.


3.     A Party shall not accord recognition in a manner which would constitute a means of discrimination between countries in the application of its standards or criteria for the authorisation, licensing, or certification of service suppliers, or a disguised restriction on trade in services.
4.     Annex X (Recognition of Qualifications of Service Suppliers) sets out further rights and obligations regarding recognition of qualifications of service suppliers of the Parties.

CHAPTER 5
INVESTMENT

Article 5.1
Coverage

    This Chapter shall apply to commercial presence in all sectors, with the exception of all services sectors.

Article 5.2
Definitions

1.     For the purposes of this Chapter:

(a)    “juridical person of a Party” means a juridical person constituted or otherwise organised under the law of Peru or an EFTA State and engaged in substantive business operations in Peru or in the EFTA State concerned;
(b)    “natural person” means a national of Peru or an EFTA State according to its respective legislation;
(c)    “commercial presence” means any type of business establishment, including through:
    (i)    the constitution, acquisition or maintenance of a juridical person, or
    (ii)    the creation or maintenance of a branch or a representative office,
    within the territory of another Party for the purpose of performing an economic activity.
2.     As regards natural persons, this Chapter shall not extend to seeking or taking employment in the labour market or confer a right of access to the labour market of another Party.

Article 5.3
National Treatment

    With respect to commercial presence, and subject to the reservations set out in Annex XI (Reservations), each Party shall grant to juridical and natural persons of another Party, and to the commercial presence of such persons, treatment no less favourable than that it accords, in like situations to its own juridical and natural persons.

Article 5.4
Reservations

1.     National treatment as provided for under Article 5.3 (National Treatment) shall not apply to:
(a)    any reservation that is listed by a Party in Annex XI (Reservations);
(b)    an amendment to a reservation covered by subparagraph 1 (a) to the extent that the amendment does not increase the non- conformity of the reservation with Article 5.3 (National Treatment); and
(c)    any new reservation adopted by a Party in accordance with paragraph 4, and incorporated into Annex XI (Reservations), provided that such reservation does not affect the overall level of commitments of that Party under this Agreement;
to the extent that such reservation is inconsistent with that Article.
2.     As part of the review provided for in Article 5.9 (Review), the Parties undertake to review at least every three years the status of the reservations set out in Annex XI (Reservations) with a view to reducing or removing such reservations.

3.     A Party may, at any time, either upon the request of another Party or unilaterally, remove in whole or in part reservations set out in Annex XI (Reservations) by written notification to the other Parties.

4.     In case of the adoption of a new reservation, as referred to in subparagraph 1 (c), the Party concerned shall promptly notify the other Parties of the reservation. On receiving such notification, any other Party may request consultations regarding the reservation and related issues. Such consultations shall be entered into without delay.

Article 5.5
Key Personnel

1.     Each Party shall, subject to its laws and regulations, grant natural persons of another Party, and key personnel employed by natural or juridical persons of another Party, temporary entry and stay in its territory in order to engage in activities connected with commercial presence, including the provision of advice or technical services.

2.     Each Party shall, subject to its laws and regulations, permit natural or juridical persons of another Party, and their commercial presence, to employ, in connection with the commercial presence, any key personnel provided that such personnel has been permitted to enter, stay and work in its territory and that the employment concerned conforms to the terms, conditions and time limits of the permission granted to such key personnel.

3.     The Parties shall, subject to their laws and regulations, grant temporary entry and stay and provide any necessary confirming documentation to the spouse and minor children of key personnel who has been granted temporary entry, stay and authorisation to work in accordance with paragraphs 1 and 2. The spouse and minor children shall be admitted for the period of the stay of that person.


Article 5.6
Right to Regulate

    Subject to the provisions of this Chapter and Annex XI (Reservations), a Party is not prevented from regulating the commercial presence as set out in subparagraph 1 (c) of Article 5.2 (Definitions).

Article 5.7
Relation to Other International Agreements

    The provisions of this Chapter shall be applied without prejudice to the rights and obligations of the Parties under other international investment agreements, to which Peru and an EFTA State are parties. It is understood that any dispute settlement mechanism in investment protection agreements, to which Peru and an EFTA State are parties, is not applicable to alleged breaches of this Chapter.

Article 5.8
Exception

    The exception in subparagraph (d) of Article XIV of the GATS is hereby incorporated into and made part of this Chapter, mutatis mutandis.

Article 5.9
Review

1.     This Chapter shall be subject to periodic reviews in the framework of the Joint Committee regarding the possibility to further develop the Parties' commitments.
2.     In view of paragraph 4 of Article 4.1 (Trade in Services), the Parties shall aim at consistency, as far as appropriate, with the results of future negotiations on Chapter 4 (Trade in Services), in particular regarding commitments on payments and transfers.


CHAPTER 6
PROTECTION OF INTELLECTUAL PROPERTY

Article 6.1
General Provisions

1.     The Parties shall grant and ensure adequate, effective and non-discriminatory protection of intellectual property rights, and provide for measures for the enforcement of such rights against infringement thereof, counterfeiting and piracy, in accordance with the provisions of this Chapter and the international agreements referred to therein.
2.     Each Party shall give effect to the provisions of this Chapter and may, but shall not be obliged to, implement in the national legislation more extensive protection than is required by this Chapter, provided that such protection does not contravene the provisions of this Chapter.
3.     The Parties shall accord to the nationals of the other Parties treatment no less favourable than that they accord to their own nationals with regard to the protection 1 of intellectual property, subject to the exceptions provided in Articles 3 and 5 of the WTO Agreement on Trade-Related Aspects of Intellectual Property Rights (hereinafter referred to as “the TRIPS Agreement”).
4.     With regard to the protection 1 of intellectual property, any advantage, favour, privilege or immunity granted by a Party to the nationals of any other


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      For the purposes of paragraphs 3 and 4, “protection” shall include matters affecting the availability, acquisition, scope, maintenance and enforcement of intellectual property rights as well as those matters affecting the use of intellectual property rights specifically addressed in this Chapter.

country shall be accorded immediately and unconditionally to the nationals of the other Parties, subject to the exceptions provided in Articles 4 and 5 of the TRIPS Agreement.
5.     In accordance with paragraph 2 of Article 8 of the TRIPS Agreement, Parties may take appropriate measures, provided that they are consistent with the provisions of this Agreement, if needed to prevent the abuse of intellectual property rights by right holders or the resort to practices which unreasonably restrain trade or adversely affect the international transfer of technology.

Article 6.2
Basic Principles

1.     In accordance with Article 7 of the TRIPS Agreement, the Parties recognise that the protection and enforcement of intellectual property rights should contribute to the promotion of technological innovation and to the transfer and dissemination of technology, to the mutual advantage of producers and users of technological knowledge and in a manner conducive to social and economic welfare, and to a balance of rights and obligations.
2.     The Parties recognise that technology transfer contributes to strengthen national capabilities with the aim to establish a sound and viable technological base.
3.     The Parties recognise the impact of information and communication technologies on the creation and usage of literary and artistic works.
4.     In accordance with paragraph 1 of Article 8 of the TRIPS Agreement, the Parties may, in formulating or amending their laws and regulations, adopt measures necessary to protect public health and nutrition, and to promote the public interest in sectors of vital importance to their socio-economic and technological development, provided that such measures are consistent with the provisions of this Chapter.
5.     The Parties recognise the principles established in the Declaration on the TRIPS Agreement and Public Health, adopted on 14 November 2001 by the WTO at its Fourth Ministerial Meeting, held in Doha, Qatar, and the Decision of WTO's General Council on the Implementation of Paragraph 6 of the Doha Declaration, adopted on 30 August 2003 and the Amendment of the TRIPS Agreement adopted by the General Council of the WTO on 6 December 2005.


Article 6.3
Definition of Intellectual Property

    For the purposes of this Agreement, “intellectual property” refers to all categories of intellectual property that are the subject of Articles 6.6 (Trademarks) to 6.11 (Undisclosed Information and Measures Related to Certain Regulated Products).

Article 6.4
International Conventions

1.     Without prejudice of the rights and obligations contained in this Chapter, the Parties reaffirm their existing rights and obligations, including the right to apply the exceptions and to make use of the flexibilities, under the TRIPS Agreement and under any other multilateral agreement related to intellectual property and agreements administered under the auspices of the World Intellectual Property Organization (hereinafter referred to as “the WIPO”) to which they are parties, in particular the following:
(a)    Paris Convention of 20 March 1883 for the Protection of Industrial Property (Stockholm Act, 1967, hereinafter referred to as the “Paris Convention”);
(b)    Berne Convention of 9 September 1886 for the Protection of Literary and Artistic Works (Paris Act, 1971); and
(c)    International Convention of 26 October 1961 for the Protection of Performers, Producers of Phonograms and Broadcasting Organizations (Rome Convention).
2.     The Parties to this Agreement which are not a party to one or more of the agreements listed below shall ratify or accede to the following multilateral agreements upon entry into force of this Agreement:

(a)    Budapest Treaty of 28 April 1977 on the International Recognition of the Deposit of Microorganisms for the Purposes of Patent Procedure;
(b)    International Convention for the Protection of New Varieties of Plants 1978 (1978 UPOV Convention), or the International Convention for the Protection of New Varieties of Plants 1991 (1991 UPOV Convention); and
(c)    Patent Cooperation Treaty of 19 June 1970 (Washington Act, amended in 1979 and modified in 1984).
3.     The Parties to this Agreement which are not a party to one or more of the agreements listed below shall ratify or accede to the following multilateral agreements within one year from the date of entry into force of this Agreement:
(a)    WIPO Performances and Phonograms Treaty of 20 December 1996 (WPPT); and

(b)    WIPO Copyright Treaty of 20 December 1996 (WCT).

4.     The Parties will carry out as soon as possible the necessary actions to submit to the Parties' competent national authorities the adherence to the Geneva Act (1999) of the Hague Agreement concerning the International Registration of Industrial Designs, and to Protocol of 27 June 1989 Relating to the Madrid Agreement concerning the International Registration of Marks for their consideration.
5.     The Parties to this Agreement may agree, upon mutual consent, to have an exchange of views of experts on activities relating to existing or future international conventions on intellectual property rights and on any other matter related to intellectual property rights as the Parties may agree upon.

Article 6.5
Measures Related to Biodiversity

1.     The Parties reaffirm their sovereign rights over their natural resources and recognise their rights and obligations under the Convention on Biological Diversity with respect to access to genetic resources and to the fair and equitable sharing of benefits arising out of the utilisation of these genetic resources.
2.     The Parties recognise the importance and the value of their biological diversity and of the associated traditional knowledge, innovations and practices of indigenous and local communities. Each Party shall determine the access conditions to its genetic resources in accordance with the principles and provisions contained in applicable national and international law.
3.     The Parties recognise past, present and future contributions of indigenous and local communities and their knowledge, innovations and practices to the conservation and sustainable use of biological and genetic resources and in general the contribution of the traditional knowledge of their indigenous and local communities to the culture and economic and social development of nations.

4.     The Parties shall consider collaborating in cases regarding non compliance with the applicable legal provisions on access to genetic resources and traditional knowledge, innovations and practices.

5.     According to their national law, the Parties shall require that patent applications contain a declaration of the origin or source of a genetic resource, to which the inventor or the patent applicant has had access. As far as provided in their national legislation, the Parties will also require the fulfilment of prior informed consent and they will apply the provisions set out in this Article to traditional knowledge as applicable.

6.     The Parties, in accordance with their national laws, shall provide for administrative, civil or criminal sanctions if the inventor or the patent applicant wilfully make a wrongful or misleading declaration of the origin or source. The judge may order the publication of the ruling.

7.     If the law of the Party so provides:
(a)    access to genetic resources shall be subject to the prior informed consent of the Party providing the genetic resources; and
(b)    access to traditional knowledge of indigenous and local communities associated to these resources shall be subject to the approval and involvement of these communities.
8.     Each Party shall take policy, legal and administrative measures, with the aim of facilitating the fulfilment of terms and conditions for access established by the Parties for such genetic resources.

9.     The Parties affirm and recognise their existing rights and obligations with respect to each other under the International Treaty of Plant Genetic Resources for Food and Agriculture of the Food and Agriculture Organization.
10.     The Parties shall take legislative, administrative or policy measures, as appropriate, with the aim of ensuring the fair and equitable sharing of the benefits arising from the use of genetic resources or associated traditional knowledge. Such sharing shall be based on mutually agreed terms.


