Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 644. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1263  —  644. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um brottfall laga um stjórnlagaþing, nr. 90 25. júní 2010.

Frá 1. minni hluta allsherjarnefndar.



    Fyrsti minni hluti allsherjarnefndar er samþykkur því að lög nr. 90/2010, um stjórnlagaþing, verði felld brott, sér í lagi vegna þess að Hæstiréttur ógilti kosningu til stjórnlagaþings hinn 25. janúar 2011. Var úrskurður Hæstaréttar í raun hunsaður með þingsályktunartillögu um stofnun stjórnlagaráðs sem byggist á kosningu til stjórnlagaþings. Lagafrumvörp ganga lengra en þingsályktunartillögur sem eru í raun viljayfirlýsingar þingsins. Því er einkennilegt í frumvarpi þessu að ekki sé kveðið á um að stjórnlaganefnd skuli skila skýrslu sinni til stjórnlagaráðs. Er þess einungis getið í þingsályktunartillögu um stjórnlagaráð, en þar segir:
    „Alþingi ályktar að fela forseta Alþingis, að höfðu samráði við forsætisnefnd Alþingis, að skipa 25 manna stjórnlagaráð sem fái það verkefni að taka við og fjalla um skýrslu stjórnlaganefndar og gera tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/ 1944.“
    Að mati 1. minni hluta er þeirri vinnu sem stjórnlagaráð hefur innt af hendi því ekki gert nægjanlega hátt undir höfði.
    Í ákvæði til bráðabirgða kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er heimilt að ráða starfsfólk fyrir stjórnlagaráð án auglýsingar. 1. minni hluti gagnrýnir undanþágur í lögum frá þessum ákvæðum starfsmannalaga því að almenna reglan á ætíð að vera sú að auglýsa skuli öll störf hjá hinu opinbera. Mikill misbrestur hefur verið á því í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Alþingi, 4. apríl 2011.



Vigdís Hauksdóttir.