Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 700. máls.

Þskj. 1219  —  700. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum nr. 145/1994, um bókhald,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 43. gr. laganna:
     a.      Orðin „námskeið og“ í 3. mgr. falla brott.
     b.      4. mgr. orðast svo:
                  Ráðherra skipar þriggja manna prófnefnd og heldur hún próf fyrir þá sem sækja um viðurkenningu sem bókarar. Prófnefndin er skipuð til fjögurra ára í senn. Í reglugerð sem ráðherra setur skal m.a. kveðið nánar á um skilyrði til próftöku, prófgreinar, framkvæmd prófa og lágmarksárangur til að standast þau. Kostnaður við prófin, þ.m.t. þóknun til prófnefndarmanna, greiðist með próftökugjaldi sem ráðherra ákveður. Við ákvörðun á fjárhæð þess skal við það miðað að það sé ekki hærra en kostnaður.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á námskeiðshaldi fyrir bókara til að mega kalla sig viðurkenndan bókara þar sem ráðherra hlutast aðeins til um að próf verði haldin reglulega en námskeiðin verði á vegum þeirra skóla sem vilja bjóða upp á slík námskeið.
    Um viðurkennda bókara er fjallað í 43. gr. laga nr. 145/1994. Þetta ákvæði um viðurkenningu bókara var tekið upp í lögin með lögum nr. 29/1997. Þar segir að ráðherra skuli hlutast til um að reglulega séu haldin námskeið og próf fyrir þá sem vilja fá viðurkenningu sem bókarar. Jafnframt er tekið fram að ráðherra geti, að fenginni umsögn prófnefndar, falið öðrum að annast umrædd námskeið og próf. Þriggja manna prófnefnd, sem skipuð er af ráðherra, hefur nú umsjón með námskeiðum og prófum. Ákvæði um tilhögun námskeiða, námsgreinar, kennslu o.fl. er að finna í reglugerð nr. 473/2001, um námskeið og próf fyrir viðurkennda bókara, með síðari breytingum.
    Fjármálaráðuneytið, sem þá fór með þennan málaflokk, og Viðskiptaháskóli Reykjavíkur (nú Háskóli Reykjavíkur) gerðu með sér samning um námskeið og próf fyrir bókara 22. september 1999 og hefur það verið fyrirkomulagið síðan.
    Mikil ásókn hefur verið í námskeið til viðurkenningar sem bókari hjá Háskólanum í Reykjavík og hefur þurft að vísa hluta umsækjenda frá. Námið er orðið nokkuð fastmótað og hefur verið í boði í rúm 10 ár. Eðlilegt er að þessi mál séu endurskoðuð og hafa fleiri skólar sýnt áhuga á því að bjóða upp á réttindanám fyrir bókara.
    Fjármálaráðuneytið óskaði eftir áliti prófnefndar viðurkenndra bókara á stöðu mála árið 2008 og var það álit meiri hluta prófnefndar að óheppilegt væri að hafa það í verkahring ráðuneytisins að sjá til þess að umrædd námskeið væru haldin og að ákvarða hvað skyldi kennt á slíkum námskeiðum. Að mati prófnefndarinnar ætti hlutverk ráðuneytisins einungis að vera að sjá til þess að haldin væru próf með reglulegu millibili fyrir þá sem óska eftir viðurkenningu sem bókari. Slíkt gæfi fleiri menntastofnunum tækifæri til að bjóða upp á námið sem mundi auka samkeppni til hagsbóta fyrir nemendur, m.a. þá sem eru búsettir utan Reykjavíkursvæðisins. Slík breyting kallar á breytingu á 43. gr. bókhaldslaga og breytingu á reglugerð nr. 473/2001, um námskeið og próf fyrir viðurkennda bókara, með síðari breytingum.
    Sú breyting sem er lögð til í frumvarpinu færir einnig þeim sem unnið hafa sem bókarar og telja sig ekki þurfa að fara á námskeið, en treysta sér til að fara beint í próf, möguleika til að öðlast viðurkenningu sem bókarar.
    Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins munu þeir sem óska eftir því að fá viðurkenningu sem bókarar þreyta til þess sérstakt próf en kostnaður við prófin er greiddur af þeim sem prófin taka með próftökugjaldi. Er því ekki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi í för með sér viðbótarútgjöld fyrir ríkissjóð.
    Þessi breyting á 43. gr. laga um bókhald var lögð fram í öðru stærra frumvarpi um breytingu á lögum um bókhald á 138. löggjafarþingi 2009–2010. Ekki komu neinar athugasemdir frá umsagnaraðilum varðandi þessa grein. Frumvarpið hlaut ekki afgreiðslu.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 145/1994, um bókhald, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að fellt verði út það ákvæði gildandi laga að ráðherra skuli hlutast til um námskeiðahald fyrir þá sem vilja öðlast viðurkenningu sem bókarar. Ráðherra skal eftir sem áður hlutast til um prófhaldið og skal kostnaður við það greiðast með próftökugjaldi sem ráðherra ákveður svo sem verið hefur. Háskólinn í Reykjavík hefur til þessa séð um námskeið og próf fyrir þá sem vilja öðlast viðurkenningu sem bókarar samkvæmt þjónustusamningi við ríkið en verði frumvarpið að lögum munu aðrir skólar geta boðið upp á slík námskeið.
    Ekki verður séð að lögfesting frumvarpsins hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.