Article 6.6
Trademarks

1.     The Parties shall grant adequate and effective protection to trademark right holders of goods or services. Any sign, or any combination of signs, capable of distinguishing the goods or services of one undertaking from those of other undertakings, shall be capable of constituting a trademark. Such signs, in particular words including combinations of words, personal names, letters, numerals, figurative elements, sounds and combinations of colours as well as any combination of such signs, shall be eligible for registration as trademarks. Where signs are not inherently capable of distinguishing the relevant goods or services, the Parties may make registrability depend on distinctiveness acquired through use. Parties may require, as a condition of registration, that signs be visually perceptible.
2.     Parties shall use the International Classification of Goods and Services for the Purposes of the Registration of trademarks (hereinafter referred to as “International Classification”) established by the Nice Agreement of 15 June 1957 and its effective amendments to classify the goods and services to which the trademarks shall be applied.
3.     The classes of goods and services of the International Classification shall not be used to determine whether the goods or services listed for a specific trademark are similar or different to those of another trademark.
4.     The Parties recognise the importance of the Joint Recommendation Concerning Provisions on the Protection of Well-Known Marks (1999), and the Joint Recommendation Concerning Provisions on the Protection of Marks, and other Industrial Property Rights in Signs, on the Internet (2001), adopted by the Assembly of the Paris Union for the Protection of Industrial Property and the General Assembly of WIPO, and shall be guided by the principles contained in these Recommendations.

Article 6.7
Geographical Indications, including Appellations of Origin, and Indications of Source

1.     The Parties to this Agreement shall ensure in their national laws adequate and effective means to protect geographical indications, including appellations of origin 2, and indications of source.
2.     For the purposes of this Chapter:

(a)    “geographical indications” means indications which identify goods as originating in the territory of a Party, or in a region or locality of that territory, where a given quality, reputation or other characteristic of those goods is essentially attributable to their geographical origin; and

(b)    “indications of source” means names, expressions, images, flags or signs that constitute direct or indirect references to a particular country, region, locality or place as the geographical origin of goods or services. Nothing in this Agreement shall require a Party to this Agreement to amend its legislation if, at the date of entry into


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


2      For greater certainty, if any Party foresees the protection of appellations of origin in its national legislation, nothing in this Agreement shall require to amend this.

    force of this Agreement, in its national law, it limited the protection of indications of source to cases where a given quality, reputation or other characteristic of those goods or services is essentially attributable to their geographical origin.
3.     An indication of source may not be used in the course of trade for goods or services where that indication is false or misleading with respect to its geographical origin or where its use is likely to cause confusion in the public as to the geographical origin of those goods or services, or which constitutes an act of unfair competition within the meaning of Article 10bis of the Paris Convention.
4.     Without prejudice to Article 23 TRIPS Agreement, the Parties shall provide the legal means to interested parties to prevent the use of a geographical indication for identical or comparable goods not originating in the place indicated by the designation in question in a manner which misleads or confuses the public as to the geographical origin of those goods, or which constitutes an act of unfair competition within the meaning of Article 10bis of the Paris Convention.

5.     In order to further strengthen the protection of geographical indications among each other, Peru and Switzerland agree to negotiate a bilateral agreement on the mutual recognition and protection of geographical indications aiming to conclude it within three years after the entry into force of this Agreement. Any other Party to this Agreement may join the negotiations or accede to the agreement after its entry into force.

Article 6.8
Copyright and Related Rights

1.     The Parties shall grant and assure to the authors of literary and artistic works and to performers, producers of phonograms and broadcasting organisations, an adequate and effective protection of their works, performances, phonograms and broadcasts, respectively.
2.     Independently of the author's economic rights, and even after the transfer of the said rights, the author shall have the right to claim, at least, authorship of the work and to object to any distortion, mutilation or other modification of, or other derogatory action in relation to, the said work, which would be prejudicial to his honour or reputation.
3.     The rights granted to the author in accordance with paragraph 2 shall, after his death, be maintained, at least until the expiry of the economic rights, and shall be exercisable by the persons or institutions authorised by the legislation of the country where protection is claimed.
4.     Rights granted under paragraphs 2 and 3 shall be granted, mutatis mutandis, to performers as regards their live performances or fixed performances.


Article 6.9
Patents

1.     Patents shall be available for any inventions, whether products or processes, in all fields of technology, provided that they are new, involve an inventive step and are capable of industrial application. Subject to paragraph 3, patents shall be available and patent rights enjoyable without discrimination as to the place of invention, the field of technology and whether products are imported or locally produced.
2.     Each Party may exclude from patentability inventions, the prevention within their territory of the commercial exploitation of which is necessary to protect ordre public or morality, including to protect human, animal or plant life or health or to avoid serious prejudice to the environment, provided that such exclusion is not made merely because the exploitation is prohibited by its law.

3.     Each Party may also exclude from patentability:

(a)    diagnostic, therapeutic and surgical methods for the treatment of humans or animals; and

(b)    plants and animals other than micro-organisms, and essentially biological processes for the production of plants or animals other than non- biological and microbiological processes. However, Parties shall provide for the protection of plant varieties either by patents or by an effective sui generis system or by any combination thereof. Notwithstanding the foregoing, a Party that does not provide patent protection for plants, shall undertake reasonable efforts to make such patent protection available consistent with paragraph 1.
4.     Each Party shall make best efforts to process patent applications and marketing approval applications expeditiously with a view to avoiding unreasonable delays. The Parties shall co-operate and provide assistance to one another to achieve this objective.
5.     With respect to any pharmaceutical product that is covered by a patent, each Party may make available a restoration or compensation of the patent term or patent rights to compensate the patent owner for unreasonable curtailment of the effective patent term resulting from the marketing approval process related to the first commercial marketing of the product in that Party. Any restoration under this paragraph shall confer all exclusive rights of a patent subject to the same limitations and exceptions applicable to the original patent.


Article 6.10
Designs

    The Parties shall ensure in their national laws adequate and effective protection of industrial designs by providing in particular, an adequate term of protection in accordance with internationally prevailing standards. Parties shall seek to harmonise their respective term of protection.

Article 6.11
Undisclosed Information and Measures Related to Certain Regulated Products

1.     The Parties to this Agreement shall protect undisclosed information in accordance with Article 39 TRIPS Agreement.
2.     Where a Party requires, as a condition for marketing approval of pharmaceutical products or agricultural chemical products which utilise new chemical entities 3, the submission of undisclosed test data related to safety and efficacy the origination of which involves a considerable effort, the Party shall not allow the marketing of a product which contains the same new chemical entity, based on the information provided by the first applicant without his consent, for a reasonable period, which, in the case of pharmaceutical products, means normally five years and, in the case of agricultural chemical products, ten years from the date of the marketing approval in the territory of the Party. Subject to this provision, there shall be no limitation on any Party to implement abbreviated approval procedures for such products on the basis of bioequivalence or bioavailability studies.

3.     Reliance on or reference to data referred to in paragraph 2 may be permitted:



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


3      For the purposes of this paragraph, “new agricultural chemical product” means a product that contains a chemical entity that has not been previously approved in the territory of the Party. If a Party needs to define “new chemical entity” for pharmaceutical products in the domestic legislation in order to implement this Agreement, it shall take into consideration prevailing international standards and do so before the entry into force of this Agreement.
(a)    where approval is sought for re-imported products that have already been approved before exportation; and
(b)    in order to avoid unnecessary duplication of tests of agricultural chemical products involving vertebrate animals where the first applicant is adequately compensated.
4.     A Party may take measures to protect public health in accordance with:
(a)    implementation of the Declaration of the TRIPS Agreement and Public Health 4 (in this paragraph referred to as the “Declaration”);
(b)    any waiver of any provision of the TRIPS Agreement adopted by WTO members in order to implement the Declaration; and

(c)    any amendment to the TRIPS Agreement to implement the Declaration.

5.     Where a Party relies on a marketing approval granted by another Party, and grants approval within six months of the filing of a complete application for marketing approval filed in the Party, the reasonable period of exclusive use of the data submitted in connection with obtaining the approval relied on shall begin on the date of the first marketing approval.



Article 6.12
Acquisition and Maintenance of Intellectual Property Rights

    Where the acquisition of an intellectual property right is subject to the right being granted or registered, the Parties shall ensure that the procedures for grant or registration are of the same level as provided in the TRIPS Agreement, in particular Article 62.

Article 6.13
Enforcement of Intellectual Property Rights

    The Parties shall establish provisions for the enforcement of intellectual property rights in their national laws that are of the same level as that provided in the TRIPS Agreement, in particular Articles 41 to 61.

Article 6.14
Right of Information in Civil and Administrative Procedures

    The Parties may provide that, in civil and administrative procedures, the judicial authorities shall


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


4      WT/MIN(01)/DEC/2.
have the authority, unless this would be out of proportion to the seriousness of the infringement, to order the infringer to inform the right holder of the identity of third persons involved in the production and distribution of the infringing goods or services and of their channels of distribution. 5

Article 6.15
Suspension of Release by Competent Authorities

1.     The Parties shall adopt procedures to enable a right holder, who has valid grounds for suspecting that the importation of copyright or trademark infringing goods may take place, to lodge an application in writing with the competent authorities, administrative or judicial, for the suspension by the customs authorities of the release into free circulation of such goods. The Parties shall consider the application of these measures to other intellectual property rights.
2.     It is understood that there shall be no obligation to apply procedures set forth in paragraph 1 to the suspension of the release into free circulation of goods put on the market in another country by or with the consent of the right holder.

Article 6.16
Right of Inspection

1.     The competent authorities shall give the applicant for the suspension of the release of goods and the other persons involved in the suspension the opportunity to inspect goods whose release has been suspended or which have been detained.
2.     When examining goods, the competent authorities may take samples and, according to the rules in force in the Party concerned and at the express request of the right holder, hand over or send such samples to the right holder, strictly for the purposes of analysis and facilitating the subsequent procedure. Where circumstances allow, samples must be returned on completion of the technical analysis and, where applicable, before goods are released or their detention is lifted. Any analysis of these samples shall be carried out under the sole responsibility of the right holder.

Article 6.17
Liability Declaration, Security or Equivalent Assurance

1.     The competent authorities shall have the authority to require an applicant to provide a security or


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


5      For greater certainty, this provision does not apply when it conflicts with constitutional or statutory guarantees.

equivalent assurance sufficient to protect the defendant and the competent authorities and to prevent abuse, or in the cases provided in their domestic legislation to declare to accept liability for damages resulting from the suspension of release.
2.     The security or equivalent assurance shall not unreasonably deter recourse to these procedures.


Article 6.18
Promotion of Research, Technological Development and Innovation

1.     The Parties acknowledge the importance of promoting research, technological development and innovation, of disseminating technological information, and of building and strengthening their technological capacities, and they will seek to co-operate in such areas, taking into account their resources.
2.     Co-operation in those fields, between Peru and Switzerland, may be based, in particular, on the respective Letters of Intent between the State Secretariat for Education and Research of the Federal Department of Home Affairs of the Swiss Confederation and the Consejo Nacional de Ciencia, Tecnología e Innovación Tecnológica (CONCYTEC) of 28 December 2006.
3.     Accordingly, Peru and Switzerland may seek and encourage opportunities for co-operation pursuant to this Article and, as appropriate, engage in collaborative scientific research projects. The authorities referred to in paragraph 2 shall act as contact points to facilitate the development of collaborative projects and they shall periodically review the status of such collaboration through mutually agreed means.

4.     Peru on one side and Iceland, Liechtenstein and Norway on the other side will seek opportunities for co-operation pursuant to this Article. Such co- operation shall be based on mutually agreed terms and will be formalised through appropriate means.
5.     Any proposal or inquiry regarding scientific and technological collaboration between the Parties shall be directed to any of the Parties through the contact points set out in Annex XII (Contact Points for Scientific Collaboration).

CHAPTER 7
GOVERNMENT PROCUREMENT

Article 7.1
Scope and Coverage

1.     This Chapter applies to any measure of a Party regarding covered procurement. For the purposes of this Chapter, “covered procurement” means procurement for governmental purposes:
(a)    of goods, services, or any combination thereof:

    (i)    as specified in each Party's specific commitments set out in Annex XIII (Covered Entities); and

    (ii)    not procured with a view to commercial sale or resale, or for use in the production or supply of goods or services for commercial sale or resale;
(b)    by any contractual means, including purchase, lease, rental or hire purchase, with or without an option to buy;
(c)    for which the value, as estimated in accordance with paragraphs 3 and 4, as appropriate, equals or exceeds the relevant threshold specified in Appendices 1 to 3 to Annex XIII (Covered Entities);
(d)    that is conducted by a procuring entity; and
(e)    subject to the conditions specified in Annex XIII (Covered Entities) and XIV (General Notes).

2.     This Chapter does not apply to:
(a)    non-contractual agreements or any form of assistance that a Party, including a government enterprise, provides, including co-operative agreements, grants, loans, subsidies, equity infusions, guarantees, and fiscal incentives;
(b)    the procurement or acquisition of fiscal agency or depository services, liquidation and management services for regulated financial institutions, or services related to the sale, redemption and distribution of public debt 1, including loans and government bonds, notes and other securities;
(c)    procurement funded by international grants, loans, or other assistance where the applicable procedure or condition would be inconsistent with this Chapter;
(d)    contracts awarded pursuant to:
    (i)    an international agreement and intended for the joint implementation or exploitation of a project by the contracting parties; or

    (ii)    an international agreement relating to the stationing of troops;
(e)    public employment contracts and related employment measures; or
(f)    the acquisition or rental of land, existing buildings, or other immovable property or the rights thereon.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      For greater certainty, this Chapter does not apply to procurement of banking, financial, or specialised services related to the incurring of public indebtedness or public debt management.

