Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 716. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1240  —  716. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 151/2010, um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu, lögum um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins og lögum um umboðsmann skuldara.

Flm.: Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir.



1. gr.

    1., 2. og 5. gr. laganna falla brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í frumvarpinu er lagt til að tilgreind ákvæði laga um vexti og verðtryggingu eins og þeim var breytt með lögum nr. 151/2010 falli brott. Umrædd breytingalög voru samþykkt í kjölfar dóma Hæstaréttar frá 16. júní og 16. september 2010 sem lýstu gengistryggingarákvæði í tilgreindum bílalánasamningum ógilt. Eftir seinni dóminn, þar sem tekið var á því álitaefni hvernig haga ætti uppgjöri milli aðila að slíkum lánssamningi, taldi stjórnarmeirihlutinn að tilefni væri til að samþykkja lög sem kváðu á um að endurútreikningi bílalána og fasteignalána einstaklinga yrði hraðað til samræmis við niðurstöðu Hæstaréttar.
    Eins og sagt er frá í áliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar (þskj. 630 á 139. löggjafarþingi) var við þinglega meðferð málsins lýst efasemdum um hvort efni breytingalaganna samræmdist umræddum dómsniðurstöðum hvað varðar þær lánategundir sem þeim var ætlað að taka til og þeirra aðferða við endurútreikning sem þar eru lagðar til grundvallar. Auk þess töldu margir þörf á að fá úr því skorið fyrir þar til bærum dómstóli hvort niðurstöður Hæstaréttar samræmdust neytendalöggjöfinni og alþjóðlegum skuldbindingum sem leiða mætti af evrópskum neytendarétti og mannréttindaákvæðum.
    Umboðsmaður skuldara er meðal þeirra sem vakið hefur máls á framangreindri réttaróvissu og er frumvarpið lagt fram í því ljósi. Þá hefur Hæstiréttur ekki skorið úr um hvort hægt sé að krefjast viðbótargreiðslna aftur í tímann á grundvelli endurútreiknings eða að heimilt sé að bæta endurútreiknuðum viðbótarvöxtum, sbr. 4. gr. laga nr. 38/2001, við höfuðstól lánanna.

Framkvæmd laga nr. 151/2010 í reynd.
    Síðustu vikur hafa lántakendum borist endurútreikningar sem fjármálafyrirtæki telja að lög nr. 151/2010 nái til. Ljóst er að staða margra neytenda hefur breyst til hins verra að endurútreikningi loknum og sú staða sem við blasir er í engu samhengi við þær skuldbindingar sem neytendur töldu sig upphaflega hafa tekist á hendur. Þannig jókst mánaðarleg greiðslubyrði láns upp á 29.900.000 kr. sem tekið var 1. júní 2006 um 128%, úr 128.031 kr. á mánuði í 301.121 kr. á mánuði. Slíkt getur ekki undir neinum kringumstæðum talist ásættanlegt. Eins má benda á að umrædd mánaðarleg afborgun að endurútreikningi loknum er mun hærri en afborganir voru af láninu stökkbreyttu fyrir endurútreikning en þá var lántakanda gert að greiða 245.077 kr. á mánuði af láninu. Þess ber að geta að lántakandinn hefur ekki nýtt sér nein skuldaúrræði sem lántakendum hafa boðist í kjölfar hrunsins haustið 2008 og hann alltaf greitt þær greiðslur sem fjármálafyrirtækið hefur krafið hann um vegna þessa tiltekna láns. Endurútreiknaður höfuðstóll er 45,2% hærri en sá upphaflegi og stendur nú í 43.416.697.
    Annað dæmi er um lán frá því í nóvember 2004 sem upphaflega var 26.000.000 kr. en endurútreiknaðir áfallnir vextir eru 30.000.000 kr. Höfuðstóll lánsins er því mun hærri eftir endurútreikning en sú fjárhæð sem tekin var upphaflega að láni þótt tæpar 15.000.000 kr. hafi verið greiddar af láninu og vextir af þeirri upphæð komi einnig til frádráttar. Lánið stendur í um 35.000.000 kr. eftir endurútreikning. Endurútreiknaður höfuðstóll er 35% hærri en upphaflegur höfuðstóll.
    Þriðja dæmið er 26.000.000 kr. lán sem tekið var í desember 2007. Upphafleg greiðsluáætlun gerði ráð fyrir 151.396 kr. mánaðarlegri greiðslubyrði. Að endurútreikningi loknum hefur höfuðstóllinn hækkað í 31.820.125 kr. og greiðslubyrðin hækkað í 212.066 kr. á mánuði. Höfuðstólshækkunin er 22,4% en greiðslubyrðin hækkar um 40%.
    Flutningsmenn telja að með hliðsjón af framangreindum dæmum sé ljóst að markmiðunum með setningu laga nr. 151/2010 verði ekki náð enda liggi fyrir að sambærileg mál fái hvorki sambærilega niðurstöðu né að á þeim sé tekið á samhæfðan hátt. Það var þó vilji löggjafans líkt og fram kemur í lögskýringargögnum frumvarpsins sem varð að lögum nr. 151/2010. Í kaflanum um markmið og helstu atriði frumvarpsins segir að í fyrsta lagi séu „sett ákvæði til bráðabirgða til að taka á tímabundnum úrlausnarefnum vegna óviss réttarástands á samhæfðan hátt.“ Þá segir í kaflanum um nauðsyn lagasetningar: „Dómar Hæstaréttar um gengistryggð lán hafa leitt í ljós verulega annmarka á framkvæmd laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, bæði að því er varðar skilning á efnisákvæðum laganna um heimild til verðtryggingar fjárskuldbindinga og þeim uppgjörsreglum sem við taka ef ólögmætir skilmálar hafa verið til staðar. Þó að dómar Hæstaréttar hafi létt af mestu óvissunni er engu síður hætt við að ágreiningur verði gerður um lögmæti fjölda samninga á víðtæku sviði skammtíma- og langtímafjármögnunar. Þá hafa vaknað spurningar um jafnræði meðal skuldara, einkum á neytendamarkaði. Meginmarkmið frumvarpsins er því að draga úr þessari óvissu. Til grundvallar eru lögð þau sanngirnisrök að sambærileg mál fái sambærilega niðurstöðu auk þess að tryggja réttaröryggi við uppgjör lána með óskuldbindandi gengisviðmiðun.“