3.     In estimating the value of a procurement for the purpose of ascertaining whether it is a covered procurement, a procuring entity shall:

(a)    neither divide a procurement into separate procurements, nor use a particular method for estimating the value of a procurement for the purpose of avoiding the application of this Chapter;
(b)    take into account all forms of remuneration, including any premiums, fees, commissions, interest, other revenue streams that may be provided for under the contract and, where the procurement provides for the possibility of option clauses, the total maximum value of the procurement, inclusive of optional purchases; and
(c)    where the procurement is to be conducted in multiple parts, with contracts to be awarded at the same time or over a given period to one or more suppliers, base its calculation of the total maximum value of the procurement over its entire duration.
4.     Where the total estimated maximum value of a procurement over its entire duration is not known, the procurement shall be covered by this Chapter.
5.     Nothing in this Chapter shall prevent a Party from developing new procurement policies, procedures or contractual means, provided that they are consistent with this Chapter.

Article 7.2
Exceptions to the Chapter

1.     Nothing in this Chapter shall be construed to prevent a Party from taking any action or not disclosing any information that it considers necessary for the protection of its essential security interests relating to the procurement of arms, ammunition, or war materials, or to procurement indispensable for national security or for national defense purposes.
2.     Subject to the requirement that such measures are not applied in a manner that would constitute a means of arbitrary or unjustifiable discrimination between the Parties or a disguised restriction to trade between the Parties, nothing in this Chapter shall be construed to prevent a Party from adopting or maintaining measures:
(a)    necessary to protect public morals, order or safety;
(b)    necessary to protect human, animal or plant life or health;
(c)    necessary to protect intellectual property; or
(d)    relating to goods or services of persons with disabilities, philanthropic institutions, or prison labour.
3.     The Parties understand that subparagraph 2 (b) includes environmental measures necessary to protect human, animal or plant life or health.


Article 7.3
Definitions

    For the purposes of this Chapter:

(a)    “conditions for participation” means any registration, qualification or other pre-requisites for participation in a procurement;
(b)    “construction service” means a service that has as its objective the realisation by whatever means of civil or building works, based on Division 51 of the United Nations Provisional Central Product Classification (CPC);
(c)    “in writing or written” means any worded, numbered expression, or other symbols that can be read, reproduced and later communicated. It may include, electronically transmitted and stored information;
(d)    “measure” means any law, regulation, procedure, administrative guidance or practice, or any action of a procuring entity relating to a covered procurement;

(e)    “procurement” means the process by which a government obtains the use of or acquires goods or services, or any combination thereof, for governmental purposes and not with a view to commercial sale or resale or with a view to use in the production or supply of goods or services for commercial sale or resale;
(f)    “procuring entity” means an entity covered under Appendices 1 to 3 to Annex XIII (Covered Entities);
(g)    “qualified supplier” means a supplier that a procuring entity recognises as having satisfied the conditions for participation;
(h)    “services” including construction services, unless otherwise specified;
(i)    “standard” means a document approved by a recognised body, that provides, for common and repeated use, rules, guidelines, or characteristics for goods or services, or related processes and production methods, with which compliance is not mandatory. It may also include or deal exclusively with terminology, symbols, packaging, marking, or labelling requirements as they apply to goods, services, processes, or production methods;

(j)    “supplier” means a person or group of persons that provides or could provide goods or services to a procuring entity; and
(k)    “technical specification” means a tendering requirement that:
    (i)    lays down the characteristics of goods or services to be procured, including quality, performance, safety, and dimensions, or the processes and methods for their production or provision; or
    (ii)    addresses terminology, symbols, packaging, marking, or labelling requirements, as they apply to goods or services.

Article 7.4
National Treatment and Non-Discrimination

1.     With respect to any measure regarding covered procurement, each Party, including its procuring entities, shall accord immediately and unconditionally to the goods and services of another Party and to the suppliers of any other Party offering such goods or services, treatment no less favourable than the treatment accorded to domestic goods, services and suppliers.

2.     With respect to any measure regarding covered procurement, a Party, including its procuring entities, shall not:
(a)    treat a locally established supplier less favourably than another locally established supplier on the basis of degree of foreign affiliation or ownership; nor
(b)    discriminate against a locally established supplier on the basis that the goods or services offered by that supplier for a particular procurement are goods or services of another Party.

3.     The provisions of paragraphs 1 and 2 shall not apply to customs duties and charges of any kind imposed on, or in connection with, importation, the method of levying such duties and charges, other import regulations or formalities, and measures affecting trade in services other than measures governing covered procurement.

Article 7.5
Information Technology

1.     The Parties shall, to the extent possible, endeavour to use electronic means of communication to permit efficient dissemination of information on government procurement, particularly as regards tender opportunities offered by entities, while respecting the principles of transparency and non- discrimination.
2.     When conducting covered procurement by electronic means, a procuring entity shall:

(a)    ensure that the procurement is conducted using information technology systems and software, including those related to authentication and encryption of information, that are generally available and inter-operable with other generally available information technology systems and software; and
(b)    maintain mechanisms that ensure the integrity of requests for participation and tenders, including establishment of the time of receipt and the prevention of inappropriate access.

Article 7.6
Conduct of Procurement

    A procuring entity shall conduct covered procurement in a transparent and impartial manner that:

(a)    is consistent with this Chapter, using methods such as open tendering, selective tendering, and limited tendering as specified in Articles 7.18 (Tendering Procedures) to 7.20 (Limited Tendering);
(b)    avoids conflicts of interest; and

(c)    prevents corrupt practices.


Article 7.7
Rules of Origin

    Each Party shall apply to covered procurement of goods the rules of origin that it applies in the normal course of trade to those goods.


Article 7.8
Offsets

1.     With regard to covered procurement, a Party, including its procuring entities, shall not seek, take account of, impose, or enforce offsets at any stage of a procurement.
2.     For the purposes of this Chapter, “offsets” means any condition or undertaking that encourages local development or improves a Party's balance-of-payments accounts, such as the use of domestic content, the licensing of technology, investment, counter-trade and similar actions or requirements.

Article 7.9
Publication of Procurement Information

1.     Each Party shall promptly publish any measure of general application regarding covered procurement and any modification to this information, in the appropriate publications referred to in Appendix 2 to Annex XIV (General Notes), including officially designated electronic media.

2.     Each Party shall, on request, provide to another Party an explanation relating to such information.


Article 7.10
Publication of Notices

1.     For each covered procurement, a procuring entity shall publish a notice inviting suppliers to submit tenders, or where appropriate, applications for participation for that procurement (hereinafter referred to as “the notice of intended procurement”), except in the circumstances referred to in paragraph 2 of Article 7.20 (Limited Tendering). The notice shall be published in the electronic or paper media listed in Appendix 2 to Annex XIV (General Notes), and each such notice shall be accessible during the entire period established for tendering for the relevant procurement.
2.     Except as otherwise provided in this Chapter, each notice of intended procurement shall include:

(a)    a description of the intended procurement;
(b)    the procurement method;
(c)    any conditions that suppliers must fulfil to participate in the procurement;
(d)    the name of the entity issuing the notice;

(e)    the address and contact where suppliers may obtain all documents relating to the procurement;
(f)    where applicable, the address and any final date for the submission of requests for participation in the procurement;
(g)    the address and the final date for the submission of tenders;
(h)    the dates for delivery of the goods or services to be procured or the duration of the contract; and

(i)    an indication that the procurement is covered by this Chapter.
3.     Procuring entities shall publish the notices in a timely manner through means which offer the widest possible and non-discriminatory access to the interested suppliers of the Parties. These means shall be accessible free of charge through a single point of access specified in Appendix 2 to Annex XIV (General Notes).
4.     Each Party shall encourage its procuring entities to publish in an electronic medium listed in Appendix 2 to Annex XIV (General Notes), as early as possible in the fiscal year, information regarding the entities' future procurement plans. Such notices should include the subject matter of the procurement and the planned date of the publication of the notice of intended procurement.

Article 7.11
Conditions for Participation

1.     In assessing whether a supplier satisfies the conditions for participation, a Party, including its procuring entities:
(a)    shall limit such conditions to those that are essential to ensure that a supplier has the legal and financial capacities and the commercial and technical abilities to undertake the relevant procurement and evaluate those capacities and abilities on the basis of that supplier's business activities both inside and outside the territory of the Party of the procuring entity;
(b)    shall base its determination solely on the conditions that the procuring entity has specified in advance in notices or tender documentation;
(c)    may not impose the condition that, in order for a supplier to participate in a procurement, the supplier has previously been awarded one or more contracts by a procuring entity of the given Party;
(d)    may require relevant prior experience where essential to meet the requirements of the procurement; and
(e)    allow all domestic suppliers and suppliers of another Party that satisfy the conditions for participation to be recognised as qualified suppliers and to participate in the procurement.
2.     Where there is supporting evidence, a Party, including its procuring entities, may exclude a supplier on grounds such as:
(a)    bankruptcy;
(b)    false declarations;
(c)    significant or persistent deficiencies in performance of any substantive requirement or obligation under a prior contract or contracts;

(d)    final judgments in respect of serious crimes or other serious offences;
(e)    professional misconduct or acts or omissions that adversely reflect upon the commercial integrity of the supplier; or
(f)    failure to pay taxes.

Article 7.12
Registration Systems and Qualification Procedures

1.     A Party, including its procuring entities, may maintain a supplier registration system under which interested suppliers are required to register and provide certain information.
2.     Procuring entities shall not adopt or apply any registration system or qualification procedure with the purpose or the effect of creating unnecessary obstacles to the participation of suppliers of another Party in its procurement.
3.     A procuring entity shall promptly communicate to any supplier that has applied for qualification its decision on whether that supplier is qualified. Where an entity rejects an application for qualification or ceases to recognise a supplier as qualified, that entity shall, on request of the supplier, promptly provide it a written explanation.

Article 7.13
Multi-Use Lists

1.     A procuring entity may establish or maintain a list of suppliers that satisfy the conditions for participation in that list, and that the procuring entity intends to use more than once (hereinafter referred to as “the multi-use list”), provided that a notice inviting interested suppliers to apply for inclusion in the list is published in the appropriate medium listed in Appendix 2 to Annex XIV (General Notes).
2.     The notice provided for in paragraph 1 shall include:
(a)    a description of the goods or services, or categories thereof, for which the multi-use list may be used;
(b)    any deadlines for submission of applications for inclusion in the list;
(c)    the conditions for participation to be satisfied by suppliers and the methods that the procuring entity will use to verify a supplier's satisfaction of the conditions;
(d)    the name and address of the procuring entity and any other information necessary to contact the entity and obtain all relevant documents relating to the list;
(e)    the period of validity of the list and the means for its renewal or termination, or where the period of validity is not provided, an indication of the method by which notice will be given of the termination of use of the list; and
(f)    an indication that the list may be used for procurement covered by this Chapter.
3.     A procuring entity shall allow suppliers to apply at any time for inclusion in its multi-use list and shall include in that list all qualified suppliers within a reasonably short time.

Article 7.14
Tender Documentation

1.     A procuring entity shall provide to suppliers tender documentation that includes all information necessary to permit suppliers to prepare and submit responsive tenders. Unless already provided for in the notice of intended procurement pursuant to Article 7.10 (Publication of Notices), such documentation shall include a complete description of:
(a)    the procurement, including the nature and the quantity of the goods or services to be procured or, where the quantity is not known, the estimated quantity and any requirements to be fulfilled, including any technical specifications, conformity assessment certification, plans, drawings, or instructional materials;
(b)    any conditions for participation of suppliers, including a list of information and documents that suppliers are required to submit in connection therewith;
(c)    all evaluation criteria to be considered in the awarding of the contract, and, except where price is the sole criterion, the relative importance of such criteria;
(d)    where the procuring entity will conduct the procurement by electronic means, any authentication and encryption requirements or other requirements related to the receipt of information by electronic means;
(e)    where the procuring entity will hold an electronic auction pursuant to Article 7.21 (Electronic Auctions), the rules, including identification of the elements of the tender related to the evaluation criteria, on which the auction will be conducted;
(f)    where there will be a public opening of tenders, the date, time, and place for the opening and, where appropriate, the persons authorised to be present;
(g)    any other terms or conditions, including terms of payment and any limitation on the means by which tenders may be submitted, e.g., paper or electronic means; and

(h)    any dates for the delivery of goods or the supply of services or the duration of the contract.
2.     Where contracting entities do not offer free direct access to the entire tender documents and any supporting documents by electronic means, entities shall make promptly available the tender documentation at the request of any interested supplier of the Parties.

Article 7.15
Technical Specifications

1.     A procuring entity shall not prepare, adopt, or apply any technical specification or prescribe any conformity assessment procedure with the purpose or the effect of creating unnecessary obstacles to international trade among the Parties.
2.     In prescribing the technical specifications for the goods or services being procured, a procuring entity shall, where appropriate:
(a)    establish the technical specification in terms of performance and functional requirements, rather than design or descriptive characteristics; and
(b)    base the technical specification on international standards, where such exist or otherwise, on national technical regulations, recognised national standards or building codes.
3.     A procuring entity may not prescribe any technical specifications that require or refer to a particular trademark or trade name, patent, copyright, design or type, specific origin, producer, or supplier, unless there is no other sufficiently precise or intelligible way of describing the procurement requirements and provided that, in such cases, words such as “or equivalent” are also included in the tender documentation.
4.     A procuring entity shall not seek or accept, in a manner that would have the effect of precluding competition, advice that may be used in the preparation or adoption of any technical specification for a specific procurement from a person that may have a commercial interest in the procurement.
5.     For greater certainty, the Parties understand that a Party, including its procuring entities, may, in accordance with this Article, prepare, adopt, or apply technical specifications to promote the conservation of natural resources or protect the environment.


Article 7.16
Modifications of the Tender Documentation and Technical Specifications

    Where, prior to the award of a contract, a procuring entity modifies the criteria or technical requirements set out in a notice or tender documentation provided to participating suppliers, or amends or re-issues a notice or tender documentation, it shall transmit in writing all such modifications or amended or re-issued notice or tender documentation:

(a)    to all suppliers that are participating at the time the information is amended, if known, and in all other cases, in the same manner as the original information was transmitted; and
(b)    in adequate time to allow such suppliers to modify and re-submit amended tenders, as appropriate.

Article 7.17
Time Limits

    A procuring entity shall provide suppliers sufficient time to submit applications to participate in a procurement, and prepare and submit responsive tenders, taking into account the nature and complexity of the procurement. Each Party shall apply time limits according to the conditions specified in Appendix 3 to Annex XIV (General Notes).

Article 7.18
Tendering Procedures

1.     Procuring entities shall award their public contracts by open, selective or limited tendering procedures according to their national legislation in compliance with this Chapter and in a non- discriminatory manner.
2.     For the purposes of this Chapter:

(a)    “open tendering” means a procurement method whereby all interested suppliers may submit a tender. The Parties understand that open tendering procedures include modalities such as framework agreement and reverse auction according to their respective legislation;
(b)    “selective tendering” means a procurement method whereby only qualified suppliers are invited by the procuring entity to submit a tender; and
(c)    “limited tendering” means a procurement method whereby the procuring entity contacts a supplier or suppliers of its choice.

Article 7.19
Selective Tendering

1.     Where a procuring entity intends to use selective tendering, the entity shall:
(a)    include in the notice of intended procurement at least the information specified in subparagraphs 2 (a), (b), (c), (d), (e), (f) and (i) of Article 7.10 (Publication of Notices) and invite suppliers to submit a request for participation; and
(b)    provide, by the commencement of the time- period for tendering, at least the information in subparagraphs 2 (g) and (h) of Article 7.10 (Publication of Notices) to the qualified suppliers that it notifies as specified in paragraph 2 of Appendix 3 to Annex XIV (General Notes).
2.     A procuring entity shall recognise as qualified suppliers such domestic suppliers and suppliers of another Party that meet the conditions for participation in a particular procurement, unless the procuring entity states in the notice of intended procurement or, where publicly available, in the tender documentation, any limitation on the number of suppliers that will be permitted to tender and the criteria for selecting the limited number of suppliers.
3.     Where the tender documentation is not made publicly available from the date of publication of the notice referred to in paragraph 1, procuring entities shall ensure that those documents are made available at the same time to all selected qualified suppliers.
4.     Procuring entities maintaining permanent lists of qualified suppliers may select suppliers to be invited to tender from among those listed, under the conditions set out in Article 7.10 (Publication of Notices).


Article 7.20
Limited Tendering

1.     Provided that it does not use this provision for the purpose of avoiding competition among suppliers or in a manner that discriminates against suppliers of another Party or protects domestic suppliers, a procuring entity may use limited tendering and may choose not to apply Articles 7.10 (Publication of Notices), 7.11 (Conditions for Participation), 7.14 (Tender Documentation), 7.15 (Technical Specifications), 7.16 (Modifications of the Tender Documentation and Technical Specifications), 7.17 (Time Limits), 7.21 (Electronic Auctions), 7.22 (Negotiations), 7.23 (Opening of Tenders) and 7.24 (Contract Awards) only under the following circumstances:

(a)    provided that the requirements of the tender documentation are not substantially modified where:
    (i)    no tenders were submitted, or no supplier requested participation;
    (ii)    no tenders that conform to the essential requirements of the tender documentation were submitted;
    (iii)    no suppliers satisfied the conditions for participation; or
    (iv)    the tenders submitted have been collusive;
(b)    where the goods or services can be supplied only by a particular supplier and no reasonable alternative or substitute goods or services exist for any of the following reasons:
    (i)    the requirement is for a work of art;
    (ii)    the protection of patents, copyrights or other exclusive rights; or
    (iii)    due to an absence of competition for technical reasons;
(c)    for additional deliveries by the original supplier of goods or services that were not included in the initial procurement where a change of supplier for such additional goods or services:

    (i)    cannot be made for economic or technical reasons such as requirements of inter- changeability or inter-operability with existing equipment, software, services or installations procured under the initial procurement; and
    (ii)    would cause significant inconvenience or substantial duplication of costs for the procuring entity;
(d)    insofar as is strictly necessary where, for reasons of extreme urgency brought about by events unforeseeable by the procuring entity, the goods or services cannot be obtained in time using an open or selective tendering procedure;
(e)    for purchases made on a commodity market;
(f)    where a procuring entity procures prototypes or a first good or service which are developed at its request in the course of, and for, a particular contract for research, experiment, study or original development;
(g)    for purchases made under exceptionally advantageous conditions that only arise in the very short term in the case of unusual disposals such as those arising from liquidation, receivership, public auction or bankruptcy, but not for routine purchases from regular suppliers; or
(h)    where a contract is awarded to a winner of a design contest provided that:
    (i)    the contest has been organised in a manner that is consistent with the principles of this Chapter, in particular relating to the publication of a notice of intended procurement pursuant to Article 7.10 (Publication of Notices); and
    (ii)    the participants are judged by an independent jury with a view to a design contract being awarded to a winner.
2.     A procuring entity shall prepare a report in writing on each contract awarded under paragraph 1. The report shall include the name of the procuring entity, the value and kind of goods or services procured, and a statement indicating the circumstances and conditions described in paragraph 1 that justified the use of limited tendering.

Article 7.21
Electronic Auctions

1.     Where a procuring entity intends to conduct a covered procurement using an electronic auction, the entity shall provide each participant, before commencing the electronic auction, with:
(a)    the automatic evaluation method, including the mathematical formula, that is based on the evaluation criteria set out in the tender documentation and that will be used in the automatic ranking or re-ranking during the auction;
(b)    the results of any initial evaluation of the elements of its tender where the contract is to be awarded on the basis of the most advantageous tender; and
(c)    any other relevant information relating to the conduct of the auction.
2.     For the purposes of this Chapter, “electronic auction” means an iterative process that involves the use of electronic means for the presentation by suppliers of either new prices, or new values for quantifiable non-price elements of the tender related to the evaluation criteria, or both, resulting in a ranking or re-ranking of tenders.

Article 7.22
Negotiations

1.     A Party may provide for its procuring entities to conduct negotiations:
(a)    in the context of procurements in which they have indicated such intent in the notice of intended procurement pursuant to Article 7.10 (Publication of Notices); or
(b)    where it appears from the evaluation that no one tender is obviously the most advantageous in terms of the specific evaluation criteria set forth in the notices or tender documentation.
2.     Procuring entities shall not, in the course of negotiations, discriminate between participating suppliers.
3.     An entity shall:
(a)    ensure that any elimination of suppliers participating in negotiations is carried out in accordance with the evaluation criteria set out in the notices or tender documentation; and
(b)    where negotiations are concluded, provide a common deadline for the remaining participating suppliers to submit any new or revised tenders.

Article 7.23
Opening of Tenders

1.     A procuring entity shall receive and open all tenders under procedures that guarantee the fairness and impartiality of the procurement process and the confidentiality of tenders. It also shall treat tenders in confidence until at least the opening of the tenders.
2.     Where a procuring entity provides suppliers with an opportunity to correct unintentional errors of form between the opening of tenders and the awarding of the contract, the entity shall provide the same opportunity to all participating suppliers.

Article 7.24
Contract Awards

1.     A procuring entity shall require that, in order to be considered for an award, a tender shall be submitted:
(a)    in writing and shall, at the time of opening, comply with the essential requirements specified in the notices and tender documentation; and
(b)    by a supplier that satisfies any conditions for participation.
2.     Unless a procuring entity determines that it is not in the public interest to award a contract, the entity shall award the contract to the supplier that the entity has determined satisfies the conditions for participation and is fully capable of undertaking the contract and whose tender is determined to be the most advantageous solely on the basis of the requirements and evaluation criteria specified in the notices and tender documentation, or where price is the sole criterion, the lowest price.
3.     Where a procuring entity receives a tender with a price that is abnormally lower than the prices in other tenders submitted, it may verify with the supplier that it can comply with the conditions of participation and is capable of fulfilling the terms of the contract.
4.     A procuring entity may not cancel a procurement or terminate or modify awarded contracts in a manner that circumvents the obligations under this Chapter.

Article 7.25
Transparency in Procurement Information

1.     A procuring entity shall promptly inform suppliers that have submitted tenders of its contract award decisions and, on request, shall do so in writing. Subject to Article 7.26 (Disclosure of Information), a procuring entity shall, on request, provide an unsuccessful supplier with an explanation of the reasons for not selecting that supplier's tender and the relative advantages of the successful supplier's tender.
2.     No later than 72 days after an award, a procuring entity shall publish in a paper or electronic medium listed in Annex XIV (General Notes), a notice that includes at least the following information about the contract:

(a)    name and address of the procuring entity;
(b)    description of the goods or services procured;
(c)    date of award;
(d)    name and address of the successful supplier;
(e)    contract value; and
(f)    procurement method used and, in cases where a procedure has been used pursuant to Article 7.20 (Limited Tendering), a description of the circumstances justifying the use of such procedure.
3.     A procuring entity shall maintain reports and records of tendering procedures relating to covered procurement, including the reports provided for in paragraph 2 of Article 7.20 (Limited Tendering), and shall retain such reports and records for a period of at least three years after the award of a contract.

Article 7.26
Disclosure of Information

1.     On request of another Party, a Party shall provide promptly any information necessary to determine whether a procurement was conducted fairly, impartially and in accordance with this Chapter. The information shall include information on the characteristics and relative advantages of the successful tender.

2.     No Party, procuring entity or review authority may disclose information that the person providing it has designated as confidential in accordance with domestic law, except with the authorisation of such person.
3.     Notwithstanding any other provision of this Chapter, a Party, including its procuring entities, may not provide information to a particular supplier that might prejudice fair competition between suppliers.
4.     Nothing in this Chapter shall be construed to require a Party, including its procuring entities, authorities, and review bodies, to release confidential information under this Chapter where release:

(a)    would impede law enforcement;
(b)    might prejudice fair competition between suppliers;
(c)    would prejudice the legitimate commercial interests of particular persons, including the protection of intellectual property; or
(d)    would otherwise be contrary to the public interest.

Article 7.27
Domestic Review Procedures for Supplier Challenges

1.     In the event of a complaint by a supplier of a Party regarding an alleged breach of this Chapter in the context of covered procurement, each Party shall encourage suppliers to seek clarification from its entities through consultations with a view to facilitating the resolution of any such complaints.
2.     Each Party shall provide a timely, effective, transparent and non-discriminatory administrative or judicial review procedure according to the due process principle through which a supplier may challenge alleged breaches of this Chapter arising in the context of covered procurements in which the supplier has, or has had, an interest.

3.     Each supplier shall be allowed a sufficient period of time to prepare and submit a challenge, which in no case shall be less than 10 days from the time when the basis of the challenge became known or reasonably should have become known to the supplier.
4.     Each Party shall establish or designate at least one impartial administrative or judicial authority that is independent of its procuring entities to receive and review a challenge by a supplier arising in the context of a covered procurement, and to make appropriate findings and recommendations.

5.     Where a body other than an authority referred to in paragraph 4 initially reviews a challenge, the Party shall ensure that the supplier may appeal the initial decision to an impartial administrative or judicial authority that is independent of the procuring entity whose procurement is the subject of the challenge.
6.     A review body that is not a court shall either be subject to judicial review or have procedures that provide that:

(a)    the procuring entity shall respond in writing to the challenge and disclose all relevant documents to the review body;
(b)    the participants to the proceedings (hereinafter referred as “participants”) shall have the right to be heard prior to a decision of the review body being made on the challenge;
(c)    the participants shall have the right to be represented and accompanied;
(d)    the participants shall have access to all proceedings;
(e)    the participants shall have the right to request that the proceedings take place in public and that witnesses may be presented; and
(f)    decisions or recommendations relating to supplier challenges shall be provided, in a timely fashion, in writing, with an explanation of the basis for each decision or recommendation.
7.     Each Party shall adopt or maintain procedures that provide for:
(a)    rapid interim measures to preserve the supplier's opportunity to participate in the procurement. Such interim measures may result in suspension of the procurement process. The procedures may provide that overriding adverse consequences for the interests concerned, including the public interest, may be taken into account when deciding whether such measures should be applied. Just cause for not acting shall be provided in writing; and

(b)    where a review body has determined that there has been a breach of this Chapter or, where the supplier does not have a right to challenge directly a breach of this Chapter under the domestic law of a Party, a failure by a procuring entity to comply with a Party's measures implementing this Chapter, corrective action or compensation for the loss or damages suffered, which may be limited to either the costs for the preparation of the tender or the costs relating to the challenge, or both.


Article 7.28
Modifications and Rectifications to Coverage

1.     A Party may make rectifications of a purely formal nature to its coverage under this Chapter, or minor amendments to its Schedules in Annex XIII (Covered Entities), provided that it notifies the other Parties in writing and no other Party objects in writing within 30 days following the date of the notification. A Party that makes such a rectification or minor amendment need not provide compensatory adjustments to the other Parties.


2.     A Party may otherwise modify its coverage under this Chapter provided that:

(a)    it notifies the other Parties in writing and offers at the same time acceptable compensatory adjustments to maintain a level of coverage comparable to that existing prior to the modification, except where provided for in paragraph 3; and
(b)    no Party objects in writing within 30 days following the date of the notification.
3.     A Party need not provide compensatory adjustments when the Parties agree that the proposed modification covers a procuring entity over which a Party has effectively eliminated its control or influence. When a Party objects to the assertion that such government control or influence has been effectively eliminated, the objecting Party may request further information or consultations with a view to clarifying the nature of any government control or influence and reaching agreement on the procuring entity's continued coverage under this Chapter.

Article 7.29
Small and Medium Enterprises Participation

1.     The Parties recognise the importance of the participation of small and medium enterprises (hereinafter referred to as “SMEs”) in government procurement. The Parties also recognise the importance of business alliances between suppliers of each Party, and in particular of SMEs.
2.     The Parties agree to work jointly towards exchanging information and facilitating SMEs access to government procurement procedures, methods and contracting requirements, focused on SMEs special needs.


Article 7.30
Co-operation

1.     The Parties recognise the importance of co- operation with a view to achieving a better understanding of their respective government procurement systems, as well as a better access to their respective markets, in particular for SMEs.
2.     According to Chapter 10 (Co-operation) the Parties shall endeavour to co-operate in matters such as:

(a)    development and use of electronic communications in government procurement systems; and
(b)    exchange of experiences and information, such as regulatory frameworks, best practices and statistics.

Article 7.31
Further Negotiations

    In case a Party offers, in the future, a third party additional advantages with regard to its respective government procurement market access coverage agreed under this Chapter, it shall agree, upon request of another Party, to enter into negotiations with a view to extending coverage under this Chapter on a reciprocal basis.

CHAPTER 8
COMPETITION POLICY

Article 8.1
Objectives

1.     The Parties recognise that anti-competitive practices have the potential to undermine the benefits of liberalisation arising from this Agreement. These practices are incompatible with the proper functioning of this Agreement, in so far as they may affect trade between Peru and an EFTA State.
2.     The Parties undertake to apply their respective competition laws with a view to proscribing such practices and to co-operate in matters covered by this Chapter. This co-operation includes notification, exchange of information, technical assistance and consultation.

Article 8.2
Anti-competitive Practices

1.     For the purposes of this Chapter, “anti- competitive practices” refer to:
(a)    horizontal or vertical agreements between enterprises, concerted practices between enterprises, or decisions by associations of enterprises which have as their object or effect the prevention, restriction or distortion of competition; and
(b)    the abuse of a dominant position in a market.
2.     The enforcement policy of the Parties' national authorities shall be consistent with the principles of transparency, non-discrimination and procedural fairness.
3.     When applicable, Peru may implement its obligations under this Article through the Andean Community competition laws and the competent authority of the Andean Community. Rights and obligations under this Chapter will only apply between Peru and the EFTA States.

Article 8.3
Co-operation

1.     The Parties shall make best efforts to co- operate, subject to their national laws and through their competent authorities, on issues concerning competition law enforcement.
2.     Each Party shall notify another Party of competition enforcement activities that may affect important interests of that Party. Notifications shall be sufficiently detailed to enable the notified Party to make an initial evaluation of the effect of the competition enforcement activity within its territory.


3.     Each Party should, in accordance with its laws, take into consideration the important interests of the other Parties in the course of its enforcement activities on anti-competitive practices. If a Party considers that an anti-competitive practice may adversely affect such Party's important interests, it may transmit its views on the matter to the other Party through its competent authority. Without prejudice to any action under its competition laws and to its full freedom of ultimate decision, the Party so addressed should give appropriate consideration to the views expressed by the requesting Party.


4.     If a Party considers that an anti-competitive practice carried out within the territory of another Party has a substantially adverse effect within its territory or on trade relations between the Parties, it may request that the other Party initiate appropriate enforcement activities. The request shall be as specific as possible about the nature and the effect of the anti-competitive practice. The requested Party shall consider whether to initiate an enforcement activity with respect to the anti- competitive practice identified in the request, and shall advise the requesting Party of its decision and of the outcome of such activity.

5.     The Parties are encouraged to exchange information, including information that is not publicly available, provided that this does not affect any ongoing investigation. Any exchange of information shall be subject to the rules and standards of confidentiality applicable in the territory of each Party. No Party shall be required to provide information when this is contrary to its laws regarding disclosure of information. Each Party shall maintain the confidentiality of any information provided to it subject to the limitations that the submitting Party requests for the use of such information.

6.     To further strengthen co-operation, the Parties may sign co-operation agreements.

Article 8.4
Consultations

    To foster understanding between the Parties, or to address any matter arising under this Chapter and without prejudice to the autonomy of each Party to develop, maintain and enforce its competition policy and legislation, a Party may request consultations within the Joint Committee. This request shall indicate the reasons for the consultations. Consultations shall be held promptly with a view to reaching a conclusion consistent with the objectives set forth in this Chapter. The Parties concerned shall give to the Joint Committee all the support and information needed, subject to the criteria and standards set out in paragraph 5 of Article 8.3 (Co-operation).


Article 8.5
State Enterprises and Designated Monopolies

1.     Nothing in this Chapter shall be construed to prevent a Party from establishing or maintaining a state enterprise or designated monopolies.

2.     The Parties shall ensure that state enterprises and designated monopolies do not adopt or maintain anti-competitive practices affecting trade between the Parties, insofar as the application of this provision does not obstruct the performance, in law or in fact, of the particular public tasks assigned to them.

3.     This Article does not apply to government procurement.

Article 8.6
Dispute Settlement

    No Party may have recourse to dispute settlement under Chapter 12 (Dispute Settlement) for any matter arising under this Chapter.

CHAPTER 9
TRANSPARENCY
Article 9.1
Publication and Disclosure of Information

1.     Each Party shall ensure that its laws, regulations, administrative rulings of general application and its respective international agreements, which may affect the operation of this Agreement, are published or otherwise made available in such a manner as to enable persons and other interested parties to become acquainted with them.
2.     The Parties shall endeavour to publish or otherwise make available judicial decisions that may affect the operation of this Agreement.
3.     The Parties shall promptly respond to specific questions and provide, upon request, information to each other on matters referred to in paragraph 1.
4.     Nothing in this Agreement shall require any Party to disclose confidential information, which would impede law enforcement, or otherwise be contrary to the public interest or would prejudice the legitimate commercial interests of any economic operator.
5.     Where a Party providing information to another Party in accordance with this Agreement designates the information as confidential, the other Party shall maintain the confidentiality of the information.
6.     In case of any inconsistency between the provisions of this Article and provisions relating to transparency in other Chapters, the latter shall prevail to the extent of the inconsistency.

Article 9.2
Notifications

1.     A notification or any other written communication that either sets in motion a period of time specified in this Agreement or needs to be made during such a period shall be deemed received, unless otherwise provided for, when it has been delivered against receipt, registered post, courier or any other means of communication providing a record of receipt thereof.
2.     Without prejudice to Article 11.2 (Agreement Co-ordinators and Contact Points), each Party to this Agreement shall designate a responsible authority for the purpose of receiving notifications or written communications mentioned in paragraph 1 and shall communicate such designation to the other Parties within 90 days following the date of the entry into force of this Agreement.

CHAPTER 10
CO-OPERATION

Article 10.1
Scope and Objectives

1.     The Parties decide to foster co-operation that allows support of trade capacity building (hereinafter referred to as “TCB”) initiatives in order to expand and improve the benefits of this Agreement, on mutually agreed terms, in accordance with national strategies and policy objectives.

2.     The co-operation under this Chapter shall pursue the following objectives:
(a)    strengthening and developing the existing relations with regard to TCB between the Parties;

(b)    enhancing and creating new trade and investment opportunities, fostering competitiveness and innovation; and
(c)    implementing this Agreement and optimising its results, in order to provide an impulse for economic growth and development and to contribute to the reduction of poverty.

Article 10.2
Methods and Means

1.     The Parties shall co-operate with the objective of identifying and employing the most effective methods and means for the implementation of this Chapter. To this end they shall co-ordinate efforts with relevant international organisations and develop, where applicable, synergies with other forms of bilateral co-operation between the Parties.

2.     Co-operation under this Chapter shall be carried out through EFTA activities, bilaterally or through a combination of the two.
3.     The Parties will use, among others, the following instruments for the implementation of this Chapter:

(a)    exchange of information and experience;
(b)    joint identification, development and implementation of projects and innovating activities of co-operation, including seminars and workshops; and
(c)    technical and administrative co-operation.
4.     The Parties may initiate and implement projects and activities related to TCB with the participation of national and international experts and institutions.


Article 10.3
Joint Committee and Contact Points

1.     For the implementation of this Chapter, the following contact points are designated:
(a)    for the EFTA-States: the EFTA Secretariat; and
(b)    for Peru: the Ministry of Foreign Trade and Tourism.
2.     The contact points shall be responsible for the channelling of project proposals. In addition they are responsible for managing and developing of joint EFTA co-operation projects and are the links to the Joint Committee. For this purpose they shall establish rules and procedures in order to facilitate this work.
3.     For co-operation on a bilateral basis taking place under this Chapter, EFTA States providing such co-operation shall designate a Contact point.
4.     The Joint Committee shall periodically review the implementation of this Chapter and act as a co- ordinating body as appropriate.

CHAPTER 11
ADMINISTRATION OF THE AGREEMENT

Article 11.1
Joint Committee

1.     The Parties hereby establish the Joint Committee EFTA-Peru comprising of representatives of each Party. The Parties shall be represented by cabinet-level representatives of the Parties or senior officials delegated by them for this purpose.

2.     The Joint Committee shall:
(a)    supervise the fulfilment and correct application of the provisions of this Agreement;
(b)    evaluate the achieved results in the application of this Agreement;
(c)    oversee the further elaboration of this Agreement, including the possibility of removing remaining barriers to trade and other restrictive measures concerning commerce between Peru and the EFTA States;
(d)    supervise the work of the sub-committees and working groups established under this Agreement and recommend appropriate actions to them;
(e)    adopt its own rules of procedure;
(f)    upon request of any Party, provide its opinion regarding the interpretation or application of this Agreement;
(g)    seek to resolve disputes that may arise regarding the interpretation or application of this Agreement, in accordance with Chapter 12 (Dispute Settlement);
(h)    decide on the amount of remuneration and expenses that will be paid to panelists;
(i)    prepare and adopt the Model Rules of Procedure for panels which shall include the standards of conduct for panelists; and
(j)    consider any other matter that may affect the operation of this Agreement, or that is entrusted to it by the Parties.
3.     The Joint Committee may:
(a)    set up sub-committees and working groups as it considers necessary to assist it in accomplishing its tasks and delegate responsibilities to them. Except where specifically provided for in this Agreement, sub-committees and working groups shall work under a mandate established by the Joint Committee;
(b)    decide to amend the Annexes and Appendices to this Agreement. Subject to paragraph 4, it may set a date for the entry into force of such decisions; and
(c)    convene the Parties for future negotiations to examine deepening the already reached liberalisation in the different sectors covered by this Agreement.
4.     If a representative of a Party in the Joint Committee has accepted a decision subject to the fulfilment of its internal legal requirements, the decision shall enter into force on the date when the last Party notifies the Depositary that its internal legal requirements have been fulfilled, unless the decision itself specifies a later date. The Joint Committee may decide that the decision shall enter into force for those Parties that have fulfilled their internal requirements, provided that Peru and at least one EFTA State are among those Parties. A Party may apply a decision of the Joint Committee provisionally until such decision enters into force for it, subject to its legal requirements.

5.     The Joint Committee shall meet whenever necessary but normally every two years in regular session and in special session by written request of any Party to the other Parties. The special session shall take place within 30 days following the date of the receipt of the request, unless the Parties agree otherwise.
6.     Unless otherwise agreed by the Parties, sessions of the Joint Committee shall be held alternately in Lima and Geneva or by any technological means available. Such sessions shall be chaired jointly by Peru and one of the EFTA States.

7.     The Joint Committee may take decisions as provided for in this Agreement and on all other matters it may make recommendations.
8.     The Joint Committee shall take decisions and make recommendations by consensus.

Article 11.2
Agreement Co-ordinators and Contact Points

1.     Each Party shall designate an Agreement Co- ordinator and communicate such designation to the other Parties within 90 days following the date of the entry into force of this Agreement.
2.     Unless otherwise provided for in this Agreement, the Agreement Co-ordinators shall:
(a)    work jointly to develop agendas and make other preparations for Joint Committee meetings and follow up on Joint Committee decisions as appropriate;
(b)    act as a contact point to facilitate communications between the Parties on any matter covered by this Agreement;
(c)    on the request of a Party, identify the office or official responsible for a given matter and assist in facilitating communication as necessary; and

(d)    address any other matter entrusted to it by the Joint Committee.
3.     Each Party shall be responsible for the operation and expenses of its designated Agreement Co- ordinator.


CHAPTER 12
DISPUTE SETTLEMENT

Article 12.1
Co-operation

    The Parties shall at all times endeavour to agree on the interpretation and application of this Agreement, and shall make every attempt through co-operation, consultations or other means to reach a mutually satisfactory resolution of any matter that might affect its operation.

Article 12.2
Scope of Application

    Except as otherwise provided in this Agreement, the provisions of this Chapter shall apply with respect to the settlement of all disputes between the Parties regarding the interpretation or application of this Agreement, in particular when a Party considers that a measure of another Party is inconsistent with the obligations of this Agreement.

Article 12.3
Choice of Forum

1.     Disputes regarding the same matter arising under this Agreement and the WTO Agreement may be settled in either forum at the discretion of the complaining Party.

2.     Unless the disputing Parties agree otherwise, once the complaining Party has requested a WTO panel under Article 6 of the WTO Understanding on Rules and Procedures Governing the Settlement of Disputes or a panel under this Agreement pursuant to paragraph 1 of Article 12.6 (Request for a Panel), the forum selected shall be used to the exclusion of the other in respect of that matter.

3.     Before a Party initiates a dispute settlement procedure against another Party under the WTO Agreement, that Party shall notify the other Parties of its intention.


Article 12.4
Good Offices, Conciliation or Mediation

1.     Good offices, conciliation and mediation are procedures that are undertaken voluntarily if the Parties so agree. They may begin and be terminated at any time. They may continue while procedures of a panel established in accordance with this Chapter are in progress.
2.     Proceedings involving good offices, conciliation and mediation shall be confidential and without prejudice to the Parties' rights in any other proceedings.

Article 12.5
Consultations

1.     A Party may request in writing consultations with any other Party with respect to any matter referred to in Article 12.2 (Scope of Application). The requesting Party shall notify the other Parties in writing thereof.
2.     Consultations shall take place in the Joint Committee if the Parties making and receiving the request for consultations so agree.

3.     The request for consultations shall set out the reasons for the complaint, including an identification of the measure concerned and an indication of the legal basis of the complaint.
4.     Consultations shall be held within:
(a)    30 days following the date of the receipt of the request for consultations regarding urgent matters 1;
(b)    45 days following the date of the receipt of the request for consultations for all other matters; or
(c)    such other period as the consulting Parties may agree.
5.     Consultations may be held in person or by any technological means available to the consulting Parties. If in person, consultations shall be held in the place agreed by the consulting Parties. If no agreement has been reached by them, consultations shall be held in Lima.


6.     The consulting Parties shall provide sufficient information to enable a full examination of how the measure in force might affect the operation and application of this Agreement and treat any confidential or proprietary information exchanged in the course of consultations in the same manner as the Party providing the information.
7.     The consultations shall be confidential and without prejudice to the rights of the consulting Parties in any further proceedings.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


1      Urgent matters include goods (agriculture, fish, and industrial) and services that lose their quality or current condition in a short period of time. Urgent matters include such perishable goods or services which lose their trade value when a certain date is passed.

8.     The consulting Parties shall inform the other Parties of any mutually agreed resolution of the matter.


Article 12.6
Request for the Establishment of a Panel

1.     A consulting Party may request in writing the establishment of a panel:
(a)    if the requested Party has not responded to the request for consultations within 15 days following the date of receipt of such request;
(b)    if consultations are not held within the periods established in Article 12.5 (Consultations) or within any other periods as the consulting Parties may have agreed; or
(c)    in the event that the consulting Parties fail to resolve a matter within 60 days following the date of the receipt of the request for consultations or as regards urgent matters within 45 days, or within any other period as they may agree.

2.     The complaining Party shall deliver the request for the establishment of a panel to the Party complained against. The request shall contain the reason for the request, the identification of the specific measures, and a brief summary of the legal basis of the complaint sufficient to present the problem clearly.

3.     A copy of the request shall be communicated to the other Parties to this Agreement so that they may determine whether to participate in the dispute.
4.     Unless otherwise agreed by the disputing Parties, the panel shall be selected and perform its functions in a manner consistent with the provisions of this Chapter and the Model Rules of Procedure.

Article 12.7
Third Party Participation

    A Party which is not a party to the dispute shall be entitled, on delivery of a written notice to the disputing Parties, to make written submissions to the panel, receive written submissions including annexes of the disputing Parties, attend hearings and make oral statements.


Article 12.8
Panel Selection

1.     The panel shall comprise three members. The date of establishment of the panel shall be the date on which the chair is appointed.
2.     Each disputing Party shall, within 20 days following the date of receipt of the request for the establishment of the panel by the Party complained against, appoint a panelist, who may be a national of that Party, propose up to four candidates to serve as the chair of the panel, and notify the other disputing Party in writing of the name of the appointed panelist and its proposed candidates to serve as the chair, including their relevant background information.


3.     Within ten days following the date of the receipt of the request for the establishment of the panel by the Party complained against, the disputing Parties shall endeavour to agree on and appoint the chair from among the candidates proposed by both Parties.
4.     If any of the three members have not been designated or appointed within 30 days following the date of the receipt of the request for the establishment of the panel by the Party complained against, the designations shall be made at the request of any disputing Party by the Director- General of the WTO, after having consulted with the disputing Parties. The designation should be made within 30 days following the date of the receipt of that request.
5.     If an appointed panelist withdraws, is removed, or becomes unable to serve, a replacement shall be appointed in the following manner:
(a)    in the case of a panelist appointed by a Party, that Party shall designate a new panelist within 15 days, failing which the replacement shall be appointed in accordance with paragraph 4; and

(b)    in the case of the chair of the panel, the Parties shall agree on the appointment of a replacement within 30 days, failing which the replacement shall be appointed in accordance with paragraph 4.
6.     Any time period applicable to the proceedings shall be suspended for a period beginning on the date the panelist or chair withdraws, is removed, or becomes unable to serve and ending on the date the replacement is appointed.
7.     If the Director-General of the WTO is unable to make the designations as set forth in this Chapter or is a national of a disputing Party, the designations shall be made by any Deputy Director-General of the WTO


Article 12.9
Qualifications of Panelists

1.     Panelists shall:
(a)    have expertise or experience in law, international trade, other matters covered by this Agreement, or in the resolution of disputes arising under international trade agreements;

(b)    be chosen strictly on the basis of objectivity, impartiality, reliability, and sound judgment;
(c)    be independent of and not be affiliated with or take instructions from, any Party; and

(d)    comply with the standards of conduct established by the Model Rules of Procedure.
2.     If a disputing Party has justifiable doubts as to a panelist's compliance with the standards of conduct established in the Model Rules of Procedure, it may propose to the other disputing Party the removal of that panelist. If the other disputing Party does not agree, or the panelist does not withdraw, the decision shall be made by the Director-General of the WTO.



Article 12.10
Role of the Panel

1.     The panel shall make an objective assessment of the matter under its consideration, in light of the relevant provisions of this Agreement interpreted in accordance with rules of interpretation of public international law and in light of the submissions and arguments of the disputing Parties as well as other information received during the proceedings, and formulate the necessary findings for settling the dispute in accordance with the request for the establishment of the panel and its terms of reference.
2.     Unless otherwise agreed by the disputing Parties, within 20 days following the date of the receipt of the request for the establishment of the panel, its terms of reference shall be:
    “To examine, in light of the relevant provisions of this Agreement, the matter referred to it in the panel request and to make findings, determinations and recommendations on the matters referred to in paragraph 3 of Article 12.13 (Report of the Panel).”
3.     The decisions of the panel, including the adoption of the report, shall normally be taken by consensus. If the panel is not able to reach consensus, it may adopt its decisions by majority. No panel may disclose which panelists are associated with majority or minority opinions.


4.     The reports, as well as any other decision of the panel, shall be communicated to the Parties. The reports shall be made public, unless the disputing Parties agree otherwise.

Article 12.11
Model Rules of Procedure

1.     The procedure before the panel shall be conducted in accordance with the Model Rules of Procedure, unless otherwise provided for in this Agreement. The disputing Parties may agree on different rules to be applied by the panel.
2.     Within six months following the date of entry into force of this Agreement, the Joint Committee shall approve the Model Rules of Procedure, which shall ensure at least the fulfilment of the following:
(a)    each disputing Party shall have the right to at least one hearing before the panel, as well as the opportunity to provide initial and rebuttal written submissions;
(b)    the hearings before the panel will be open to the public unless otherwise agreed by the disputing Parties;
(c)    the protection of information designated as confidential by any of the Parties;
(d)    the hearings shall be held in Washington DC, unless otherwise agreed by the disputing Parties;

(e)    in presenting oral arguments the disputing Parties have the right to use either their own language or English. Written submissions must be submitted in Spanish with an English translation or in English with a Spanish translation;
(f)    at the request of a disputing Party, or on its own initiative, the panel may seek information and technical advice from experts it deems appropriate;
(g)    each disputing Party's individual costs, including costs for the translation of the written submissions, the disputing Party´s administration costs and other costs related to the preparation and the carrying out of the proceedings, shall be borne by each disputing Party; and
(h)    costs for the panelists and the administrative costs for the oral hearings, including interpretation, shall be borne by the disputing Parties in equal parts. However, the panel may decide that the costs be distributed differently, taking into account, inter alia, the particulars of the case and other circumstances that may be deemed relevant.

Article 12.12
Consolidation of Proceedings

    Where more than one Party requests the establishment of a panel relating to the same matter or measure, and whenever feasible, a single panel should be established to examine complaints relating to the same matter.

Article 12.13
Report of the Panel

1.     Unless the disputing Parties agree otherwise, the panel shall submit an initial report within 90 days, or 50 days in the event of urgent matters, following the date of its establishment.
2.     A disputing Party may submit written comments to the panel on its initial report within 14 days following its presentation. The panel shall present to the disputing Parties a final report within 30 days following the presentation of the initial report.

3.     The reports shall contain:
(a)    the findings of fact and law together with the reasons therefor, including the determination as to whether a disputing Party has not conformed with its obligations under this Agreement or any other determination requested in the terms of reference;
(b)    its recommendations for the resolution of the dispute and the implementation of the final report;
(c)    if requested, the findings about the level of adverse trade effects caused to the complaining Party by the Party complained against's failure to conform with the obligations of this Agreement; and

(d)    if requested, a reasonable period to comply with the final report.


Article 12.14
Request for Clarification of the Report

1.     Within ten days following the presentation of the final report, a disputing Party may submit a written request to the panel for clarification of any determination or recommendation in the report that the Party considers ambiguous. The panel shall respond to the request within ten days following the date of its receipt.
2.     The submission of a request pursuant to paragraph 1 shall not affect the time periods referred to in Article 12.16 (Implementation of the Final Report and Compensation) and Article 12.17 (Non-Implementation and Suspension of Benefits), unless the panel decides otherwise.

Article 12.15
Suspension and Termination of Procedure

1.     The disputing Parties may agree to suspend the work of the panel at any time for a period not exceeding 12 months following the date of such agreement. If the work of the panel has been suspended for more than 12 months, the authority of the panel to consider the dispute shall lapse, unless the disputing Parties agree otherwise.
2.     If the authority of the panel lapses and the disputing Parties have not reached an agreement on the settlement of the dispute, nothing in this provision shall prevent a Party from introducing a new complaint regarding the same matter.
3.     The disputing Parties may agree to terminate the proceedings before a panel at any time by jointly notifying the chairperson of the panel.

4.     A complaining Party may withdraw its complaint at any time before the final report has been issued. Such withdrawal is without prejudice to its right to introduce a new complaint regarding the same issue at a later point in time.
5.     A panel may, at any stage of the proceedings prior to release of the final report, propose that the disputing Parties seek to settle the dispute amicably.


Article 12.16
Implementation of the Final Report and Compensation

1.     The rulings of the panel on the matters referred to in subparagraphs 3 (a) and (d) of Article 12.13 (Report of the Panel) shall be final and binding for the disputing Parties.
2.     The Party complained against shall within 30 days following the issuance of the final report notify the other Party when and how it will comply with the ruling. The Party complained against shall comply with the ruling immediately or, if impracticable, within a reasonable period of time, unless the panel report sets a period of time for the implementation of the ruling pursuant to subparagraph 3 (d) of Article 12.13 (Report of the Panel) or the disputing Parties agree on a different period of time. The Party complained against shall take into account any recommendation of the panel for the resolution of the dispute and the implementation of the ruling.

3.     The Party complained against may also notify the complaining Party within 30 days following the issuance of the final report that it considers it impracticable to comply with the ruling and offer compensation. If the complaining Party considers the proposed compensation to be unacceptable or not sufficiently detailed to asses properly, it may request consultation with the aim of reaching an agreement on compensation. If there is no agreement on compensation within 30 days following the date of the receipt of the request, the Party complained against must comply with the ruling of the original panel pursuant to paragraph 2.


Article 12.17
Non-Implementation and Suspension of Benefits

1.     If the Party complained against fails to comply:

(a)    with the ruling in the final report within the time period defined in accordance with paragraph 2 of Article 12.16 (Implementation of the Final Report and Compensation); or
(b)    with an agreement on compensation pursuant to paragraph 3 of Article 12.16 (Implementation of the Final Report and Compensation) within the time period agreed by the disputing Parties, the complaining Party may suspend benefits granted under this Agreement equivalent to those affected by the measure that the panel has found to violate this Agreement, taking into account findings about the level of adverse trade effects pursuant to subparagraph 3 (c) of Article 12.13 (Report of the Panel).


2.     In considering which benefits to suspend pursuant to paragraph 1, the complaining Party should first seek to suspend the application of benefits in the same sector or sectors affected by the measure that the panel has found to be inconsistent with the obligations of this Agreement. If the complaining Party considers that it is not practicable or effective to suspend benefits in the same sector or sectors, it may suspend benefits in other sectors.

3.     The suspension of benefits shall be temporary and shall only be applied by the complaining Party until the measure found to violate this Agreement has been brought into conformity with the rulings of the panel or until the disputing Parties have otherwise settled the dispute.
4.     The complaining Party shall notify the Party complained against of the benefits which it intends to suspend, the grounds for such suspension and when suspension will commence no later than 30 days before the date on which the suspension is due to take effect. Within 15 days following the date of that notification, the Party complained against may request the original panel to rule on any disagreement regarding the notified suspension, including whether the suspension of benefits is justified and whether the benefits which the complaining party intends to suspend are excessive. The ruling of the panel shall be given within 45 days following the date of that request and shall be final and binding. Benefits shall not be suspended until the panel has issued its ruling.

5.     In case of disagreement as to whether the Party complained against has complied with the report within the time periods set out in paragraph 2 of Article 12.16 (Implementation of the Report and Compensation), either disputing Party may refer the dispute to the original panel. The report of the panel shall normally be rendered within 45 days following the date of the request and shall be final and binding. Benefits shall not be suspended until the panel has issued its ruling.

6.     At the request of a disputing Party, the original panel shall determine the conformity with the rulings of the panel in this Chapter of any implementing measures adopted after the suspension of benefits by the complaining Party and whether the suspension of benefits should be terminated or modified. The ruling of the panel in this case shall be given within 30 days following the date of that request.
7.     A panel under this Article shall, whenever possible, be composed by members of the original panel. If a panelist dies, withdraws, is removed or is otherwise unavailable, that panelist shall be replaced by a panelist appointed pursuant to paragraph 5 of Article 12.8 (Panel Selection).


CHAPTER 13
FINAL PROVISIONS

Article 13.1
Annexes, Appendices and Footnotes

    The Annexes, Appendices and footnotes to this Agreement constitute an integral part of this Agreement.

Article 13.2
Entry into Force

1.     This Agreement is subject to ratification, acceptance or approval in accordance with the respective legal and constitutional requirements of the Parties. The instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depositary.
2.     This Agreement shall enter into force on 1 June 2011, provided that Peru and at least one EFTA State have deposited their instruments of ratification, acceptance or approval with, or notified provisional application to the Depositary at least two months prior to that date.
3.     In case the Agreement does not enter into force on 1 June 2011, it shall enter into force on the first day of the third month following the latter date on which Peru and at least one EFTA State have deposited their instruments of ratification, acceptance or approval with, or notified provisional application to the Depositary.
4.     If an EFTA State deposits its instrument of ratification, acceptance or approval after this Agreement has entered into force, the Agreement shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of its instrument.
5.     Where Peru has ratified this Agreement, an EFTA State may, if its legal and constitutional requirements so permit, apply this Agreement provisionally pending ratification, acceptance or approval by that State. Provisional application of this Agreement shall be notified to the Depositary, and shall apply from the first day of the third month following the notification.
6.     If the Agreement is not ratified, accepted or approved by a Party, and it had been provisionally applied by that Party, paragraph 1 of Article 13.5 (Withdrawal) shall apply mutatis mutandis. Provisional application shall continue for a period of six months following the date of the receipt of the Party's notification by the Depositary regarding the non-ratification, non-acceptance or non- approval of the Agreement.

Article 13.3
Amendments

1.     Any Party may submit proposals for amendments to this Agreement to the Joint Committee for consideration and approval.
2.     Without prejudice to subparagraph 3 (b) of Article 11.1 (Joint Committee), amendments to this Agreement shall, after approval by the Joint Committee, be submitted to the Parties for ratification, acceptance or approval in accordance with their respective legal and constitutional requirements.

3.     Amendments shall enter into force on the first day of the third month following the deposit of the last instrument of ratification, acceptance or approval, unless the Parties agree otherwise.
4.     The Parties may agree that an amendment shall enter into force for those Parties that have fulfilled their internal legal requirements, provided that Peru and at least one EFTA State are among those Parties. A Party may apply, subject to its internal legal requirements and upon notification to the Depositary, the amendment provisionally, pending its ratification, acceptance or approval.

5.     The text of the amendments and the instruments or ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Depositary.

Article 13.4
Accession

1.     Any State becoming a member of European Free Trade Association (EFTA), may accede to this Agreement, provided that the Joint Committee decides to approve its accession, on such terms and conditions as may be agreed between that State and the Parties.
2.     In relation to an acceding State, this Agreement shall enter into force on the first day of the third month following the last deposit of the instrument of approval of the Parties and of the instrument of accession of the acceding State.

Article 13.5
Withdrawal

1.     Any Party may withdraw from this Agreement after it provides written notification to the other Parties. Such withdrawal shall be effective six months after the date on which the notification is received by the Depositary, except otherwise agreed by the Parties.
2.     If Peru withdraws, this Agreement shall expire when the withdrawal becomes effective.
3.     In case any EFTA State withdraws from the Convention establishing the European Free Trade Association, it shall withdraw at the same time from this Agreement in accordance with paragraph 1.

Article 13.6
Relation to the Complementary Agreements

1.     This Agreement shall not enter into force or be applied provisionally between Peru and an EFTA State unless the complementary Agreement on Agriculture between Peru and that EFTA State referred to in Article 1.1 (Establishment of a Free Trade Area) enters into force or is applied provisionally simultaneously. It shall remain in force as long as the complimentary agreement remains in force between those Parties.
2.     If Peru or an individual EFTA State withdraws from the complementary Agreement on Agriculture between Peru and that EFTA State, it is understood that it is also withdrawing from this Agreement. Both withdrawals shall become effective on the date the first withdrawal becomes effective pursuant to Article 13.5 (Withdrawal).

Article 13.7
Authentic Texts

1.     Except as provided in paragraph 2, the English and Spanish texts of this Agreement are equally valid and authentic. In case of divergence, the English version shall prevail.
2.     The following texts are only valid and authentic in English or Spanish respectively:
(a)    in English:
    (i)    Table in Annex II (Excluded Products);
    (ii)    Appendix 1 to Annex III (Processed Agricultural Products); and
    (iii)    Tables 1 and 2 in Annex IV (Fish and Other Marine Products).
(b)    in Spanish:
    (i)    Appendixes 2 and 3 to Annex III (Processed Agricultural Products);
    (ii)    Table 3 in Annex IV (Fish and Other Marine Products); and
    (iii)    Table in Annex VIII (Industrial Goods).

Article 13.8
Depositary

    The Government of Norway shall act as Depositary.

IN WITNESS WHEREOF
, the undersigned, being duly authorised by their respective Governments have signed this Agreement.

Signed by the EFTA States at Reykjavik, this 24 day of June 2010, and by Peru at Lima, this 14 July 2010, in one original text in the English and the Spanish languages, which shall be deposited with the Government of Norway (Depositary). The Depositary shall transmit certified copies to the Parties.

For Iceland               For the Republic of Peru
________________     _______________________
For the Principality of Liechtenstein
________________
For the Kingdom of Norway
________________
For the Swiss Confederation
________________
Fylgiskjal II.


Landbúnaðarsamningur
milli Íslands og Lýðveldisins Perús.


1. gr.
Gildissvið og umfang.

    Viðbótarsamningur þessi um viðskipti með grunnlandbúnaðarafurðir (hér á eftir nefndur „þessi samningur“) milli Íslands og Lýðveldisins Perús (hér á eftir nefnt „Perú“), sem hvort um sig eru nefnd „samningsaðili“, er gerður með vísan til fríverslunarsamnings Lýðveldisins Perús og EFTA- ríkjanna (hér á eftir nefndur „fríverslunarsamningurinn“) sem er undirritaður samtímis, 24. júní 2010, og einkum í samræmi við grein 1.1 (Stofnun fríverslunarsvæðis) í fríverslunarsamningnum.



2. gr.
Almennar reglur.

    Þessi samningur tekur til ráðstafana sem samningsaðilarnir samþykkja eða viðhalda og varða eftirfarandi landbúnaðarafurðir:
a)    landbúnaðarafurðir sem heyra undir 1. til 24. kafla í samræmdu vörulýsingar- og vörunúmeraskránni (hér á eftir nefnd „samræmda tollskráin“ (ST)) og ekki er getið í III. viðauka (Unnar landbúnaðarvörur) og IV. viðauka (Fiskur og aðrar sjávarafurðir) við fríverslunarsamninginn og

b)    afurðir sem heyra undir II. viðauka (Framleiðsluvörur sem eru undanskildar) við fríverslunarsamninginn.

3. gr.
Tollaívilnanir.

    Perú skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar á Íslandi, eins og tilgreint er í I. viðauka (Ívilnanir sem Íslandi eru veittar af hálfu Perús). Ísland skal veita tollaívilnanir fyrir landbúnaðarafurðir, sem eru upprunnar í Perú, eins og tilgreint er í II. viðauka (Ívilnanir sem Perú eru veittar af hálfu Íslands).

4. gr.
Upprunareglur og reglur um tollmeðferð.

1.     Ákvæðin um upprunareglur og samvinnu stjórnvalda, sem sett eru fram í V. viðauka við fríverslunarsamninginn (Upprunareglur og samvinna stjórnvalda), gilda um þennan samning, með þeirri undantekningu sem kveðið er á um í 2. mgr. Litið skal svo á að allar tilvísanir til „EFTA-ríkja“ í þeim viðauka eigi við Ísland.
2.     Í samningi þessum gilda ákvæði 3. gr. (Uppsöfnun uppruna) V. viðauka við fríverslunarsamninginn (Upprunareglur og samvinna stjórnvalda) ekki um framleiðsluvörur sem falla undir þennan samning og eru fluttar út frá Íslandi til annars EFTA-ríkis eða frá öðru EFTA- ríki til Íslands.


5. gr.
Ákvæði fríverslunarsamningsins.

    Eftirfarandi ákvæði fríverslunarsamningsins gilda, að breyttu breytanda, um þennan samning, nema kveðið sé á um annað í þessum samningi: Ákvæði greina 1.1 (Stofnun fríverslunarsvæðis), 1.2 (Markmið), 1.3 (Svalbarði), 1.4 (Tengsl við aðra alþjóðasamninga), 1.6 (Ríkisstjórnir, svæðisbundin og staðbundin stjórnvöld), 1.7 (Skattamál), 1.9 (Almennar skilgreiningar), 2.2. (Skilgreiningar), 2.3 (Upprunareglur og gagnkvæm aðstoð í tollamálum), 2.4 (Greitt fyrir viðskiptum), 2.8 (Tollar, skattar eða önnur gjöld lögð á útflutning), 2.9 (Takmarkanir á inn- og útflutningi), 2.10 (Umsýsluþóknun og formsatriði), 2.11 (Innlend meðferð), 2.12 (Ríkisrekin viðskiptafyrirtæki), 2.13 (Ráðstafanir á sviði hollustuhátta og heilbrigðis dýra og plantna), 2.14 (Tæknilegar reglur), 2.15 (Styrkir og jöfnunarráðstafanir), 2.16 (Undirboð), 2.17 (Víðtækar verndarráðstafanir), 2.18 (Tvíhliða verndarráðstafanir), 2.19 (Almennar undantekningar), 2.20 (Undantekningar af öryggisástæðum), 8.3 (Samstarf), 13.1 (Viðaukar, viðbætar og neðanmálsgreinar), 13.3 (Breytingar), 13.5 (Úrsögn) og 9. kafla (Gagnsæi) og 12. kafla (Lausn deilumála).

6. gr.
Tvíhliða nefnd.

1.     Hér með er komið á fót tvíhliða nefnd um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Hún skal koma saman að beiðni annars samningsaðilans. Til þess að fjármunir nýtist sem best skulu samningsaðilarnir gera sér far um, að því marki sem unnt er, að nota samskiptatækni á borð við rafræn samskipti, myndfundabúnað eða símafundi og koma saman hvenær sem nauðsyn krefur, helst í tengslum við fundi hinnar sameiginlegu nefndar fríverslunarsamningsins.

2.     Tvíhliða nefndin skal:
a)    hafa yfirumsjón með framkvæmd og umsýslu skuldbindinga samkvæmt þessum samningi,
b)    leggja mat á viðskipti með landbúnaðarvörur samkvæmt þessum samningi og áhrif hans á landbúnaðargeira samningsaðilanna,
c)    vinna áfram að því að auka frelsi í viðskiptum með landbúnaðarafurðir innan ramma landbúnaðarstefnu hvors samningsaðila um sig,

d)    leitast við að leysa deilumál sem upp kunna að koma við túlkun eða beitingu þessa samnings og

e)    taka til umfjöllunar hvert það mál annað sem gæti haft áhrif á framkvæmd þessa samnings.

7. gr.
Aukið frelsi í viðskiptum.

    Samningsaðilar skuldbinda sig til þess að vinna áfram að því að auka frelsi í viðskiptum sínum með landbúnaðarafurðir, að teknu tilliti til fyrirkomulags viðskipta sín á milli með landbúnaðarafurðir, þess hve slíkar afurðir eru viðkvæmar og til þróunar í landbúnaðarstefnu hvors aðila um sig. Samningsaðilarnir skulu, að beiðni hvors aðilans sem er, hafa samráð í þeim tilgangi að auka frelsi í viðskiptum sínum með landbúnaðarafurðir, þ.m.t. úrbætur á markaðsaðgangi með því að lækka eða afnema tolla á landbúnaðarvörum og með því að útvíkka vörusvið sem þessi samningur tekur til.

8. gr.
Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnað.

    Samningsaðilar árétta réttindi sín og skyldur samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnað.

9. gr.
Útflutningsstyrkir í landbúnaði.

1.     Þrátt fyrir ákvæði 8. gr. skulu samningsaðilarnir ekki samþykkja, viðhalda, innleiða eða endurinnleiða útflutningsstyrki, eins og skilgreint er í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnað, í viðskiptum með vörur sem njóta tollaívilnana í samræmi við þennan samning.
2.     Ef samningsaðili samþykkir, viðheldur, innleiðir eða endurinnleiðir útflutningsstyrki vegna framleiðsluvöru, sem nýtur tollaívilnana í samræmi við ákvæði 3. gr., er hinum samningsaðilanum heimilt að hækka tolla á slíkan innflutning allt að þeim tolli sem gildir í bestukjarameðferð á þeim tíma. Sá samningsaðili sem hækkar tollinn skal tilkynna það hinum samningsaðilanum innan 30 daga.

10. gr.
Inngripsverðkerfi.

    Perú er heimilt að viðhalda inngripsverðkerfi sínu vegna landbúnaðarafurða, eins og fram kemur í III. viðauka (Inngripsverðkerfi Perús).

11. gr.
Gildistaka og tengsl milli þessa samnings og fríverslunarsamningsins.

1.     Samningur þessi er með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki í samræmi við stjórnskipuleg skilyrði hvors samningsaðila um sig.
2.     Samningur þessi öðlast gildi þann dag þegar fríverslunarsamningur milli Íslands og Perús öðlast gildi. Samningur þessi gildir svo lengi sem samningsaðilarnir eru aðilar að fríverslunarsamningnum.

3.     Segi Ísland eða Perú fríverslunarsamningnum upp ber að skilja það svo að hlutaðeigandi ríki segi einnig upp þessum samningi. Báðar uppsagnirnar taka gildi á þeim degi þegar fyrri uppsögnin tekur gildi samkvæmt grein 13.5 (Afturköllun) í fríverslunarsamningnum.

12. gr.
Gildir textar.

1.     Enskur og spænskur texti þessa samnings eru jafngildir og fullgildir, nema að því leyti sem kveðið er á um í 2. mgr. Ef ágreiningur rís skal enski textinn ráða.
2.     Eftirfarandi textar eru aðeins gildir og áreiðanlegir á ensku annars vegar og spænsku hins vegar:
a)    á ensku: II. viðauki (Ívilnanir sem Perú eru veittar af hálfu Íslands) og
b)    á spænsku:
    i.    Tafla við I. viðauka (Ívilnanir sem Íslandi eru veittar af hálfu Perús) og
    ii.    III. viðauki (Inngripsverðkerfi Perús).

ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð, undirritað samning þennan.

Gjört í Reykjavík 24. júní 2010 í tveimur frumritum á ensku og spænsku.

Þessir frumtextar eru undirritaðir í Líma 14. júlí 2010.
_______________      ________________________
Fyrir hönd Íslands     Fyrir hönd Lýðveldisins Perús

Agreement on Agriculture
Between Iceland and the Republic of Peru


Article 1
Scope and Coverage

    This complementary Agreement on trade in basic agricultural products (hereinafter referred to as “this Agreement”) between Iceland and the Republic of Peru (hereinafter referred to as “Peru”), each referred to as a “Party”, is concluded further to the Free Trade Agreement between the Republic of Peru and the EFTA States (hereinafter referred to as “the Free Trade Agreement”), which is signed simultaneously on 24 June 2010, and in particular pursuant to Article 1.1 of the Free Trade Agreement (Establishment of a Free Trade Area) of the Free Trade Agreement.

Article 2
General Rules

    This Agreement applies to the measures adopted or maintained by the Parties related to the following agricultural products:
(a)    agricultural products classified under Chapters 1 to 24 of the Harmonized Commodity Description and Coding System (hereinafter referred to as “the HS”), and not included in Annex III (Processed Agricultural Products) of the Free Trade Agreement or Annex IV (Fish and Other Marine Products) of the Free Trade Agreement; and
(b)    products covered by Annex II (Excluded Products) of the Free Trade Agreement.


Article 3
Tariff Concessions

    Peru shall grant tariff concessions to agricultural products originating in Iceland as specified in Annex I (Peruvian Concessions to Iceland). Iceland shall grant tariff concessions to agricultural products originating in Peru as specified in Annex II (Icelandic Concessions to Peru).


Article 4
Rules of Origin and Customs Procedures

1.     The provisions on rules of origin and administrative co-operation set out in Annex V of the Free Trade Agreement (Rules of Origin and Administrative Co-operation) shall apply to this Agreement, except as provided for in paragraph 2. Any references to “EFTA States” in that Annex shall be taken to refer to Iceland.
2.     For the purposes of this Agreement, Article 3 (Accumulation of Origin) of Annex V of the Free Trade Agreement (Rules of Origin and Administrative Co-operation) shall not apply to products covered by this Agreement, which are exported from Iceland to another EFTA State or from another EFTA State to Iceland.

Article 5
Provisions of the Free Trade Agreement

    Except as otherwise provided for in this Agreement, the following provisions of the Free Trade Agreement shall apply, mutatis mutandis, to this Agreement: Articles 1.1 (Establishment of a Free Trade Area), 1.2 (Objectives), 1.3 (Svalbard), 1.4 (Relation to Other International Agreements), 1.6 (Central, Regional and Local Government), 1.7 (Taxation), 1.9 (Definitions of General Application), 2.2 (Definitions), 2.3 (Rules of Origin and Mutual Assistance in Customs Matters), 2.4 (Trade Facilitation), 2.8 (Duties, Taxes or Other Charges on Exports), 2.9 (Import and Export Restrictions), 2.10 (Administrative Fees and Formalities), 2.11 (National Treatment), 2.12 (State Trading Enterprises), 2.13 (Sanitary and Phytosanitary Measures), 2.14 (Technical Regulations), 2.15 (Subsidies and Countervailing Measures), 2.16 (Anti-Dumping), 2.17 (Global Safeguard Measures), 2.18 (Bilateral Safeguard Measures), 2.19 (General Exceptions), 2.20 (Security Exceptions), 8.3 (Co-operation), 13.1 (Annexes, Appendices, and Footnotes), 13.3 (Amendments), 13.5 (Withdrawal) Chapters 9 (Transparency) and 12 (Dispute Settlement).

Article 6
Bilateral Committee

1.     A Bilateral Committee on trade in agricultural products is hereby established. It shall meet when requested by one of the Parties. In order to permit the efficient use of resources, the Parties shall, to the extent possible, endeavour to use technological means of communication, such as electronic communication, video or phone conferences, and meet whenever necessary, preferably taking advantage of meetings of the Joint Committee of the Free Trade Agreement.
2.     The Bilateral Committee shall:
(a)    supervise the implementation and administration of the commitments under this Agreement;
(b)    evaluate developments of trade in agricultural products under this Agreement and its impact on the agricultural sector of the Parties;
(c)    continue the efforts towards further liberalisation on trade in agricultural products, within the framework of the Parties' respective agricultural policies;
(d)    endeavour to resolve disputes that may arise regarding the interpretation or application of this Agreement; and
(e)    consider any other matter that may affect the operation of this Agreement.

Article 7
Further Liberalisation

    The Parties undertake to continue their efforts with a view to achieving further liberalisation of their agricultural trade taking account of the pattern of trade in agricultural products between them, the particular sensitivities of such products, and the development of agricultural policy on either side. At the request of either Party, the Parties shall consult to achieve further liberalisation of their agricultural trade, including through improvements in market access by reduction or elimination of customs duties on agricultural products and through extending the scope of products covered by this Agreement.

Article 8
WTO Agreement on Agriculture

    The Parties reaffirm their rights and obligations under the WTO Agreement on Agriculture.


Article 9
Agricultural Export Subsidies

1.     Notwithstanding Article 8, the Parties shall not adopt, maintain, introduce or re-introduce export subsidies, as defined in the WTO Agreement on Agriculture, on their trade of products subject to tariff concessions in accordance with this Agreement.

2.     If a Party adopts, maintains, introduces or re- introduces export subsidies on a product subject to tariff concessions in accordance with Article 3, the other Party may increase the rate of duty on such imports up to the applied most-favoured nation tariff in effect at that time. The Party that increases the rate of duty shall notify the other Party at the latest 30 days before the adoption of the measure.

Article 10
Price Band System

    Peru may maintain its Price Band System for agricultural products as set out in Annex III (Price Band System of Peru).

Article 11
Entry into Force and Relationship between this Agreement and the Free Trade Agreement

1.     This Agreement is subject to ratification, acceptance or approval in accordance with the respective legal and constitutional requirements of the Parties.
2.     This Agreement shall enter into force on the same date as the Free Trade Agreement enters into force between Iceland and Peru. This Agreement shall remain in force as long as the Parties to it remain Parties to the Free Trade Agreement.
3.     In case Iceland or Peru withdraws from the Free Trade Agreement, it shall be understood that it is also withdrawing from this Agreement. Both withdrawals shall become effective on the date the first withdrawal becomes effective pursuant to Article 13.5 (Withdrawal) of the Free Trade Agreement.

Article 12
Authentic Texts

1.     Except as provided in paragraph 2, the English and Spanish texts of this Agreement are equally valid and authentic. In case of divergence, the English version shall prevail.
2.     The following texts are only valid and authentic in English or Spanish respectively:
(a)    in English: Annex II (Icelandic Concessions to Peru); and
(b)    in Spanish:
    (i)    Table to Annex I (Peruvian Concessions to Iceland); and
    (ii)    Annex III (Price Band System of Peru).

IN WITNESS WHEREOF the undersigned, being duly authorised thereto, have signed this Agreement.

Done at Reykjavik, this 24 th day of June 2010, in two originals in the English and Spanish languages.

Those original texts are signed in Lima, the 14th of July 2010.
_______________      ________________________
For Iceland               For the Republic of Peru